Fjölbreyttari ferðamáti

Valdimar Birgisson

Nú þegar farið er að hrinda í framkvæmd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er eðlilegt að deilur um einstaka þætti hennar verði háværari.
Áætlað er að að framkvæmdin kosti 120 milljarða og því eðlilegt að sitt sýnist hverjum. Framkvæmdir hófust í raun 2019 með breikkun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ og Reykjanesbrautar í Hafnarfirði og er áætlað að þeim ljúki 2033 með lagningu Borgarlínu upp í Mosfellsbæ.
Í þessum sáttmála togast á tvö sjónarmið. Annars vegar áhersla á greiðari leið einkabílsins og hins vegar á aðrar samgöngubætur svo sem almenningssamgöngur og fjölgun hjóla- og göngustíga. Fjármagnið skiptist ca 50/50 á milli þessara tveggja áherslna. Greiðari samgöngur og fjölbreyttir ferðamátar.

Af hverju sáttmáli um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Er eitthvert vandamál til staðar? Jú, það eru í grunninn þrjú vandamál sem þarf að leysa. Í fyrsta lagi þá annar gatnakerfið ekki umferð á háannatíma þegar fólk er að fara í og úr vinnu eins og fólk úr Mosfellsbæ þekkir allt of vel. Í öðru lagi er almenningssamgöngukerfið það ófullkomið að það er ekki raunhæfur valkostur og í þriðja lagi eru hjólastígar annað hvort ekki til eða ekki nothæfir með góðu móti.

En af hverju ekki að nota allt fé í að bæta samgöngur fyrir bíla? Svarið við þessu er að það einfaldlega ekki hægt. Því er spáð að umferð ökutækja, að öllu óbreyttu, muni aukast um 40% á næstu 15 árum. Það gefur því auga leið að það mun ekki vera hægt að anna þeirri aukningu með fjölgun vega þannig að við verðum að beina hluta af umferð annað. Svo er það hreinlega krafa stórs hluta íbúa að boðið sé upp á valkost við einkabílinn.

Fulltrúar Viðreisnar í borgar- og bæjarstjórnum höfuðborgarsvæðisins styðja áform um fjölbreyttari ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu svo að val okkar um hvernig við kjósum að haga okkar ferðum verður meira.
Viðreisn styður líka lagningu Sundabrautar til þess að greiða fyrir umferð á svæðinu og létta á umferð í gegnum Mosfellsbæ.

Valdimar Birgisson