Lyftum lærdómssamfélaginu

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Skólamál eru og eiga að vera í stöðugri umræðu og endurskoðun. Skólar og nám barna skipta allar fjölskyldur miklu máli. Kennarinn spilar stórt hlutverk í lífi barna og foreldrar óska sér einskis annars en að börnum þeirra líði sem best og gangi sem best í skólanum.
Miklar breytingar hafa átt sér stað í grunnskólum síðasta áratug í kjölfar aukinna væntinga samfélagsins til skóla og um leið eru stöðugar breytingar á þörfum nemenda.

Skólastefnan
Skólastefna Mosfellsbæjar var unnin af mörgum aðilum og sett fram undir heitinu Heildstæð skólastefna. Þar koma fram markmið og leiðir sveitarfélagsins fyrir þær stofnanir sem saman mynda skólasamfélag Mosfellsbæjar. Þar stendur „Kjarni Skólastefnu Mosfellsbæjar er að setja einstaklinginn í öndvegi. Skólastarf á að taka mið af þörfum hans, félagslegum aðstæðum og umhverfi“. Áhersla var lögð á að raddir bæjarbúa og þá sérstaklega raddir barna kæmu fram.

Vegvísir – brugðist við kröfum kennara
Í síðustu kjarasamningum kennara var sett fram bókun um að betur yrði komið til móts við kröfur og þarfir kennara. Í bókuninni stendur: „Markmið er að bæta framkvæmdina þar sem þörf er á og ná sátt um starfsumhverfið. Beina skal sjónum að innra starfi skóla og þeim verkefnum sem grunnskólinn sinnir, tryggja að kennsla og undirbúningur séu forgangsverkefni í skólastarfi og létta álagi af kennurum þar sem við á.“ Flest sveitarfélög hafa brugðist við þessari bókun og skoðað hvað má gera betur.

Haraldur Sverrisson

Haraldur Sverrisson

Fræðslusvið Mosfellsbæjar hóf ítarlega vinnu með kennurum og skólastjórnendum sem varð Vegvísir í þeirri umbótavinnu sem nú er unnið að. Markmiðið var að leita leiða til að bæta aðstæður í innra starfi skóla, styðja við kennara og minnka álag. Fræðsluyfirvöld vilja bæta framkvæmd skólastarfs og að kennarar nái sátt um starfsumhverfi sitt. Það er þekkt að mikil streita og neikvæðni hefur slæm áhrif á starfsanda og líðan starfsfólks á vinnustað. Það er okkar von og vilji að þær úrbætur sem unnið er að verði til að bæta starfsánægju og líðan á vinnustað kennara og nemenda.

Gott lærdómssamfélag – góður bær
Rannsóknir sýna að sterkt lærdómssamfélag þróast best með góðu og faglegu sjálfstrausti kennara og stutt sé við starfsánægju starfsfólks. Allt tengist menningu og andrúmslofti skólanna.
Þegar fjölskylda flytur sig um set er horft til gæða skóla, líkt og hverfa. Allir hafa skoðanir á skólunum og þannig á það að vera. Við bregðumst við óskum og eflum lærdómssamfélagið. Svo lærdómssamfélag eflist þurfa allir hlekkir í keðjunni að virka. Kröfur eru settar fram og vinnan er hafin. Það eru gömul sannindi og ný að skóli er ekki bara hús, ekki eingöngu kennslustofan eða skólahúsnæðið. Skólinn er staður þar sem börn eiga að blómstra og kennarar að njóta sín faglega. Mikilvægt að er samfélagið taki höndum saman og lyfti lærdómsamfélaginu svo allir njóti og séu stoltir af sínum skóla.
Undanfarin ár hefur Mosfellsbær verið leiðandi á mörgum sviðum skólamála og verið óhræddur við að fara nýjar slóðir svo eftir er tekið. Á næsta kjörtímabili munum við sjálfstæðisfólk halda áfram á braut þróunar og framfara. Skólaþróun er sífella og í góðum bæ eru góðir skólar.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir formaður fræðslunefndar
og Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri