Eilíf hækkun launa íslensku elítunnar – Æðstu embættismannanna
Á ensku talað um „conflict of interest,“ þ.e. þegar atvik valda því hagsmunir aðila rekast á. Einn aðilinn getur verið sá sem hefur umboðið (e. agent) og hinn umboðsveitandinn (e. principal). Það kann að vera að hagræðing sé því að veita einhverjum umboð. Hvað getur gerst þegar umboðsveitandinn er ekki viðstaddur, farið er út fyrir umboðið og svik eru í tafli?
Í dómum sem hafa fallið frá hruni íslenska fjármálakerfisins, sem skall á 2008, hefur verið dæmt í umboðssvikamálum. Þá hafa fallið dómar sem varða refsingu ef sá sem umboðið hafði, umboðsþeginn, fór út fyrir umboðið. Með störfum margra er fólgið umboð, þ.e. stöðuumboð. Einnig eru menn með umboð í tengslum við störf sín, sbr. störf lögmanna, starfsmanna í stjórnkerfinu sem innan fjármálakerfisins og víðar.
Í kosningum veitum við kjörnum fulltrúum umboð. Þá er um að ræða pólitískt umboð og leggja stjórnmálamenn og flokkar fram stefnu sína fyrir hverjar kosningar og eru svo dæmdir af verkum sínum síðar í næstu kosningum. Þar sæta stjórnmálamenn sinni pólitísku ábyrgð. Margir ákveða reyndar að þeirra staða sé orðin það veik að þeir ákveða fyrir fram að yfirgefa pólitíska sviðið og tilkynna í tíma að þeir bjóði sig ekki aftur fram.
Þegar kjörnir fulltrúar eru ráðnir til starfa stöðu sinnar vegna, þ.e. þegar þeir ná meirihluta, eru þeir orðnir hluti stjórnkerfisins, þ.e. framkvæmdastjórnar í sveitarfélögum eða innan framkvæmdavaldsins, ráðherrar. Framkvæmdastjórar sveitarfélaga, oft nefndir bæjarstjórar, eru þá orðnir bæði stjórnmálamenn og starfsmenn, þ.e. embættismenn. Vandinn við slíkt fyrirkomulag hefur m.a. leitt til þess að félagar þeirra, sem síðar vænta þess að ná sömu vegsemd, eru þeir hinir sömu og samþykkja ráðningarsamning viðkomandi bæjarstjóra. Þar eru laun oft mjög há og eins og fyrir hrun fjármálakerfisins er það réttlætt með því að annan eins snilling sé ekki að finna í bæjarfélaginu, nú eða í landinu.
Einnig er fullyrt að viðkomandi sæti svo mikilli ábyrgð að háu launin réttlæti það, eftir atvikum kaupréttir og önnur vildarkjör. Einhverjir sækjast eftir að fá einhvern í starfið sem hentar, einhvern sem spilar með. Í upphafi þessa kjörtímabils í Mosfellsbæ samdi meirihlutinn við bæjarstjórann um laun sem eru miðuð við laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Hvað hékk á spýtunni?
Á kjörtímabili sitjandi sveitarstjórna á Íslandi í dag féllu brott lög um kjararáð. Laun ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu hækkuðu skömmu síðar, og þar með bæjarstjórans í Mosfellsbæ, um sem nemur 114.510 krónur eftir áramótin 2019 og 2020 og fóru þá í 1.932.203 á mánuði. Varð forseta lýðveldisins þá svo um að hann ákvað að afþakka hækkun sína en um það má lesa í frétt í Fréttablaðinu 8. apríl 2020.
Talnakönnun gaf út skýrslu fyrir Félag forstöðumanna ríkisstofnana, sem birt var í mars sl. Þar kom fram að launaþróun ráðuneytisstjóra hefur hækkað umtalsvert umfram forstöðumenn og nokkuð umfram launavísitölu. Sjá má samkvæmt þessu að skattgreiðendur eru að hanna hér á landi nýja elítu embættismanna og kjósa yfir sig kostnað ár frá ári. En sæta þessir aðilar ábyrgð?
Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins 24. ágúst sl. er fullyrt að laun bæjarstjórans í Mosfellsbæ séu komin í um eða yfir 2.141.000,- krónur á mánuði. Regluleg mánaðarlaun, skv. Hagstofu Íslands, námu árið 2020 um kr. 480 til 749 þúsund, regluleg laun í fullu starfi að meðaltali um kr. 670 þúsundum.
Umboðsvandinn leynist víða og veldur skattgreiðendum tjóni ár eftir ár þar sem frændhygli, vinavæðing og undirlægjuháttur óbætanlegu tjóni. Breytum þessu í næstu kosningum.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Kjósum rétt á komandi ári.
Sveinn Óskar Sigurðsson
Bæjarfulltrúi Miðflokksins í Mosfellsbæ