Tölum saman

Guðleif Birna Leifsdóttir

Félag- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ýtt úr vör vitundarvakningu um félagslega einangrun. Verkefnið ber heitir Tölum saman og með því vill ráðuneytið vekja athygli almennings á því hversu alvarleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni.

Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu.
Einmanaleiki er huglæg, óvelkomin tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum samskiptum. Fólk er í eðli sínu félagsverur og því nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum við annað fólk. Einmanaleiki er tilfinning sem getur komið og farið.
Félagsleg einangrun er hins vegar lítil eða engin félagsleg tengsl. Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera „út af fyrir sig“ og að einangrast félagslega er ekki það sama.

Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á https://island.is/felagsleg-einangrun. Þar er hægt að fá ráðleggingar við spurningum á borð við:
· Hefur þú nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
· Hefur þú nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
· Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
· Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?
Markmiðið með vitundarvakningunni er að opna augu fólks fyrir félagslegri einangrun í samfélaginu og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð okkar allra. Við getum öll lagst á eitt að láta okkur ekki standa á sama um fólk heldur mæta viðkomandi með vinskap, hlýju og virðingu, tala saman og halda sambandi.
Á síðasta ári, í tengslum við verkefnið Gott að eldast, fengu nokkur sveitarfélög styrk fyrir starfi tengiráðgjafa, en hlutverk þeirra er að draga úr félagslegri einangrun viðkvæmra hópa.
Tengiráðgjafar hafa yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti. Tengiráðgjafar nálgast þá sem eru félagslega einangraðir eða í hættu á að einangrast m.a. með heimsóknum og símtölum.

Undirrituð er tengiráðgjafi í Mosfellsbæ og bíður upp á fasta viðtalstíma í Brúarlandi. Boðið er upp á ráðgjöf um farsæla öldrun, upplýsingar um úrræði í nærsamfélaginu, mikilvægi virkni og þátttöku og markmiðssetningu á efri árum.
Einnig er boðið upp á fræðslu og ráðgjöf varðandi áskoranir er fylgja hækkandi aldri, og leiðum til að draga úr einmanaleika og einangrun. Eins ef áhyggjur eru af fólki sem glímir við einangrun er hægt að koma upplýsingum til tengiráðgjafa.
Hægt er að panta tíma með því að senda tölvupóst á gudleifl@mos.is eða hringja í síma 525-6700.

Guðleif B. Leifsdóttir
tengiráðgjafi í Mosfellsbæ

Félag aldraðra í Mosfellsbæ – FaMos

Jóhanna B. Magnúsdóttir

Félag aldraðra í Mosfellsbæ stendur fyrir mjög öflugu starfi í þágu eldri borgara hér í bænum.
Mikill hluti starfsins er á vegum fimm nefnda félagsins og einnig er mjög öflugt samstarf við félagsstarfið á vegum bæjarins. Þá á félagið þrjá fulltrúa í öldungaráði sem er skipað samkvæmt lögum og ætlað til að tengja félagsstarf eldri borgara og stjórnsýslu sveitarfélagsins eins og sjá má á heimasíðunni www.mos.is.
Félagar FaMos fá auglýsingar um starf nefndanna senda í tölvupósti en einnig birtist þær á heimasíðu félagsins, www.famos.is.

Félögum hefur fjölgað mjög síðustu ár, en alltaf er rými fyrir fleiri og fyrsta skref til að taka þátt í þessu öfluga starfi gæti verið að gerast félagi. Allir sem eru 60 ára og eldri eiga rétt á inngöngu í FaMos og geta skráð sig á heimasíðu þess.

Guðrún K. Hafsteinsdóttir

Um síðustu áramót voru tekin í notkun rafræn félagsskírteini. Það gekk ekki hnökralaust fyrir sig, en félagar eiga þakkir skildar fyrir þolinmæðina. Nú er unnið að því að losna undan byrjunarörðugleikunum, meðal annars með því að kaupa þjónustu fyrirtækja sem kunna á þessu lag.
Enn eru margir sem kjósa að fá útprentuð kort, það er auðsótt mál og þá þurfa félagar að sækja kortin í Brúarland. Það er alltaf gaman að koma í þetta fallega hús sem hýsir núna félagsstarf eldri borgara en var fyrsti barnaskóli bæjarins. Mögulegt er að fá félagsskírteinin send í pósti en þá þarf að biðja um það sérstaklega.
FaMos er með skrifstofu í Brúarlandi og opnunartími þar er á fimmtudögum milli kl. 15–16.
Einnig er hægt að hafa samband í netpósti famos@famos.is og í síma 883 5123 á milli kl. 13–18 á virkum dögum.

Jóhanna B. Magnúsdóttir formaður FaMos og Guðrún K. Hafsteinsdóttir ritari Famos

Veldu vímuefnafræðslu

Guðrún Helgadóttir

Í þessari viku eru allir 9. bekkingar í Mosfellsbæ að fá vímuefnafræðslu frá Heilsulausnum.
Vímuefnafræðslan heitir VELDU sem vísar í að allir eigi val og að það sé mikilvægt að taka ákvörðun um hvaða stefnu við viljum taka í lífinu.
Markmiðið með fræðslunni er að upplýsa um skaðsemi og ávanabindingu vímuefna. Mikil áhersla er lögð á að styrkja sjálfsmynd og gera ungmennin ábyrg fyrir sínu lífi.
Foreldra- og forsjáraðilafræðsla er opin fyrir foreldra barna í 9. bekk til þess að upplýsa foreldra og halda umræðunni gangandi.
Fræðslan fer fram rafrænt og allir fengu hlekk á fræðsluna senda í pósti. Þannig geta foreldrar valið hvenær þau horfa, geta ýtt á pásu, spólað til baka og jafnvel horft aftur innan þessa tímaramma. Hjúkrunarfræðingar verða svo til staðar til að svara öllum spurningum og athugasemdum sem gætu komið upp gegnum tengilinn sjálfan, email eða skilaboð á facebooksíðu Heilsulausna. Fræðslan verður opin til miðnættis föstudagskvöldið 2. maí.

Við treystum á að allir foreldrar/forsjáraðilar nýti sér þessa fræðslu til að vera meðvituð um hvað er í gangi hjá unglingum.

Fyrir hönd forvarnarhóps Mosfellsbæjar,
Guðrún Helgadóttir forstöðumaður Bólsins

 

Öflug kirkja í Mosfellsbæ

Rafn Jónsson

Í Lágafellssókn er unnið mikið og öflugt safnaðarstarf. Það hefur orðið enn umfangsmeira og fjölbreyttara síðustu ár og helgihald hefur tekið miklum breytingum. Safnaðarstarf hefur aldrei verið öflugra né messusókn betri.
Teknar hafa verið upp margar nýjungar í starfinu bæði varðandi messuform og messutíma og hefur það mælst vel fyrir. Starf með eldri borgurum hefur líka verið öflugt í samstarfi við Mosfellsbæ. Barnastarfið er þá ekki síðra, öflugur sunnudagaskóli og fjölmennur, tvískiptur barnakór. Þá eru ónefndir foreldramorgnarnir og fleira. Í sumar verða svo sumarnámskeið fyrir 6–9 ára börn. Þessi námskeið hafa mælst mjög vel fyrir.

