Dauðafæri!

Það var frábært að fylgjast með því í síðustu viku þegar stelpurnar okkar í fótboltanum tryggðu sér sæti í efstu deild á ný. Stútfullur völlur og samfélagsmiðlar fylltust af stoltum og hrærðum Mosfellingum eftir leik. Þetta er eitt af því sem íþróttir ganga út á, að sameina og gleðja fólk, styrkja samfélagið.

Við Mosfellingar erum í dauðafæri núna að taka þetta á næsta stig. Við getum verið framsýn og stórhuga, séð fyrir okkur enn meiri velgengni í bæði kvenna- og karlaboltanum í stað þess að eiga ágætis lið sem samt aldrei berjast um titla. Breiðablik hefur ekki alltaf verið á þeim stað sem það er í dag. Stjarnan var lengi neðri deildar lið. Þróttur Vogum, sem vann sér sæti í næst efstu deild karla í ár, var í fimmtu efstu deild fyrir nokkrum árum.

Afturelding getur komist í fremstu röð í fótbolta á Íslandi EF félagið og bæjarfélagið Mosfellsbær taka stórhuga höndum saman. Það þarf að horfa til framtíðar í aðstöðumálum í stað þess að taka hænuskref. Við erum alltaf á eftir fólksfjölguninni, aðstaðan þolir ekki alla iðkendurna. Við erum alltaf að gera málamiðlanir varðandi æfingasvæði og æfingatíma. Það er staðreynd. Það má tala um það sem vel er gert og ég ber virðingu fyrir knattspyrnuhúsinu og nýju vallarklukkunni.

En ef við viljum lengra, ef við viljum ekki festast þar sem við erum núna – að vera með kvennalið sem er gott í næst efstu deild en í fallbaráttu í efstu deild og karlalið sem er nógu gott til að falla ekki í þriðju efstu deild, en ekki nógu gott til að komast í efstu deild, þá verðum við að spýta í lófana.

Fjárfestum í framtíðinni. Finnum leiðir til þess að búa til æfinga- og keppnissvæði framtíðarinnar og alvöru félagsaðstöðu sem hvetur iðkendur til að vera á Varmársvæðinu fyrir og eftir æfingar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 16. september 2021