Drengirnir okkar í vanda
Drengirnir okkar eiga í vanda. Þjóðfélaginu hefur mistekist að styðja við þá á viðkvæmum tíma mótunaráranna, efla þá og þroska á þeirra eigin forsendum. Á sama tíma hefur verið dýrmætt að sjá stöðu stúlkna batna á undanförnum árum, þó vissulega megi þar margt bæta ennþá. En drengirnir mega ekki gleymast.
Slæm staða drengja er eitthvert alvarlegasta vandamál íslensks samfélags í dag. Síðustu ár hafa þúsundir einstaklinga lokið grunnskóla sem munu eiga erfitt uppdráttar í lífinu. Afleiðingarnar eru alvarlegar og margvíslegar, fyrir drengina sjálfa og fyrir samfélagið allt.
Grafalvarleg staða
Sjálfsvíg eru algengasta ástæða dauðsfalla af hjá ungum mönnum. Ef litið er til tíðni sjálfsvíga er hlutfall karla 87% á árinu 2015 í yngsta aldurshópnum, 15 til 35 ára. Komið hefur fram að lestrarvandi drengja við útskrift úr grunnskólanum er geigvænlegur. Árlega ljúka 700 drengir grunnskólanámi án þess að vera þokkalega læsir. Er það boðlegt skólakerfi? Aðeins 30% þeirra sem ljúka meistaragráðu úr háskólanum eru karlar og karlmenn eru einungis þriðjungur þeirra sem stunda háskólanám. Skólakerfið er gert fyrir duglegar stelpur, segir dr. Hermundur Sigmundsson prófessor sem mest hefur rannsakað ólíka upplifun kynjanna af skólakerfinu. Svo virðist sem tápmiklir og fjörugir drengir finni lítið við sitt hæfi í skólunum, sem eru skipulagðir af konum með þarfir og smekk kvenna í huga. Fyrirmyndir skortir en hlutfall karlkennara í grunnskólum hefur farið lækkandi áratugum saman og er nú komið niður í 17%.
Vandinn eykst með árunum
Vanlíðan drengja birtist með ýmsum hætti. Ef við lítum til notkunar hegðunarlyfja meðal drengja í grunnskólunum er hún meira en helmingi algengari en meðal stúlkna á sama aldri. Þá er brottfall drengja úr framhaldsskólum mun meira en hjá stúlkum. Aukning á nýgengi örorku hefur á undanförnum árum verið örari meðal yngri karla en kvenna. Og þannig mætti áfram telja. Orsakaþættirnir eru margir en líklega vegur þungt að grunnskólar taka ekki nægjanlegt tillit til líffræðilegs munar á kynjunum. Áhugasvið drengja og stúlkna eru ólík en þroski stúlkna virðist henta betur að skólakerfinu sem virðist gera sömu kröfur til allra óháð eiginleikum.
Skólakerfið þarf að henta bæði drengjum og stúlkum
Afleiðingar af vanlíðan margra drengja á mótunarárunum hefur keðjuverkandi áhrif á líf þeirra til framtíðar. Þess vegna er þjóðfélagslega hagkvæmt að ráðast að vandanum þar sem hann birtist í upphafi. Allir kannast við afleiðingarnar. Þunglyndi, fíkniefnaneysla, offita, kvíði, einangrun, afbrot og tölvufíkn ungra manna. Þeir finna ekki sína hillu í lífinu. Skólakerfið þarf að vera í stakk búið til að mennta bæði stúlkur sem drengi. Fyrir ríflega 20 árum var mælt fyrir þingsályktunartillögu um að kanna sérstaklega stöðu drengja í skólakerfinu, en því miður hefur lítið gerst síðan. Miðflokkurinn hefur ítrekað vakið athygli á alvarleika málsins. Vandinn er öllum ljós, það er tímabært að bregðast við.
Karl Gauti Hjaltason, kgauti@althingi.is.
oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi