Er líður að jólum

Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir

Nú er vetur konungur kominn í öllu sínu veldi. Brátt líður að jólum en þá er gott að staldra við og huga að þeim sem minna mega sín.
Jólin geta verið erfiður tími fyrir marga bæði vegna þess að þá finna margir fyrir einmanaleika sem getur ýmist verið viðverandi ástand eða sem er tilkominn vegna áfalla eins og til dæmis ástvinamissis. Jólin geta líka verið erfið þeim sem búa við þær aðstæður að geta ekki gert sér dagamun eins og flestir gera á þessum árstíma.

Starf Rauða krossins í Mosfellsbæ heldur sínu striki eins og endranær. Við bjóðum alla velkomna sem vilja slást í hópinn eða styrkja starfið okkar. Hægt er að gera það með ýmsu móti. Með því að gerast félagi í Rauða krossinum í Mosfellsbæ styrkir þú starfið þegar þú greiðir árlegt félagsgjald sem er 3.100 kr. og rennur óskipt til deildarinnar okkar í Mosfellsbæ.
Ef þú gerist sjálfboðaliði hjá okkur styrkir þú okkur með því starfa í einhverju af verkefnum okkar, eins og til dæmis að heimsækja einstaklinga sem þiggja slíkar heimsóknir, eða þú getur valið í hvaða af verkefnum okkar þú vilt helst taka þátt. Svo er einnig hægt að styrkja okkur með peningaframlögum en Rauði krossinn í Mosfellbæ stendur meðal annarra deilda Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu að áfallasjóði sem ætlað er að styðja við þá sem verða fyrir áföllum sem leiða af sér að einstaklingar lenda í aðstæðum sem þeir ná ekki að komast út úr án aðstoðar.
Þessu til viðbótar stendur Rauði krossinn í Mosfellsbæ að jólaaðstoð í samvinnu við Félagsþjónustuna í Mosfellsbæ og Lágafellskirkju. Það er því hægt að styðja við starfið okkar með ýmsum hætti og er alveg sama hvað er valið, allt kemur sér vel og mun renna til góðra verka.

Borist hafa fréttir af því að í fyrsta sinn muni Mosfellsbær taka á móti flóttamönnum sem sérstaklega er boðið til landsins og munu fá búsetu í bænum okkar góða. Um er að ræða svokallaða kvótaflóttamenn en það eru flóttamenn sem stjórnvöld bjóða að koma til Íslands og mun þeim veittur stuðningur til að koma undir sig fótunum í nýju landi.
Áður hafa flóttamenn sem þessir komið til Íslands og má nefna Akranes, Akureyri, Hveragerði og Selfoss sem staði sem boðið hafa flóttamennina velkomna. Í þeim tilfellum kemur Rauði krossinn að málum og aðstoðar við að útvega húsgögn og annað sem þarf til heimilishalds og við að komast inn í og fóta sig í samfélaginu en einn mikilvægasti þátturinn í því eru vina- og stuðningsfjölskyldur sem tengjast innflytjendunum og hjálpa þeim við að komast inn í samfélagið og ekki síst að skilja það.

Það er því nóg fram undan hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ og tökum við öllum stuðningi fagnandi. Þrátt fyrir að nóg sé að gera erum við alltaf opin fyrir nýjum hugmyndum um verkefni sem vinna að markmiðum okkar. Ef þú hefur góða hugmynd þá endilega komdu henni á framfæri við okkur.
Jólagleði sjálfboðaliða verður haldin miðvikudaginn 6. desember kl. 16 – 18 og eru allir sjálfboðaliðar hjartanlega velkomnir í Rauðakrosshúsið að Þverholti 7.

Katrín Sigurðardóttir
Ritari stjórnar Rauða krossins í Mosfellsbæ