Af vettvangi sveitarstjórnarmála

Dagný Kristinsdóttir

Nú er liðið eitt og hálft ár af kjör­tímabilinu og fyrir græningjann er gott að líta yfir farinn veg. Þessi tími hefur verið krefjandi en umfram allt áhugaverður og lærdómsríkur.
Það er ákveðin upplifun að fá brautargengi inn í bæjarstjórn og vera treyst fyrir því að taka ákvarðanir fyrir hönd fólksins í bænum. Ég hef nálgast verkefnið á þann veg að starfa í þjónustu samfélagsins, en þannig var mér seld hugmyndin að því að gefa kost á mér.

Verkefnin
Áður en aðild að sveitastjórnarmálum kom til var ég svona temmilega áhugasöm um málefni sveitarfélagsins en núna velti ég öllu fyrir mér. Við hjónin höfum tekið ófáa rúnta þar sem þessi framkvæmdin og hinn húsgrunnurinn er skoðaður.
Allt í einu er ég komin á kaf í skýrslur um urðun sorps á Álfsnesi, hvernig sé best að úthluta lóðum, hvernig lýsing eigi að vera í bænum (LED eða ekki), hvað Strategía leggur til í breytingum á skipuriti, hvort sorpið sé losað í dag eða á morgun. Að ég tali ekki um flokkun á sorpi (sem reynist mér mikill hausverkur) en maðurinn minn hefur sem betur fer tekið verkefnið fastari tökum en ég.
Svo koma aðrir hlutir eins og fjárfestingaráætlun og fjárhagsáætlun heils sveitarfélags. Þá er maður boðaður á undirbúningsfund þar sem fyrir liggja glærur í tugatali og enn fleiri blaðsíður af fjárhagsáætlun komandi árs. Svo þarf að kafa ofan í öll gögnin, skoða og ekki síst að mynda sér skoðun á þessu öllu saman. Ég viðurkenni það fúslega að mér féllust hendur á þessum fyrsta undirbúningsfundi sem fór fram fyrir ári síðan.

Reglurnar
Svo eru það reglurnar og það er nú eins gott að læra þær! Til allra funda er boðað með tilteknum hætti, með lögbundnum fyrirvara og hefðbundinni dagskrá … og það er alveg nóg af fundum. Kosturinn er sá að þeir eru haldnir innan tiltekins tímaramma og það er gengið út frá því að fólk mæti undirbúið.
Bæjarráð fundar til dæmis einu sinni í viku í 90 mínútur í senn og með góðu skipulagi er hægt að keyra mörg mál í gegn. Einu fundirnir sem eru án hefðbundins tímaramma eru fundir bæjarstjórnar. Þá er hægt að sjá í beinu streymi og eftir á á Youtube og það hef ég nýtt mér það óspart. Það er lærdómsríkt að skoða gamlar upptökur og læra formið og tungumálið.

Fyrsta árið og rúmlega það fer í að læra á umhverfið og aðlagast vinnubrögðunum, það á ekki bara við um mig heldur svotil allt nefndafólk í mínu framboði. En nú er festan komin.
Við erum búin að læra hvernig hlutirnir virka og til hvers er ætlast af okkur. Við hlökkum til nýs árs og þess að vinna að hagsmunum bæjarins.

Fyrir mína hönd og míns hóps óska ég bæjarbúum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ár.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Líflegt starf í hestamannafélaginu

Það hefur verið venju fremur líflegt í hesthúsahverfinun í haust, enda veður verið milt og gott.
Krakkarnir í félagshúsinu eru komin á fullt í sinni hestamennsku, námskeið fyrir þau og önnur börn í félaginu hafa farið af stað með krafti og haustið er notað vel jafnt til útreiða og þjálfunar hrossa og uppbyggingar ungu knapanna sjálfra.
Hópur í endurmenntunarnámi við LBHÍ sem heitir reiðmaðurinn hefur verið við nám hér í Herði í haust og heldur áfram í vetur, 14 kátar Harðarkonur í þeim hressa hóp hafa lífgað upp á lífið í hverfinu. Framhaldsskólinn er sem fyrr með kennslu í reiðhöllinni og alltaf gaman að sjá þá nemendur blómstra sem hafa kosið sér hestamennsku sem fag í skólanum.
Dagskráin fram undan er þétt og glæsileg, námskeið og sýnikennslur, mót og alls konar samvera halda hestamönnum á öllum aldri í Mosfellsbæ við efnið fram á vor. Í sumar er svo Landsmót hestamanna í Reykjavík og við í Herði ætlum enn fremur að halda hér Íslandsmót barna og unglinga dagana 19.-21. júlí, mikil tilhlökkun að takast á við það verkefni sem verður án efa skrautfjöður fyrir bæjarfélagið. Verið er að vinna að endurbótum á keppnisvellinum svo við verðum sem best undir það búin að halda þetta stóra mót.
Fyrir hönd hestamanna í Herði óska ég öllum Mosfellingum og nærsveitarmönnum gleði og friðar um jól og áramót. Megi nýtt ár verða gott og gjöfult.

Margrét Dögg Halldórsdóttir formaður Harðar

Framtíðarsýn á íþrótta­svæðinu að Varmá

Halla Karen Kristjánsdóttir

Að Varmá koma þúsundir Mosfellinga og gesta á ári hverju til að stunda ýmiss konar íþróttir. Því er mikilvægt að vanda til verka og vera með skýra framtíðarsýn þegar kemur að áframhaldandi uppbyggingu, þar sem aðstaðan er komin að þolmörkum.
Nýr meirihluti fékk verkefnalista frá fyrra kjörtímabili sem er skrifaður inn í skýrslu sem Efla gerði fyrir Mosfellsbæ og gefin var út í mars 2021. Þessi skýrsla er góður grunnur og hægt er að vera sammála flestu sem þar kemur fram. Hinsvegar hefur legið fyrir að vilji er til þess að endurskoða ákveðna þætti.
Sú endurskoðun snýr aðallega að þjónustubyggingu sem átti að ráðast í á árinu 2022. Verkefnið var boðið út vorið 2022 en engin tilboð fengust. Í málefnasamningi nýs meirihluta kom fram vilji til þess að endurskoða þjónustubygginguna. Það var mat okkar sem stöndum að þeim samningi að sú hönnun sem er til staðar og er upprunalega frá árinu 2008, með viðbótum, muni ekki þjóna íþróttastarfsemi bæjarins á þessu svæði þegar til framtíðar er litið.
Við þurfum að hugsa stærra og það er alveg ljóst að til að ráðast í slíka framkvæmd þurfa markmiðin að vera skýr.

Tíminn er vel nýttur
Vinna við að skoða möguleika á uppbyggingu að Varmá og framsetningu á framtíðarsýn svæðisins hófst strax sumarið 2022.
Til þess að láta verkefnið ekki líða fyrir áherslubreytingu meirihlutans, sem liggur aðallega í að endurskoða hönnun þjónustubyggingar, var ráðist í endurnýjun gervigrasvallar og sett upp vökvunarkerfi.
Einnig hefur verið sett fram gróf hönnun á endurnýjun aðalvallar og frjálsíþróttasvæðisins. Þegar sett er gervigras á knattspyrnuvöll breytir það möguleikum á samspili frjálsra íþrótta og knattspyrnu mikið. Af öryggisástæðum er ekki hægt að bjóða upp á æfingar frjálsra íþrótta samtímis leikjum á vellinum. Það er fyrirséð út frá miklum iðkendafjölda í knattspyrnu að mikil notkun verður á aðalvellinum. Lagðar hafa verið til í fjárhagsáætlun framkvæmdir við endurnýjun aðalvallar á árinu 2024 og í beinu framhaldi verður farið í frjálsíþróttasvæðið.

Samhugur í Mosfellingum
Við höfum mikinn skilning á metnaði þeirra fjölmörgu aðila sem halda úti íþróttastarfi að Varmá og við deilum honum. Við höfum líka mikinn skilning á þeirri óvissu sem getur skapast þegar nýir aðilar koma að málum.
Til að eyða allri óvissu þá viljum við taka skýrt fram að við erum sammála þeim verkefnum sem talin eru upp í áðurnefndri skýrslu Eflu. En við viljum tryggja að fjármagninu sé vel varið og að byggt verið af metnaði og til framtíðar. Það er ljóst að til að svo geti orðið þarf að breyta forgangsröðun verkefna. Við vonumst til að geta unnið að þessum málum í sátt við þá hagaðila sem starfa á svæðinu.
Settur verður saman hópur til að stilla upp endurskoðaðri framtíðarsýn fyrir svæðið sem tekur tillit til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið unnin og bætir við hana. Enn fremur er hópnum ætlað að leita að og koma með tillögur að tekjuöflun fyrir uppbygginguna, þar sem það er ljóst að þjónustubygging til framtíðar verður dýrari en sú sem lagt var upp með í skýrslu Eflu.
En fyrir næstu þrjú árin hafa verið settir 2,5 milljarðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Þó að þetta sé mikið fjármagn, þá er fjárþörfin meiri og það er eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem eru fram undan að afla tekna fyrir sveitarfélagið til að setja í aðstöðumál við Varmá. Við ætlum okkur stóra hluti og höfum metnað og vilja til að bæta íþróttasvæðið að Varmá fyrir alla bæjarbúa.

Halla Karen Kristjánsdóttir
formaður bæjarráðs

Skráningardagar á leikskólum og endurskoðun leikskólagjalda

Dagný Kristinsdóttir

Snemmsumars var samþykkt að taka upp skráningardaga í leikskólum bæjarins. Vinnulag sem átti að leysa tvær áskoranir í leikskólastarfinu; vinnutímastyttingu starfsmanna og mönnunarvanda sem meðal annars þurfti að mæta með lokun deilda.
Á fundum kom ósjaldan fram sú trú margra að þetta verklag myndi stórbæta mönnun því fólk fengist frekar til starfans. Á sama tíma gerist það að margir starfsmenn í fleiri en einum leikskóla bæjarins kusu að segja starfi sínu lausu eða fara í launalaust leyfi. Þetta gerist þrátt fyrir að vinnutímastyttingin sé formlega bundin í starfið. Það segir manni að eitthvað annað og meira í starfsumhverfinu hafi áhrif en vinnutíminn einn og sér.

Tillaga felld en önnur lögð fram
Á fundi bæjarstjórnar þann 21. júní síðastliðinn lagði undirrituð fram tillögu um stofnun starfshóps sem hefði það markmið að fara heildstætt yfir stöðu leikskólamála í bænum.
Þar segir m.a. „Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna. Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.“

Þessi tillaga var felld með þeim orðum að þessi vinna væri þegar hafin. Hún var ekki meira hafin en svo að á fundi fræðslunefndar sem fór fram í byrjun nóvember lagði meirihlutinn fram tillögu að stofnun starfshóps sem hefur það markmið að „greina stöðuna eins og hún er í dag, bæði með tilliti til velferðar barna og starfsumhverfis í leikskólum.“
Þessi nýi starfshópur á áhugavert verk fyrir höndum. Fyrir utan að skoða starfsumhverfið á hann að fara skipulega yfir gjaldskrá leikskólanna, leggja til breytingar á henni og einnig á að rýna í þær breytingar sem sveitarfélögin í kringum okkur eru að gera. Sérstaklega var bent á nokkra þætti og eru þeir t.d. almenn gjaldtaka vegna vistunartíma, opnunartími, hámarksvistunartími, vinnutímastytting og biðlistagreiðslur. Það verður áhugavert að sjá að hvaða niðurstöðu hópurinn kemst.

Leikskólaforeldrarnir
En hvernig lítur þetta allt út gagnvart foreldrum? Ég, sem leikskólaforeldri hefði fengið tölvupóst í sumar þar sem fram kom að búið væri að ákveða skráningardaga og síðar annan þar sem mér væri tjáð að búið væri að breyta vistunarsamningi barnsins míns til kl 14.00 á föstudögum, einhliða.
Vinnan mín á föstudögum tæki mið af því að ég fari úr húsi upp úr kl. 13.00 til að sækja börnin mín. Ég þyrfti að vinna lengur aðra daga eða um helgar til að ljúka vinnutímanum, tek jafnvel sumarfrísdaga, því mín vinnutímastytting er ekki á pari við leikskólann. Suma daga þarf ég, til viðbótar við föstudagana, að sækja fyrr vegna þess að deildin lokar vegna manneklu og að lokum þarf ég að muna eftir blaðinu sem hangir uppi á deildinni og skrá barnið mitt í vistun þá föstudaga sem ég er föst í vinnu. En það veit ég ekki endilega með átta daga fyrirvara.
Sem foreldri myndi ég líklegast ekki skilja af hverju þetta fyrirkomulag er best og af hverju ég mátti skrá barnið mitt nokkra föstudaga fram í tímann en svo allt í einu mátti það ekki lengur. Og ég ætti líka erfitt með að skilja af hverju enginn kannaði upplifun mína á öllum þessum breytingum.
Styrkleiki hvers stjórnanda/meirihluta er að fagna góðum hugmyndum og veita þeim brautargengi, það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Það er því hálf broslegt að hafna einni tillögu og leggja svo fram aðra af sama meiði nokkrum mánuðum seinna.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Mennt er máttur og lestur er grunnurinn