Endurbætur og viðgerð á Mosfellskirkju
Þann 4. apríl sl. voru liðin 60 ár frá vígslu Mosfellskirkju 1965. Kirkjan þótti mjög nútímaleg þegar hún var byggð og form hennar óvenjulegt. Tíminn hefur leikið kirkjuna grátt og fyrir um ári síðan neyddumst við til að hætta með athafnir í henni vegna myglu.
Síðastliðið haust var ákveðið að ráðast í viðgerðir og endurbætur. Vonandi líkur þeim snemma í sumar. Kostnaður vegna þessara endurbóta getur numið allt að 70 milljónum króna. Þegar verkinu verður lokið mun húsið uppfylla ýmsar kröfur s.s. um aðkomu og salernisaðstöðu fyrir alla. Skipt er um gólf í kirkjunni, klæðningu að innan og utan og húsið einangrað upp á nýtt. Markmiðið er að húsið verið notað til fjölmargra athafna á vegum kirkjunnar sem og menningarfélaga í Mosfellsbæ.

Aðalfundur
Þann 8. maí nk. verður haldinn aðalsafnaðarfundur Lágafellssóknar í safnaðarheimili sóknarinnar að Þverholti 3, 3. hæð kl. 20. Fólk er hvatt til að mæta og gefa kost á sér til þeirra góðu starfa sem unnin eru innan kirkjunnar. Framundan eru mörg spennandi verkefni sem munu efla starfsemina enn frekar og það er alltaf pláss fyrir hugmyndaríkt og duglegt fólk!
Fjárhagsleg staða sóknarinnar er góð enda ein fjölmennasta sókn landsins. Það eru því tækifæri til að gera marga góða hluti enn betri!
Aðalfundir safnaða fjalla að mestu um starfsemi og afkomu síðasta árs en ekki er ólíklegt að vendingar í tónlistarmálum á þessu komi einnig til umræðu á aðalfundinum þann 8. maí. Því miður hætti kirkjukór Lágafellssóknar starfsemi skömmu fyrir fermingar.
Kórfélagar upplifðu að kórinn hefði verið rekinn en það er misskilningur sem virðist langlífur. Það er mjög leiðinlegt að svona hafi farið því margir kórfélagar hafa lagt mikið á sig um áratuga skeið í sjálfboðavinnu fyrir kirkjuna og eru þeim þökkuð óeigingjörn störf. Hins vegar lá fyrir að það yrði að efla tónlistarstarfið og tengja það breyttum áherslum í starfinu en það hefur því miður ekki tekist sem skyldi.
Í kjölfar brotthvarfs kórsins hætti tónlistarstjóri kirkjunnar. Því var gripið til þess ráðs að fá utanaðkomandi tónlistarmenn til að sinna tónlist í fermingarmessum og um páskana. Ekki er að heyra annað en að tónlistarflutningurinn hafi mælst vel fyrir. Í sumar verður væntanlega ráðinn nýr tónlistarstjóri til starfa og hann mun hafa hreint borð til að byggja á öflugt tónlistarstarf. Vitaskuld eru gamlir kórfélagar boðnir velkomnir til þátttöku í því starfi eins og unnt er.
Hið góða starf sem kirkjan vinnur alla daga í sókninni okkar hvarf dálítið í skuggann vegna málefna kirkjukórsins. Mergur málsins er sá að starfið er öflugt og starfsmenn og sjálfboðaliðar, hvort sem er í safnaðarstarfi eða sóknarnefnd leggja mikið og óeigingjarnt starf á sig til þess að gera veg kirkjunnar sem bestan. Vonandi verður tónlistarstarf kirkjunnar næsta haust hluti af þessari uppbyggingu og framþróun og þá með þátttöku einhverra þeirra sem áður voru í kirkjukórnum.

Rafn Jónsson, formaður sóknarnefndar Lágafellssóknar.

Jákvæð afkoma hjá Mosfellsbæ á síðasta ári

Halla Karen Kristjánsdóttir

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 hefur verið birtur.
Niðurstaðan er vel ásættanleg í krefjandi rekstrarumhverfi. Rekstur ársins skilaði um 877 milljóna afgangi og aðrar lykiltölur eins og veltufé frá rekstri og skuldahlutfall eru innan viðmiða. Heildartekjur Mosfellsbæjar námu um 22 milljörðum á síðasta ári, laun og launatengd gjöld tæpum 11 milljörðum og annar rekstrarkostnaður rúmum 8 milljörðum. Uppgjörið var í góðu samræmi við þær áætlanir sem gerðar höfðu verið fyrir tímabilið.

Hvaðan koma tekjurnar?
Tekjur bæjarins jukust um tvo milljarða milli ára en þar munar mestu um útsvarið (sem hækkar með almennum launahækkunum og íbúafjölgun) og framlög úr jöfnunarsjóði sem námu tæpum 4 milljörðum eða um 23% af skatttekjum. Sá tekjupóstur sem fær oft mikla athygli við fjárhagsáætlunargerð eru fasteignaskattar. Það er áhugavert að staldra við þá staðreynd að fasteignaskattur á síðasta ári skilaði sveitarfélaginu tæplega 1.5 ma.kr. í tekjur sem eru tæp 9% af skatttekjum. Ekki stór – en mikilvægur hluti af tekjustofnum sveitarfélaga.

Aldís Stefánsdóttir

Flestir sem tjá sig um fasteignaskatta eru almennt sammála því að það sé ósanngjarnt hvernig þeir eru reiknaðir. Að fólk sem á sitt húsnæði og er ekkert á því að fara að selja þurfi að borga hærri skatt af því að nágranninn seldi sína fasteign á hærra verði en sá sem seldi árið áður. Ekkert sérstaklega sanngjarnt kannski en þetta er kerfið sem við búum við. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar hefur, líkt og sá sem fór á undan, aðlagað skattprósentuna þannig að hún haldi í við verðlagsþróun en ekki látið þær fasteignahækkanir sem fasteignaeigendur í Mosfellsbæ hafa „notið“ skila sér að fullu í auknum skatttekjum. Það er ágæt leið en betra væri að ríkisvaldið skoðaði leiðir til að bæta tekjustofna sveitarfélaga með öðrum hætti.

Hvað erum við svo að borga fyrir?
Á gjaldahliðinni eru í raun litlar breytingar hlutfallslega á milli ára. Til fræðslumála fara sem fyrr rúmlega helmingur skatttekna Mosfellsbæjar eða um 53%. Samtals fara til fræðslu–, velferðar– og íþrótta- og tómstundamála um 85% af skatttekjum. Það gefur því auga leið að ekki er mikill afgangur til að verja til annarra málaflokka. En þá eru ótalin verkefni

Sævar Birgisson

vegna skipulagsmála, menningarmála, stjórnsýslu o.fl.
Það sem er áhugavert í þessum ársreikningi er hátt fjárfestingarstig. Alls var fjárfest fyrir um 3.3 milljarða króna á síðasta ári. Þar af fóru rúmir 2 milljarðar í skólabyggingar (leik- og grunn). Stærsta einstaka fjárfestingin er bygging á nýjum leikskóla í Helgafellslandi og íþróttahús við Helgafellsskóla. Endurbætur við Kvíslarskóla voru kláraðar og í endurbætur við eldra skólahúsnæði eins og leikskólann Reykjakot og Varmárskóla fóru um 400 milljónir. Þá var 343 milljónum varið til uppbyggingar íþrótta- og tómstundamannvirkja á síðasta ári. Hátt fjárfestingarstig fylgir sveitarfélagi í vexti. Svo hefur verið um nokkra hríð í Mosfellsbæ og verður áfram.
Það er nauðsynlegt að stöðugt sé verið að gæta að heilbrigði og sjálfbærni í rekstri Mosfellsbæjar. Það er svo sannarlega markmiðið áfram á sama tíma og við byggjum upp innviði og veitum framúrskarandi nærþjónustu til íbúa sveitarfélagsins.

