Best að spyrja börnin

Halla Karen Kristjánsdóttir

Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.
Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.

Framkvæmd Krakka Mosó
Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli
Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.
Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.
Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.

Skemmtileg leiktæki
Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.
Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.
Framtíðin er björt, allir út að leika.

Halla Karen Kristjándóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Greining er ekki lausn

Sigurður Árni Reynisson

Greining er eins og að setja nafn á sjúkdóm án þess að ávísa meðferð. Hún skýrir vandann en leysir hann ekki. Í skólakerfinu höfum við náð langt í að finna nöfnin, eins og ADHD og lesblindu, en alltof stutt í að skapa raunveruleg úrræði sem breyta daglegu lífi barna.
Við mælum, prófum og flokkum börn af mikilli nákvæmni og fáum sífellt ítarlegri hugtök til að lýsa erfiðleikum þeirra. En það sem vekur áhyggjur er að við virðumst oft stoppa þar. Þegar greiningin liggur fyrir, dofnar ákallið um að bregðast við í kennslustofunni.
Það er eins og meginmarkmiðið sé að nefna erfiðleikann en ekki að leysa hann. Við segjum „þetta barn er með ADHD,“ en því fylgir engin skýr leiðbeining um hvað kennarinn á að gera næst. Foreldrar standa uppi með skýrslu, kennarar með lista yfir greiningar í bekknum, en það sem vantar eru raunveruleg skref fram á við sem nýtast í daglegu starfi. Þetta er afleiðing menningar í kerfinu, þar sem fjárfest er í prófum og mælitækjum, en lausnirnar fá oft lítið rými. Við teljum að greiningin sjálf sé svarið, þegar hún ætti aðeins að vera upphafið.
Þessi nálgun hefur alvarlegar afleiðingar. Börnin sjálf finna fljótt hvort greiningin breytir einhverju í þeirra skólagöngu eða ekki. Ef ekkert gerist, ef ekkert nýtt er reynt, verður greiningin að stimpilmerki fremur en tækifæri. Hún segir barninu hvað það heitir í flokkunarkerfinu, en hún segir ekki hvernig það getur lært á eigin forsendum. Þannig er hætta á að sjálfsmynd barnsins mótist af veikleikanum einum, í stað þess að lausnir kalli fram styrkleikana.
Foreldrar standa líka oft ráðalausir eftir að fá niðurstöðu. Þau fá ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig þau geta stutt barnið heima. Hvernig hjálpum við með heimanámið? Hvernig nýtum við styrkleikana? Of oft fá þau engin svör. Kennarar eru í sömu stöðu. Þeir fá upplýsingar um greiningu en ekki tæki eða aðferðir til að nýta í kennslu. Þannig verður greiningin að byrði frekar en stuðningi, hún segir að eitthvað sé að, en ekki hvernig eigi að mæta því.
Við verðum að spyrja okkur, af hverju er þetta svona? Hvers vegna hefur greiningin sjálf hlotið meira vægi en lausnirnar? Er það vegna þess að greiningin er mælanleg og auðvelt að setja hana í skýrslu á meðan lausnir eru flóknari og krefjast sveigjanleika? Er það vegna þess að kerfin okkar eru hönnuð til að safna gögnum en síður til að aðlaga kennsluhætti? Hver sem skýringin er, þá er ljóst að jafnvægið er rangt. Greining getur verið gagnleg en hún breytir engu ein og sér. Það sem skiptir máli er hvort lausnir fylgja í kjölfarið.
Þessar lausnir ættu ekki aðeins að mæta vanda barnsins heldur byggja það upp, kalla fram styrkleika þess og kveikja nýja von um að það geti blómstrað. Þær ættu að vera lausnir sem kennarar geta gripið til strax í kennslustund og foreldrar geta notað heima til að styðja við nám barnsins. Það er í þessum lausnum sem vonin býr, ekki í orðinu sjálfu sem greiningin gefur. Við verðum að snúa þessu við. Greiningar eiga ekki að vera markmið heldur tæki. Þær eiga að vísa okkur á næstu skref, ekki vera lokapunktur. Kerfið okkar á ekki að vera framúrskarandi í að skilgreina erfiðleika barna, heldur í að veita þeim raunverulega aðstoð.
Börn læra ekki af greiningu. Þau læra af kennslu sem mætir þeim á þeirra forsendum. Og kennarar kenna ekki betur af því að fá stimpil á barnið eða greiningu á blað. Þeir kenna betur þegar þeir hafa lausnir sem virka.
Þess vegna þurfum við að leggja jafnmikla vinnu í lausnir og við leggjum í greiningar. Svarið er augljóst, lausnirnar skipta máli. Þær eru það sem breyta daglegu lífi barnsins, gera kennurum kleift að kenna og foreldrum kleift að styðja. Greining getur verið byrjunin, en án lausna er hún aðeins orð á blaði.

Sigurður Árni Reynisson
kennari í Lágafellsskóla

Allir út að leika!

Sævar Birgisson

Það er fátt sem gleður meira en að sjá bæinn okkar vaxa og dafna, ekki bara í tölum og framkvæmdum heldur einnig í lífi og leik.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið mikið unnið að því í Mosfellsbæ að bæta aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur. Í bæ þar sem íbúum fjölgar stöðugt og hlutfall barna og barnafjölskyldna er hátt, skiptir miklu máli að leik- og útivistarsvæði séu góð, örugg og aðgengileg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á leikvöllum víðsvegar um bæinn, nýir og endurnýjaðir leikvellir eru nú orðnir enn meira áberandi hluti af bæjarmyndinni og það sýnir hversu mikla áherslu Mosfellsbær leggur á leik og samveru. Þessi uppbygging hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknar og meirihlutans í Mosfellsbæ á kjörtímabilinu.
Má þar nefna leikvöllinn við Klapparhlíð, sem hannaður er með aðgengi fyrir öll börn í huga, leikvöllinn við Leirutanga, sem hefur fengið nýtt líf með gervigrasvelli, körfuboltavelli og fjölbreyttum leiktækjum, og nýju leikvellina við Liljugötu og Snæfríðargötu í Helgafellshverfi sem hafa þegar orðið vinsælir viðkomustaðir í hverfinu.
Eins hefur Ævintýragarðurinn fengið ýmsar viðbætur og lagfæringar sem heppnast hafa virkilega vel. Þá hefur leikvöllurinn í Lindarbyggð verið endurnýjaður og bættur til muna og er orðinn að skemmtilegu leik- og samverusvæði fyrir börn og fjölskyldur í hverfinu. Því til viðbótar hafa heilmiklar endurbætur átt sér stað við skólalóðir Varmárskóla og Lágafellsskóla, sem og leikskólalóðirnar við Hlíð og Hulduberg og Reykjakot. Að ógleymdu leiksvæðinu við nýjasta leikskóla bæjarins, Sumarhús í Helgafellshverfi.
Þessi leikvæði eru ekki bara staðir til að leika sér, þau eru hjartsláttur nærumhverfisins. Svæðin skapa rými þar sem börn fá að leika sér og efla hreyfigetu, og þar sem foreldrar hittast og mynda tengsl. Það að leggja áherslu á barnvænt umhverfi er ekki aðeins spurning um framkvæmdir, það snýst um lífsgæði. Með því að skapa aðstöðu sem hvetur til leiks, útivistar og samveru, erum við að styrkja grunninn að samfélagi þar sem börnum líður vel og allir fá að taka þátt.
Það er í raun þessi daglega samvera sem gerir samfélag eins og Mosfellsbæ að góðum stað til að ala upp börn.

Sævar Birgisson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Börnin og skólasamfélagið

Sveinn Óskar Sigurðsson

Börnin okkar eru mörg áttavillt. Það er ekki að undra að þau séu það, séum við, fullorðna fólkið og aðstandendur, það einnig.
Leikskólinn og grunnskólinn búa við að sveitarfélög setja sér stefnu sem er óljós og án mælanlegra markmiða sem hægt er að botna í. Leikskólar og grunnskólar fylgja aðalnámskrám sem fáir eða jafnvel enginn nær að höndla enda efnið svo óljóst að ekki er hönd á festandi hvert ber að stefna með nám barnanna. Við tekur framhaldsskólinn og þar starfa 27 skólar sem hver um sig ræður stefnunni og lítið eða ekkert samráð þar á milli. Kennarar við framhaldsskóla eru farnir að taka við börnum úr grunnskólum sem hafa ekki næga hæfni til að lesa sér til gagns.
Í Mosfellsbæ starfa ótal hæfir kennarar á þessum skólastigum og vilja vel. En lesa má úr greinum, ítarlegum skýrslum og í samtölum við fagfólk sem og foreldra að víða er pottur brotinn. Mikið álag er á kennurum og oft meira sett á þeirra herðar en ætlunin var. Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem valda vandanum eða þá ákvarðanaleysi. Ríkjandi stjórnvöld hverju sinni eiga það til að reyna eftir fremsta megni að fela stöðuna, dylja vandann og vilja helst ekki ræða hann. Það skiptir litlu hvað efsta stig stjórnsýslunnar gerir hvað skólakerfið varðar, það eru kennararnir sem verða að bjarga málunum hvað sem á dynur. Það eru þeir sem mæta til vinnu og þurfa að standa vaktina gangvart börnunum og aðstandendum þeirra í sífellt flóknara samfélagi.
Kjarnahlutverk skólans á að vera að skapa þokkalegt næði þar sem nemandi hefur göngu sína upp löngu brekkuna. Þar verður hver og einn nemandi að eiga kost á að getað öðlast þjálfun, geta glímt við verkefni og lært. Til að það sé mögulegt má skólinn ekki vera á e.k. viðbúnaðarstigi í björgunarleiðangri alla daga. Skóli sem er starfandi í e.k. æðibunugangi er ekki þessi staður fyrir börnin til að koma þeim upp lengstu og bröttustu brekkurnar. Við eigum að tryggja að skólinn sé skjól til mennta, skjól til að geta öðlast þekkingu og getu til að takast á við lífið fram undan.
Hér á landi er talið að um 34% barna þurfi á skólaferli sínum á sérkennslu að halda í meiri eða minni mæli og lítið sem ekkert vitað hvernig þetta flokkast. Í Svíþjóð nemur þetta hlutfall um 5,8%, Noregi 7,7% og Danmörku 6,6%. Þetta er með miklum ólíkindum.
Við í Miðflokknum höfum svo ótal oft fjallað um þetta efni og margoft rætt málefni barna, aðstæður í skólum hér í Mosfellsbæ og hag barnafólks í bænum sem við viljum setja í fyrsta sæti. Enn og aftur minnum við á þetta og munum halda því áfram. Það er að mörgu að hyggja og afskaplega mikilvægt að framtíðarforysta hér í bænum leggi höfuðáherslu á þennan málaflokk og gefi ekkert eftir þegar velta á við steinum til að tryggja bættan hag barna og barnafólks.
Með frábærum kennurum og öðru starfsfólki skólanna er markmiðið að ná árangri.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ

Sundabrautin

Úrsúla Jünemann

Um daginn var haldinn upplýsingafundur í framhaldsskólanum hér í Mosfellsbæ. Um það bil 50 manns mættu og hefði ég viljað sjá fleiri.
Nú hugsa örugglega margir að Sundabrautin skipti okkur hér ekki svo miklu máli því við munum væntanlega ekki nota hana. En svo einfalt er það ekki. Með tilkomu þessa mannvirkis mun umferðin léttast talsvert hér í gegnum bæinn okkar og kannski einnig í Ártúnsbrekkunni og lengra.
En fyrir okkur í Mosfellsbænum er mjög mikilvægt hvernig útfærslan muni verða. Við eigum nefnilega eitt stórkostlegasta náttúruverndar- og útivistarsvæði: Leiruvoginn. Það er nú þegar búið að skemma flest allar leirur á höfuðborgarsvæðinu og er ekki mikið eftir af óskemmdum leirum. En leirur eru mjög mikilvæg vistkerfi, þær binda mikið kolefni og skapa næringu fyrir óteljandi fugla. Leiruvogurinn er eitt albesta fuglaskoðunarsvæði þó víðar sé leitað. Bæði farfuglar og umferðafuglar koma við og næra sig sérlega á vorin og haustin. Íslendingar bera ábyrgð á mörgum fuglategundunum sem standa höllum fæti á heimsvísu en hafa viðkomu hér.
Leiruvogurinn og framhaldið Reykjavíkurmegin er mikið notað til útivistar og náttúruupplifunnar. Jafnvel er hægt að skoða seli mjög nálegt í Gorvíkinni syðst í Leiruvogi. Gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur nota strandlengjuna mikið, svo ekki sé talað um golfiðkendur.
Hvað mun gerast ef Sundabrautin yrði lögð á brú yfir Leiruvoginn? Ódýrasta áætlun gerir ráð fyrir landfyllingu sem skilur einungis smá op eftir þar sem sjórinn streymir út og inn. Nú vitum við og höfum reynslu af því hvernig svona framkvæmdir hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífríkið til dæmis í Kolgrafarfirðinum.
Fjórar ár renna í Leiruvoginn með tilheyrandi framburði. Þar sem sjórinn mun ekki ná að hreinsa setið út í gegnum svona þröng op mun Leiruvogurinn fyllast smátt og smátt.
Þessi Sundarbraut á brú mun verða hraðbraut og niðurinn af umferðinni mun skemma fyrir fólki sem ætlar að fá frið frá daglegu amstri þarna meðfram ströndinni.
Við eigum að setja áherslu á að fá Sundagöng en ekki brú þó þetta muni kosta meira. Þá þurfum við ekki að naga okkur í handarbökin seinna meir þegar óafturkræf náttúruspjöll hafa átt sér stað.

Úrsúla Jünemann

Hvað hefur áunnist

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fyrir tæplega þremur og hálfu ári var gengið til kosninga til sveitarstjórna og því liggur fyrir að það styttist í að við kjósum aftur. Já, tíminn líður raunverulega svona hratt. Á þessum tímamótum veltum við auðvitað fyrir okkur hverju við í meirihlutanum, sem samanstendur af Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn, höfum áorkað á þessum tíma sem liðinn er.
Það fylgir því mikil ábyrgð að vera í bæjarstjórn og stýra heilu sveitarfélagi. Öll verkefnin sem fjallað er um eða beðið er um að við tökum fyrir þarf að skoða og meta frá öllum hliðum og ávallt er verið að gæta almannahagsmuna og viðhafa gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð varðandi allar ákvarðanir. Að baki þessum ákvörðunum liggja margar vinnustundir, símtöl, fundir og viðræður sem svo oft eru ekki sýnilegar bæjarbúum.

Hér á eftir verður stiklað á stóru og listuð upp helstu viðfangsefnin, stór sem smá.
Listinn er alls ekki tæmandi og kjörtímabilið ekki búið þannig að hann er stöðugt í vinnslu:
• Kvíslarskóli endurnýjaður og nútímavæddur
• Varmárskóli – miklar endurbætur og viðhald

Aldís Stefánsdóttir

• Skólalóðir er verið að endurbæta í samvinnu við nemendur og skólastjórnendur
• Endurbætur á leikvöllum.
• Forvarnarverkefnið „Börnin okkar“
• Samið við Bergið headspace um þjónustu í Mosfellsbæ fyrir ungt fólk til 25 ára
• Sálfræðiþjónusta í skólana og opin foreldralína fyrir foreldra unglinga.
• Félagsmiðstöðvar – Opnunartími hefur verið lengdur, nú er opið allt árið.
• Brúarland endurnýjað og félagsstarf eldra fólks er flutt þangað. Húsið iðar af lífi og mikill uppgangur í félagsstarfi eldra fólks.
• Hlégarður tekinn í rekstur hjá sveitarfélaginu og viðburðastjóri ráðinn.
• Sundlaugar – opnunartími lengdur á virkum dögum.
• Frisbígolfvöllur stækkaður og teigar endurbættir
• 3 nýjar tæknihjólabrautir í Ævintýragarðinum.
• Gönguskíðaspor á veturna í bænum okkar.
• Nýr aðalvöllur að Varmá með gervigrasi, flóðlýsingu og vökvunarkerfi

Sævar Birgisson

• Gervigrasvöllurinn endurgerður með vökvunarkerfi.
• Stjórnsýsluúttekt – 74 umbótatillögur, flestum lokið. Nýtt skipurit, innri endurskoðun og mælaborð.
• Forysta í stafrænum málum
• Verið er að LED-væða götulýsingu í bænum
• Álafosskvosin – þar er komin áfangastaðagreining fyrir möguleika á aukinni ferðaþjónustu og verndaráætlun fyrir byggðina
• Atvinnustefna samþykkt
• Nýtt íþróttahús við Helgafellsskóla tekið í notkun
• Leikskólinn Sumarhús opnaði í sumar, fyrir 150 börn
• Nýr búsetukjarni opnaður fyrir fatlað fólk í Helgafellshverfi
• Lóðum úthlutað fyrir einbýlishús, raðhús og fjölbýli, tæplega 300 íbúðir
• Dagdvöl fyrir aldraða fjölgun um 16 rými

Örvar

Það þurfa margir þættir að koma saman til að skapa gott samfélag. Hæfileg uppbygging á hverjum tíma, góðir skólar, þjónusta við fatlaða og eldra fólk og svo mætti auðvitað lengi telja. Þó er það alltaf mannlegi hlutinn sem skapar virkilega gott samfélag þar sem fólki líður vel. Að hlusta á hvert annað, vanda okkur í samskiptum og láta virðingu, samheldni og tillitssemi vera í öndvegi alla daga.
Inn í þetta allt þarf svo að blanda hæfilegum skammti af skynsemi þegar kemur að uppbyggingu innviða. Því auðvitað langar alla að gera margt og mikið en það er ekkert öðruvísi með sveitarfélag en heimilisreksturinn, það þarf að forgangsraða.

Bæjarfulltrúar Framsóknar
Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.

Á að slá fram að jólum?

Úrsúla Jünemann

Það vekur furða mína að enn þá eru sláttuvélar að störfum við að nauðraka alla grasfleti í Mosfellsbænum þótt það sé komið fram í seinni part september. Og grassprettan er eiginlega búin.
Það er eins og menn vilji ekki sjá eina einustu blómstrandi jurt. Sama var á teningunum í vor: varla var snjórinn farinn þá byrjuðu sláttuvélar að bruna um allan bæinn, alveg sama hvort eitthvað gras var farið að vaxa.
Svona snöggslegnar grasflatir henta auðvitað til að spila fótbolta eða golf. En annars eru þetta algjörlega dauð vistkerfi. Af hverju mega ekki villt blóm njóta sín alla vega sums staðar? Þau gefa býflugum, humlum og fleirum skordýrum næringu og þessi smádýr eru ósköp mikilvæg fyrir frjóvgun margra plantna.
Mig grunar að fyrirtækin sem standa fyrir þessum allt of öra grasslætti vanti verkefni. Mosfellbær gæti sparað talsvert með því að fækka þessu. Ég skora á umhverfisnefndina að skoða þetta á næsta ári. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu.

Úrsúla Jünemann

Bæjarhátíð í 20 ár

Regína Ásvaldsdóttir

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður sett fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi og fagnar 20 ára afmæli í ár.
Í tilefni afmælisins var nýtt merki hátíðarinnar kynnt sem auglýsingastofan ENNEMM á heiðurinn af.
Bæjarhátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2005 en það var þáverandi garðyrkjustjóri bæjarins, Oddgeir Þór Árnason, sem vann að undirbúningnum og átti frumkvæði að nafninu Í túninu heima. Eins og flestir vita vísar nafnið í bók nóbelskáldsins og Mosfellingsins Halldórs Kiljan Laxness. Í framhaldinu verkstýrði Daði Þór Einarsson stjórnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar hátíðinni þar til Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings og viðburðastjóri Hlégarðs tók við því hlutverki og hefur sinnt því undanfarin ár ásamt Auði Halldórsdóttur forstöðumanni bókasafns og menningarmála.

Fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ er svona hátíð afar þýðingarmikil. Hún skapar umgjörð fyrir okkur til að draga fram allt það góða sem við eigum í okkar menningarlífi, íþrótta- og félagsstarfi. Hátíðin hefur alla tíð verið þátttökuhátíð þar sem bæjarbúar bjóða til dæmis upp á tónleika í heimagörðum, skipuleggja götugrill og skreyta í hverfalitum. Þannig hvetur bæjarhátíðin til samstarfs, samtals og samveru fjölskyldna, vina og nágranna. Við erum líka stoltir gestgjafar og viðburðir eins og grænmetismarkaðurinn og Tindahlaupið hafa verið gríðarlega vinsælir. Í fyrra var haldið sérstakt hundahlaup í fyrsta sinn sem sló í gegn.
Í ár verða fjölmargir viðburðir eins og undanfarin ár og það er gaman að sjá hversu margir listamenn bjóða heim en við erum með tónleika og listsýningar á 15 heimilum og vinnustofum í bænum. Mig langar að þakka þessu góða fólki sérstaklega fyrir gestrisnina.

Stórtónleikar á torginu á laugardagskvöldinu hafa verið fyrir marga hápunktur hátíðarinnar. Mosfellsbær hefur alla tíð staðið fyrir tónleikunum undir formerkinu fjölskyldutónleikar. Á undanförnum árum hefur fjöldi unglinga af öllu höfuðborgarsvæðinu sótt þessa tónleika, án þess að vera í fylgd með foreldrum.
Fjöldinn og áfengisneyslan hefur stigmagnast og náði hámarki á tónleikunum 2024. Viðbragðsaðilar í Mosfellsbæ voru mjög vel undirbúnir og okkar góða starfsfólk í Bólinu, Flotanum sem er færanleg félagsmiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið, barnavernd, björgunarsveitin og lögreglan stóðu öll vaktina. Þá var keypt þjónusta frá sérstöku öryggisfyrirtæki og sérsveitin var einnig til taks. Neyslan var óhófleg, mikil spenna og slagsmál og það hafa aldrei fleiri ungmenni verið færð í athvarf á þessum tónleikum eins og í fyrra.
Það var ljóst að einhverju þurfti að breyta í ár til að brjóta upp þetta mynstur. Nærtækast var að færa tónleikana fyrr um kvöldið en það skarast hins vegar á við götu­grillin. Þess vegna var ákveðið að ljúka hátíðinni í ár með fjölskyldutónleikum á sunnudagseftirmiðdeginum þar sem flottir tónlistarmenn koma fram.
Brekkusöngurinn verður á sínum stað og á laugardagskvöldinu munum við fá tónlistarmenn til að skemmta í fjölmennustu götugrillunum. Þá verður sundlaugarbíó fyrir unglingana í Lágafellslaug og Pallaballið verður í Hlégarði og hefst fyrr en undanfarin ár.
Við munum svo ljúka kvöldinu með ljósa­sýningu á Helgafelli.
Fyrir hönd bæjaryfirvalda vil ég færa öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi hátíðarinnar í ár okkar bestu þakkir. Þá vil ég þakka fyrirtækjum í Mosfellsbæ fyrir stuðninginn.
Ég vona að sem flestir Mosfellingar finni eitthvað við sitt hæfi á bæjarhátíðinni Í túninu heima 2025 og að veðurguðirnir verði með okkur í liði!

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar

Menningin, sagan, Álafoss og ullin

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Í túninu heima leitar menningin á hugann.
Á bæjarhátíðinni birtist bæjarmenningin skýrt. Bæjarbúar, félög og fyrirtæki taka þátt með ýmsum viðburðum og uppákomum sem draga til sín bæði okkur íbúana og aðra gesti. Við hittum nágranna á förnum vegi og eigum jákvæð samskipti við fólk sem við höfum kannski aldrei hitt áður. Mosfellsbær heldur utan um hátíðina og leggur mikinn metnað, vinnu og talsverðan kostnað í að allt fari fram á sem bestan máta.
Menning og menningarlíf í Mosfellsbæ er fjölbreytt og alls konar á öllum árstíðum og það er staðreynd að öflugt menningarlíf á gríðarlegan þátt í jákvæðum og uppbyggilegum bæjarbrag. Okkur langar að nefna hér til sögunnar örfá af þeim verkefnum sem meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur unnið að og komið í framkvæmd á yfirstandandi kjörtímabili. Hlégarður er kominn heim og þar er fjölbreytt starfsemi flesta daga ársins. Í Hlégarði hafa á kjörtímabilinu verið haldin árleg Sögukvöld sem slegið hafa algjörlega í gegn. Þar hafa verið teknir fyrir vissir þættir í sögu sveitarfélagsins og fólksins sem byggði þennan bæ. Brúarland er gengið í endurnýjun lífdaga og iðar af lífi alla vikuna undir stjórn Félagsstarfs aldraðra. Báðar byggingarnar hafa fengið umfangsmikið og löngu tímabært viðhald og upplyftingu þó enn sé nokkuð í land að þeirri vinnu ljúki.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Álafosskvos
Ríkur þáttur í menningar- og atvinnusögu Mosfellsbæjar er starfsemi ullarverksmiðju í Álafosskvos, lífið í kringum hana og áhrif hennar á þróun samfélagsins. Vagga íslensks ullariðnaðar var í kvosinni og saga ullariðnaðarins í Álafosskvos er bæjarsaga Mosfellsbæjar. Í Álafosskvos hefur varðveist sérstakur staðarandi í gegnum tíðina þótt ullariðnaður hafi löngu lagst af og staðurinn gegnir enn mikilvægu hlutverki í menningar- og félagslífi bæjarbúa. Heildarmynd svæðisins hefur haldist merkilega vel eins og kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð.
Í vinnu við nýja atvinnustefnu Mosfellsbæjar á kjörtímabilinu var unnið sérstaklega með hugmyndir um áfangastaðinn Álafosskvos. Það kom glöggt í ljós í vinnustofu, á opnum fundi og samtölum við hagaðila að í huga langflestra var Álafosskvosin mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í bænum í ljósi þeirrar miklu og sérstöku sögu sem þar býr.

Ný tækifæri í ullinni
Í gegnum tíðina hafa margir rætt að halda þurfi sögu Álafossverksmiðjunnar á lofti og sýna henni þann sóma sem hún á skilið. Safn

Lovísa Jónsdóttir

um sögu starfseminnar hefur oft verið nefnt. Með safni eða sýningu er sagan ekki bara varðveitt heldur opnast möguleikar á að miðla henni líka til ungra Mosfellinga sem eldri, til gesta og gangandi. Það er því gríðarlega ánægjulegt að nú, þegar Mosfellsbær hefur unnið grunnvinnuna sem birtist í nýrri atvinnustefnu, skýrslu um áfangastaðinn Álafosskvos sem unnin var með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og tillögu um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð, komi fram ósk frá nýjum eigendum jarðhæðarinnar í verksmiðjuhúsinu um samstarf við uppbyggingu sýningar um sögu starfseminnar að Álafossi. Hugmyndir eigenda eru mjög áhugaverðar en aðkoma bæjarins yrði einungis sú að eiga og reka framangreinda sýningu inni í húsnæðinu þar sem sögu ullarinnar og ullarvinnslu í Álafosskvos yrðu gerð góð skil. Bærinn kæmi ekki að rekstri annarrar starfsemi á staðnum.
Á fundi bæjarráðs 21. ágúst var samþykkt að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við nýja eigendur jarðhæðar verksmiðjuhússins í Álafosskvos um samstarf um uppbyggingu safns um sögu Álafosskvosarinnar og ullariðnaðarins á Íslandi á jarðhæð verksmiðjuhússins. Markmið samstarfsins er að lyfta ásýnd Álafosskvosarinnar, varðveita söguna og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn.
Í þessu samstarfi yrðu fólgin mikil tækifæri fyrir Mosfellsbæ.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingarinnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Að áliðnu sumri

Ég hef búið í Mosfellsbæ allar götur síðan í ársbyrjun 1983 og alltaf í sama húsinu. Hér hef ég átt góð ár þar sem börnin okkar hjóna ólust upp og við notið vináttu og velvildar ótalmargra góðra granna gegnum árin. Já, þar sem okkur líður vel þar er alltaf gott að búa.
Á þessum rúmlega 40 árum hefur ótalmargt breyst. Íbúum sveitafélagsins hefur fjölgað mjög mikið eða úr 3.000 í nálægt 15.000. Mosfellssveitin eins og sveitarfélagið var nefnt lengi vel er kaupstaður frá 1987 og orðið eitt af fjölmennustu sveitafélögum landsins. Og Mosfellsbærinn er á næstu misserum að vaxa saman við Reykjavík. Áður fyrr var Mosfellsssveitin töluvert langt utan við Reykjavík en allt er í heiminum hverfult, þ.e. breytingum háð.
Nú er ég kominn á áttræðisaldur og eitt af tómstundamálum mínum er að rölta í rólegheitum niður að Leirvogi, virða fyrir mér fjölbreytt fuglalífið, hestana á beit og stundum lendi ég á tali við annað fólk, jafnvel golfarana sem iðka sína íþrótt guðslangan daginn sér til ánægju. Oft verður útiveran tilefni til ýmissa hugrenninga sem ritaðar eru niður þá heim er komið.
Það hefur lengi verið markmið mitt á gönguferðum mínum að ganga út á Blikastaðanesið. Nú er svo komið að mér finnst að bekkirnir á þessari leið hafi verið mátt vera fleiri og áfangarnir því full langir. Það þarf að huga betur að okkur sem eldri erum sem finnst gott að tylla sér um stund.
Og stígarnir sem voru lagðir undir lok síðustu aldar eru margir hverjir börn síns tíma, lagðir með miklum hug en kannski af vanefnum. Ekki var vandað nóg til þeirra fyrstu, hvorki undirlags né endalausrar endingar. Víða eru þeir orðnir býsna lélegir, sprungnir og skörðóttir enda vinna náttúruöflin vel á að kvarna úr þeim og gera lakari með hverju árinu sem líður. Sjá má að síðari kynslóð þessara stíga var mun betur undirbúni auk þess sem þeir eru breiðari en þeir eldri. Á þessu þyrfti að taka, bæta og laga það sem þörfin er fyrir á vegum bæjarins og sem mikið er notað. Áður fyrr voru þeir fáfarnir en á góðviðrisdegi eru þeir stundum yfirfullir af hjólreiðafólki, göngufólki og hlaupandi íþróttafólki að þjálfa sig fyrir næstu hlaup. Nauðsyn er að aðgreina betur.
Og Fuglaskoðunarhúsið við Langatanga hefur mátt sjá fífil sinn fegurri. Einhverjir illa uppaldir götustrákar hafa gert að gamni að skemma það eins og þá lystir. Á þessu þarf að taka sem væri okkur öllum fremur til sóma en ekki til vansa. Má nefna að síðasta árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 2025 er helguð fuglum og fuglaskoðunarstöðum um allt Ísland og er Leirvogurinn talinn vera einn allra besti fuglaskoðunarstaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þá er einstaklega gaman að ganga um stíga bæjarins og skoða trjágróðurinn sem er víða orðinn mjög þroskaður og hávaxinn. Garðarnir eru misjafnir, langflestir eru mjög vel hirtir þar sem metnaður er mikill að rækta allt sem best. Er unun að skoða þessa garða sem eru eigendum til mikils sóma. Má t.d. sjá í einum garði eik sem er líklega ein sjaldgæfasta trjátegund sem þrífst á Íslandi. En miður er að rekast á nokkra garða sem illa hefur verið haldið við jafnvel í áratugi.
Það hefur reynst vel að búa í Mosfellsbæ. Við getum öll í sameiningu gert bæinn okkar enn betri.

