Bílastæði á Hlaðhömrum

Guðlaugur Hjörleifsson

Guðlaugur Hjörleifsson

Það virðist gæta nokkurs misskilnings um bílastæði hjá sumum bifreiðastjórum sem koma á Hlaðhamra í tengslum við heimsóknir í EIRHAMRA.
Það háttar þannig til í flestum tilfellum, að við úthlutun byggingarlóða er lóðarhafa gert að útbúa bifreiðastæði á sinni lóð. Þannig er gjarnan 1 – 2 bílastæði á lóð einbýlishúsa, enn fleiri við íbúðablokkir o.s.frv. Því er það, að þegar Eirhamrar voru byggðir var gert ráð fyrir bílastæðum meðfram húsinu innan lóðarmarka. Þegar byggingu var lokið voru þessi bílastæði merkt íbúum Eirhamra sem hafa bíla á sínum vegum. Þessir bílar hafa fengið íbúamerki með númeri sinnar íbúðar, sem skal vera sýnilegt í framrúðu bifreiðar.

Nú er það svo að bæjaryfirvöld, og væntanlega FAMOS, hafa ákveðið að félagsstarf eldri borgara skuli að mestu vera í Eirhömrum. Vel getur farið um starfsemina í Eirhömrum, en það sama verður ekki sagt um almenn bílastæði í götunni. Því er það, að þegar margir koma í félagsstarf á bílum, er lagt í merkt íbúastæði sem eru „laus“ þá stundina. Þe­g­­ar íbúi kemur aftur heim er eins víst að öll íbúastæði sem voru „laus“ hafi verið tekin fyrir aðkomubíla.

Það virðist eins og aðkomumenn geri sér ekki grein fyrir því að þótt almenn stæði norðan við Hlaðhamra séu öll upptekin, þá eru einnig almenn bílastæði austan við Eirhamra, auk þess að mörg almenn bílastæði eru norðan við leikskólann Hlaðhamra.

Að leggja í merkt bílastæði verður að teljast í besta falli ókurteisi, svo ekki sé kveðið sterkar að orði. Það er eins og aðkomumenn geri sér ekki grein fyrir því að þótt íbúar séu ekki komnir að fótum fram, þá eru þeir oftar en ekki að bera með sér vörur eftir innkaupaferðir og eiga ekki auðvelt með að bera t.d. vörur langar leiðir.

Aðkomubílstjórar ættu að sjá sóma sinn í því að virða íbúastæðin sem eru á lóð Eirhamra, meðfram gangstígunum.

Guðlaugur Hjörleifsson, íbúi í Eirhömrum.

Greinin birtist í Mosfellingi 17. desember 2015