Eigum við ekki öll rétt á að vera eins og við erum, eins ólík og okkur var ætlað að vera!
Í litlu þorpi úti á landi þar sem ég er alin upp þá vorum við krakkarnir reglulega minntir á að kurteisi kostar ekkert. Einnig að taka tillit til annarra, þótt ólík séum.
Mér þótti þetta ægileg klisja þegar mamma mín sagði þetta við mig, en eftir að ég varð eldri þá skildi ég meininguna og hef alltaf lagt mig fram um að fara eftir þessu því eitt af höfuðgildum í mínu lífi er að koma vel fram við aðra og sýna þeim kurteisi, hlýju og kærleika.
Allir eiga rétt á að vera nákvæmlega eins og þeir eru og eiga að fá að blómstra á sínum forsendum. Sýnum öðru fólki virðingu, því fjölbreytileikinn geri okkur betri. Við verðum sterkara samfélag og betri bær fyrir vikið.
Hvers vegna eru sumir þannig að þeir þurfa alltaf að gera lítið úr öðrum og bera ekki virðingu fyrir fólki sem er ekki eins og þeir sjálfir? Við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt viðhorfi okkar til annarra. Við eigum ekki að vera neikvæð heldur taka fólki eins og það er og sýna öllum virðingu og hlýju.
Erum við ekki á rangri braut ef okkur finnst við vera yfir aðra hafin og vera klárari en aðrir? Sýnum öðrum kærleika og tillitsemi því allt er þetta ákvörðun okkar sjálfra, hvernig við ætlum að koma fram, hvernig ætlum við að hafa daginn okkar, góðan, jákvæðan og skemmtilegan eða leiðinlegan, neikvæðan og fúlan.
Ef við reynum að horfa jákvæðum augum á það sem dagurinn ber í skauti sér og ákveðum að við ætlum að vera hamingjusöm þá mun dagurinn sannarlega verða betri.
Mig langar að vekja athygli á þessu þar sem mér finnst fólk of oft sýna öðrum óvirðingu, jafnvel niðurlægingu og skrifa ljóta hluti án þess að hugsa um hvaða afleiðingar það getur haft. Sýnum frekar öðrum tillitsemi og kurteisi. Reynum að sýna kærleika og brosa til ókunnugra því „bros getur dimmu í dagsljós breytt“.
Kristín Ýr Pálmarsdóttir