Guðjón Jensson
Eldri borgari, tómstundablaðamaður og leiðsögumaður
Arnartangi43@gmail.com

Uppbygging öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ

Eybjörg H. Hauksdóttir

Eir hjúkrunarheimili er sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá, sem var stofnað til árið 1993 á grundvelli samfélagslegra hugsjóna, án allra hagnaðarsjónarmiða.
Tilgangurinn með stofnun Eirar var að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veikra sem eru í þörf fyrir slíka þjónustu.
Mosfellsbær varð aðili að Eir í nóvember árið 2002 og stendur að sjálfseignarstofnuninni ásamt Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, ýmsum stéttarfélögum og félögum eldri borgara, sem og nokkrum félagasamtökum. Þannig tilnefnir Mosfellsbær þrjá einstaklinga til setu sem fulltrúar í fulltrúaráði Eirar og Félag eldri borgara í Mosfellsbæ tilnefnir einn fulltrúa í fulltrúaráðið. Fulltrúaráðið, sem er skipað alls 37 einstaklingum, skipar svo í stjórn Eirar og hefur ákveðið eftirlit með starfsemi stofnunarinnar. Kjarni Eirar er þannig samstarf margra ólíkra aðila, sem eru samankomnir í þeim eina tilgangi að veita faglega þjónustu til aldraðra.
Samstarf Eirar og Mosfellsbæjar varð því ekki til í tómarúmi en þann 7. júlí 2005, eða fyrir rúmum 20 árum síðan, undirrituðu Mosfellsbær og Eir hjúkrunarheimili svo rammasamning aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ. Markmið samstarfsins var að byggja upp og efla þjónustu fyrir aldraða íbúa Mosfellsbæjar, í þeirra heimabyggð. Liður í því samkomulagi var að aðilar myndu beita sér fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu, út frá starfsemi Eirhamra, á lóð frá Mosfellsbæ. Hamrar hjúkrunarheimili opnaði svo árið 2013 og rak Eir hjúkrunarheimilið á grundvelli samnings við bæinn, í gegnum dótturfélagið Hamra hjúkrunarheimili. Hjúkrunarheimilið er í dag rekið á grundvelli þjónustusamnings milli Hamra hjúkrunarheimilis og Sjúkratrygginga Íslands.
Þau merku tímamót urðu svo þann 1. júlí sl. að gengið var frá samkomulagi um stækkun Hamra hjúkrunarheimilis, en ætlunin er að fjölga hjúkrunarrýmum úr 33 í 99 rými. Mikil þörf er fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ og í raun á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að stækkun heimilisins verði unnin í þéttu samráði við stjórnendur Hamra til að tryggt sé að uppbygging húsnæðisins sé unnin út frá þörfum þeirra sem þar eiga að búa og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar er fyrir. Við á Eir og Hömrum fögnum mjög fyrirhugaðri stækkun og hlökkum til samstarfs um framkvæmd hennar.
Samkomulagið um stækkun Hamra kom í kjölfar undirritunar samninga í tengslum við Gott að eldast verkefni stjórnvalda í apríl sl., en með þeim samningum tók Eir hjúkrunarheimili að sér veitingu samþættrar heimaþjónustu í Mosfellsbæ, dagþjálfunin Hlýjan var stækkuð og efld, auk þess sem verkefni um heimaendurhæfingarteymi var sett af stað.
Umtalsverð uppbygging hefur því átt sér stað í öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ í gegnum áratuga samstarf Eirar og Mosfellsbæjar og er sú uppbygging enn í fullum gangi. Markmið Eirar er það sama í dag og fyrir 32 árum síðan, það er að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veika sem þess þurfa í samfélaginu. Við hlökkum til að þjónusta íbúa Mosfellsbæjar næstu áratugi og þökkum það mikla traust og þann stuðning sem Mosfellsbær hefur sýnt stofnuninni í gegnum árin.

Eybjörg H. Hauksdóttir,
forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra

Vetrarstarfið fjölbreytt og skemmtilegt

Kæru Mosfellingar
Íþróttir og annað félagsstarf er mikilvægur þáttur í uppeldi barna og ungmenna á Íslandi í dag og er framboð íþróttagreina í bænum okkar eins og best verður á kosið.
Við hjá Aftureldingu tökum vel á móti komandi vetri og bjóðum áfram upp á fjölbreytt og vandað starf innan 11 íþróttagreina.
Okkar markmið er að allir geti fundið sinn vettvang innan félagsins, umhverfi til að þroskast, blómstra og hafa gaman.
Á sama tíma og við kynnum okkar starf og æfingatöflur vetrarins þá langar mig að nota tækifærið og hvetja foreldra til að taka virkan þátt með börnunum sínum í vetur. Sýnum áhuga, sýnum stuðning og verum hvetjandi. Ykkar þáttur er ekki síður mikilvægur.
Bjóðum veturinn velkominn.

Einar Ingi Hrafnsson
Framkvæmdastjóri Aftureldingar

Tækifæri til eflingar atvinnumála í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Mikil uppbygging atvinnusvæða á sér nú stað í Mosfellsbæ og mun sú uppbygging halda áfram á næstu árum.
Tækifæri eru til þess að efla atvinnulíf og fjölga fyrirtækjum í Mosfellsbæ samhliða þessari uppbyggingu auk þess sem tækifæri eru fyrir hendi hvað varðar fjölbreytta nýsköpun.

Verið er að leggja lokahönd á atvinnustefnu Mosfellsbæjar og færi vel á því að mati okkar bæjarfulltrúa D-lista að öflug atvinnu- og nýsköpunarnefnd innleiði og fylgi eftir atvinnustefnunni.
Nefndin gæti einnig verið í fararbroddi við kynningu Mosfellsbæjar sem spennandi kost fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki í samstarfi við þá landeigendur sem koma að uppbyggingu nýrra atvinnusvæða í bænum.

Öflugt kynningar- og markaðsstarf er nauðsynlegt

Jana Katrín Knútsdóttir

Á næstu árum er mikilvægt að leggja áherslu á skipulagningu á hagrænum hvötum, markaðssetningu, ímynd og sérstöðu bæjarins sem ákjósanlegan valkost – bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur til að búa í, en einnig fyrir fyrirtæki að stunda sinn rekstur.

