Hljómsveitin Eilíf sjálfsfróun gefur út sína aðra plötu

Mosfellska hljómsveitin Eilíf sjálfsfróun gaf út aðra plötu sína þann 18. febrúar.
Eilífa sjálfsfróun skipa þeir Halldór Ívar Stefánsson, Árni Haukur Árnason, Davíð Sindri Pétursson og Þorsteinn Jónsson en platan sem þeir tóku upp og unnu sjálfir frá grunni nefnist Með fullri uppreisn og inniheldur 10 lög.

Stofnað sem grín
Eilíf sjálfsfróun var stofnuð í byrjun árs 2019 í partíi. „Þetta nafn kom upp sem eitthvert grín í partíi og okkur fannst það bara of fyndið til að sleppa því að stofna hljómsveit.“
Markmiðið var einfalt, að spila tónlist og hafa gaman. Strákarnir hafa fylgt þessu markmiði á ýmsu vegu en eftir að hafa starfað í einungis nokkrar vikur skráði sveitin sig til leiks í Músíktilraunir við góðar undirtektir og var kosin áfram til úrslita af áhorfendum í sal.
Eftir árangurinn í Músíktilraunum gáfu þeir út sína fyrstu plötu nokkrum mánuðum seinna. Platan einkenndist af lögum eins og Einræðisherrar götunnar, sem fjallar um óbeit hljómsveitarmeðlima á vagnstjórum Strætó og 12 ár and counting, sem vísar í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána.

Lög úr ýmsum áttum
Erfitt er að skilgreina hvaða stefnu tónlist nýju plötunnar fylgir en hún einkennist af meiri tilraunamennsku en fyrri platan. „Eftir að hafa gefið út hreina pönkplötu langaði okkur að prófa meiri tilraunastarfsemi. Við vorum, til dæmis, rosalega heillaðir af hugmyndinni um að gera pönk með synth-um í stað gítars.“ Efni laganna heldur þó sama sniði, en þau fjalla öll á einn eða annan hátt um gremju og ergelsi, en þó alltaf með skoplegum undirtón.
„Kosturinn við að spila pönktónlist er að það eru engar skorður. Það gefur okkur frelsi til þess að prófa nýja hluti. Til dæmis er eitt lag á plötunni ábreiða af ítölsku þjóðlagi með ádeilutexta og annað raf-techno-pönk. Þessi tilraunastarfsemi er virkilega góð til að læra að verða betri, bæði í að semja tónlist og taka hana upp.“

Kjallarinn er algjör snilld
Platan er unnin og tekin upp af þeim sjálfum í Kjallaranum, tónlistaraðstöðu Bólsins fyrir ungt fólk í Mosfellsbæ. „Kjallarinn er algjör snilld, það er geggjað að hafa aðgang að ókeypis æfingaraðstöðu og hann gerir okkur kleift að taka upp tónlistina og gefa hana út.“
Plötuna Með fullri uppreisn má finna á Spotify 18. febrúar, en þangað til má nálgast tvo singla af plötunni sem þegar hafa verið gefnir út. Strákarnir bíða svo spenntir eftir að geta farið að halda tónleika á ný eftir langa bið.