Ég er algjört félagsmálafrík

Svala Árnadóttir er kraftmikil kona sem vill leggja sín lóð á vogaskálarnar til að koma hlutum í framkvæmd. Hún hefur verið virk í margs konar félagsstarfi í gegnum tíðina sem hún segist hafa haft mikla unun af og er hvergi hætt þótt komin sé á besta aldur.
Í dag sækir hún fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar, situr í öldungaráði bæjarins og svo hefur hún mikinn áhuga á að stofnað verði hollvinafélag fyrir hjúkrunarheimilið Hamra. Á milli funda nýtur Svala lífsins með börnum sínum og barnabörnum.

Svala er fædd í Hveragerði 5. janúar 1945. Foreldrar hennar eru þau Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja og Árni Sigfússon bóndi og garðyrkjubóndi. Svala á tvö systkini, Karólínu f. 1947 og Sigfús Ægi f. 1954.

Náði gamla tímanum í sveitinni
„Ég ólst upp á bæ rétt hjá Laugarvatni sem heitir Böðmóðsstaðir. Ég náði gamla tímanum í sveitinni en foreldrar mínir hófu búskap út frá búi afa míns og ömmu.
Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hélt hita í eldhúsinu og það var ekkert heitt vatn svo það þurfti því að þvo þvottinn niður við ána. Engin voru salernin, bara útikamrar og það þurfti að ganga nokkra kílómetra til að komast í símasamband. Rafmagnið kom ekki fyrr en ég var 16 ára.
Pabbi byggði svo nýtt hús og allt varð nýtískulegra. Okkur leið vel þarna og oft var glatt á hjalla enda þekktum við ekkert annað.“

Léku leikrit fyrir sveitungana
„Ég var heppin að skólastjórinn í barnaskólanum mínum hafði mikinn áhuga á að láta okkur sveitakrakkana læra góða framsögn. Við fengum að leika leikrit einu sinni á vetri fyrir fólkið í sveitinni sem var gaman.
Ég get ekki gleymt að þegar ég var 8 ára skotta þá var ég látin lesa kvæði fyrir fullu húsi af gestum. Eins minnist ég líka ömmu minnar sem var best af öllum, hún fór með okkur krakkaskarann í langan göngutúr að steini sem heitir Grásteinn til að segja okkur sögu.“

Skellti sér í síldina á Raufarhöfn
„Ég gekk í gagnfræðaskólann á Laugarvatni og lauk prófi þaðan 1962. Þar eignaðist ég góða vini sem ég hef haldið sambandi við alla tíð.
Eftir útskrift skellti ég mér í síldina á Raufarhöfn, þar hitti ég flottan mann á balli í lopapeysu með brennivínsflösku í beltisstrengnum. Mér fannst hann meiriháttar sætur og satt best að segja ákvað ég í fyrsta dansi að þessum manni ætlaði ég að giftast, án þess að hann vissi að sjálfsögðu,“ segir Svala og brosir. „Honum var ég svo gift í nærri 50 ár.“
Eftir ævintýrið á Raufarhöfn fór Svala að vinna í farþega­afgreiðslunni á Umferðarmiðstöðinni og í 11 ár vann hún sem ritari hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Þaðan lá leiðin í TBR og svo á þrjár lögmannastofur. Hún sinnti aðalbókarastarfi hjá Læknafélagi Íslands og endaði starfsferil sinn hjá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Hestarnir átu fyrstu blómin
Svala giftist Vigfúsi Aðalsteinssyni viðskiptafræðingi 1967 en hann lést árið 2017. Hann starfaði hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur en setti síðan á fót sína eigin bókhaldsstofu, Reikniver. Svala og Vigfús eignuðust tvö börn, Árna Gunnar f. 1967 og Aðalheiði f. 1973. Barnabörnin eru fjögur, Daníel Freyr, Almar Nökkvi, Embla Soffía og Svala.
„Við byrjuðum okkar búskap í Reykjavík en fluttum síðan í Mosfellssveitina árið 1974 og mér leist nú ekkert of vel á það í byrjun. Mér fannst eins og við værum að flytja á hjara veraldar,“ segir Svala og hlær. „Vegurinn frá Reykjavík var malarvegur og engin ljós á leiðinni. Garðurinn okkar var malarbingur með engu grasi og hestar átu fyrstu blómin mín.
Nágrannarnir tóku vel á móti okkur og við fundum fljótt að þetta var úrvalsfólk. Við kunnum strax að meta hvað krakkarnir okkar höfðu mikið frjálsræði og stutt var í alla íþróttaiðkun.“

