Fimm leiðir í átt að vellíðan!

Berta Þórhalladóttir

Langt síðan síðast, Berta hér að skrifa. Það er frábært að sjá hvað Mosfellingar eru duglegir að hreyfa sig. Þar sem ég brenn fyrir því að miðla því hvað veitir okkur vellíðan þá langaði mig að deila með ykkur fimm leiðum sem eru byggðar á rannsóknum í átt að aukinni vellíðan.
Eflaust vita margir af þessum leiðum en það er hollt og gott að minna sig á!

1. Mynda tengsl
– Við höfum þörf fyrir að mynda tengsl við fólkið í kringum okkur. Hvort sem það er fjölskyldan, vinir, vinnufélagar eða nágrannar. Það getur aukið hamingjuna að bjóða góðan daginn og brosa til náungans.

2. Að hreyfa sig
– Öll hreyfing er af hinu góða, hvort sem það er göngutúr, að rækta garðinn, dansa eða mæta í ræktina. Með því að æfa með hóp af fólki eða vinum þá aukum við líkurnar á því að við hreyfum okkur oftar.

3. Að taka eftir
– Höldum áfram að vera forvitin, tökum eftir því hvernig umhverfið breytist þegar veturinn skellur á. Verum vakandi fyrir því hvað er að gerast í kringum okkur og hvernig okkur líður.

4. Að prófa nýja hluti og skora á okkur sjálf
– Prófum að fara nýja leið í vinnuna, skráum okkur á nýtt námskeið eða ef til vill breytum okkar hefðbundnum venjum eins og að setjast á nýjan stað við matarborðið. Það getur verið skemmtilegt að prófa nýja hluti og enn fremur getur það leitt til jákvæðra áhrifa á vellíðan okkar og sjálfstraust.

5. Gefum af okkur
– Að gefa af sér þarf ekki að kosta neitt. Í einföldustu mynd getur það verið að brosa til náungans, segja eitthvað fallegt við vini okkar, sýna þakklæti eða gefa af tíma okkar. Það getur jafnframt verið gott að muna eftir því að vera góður við sjálfan sig og hrósa sér af og til.

Rannsóknir sýna að lítilsháttar aukning á vellíðan getur hjálpað okkur að blómstra í lífinu og það að gefa þessum þáttum gaum getur styrkt okkur í þeirri vegferð.
Að lokum má ég til með að segja ykkur frá námskeiði sem ég mun leiða í World Class Mosfellsbæ, sem heitir Súperform! Þar munum við styrkja tengslabönd okkar með því að æfa saman í hóp, skorum á okkur með því að prófa nýja hluti og styrkjum sjálfstraust okkar.
Þetta er 6 vikna námskeið sem hefst þann 1. nóvember næstkomandi.
Æfingar fara fram á mánu-, miðviku- og föstudögum kl. 17:30. Föstudagstíminn mun fara fram í heitum sal og er í mýkri kantinum þar sem hann er tileinkaður sjálfsumhyggju.
Ef þetta er eitthvað sem heillar þig þá er hægt að skrá sig á námskeiðið hjá World Class.

Hvatningarkveðja,
Berta Þórhalladóttir