Fræðsluganga

Úrsúla Jünemann

Eins og lesa má á vef Mosfellsbæjar skipulagði Mosfellsbær, í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélag, fræðslugöngu um Blikastaðakró þann 5. september.
Járngerður Grétarsdóttir grasa­­- fræðingur fræddi fólk um plöntulífið sem fyrir augu bar. Þó að flestar plöntur séu á þessum árstíma ekki lengur í blóma er ekki síður skemmtilegt að læra að þekkja þær á fræi og blöðum. Hrefna Sigurjónsdóttir líffræðingur sagði frá lífríkinu í fjörunni.
Blikastaðakró, þar sem Úlfarsá rennur í sjóinn, er með mjög næringarríka fjöru og spennandi að skoða. Mikið af mismunandi tegundum af þangi og þara er þar að finna. Margæsirnar sem eru á leið frá varpstöðvum sínum á Norðuríshafsströndum til Írlands á haustin stoppa á Íslandi til að næra sig og er eyjan okkar eins konar bensínstöð tvisvar á ári.
Þátttakendur í göngunni skoðuðu einnig alls konar skeljar, kuðunga og hrúðurkarla á steinum. Í leirunum lifa sandormar og burstaormar sem margir fjörufuglar gæða sér á.
Góð þátttaka var og gaman að það voru börn með í göngunni og hversu áhugasöm og virk þau voru í að skoða og fræðast. Ég skora á Mosfellsbæ að stofna til annarrar svona fræðslugöngu snemmsumars þegar fyrstu plönturnar byrja að blómstra og fuglalífið er í fullu fjöri.
Takk fyrir þessa velheppnaða haustgöngu.

Úrsúla Jünemann