Jólagjöfin í ár
Nú er sá árstími þar sem margir eru að brjóta heilann um hvað skuli gefa í jólagjafir. Slíkt getur stundum verið þrautin þyngri þar sem mörg okkar eiga nóg af alls konar.
Fæstir vilja hvorki gefa né fá óþarfa og þá er bara að leggja höfuðið í bleyti.
Loftslagsvænar jólagjafir
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um náttúruvernd og loftslagsmálin ber oft á góma. Fyrir síðustu jól kom loftslagshópur Landverndar með margar snilldarhugmyndir að loftslagsvænum jólagjöfum.
Það er t.d. hægt að gefa eitthvað matarkyns eins og heimagert konfekt, sultur, smákökur, uppskrift og allt sem í hana þarf o.fl. List eða handverk á alltaf við, s.s. eitthvað prjónað eða heklað, ljóð og/eða lag, teikning, málverk o.s.frv. Upplifun og samvera er að sjálfsögðu á listanum ásamt áskriftum að blöðum, menningarkortum o.fl.
Þeir sem vilja kynna sér hugmyndir þessa hóps geta kíkt í á þessa slóð á vefsíðu Landverndar: https://landvernd.is/grasrot-loftslagsvaenar-jolagjafir/
Samvera í jólapakkann
Því ekki að gefa samveru í jólagjöf? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að eiga í góðum félagslegum samskiptum sé einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að lifa löngu, heilbrigðu og gleðiríku lífi. Slíkt rímar sannarlega við orðatiltækið um að maður sé manns gaman! Hægt er að gefa alls kyns samveru, miseinfalda og í öllum verðflokkum.
Hvernig væri t.d. að bjóða í mat, kaffi eða/og göngu, brydda upp á spilakvöldi, heimsækja safn, elda eða baka saman, fara í ísbíltúr eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug?
Þeir sem vilja fara alla leið geta líka gefið samverudagatal sem nær til lengri tíma, jafnvel fram til næstu jóla. Hægt væri t.d. að fara í göngutúr í janúar, hafa spilakvöld í febrúar, kaffiboð í mars o.s.frv. Ég get allavega lofað ykkur því að hvers kyns samvera mun alltaf slá í gegn!
Þegar fólk hefur verið spurt hvað sé það allra besta við jólin þá eru langsamlega flestir sammála um að það sé einfaldlega samveran með fólkinu sem stendur þeim næst. Góður matur, stemmingin, kærleikurinn, gleðin og þakklætið sem einkennir þessa hátíð ljóss og friðar koma þarna einnig við sögu.
Að þessu sögðu þá óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, ykkur gleðilegra jóla og vonum að þið njótið þeirra vel í faðmi þeirra sem ykkur þykir vænst um.
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