Fjórða fjárhagsáætlunin

Anna Sigríður Guðnadóttir

Bæjarstjórn hefur nú afgreitt síðustu fjárhagsáætlun yfirstandandi kjörtímabils. Í því snúna rekstrarumhverfi sem sveitarfélögin búa við er niðurstaða áætlunarinnar góð eða 557 milljónir fyrir A og B hluta.
Mikilvægt er að rekstur bæjarsjóðs er ekki háður byggingarréttargjöldum sem er einsdæmi á höfuðborgarsvæðinu. Með fjárhagsáætluninni fylgir einstaklega yfirgripsmikil og skýr greinargerð sem geymir mikið magn áhugaverðra og aðgengilegra upplýsinga um reksturinn og viðfangsefnin sem starfsfólk sveitarfélagsins fæst við alla daga. Við hvetjum bæjarbúa til að skoða hana.
Meirihluti B, S og C lista er stoltur af þessari fjárhagsáætlun og þeirri góðu vinnu sem starfsfólkið undir stjórn bæjarstjóra hefur lagt í hana og séð til þess að markmið okkar um ábyrgan rekstur næðust án skerðingar á þjónustu.

Tekjur og útgjöld
Tekjur sveitarfélaga eru fyrst og fremst samsettar af útsvarsgreiðslum íbúa, framlagi frá Jöfnunarsjóði, fasteignasköttum og lóðarleigu. Fyrir þessa fjármuni er þjónusta sveitarfélagsins rekin. Það var sérstaklega tvennt sem reyndist sérstök áskorun við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Annars vegar lækkuð framlög frá

Halla Karen Kristjánsdóttir

Jöfnunarsjóði sveitarfélaga um 100 milljónir og hins vegar launahækkanir skv. kennarasamningum sem urðu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hvoru tveggja fylgdu úrlausnarefni sem bæjarstjóri og hennar góða fólk leysti farsællega.
Stærsti hluti útgjalda bæjarsjóðs fer í rekstur leik- og grunnskóla og velferðarmála en heildar rekstrarútgjöld til málaflokka sveitarfélagsins eru áætluð um 19,6 milljarðar króna. Áfram mun Mosfellsbær leggja áherslu á traustan rekstur með áherslu á börn og barnafjölskyldur, lýðheilsu bæjarbúa, íþróttir og almenna virkni og velferð íbúa á öllum aldri.

Framkvæmdir
Við höldum áfram nauðsynlegum og metnaðarfullum framkvæmdum. Mikil innviðaskuld blasti við okkur í upphafi kjörtímabilsins og við höfum markvisst unnið að því að greiða niður þá skuld og höldum því áfram. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar sem þær framkvæmdir hafa kallað á hefur okkur tekist á kjörtímabilinu að lækka skuldaviðmiðið í 102% úr 106,6% sem er það stóð í þegar við tókum við.
Áætlað er að framkvæma fyrir um 4 milljarða króna á árinu 2026. Þar má t.d. nefna til sögunnar áframhaldandi endurgerð og endurbætur á leikvöllum og skólalóðum. Þá verður lokið við umfangsmiklar endurbætur á Varmárskóla. Skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni verður opnuð á árinu sem og fjölskylduheimili fyrir börn.

Lovísa Jónsdóttir

Bygging og rekstur nýrrar þjónustu- og aðkomubyggingar að Varmá verður boðin út, en þess má geta að 37% af heildarfjárfestingum fara í íþrótta- og tómstundamannvirki. Að auki verða síðan umfangsmiklar veitu- og gatnaframkvæmdir í takti við vaxandi íbúafjölda.

Forgangsröðun
Það er ekki hægt að gera allt á sama tíma og það er heldur ekki hægt að uppfylla vonir og væntingar allra alltaf. Kjörnir fulltrúar verða því að þora að forgangsraða, taka ákvarðanir og standa við þær. Samtímis þarf að vera sveigjanleiki til að bregðast við óvæntum úrlausnarefnum af yfirvegun og skynsemi.
Meirihluti B, S og C lista er gríðarlega stoltur af þeirri forgangsröðun sem hann hefur unnið eftir á kjörtímabilinu. Börnin og þeirra fólk hafa verið í forgrunni hjá okkur. Verkefni eins og „Börnin okkar“ hafa vakið verðskuldaða athygli víða og mun þeim verða haldið áfram. Ákvörðun um að taka rekstur Hlégarðs aftur til bæjarins hefur sannað sig og hleypt krafti í menningarlífið.
Lýðheilsa, málefni sem snertir einstaklinga á öllum aldri og samfélagið allt, hefur verið rauður þráður í uppbyggingu heilbrigðs og fjölskylduvæns samfélags sem tekur utan um alla.

Við kveðjum árið 2025 með stolti í hjarta og horfum bjartsýnar mót hækkandi sól. Mosfellingum öllum sendum við okkar bestu jóla- og nýárskveðjur.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Reykjalundur 80 ára

Birgir D. Sveinsson myndritstjóri bókarinnar, Pétur Bjarnason höfundur og Bjarki Bjarnason ritstjóri. Ljósmynd: Pétur Magnússon.

Út er komin saga Reykjalundar í veglegri og ríkulega myndskreyttri bók. Pétur Bjarnason, fyrrum skólastjóri í Varmárskóla, er höfundur hennar, hann hefur áður ritað sögu SÍBS sem kom út árið 2013.
Saga Reykjalundar er mikil og merkileg, upphafið má rekja til ársins 1945 þegar starfsemin hófst í hermannabröggum á eyðilegum mel í landi Suður-Reykja í Mosfellssveit. Þá hafði berklaveiki herjað á landsmenn um áratugaskeið en Reykjalundur átti drjúgan þátt í að sigur hafðist í þeirri baráttu.
Frá fyrstu tíð var litið á Reykjalund sem vinnuheimili, berklar og aðrir sjúkdómar áttu ekki að dæma fólk til iðjuleysis, allir gátu starfað eitthvað, miðað við getu sína. Pétur Bjarnason nefnir þetta í formála bókarinnar og skrifar: „Saga berklaveiki og berklavarna á Íslandi er athyglisverð. Vífilsstaðahæli, Kópavogshæli, Kristneshæli og Reykjahæli í Ölfusi voru byggð á árunum 1910-1931. Fyrrum berklasjúklingar mættu miklum fordómum vegna ótta við smit og þeir áttu margir erfitt með að fá atvinnu. Því voru settar á stofn vinnustofur á öllum þessum berklahælum með áform um að endurhæfa berklasjúklinga eftir lækningu. Hvergi tókst það eins og til stóð vegna ásóknar í sjúkrahúsrými fyrir berklaveika.
Þegar SÍBS stóð að stofnun Vinnuheimilisins að Reykjalundi í febrúar 1945 var strax ákveðið að starfsemin þar myndi ekki fara á sömu leið. Ákvæði var sett í reglugerð sem kvað á um að ef vistmaður veiktist á ný skuli vísa honum á viðeigandi sjúkrahús. Að fengnum bata átti hann forgang að vistun á ný. Þetta var lykillinn að því að Reykjalundur var frá upphafi og alla tíð endurhæfingarstofnun en ekki enn eitt berklahælið.“

Bókin um sögu Reykjalundar skiptist í tíu kafla, þeir heita til dæmis:
Brugðist við berklaveikinni.
Reykjalundarheimilið.
Frá vinnuheimili að verksmiðjurekstri.
Reykjalundur. Endurhæfing ehf.
Reykjalundur eftir áttatíu ára starf.
Við gerð bókarinnar lögðu margir hönd á plóg, auk höfundarins. Bjarki Bjarnason var ritstjóri verksins, Birgir D. Sveinsson myndritstjóri og Eyjólfur Jónsson annaðist umbrot bókarinnar. Magnús B. Óskarsson sá um kápuhönnun, Ýr Þórðardóttir las prófarkir og Raggi Óla tók margar ljósmyndir í bókina, þar meðal afar fallega forsíðumynd. Í ritnefnd bókarinnar sátu Jónína Sigurgeirsdóttir, Pétur Magnússon og Rósa María Guðmundsdóttir.
Reykjalundur. Endurhæfing í 80 ár fæst í öllum helstu bókaverslunum landsins, einnig á Reykjalundi og skrifstofu SÍBS.

Birgir D. Sveinsson, Bjarki Bjarnason og Pétur Bjarnason

Heima er best

Ýmir Örn Hafsteinsson

Kæru Mosfellingar, bærinn okkar er einstakur staður.
Hann umvefur okkur öll hvort sem við erum einstaklingar, fjölskyldufólk með börn, ungt fólk á leið út í lífið úr foreldrahúsum eða eldri kynslóðin sem ætlar að eiga hér áhyggjulaust ævikvöld. Það er þó margt sem þarf að huga að þegar samfélagið vex svona hratt. Ég vil tala sérstaklega um einn málaflokk sem skiptir okkur öll máli, það eru húsnæðismálin.
Mosfellsbær er eitt eftirsóttasta sveitarfélag landsins. Hér býr sterkt samfélag, þjónusta sem í boði er til fyrirmyndar og þetta rammar inn falleg náttúra sem er hér allt um kring.
Einmitt í þessu umhverfi kjósa fjölmargir að ala börnin sín upp.
Við vitum hins vegar öll að húsnæðismál í Mosfellsbæ eru og verða áskorun, rétt eins og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Ungt fólk stendur frammi fyrir verulega krefjandi húsnæðismarkaði.
Staðan er engu síður sú að hér er verið að byggja gríðarlegt magn af íbúðum sem ber að fagna, enda liggur í augum uppi að það þarf að byggja meira vítt og breitt um allt land.
Þótt jákvæð teikn séu í kortunum eigum við að stefna enn hærra að mínu mati, Framsókn hefur sýnt metnað í uppbyggingu húsnæðis víðsvegar um landið en ég veit að flokkurinn hefur meiri metnað og stærri sýn á húsnæðismarkaðinn og vill gera enn betur.
Það sem hefur mikil áhrif og gæti skipt sköpum í húsnæðismálum er einföldun regluverks við uppbyggingu húsnæðis. Við eigum að setja aukinn þunga í baráttu fyrir umbótum í þeim málum en það er einmitt þetta íþyngjandi regluverk sem tefur einfaldlega fyrir aukinni uppbyggingu.
Ungt fólk á rétt á því að eiga möguleika á að eignast sitt eigið húsnæði og á ekki að þurfa að horfa upp á að það markmið sé nær óyfirstíganlegt eins og staðan er í dag. Ungt fólk vill fara út í lífið og jafnvel stofna fjölskyldu og búa í sínum heimabæ. Við í Framsókn höfum talað fyrir því að einfalda regluverk og auðvelda ungu fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn án þess að það hafi í för með sér allar þær flækjur sem við verðum að sætta okkur við í dag.
Framsókn er flokkur fyrir ungt fólk sem á sér draum um sitt eigið húsnæði.

