Flokkun á plasti hefst 1. mars

plastmynd

plastmynd2Mosfellsbær mun frá og með 1. mars bjóða íbúum upp á aukna þjónustu varðandi flokkun á plasti frá heimilum til endurvinnslu.
Frá og með þeim degi geta íbúar sett hreint plast í lokuðum plastpoka í sorptunnuna (orkutunnuna) og SORPA flokkar það svo vélrænt frá öðrum úrgangi og kemur til endurvinnslu. Ekki er nauðsynlegt að setja hreina plastið í sérstaka poka en þeir þurfa að vera úr plasti.
Íbúar geta því t.d. notað innkaupapoka eða aðra plastpoka sem til falla á heimilum. Markmiðið er að auka endurvinnslu og draga úr urðun plasts og endurnýta þannig betur plastið sem hráefni.
„Mosfellsbær steig fyrstu skref til aukinnar endurvinnslu árið 2012 með því að bjóða upp á sérstaka endurvinnslutunnu fyrir pappírsúrgang, blátunnu, við hvert heimili í bænum,“ segir Tómas Gíslason umhverfisstjóri Mosfellsbæjar. „Það verkefni tókst vel og hefur magn pappírs sem urðað er minnkað verulega.“

Hvers vegna að flokka plast?
Áætlað er að á árinu 2017 hafi að jafnaði um 27 kg af óflokkuðu plasti frá hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu endað í hefðbundinni sorptunnu og farið á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. Eingöngu um 5 kg af plasti á íbúa skiluðu sér flokkað til endurvinnslu.
„Við þurfum að gera betur hvað plastið varðar og með nýjum vélrænum flokkunarbúnaði í móttöku- og flokkunarstöð SORPU verður einfalt að koma því til endurvinnslu. Þá er hagkvæmara fyrir sveitarfélagið, og þar með íbúana, að sem mest af plasti og pappír fari í endurvinnslu frekar en til urðunar,“ segir Tómas.

Aukin þjónusta við íbúa
Plastflokkun í plastpoka er samstarfsverkefni SORPU og fjögurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Mosfellsbæjar, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarnesbæjar. Verkefnið verður kynnt betur þegar nær dregur.