Örvar

Halla Karen Kristjánsdóttir
Aldís Stefánsdóttir
Sævar Birgisson
Örvar Jóhannsson
bæjarfulltrúar Framsóknar í Mosfellsbæ

Um safnaðarstarf

Már Karlsson

Hvað skyldi það vera sem dregur fólk til kirkjusóknar og til þátttöku í starfi safnaðar?
Sjálfsagt er margt svarið við því. Trúrækni vafalítið meginástæðan en þarf þó ekki endilega að vera. A.m.k. get ég ekki hælt mér af því að svo hafi verið um mig. Ég hóf að fylgja eiginkonu minni til kirkju þegar við fluttum hingað fyrir meira en fjörtíu árum.

Að sækja kirkjulegar athafnir er á vissan hátt hvíld frá daglegu amstri. Ámóta og margt sem nú er kynnt til þess að hvíla hugann og öðlast innri ró. Að koma til kirkju stendur okkur öllum fyrirhafnarlítið til boða, að jafnaði vikulega og oftar um hátíðar.
Ekki hefur mér síst reynst tónlistin hluti af hvíldinni. Tónlistin sem um aldir hefur orðið til á vegum kirkjunnar til dýpkunar guðsþjónustunnar og hefur óvíða verið fegurri samin.

Sú staðreynd virðist um margt vera orðin gleymd að meðal allra þjóða hafa orðið til trúarbrögð, er mótað hafa siði og venjur sem eru mikill grunnur þjóðlífs og siðmenningar. Ekki geng ég þess dulinn að ég ber virðingu fyrir siðum okkar Íslendinga sem kirkjan hefur mótað. Fólki er almennt mikilvægt að leita til kirkjunnar um skírn, fermingu, hjónavígslur og ekki síst útfarir. Það fyrst talda eru gleðistundir og hjónavígsla er elskendum ógleymnanleg. Hið síðast talda er þeim nánustu afar mikilvæg stund í sorg sinni. Þessir siðir, sem kirkjan svo vel varðveitir og við leitum til á gleði- og sorgarstundum, eru ekki aðeins mér og þeim sem taka þátt í safnaðarstarfi mikilvægir. Þeir eru að vissu leyti grundvöllur sem við byggjum á eins og allar þjóðir enda þótt sinn sé siðurinn í landi hverju.
Fjölbreytni má vera hin æskilegasta í kirkjulegu starfi svo lengi sem haldið er við siðum er vel hafa reynst. Að hlaupa eftir tíðaranda einnar kynslóðar getur leitt athafnir frá meginefni því er hverjum manni má vera undirstaða til vellíðanar og festu í lífinu. Allar tískusveiflur líða undir lok og þykja gjarna hjákátlegar þegar frá líður.

Það kom fram hér í síðasta eintaki þessa ágæta blaðs, Mosfellings, að vissulega getur mannfólkið misstigið sig í safnaðarstarfi sem og í öðru mannlegu starfi.
Meginatriðið er að draga fólk ekki í dilka hvernig svo sem það er af guði gert, heldur virða alla að jöfnu. Að gefa sem flestum kost á að njóta safnaðarstarfs og styðja við safnaðarbörn til þess.
Áframhald lífsins byggist á voninni um að „bráðum komi betri tíð með blóm í haga“. Með það að leiðarljósi og að allir menn, lærðir sem leikir, leitist við að bæta sig, afsaka og fyrirgefa mistök ef orðið hafa, vil ég hvetja fólk til þess að íhuga með sér að leita í ríkari mæli að friðarstundum í samfélagi kirkju sinnar.

Að endingu er ekki úr vegi að ýta við sem flestum til þess að mæta á aðalsafnaðarfund kirkjunnar, sem verður þann 8. maí n.k. kl. 20 í safnaðarheimilinu.
Aðalsafnaðarfundur er öllum opinn en þar er kosið í sóknarnefnd og markar fundurinn á vissan hátt línur í starfi næsta árs.
Safnaðarheimilið er að Þverholti 3, gengið inn á austugafli hússins sem snýr að þar sem nú er veitingastaðurinn Bankinn en var áður útibú Arionbanka. Lyfta er upp í salinn á þriðju hæð.

Már Karlsson

Fjörumór

Guðjón Jensson

Þegar ég las jarðfræði í Menntaskólanum í Hamrahlíð fyrir meira en hálfri öld var lesin nýútkomið rit Þorleifs Einarssonar jarðfræðings sem bar það yfirlætislausa nafn Jarðfræði, saga bergs og lands.
Þetta rit heillaði mig og átti ég oft margar stundir með þessu merka riti löngu eftir að ég las á námsárunum mínum.

Á einum stað segir frá fyrirbærinu fjörumó og minnisstæð er mynd Sigurður Þórarinssonar af fjörumónum yst á Seltjarnarnesi móts við Gróttu. Fjörumó má rekast á nokkuð víða á Íslandi. Auk Seltjarnarness, má finna hann á Kjalarnesi, Akranesi, við Stokkseyri og á Höfn í Hornafirði.

Fjörumór er leifar mýra í landslagi sem sigið hefur vegna jarðskorpuhreyfinga á löngum tíma. Telur Þorleifur að Seltjarnarnes sem og land við innanverðan Faxaflóa hafi sigið um allt að 5 metra á undanförnum 3.000 árum (Jarðfræði Þ.E. 1968, bls. 199).

Fyrir nokkru var ég á gangi um Leirutangann sem teygir sig fram í Leirvoginn. Á stórstraumsflóði verður hann lítil eyja og efst er þar varpstaður ýmissa fuglategunda eins og tjalds. Áður minnist ég þess að kría hafi orpið þar. Nú varð ég var við að eftir stórviðri af vestri fyrr í vetur hafði orðið töluverðar breytingar á tanganum. Nokkur fet af möl hafði skolast burt af vestanverðum tanganum, efnið flust að einhverju leyti ofar á tangann og þrengt að varpstöðvum fuglanna, lagt undir sig nokkra tugi fermetra af melgresi sem þarna vex og er gott skjól fyrir fuglalífið. Þarna á tanganum vestanverðum má sjá fjörumó eins og Þorleifur getur um í jarðfræðibók sinni. Hvet ég sem flesta Mosfellinga að leggja leið sína í fjöru og skoða þetta jarðfræðifyrirbæri.

Nú vil ég taka fram að jarðfræði er fyrst og fremst áhugamál mitt sem og annað sem heyrir náttúrufræðum til. Hefi ég reynt að lesa mig til sem mest og fylgjast vel með.

Fyrir þá sem þykir saga áhugaverð þá eru fornar leifar mannvirkja yst og vestast á Blikastaðanesinu. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður og forseti rannsakaði þetta umhverfi á sínum tíma. Birtist grein hans í Árbók fornleifafélagsins 1980 og má nálgast hana hér: https://timarit.is/files/68889713.
Því miður eru þessar minjar að verða eyðingunni að bráð og hverfa okkur sjónum ef ekkert verður að gert. Þarna hafa öldur sjávar skolað í burtu einhverjum metrum og verður það að teljast miður.
Ég hef bent umhverfisnefnd Mosfellsbæjar á þetta mál og vænti þess að það verði skoðað og tekin ákvörðun um hvernig unnt verði að bjarga því sem unnt er frá frekari eyðingu.

Guðjón Jensson
Arnartanga 43
Mosfellsbæ

Blikastaðabærinn – hvað verður um hann?

Kristján Erling Jónsson

Uppbygging á svæðinu kallar á yfirvegaða umræðu og virðingu fyrir þeirri starfsemi sem þar fer nú fram.
Nú liggur fyrir gríðarleg uppbygging á Blikastöðum sem mun móta samfélag okkar til framtíðar. Slíkar framkvæmdir kalla á yfirvegaða umræðu og gagnrýna hugsun, því sporin hræða. Í gegnum tíðina hafa skipulagsákvarðanir verið teknar sem hafa haft óafturkræf áhrif á bæjarmyndina. Við hljótum að spyrja: Var rétt ákvörðun á sínum tíma að byggja Kjarnann í þeirri mynd sem hann er í dag? Er blokkaklasinn í Þverholti miðbær Mosfellsbæjar? Og verða Blikastaðir hinn nýi miðbær?

Menningarstarf sem skiptir máli
Á gamla Blikastaðabænum fer nú fram merkileg og lífleg menningarstarfsemi. Þar hefur Fornvélafélagið & Ferguson-félagið haft aðstöðu í tólf ár. Félagið, sem telur um 330 félagsmenn, er áhugamannafélag um dráttarvélar og sögu landbúnaðarins. Starfsemin byggir á eldmóði og áhuga, og félagið rekur sig alfarið sjálft – án nokkurra opinberra styrkja.
Félagið sér um húsnæðið og umhverfi þess og heldur reglulega fundi með tugum þátttakenda, en hefur því miður enga fasta fundaraðstöðu og þarf því að leigja sal út í bæ fyrir hvern fund. Árlega stendur félagið fyrir opnum degi í maí þar sem starfsemin er kynnt og gestum gefst tækifæri til að skoða vélarnar og þiggja veitingar í boði félagsins og hafa þeir einnig verið virkir þátttakendur í „Í túninu heima“.
Margir félagsmenn eru eldri borgarar og er því mikil umferð af fólki á hverjum degi og mikið spáð, spjallað og spekúlerað og má því í raun segja að þetta sé félagsmiðstöð.

Byggjum á því sem er
Ég sé fyrir mér að á Blikastöðum verði til menningarsetur sem endurspeglar sögu bæjarins og þeirri öflugu starfsemi sem þar hefur verið og er enn í formi menningarstarfs. Þar væri kjörið að hýsa einnig annað menningarlegt og sögulegt efni, til dæmis hernámsafn Tryggva Blumenstein, veita Sögufélaginu aðstöðu og jafnvel færa starfsemi Héraðsskjalasafnsins þangað. Við gætum haft notalegt kaffihús og rými fyrir listamenn til að koma fram og sýna verk sín. Það er fullt tilefni til að ræða möguleikana á nýtingu gamla bæjarins með aðkomu bæjarbúa sem áhuga hafa á málefninu.
Það þarf ekki að finna upp hjólið – við eigum þegar frábæran grunn að menningarstarfsemi sem við ættum að vera stolt af. Byggjum ofan á það sem þegar hefur rætur, og styðjum það sem er að blómstra í bænum okkar.

Hagsmunir í ójafnvægi?
Það sem vekur áhyggjur er sú staðreynd að bankinn á bæði Blikastaði og landið þar í kring, og hefur ráðið talsmann til að kynna sínar hugmyndir og hafa áhrif á umræðuna. Bankinn hefur augljósa fjárhagslega hagsmuni af uppbyggingunni – enda snýst bankastarfsemi um að hámarka verðmæti fjárfestinga.
Mosfellsbær fer hins vegar með skipulagsvaldið. Þannig eru tveir aðilar með ólíka hagsmuni að stýra þessu verkefni. Fyrir mér minnir þetta svolítið á Davíð og Golíat. Þess vegna verðum við, kjörnir fulltrúar bæjarins, að standa í lappirnar, staldra við og tryggja að uppbyggingin sem framundan er sé í sátt við samfélagið og í samræmi við gildi bæjarins okkar.
Við eigum ekki að sætta okkur við uppbyggingu sem þóknast fyrst og fremst fjármagninu. Við eigum að krefjast þess að það sem byggt verður á Blikastöðum nýtist fólkinu í bænum – okkur öllum – og virði söguna, menninguna og samfélagið sem þar er nú þegar lifandi.
Munum það að saga Mosfellsbæjar er sérstök á landsvísu og er fullt tilefni til að koma henni á framfæri fyrir alla landsmenn sem og erlenda gesti.

Kristján Erling Jónsson
Vinur Mosfellsbæjar

Hvert fara skattpeningarnir þínir?

Aldís Stefánsdóttir

Þegar kjörnir fulltrúar fjalla um fjármál sveitarfélaga þá er mikilvægt að þeir geri það með þeim hætti að íbúar skilji stóru myndina.
Það er ósanngjarnt að taka út litla búta af púslinu sem sýna í raun bara það sem fólk vill sýna hverju sinni en lætur þann sem hlustar, eða les, um að geta sér til um hvernig heildarmyndin lítur út í raun og veru. Þannig verður umræðan ómarkviss og full af staðreyndavillum.
Að fjalla um rekstur sveitarfélags er í raun ekki alveg einfalt mál og kannski ekkert voðalega skemmtilegt heldur. En flest viljum við samt vita hvernig gengur og í hvað skattpeningarnir okkar fara.

Hvað má eyða miklu núna?
Þegar við veltum fyrir okkur hvað má eyða miklum peningum í heimilisbókhaldinu þá byrjum við á að skoða tekjurnar ekki satt? Á þessu ári eru áætlaðar tekjur Mosfellsbæjar í A hluta um 21.1 ma.
Af þessum tekjum fara um 11 milljarðar í laun og launatengd gjöld þegar tekið er tillit til nýlegra kjarasamninga. Annar rekstrarkostnaður nemur rúmum 10 milljörðum.
Má ekki alltaf gera betur?
Miðað við þetta umfang þá er nauðsynlegt að það fari fram reglulega skoðun á því hvort hægt sé að gera betur í rekstrinum. Við fjárhagsáætlunargerð ársins 2025 var lagt upp með að leitað yrði leiða við að hagræða um 200 milljónir. En það er um 1% af heildargjöldum. Hagræðingarkrafan var sett á allan rekstur bæjarins. Ekki bara á fræðslumál eða á grunnskólana. Í því felst engin gagnrýni á það sem gert hefur verið. Þetta er einfaldlega eðlileg krafa í rekstri. Sá meirihluti sem fer með stjórnartaumana að þessu sinni telur að stjórnendur stofnana séu vel til þess fallnir að koma með tillögur að því hvar má hagræða. Enda hafa nú þegar verið lagðar fram góðar tillögur sem hafa ekki afgerandi áhrif á reksturinn og fela ekki í sér fækkun stöðugilda né minna þjónustustig. Þær staðhæfingar að þessar hagræðingaraðgerðir séu skaðlegar skólastarfinu og feli í sér þjónustuskerðingu eru rangar.
Að stilla upp einni ákvörðun á móti annarri eins og forvarnarátakinu Börnin okkar og þeirri kröfu að grunnskólarnir okkar (sem velta um sex milljörðum króna) leiti leiða til hagræðingar um samtals 100 milljónir króna á þessu ári er í besta falli einföldun.
Umræðan á síðasta ári og undanfarnar vikur og mánuði um málaflokk barna. Aukningu á vímefnanotkun, ofbeldi, vopnaburði og vanlíðan barna verður að mæta með aðgerðum. Það teljum við okkur hafa gert með afgerandi hætti og erum sátt með þá ákvörðun.

Allar hugmyndir velkomnar
Eins og rakið hefur verið hér þá erum við að vinna með takmarkaða fjármuni. Það er nánast ógjörningur að sækja frekari tekjur þar sem það kæmi illa niður á heimilunum og það er ekki í samræmi við markmið hins opinbera um að lækka verðbólgu og vexti. Þannig verðum við að vinna með gjaldahliðina – þó að það sé einnig afskaplega vandmeðfarið þar sem sveitarfélög veita viðkvæma og mikilvæga nærþjónustu – lögbundna og ólögbundna. Við fetum því stíginn mjóa og reynum að taka góðar ákvarðanir í samstarfi við þau sem veita og þiggja þessa góðu þjónustu.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ og formaður fræðslunefndar

Með djörfung og dug – Mannkostamenntun í FMOS

Björk Margrétardóttir

Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ starfar samhentur hópur fólks að því markmiði að skapa lærdómssamfélag þar sem nemendur vaxa og þroskast jafnt sem námsmenn og manneskjur.
Hjarta námsins er því ekki síður lærdómsferlið en lokaafurðin en FMOS er verkefnamiðaður leiðsagnarnámsskóli og leggur áherslu á framfarir í námi og vaxtarhugarfar. Við erum sífellt að leita leiða til að gera námið í skólanum öflugra og í því augnamiði er hafin þróunarvinna á innleiðingu svokallaðrar mannkostamenntunnar (character education). Hugmyndafræðin sækir í brunn dygðasiðfræðinnar en rætur hennar má rekja allt aftur til gríska heimspekingsins Aristótelesar.
Í stuttu máli er kjarni mannkostamenntunar sá að nám þurfi að efla persónulegan og siðferðislegan þroska nemenda ekki síður en hæfni þeirra í hefðbundnum námsgreinum. Farsæld er því miðlægt hugtak í þessum fræðum – með því að þroska mannkosti á borð við hugrekki og virðingu erum við að lifa til góðs, bæði fyrir okkur sjálf og annað fólk.

Hrafnhildur Þórhallsdóttir

Lengi verið í farvatninu
Mannkostamenntunin hefur verið okkur í FMOS hugleikin um nokkurt skeið og í raun hófst vinnan við að innleiða hana í skólastarfið og skólabraginn fyrir mörgum árum.
Ferlið hófst með því að kennarar og stjórnendur sóttu alþjóðlegar ráðstefnur og heimsóttu erlenda skóla til að kynna sér nýjustu hugmyndir bandaríska fræðimannsins Charles Fadel, svokallað „Four-Dimensional Education“-líkan, sem sameinar þekkingu, hæfni og mannkostamenntun undir regnhlíf metacognition – eða hæfni til að hugsa um eigin hugsun.
Æ síðan hafa þessar hugmyndir litað skólastarfið og kveiktu neistann að því þróunarstarfi sem nú er hafið með aðkomu alls skólasamfélagsins.

Starfendarannsókn og stefnumótun
Á síðasta skólaári lögðu fjórir kennarar með ólíkan bakgrunn og sérhæfingu í leiðangur til að dýpka þekkingu sína og skilning á þessum fræðum.

Vibeke Svala Kristinsdóttir

Kennararnir skráðu sig í diplómanám í mannskostamenntun og fóru af stað með sameiginlega starfendarannsókn þar sem fjórar dygðir voru í brennidepli; hugrekki (siðferðisleg dygð), seigla (framkvæmdadygð), forvitni (vitsmunaleg dygð) og kurteisi/virðing (borgaraleg dygð). Sjónum var beint að hverri dygð fyrir sig í tvær til þrjár vikur, þar sem áherslan var bæði á að læra af fyrirmyndum (character caught) og vinnu með dygðina í skipulagðri kennslu í gegnum verkefni af ýmsu tagi (character taught).
Í framhaldinu voru hönnuð afar falleg veggspjöld fyrir hverja dygð sem nú skreyta veggi skólans. Hugmyndin var að með því að gera dygðirnar sýnilegar í skólaumhverfinu og í kennslunni sjálfri, yrði mannkostamenntunin hluti af daglegu lífi nemenda. Hvort sem þeir væru að ræða hugrekki í bókmenntum eða æfa forvitni í náttúruvísindum myndu þeir upplifa dygðirnar sem hluta af menntuninni, læra að þekkja þær og efla hugsun sína og meðvitund um þær.
Nú á haustdögum var svo blásið til þróunarvinnudags helguðum mannkostamenntun þar sem allt starfsfólk skólans kom að borðinu og ræddi næstu skref og framtíðarsýn skólans í þessari vegferð. Lykilatriði í þeirri þróunarvinnu sem nú er í gangi er að mannkostir séu sýnilegir í skólastarfinu öllu og samofnir bæði kennslu og skólabrag.
Verkefnið er um margt einstakt, ekki síst fyrir þær sakir að það hefur þróast í gegnum starfendarannsóknir kennara sem og samtal og samstarf milli nemenda og alls starfsfólks skólans.

Breyttir tímar, breytt nálgun
Það sem gerir mannkostamenntun í FMOS sérstaklega heillandi er að hún tekur á áskorunum nútímasamfélags með persónulegri nálgun. Hún veitir nemendum verkfæri til að takast á við lífið af hugrekki, sýna seiglu í erfiðum aðstæðum, virða aðra og rækta forvitnina; verkfæri sem eru nauðsynleg til að byggja upp farsælt líf.
Næstu skref í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ eru að endurskoða stefnu skólans með mannkostamenntun að leiðarljósi svo hún verði órjúfanlegur hluti alls skólastarfsins.

Björk Margrétardóttir,
Hrafnhildur Þórhallsdóttir
og Vibeke Svala Kristinsdóttir

Niðurskurður í grunnskólum Mosfellsbæjar 2025

Ásgeir Sveinsson

Þegar meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar lagði fram og samþykkti fjárhagsáætlun sína fyrir árið 2025, bentum við, fulltrúar D-lista í bæjarstjórn á að það væru gul og jafnvel rauð blikkandi ljós í fjármálum bæjarins sem þyrfti að gefa gaum og bregðast við að okkar mati.
Við bentum á að annað árið í röð væru engar tillögur eða hugmyndir sem lægju fyrir um sparnað eða niðurskurð til að mæta auknum útgjöldum auk þess sem rekstur bæjarins væri ekki sjálfbær þar sem rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs fyrir árið 2025 væri áætluð neikvæð um 41 milljón.
Við spurðum fulltrúa meirihlutans hvort ekki ætti að bregðast við neikvæðri fjárhagsstöðu bæjarins, og svörin sem við fengum voru þau að kynna ætti sparnaðartillögur í byrjun árs 2025.

Átakið „Börnin okkar“
Þegar fjárhagsáætlunin var lögð fram í nóvember 2024 var átakið „Börnin okkar“ kynnt. Átak sem á að stuðla að velferð barna og unglinga í Mosfellsbæ og koma til móts við auknar áskoranir, en í því felast aðgerðir sem efla forvarnir, barnaverndarstarf og fleiri mál sem snúa meðal annars að starfi í skólum bæjarins.
Tilkynnt var að setja ætti 100 milljónir í verkefnið á þessu ári. Mikið hefur farið fyrir þessu verkefni og það vel kynnt í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum af fulltrúum meirihlutans enda allir sammála um að þetta sé mjög þarft og jákvætt framtak.

Elín María Jónsdóttir

Við spurðum hvar ætti að taka þetta fjármagn og hvort skorið yrði niður í málefnum barna og unglinga á öðrum sviðum til að mæta þessum viðbótarkostnaði og svarið við því var að það ætti ekki að gera.

Skólarnir eiga að spara 100 mill­jónir á árinu 2025
Nú hefur meirihlutinn ákveðið að grunnskólar Mosfellsbæjar þurfi að spara allt að 100 milljónir á þessu ári.
Upphæðir eru misjafnar milli skóla en meðal upphæð er í kringum 20 milljónir á hvern skóla.
Þessi krafa um sparnað kemur mjög illa við rekstur skólanna sem glíma við stærri og flóknari áskoranir með hverju árinu. Til að ná þessum sparnaðarmarkmiðum er ljóst að skólarnir þurfa að skerða þjónustu og mögulega fækka stöðugildum.
Það vekur athygli okkar að þessar sparnaðarkröfur hafa hvorki verið kynntar í fræðslunefnd né í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, meirihlutinn hefur heldur ekki séð ástæðu til að kynna málið í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum, eins og gert var þegar 100 milljónir voru settar í átakið „Börnin okkar“ fyrir þremur mánuðum.

„Börnin okkar“ í Mosó fengu og misstu
Þessar aðgerðir koma mjög á óvart miðað við tal fulltrúa meirihlutans um mikilvægi þess að auka fjármagn til barna og ungmenna.
Settar voru 100 milljónir í átakið „Börnin okkar“ og næsta skref meirihlutans þremur mánuðum seinna er að skipa skólum bæjarins að spara allt að 100 milljónir í ár í rekstri.Það lítur því þannig út að átakið „Börnin okkar“ eigi að fjármagna með sparnaði í skólum bæjarins. Það er slæm ákvörðun að okkar mati og ekki í samræmi við það sem var lagt upp með.

Þessi vinnubrögð meirihlutans eru til skaða fyrir skólasamfélagið í Mosfellsbæ sem má ekki við þessum niðurskurði.
Til viðbótar við þetta hefur bæjarstjóri lýst því yfir að skoða þurfi niðurskurð á þjónustu bæjarins til að geta mætt þeim kröfum sem nýgerður kjarasamningur kennara felur í sér.
Sá niðurskurður má ekki koma niður á skólum bæjarins.

Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn og fræðslunefnd skora á meirihlutann að endurskoða ákvörðun sína um niðurskurðarkröfu á skóla Mosfellsbæjar á þessu ári.

Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista og fulltrúi í fræðslunefnd
Elín María Jónsdóttir
fulltrúi í fræðslunefnd

Eir í þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar í 20 ár

Eybjörg H. Hauksdóttir

Eir hjúkrunarheimili hefur verið í samstarfið við Mosfellsbæ um þjónustu til íbúa sveitarfélagsins síðan þann 7. júlí 2005 en þá var undirritaður rammasamningur aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ.
Þá var sveitarfélagið talsvert minna, með lítilli þjónustumiðstöð að Hlaðhömrum auk um tuttugu íbúða fyrir aldraða. Síðan hefur þjónustumiðstöðin stækkað og þjónustuíbúðum fjölgað umtalsvert. Eir hefur jafnframt tekið við framkvæmd heimaþjónustu fyrir Mosfellsbæ, þ.á m. matarþjónustunni, sem og heimahjúkrun fyrir íbúa Eirhamra. Þá hefur bæst við dagþjálfun að Eirhömrum og heilt hjúkrunarheimili, Hamrar, sem er sambyggt þjónustumiðstöðinni.
Undanfarin misseri hefur svo Eir, í áframhaldandi góðu samstarfi við Mosfellsbæ, unnið að fjölgun dagþjálfunarrýma, stækkun hjúkrunarheimilisins og aukinni samþættri þjónustu til aldraðra í gegnum tilraunaverkefni stjórnvalda „Gott að eldast“.
Eir leggur mikið upp úr að veita faglega og góða þjónustu til íbúa Mosfellsbæjar, sem og annarra skjólstæðinga sinna. Gerðar eru þjónustukannanir með reglubundnum hætti og niðurstöður þeirra nýttar í úrbótavinnu innan starfseminnar. Enda er eðli þjónustustarfsemi þannig að alltaf þarf að halda sér á tánum og yfirleitt hægt að finna tækifæri til að gera betur.
Mosfellsbær framkvæmdi þjónustukönnun á meðal notenda heimaþjónustu Mosfellsbæjar árið 2024 og skilaði ítarlegri niðurstöðuskýrslu. Ánægjulegt var að sjá að 100% svarenda upplifa vingjarnlegt viðmót frá starfsfólkinu okkar sem sinnir félagslegu innliti og 99% starfsfólks sem sinnir þrifum. Þá sögðust 79% svarenda vera ánægðir með félagslegu innlitin, og enginn var óánægður (hlutlausir 21%). Einnig sögðu 100% svarenda heimsenda matinn lystugan og enginn var óánægður með matinn (hlutlausir 43%). Einnig komu fram góðar ábendingar, t.d. um að heimsendi maturinn bærist of snemma dags. Er verið að leita leiða til að koma til móts við það en mikil aukning hefur orðið á heimsendingu matar undanfarin ár.
Þó skýrslur séu nauðsynlegar, þá finnst mér sjálfri gott að heyra af og til beint frá fólkinu okkar. Í því skyni tók ég rölt um Hamra um daginn og spjallaði við nokkra íbúa sem ég hitti þar á göngunum. Á stuttum tíma náði ég spjalli við um fjórðung allra íbúa Hamra, enda lítið heimili. Ég spurði þá hvernig þeim liði og hvernig þeim þætti þjónustan vera hjá okkur. Allir sem ég hitti fullvissuðu mig um að þeir fengju nóg að borða hjá okkur, þætti maturinn almennt bragðgóður og að þeim liði mjög vel á Hömrum. Sem mér þótti mjög vænt um að heyra.
Við á Eir og Hömrum viljum gera vel í þjónustu við okkar skjólstæðinga en við erum auðvitað ekki gallalaus. Við erum mannleg og viljum vita af því þegar við getum gert betur.
Því hvetjum við fólk til að nota ábendingarhnappinn okkar á heimasíðunni okkar, www.eir.is til að koma á framfæri skilaboðum til okkar um það sem betur má fara.
Við erum ákaflega stolt af því góða samstarfi sem við höfum átt við Mosfellsbæ í gegnum árin og viljum þakka Mosfellingum fyrir samfylgdina síðastliðin 20 ár. Framtíðin er björt og við viljum gera okkar til að það verði alltaf gott að eldast í Mosfellsbæ.

Eybjörg H. Hauksdóttir, forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra
og Mosfellingur.

Fasteignagjöld í Mosfellsbæ

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Fasteignagjöld eru reiknuð sem hluti af fasteignamati hverrar eignar. Fasteignamatið tekur mið af verðmati húss og lóðar og eru forsendur fasteignamats meðal annars flatarmál eignar, staðsetning, aldur og ástand eignar og tölfæðileg gögn um kaupsamninga. Árlega er fasteignamatið endurmetið.
Fasteignamat íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á milli áranna 2023 og 2024 um 13,% og á milli áranna 2024 og 2025 um 2,1%. Hér er um meðal­tals­hækkun að ræða en hækkun fasteignamats sérbýla, fjölbýla og atvinnuhúsnæðis getur verið mjög ólík á milli ára meðal annars vegna framboðs og eftirspurnar eigna.
Fasteignaskattur, lóðaleiga, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva eru fasteignagjöld. Álagning fasteignagjalda er ákveðin af hverju sveitarfélagi og eru þau stór hluti tekna sveitarfélaga.

Fasteignaskattur á íbúarhúsnæði í Mosfellsbæ
Á höfuðborgarsvæðinu er Mosfellsbær meðal þeirra sveitarfélaga sem eru með hæstan fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði árið 2025. Að undanförnu hefur borið mikið af ábendingum og kvörtunum íbúa Mosfellsbæjar um hækkandi fasteignagjöld.
Umræðan hefur t.d. verið áberandi á íbúasíðum Mosfellsbæjar á facebook. Þessi umræða á rétt á sér því alger stefnubreyting hefur átt sér stað hvað varðar þennan skatt síðan nýr meirihluti tók við fyrir bráðum þremur árum

Helga Jóhannesdóttir

Raunhækkun fasteignaskatts staðreynd
Í tíð fyrri meirihluta var sú venja viðhöfð að fasteignaskattsprósenta var aðlöguð fyrir hækkun á fasteignamati og verðlagi þannig að aldrei yrði um raunhækkun fasteignaskatts að ræða miðað við þróun verðlags.
Þetta þýddi nær undantekningarlaust að við hverja fjárhagsáætlunargerð lækkuðu álagningahlutföll fasteignagjalda þar sem fasteignamatið hafði hækkað umfram verðlagsbreytingar.
Eftir að nýr meirihluti tók við árið 2022 hefur þessi venja verið aflögð. Strax við fyrstu fjárhagsáætlun nýs meirihluta fyrir árið 2023 varð veruleg raunhækkun fasteignagjalda í bænum.
Þetta þýddi að raunhækkun fasteignaskatts var milli 15 og 16% sem var gríðarlega mikið og stórt högg fyrir mosfellsk heimili. Síðan þá hefur þessi þróun haldið áfram og m.a. hækkaði álagningarhlutfall fasteignaskatt í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 með tilheyrandi raunhækkun fasteignagjalda meðan flest sveitarfélög lækkuðu hlutfallið.
Önnur gjöld hafa líka hækkað mikið og hefur t.d. sorpuhirðugjald og rekstur grenndar- og söfnunarstöðva hækkað um 73% frá árinu 2022. Til samanburðar hefur almennt verðlag hækkað um 30% á sama tímabili.

Samanburður við önnur sveitarfélög
Ef borin eru saman álagningarhlutföll fasteignaskatts sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur í ljós að Mosfellsbær er þar í hæstu hæðum, aðeins Hafnarfjörður hefur hærra álagningarhlutfall. Meira að segja Reykjavík hefur mun lægra hlutfall en Mosfellsbær.

Skattar eru pólitískar ákvarðanir
Breyting álagningarhlutfalla eins og fasteignagjalda eru pólitískar ákvarðanir þeirra sem eru við stjórnvölinn hverju sinni.
Meirihlutinn í Mosfellsbæ virðist standa fyrir hærri skattlagningu á íbúa meðan við sjálfstæðismenn hér í Mosfellsbæ stöndum hins vegar fyrir hið gagnstæða.
Ljóst má vera að aðferðafræði núverandi meirihluta við ákvörðun álagningahlutfalla fasteignagjalda er önnur en hún var í tíð fyrri meirihluta.

Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi

Úr sjoppunni í formannssæti VR

Halla Gunnarsdóttir

Nú þegar ég hef heimsótt fjölda vinnustaða í tengslum við kosningar til formanns VR hugsa ég oft til baka til sjoppuáranna í Snæland Vídeó í Mosó og um það hversu mikið afgreiðslustörf hafa breyst.
Í sjoppunni höfðum við ákveðið sjálfsforræði, við máttum lauma aðeins meira blandi í pokann, semja um skuldir fyrir spólur og gefa ísinn sem var óvart of linur. Þetta sjálfsforræði, ásamt óborganlegum vinnufélögum og frábærum viðskiptavinum, gerði vinnuna skemmtilega. Okkur fannst við eiga sjoppuna saman og vorum stolt af vinnunni okkar.
Þetta er mér mjög hugfast í dag þegar ég sæki heim vinnustaði ólíkra VR-félaga. Starfsánægja virðist nánast alltaf haldast í hendur við traust og forræði yfir sinni eigin vinnu, að ógleymdum sveigjanleikanum (sem við höfðum reyndar aldrei í sjoppunni, þar voru matar- og kaffitímar ekki einu sinni virtir).

