Dýravernd og dýraveiðar
Dýravernd er mjög mikilvæg í nútímasamfélagi. Því miður hefur ekki alltaf verið hugsað vel um dýr, hvorki heimilisdýr, búfé og þaðan af síst um villt dýr. Er það til mikils vansa.
Þó svo að mjög skýr fyrirmæli séu í landslögum um dýravernd og veiðar á villtum dýrum er ekki alltaf farið eftir þeim. Mjög ákveðin fyrirmæli eru um veiðar villtra dýra. Aflífun dýra skal fara fram á skjótan og öruggan hátt. Þau eru samt oft elt uppi með byssum, hundum og jafnvel eitri og öðrum ófögnuði. Dýrabogar eru skelfilegt fyrirbæri og um þá eru mjög skýr ákvæði í lögum og notkun þeirra háð mjög ströngum skilyrðum. Þá má t.d. einungis nota þegar veiða þarf minka og refi ef ekki næst að skjóta þá. Og veiðmaður verður að vera með veiðistað í sjónfæri og fylgjast með.
Fyrir nokkru gekk ég fram á dýraboga við mynni Úlfarsár og fastur í honum var dragúldinn minkur. Veiðimaður hafði sýnt af sér óvenjumikið kæruleysi og léttúð. Þarna skammt frá er vinsæl gönguleið út í Blikastaðanesið örfáum metrum frá fundarstað. Hversu lengi minkurinn hefur barist fyrir lífi sínu á kvalafullan hátt veit sjálfsagt enginn. Ég hef áður gengið fram á dýraboga innan lögsagnarumdæmis Mosfellsbæjar. Í það skiptið rakst ég á tvo opna boga nálægt alþekktu refagreni nálægt Mosfelli þar sem hallar mót norðri niður að Leirvogsá.
Í bæði skiptin hef ég tilkynnt um fund minn. Í fyrra skiptið hafði dýr ekki orðið fyrir skaða en í síðara skiptið núna á dögunum var greinilegt að veiðimaður hafði þverbrotið allar reglur og lagafyrirmæli með því að yfirgefa veiðislóð og vitja ekki lengur um gildruna. Tilkynnti ég fund minn til Náttúrufræðistofnunar sem vísaði málinu áfram til Umhverfisstofnunar. Einnig til formanns Umhverfisnefndar Mosfellsbæjar og heilbrigðisfulltrúa Mosfellsbæjar þar eð ég taldi að málið varðar málefni á vegum Mosfellsbæjar. Hann vísaði málinu áfram til Matvælastofnunar sem er ein furðulegasta stofnun landsins. Hún virðist ekki ráða við nema lítið brot af þeim lögbundnu verkefnum sem henni eru falin, m.a. eftirliti með velferð dýra og veiðum villtra dýra.
Ég vænti þess að heilbrigðisfulltrúinn sem nú fyrir skemmstu reyndi að láta fjarlægja vel haldna hana í Mosfellsbæ, léti fjarlæga hræið af minknum og taka dýrabogann í sína vörslu sem mikilsvert sönnunargagn ef til opinberrar rannsóknar kemur. En það er enn einn höfuðverkurinn því lögreglan getur ekki sökum fjárskorts og manneklu sinnt öllum málum eins og þörf væri á. Dýravernd og velferð dýra er ekki framarlega á forgangslista yfir verkefni lögreglunnar.
Dýravernd á að setja mun ofar á forgangslista þeirra aðila sem eiga að hafa eftirlit með að landslög séu haldin.
Þeir sem vilja kynna sér betur réttarheimildir þá má finna þær á heimasíðu Alþingis: www.althingi.is
Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994
Lög um dýravernd nr. 15/1994
Reglugerð um refa- og minkaveiðar 437/1995
Guðjón Jensson,
eldri borgari í Mosfellsbæ.