Félagsstarf eldri borgara í Brúarland
Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína sem og önnur félags- og tómsstundastörf.
Aukin þátttaka og fjölgun íbúa kallar á nýtt húsnæði
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri voru 1. janúar 2023 samtals 1.359. Félagsstarf eldri borgara í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og var fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ 1. janúar 2023 samtals 2.387. Þátttakendum í félagstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina. Ætla má að plássleysið muni aukast á allra næstu vikum, þegar fjölgun dagdvalarrýma að Eirhömrum sem var nýlega samþykkt tekur gildi. Framtíðaráform kveða svo á um fjölgun öryggisíbúða við Eirhamra en þar mun koma til með að að rísa jafnframt nauðsynleg stækkun (400m2 salur) ætluð félagsstarfinu. Tafir hafa hins vegar orðið á þeirri uppbyggingu og óvíst hvenær félagsstarfið fær þetta mikilvæga pláss fyrir starfsemi sína. Það er því nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir í millitíðinni.
Brúarland hentugt og vel staðsett húsnæði
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Það hefur sýnt sig að þangað sækir annar hópur en jafnan hefur gert að Eirhömrum. Það er mikilvægt að taka tillit til þess og koma til móts við þarfir og ákall notendanna. Brúarland er sögufrægt hús sem er í eigu Mosfellsbæjar og myndi henta vel fyrir þessa starfsemi. Húsið var gert upp fyrir stuttu síðan og þar standa nú yfir frekari lagfæringar og framkvæmdir sem taka brátt enda. Húsið hefur staðið ónotað eftir að kennslu Varmárskóla var þar hætt en ekki eru uppi áform um áframhaldandi notkun þess. Þess má geta að staðsetning Brúarlands ein og sér er afar heppileg. Húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skornum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Hugsanlega mætti einnig nýta húsnæðið að Brúarlandi í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi.
Jafnvel felast tækifæri í því að skoða möguleika þess að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega tómstundastarfsemi.
Í þessu samhengi er þó mikilvægt að tryggja að við þessa tilfærslu yrði ekki skerðing á þjónustu við þá einstaklinga sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra. Því þyrfti alltaf að koma til móts við þarfir þess hóps með hliðstæðri starfsemi að Eirhömrum. Jafnframt gæti sérhæft starf, eins og leirgerð og fleira, áfram verið í húsinu.
Húsnæðið sem félagsstarf eldri borgara er starfrækt í dag að Eirhömrum, leigir Mosfellsbær af Eir. Þannig mætti því spara kostnað með því að nýta ónotað húsnæði í eigu bæjarins undir starfsemina.
Látum verkin tala
Tillögu okkar fulltrúa D-lista var vísað til Velferðarsviðs Mosfellsbæjar til rýningar og skoðunar. Það er
okkar mat að ekki þurfi starfshópa eða margra mánaða vinnu við að skoða þessa tillögu. Þörfin er brýn og húsnæðið ónotað. Við vonumst til að þetta verði unnið hratt og vel og að við munum sjá blómlegt félagsstarf í Brúarlandi á næstunni.
Ásgeir Sveinsson oddviti D-lista og bæjarfulltrúi
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista