Möguleikar á byggingu gagnavers

gagnaver

Síminn hf. hefur óskað eftir því að skipulögð verði lóð fyrir gagnaver í landi Sólheima við Hólmsheiði. Óskað er eftir 5.000 fm lóð til uppbyggingar í fyrsta áfanga með möguleika á stækkun.
Fjallað hefur verið um málið í skipulagsnefnd Mosfellsbæjar og í kjölfarið hefur bæjarráð falið bæjarstjóra og skipulagsfulltrúa að vinna áfram að málinu.

Staðsetningin vandlega valin
„Gagnaver hafa verið talin grænn iðnaður og að mínu mati ætti því að vera sjálfsagt að kanna möguleika á þessari uppbyggingu nánar. Staðsetningin er valin með tilliti til þess að rafmagn er aðgengilegt og spennistöð er staðsett á Geithálsi. Allar hugmyndir um uppbyggingu inni á öryggissvæði vatnsverndar lúta að því að gerðar séu viðeigandi ráðstafanir ef til framkvæmda kemur,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.

Opið óbyggt svæði
Landspildan sem um ræðir heitir Sólheimaland og er eigu Mosfellsbæjar. Spildan er nokkuð stór eða í heildina um 28,2 ha en einungis er verið að óska eftir hluta af því.
Landið liggur í um 100-130 metra hæð yfir sjávarmáli við Nesjavallaveg, gegnt nýja fangelsinu á Hólmsheiði. Um er að ræða opið óbyggt svæði samkvæmt núgildandi aðalskipulagi og því ljóst að samkvæmt skipulagsákvæðum þyrfti að breyta aðalskipulagi verði þessar hugmyndir að veruleika.