Nýtt kjörtímabil – nýjar áskoranir

Ásgeir Sveinsson

Nú er hafið nýtt kjörtímabil með nýjum meirihluta og við bæjarfulltrúar XD í Mosó hlökkum til að eiga gott samstarf í bæjarstjórn og við hið frábæra starfsfólk Mosfellsbæjar hér eftir sem hingað til.
Fyrir kosningarnar í maí sl. lögðum við fram góða og fjölbreytta kosningastefnu um þau mál sem við viljum leggja áherslu á til að gera Mosfellsbæ enn betri og mál sem bæta enn frekar gæði þjónustunnar við bæjarbúa.
Þótt stutt sé liðið frá kosningum og lítið búið af kjörtímabilinu höfum við lagt fram þrjú mál úr stefnuskrá okkar í bæjarráði sem vonandi fá jákvæða umfjöllun og afgreiðslu hjá meirihlutanum.

Lækkun fasteignagjalda fyrir árið 2023
Undanfarin ár hefur fasteignmat hækkað verulega í Moefellsbæ sem og á landinu öllu með tilheyrandi auknum útgjöldum fyrir fasteignaeigendur. Til þess að bregðast við þessum hækkunum höfum við fyrrverandi meirihluti Sjalfstæðisflokks og Vinstri Grænna í Mosfellsbæ lækkað fasteignagjöld á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Nýlega var gefið út nýtt fasteignamat og hefur það aldrei hækkað eins mikið á milli ára.
Við í XD Mosó viljum halda áfram að koma í veg fyrir þessar ósanngjörnu skattahækkanir og lögðum því fram tillögu í bæjarráði á fundi þann 9. júni að fasteignagjöld í Mosfellsbæ fyrir árið 2023 myndu ekki hækka umfram vístölu.
Tillögunni var vísað til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og munum við fylgja henni eftir í þeirri vinnu og leggja allt í sölurnar um að tillagan nái fram að ganga.

Opnun Fab Lab smiðju í Mosfellsbæ
Bæjarfulltrúar XD Mosó lögðu fram tillögu um að opnuð verði á árinu 2023 Fab Lab (Fabrication Laboratory) smiðja í Mosfellsbæ sem myndi nýtast öllum skólum bæjarins, bæði leik- og grunnskólum, auk þess sem leitað verði eftir samstarfi við FMos um verkefnið.
Fab Lab er smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab smiðjan gefur ungum sem öldnum, einstaklingum og fyrirtækjum, tækifæri til að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.

Samkvæmt lauslegri athugun kostar búnaður og tæki í nýja Fab Lab smiðju um 18 milljónir króna. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið styrkir rekstur Fab Lab smiðja með myndarlegu framlagi auk þess sem mennta- og barnamálaráðuneytið kemur einnig með framlag til Fab Lab í gegnum aðstöðu eða notkun framhaldsskólanna.
Lagt er til að tillögunni verði vísað inn í vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Auk þess er lagt til að Fræðslusviði Mosfellsbæjar verði falin vinna við undirbúning á opnun Fab Lab smiðju í Mosfellsbæ sem myndi hefja starfsemi í byrjun árs 2023.

Þróunar- og nýsköpunarmiðstöð
Samvinnuverkefni Mosfellsbæjar, ríkisins og fyrirtækja í atvinnulífinu.
Þriðja tillaga okkar að þessu sinni er að hafin verði vinna við undirbúning um að sett verði á stofn Þróunar- og nýsköpunarmiðstöð í Mosfellsbæ sem hefur það markmið að byggja upp og styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun í Mosfellsbæ til framtíðar.
Þar verður áhersla lögð á þróun og hátækni í ólíkum og fjölbreyttum greinum m.a. snjalltækni, heilbrigðis- og ferðaþjónustu, lýðheilsumálum og áhersla lögð á umhverfis-, atvinnu-, menningar- og fræðslumál svo eitthvað sé nefnt.
Einnig verður áhersla lögð á að starfrækt verði fjarvinnslurými samfara starfseminni þar sem fólk getur unnið í fjarvinnu með því að leigja rými á staðnum.
Ríkið styrkir stofnun verkefnis sem þessa á myndarlegan hátt og fara þarf í samningaviðræður um fyrirkomulag samstarfsins með ríkinu auk þess sem Mosfellsbær og fyrirtæki í atvinnulífinu myndu koma að verkefninu.

Næstu skref til undirbúnings
Lagt er til að stofnaður verði vinnuhópur innan stjórnsýslu Mosfellsbæjar með starfsfólki og einum fulltrúa úr meirihluta og einum úr minnihluta sem hefði það verkefni að vinna þá undirbúningsvinnu sem þarf til þess að koma á stofn Nýsköpunar- og þróunarsetri í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.