Ýmir Örn Hafsteinsson,
stoltur Mosfellingur og viðburðastjóri Sambands ungra Framsóknarmanna.

Ævisaga séra Braga Friðrikssonar komin út

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Hann ólst upp í Mosfellssveit og ítarlega er fjallað um uppvöxt hans í bókinni
Á dögunum var bókin Séra Bragi – ævisaga gefin út; umfangsmikil ævisaga séra Braga Friðrikssonar, fyrsta heiðursborgara Garðabæjar og eins áhrifamesta prests landsins á sinni tíð.
Ævisaga séra Braga Friðrikssonar er stórbrotin saga brautryðjanda og hugsjónamanns. Hann fæddist við erfiðar aðstæður, gekk í gegnum djúpar raunir en reis upp og hafði mikil áhrif á samtíð sína og framtíð.
Séra Bragi Friðriksson kom víða við á langri ævi. Hann fæddist utan hjónabands árið 1927 og fór milli fósturheimila á Ísafirði, í Mosfellssveit, Miðfirði, á Siglufirði og Akureyri.

Að alast upp í Mosfellssveit
Bragi ólst upp á Sólvöllum í Mosfellssveit að hluta, en í bókinni er sagt ítarlega frá tíma hans þar. Bragi lýsti uppvexti sínum í Mosfellssveit með ítarlegum hætti á segulbandsupptöku sem hann skildi eftir fyrir niðja sína og vini. Þar lýsir hann mannlífinu í Reykjahverfinu en upptakan er ómetanleg heimild um Mosfellssveit á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar og hvernig barnsaugað leit lífið þá.
Síðar flutti Bragi annað, gekk síðan í Menntaskólann á Akureyri, missti tvö börnin sín, veiktist alvarlega af Akureyrarveikinni og hræddist um líf sitt, en hét Guði á sjúkrabeði sínum að helga líf sitt honum ef hann fengi að lifa.
Hann nam guðfræði við Háskóla Íslands, en á námsárum hans kenndi hann einnig við Brúarlandsskóla í Mosfellssveit og er ítarlega fjallað um þann tíma í bókinni.
Bragi var einnig einn fremsti frjáls­íþróttamaður þjóðarinnar á sínum tíma, sló fjölda drengjameta og Íslandsmet, einkum í kúluvarpi og kringlukasti. Eitt meta hans stóð í 56 ár.
Maður sem reis úr mótlæti
og varð öðrum leiðarljós
Hann vígðist fyrstur íslenskra presta til prestsþjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada og þjónaði þar frá 1953-1956. Ítarlega er fjallað um tíma hans þar í bókinni. Hann kom síðan heim og var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri Æskulýðsráðs Reykjavíkur þar sem honum var fengið það hlutverk að skipuleggja æskulýðsstarf borgarinnar og þar með þjóðarinnar allrar frá grunni.

„Faðir Garðabæjar“
Séra Bragi flutti síðan í Garðahreppi og varð þar stafnbúi, stofnaði Ungmennafélagið Stjörnuna og kom að stofnun fleiri félaga, var formaður skólanefndar og æskulýðs- og leikvallanefndar, og kom sem slíkur mjög að þróun skóla- og æskulýðsmála í hreppnum. Hann var nefndur „faðir Garðabæjar“ og útnefndur fyrsti heiðursborgari bæjarins árið 2001. Hann var prestur í Garðaprestakalli, sem samanstóð af Garðasókn, Bessastaðasókn og Kálfatjarnarsókn, frá 1966-1997.

Hann breytti skipan kirkjunnar – margir vildu hann sem biskup
Séra Bragi var á meðal fremstu þjóna kirkjunnar, hann var umbreytingarmaður sem breytti skipulagi hennar með störfum sínum sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Hann var aðalhvatamaður að stofnun Hjálparstofnunar kirkjunnar og sat á kirkjuþingi um árabil. Margir vildu sjá hann sem biskup, meðal annars Sigurbjörn Einarsson biskup, en séra Bragi vildi það ekki og sagði einfaldlega: „Maður fer ekki frá Garðaprestakalli.“
Séra Bragi – ævisaga fæst í verslunum Pennans Eymundsson, Hagkaup Garðabæ, Kirkjuhúsinu, Bókabúð Forlagsins og á www.serabragi.is

Hrannar Bragi Eyjólfsson

Því það skiptir mig máli

Jana Katrín Knútsdóttir

Það er farið að síga á seinni hluta líðandi kjörtímabils. Ég kom ný inn í starfið fyrir að verða fjórum árum síðan og þegar ég horfi til baka, vissi ég lítið út í hvað ég var að fara. Lærdómsbrekkan var brött í fyrstu og ég einbeitti mér að því að komast inn í bæði málefnin og starfið sjálft.
Á þessum tíma sem hefur liðið hef ég öðlast dýrmæta reynslu og lærdóm og er enn að læra. Ég hef einnig kynnst góðum og fjölbreyttum hópi fólks. Öll höfum við eitthvað til brunns að bera. Við erum öll ólík, með ólíkar skoðanir, markmið og áherslur og ekki síst með ólíkar aðferðir að hlutunum. Það sem við, sem gefum kost á okkur í starfið, eigum hins vegar sameiginlegt, er að okkur er ekki sama um samfélagið okkar og erum tilbúin að leggja tíma okkar og vinnu til að tryggja það og bæta.
Það sem ég hef einnig lært, er að starf bæjarfulltrúa er ekki einstaklingsíþrótt. Ef ég held mig við samlíkinguna við íþróttaheiminn, þá mætti segja að um hópíþrótt sé að ræða, þar sem þú þarft jafnvel að spila í liði með andstæðingunum. Þar af leiðir að við sem einstaklingar þurfum oft á tíðum að gera málamiðlanir og spila með öllum hópnum til þess að ná árangri. Árangri fyrir bæinn okkar, sem er það sem skiptir okkur öll mestu máli. En það er einmitt vegna væntumþykju í garð heimabæjar míns sem ég hef tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér í áframhaldandi starf í þágu bæjarins með þátttöku í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í byrjun næsta árs.
Í Mosfellsbæ ólst ég upp og er svo lánsöm ala börnin mín upp. Mosfellsbær hefur óteljandi kosti og ákveðna sérstöðu sem sveit í borg, með náttúruna, fjöllin og fuglalífið allt um kring. Það skiptir mig máli að hér sé og verði áfram gott að búa en til þess þarf að huga m.a. að þeim þáttum sem snerta velferð fjölskyldna og íbúa bæjarins. Huga þarf að aðgengi að þjónustu og afþreyingu, aðgengi að öflugu og vönduðu íþrótta- og tómstundastarfi og viðeigandi stuðningi fyrir þá nemendur sem þurfa á sértækum úrræðum að halda á öllum skólastigum.
Mig langar að halda áfram að leggja mitt af mörkum til að vinna að hagsmunum bæjarins og bæjarbúa til framtíðar.

Jana Katrín Knútsdóttir,
bæjarfulltrúi og frambjóðandi í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2026

Ásgeir Sveinsson

Meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur samþykkt sína síðustu fjárhagsáætlun á þessu kjörtímabili.
Meirihlutinn er ánægður með niðurstöðuna sem þau telja að sé jákvæð og að reksturinn sé á traustum grunni. En þegar tölurnar eru rýndar, þá blasir við önnur mynd sem við fulltrúar D-lista í bæjarstjórn teljum mikilvægt að varpa ljósi á svo íbúar fái skýra mynd af stöðu mála, án jólaskreytinga og fallegra umbúða.

Ósjálbær grunnrekstur
Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir 557 m.kr. rekstrarafgangi A- og B-hluta, en afgangur A-hluta er einungis 254 milljónir króna. Enn eitt árið byggir hann nánast að öllu leyti á einskiptistekjum vegna lóðasölu og byggingaréttar sem er áætlaður 250 milljónir á næsta ári.
Þetta er fjórða árið í röð sem afgangur A-hluta byggir á þessum ótryggu einskiptistekjum og það liggur því fyrir að núverandi meirihluti hefur rekið sveitarfélagið með ósjálbærum hætti allt kjörtímabilið. Það er því rangt að tala um sjálfbæran rekstur þegar staðan er með þessum hætti.

Óraunhæfar forsendur
Rekstrarniðurstaðan í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2026 byggir á forsendum um 3,5% verðbólgu og vaxtalækkunum á árinu 2026.
Það eru forsendur sem eru vægast sagt ótryggar miðað við stöðu efnahagsmála og það má mjög lítið út af bregða til þess að rekstur bæjarfélagsins verði mun verri á næsta ári en fyrirliggjandi fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Þetta getur ekki talist ábyrg fjármálastjórn.

Auknar skuldir og lántökur
Skuldaviðmið A- og B-hluta er áætlað 102% í árslok 2026 og hefur það hækkað jafn og þétt allt kjörtímabilið. Samkvæmt langtímaáætlun meirihlutans mun skuldaviðmið halda áfram að hækka á næstu árum. Álögur á íbúa halda áfram að hækka og þá sérstaklega fasteignagjöld sem hafa hækkað mikið síðustu árin og mun meira en í öðrum sveitarfélögum. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur Mosfellsbæjar séu hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Rekstrargrunnur sveitarfélagsins er ekki góður og höfum við fulltrúar D-lista í minnihluta í bæjarstjórn bent ítrekað á þessi atriði undanfarin ár í umræðum um fjárhagsáætlun og einnig á að óhjákvæmilegt er að hagræða í rekstri sveitarfélagsins.
Ábendingar okkar hafa ekki fengið mikinn hljómgrunn eins og tölurnar gefa til kynna.

Hækkun á gjaldskrám
Gjaldskrár sveitarfélagsins og álögur á íbúa munu áfram hækka á næsta árum og leikskólagjöld munu hækka um 9,5% sem er langt umfram vístöluhækkun sem er 3,5%.
Fulltrúar meirihlutans hafa verið duglegir í ræðu og riti undanfarið að benda á þessar hækkanir á leikskólagjöldum séu ekki miklar að þeirra mati, auk þess sem leikskólagjöld séu með því lægsta sem þekkist í Mosfellsbæ. Það er rétt að leikskólagjöldin eru lág í Mosfellsbæ því það var stefna síðasta meirihluta D-lista og Vinstri Grænna að halda þeim lágum.
Þó að fulltrúum meirihlutans finnist þetta ekki mikil hækkun þá er það staðreynd að þessi hækkun þýðir að foreldrar leikskólabarna í Mosfellsbæ munu greiða sem nemur einum aukamánuði í leikskólagjöld á árinu 2026 miðað við líðandi ár og það munar um minna.
Ungir foreldrar í Mosfellsbæ munu finna umtalsvert fyrir þessari hækkun og það er ekki góð forgangsröðun hjá meirihlutanum að hækka gjöld á fjölskyldur svona mikið. Við fulltrúar D-lista sögðum nei við afgreiðslu málsins og lögðum fram tillögu við þessa fjárhagsáætlanagerð að þessi hækkun myndi ekki ná fram að ganga en sú tillaga var felld af fulltrúum meirihlutans

Bólgin framkvæmdaáætlun
Framkvæmdaáætlun fyrir árið 2026 er 4.160 milljónir króna. Það er mjög há upphæð, miðað við skuldsetningu og rekstrarstöðu bæjarins. Að okkar mati hefði verið eðlilegra að hagræða í rekstri, endurskoða forgangsröðun framkvæmda og hægja tímabundið á verkefnum.
Engar slíkar aðgerðir liggja fyrir í þessari fjárhagsáætlun. Engin markviss áætlun um hagræðingu, hvorki gagnvart framkvæmdum, starfsmannfjölda né launakostnaði sem hefur hækkað umfram launavísitölu.

Tryggja þarf sjálbæran rekstur
Það er gott að búa í Mosfellsbæ og það er margt gott í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun og við viljum öll sjá Mosfellsbæ vaxa og dafna og veita íbúum sem besta þjónustu. En forsendur þess að bærinn haldi áfram á réttri braut er að rekstur sé traustur, núverandi fjárhagsáætlun er ekki byggð á traustum grunni og er það áhyggjuefni.
Við fulltrúar D-lista viljum vinna með meirihlutanum að hagræðingu og ábyrgum lausnum og tryggja sjálbæran rekstur sveitarfélagsins og erum við tilbúin til þess hér eftir sem hingað til.

Ásgeir Sveinsson
Bæjarfulltrúi
Oddviti D-lista

Jólahugvekja Frá framsókn

Kæru Mosfellingar
Gjöf jólanna er hóværð, mildi og mannúð. Í okkar samfélagi er aðventan tíminn þar sem borgir og bæir eru skreytt sínu fegursta og ilmur jólanna liggur í loftinu.
Almenningur, fyrirtæki og opinberir aðilar sameinast allflestir í því að skreyta hús sín og næsta nágrenni með ýmiskonar ljósaskreytingum.
Jólalög hljóma úr hverju horni, jólatónleikar eru út um allt og fólk er að hittast og gleðjast saman. Það passar eitthvað svo vel að hafa einn af myrkustu mánuðum ársins baðaðan í öllum þessum fallegu ljósum, skreytingum og boðskap sem lýsa upp dagana og baða okkur í birtu og yl.
Þótt tilhlökkun sé mikil til aðventu og jóla hjá mörgum og þessi mánuður sveipaður dýrðarljóma þá er gott að minna sig á að það hlakka ekki allir til jólanna. Margir glíma við að hafa misst ástvin sem er ekki með þeim nú um jólin, aðrir hafa ekki stóra fjölskyldu í kringum sig og eru einmana og enn aðrir eru í vandræðum vegna fjárhagsvanda og það er mikill kvíði yfir þessum oft svo dýra mánuði.
Því er mikilvægt að minna sig á að huga vel að náunganum og það er auðvitað mikilvægt alveg sama í hvaða mánuði það er, gefa af sér, sýna vingjarnlegt viðmót og vera til staðar.
Mikilvægt er einnig að gera góðverk og hjálpa til. Já, það er eitt það besta sem maður getur gert til þess að gleðja aðra sem og sig sjálfan.
Okkur í Framsókn langar að óska ykkur kæru sveitungar gleðilegra jóla, hamingju og góðrar heilsu á nýju ári
Eigið góða daga og megi gæfan umvefja ykkur.

Með jólakveðju, bæjarfulltrúar og stjórn Framsóknar í Mosfellsbæ

Nýr Varmárvöllur: Uppbygging sem markar tímamót í íþróttaaðstöðu Mosfellsbæjar

Kjartan

Uppbygging Varmárvallar hefur á undanförnum misserum verið eitt umfangsmesta verkefni í íþróttaaðstöðu Mosfellsbæjar og markar tímamót í þjónustu við knattspyrnu, frjálsar íþróttir og almenna hreyfingu í bænum.
Völlurinn hefur verið endurhugsaður frá grunni með það að markmiði að skapa aðstöðu sem standist bæði íslenskar kröfur og alþjóðleg viðmið sem geti þjónað íbúum Mosfellsbæjar til framtíðar.

Gervigrasið á aðalvellinum hefur nú verið lagt og mótar ásýnd svæðisins með skýrum hætti. Nýr völlur, með keppnisvelli á stærð sem uppfyllir reglur um fullbúinn knattspyrnuvöll, hefur tekið á sig glæsilega mynd. Þar að auki hefur verið unnið að lagningu hitalagna undir völlinn til að tryggja að hægt sé að nýta aðstöðuna á vetrarmánuðum.
Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki um leið og veðurfar gefur tilefni til og að völlurinn verði tekinn í notkun fljótlega í kjölfarið.

Eitt athyglisverðasta framfaraskref uppbyggingarinnar er nýtt flóðljósakerfi. Ljósin voru tendruð í fyrsta sinn fyrr í vetur og ná birtustigi upp á 800 lux, sem uppfyllir kröfur Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA) fyrir leiki á Evrópustigi. Aðeins Laugardalsvöllur hefur hærra birtustig á landinu. Allt frá upphafi hefur hönnun vallarins miðað að því að skapa aðstöðu sem geri Mosfellsbæ að raunhæfum leikstað í framtíðinni fyrir alþjóðlega viðburði, samhliða því að styrkja grunninn að knattspyrnustarfi bæjarins.

Annar eins metnaður fyrir knattspyrnuhreyfingunni hefur ekki sést hér áður í Mosfellsbæ fullyrði ég. Stórt hrós til meirihlutans fyrir þessar metnaðarfullu aðgerðir. Loksins segi ég bara! Áratugum saman hafði knattspyrnan, fjölmennasta íþróttahreyfingin, einfaldlega setið aftarlega á forgangslistanum hjá stjórnvöldum. Með nýjum meirihluta tókst þetta hins vegar, knattspyrnan komst á dagskrá ásamt allri íþróttahreyfingunni. Fyrir kosningar talaði Framsókn fyrir lýðheilsusjónarmiðum og að uppbygging íþróttamannvirkja verði metnaðarfull og svari þörfum starfseminnar sem þar fer fram; flokkurinn hefur sýnt að honum er treystandi því hann hrindir stefnu í framkvæmd. Það er ekki sjálfgefið hjá stjórnmálaflokkum.

Framkvæmdir á frjálsíþróttasvæðinu norðan við gervigrasvöllinn eru einnig stór þáttur í verkefninu. Þar verður komið upp nýrri og nútímalegri aðstöðu fyrir frjálsíþróttir, en leggja þarf yfirborðsefni í þurru og hlýju veðri. Því liggur fyrir að þeirri vinnu verður ekki lokið fyrr en í vor. Þegar öllu svæðinu verður lokið verður til samfelld íþróttamiðstöð sem þjónar bæði boltaíþróttum og einstaklingsíþróttum á faglegan og fjölbreyttan hátt.

Með uppbyggingu Varmárvallar sýnir Mosfellsbær fram á skýra framtíðarsýn í þróun íþróttaaðstöðu. Hér er ekki verið að horfa örfá ár fram í tímann heldur hundrað ár, slíkur er metnaðurinn í framkvæmdinni. Bærinn er að búa til innviði sem gera íþróttafólki kleift að æfa við bestu mögulegu skilyrði allt árið um kring og tryggja að börn og ungmenni hafi örugga, vandaða og aðgengilega aðstöðu til afreks- og grunnæfinga. Slíkar framkvæmdir hafa víðtæk samfélagsleg áhrif; þær efla félögin í bænum, stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum og skapa vettvang sem styrkir félagsleg tengsl og heilsueflingu til lengri tíma.

Varmárvöllur er því ekki einungis nýr völlur. Hann er fjárfesting í framtíð íþróttastarfs í Mosfellsbæ, í uppbyggingu sterkra félaga og í því að skapa skilyrði þar sem íbúar á öllum aldri geta notið hreyfingar og íþrótta í góðu og öruggu umhverfi. Þetta er stór áfangi fyrir bæinn og mikilvægt skref í áframhaldandi þróun hans sem öflugs og framsækins íþróttabæjar.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna

Skýr sýn fyrir Mosfellsbæ

Bylgja Bára Bragadóttir

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ þann 31. janúar 2026.
Mosfellsbær stendur á tímamótum og fram undan eru stórar ákvarðanir sem varða atvinnuuppbyggingu, húsnæðismál og þjónustu við íbúa. Slík verkefni krefjast skýrrar sýnar, ábyrgra ákvarðana og vandaðrar stjórnsýslu sem byggir á trausti og festu.

Sterk samfélög byggjast á samvinnu
Rætur mínar liggja í minni samfélögum. Ég fæddist í Grundarfirði og ólst upp að hluta til á Ísafirði. Þar lærði ég snemma að samfélag er meira en hús og innviðir, það er fólkið sem stendur saman þegar á reynir. Í Grundarfirði kynntist ég mikilvægi samheldni og ábyrgðar, ekki síst þegar bæjarfélagið stóð við bakið á fjölskyldu minni eftir að faðir minn lést skyndilega í sjóslysi. Sú reynsla kenndi mér að samhugur og umhyggja skipta máli þegar á reynir.
Sterkt sveitarfélag er það sem sér alla íbúa, hlustar á ólíkar raddir og byggir ákvarðanir á samvinnu, trausti og gagnkvæmri virðingu. Samfélag þar sem enginn stendur einn og allir skipta máli.
Mosfellsbær er fjölskylduvænt og framsækið bæjarfélag þar sem lögð er rík áhersla á heilsu, umhverfi og velferð íbúa. Hér ríkir sterk samfélagskennd, öflugt félagslíf og tækifæri til þátttöku í fjölbreyttu íþrótta- og menningarstarfi. Bærinn er jafnframt „sveit í borg“ umkringdur náttúru og fjölbreyttum útivistarmöguleikum sem auka lífsgæði og styrkja tengsl fólks við umhverfið og hvert annað.

Reynslan skiptir máli
Ég hef starfað sem stjórnandi í hátt í 20 ár þar sem ábyrgð, fagmennska og mannleg samskipti hafa verið í forgrunni. Sú reynsla hefur kennt mér að góð forysta byggist á skýrum markmiðum, ábyrgum ákvörðunum og virku samtali við fólk. Í framboði mínu legg ég áherslu á að styðja sterka forystu, vinna af heilindum og vera málefnaleg og traust rödd skynsemi, samvinnu og framfara.
Öflugt félagslíf og sjálfboðastarf eru burðarstoðir sterks og lifandi samfélags. Ég hef verið virk í starfi Sjálfstæðisfélags Mosfellsbæjar og gegnt þar trúnaðarstörfum sem hafa kennt mér mikilvægi þess að hlusta og taka skýrar ákvarðanir. Jafnframt hef ég tekið þátt í sjálfboðastarfi, meðal annars í Þorrablótsnefnd Aftureldingar.
Árið 2011 keyptum við hjónin rekstur hér í bænum sem hafði staðið höllum fæti. Með markvissri vinnu tókst okkur að byggja hann upp á ný, bæta þjónustu og skapa störf í heimabyggð. Sú vegferð veitti mér dýrmæta sýn í mikilvægi góðra rekstrarskilyrða og skynsamlegra ákvarðana.
Frumkvæði og framkvæmdavilji hefur fylgt mér í gegnum lífið. Árið 2013 vann ég, ásamt vinkonu minni, frumkvöðlakeppni á vegum Íslandsbanka, Félags kvenna í atvinnulífinu og HR. Sú reynsla staðfesti að hugmyndir skipta máli en árangur næst þegar þær eru framkvæmdar af festu og ábyrgð.

Skýr framtíðarsýn
Næstu skref í uppbyggingu Mosfellsbæjar þurfa að byggjast á markvissri atvinnustefnu og fjölbreyttum húsnæðiskostum. Skapa þarf umhverfi sem laðar að fyrirtæki og gerir fólki kleift að vinna í heimabyggð. Jafnframt þarf að tryggja húsnæði sem mætir þörfum fólks á ólíkum skeiðum lífsins. Mosfellsbær á að vera staður þar sem fólk kýs að búa, ala upp börn sín, starfa og eldast. Til þess þarf skýra stefnu, raunhæfar lausnir og forystu sem nýtur trausts.
Ég vil leggja mitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar, stöðugleika og ábyrgra framfara í Mosfellsbæ.

Bylgja Bára Bragadóttir

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.
Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.
Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna
Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.
Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Lovísa Jónsdóttir

Jafnrétti og leikskólar
Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika
Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn
Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.
Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Af hverju barnvænt sveitarfélag?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Á mannréttindadegi barna, þann 20. nóvember síðastliðinn, hlaut Mosfellsbær viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.
Verkefnið barnvæn sveitarfélög byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var á allsherjarþingi þeirra árið 1989. Alþingi lögfesti samninginn árið 2013 og öðlaðist hann þá sömu stöðu og önnur löggjöf í landinu.
Verkefninu barnvæn sveitarfélög er ætlað að styðja sveitarfélög til að innleiða barnaréttindanálgun í stefnumótun sinni og ákvörðunum. Það er nefnilega þannig að án atbeina sveitarfélaga getur ríkisvaldið tæplega uppfyllt Barnasáttmálann þar sem það eru sveitarfélögin sem sinna að stærstum hluta þeim verkefnum sem hafa bein áhrif á daglegt líf barna á Íslandi. Með innleiðingu Barnasáttmálans samþykkja sveitarfélög að ákvæði hans verði sem rauður þráður í allri starfsemi þeirra og markvisst samráð og samstarf verði við börn og ungmenni varðandi þjónustu sveitarfélagsins.

Undirbúningur
Viðurkenningin byggir á gríðarlega mikilli og góðri vinnu starfsfólks Mosfellsbæjar og ekki síst barna og ungmenna. Skipaður var stýrihópur sem samanstóð af sviðsstjórum, kjörnum fulltrúum og fulltrúum frá ungmennaráði. Með stýrihópnum starfaði verkefnastjóri sem hélt öllum þráðum verkefnisins saman. Ungmennaráð Mosfellsbæjar hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúninginn og þátttaka þess verið lykilþáttur í að svo vel tókst til sem raun ber vitni.
Leiðin til viðurkenningar hefur verið löng en það var í janúar 2021 sem Mosfellsbær skrifaði undir samkomulag við félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu. Innleiðing verkefnisins skiptist upp í nokkur skref. Eitt af fyrstu skrefunum var að stýrihópurinn greindi stöðu mála varðandi börn í sveitarfélaginu með því að svara spurningalistum frá UNICEF. Sú vinna var mjög mikilvæg. Auðvitað kom í ljós að það voru ýmsir þættir sem við stóðum okkur ekki nógu vel í en það þýddi bara tækifæri til úrbóta og voru allir sem að vinnunni komu sammála um að það væri jákvætt. Það er nefnilega þannig að ef við viðurkennum ekki að eitthvað megi betur fara þá verður engin framþróun.