Bryndís Haraldsdóttir

Íslenskt atvinnulíf og samfélag á allt undir því að börnin okkar komi heilsteypt og full sjálfstrausts út úr menntagöngu sinni. Læsi er þar lykilbreyta.
Tungumálið opnar dyr að menningu þjóða og hefur reynst lykilþáttur í inngildingu þeirra sem flytjast til Íslands.
Undanfarin ár hafa komið fram mælingar sem sýna vaxandi áskorun íslenskra barna þegar kemur að lestri og málskilningi. PISA niðurstöður sýna t.a.m. að 34,4% íslenskra drengja geta ekki lesið sér til gagns við útskrift úr grunnskóla og nær fimmtungur stúlkna. Á þessu ári hefur verið umfangsmikil úttekt í gangi á vegum menntamálaráðuneytisins um stöðu drengja í íslensku skólakerfi og eru heildarniðurstöður væntanlegar á næstu misserum.
Samkvæmt menntamálaráðuneytinu er ein lykilniðurstaða úr þeirri vinnu að íslensk börn, sérstaklega drengir, þurfi aukinn tungumálastuðning, þá helst á fyrstu árunum á menntagöngu sinni.
Hermundur Sigmundsson hefur á síðustu misserum verið óþreytandi í umræðu um lestrarkunnáttu og breytta nálgun í kennsluháttum. Ég hef setið nokkra fundi með Hermundi og sótt ráðstefnur um hið frábæra verkefni Kveikjum neistann, verkefni sem keyrt hefur verið í Vestmannaeyjum og skilað mjög góðum árangri. Kannski ætti Mosfellsbær að innleiða það verkefni næst.
Hermundur hefur staðið fyrir komu erlendra fræðimanna hingað til lands og það var einmitt á slíkum fundi sem ég heyrði fyrst um Graphogame sem er finnskur lestrartölvuleikur. Leikurinn grípur börn í grunnundirstöðum lestrar, aðlagar sig að getustigi þeirra og hefur margsýnt virkni sína við að koma þeim börnum sem eru sein til læsis hratt á rétta leið. Leikurinn hefur verið aðgengilegur finnskum börnum undanfarin ár.
Graphogame hefur verið staðfært á 11 tungumál um allan heim og hlaut á dögunum UNESCO menntaverðlaunin fyrir afburðaárangur. Það þýðir að aðferðafræðin hefur skilað framúrskarandi mælanlegum árangri í læsi þvert á tungumál.

Íslensk útgáfa
Á undanförnum misserum hefur verið unnið að íslenskri staðfærslu á finnska lestrartölvuleiknum. Tryggvi Hjaltason og Billboard ehf. standa saman að útgáfu tölvuleiksins Graphogame í íslenskri útgáfu, sem verður gjaldfrjáls í fimm ár. Billboard fjármagnar verkefnið ásamt því að tryggja og viðhalda vitund almennings fyrir leiknum næstu fimm árin.
Mikið vona ég að þessi leikur komist í verkfærakistur kennara sem víðast, en Kópavogur verður fyrstur til að prófa þetta í sínum skólum, vonandi fylgir Mosfellsbær í kjölfarið.

Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar

Jólagjöfin í ár

Ólöf Kristín Sívertsen

Nú er sá árstími þar sem margir eru að brjóta heilann um hvað skuli gefa í jólagjafir.
Slíkt getur stundum verið þrautin þyngri þar sem mörg okkar eigum nóg af alls konar. Fæstir vilja hvorki gefa né fá óþarfa og þá er bara að leggja höfuðið í bleyti.

Loftslagsvænar jólagjafir
Sífellt fleiri eru orðnir meðvitaðir um náttúruvernd og loftslagsmálin ber oft á góma. Fyrir nokkrum árum kom loftslagshópur Landverndar með margar snilldarhugmyndir að loftslagsvænum jólagjöfum. Það er t.d. hægt að gefa eitthvað matarkyns eins og heimagert konfekt, sultur, smákökur, uppskrift og allt sem í hana þarf o.fl. List eða handverk á alltaf við, s.s. eitthvað prjónað eða heklað, ljóð og/eða lag, teikning, málverk o.s.frv. Upplifun og samvera er að sjálfsögðu á listanum ásamt áskriftum að blöðum, menningarkortum o.fl. Þeir sem vilja kynna sér hugmyndir þessa hóps geta kíkt í á þessa slóð á heimasíðu Landverndar: www.landvernd.is/grasrot-loftslagsvaenar-jolagjafir

Samvera í jólapakkann
Því ekki að gefa samveru í jólagjöf? Rannsóknir hafa einmitt sýnt að það að eiga í góðum félagslegum samskiptum sé einn mikilvægasti þátturinn þegar kemur að því að lifa löngu, heilbrigðu og gleðiríku lífi. Slíkt rímar sannarlega við orðatiltækið um að maður sé manns gaman! Hægt er að gefa alls kyns samveru, mis einfalda og í öllum verðflokkum. Hvernig væri t.d. að bjóða í mat, kaffi eða/og göngu, stjörnuskoðun, brydda upp á spilakvöldi, heimsækja safn, elda eða baka saman, fara í ísbíltúr eða hvaðeina sem ykkur dettur í hug? Þeir sem vilja fara alla leið geta líka gefið samverudagatal sem nær til lengri tíma, jafnvel fram til næstu jóla. Hægt væri t.d. að fara í göngutúr í janúar, hafa spilakvöld í febrúar, kaffiboð í mars o.s.frv. Ég get allavega lofað ykkur því að hvers kyns samvera mun alltaf slá í gegn!

Þegar fólk hefur verið spurt hvað sé það allra besta við jólin þá eru langsamlega flestir sammála um að það sé einfaldlega samveran með fólkinu sem stendur þeim næst. Góður matur, stemmingin, kærleikurinn, gleðin og þakklætið sem einkennir þessa hátíð ljóss og friðar koma þarna einnig við sögu. Að þessu sögðu þá óskum við, sem stöndum að Heilsueflandi samfélagi í Mosfellsbæ, þess að þið getið notið aðventunnar í rólegheitum með fólkinu ykkar.

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ

Uppbygging að Varmá – tafir og svikin loforð

Ásgeir Sveinsson

Í ljósi þeirrar dapurlegu staðreyndar að Afturelding er búin að segja sig úr samráðsvettvangi Mosfellsbæjar og Aftureldingar er mikilvægt að koma á framfæri eftirfarandi staðreyndum.
Á síðasta kjörtímabili starfaði samráðsvettvangurinn að því að ná samkomulagi milli Mosfellsbæjar og Aftureldingar um heildarsýn og forgangsröðun að uppbyggingu á íþróttasvæðinu að Varmá. Samkomulag náðist sem var samþykkt af Mosfellsbæ og öllum formönnum Aftureldingar. Framkvæmdir áttu að hefjast sumarið 2022 við fyrsta áfanga uppbygginar sem var bygging þjónustuhúss með stórum nútíma búningsklefum, fundarsölum, stórri móttöku o.fl.
Á þessum tíma var verið að ljúka við byggingu knatthúss að Varmá, auk þess sem allsherjar nauðsynleg og tímabær endurnýjun á íþróttamiðstöðinni fór fram sem var m.a. fólgin í að endurnýja gólfefni í öllum íþróttasölum, skipta um lýsingu, taka í gegn búningsklefa, endurnýja gervisgrasvöll, endurnýjun á Tungubökkum auk fleiri framkvæmda.
Eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta eftir að þau tóku við var að fresta byggingu hússins og tók þá við harmsaga þeirra í málefnum Aftureldingar sem engan enda virðist ætla að taka.

Jana Katrín Knútsdóttir

Kosningaloforðin reyndust kostnarsöm
Fulltrúar í nýjum meirihluta lofuðu ýmsu fögru fyrir kosningar og ekkert lát var á. Ákveðið var að fresta byggingu hússins og kynna nýjar teikningar að stærri byggingu sem áttu að liggja fyrir að nokkrum vikum liðnum.
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn lögðu til að farið yrði í samningaferli við verktaka um byggingu hússins og skoðað yrði samhliða hvort breyta ætti hönnun ef það væri talið til bóta, því ljóst var að okkar mati að ella myndi bygging hússins tefjast um 2-3 ár að minnsta kosti.
Því var hafnað af meirihlutanum og lögðum við þá næst fram tillögu um að skoða það að breyta forgangsröðun í samráði við Aftureldingu og byrja þannig strax á hönnun og endurnýjun á aðalvellinum til að nýta tímann sem best og það fjármagn sem þegar var til staðar í fjárhagsáætlun ársins.
Þeirri tillögu okkar var einnig hafnað og síðan hefur því miður lítið sem ekkert gerst í áformum um uppbyggingu að Varmá.
Á þessum tímapunkti var meirihlutinn að átta sig á að kosningaloforðin og fagurgalinn um að allt ætti að vera stærra og betra en áður hafði verið samþykkt kostaði töluvert meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Breytt forgangsröðun án samráðs við Aftureldingu
Það var svo á bæjarstjórnarfundi þann 8. nóvember, þegar fyrri umræða um fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 fór fram, sem tillaga kom frá meirihlutanum um að setja 700 milljónir í nýjan völl að Varmá, framkvæmd sem ekki hefur verið hönnuð eða boðin út. Tillaga þessi er án aðkomu Aftureldingar og þar með í ósamræmi við það samkomulag sem var gert og er í gildi um forgangsröðun uppbyggingar á svæðinu.
Fulltrúar Aftureldingar í samráðsvettvangi hafa á sl. 16 mánuðum ítrekað óskað upplýsinga um stöðuna, hvort þau gætu fengið nýja tímalínu framkvæmda og hvort ákvörðun hafi verið tekin um forgangsröðun á framkvæmdum. En engin svör hafa fengist.
Framkoma meirihlutans í þessu máli hefur borið með sér vanvirðingu við þá vinnu sem þegar hefur verið unnin varðandi fyrirhugaða uppbyggingu að Varmá og ekki síður gagnvart sjálfboðaliðum í stjórnum félagsins. Þá hafa þessi vinnubrögð kostað bæði tafir og aukinn kostnað, svo ekki sé minnst á

Helga Jóhannesdóttir

þá óeiningu sem skapaðist innan Aftureldingar vegna einhliða breytinga á forgangsröðun og sífelldra tafa.
Fulltrúar meirihlutans þurfa að átta sig á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp í samskiptum við Aftureldingu.
Félagið er gríðarlega mikilvægur hornsteinn í okkar samfélagi og vonandi fer sú uppbygging að Varmá sem hefjast átti sumarið 2022 í gang sem allra fyrst.
Við fulltrúar D-lista í bæjarstjórn munum halda áfram að koma með tillögur til að flýta því ferli og vonandi verður þeim ekki öllum ýtt út af borðinu eins og hingað til.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Logn í skóginum

Björn Traustason

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar verður með sína árlegu jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg dagana 9.–23. desember.

Laugardaginn 9. desember kl. 13-14 verður opnunarhátíð í Hamrahlíðinni þar sem fyrsta jólatréð mun verða sagað, Mosfellskórinn syngur nokkur lög og Ævintýraverur úr Leikhópnum Lottu munu skemmta börnunum svo eitthvað sé nefnt. Að sjálfsögðu munu jólasveinar láta sjá sig og svo verður boðið upp á heitt kakó.
Úlfarsfellið er fyrir löngu orðinn mjög vinsæll áningarstaður og hefur skógurinn í Hamrahlíðinni mikið aðdráttaafl. Það líður því varla sá dagur að ekki séu bílar á bílastæðinu við skógræktina í Hamrahlíðinni og gaman að sjá hversu mikið svæðið er nýtt af fólki.

Skógrækt á Íslandi hefur aukist verulega síðastliðin 30 ár með tilkomu Landgræðsluskóga, en það er verkefni sem hófst árið 1990 og hefur Skógræktarfélag Íslands haft umsjón með verkefninu frá upphafi.
Skógræktarfélög geta sótt um að fá trjáplöntur í gegnum Landgræðsluskóga og hefur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar fengið plöntur til gróðursetninga allar götur frá því verkefnið hófst. Fyrsta gróðursetningin fór fram í Lágafelli norðanverðu á því svæði sem Krikahverfi er. Meginhluti skógræktarsvæða Skógræktarfélags Mosfellsbæjar eru gróðursett eftir árið 1990 sem þýðir að þorri þeirra trjáa sem vaxa upp á svæðum félagsins eru komin í gegnum Landgræðsluskógaverkefnið.
Fjöldamörg skógræktarsvæði með trjáplöntum frá Landgræðsluskógum hafa vaxið upp víða um land og eru þau farin að veita byggðinni skjól og gegna mikilvægu hlutverki sem útivistarskógar. Þar að auki stuðla skógarnir að kolefnisbindingu með bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti, auk þess að binda kolefni í jarðvegi. Skógarnir gegna því bæði samfélagslegu og vistfræðilegu hlutverki.
Þar að auki hafa þeir efnahagslegt hlutverk, en jólatrjáasala Skógræktarfélags Mosfellsbæjar er helsta tekjuöflun félagsins. Mest af starfsemi félagsins er unnin í sjálfboðavinnu og skiptir því stuðningur ykkar miklu máli með kaupum á alíslensku jólatré.
Það geta skipst á skin og skúrir eða snjór og bylur ef því er að skipta þegar komið er fram í desember. Við vonum að sem flestir komi til okkar í skóginn og kaupi sér jólatré hvernig sem viðrar. Því það er alltaf logn í skóginum.

Björn Traustason
formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

 

Stígum skrefið til fulls

Anna Gísladóttir

Í nokkra áratugi hef ég fylgt fótboltaliðinu okkar, meira þó karlaliðinu. Ég hef farið með þeim upp (og niður) um nokkrar deildir og átt með frábærum sjálfboðaliðum góða tíma.
Eftir besta sumar í sögu karlaliðsins eru aðstöðumál knattspyrnudeildar mér ofarlega í huga. Snemma sumars kom í ljós að núverandi áhorfendasvæði á Malbiksstöðvarvellinum að Varmá var of lítið og áhorfendur á hverjum leik mikið fleiri en sætafjöldinn.
Ráðamenn á Varmá stigu upp og komu til aðstoðar svo sjálfboðaliðar gætu komið upp annarri bráðabirgðastúku á miðju sumri svo flestir hefðu sæti á heimaleikjum liðsins.

Þessi viðbótar bráðabirgðastúka fékk mörg okkar í kringum fótboltann til að velta fyrir okkur hvort það sé ekki komið nóg af bráðabirgðaúrbótum á knattspyrnusvæðinu?
Nú þegar er allt í gámum og gámar hýsa salerni, veitingasölu, fjölmiðlamenn og starfsmenn leikjanna. Þetta gerir t.d. umgengni fyrir fatlaða erfiða á svæðinu.
Við erum þó þakklát fyrir þær útbætur sem gerðar hafa verið undanfarin misseri, en það má alltaf bæta í.

Við höfum mörg í baklandinu verið að rifja upp að fyrir aldamót kepptum við á Grenivík við Magna um sæti í 3. deildinni. Unnum þar og höfum klifið tvær deildir síðan. Nú erum við 28 sætum ofar í íslensku styrkleikaröðinni en Magni, en samanburðurinn á aðstöðumálum þessara félaga er okkur verulega í óhag.
Þegar Magni komst upp í 1. deild um tíma var farið í að smíða stúku við Magnavöll sem rúmaði sæti fyrir alla íbúa í hreppnum. Einnig voru smíðaðir búningsklefar og snyrting við völlinn. Þetta hefur okkur sárvantað allt of lengi.
Á sama tíma hefur kvennaliðið okkar tvívegis komist upp í deild þeirra bestu og ekki þarf að nefna hvað aðstöðuleysið hefur háð þeim líka í gegnum tíðina.
Á þessum tíma voru iðkendur í Aftureldingu um 200 en hefur í dag fjölgað í rúmlega 700 en aðstaðan lítið breyst.

Er ekki kominn tími á að næsta stórframkvæmd fyrir Aftureldingu verði að setja gervigras á gamla Varmárvöll og byggja upp almennilega stúku sem myndi leysa af hólmi bráðabirgðalausnir sem eru í dag? Bæta svo um betur og setja upp þjónustubyggingu sem myndi leysa þær þarfir sem standa út af í kjölfarið.

Ég tek ofan fyrir þeim sjálfboðaliðum sem bera hitann og þungan af starfinu í dag fyrir hvað þeim tekst að gera gott úr því sem er og græja góða umgjörð fyrir hvern leik. Tjalda stundum lúnu tjaldi tvisvar til þrisvar til að hýsa viðburði á leikjum því það fýkur niður jafn harðan. Ég óska þeim svo innilega betri aðstöðu því krafturinn í starfi knattspyrnudeildar hefur aldrei verið meiri, sem og áhuginn.

Hér um árið þegar við unnum 3. deildina var ég gjarnan kölluð mamma fótboltans, seinna meir þegar við unnum 2. deildina var ég oftar kölluð amma fótboltans og er oft kölluð enn. Ég vona svo innilega að við verðum komin með nýtt stúkumannvirki sem yrði okkur öllum í Aftureldingu til sóma áður en ég verð kölluð langamma fótboltans.

Áfram Afturelding!

Anna Gísladóttir – knattspyrnuáhugakona

Viðsnúningur í rekstri Mosfellsbæjar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Við búum við krefjandi efnahagslegar aðstæður með mikilli verðbólgu. Þess vegna er einstaklega ánægjulegt að geta lagt fram fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 sem gerir ráð fyrir afgangi upp á rúmlega 900 m.kr.
Þessum árangri náum við án þess að skera niður í þjónustu bæjarfélagsins við íbúa heldur þvert á móti þá verður þjónustan áfram efld og bætt í þágu allra íbúa.
Þegar tillaga að fjárhagsáætlun lá fyrir var það mat bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar að svigrúm væri til að lækka álögur frekar og lagði því meirihlutinn til að hækkanir á gjaldskrám yrðu hóflegri en verðlagsþróun. Með þessari lækkun viljum við leggja okkar af mörkum í baráttunni gegn verðbólgunni.

Barnvænt samfélag í raun
Áfram verða leikskólagjöld og fæðiskostnaður í skólum Mosfellsbæjar þau lægstu á höfuðborgarsvæðinu en þjónustan áfram framúrskarandi. Í fjárhagsáætlun ársins tryggjum við áframhaldandi vinnu við farsæld barna, innleiðingu menntastefnu, eflingu stoðþjónustu og fleiri verkefni í þágu barna og starfsfólks.
En við einblínum ekki einungis á verkefni stjórnsýslunnar heldur setjum barnafjölskyldur raunverulega í forgang með því að takmarka hækkun gjaldskrár um áramótin svo hún verði minni en verðlagsþróun.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bætt þjónusta
Áfram verður unnið úr umbótatillögum í rekstri og stjórnsýslu Mosfellsbæjar sem þegar hafa skilað bættri stafrænni þjónustu hjá bænum. Gert er ráð fyrir því að á næsta ári verið unnið í velferðartækni og tengist sú vinna m.a. verkefninu Gott að eldast – samþætting stuðningsþjónustu og heimahjúkrunar sem Mosfellsbær valdist til þátttöku í af Heilbrigðisráðuneytinu.
Fjárfestingaáætlun næsta árs er talsvert stór en þar leggjum við megináherslu á uppbyggingu nauðsynlegra innviða eins og leikskóla í Helgafellshverfi og innréttingar í íþróttahúsið við Helgafellsskóla. Áfram verður unnið í nauðsynlegu viðhaldi á byggingum bæjarins, sérstaklega skóla- og íþróttabyggingum ásamt því að aðalvöllurinn að Varmá verður endurgerður. Þá verður farið í spennandi verkefni eins og hugmyndavinnu vegna rammaskipulags miðbæjar.

Lækkum álögur á heimilin
Í málefnasamningi Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar er kveðið á um að álagningarprósentur fasteignagjalda verði lækkaðar til að koma til móts við hækkun fasteignamats og í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er staðið við það markmið meirihlutans.
Fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar að meðaltali um 13% á næsta ári en í fjárhagsáætlun er miðað við að hækkunin takmarkist við 9,81%.