Láttu konuna fá peninginn
Þau eru ýmis áföllin sem dynja yfir fólk á unglingsárunum. Ef litið er fram hjá því sem raunverulega teljast áföll í lífinu, þá er mér mjög minnisstætt það mikla sjokk sem ég fékk þegar ég var að afgreiða barn um bland í poka í Snæland Vídeó og móðir barnsins sagði hátt og snjallt: „Nú máttu láta konuna fá peninginn.“ Ég var fjórtán ára og alls engin kona! En ég tók við peningunum og sneri mér að næsta viðskiptavini sem vildi líka bland í poka fyrir afganginn.
Snæland Vídeó var miklu meira en bara sjoppa á þessum tíma. Snæland var sjoppan, með ákveðnum greini, og þangað lagði fólk leið sína til að leigja spólu, ná sér í bland fyrir skrall helgarinnar eða fá sér eina pulsu (tómatsósuna undir steikta laukinn takk). En fólk kom líka í sjoppuna sér til dægrastyttingar. Hópar ungs fólks komu þar saman og unglingar gerðu ítrekaðar tilraunir til að hanga inni í sjoppunni en þurftu að sætta sig við að safnast saman fyrir utan í staðinn.
Um helgar skapaðist oft mikil stemming á bílaplaninu og í eina skiptið sem ég hef komist í kast við lögin (fyrir utan eina hraðasekt, afsakið) var þegar ég ílengdist á sjoppuplaninu eftir vinnu og löggan kom og keyrði mig heim, enda útivistartími barna löngu liðinn.
Í sjoppunni í Mosó steig ég mín fyrstu skref á vinnumarkaði. Starfið var fjölbreyttara en það kann að hljóma, við seldum ís og pulsur, snakk og bland í poka, og leigðum vídjóspólur og síðar DVD-diska. Síðan þurfti að fylla á, pússa glerið og halda öllu hreinu. Það var nánast alltaf brjálað að gera og sjoppan iðaði af lífi. Stundum var ég svo þreytt eftir vaktir að ég settist upp um miðjar nætur og spurði út í tómið „get ég aðstoðað?“.
Ég vann í sjoppunni með skóla og á sumrin í mörg ár. Og núna, aldarfjórðungi síðar, er ég enn að hitta fólk sem segist kannast við mig og spyr hvort ég hafi ekki unnið í sjoppunni í Mosó.

VR-ingar, nýtið atkvæðisréttinn
Þessari grein var ætlað að vera smá kosningaáróður, þar sem ég gef nú kost á mér til áframhaldandi setu sem formaður VR. Þess í stað rann greinin niður slóð minninganna! En mig langar samt að hvetja alla VR-félaga í Mosfellsbæ til að nýta atkvæðisrétt sinn í félaginu og kjósa bæði formann og stjórn. Og ekki þætti mér verra ef „konan“ í sjoppunni fengi ykkar atkvæði!

Kosning stendur yfir frá 6. mars kl. 10 og fram á hádegi 13. mars. Allar nánari upplýsingar um mig eru inni á halla.is og upplýsingar um kosninguna eru á vr.is. Svo fáum við okkur bland í poka fyrir afganginn.

Halla Gunnarsdóttir
Formaður VR og fyrrum sjoppukona í Mosó

Opið bréf til sóknarnefndar

Már Karlsson

Haustið 2023 réðist organisti til sóknarinnar sem mikils var vænst af. Það má síðan ljóst vera að sóknarnefndin hafði því miður ekki kynnt sér sem skyldi fyrri störf umsækjandans, sem virðast að jafnaði hafa staðið stutt á hverjum stað.
Ástæður þess hafa orðið okkur ljósari sem tökum þátt í kórstarfi kirkjunnar eftir því sem tíminn hefur liðið. Kórfélagar hafa ekki áður kynnst svo miklu áhugaleysi og slælegri ástundun nokkurs fyrirrennara hans.

Undirritaður gekk á fund prestanna sl. haust og reyndi með því að hjálpa til við að starfsemin kæmist í betra horf. Greindi þeim frá því að þjónusta organistans við kirkjukórinn væri langt frá því að vera viðunandi. Ekki væri einleikið hversu oft æfingar væru felldar niður.
Það er ekki frekar af því að segja en að mér var fálega tekið og þótti mér afar miður að vera vændur um ósannindi. Aðvörun mín hefur greinilega að engu verið höfð til að bæta starfið.

Út yfir alla þjófabálka tók þó þann 11. febrúar sl. en þann dag boðaði organisti til æfingar en þá höfðum við ekki séð hann síðan 5. janúar. Engin varð æfingin. Nei. Hann lýsti því hvernig honum hefði ekki tekist að ná þeim árangri með kórinn sem hann vænti.
Í stað þess að taka sig á við æfingar og halda þær reglulega eins og í kjarasamningi er ráð fyrir gert þá lýsti hann því yfir að hann legði kórinn niður!
Í framhaldinu spurði hann síðan hvort við værum samt ekki tilbúin að syngja fram á vorið, svo sem þrjá mánuði í viðbót og verða blessuð í lokin. Virðingarvert og vel boðið það? Svar félaganna við því hefur verið nokkuð í þá veru sem einn kórfélaginn sagði: „Ég er ekki tilbúinn að leggjast á höggstokkinn og syngja þar til öxin fellur.“

Framkoma þessa manns er með ólíkindum. Hann er ráðinn til safnaðarins til þess að styðja og styrkja safnaðarstarf og greidd laun úr safnaðarsjóði – þ.e. af safnaðarbörnum – en telur sig þess umkominn að vísa hópi þeirra frá starfi með söfnuðinum. Hópi safnaðarbarna sem iðulega eru uppistaða þeirra er messur sækja. Og hvers vegna skyldi það vera?
Ástundun hans gefur ekki annað til kynna en það sé fyrst og fremst til þess að komast undan vinnuskyldu, erfiðinu við að halda kóræfingar vikulega.

Með því að bera sig aumlega síðastliðið haust lét sóknarnefnd eftir organistanum að spila ekki nema hluta þeirra sunnudaga er samningar organista og þjóðkirkunnar kveða á um. Einsdæmi? Hver varð skerðing á starfshlutfalli við það? Einnig er gert ráð fyrir kórstarfsemi sem föstum lið í fyrrgreindum samningi. Hvaða hugmyndir skyldu vera um starfshlutfallsminnkun við að losna undan kóræfingum?
Mér hefur í engu verið svarað erindi til sóknarnefndar sem ég sendi 17. febrúar. Þar sem svo tregt hefur verið um svör hef ég sent biskupi afrit af bréfinu. Geri það samvisku minnar og réttlætis vegna í þeirri trú að þar megi vera stuðningur við almennt safnaðarstarf sóknarbarna.
Svar hefur borist um að framkvæmdastjóri biskupsstofu og biskupsritari muni boða til fundar með prófasti. Hlutverk prófasts er m.a. að hafa tilsjón með kirkjulegu starfi og annast sáttaumleitanir þar sem vígðum jafnt sem leikum hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli eins og það er orðað í starfsreglum þjóðkirkjunnar.

Þeirri mikilvægustu spurningu sem komið hefur upp í hugann er hér varpað fram hvort sóknarnefnd telji hlutverk sitt vera fyrst og fremst að gæta hagsmuna starfsmanna fremur en að styðja við hið almenna safnaðarstarf með þátttöku safnaðar. Ef svo skyldi vera má spyrja hvort kirkju- og safnaðarstarf sé orðið fyrst og fremst fyrir starfsfólk til þess að hafa af því atvinnu?

Að endingu fer ég fram á að sóknarnefnd Lágafellssóknar taki til málefnalegarar umfjöllunar erindi sem til hennar hefur verið beint og svari mér, sóknarbarni til 42 ára, er nú í fyrsta sinn hefur sent henni umkvörtunarbréf.

Már Karlsson