Af bæjarstjórnarmálum er þetta helst

Ásgeir Sveinsson

Útboð leikskóla í Helgafellshverfi
Eftir árstafir hefur loksins verið ákveðið að bjóða út byggingu leikskólans í Helgafelli. Það stóð til að gera það fyrir ári síðan en þá ákvað meirihlutinn að fresta því og setja á fót starfshóp. Bæjarfulltrúar D-lista lögðu ítrekað fram tillögu um að bjóða bygginguna út strax því annars myndi kostnaður hækka verulega. Niðurstaða starfshópsins var svo sú að bjóða út byggingu leikskólans og var þar lægsta boð um 30% yfir uppfærðri og hækkaðri kostnaðaráætlun og hefur því kostnaðurinn hækkað um hundruð milljóna króna. Inni í þeirri upphæð er þó ekki kostnaður við útboð á stoðveggjum á lóðinni sem var hluti af verkinu en meirihlutinn tók þá sérstöku ákvörðun að bjóða það sérstaklega út 2 vikum fyrir útboð á byggingu hússins.
Þessi niðurstaða er ekki góð fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.

Rekstur Hlégarðs

Jana Katrín Knútsdóttir

Starfsemi í Hlégarði er nú komin vel af stað eftir bæði heimsfaraldur og gagngerar endurbætur innanhúss undanfarin ár. Meirihlutinn ákvað í síðustu viku eftir margra mánaða tafir að stofnað yrði B hlutafélag í eigu Mosfellsbæjar um reksturinn. Búið var að ráða öflugan viðburðarstjóra sem mun sjá um að fjölbreytt menning muni blómstra í húsinu.
Það sem vekur furðu í málinu er að meirihlutinn ákvað að Mosfellsbær myndi sjá um vínveitingasölu í Hlégarði í stað þess að bjóða þann þátt út eins og gert er nánast undantekningarlaust með sambærilega starfsemi. Lýðheilsubærinn Mosfellsbær er þar með kominn í samkeppni við einkaaðila í veitingarekstri í bænum, þar með talið í sölu á áfengi.
Bæjarstjórinn er þannig orðinn ábyrgur ef eitthvað fer úrskeiðis varðandi vínveitingasölu á viðburðum í Hlégarði. Það verður athyglisvert að sjá hvað G&T eða bjór muni kosta á barnum. Ætli það verði happy hour? … svo tala oddvitar meirihlutans fallega um að styðja við atvinnulíf í Mosfellsbæ. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla. Fulltrúar D-lista lögðu fram tillögu um að útvista veitingarekstri til einkaðila en sú tillaga var felld.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fjárhags- og tekjuáætlun
Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar bentu fulltrúar D-lista ítrekað á að tekjuhlið áætlunarinnar væri vanáætluð og þá sérstaklega þegar kæmi að tekjum varðandi lóðasölu og byggingarréttargjöld.
Í nýrri uppfærðri tekjuspá til loka árs 2023 sem var birt nú um miðjan júní, kom svo á daginn að tekjur bæjarins verða mun hærri en reiknað var með, í samræmi við það sem bent hafði verið á. Það er auðvitað mjög jákvætt.
Það sem vakti mesta athygli er að tekjur af lóðasölu sem voru áætlaðar 500 milljónir verða a.m.k. 1.700 milljónir þannig að þar munar 1.200 milljónum. Þetta var nokkuð ljóst við gerð fjárhagsáætlunar en það má velta fyrir sér hvort ástæða þessara vanáætlana gæti verið sú að það hafi verið þægilegra fyrir meirihlutann að afsaka sögulegar skattahækkanir á húsnæði o.fl. með því að hafa tekjuáætlunina lága.
Áætlanir hjá Mosfellsbæ hafa staðist með ótrúlegri nákvæmni undanfarin ár en það virðist nú vera úr sögunni.

Helga Jóhannesdóttir

Svið fyrir viðburði í Álafosskvos
Á síðasta fundi bæjarráðs lögðu fulltrúar D-lista fram tillögu um að Handverkshúsið Ásgarður og Mosfellsbær tækju höndum saman um byggingu viðburðasviðs við áhorfendabrekku í Álafosskvos.
Tillagan gerir ráð fyrir að sviðið verði úr eins umhverfisvænum hráefnum og kostur er og yrði sviðið í anda verka Ásgarðsmanna sem hafa komið að ýmsum verkefnum í Mosfellsbæ og víðar undanfarin ár.
Með tilkomu sviðs í Álafosskvos gefst enn betra tækifæri fyrir fjölbreytta viðburði og menningu í Kvosinni.
Tillögunni var vísað til áframhaldandi vinnslu innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar og mun þá umhverfissvið Mosfellsbæjar væntanlega koma að málinu. Vonandi getur orðið af þessu samstarfi og að reist verði svið við Álafosskvos sem fyrst.

Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúar D-lista