Lovísa Jónsdóttir

Atvinnuhúsnæði
Nýlega samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar atvinnustefnu fyrir bæjarfélagið og vill meirihlutinn vinna að því að efla atvinnulíf í Mosfellsbæ. Til þess að ná þessu markmiði er mikilvægt að bæjarfélagið sé samkeppnishæft við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og því var ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði talsvert.

Mosfellsbær er mannvænn bær
Það verður áfram gott að búa í Mosfellsbæ á komandi árum og við erum sérstaklega stolt af því hversu vel hefur tekist að styðja við og þjónusta barnafjölskyldur í bænum. Þá er ánægjulegt að geta haldið gjaldskrárhækkunum í hófi þannig að allir íbúar njóti góðs af.
Það kostar vissulega að reka gott samfélag en fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sýnir skýrlega hvernig ábyrg fjármálastjórn getur skilað bættri þjónustu á sama tíma og álögur eru lækkaðar.

Bæjarfulltrúar Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar

Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?

Hugi Sævarsson

Ég vil byrja á því að óska íþróttafólki í Mosfellsbæ til hamingju með frábært keppnistímabil sem nú er að baki.
Flestar greinar luku sínu tímabili í byrjun sumars, aðrar í haust. Eins og gengur þá náðu sumir sínum markmiðum, aðrir ekki. Sama hver niðurstaðan var þá vonar maður að fólk haldi áfram að rækta líkama og sál enda margsannað að íþrótta- og tómstundastarf er gulls ígildi. Út frá öllum hliðum, beinni þátttöku sem og óbeinni.
Á bak við afraksturinn liggur fjöldinn allur af æfinga- og keppnisstundum. Ekki skal gleyma starfsliði og fórnfúsum sjálfboðaliðum sem í raun gera þetta allt saman mögulegt. Já og auðvitað frábærum stuðningsmönnum. Án þeirra væri þetta ekki jafn skemmtilegt, langt því frá.
Í þessari grein beini ég spjótunum að aðstöðumálum á knattspyrnuvöllum bæjarins. Vinsælustu íþróttagreinarinnar á landinu og reyndar í heiminum öllum. Við skulum bara segja það strax, ástandið er dapurlegt í Mosfellsbæ og hefur verið þannig um árabil. Það væri reyndar hægt að skrifa mun lengri pistil en þennan um nauðsynlegar úrbætur á ýmsum tengdum þáttum, eins og þörf á stærra æfinga- og keppnissvæði eða boðlegri félagsaðstöðu (sem er í raun engin).

Bærinn okkar dafnar á ýmsum sviðum og vex ört, en nú eru tæplega 14 þúsund íbúar í Mosfellsbæ. Mikill áhugi er á íþróttastarfi en í bænum stunda rétt tæplega 1.000 manns æfingar í knattspyrnu hjá Aftureldingu og venslafélögum. Hlutfallið um 7,5% sem ætti að gefa þessum málaflokki mikið vægi og forgang en svo er ekki. Frá því að ég flutti í bæinn fyrir um aldafjórðungi hefur aðstaðan verið nánast eins fyrir knattspyrnuna. Bæjarfélagið hefur dregist gríðarlega aftur úr. Meira að segja mun smærri bæjarfélög sinna íþróttinni af meiri myndarskap og metnaði.
Já, og hvað með aðstöðumál fyrir áhorfendur? Í Fellinu eru engin sæti fyrir áhorfendur og eins þröngt rými og hugsast getur. Á keppnisvellinum sjálfum þar sem meistaraflokkarnir og yngri flokkarnir spila er einvörðungu boðið upp á sæti fyrir 300 manns. Í sumar var algeng aðsókn vel yfir 500 manns á leikjum meistaraflokks karla en dæmi um allt að 1.000 manna áhorfendafjölda. Ég vil benda á að félagið býður ekki upp á stúku eins og tíðkast hjá mörgum íþróttafélögum. Það er að segja yfirbyggða áhorfendapalla. Aukinheldur eru sætin neðarlega og veita ekki þá yfirsýn yfir vallarsvæðið eins og algengt er. Salernis- og snyrtiaðstaða er fábrotin og svæðið ekki boðlegt hreyfihömluðum. Vallarstarfsmenn og fjölmiðlamenn sitja í þröngum „reddingagámi“. Tossalistinn er lengri, en læt þetta duga.

Samkvæmt upplýsingum af vef KSÍ var keppnisvöllur UMFA í knattspyrnu með fæst áhorfendasæti á meðal þeirra liða sem tóku þátt í Lengjudeildinni síðastliðið sumar. Sláandi og segir í raun allt sem segja þarf um stöðu mála.
Eins og sjá má á töflunni þá eru áhorfendasætin meira að segja talsvert fleiri hjá Ægi í Þorlákshöfn en í Mosfellsbænum. Sveitarfélagið Ölfus telur um 2.500 íbúa, tæplega 20% af fjölda íbúa Mosfellsbæjar. Því er rétt að velta fyrir sér og spyrja: Í hvaða sæti setjum við okkar fólk?
Brettum nú upp ermarnar og setjum strax á dagskrá úrbætur á þessum málum í okkar fallega heilsueflandi bæjarfélagi sem hefur á að skipa frábæru íþrótta- og stuðningsfólki sem á mun betra skilið.

Hugi Sævarsson
Viðskiptafræðingur og íþróttaáhugamaður

 

Umhverfið okkar

Guðjón Jensson

Að lifa í góðu, fögru og hollu umhverfi á að vera kappsmál okkar allra. Við sjáum margt sem gleður okkur en því miður margt sem okkur þykir miður og jafnvel særir okkur.
Slæm umgengni um sitt nánasta umhverfi lýsir hverjum manni og ber vitni um hver tengsl viðkomandi eru við umhverfið.
Mjög margir garðar eru til mikillar prýði og til fyrirmyndar. Til eru garðar þar sem kæruleysið virðist vera allsráðandi og þá kannski best hreinlega að malbika. Sem betur fer heyrir slíkt til undantekninga.

Mig langaði til að vekja athygli allra Mosfellinga á hvað við erum að sjá í nánasta umhverfi okkar. Miklar umræður hafa verið í samfélaginu um loftslagsbreytingar og hækkun sjávarmáls sem fylgifisk þeirra breytinga.
Þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld lásum við í jarðfræði eftir Þorleif Einarsson. Talið er að land á höfuðborgarsvæðinu hafi lækkað um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum og er til vitnis um það mýraleifar í fjöruborðinu yst á Seltjarnarnesi skammt frá Gróttuvita. Merki um sjávarrof getum við séð víða við Leirvoginn og er miður hve sjórinn virðist ná árangri að eyða ströndinni.

Árið 1980 birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags grein eftir Kristján Eldjárn sem þá var að ljúka sínum embættistíma sem forsetinn okkar. Í greininni fjallar hann um rústirnar í Blikastaðanesi og við Þerneyjarsund en talið er fullvíst að á miðöldum hafi verið þar mikilvæg hafnar- og verslunaraðstaða. Slóðina á grein Kristjáns má lesa: www.timarit.is/files/68889713

Við Mosfellingar ættum að skoða þessa grein gaumgæfilega og eiga gott samtal um hana. Fyrir nokkrum áratugum lagði hestamannafélagið reiðstíg um Blikastaðanesið en ekki tókst betur til en svo að hann var upphaflega lagður um rústirnar. Líklega var ókunnugleika að kenna að svo færi en ólíklegt er að ætlað hafi verið að valda tjóni. Átti ég þátt í því að vekja athygli á þessu og skrifaði eitthvað um það í mosfellsku blöðin. Varð það tilefni fyrir Kristinn Magnússon fornleifafræðing sem er búsettur í Mosfellsbæ að kanna aðstæður og rannsaka aftur rústirnar. Varð það til að reiðstígurinn var færður nokkuð ofar í landið sem vel hefur tekist. Á síðustu árum hefur hafið skolað meiru af ströndinni og verður ef fram horfir og ekkert aðhafst að rústirnar hverfi innan nokkurra ára. Verður eftirsjá að þessum gömlu fornu minjum. Mér skilst að þetta sé víða á Íslandi að gamlar verbúðir og aðrar strandminjar séu í mikillri hættu.

Meðfylgjandi mynd tók ég fyrir nokkrum vikum og má augljóslega sjá hversu sjávarrofið er smám saman að færa sig upp á skaftið. Bakkinn rétt vestan við fuglaskoðunarhúsið við Langatanga er að eyðast og ef ekkert er að gert verður að flytja húsið.
Spurning er hvort Mosfellsbær þurfi ekki að skoða betur þessi mál og reyna að sporna við frekari landeyðingu. Auðvitað kostar það sitt en þá er spurning hvort ekki megi draga úr kostnaði annars staðar. Mér þykir sem mörgum Mosfellingum nokkuð djarflega farið með opinbert fé til að slá fífilbrekkur og blómaengi bæjarins sem eru bæði fuglum himinsins sem og okkur mannfólkinu og sérstaklega ungviðinu til gleði og ánægju.
Við verðum að huga betur að umhverfi okkar og forða að spilla því. Um áramót eru þessar skelfilegar sem minna mig alltaf á stríðsátök. Mætti ekki biðja fremur um rótarskotin en rakettuskotin ef hugur er að styrkja starf björgunarsveitanna.
Góðar stundir.

Guðjón Jensson

Félagsstarf eldri borgara í Brúarland

Ásgeir Sveinsson

Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína sem og önnur félags- og tómsstundastörf.

Aukin þátttaka og fjölgun íbúa kallar á nýtt húsnæði
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri voru 1. janúar 2023 samtals 1.359. Félagsstarf eldri borgara í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og var fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ 1. janúar 2023 samtals 2.387. Þátttakendum í félagstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina. Ætla má að plássleysið muni aukast á allra næstu vikum, þegar fjölgun dagdvalarrýma að Eirhömrum sem var nýlega samþykkt tekur gildi. Framtíðaráform kveða svo á um fjölgun öryggisíbúða við Eirhamra en þar mun koma til með að að rísa jafnframt nauðsynleg stækkun (400m2 salur) ætluð félagsstarfinu. Tafir hafa hins vegar orðið á þeirri uppbyggingu og óvíst hvenær félagsstarfið fær þetta mikilvæga pláss fyrir starfsemi sína. Það er því nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir í millitíðinni.

Jana Katrín Knútsdóttir

Brúarland hentugt og vel staðsett húsnæði
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Það hefur sýnt sig að þangað sækir annar hópur en jafnan hefur gert að Eirhömrum. Það er mikilvægt að taka tillit til þess og koma til móts við þarfir og ákall notendanna. Brúarland er sögufrægt hús sem er í eigu Mosfellsbæjar og myndi henta vel fyrir þessa starfsemi. Húsið var gert upp fyrir stuttu síðan og þar standa nú yfir frekari lagfæringar og framkvæmdir sem taka brátt enda. Húsið hefur staðið ónotað eftir að kennslu Varmárskóla var þar hætt en ekki eru uppi áform um áframhaldandi notkun þess. Þess má geta að staðsetning Brúarlands ein og sér er afar heppileg. Húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skornum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Hugsanlega mætti einnig nýta húsnæðið að Brúarlandi í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Jafnvel felast tækifæri í því að skoða möguleika þess að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega tómstundastarfsemi.
Í þessu samhengi er þó mikilvægt að tryggja að við þessa tilfærslu yrði ekki skerðing á þjónustu við þá einstaklinga sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra. Því þyrfti alltaf að koma til móts við þarfir þess hóps með hliðstæðri starfsemi að Eirhömrum. Jafnframt gæti sérhæft starf, eins og leirgerð og fleira, áfram verið í húsinu.
Húsnæðið sem félagsstarf eldri borgara er starfrækt í dag að Eirhömrum, leigir Mosfellsbær af Eir. Þannig mætti því spara kostnað með því að nýta ónotað húsnæði í eigu bæjarins undir starfsemina.

Látum verkin tala
Tillögu okkar fulltrúa D-lista var vísað til Velferðarsviðs Mosfellsbæjar til rýningar og skoðunar. Það er

Helga Jóhannesdóttir

okkar mat að ekki þurfi starfshópa eða margra mánaða vinnu við að skoða þessa tillögu. Þörfin er brýn og húsnæðið ónotað. Við vonumst til að þetta verði unnið hratt og vel og að við munum sjá blómlegt félagsstarf í Brúarlandi á næstunni.

Ásgeir Sveinsson oddviti D-lista og bæjarfulltrúi
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Skráningardagar í leikskólum

Aldís Stefánsdóttir

Á vordögum samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar, að tillögu fræðslunefndar, að innleiða skráningardaga í leikskólum.
Í haust hefur því farið fram kynning og prófun á þessu fyrirkomulagi og leikskólstjórnendur eru að innleiða það hver í sínum skóla.
Skráningardagar þýða að ef foreldrar hyggjast nýta sér þjónustu leikskólanna á fyrirfram ákveðnum skráningardögum og skráningartímum þurfa þau að láta leikskólann vita. Markmiðið með þessu er að innleiða styttingu vinnuvikunnar í leikskólunum með því að vera með lágmarksstarfsemi á ákveðnum tímum. Við það má bæta að markmiðið með að bjóða upp á fulla styttingu vinnuvikunnar fyrir starfsfólk leikskóla er meðal annars að mæta þeim mönnunarvanda sem hefur verið í leikskólum í Mosfellsbæ og á höfuðborgarsvæðinu öllu á síðustu árum. Við væntum þess að fyrirsjáanleiki í rekstri skólanna muni aukast og lokun deilda heyri sögunni til.

