Fersk á flugvöllum

Heilsumolar_Gaua_15mars

Þessi pistill er skrifaður um borð í WW 903, WOW flugvél á leið frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur. Við erum sex að ferðast saman, löng helgi í Köben hjá frumburðinum og kærustu hans. Það var freistandi að taka tilboðinu frá WOW (rúmlega fullbókuð vél) um að framlengja dvölina um sólarhring og fá hótel­nótt og farmiða til Bandaríkjanna að auki fyrir, en við Vala kunnum ekki við að senda börnin ein heim… En einhver hefur tekið tilboðinu því sætið við hliðina á mér er tómt.

Mér finnst gaman að fljúga, dotta alltaf í bæði flugtaki og lendingu og næ yfirleitt að hvílast vel. Fæ oft góðar (að mínu mati) hugmyndir á flugi, les, skrifa og vinn mig í gegnum nokkrar suduko þrautir. Ég hef líka gaman af flugvöllum. Sérstaklega þegar ég er að ferðast með mínu fólki. Við tökum alltaf einhverjar keppnir, til dæmis að ganga hratt eða hlaupa meðfram þeim sem eru á rúlluböndunum sem eiga að flýta fyrir en gera það yfirleitt ekki af því að fólk stoppar nánast alltaf á þeim og stendur kyrrt þar til það er komið á enda bandsins. Mér finnst það alltaf jafn undarlegt.

Svo er gott að spila á spil á flugvöllum, Ólsen, Kana eða Þjóf, til dæmis. Það er líka mjög praktískt að labba á flugvöllum. Ná sér í góða hreyfingu í stað þess að sitja eins og klessa í marga klukkutíma. Einhvern tíma fékk ég þá mögnuðu hugmynd að selja flugvöllum þá hugmynd að vera með ketilbjöllur, dýnur og upphífingastangir í afmörkuðum æfingarýmum svo fólk gæti tekið æfingu á meðan það biði eftir fluginu sínu. Líklega hef ég fengið þessa hugmynd í flugi. Mér finnst hún enn góð og kasta henni hér með út í kosmósið fyrir einhvern að stökkva á og framkvæma.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 15. mars 2018