Skipulagning á hagrænum hvötum
Skoða þarf möguleika á hagrænum hvötum sem hvetja fyrirtæki til þess að flytja í bæinn, s.s. lægri gatnagerðargjöld og/eða aðrar tímabundnar ívilnanir eða fríðindi. Það eru fordæmi fyrir slíku í Mosfellsbæ frá fyrri tíð og öðrum sveitarfélögum sem eru að bjóða slíkar lausnir í dag.
Einnig þarf að skoða að bjóða upp á hvetjandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun, t.d. með samstarfi við háskóla og stofnanir. Að leggja áherslu á græna uppbyggingu og umhverfisvæna starfsemi sem gæti laðað að fyrirtæki sem starfa að nýsköpun í sjálfbærni, hreinni orku, grænum lausnum og hringrásarhagkerfi. Bærinn gæti þannig orðið fyrirmyndarbær í vistvænni atvinnuuppbyggingu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Leggja áherslu á markaðssetningu og ímynd Mosfellsbæjar sem vel staðsett sveitarfélag fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi
Kynna þarf Mosfellsbæ sem heilsueflandi, náttúruvænan og fjölskylduvænan stað fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Ná beint til fyrirtækja með kynningum, fundum eða samstarfi við atvinnuþróunarfélög og vera með gott aðgengi að upplýsingum um lausar lóðir, ferli umsókna og þjónustu sveitarfélagsins.

Móta sérhæfingu og sérstöðu Mosfellsbæjar og kynna hana
Skapa þarf sérstöðu, t.d. með því að laða að græna nýsköpun, heilsutengd fyrirtæki eða list- og handverksmiðstöðvar svo eitthvað sé nefnt. Mosfellsbær hefur fjölbreytta og fallega náttúru, útivistarsvæði og sögu sem hægt er að nýta til að þróa ferðaþjónustu, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.
Ljóst er að með aukinni atvinnuppbyggingu getur bærinn laðað að veitingastaði, gistingu, afþreyingu og heilsutengda þjónustu.

Helga Jóhannesdóttir

Leggja á áherslu á fljóta, góða og skilvirka stjórnsýslu
Mikilvægt er að veita lóðaeigendum sem og öðrum góða þjónustu með skjótum og skilvirkum svörum um lóðir, leyfi og reglur. Þannig gætum við náð upp ímynd sem lausnamiðað og sveigjanlegt sveitarfélag gagnvart atvinnurekstri.

Mun Mosfellsbær sitja eftir í samkeppninni?
Mikil samkeppni ríkir milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í að laða til sín fyrirtæki. Sveitarfélögin eru flest að leggja mikla vinnu og áherslu á að kynna hvað þau hafa upp á að bjóða en það virðist ekki vera áhersla Mosfellsbæjar undir stjórn núverandi meirihluta.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar fram tillögu um að leggja niður atvinnu- og nýsköpunarnefnd, nefnd sem þessi meirihluti stofnaði í upphafi kjörtímabilsins árið 2022.
Sem viðbragð við tillögu meirihlutans lögðu fulltrúar D- og L-lista í bæjarstjórn fram tillögu um að það yrði ekki gert heldur blásið til sóknar í að efla atvinnumálin í Mosfellsbæ undir forystu atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Tillagan var því miður felld þar sem þar sem nefndin þótti ekki passa lengur inn í nýtt skipurit meirihlutans. Þetta er að okkar mati slæm ákvörðun með vísan í núverandi og fyrirhugaða atvinnuuppbygginu í Mosfellsbæ. Hagsmunir Mosfellsbæjar eru í húfi og þeir eru mun mikil­vægari en hvað mögulega passar inn í skipurit meirihlutans.

Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir
bæjarfulltrúar D-lista

Breytingar á nefndaskipan – mikilvægi atvinnu og nýsköpunarnefndar

Dagný Kristinsdóttir

Málefni vorsins hjá bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa verið umræður um breytingar á nefndaskipan og fastaráðum bæjarins. Þessi umræða var hluti af stærra máli sem eru hagræðingaraðgerðir bæjarins og er efni í annan pistil.
En hvað varðar fastanefndir var tillagan sú að þrjár nefndir yrðu lagðar niður eða sameinaðar öðrum. Það var á margan hátt áhugaverð nálgun, því í upphafi kjörtímabils var nefndum fjölgað um tvær og verkefnum endurútdeilt á milli nefnda. Ein þeirra er atvinnu- og nýsköpunarnefnd sem var stofnuð í upphafi kjörtímabils. Í þeim tillögum sem lagðar voru fram nú á vordögum, var lagt til að þessi nefnd yrði lögð niður og verkefni hennar færð undir bæjarráð. Það töldum við ekki góða ákvörðun í þeirri stöðu sem sveitarfélagið er í, í dag.
Eftir samtal við sjálfstæðismenn kom í ljós að báðir flokkar ætluðu að leggja fram tillögu þess efnis að þessu yrði breytt og nefndin héldi starfsemi sinni og vægi. Við lögðum því fram sameiginlega tillögu.

Af hverju er nefndin mikilvæg?
Ástæða þess að við í Vinum Mosfellsbæjar teljum mikilvægt að halda þessari nefnd inni, snýr að því að vera með nefnd sem hvetur til nýsköpunar og styður við fjölbreytt atvinnulíf. Nefndin er búin að setja á laggirnar atvinnustefnu og það er hennar hlutverk að fylgja stefnunni eftir. Nefndin vinnur þvert á svið bæjarins; skipulagsmál, menntun og umhverfi og hefur það hlutverk að horfa til atvinnulífs sem byggir á styrkleikum okkar og vinna með veikleikana.
Við þurfum að stíga fram og spyrja af hverju eigendur fyrirtækja sjá ekki hag sinn í að setja fyrirtæki sín niður í okkar bæ og búa til hvata fyrir fyrirtækin til að þau sjái hag sinn í að koma hingað. Með auknum fjölda fyrirtækja eykst umferð fólks í bænum á dagvinnutíma, sem aftur kallar á aukna þjónustu. Fólkið þarf að borða og það vill versla. Í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er, skiptir þessi þáttur miklu máli fyrir okkur. Við teljum einnig að nefndin séu betur til þess fallin en bæjarráð að fylgja eftir markaðsáætlun, atvinnustefnu og nýsköpunarhugmyndum bæjarins.