Eljan skilaði sér alla leið
„Við Fúsi fórum fljótlega að starfa með Aftureldingu því sonur okkar var bæði í handbolta og fótbolta. Ég tók að mér að vera gjaldkeri handboltans í eitt ár og satt best að segja var þetta ár erfiðasta árið í lífi mínu vinnulega séð, það var svo mikið að gera. Deildin var rekin eins og lítið fyrirtæki og ekkert var gefið eftir. Eljan skilaði sér alla leið og farið var með unglingana á Partille Cup í Svíþjóð um vorið.”

Er afar stolt af þessari framkvæmd
„Eftir störfin hjá Aftureldingu tók við langt tímabil hjá okkur báðum í Sjálfstæðisflokknum. Við fundum út að þar áttum við heima, fólkið var hresst og skemmtilegt.
Eftir nokkurn tíma var komið að því að kjósa nýjan formann í félaginu, ég bauð mig fram og var kosin, fyrsta konan til að gegna því embætti. Ég ákvað að félagið yrði að eignast sitt eigið húsnæði en það var ekki mikið til í kassanum. Það var því ákveðið að leggja af stað með fjáraflanir og allir lögðust á eitt. Á endanum keyptum við svo húsnæði og var það vígt með mikilli viðhöfn og var formaður flokksins viðstaddur. Ég er afar stolt af þessari framkvæmd,“ segir Svala og brosir.
„Við hjónin tókum þátt í mörgum nefndum hjá félaginu en nú er þetta farið að róast aðeins hjá mér og það er bara ágætt.“

Mér finnst gott að knúsa
„Við hjónin vorum dugleg að ferðast bæði hér heima og erlendis og við veiddum líka í mörgum vötnum og ám.
Ég er algjört félagsmálafrík og Fúsi minn var það líka, við vorum dugleg að sinna félagsmálunum og ég er enn að stússast í þessu,“ segir Svala og hlær. „Ég hef oft komið dauðþreytt heim úr vinnunni en þurft að fara á fund um kvöldið. Þegar heim er komið er ég yfirleitt full af orku, ég fæ svo mikið út úr félagsskap við annað fólk og mér finnst gott að knúsa.
Ég sæki núna fundi hjá Rótarýklúbbi Mosfellsbæjar og finnst það frábær félagsskapur.
Ég sit líka í öldungaráði Mosfellsbæjar og ég var gjaldkeri FaMos í 4 ár. Ég hef líka mikinn áhuga á að það verði stofnað hollvinafélag hjúkrunarheimilisins Hamra. Eftir því sem aldurinn færist yfir hef ég sífellt meiri áhuga á eldra fólkinu.“

Vil eyða ævikvöldinu hér
„Bærinn okkar hefur vaxið úr sveitamennskunni og í dag búa hér yfir 12.300 manns. Fólki líður vel hér í nálægð við náttúruna, hér er bæði skjólgott og fallegt en samt svolítið sveitó. Íþróttaaðstaðan er frábær, bæði fyrir unga sem aldna og félagslífið blómlegt.
Ég vil hvergi búa nema í Mosfellsbæ og ég vona sannarlega að ég geti eytt ævikvöldinu hér og fái svo að hvíla í Mosfellskirkjugarði, sátt við mitt líf.“

Mosfellingurinn 27. ágúst 2020
ruth@mosfellingur.is