Hvernig leysum við mönnunarvanda á leikskólum?
Stutta svarið við þessari spurningu er; með því að bæta starfsumhverfið og gera það aðlaðandi og samkeppnishæft.
Breytingar í ytra umhverfi leikskólanna hafa ekki verið þeim í hag undanfarið. Eitt leyfisbréf fyrir kennara og óútskýrður launamunur ófaglærðra í leik- og grunnskólum hefur valdið því að erfiðara er að ráða fólk í leikskóla.
Erfiðlega hefur gengið að innleiða styttingu vinnuvikunnar þar sem sú kjarabót fyrir launafólk átti ekki að hafa í för með sér skerðingu á þjónustu. Samið hefur verið um 30 orlofsdaga fyrir allt starfsfólk og starfsemin glímir við háa veikindatíðni bæði í lengri og skemmri tíma.
Við þessar aðstæður eru góð ráð bókstaflega dýr. Eftir mikla yfirlegu og samráð við fræðsluyfirvöld í Mosfellsbæ og stjórnendur leikskólanna lagði fræðslunefnd til skráningardaga eins og áður sagði. Helsti kostur þeirra er að þau sem þurfa á þjónustunni að halda munu fá hana.
Þessi leið krefst þess hinsvegar að foreldrar taki þátt í því að gera þetta að farsælli lausn á erfiðu viðfangsefni og við tryggjum þannig stöðuleika og fyrirsjáanleika þjónustunnar. Innleiðing á styttingu vinnuvikunnar í atvinnulífinu ætti að gera mörgum kleift að stytta vikuna einnig hjá leikskólabörnunum sínum. Skráningardagar í vetrarfríum, jóla- og páskafríum hafa þegar gefið góða raun og eru ekki alveg nýir af nálinni.
Að sjálfsögðu sitja ekki öll við sama borð þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar og þess vegna er ekki farin sú leið að loka skólunum heldur hafa þá opna fyrir þau sem þurfa á því að halda.

Takk foreldrar!
Á síðustu vikum hefur raunin verið sú að um 70% barna hafa ekki þurft á vistun að halda á skráningartímum á föstudögum. Það er afskaplega góð byrjun og vil ég þakka foreldrum í Mosfellsbæ fyrir góð viðbrögð og samvinnu í þessu verkefni. Ég ætla ekki hafa mörg orð um mikilvægi þjónustu leikskólanna hér í þessari grein enda er hún flestum ljós. En ég vil frekar leggja áherslu á að við erum í þessu saman og að reka þessa skóla er samfélagslegt verkefni sem við höfum orðið sammála um að er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir heimilin og það er mikilvægt fyrir samfélagið allt.
Stöndum því saman vörð um leikskólana í Mosfellsbæ og þá góðu starfsemi sem fer þar fram og er veganesti barnanna okkar út í lífið.

Aldís Stefánsdóttir
Bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður fræðslunefndar

Framfarir í úrgangsmálum

Aldís Stefánsdóttir

Hvernig við komum frá okkur sorpi snertir hvert einasta heimili og er lögbundið verkefni sveitarfélaga. Það verða því flestir varir við það þegar verða breytingar í málaflokknum.
Á síðustu mánuðum hafa verið innleiddar mestu breytingar í úrgangsmálum sem orðið hafa um langa hríð á höfuðborgarsvæðinu. Aukin flokkun sorps frá heimilum er stórt verkefni sem hefur, þegar á heildina er litið, gengið mjög vel og er strax farið að skila miklum árangri.
Það má þó ekki gleyma því að íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru vanir að flokka en 60% af þeim úrgangi sem kemur frá heimilum er skilað á endurvinnslustöðvar Sorpu og 40% er sótt í tunnur við heimili.

Áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi – raunhæf markmið um lokun
En hvað verður svo um sorpið? Það er kannski viðfangsefni sem Mosfellingar hafa haft meiri áhyggjur af á síðustu árum og sú staðreynd að urðunarstaðurinn í Álfsnesi er kominn ansi nálægt byggðinni okkar. Síðasta áratuginn hefur verið í gildi samkomulag milli eigenda Sorpu, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, um að hætta urðun í Álfsnesi.
Á þessum tíma hefur ýmislegt verið gert. Það verður þó að viðurkennast að framfarirnar hafa ekki verið nægar til að raunhæft sé að loka urðunarstaðnum í lok þessa árs. Leit að nýjum urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið er umfangsmikið verkefni á meðan við urðum ennþá eins mikið magn og raun ber vitni.

Annar viðauki hefur því verið gerður við þetta samkomulag og teljum við í bæjarstjórn Mosfellsbæjar raunhæft að við náum árangri í því að loka urðunarstaðnum innan næstu fimm ára eins og markmið samkomulagsins er.
Samkomulagið kveður þó ekki á um óbreytt ástand. Í fyrsta lagi tökum við stórt skref með aukinni flokkun. Sorpa hefur gert samninga við önnur sorpsamlög og fyrirtæki um móttöku á lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum enda verður bannað að urða lífrænt í Álfsnesi frá og með næstu áramótum. Þar verður eingöngu leyfilegt að urða óvirkan úrgang sem gefur ekki frá sér lykt.
Annar stór áfangi er að hefja útflutning á blönduðum brennanlegum úrgangi. Útflutningur hefur verið boðinn út og hefst núna á allra næstu vikum. Bara þetta tvennt breytir starfseminni í Álfsnesi gríðarlega.

Gætum hagsmuna Mosfellinga
Samþykkt annars viðauka varðandi lokun urðunarstaðarins og enn frekari frestun á því er ekki eitthvað sem bæjarfulltrúar í Mosfellsbæ eru sátt við eða ánægð með. Við komumst hins vegar að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri óábyrgt að ganga ekki til samninga um framhaldið en að öðrum kosti hefði skapast ófremdarástand í úrgangsmálum á höfuðborgarsvæðinu.
Við gerðum okkar allra besta til að tryggja hagsmuni Mosfellinga í samkomulaginu og meðal annars með því að fá eigendur Sorpu og landeiganda Álfsness, sem er Reykjavíkurborg, til að samþykkja að ekki verði byggð sorpbrennsla í Álfsnesi. Auk þess sem farið verður í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að ná tökum á lyktarmengun frá þeim úrgangi sem þegar hefur verið urðaður þarna. Lykilatriði er að fylgja þessum ákvæðum eftir og það munum við gera.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi og stjórnarkona í Sorpu BS