Hvaða möguleikar eru fyrir hendi?
Atvinnu og nýsköpunarnefnd gæti staðið fyrir breiðvirku samstarfi stofnana bæjarins í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Við þurfum að gera bæinn aðlaðandi fyrir fyrirtæki og stofnanir, það þarf að ákveða hvaða ívilnanir verða til staðar og hvaða lóðir væru klárar. Þessar ákvarðanir eru pólitískar og því mikilvægt að hafa samtal við fundarborðið.
Við þyrftum einnig að hugsa til þess að vera með sérstakan starfsmann í því að markaðssetja Mosfellsbæ, sem spyr þeirra spurninga sem ég nefndi fyrr – af hverju sjá fyrirtækin ekki hag sinn í að koma hingað. Það þarf einnig að horfa til þess að efla samvinnu innan sveitarfélagsins, á milli sveitarfélagsins, atvinnulífs og skóla. Það kostar að fara þessa leið en fjárhagslegur ávinningur er margfalt meiri. Ef við viljum hugsa um nýsköpun að þá þarf að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi og huga að aðstöðu fyrir slíka starfsemi.
Okkur þykir miður að tillagan hafi verið felld, því við teljum þetta mikilvæga og nauðsynlega vinnu til að horfa til framtíðar fyrir bæinn okkar. Öflug nefnd leiðir öfluga stefnu og heldur henni á lofti.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Fækkun nefnda og breytt launakjör

Halla Karen Kristjánsdóttir

Þann 25. júní síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn að aftengja laun bæjarfulltrúa við þingfararkaup og fækka áheyrnarfulltrúum í nefndum bæjarins.
Þá var samþykkt að laun bæjarstjóra fylgi launahækkunum á vinnumarkaði í stað launavísitölu. Einnig samþykkti bæjarstjórn að fækka fastanefndum bæjarins um þrjár.
Ákvörðunin um að fækka fastanefndum á sér rætur í stjórnsýsluúttekt sem meirihluti B, S og C lista lét gera. Í september 2023 tók gildi nýtt skipurit fyrir stjórnsýsluna sem fól í sér breytingar á fjölda og verkefnum sviða og skrifstofa. Í framhaldi af þeim breytingum þótti eðlilegt að skoða nefndaskipan sveitarfélagsins með það fyrir augum að auka skilvirkni, samfellu, yfirsýn og hagræðingu í stjórnsýslunni. Með þessu nýja fyrirkomulagi starfar ein nefnd með hverju sviði.

Launakjör
Eins og fólk kannski man þá voru gerðir samningar í fyrra sem fólu í sér hóflegar launahækkanir sem lið í sameiginlegu átaki til að ná niðurlögum verðbólgu og að vinna að lækkun vaxta. Almennar launahækkanir í þessum samningum, þ.á.m. samningum við starfsfólk Mosfellsbæjar, voru 3,5%. Meirihluti B, S og C lista vildi taka þátt í þessari aðgerð og lagði því til að árleg launahækkun yrði aftengd þingfararkaupi sem hefði þýtt hækkun um 5,6%. Þess í stað munu launin hækka um 3,5%

Anna Sigríður Guðnadóttir

eins og samningar starfsmanna Mosfellsbæjar.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri óskaði sjálf eftir því að laun hennar skv. ráðningarsamningi yrðu aftengd launavísitölu við launaákvörðun 1. júlí. Þessi ósk þýðir að laun bæjarstjóra munu ekki hækka um 8,2% í samræmi við vísitölu heldur um 3,5% í samræmi við samninga á opinbera og almenna markaðnum. Vert er að geta þess að þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem bæjarstjórinn óskar eftir slíkri aftengingu við vísitöluhækkun.

Fækkun nefnda
Á umhverfissviði verður ein nefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd. Með því fyrirkomulagi teljum við að yfirsýn verði enn betri og að það sé kostur að í allri umræðu um skipulagsmál verði einnig fjallað um umhverfis- og loftslagsmálin. Þannig verði tryggt að þau mikilvægu málefni verði alls ekki út undan eða gleymist í umræðunni.
Á menningar-, íþrótta- lýðheilsusviði verður einnig ein nefnd að störfum. Markmiðið með stofnun þessa nýja sviðs var einmitt að styrkja stjórnun og yfirsýn í málaflokkunum en sviðið heldur utan um stærsta hlut þess starfs sveitarfélagsins sem snýr að frítíma íbúanna. Með því að skipa málefnum sviðsins í eina fagnefnd teljum við að yfirsýn og skilvirkni verði betri og möguleikar á samlegðaráhrifum í starfi sviðsins aukist. Lýðræðismálin sem áður voru í menningar- og lýðræðisnefnd færast undir bæjarráð.

Lovísa Jónsdóttir

Atvinnu- og nýsköpunarnefndin verður lögð niður en að sjálfsögðu verður unnið ötullega í að fylgja eftir aðgerðaráætlun atvinnustefnunnar. Nefndin hefur skilað af sér miklu og góðu starfi í formi fyrstu atvinnustefnu Mosfellsbæjar. Nú þarf að einbeita sér að því að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem koma fram í stefnunni. Sú vinna verður á ábyrgð starfsfólks skrifstofu umbóta og þróunar. Þau málefni sem þarfnast umfjöllunar í pólitíkinni fara inn til bæjarráðs enda við búið að þau muni fela í sér fjármálalegar skuldbindingar.
Breyting verður á skipan áheyrnarfulltrúa meirihlutans í nefndum og fallið er frá skipan þeirra til loka kjörtímabilsins.

Sparnaður
Ofangreindar nefndabreytingar eru allar þáttur í að straumlínulaga starf innan stjórnsýslunnar og meirihlutinn telur að þær séu til bóta. Hagræðing sem af þeim stafar er síðan kærkomin inn í rekstur bæjarins en á ársgrundvelli verður hún 19-22 milljónir. Aftenging launakjara kjörinna fulltrúa við hækkun þingfararkaups og breyting kjara bæjarstjóra teljum við vera ábyrga leið til að sýna samfélagslega ábyrgð í baráttunni við verðbólguna. Sú breyting þýðir 3,4 milljóna sparnað fram að áramótum.
Þá hefur nú þegar verið hagrætt um 200 milljónir í rekstri bæjarins á þessu ári, til að mæta meðal annars kjarasamningshækkunum.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar