Draumur Listapúkans rætist

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Sólveig Franklínsdóttir formaður menningar- og nýsköpunarnefndar, Þórir Listapúki, Vilborg Þorgeirsdóttir móðir, Gunnar Þórisson faðir, Guðrún Von litla frænka Þóris.

Á sérstakri hátíðardagskrá í Listasal Mosfellsbæjar í lok ágúst var myndlistamaðurinn Þórir Gunnarsson, einnig þekktur sem Listapúkinn, útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021.
Menningar- og nýsköpunarnefnd Mosfellsbæjar sér um val bæjarlistamanns ár hvert og veitti Sólveig Franklínsdóttir formaður nefndarinnar Þóri verðlaunagrip eftir listakonuna Ingu Elínu ásamt viðurkenningarfé sem fylgir nafnbótinni.

Þekktur fyrir litríkar portrettmyndir
Þórir Gunnarsson er fæddur árið 1978 og er Mosfellingur í húð og hár. Hann hefur starfað á Múlalundi, æft íþróttir og verið öflugur meðlimur stuðningsklúbbsins Rot­­höggsins.
Hann er ötull í list sinni, kappsamur og hugmyndaríkur. Myndir hans spegla oftar en ekki fegurð hversdagsleikans en einnig er hann þekktur fyrir litríkar portrettmyndir sínar af vinum og vandamönnum jafnt sem þjóðþekktum einstaklingum.
Þórir sýndi í Kaffihúsinu í Álafosskvos árin 2012, 2013, 2014 og 2015, á Blik á bæjarhátíðinni Í túninu heima árið 2018 og samsýningu á vegum Listar án landamæra í Gallerí Gróttu árið 2020.

Sækir um í Listaháskóla Íslands
„Þetta kom mér skemmtilega á óvart,“ segir Þórir Listapúki. „Ég varð mjög hissa og átti ekki von á þessu. Maður er bara kominn í heiðurshöllina með frábærum listamönnum sem hafa hlotið þennan titil í gegnum tíðina. Þetta er mikill heiður fyrir mig,“ segir Listapúkinn sem játar það að þetta hafi verið draumur hans í mörg ár að verða einhverntíma bæjarlistamaðurinn.
Það þekkja allir Listapúkann í Mosfellsbæ. Alltaf brosandi og alltaf glaður, það skiptir miklu máli.
Þórir segir Listapúkanafnið hafa fest við sig en það eigi stundum til að brjótast fram í honum smá púki. „Þetta er bara listamannanafnið mitt.“
Þórir hefur lokið námi frá Myndlistaskóla Reykjavíkur og segir stílinn sinn hafa þróast heilmikið að undanförnu. „Ég mála landslag, hús, fólk, dýr, strætó, ljósastaura, umferðarljós o.fl.“
Þórir hefur sótt um inngöngu í Listaháskóla Íslands en ekki fengið inngöngu enn. Hann er þó bjartsýnn á framhaldið og ætlar að sjálfsögðu að sækja um á næsta ári með bæjarlistanafnbótina uppi í erminni.

Hleypur heilt maraþon um helgina
Listapúkinn ætlar að notfæra sér nafnbótina til góðs og koma sér ennþá betur á framfæri auk þess sem fyrirhuguð er sýning í Listasal Mosfellsbæjar á nýju ári.
Listapúkinn undirbýr sig þessa dagana undir Reykjavíkurmaraþonið sem hann ætlar að hlaupa á laugardaginn, heilt mara­þon. Hægt er að heita á Þóri og styrkja barnaspítala Hringsins. „Það er gott málefni og það þarf að hjálpa börnum sem veikjast,“ segir bæjarlistapúkinn að lokum og minnir á að hægt er að fylgjast með honum á helstu samfélagsmiðlum.