Kaffi Áslákur opnar um helgina

Alli Rúts og Tanja Wohlrab-Ryan hótelstjóri taka vel á móti gestum.

Kaffi Áslákur er nýtt kaffihús sem opnar um helgina. Það er Alli Rúts hóteleigandi á Hótel Laxnesi sem hefur breytt móttökurými hótelsins í kaffihús.
„Það hefur lengi vantað kaffihús í Mosó þannig að við ákváðum að slá til. Hótelmóttakan minnkar í sniðum enda fara öll samskipti meira og minna fram í gegnum tölvur,“ segir Alli. Hægt er að tylla sér niður yfir kaffibolla bæði úti og inni en unnið hefur verið hörðum höndum að því að gera svæðið klárt í sumar.
Þá er aðstaða fyrir krakka að leika sér. Billjardborðið sem var niðri er komið á efri hæðina þar sem hægt er að leika sér í ró og næði.

Spennt að taka á móti Mosfellingum
Aðsóknin á hótelið hefur verið upp og niður eftir ástandinu í þjóðfélaginu. Stúdíóíbúðirnar í neðri hæð hótelsins hafa verið í langtímaleigu auk þess sem nokkrar íbúðir hafa verið leigðar til fólks í sóttkví og hefur því verið tekið vel. Annars hafa Íslendingar verið duglegir að sækja hótelið heim. „Ég byggði þetta hótel fyrir 12 árum, löngu áður en ferðamannabylgjan brast á. Þannig að við erum á svipuðum stað í dag, að þjónusta Íslendinga.
Nú viljum við bjóða Mosfellinga sérstaklega velkomna á kaffihúsið.“
Þá hefur Alli endurbyggt hestarétt í hlaðinu svo fólk geti komið ríðandi eins og hér áður fyrr.