Friðun Leirvogs

Michele Rebora

Töluvert hefur verið fjallað um friðun Leiruvogs, m.a. á samfélagsmiðlum og hér í bæjarblaðinu, sérstaklega í kjölfar stækkunar friðlands við Varmárósa nú á dögum. Það er engin furða, enda um mikilvægt svæði að ræða út frá sjónarmiði náttúruverndar.
Sá hluti Leiruvogs sem fellur innan sveitarfélagamarka Mosfellsbæjar er í raun hluti af stærra heildarsvæði sem nefnist Blikastaðakró-Leiruvogur og liggur á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Svæðið afmarkast að vestan við Geldinganes og Gunnunes og nær inn voginn til austurs, þar sem Varmá og Leirvogsá renna til sjávar. Sjávarfitjar, grýttar þangfjörur og víðáttumiklar leirur einkenna svæðið og eru heimkynni fjölmargra smádýra- og fuglategunda. Náttúrufræðistofnun Íslands skilgreinir Blikastaðakró-Leiruvog sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði en mikið fuglalíf er á öllum árstímum og tvær tegundir ná alþjóðlegum verndarviðmiðum; margæs á fartíma og sendlingur að vetri.
Svæðið er jafnframt vinsælt til útivistar og hreyfingar og liggja meðal annars fjölfarnir göngu- og reiðhjólastígar svo og reiðleiðir meðfram ströndinni. Hlíðavöllur Golfklúbbs Mosfellsbæjar liggur svo meðfram stórum hluta svæðisins.
Í tengslum við afstaðna vinnu við stækkun friðlandsins við Varmárósa bendir Náttúrufræðistofnun Íslands á í sinni umsögn að stofnunin „telur Blikastaðakró – Leiruvogur vera mikilvægt alþjóðlegt fuglasvæði sem þörf er að vernda, en Varmárós er aðeins lítill hluti af því svæði. Til að tryggja vernd fugla, vistgerða votlendis, strandlendis og fjöruvistgerða, þarf friðlýsta svæðið að vera mun stærra.“

Reykjavíkurborg hefur samþykkt að undirbúa friðlýsingu þess hluta svæðisins sem tilheyrir borginni.
Á síðasta fundi umhverfisnefndar lagði ég fram tillögu um að Mosfellsbær myndi beita sér fyrir því að friðlýsingin næði yfir allt svæðið þvert á sveitarfélögin, enda vistkerfi ekki bundin sveitarfélagamörkum frekar en fuglar.
Umhverfisstofnun hefur nú beðið Mosfellsbæ um að taka þátt í vinnuhópi um málið og er undirritaður þar einn af þremur fulltrúum bæjarins, ásamt formanni umhverfisnefndar og umhverfisstjóra Mosfellsbæjar. Mikil samstaða er um friðlýsingaráformin innan umhverfisnefndar og það sama virðist vera upp á teningum í bæjarstjórninni, svo ástæða er til bjartsýni.
Vinir Mosfellsbæjar munu að minnsta kosti leggja sitt af mörkum til að þessu dýrmæta svæði verði tryggð viðeigandi vernd svo komandi kynslóðir, bæði dýra og manna, geti notið þess.

Michele Rebora
Aðalmaður Vina Mosfellsbæjar í umhverfisnefnd