Aðgerðir
Langt innleiðingaferli barnvæns sveitarfélags sýndi mikilvægi sveigjanleika og aðlögunar að þeim tengdu verkefnum sem hófust á innleiðingartímanum. Á þessu kjörtímabili hafa verkefni tengd börnum og þeirra umhverfi verið umfangsmikil hjá okkur í Mosfellsbæ. Þrjú þau stærstu er Börnin okkar, innleiðing farsældar barna skv. lögum og lýðræðisverkefnið Krakkar Mosó. Nokkrar aðgerðir úr fyrrgreindum verkefnum urðu hluti af aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags.
Aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags, 31 aðgerð, sem viðurkenningin byggist á var umfangsmikil og metnaðarfull og leiddi af sér breytingar í þjónustu og verklagi innan sveitarfélagsins. Nokkrar þeirra eru: Lágþröskuldarþjónusta Bergsins, barnvænt hagsmunamat í nefndastarfi, Helgafellsskóli réttindaskóli UNICEF, íþróttaverkefni fyrir börn með fötlun, handbók fyrir ungmennaráð sem styrkir þátttöku þess innan stjórnsýslunnar, aukin ráðgjöf sálfræðinga innan skólanna, samtöl við ungmennaráð um umhverfis- og skipulagsmál sem eru í deiglunni. Stærsti viðburðurinn var Barna- og ungmennaþingið í apríl 2023 en þingið sóttu ríflega 90 nemendur 5.-10. bekkja grunnskóla. Ungmennaráð skipulagði þingstörf og var gestgjafi þingsins.
Við segjum oft að framtíðin sé barnanna en þegar betur er að gáð þá er dagurinn í dag barnanna. Ákvarðanir okkar snerta þau núna. Þess vegna er mikilvægt að raddir þeirra heyrist og að þau fái tækifæri til að taka þátt. Viðurkenningin sem barnvænt sveitarfélag er ekki bara rós í hnappagat Mosfellsbæjar, heldur líka og ekki síður fyrirheit um að við ætlum að halda áfram. Vegferðinni er ekki lokið, hún er nýhafin.
Fræðast má nánar um barnvæn sveitarfélög hér: www.barnvaensveitarfelog.is

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður stýrihóps um barnvænt sveitarfélag

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Sævar Birgisson

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.
Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.
Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.
Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.
Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.
Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.

Sævar Birgisson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Kjartan Helgi Ólafsson

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun.
Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: Almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:
• Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
• Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
• Hækka frístundastyrki.
• Styrkja starf félagsmiðstöðva.
• Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
• Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
• Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
• Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla.
Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.
Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru.
Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.
Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð.
Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: Að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.
Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu.
Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.
Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: Að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.
Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson,
Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Mosfellingar, tökum vel á móti iðkendum Aftureldingar

Hanna Björk Halldórsdóttir

Fjáröflun stendur yfir fyrir æfinga- og keppnisferðir erlendis
Á næstu vikum má búast við því að ungir og metnaðarfullir iðkendur Aftureldingar láti til sín taka víðs vegar um Mosfellsbæ. Iðkendur munu banka upp á heimili og bjóða ýmis konar vörur og þjónustu, allt til þess að safna fyrir væntanlegum æfinga- og keppnisferðum erlendis árið 2026.
Afturelding stendur sterkt í barna- og unglingastarfi, með um 2000 iðkendur á aldrinum 6–18 ára. Þar er því hvorki skortur á iðkendum né tækifærum – en ferðir af þessu tagi krefjast óhjákvæmilega töluverðs fjár og mikils skipulags. Því eru flokkarnir farnir á fullt skrið í að fjárafla.

Dýrmæt reynsla fyrir ungt fólk
Iðkendur telja æfinga- og keppnisferðir erlendis meðal hápunkta ársins. Þær kenna sjálfstæði, efla samvinnu, styrkja félagsfærni og skapa minningar sem fylgja þeim lengi. Fyrir suma getur slík ferð jafnvel ráðið framhaldinu í íþróttinni.
Til að ná markmiðum sínum leggja unglingarnir sjálfir verulegt á sig. Þau mæta á skipulagsfundi, skipta með sér verkefnum og standa að fjáröflun í hvaða veðri sem er. Þau læra að taka ábyrgð – ekki aðeins á eigin ferðum heldur á sameiginlegu verkefni hópsins.

Vonast eftir góðu viðmóti bæjarbúa
Forsvarsmenn Aftureldingar hvetja Mosfellinga eindregið til að taka vel á móti krökkunum á meðan fjáröflunin stendur yfir. Jákvætt viðmót, kurteisi og hvatning skiptir þau miklu máli, hvort sem fólk kaupir eitthvað eða ekki. Hrósið kemur þeim langt áfram í svona verkefnum.
Smærri framlög eru jafn mikilvæg og þau stærri – allt leggst á vogarskálarnar þegar kemur að því að gera drauma krakkanna að veruleika. Um leið er verið að styrkja íþróttastarf í Mosfellsbæ, sem er ein af stoðum samfélagsins.

Sterkt samfélag – sterk liðsheild
Ungmennafélagið Afturelding þakkar öllum bæjarbúum fyrir stuðninginn og hlýhuginn sem samfélagið sýnir ár eftir ár. Með sameiginlegu átaki ná krakkarnir markmiðum sínum og Mosfellsbær heldur áfram að vera líflegt og kraftmikið íþróttasamfélag.
Áfram Afturelding!

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi Aftureldingar

Best að spyrja börnin

Halla Karen Kristjánsdóttir

Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.
Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.

Framkvæmd Krakka Mosó
Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli
Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.
Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.
Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.

Skemmtileg leiktæki
Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.
Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.
Framtíðin er björt, allir út að leika.

Halla Karen Kristjándóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs