Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.
Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.
Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna
Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.
Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Lovísa Jónsdóttir

Jafnrétti og leikskólar
Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika
Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn
Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.
Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Af hverju barnvænt sveitarfélag?

Anna Sigríður Guðnadóttir

Á mannréttindadegi barna, þann 20. nóvember síðastliðinn, hlaut Mosfellsbær viðurkenningu UNICEF sem barnvænt sveitarfélag.
Verkefnið barnvæn sveitarfélög byggir á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem samþykktur var á allsherjarþingi þeirra árið 1989. Alþingi lögfesti samninginn árið 2013 og öðlaðist hann þá sömu stöðu og önnur löggjöf í landinu.
Verkefninu barnvæn sveitarfélög er ætlað að styðja sveitarfélög til að innleiða barnaréttindanálgun í stefnumótun sinni og ákvörðunum. Það er nefnilega þannig að án atbeina sveitarfélaga getur ríkisvaldið tæplega uppfyllt Barnasáttmálann þar sem það eru sveitarfélögin sem sinna að stærstum hluta þeim verkefnum sem hafa bein áhrif á daglegt líf barna á Íslandi. Með innleiðingu Barnasáttmálans samþykkja sveitarfélög að ákvæði hans verði sem rauður þráður í allri starfsemi þeirra og markvisst samráð og samstarf verði við börn og ungmenni varðandi þjónustu sveitarfélagsins.

Undirbúningur
Viðurkenningin byggir á gríðarlega mikilli og góðri vinnu starfsfólks Mosfellsbæjar og ekki síst barna og ungmenna. Skipaður var stýrihópur sem samanstóð af sviðsstjórum, kjörnum fulltrúum og fulltrúum frá ungmennaráði. Með stýrihópnum starfaði verkefnastjóri sem hélt öllum þráðum verkefnisins saman. Ungmennaráð Mosfellsbæjar hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúninginn og þátttaka þess verið lykilþáttur í að svo vel tókst til sem raun ber vitni.
Leiðin til viðurkenningar hefur verið löng en það var í janúar 2021 sem Mosfellsbær skrifaði undir samkomulag við félagsmálaráðuneytið um þátttöku í verkefninu. Innleiðing verkefnisins skiptist upp í nokkur skref. Eitt af fyrstu skrefunum var að stýrihópurinn greindi stöðu mála varðandi börn í sveitarfélaginu með því að svara spurningalistum frá UNICEF. Sú vinna var mjög mikilvæg. Auðvitað kom í ljós að það voru ýmsir þættir sem við stóðum okkur ekki nógu vel í en það þýddi bara tækifæri til úrbóta og voru allir sem að vinnunni komu sammála um að það væri jákvætt. Það er nefnilega þannig að ef við viðurkennum ekki að eitthvað megi betur fara þá verður engin framþróun.

Aðgerðir
Langt innleiðingaferli barnvæns sveitarfélags sýndi mikilvægi sveigjanleika og aðlögunar að þeim tengdu verkefnum sem hófust á innleiðingartímanum. Á þessu kjörtímabili hafa verkefni tengd börnum og þeirra umhverfi verið umfangsmikil hjá okkur í Mosfellsbæ. Þrjú þau stærstu er Börnin okkar, innleiðing farsældar barna skv. lögum og lýðræðisverkefnið Krakkar Mosó. Nokkrar aðgerðir úr fyrrgreindum verkefnum urðu hluti af aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags.
Aðgerðaáætlun Barnvæns sveitarfélags, 31 aðgerð, sem viðurkenningin byggist á var umfangsmikil og metnaðarfull og leiddi af sér breytingar í þjónustu og verklagi innan sveitarfélagsins. Nokkrar þeirra eru: Lágþröskuldarþjónusta Bergsins, barnvænt hagsmunamat í nefndastarfi, Helgafellsskóli réttindaskóli UNICEF, íþróttaverkefni fyrir börn með fötlun, handbók fyrir ungmennaráð sem styrkir þátttöku þess innan stjórnsýslunnar, aukin ráðgjöf sálfræðinga innan skólanna, samtöl við ungmennaráð um umhverfis- og skipulagsmál sem eru í deiglunni. Stærsti viðburðurinn var Barna- og ungmennaþingið í apríl 2023 en þingið sóttu ríflega 90 nemendur 5.-10. bekkja grunnskóla. Ungmennaráð skipulagði þingstörf og var gestgjafi þingsins.
Við segjum oft að framtíðin sé barnanna en þegar betur er að gáð þá er dagurinn í dag barnanna. Ákvarðanir okkar snerta þau núna. Þess vegna er mikilvægt að raddir þeirra heyrist og að þau fái tækifæri til að taka þátt. Viðurkenningin sem barnvænt sveitarfélag er ekki bara rós í hnappagat Mosfellsbæjar, heldur líka og ekki síður fyrirheit um að við ætlum að halda áfram. Vegferðinni er ekki lokið, hún er nýhafin.
Fræðast má nánar um barnvæn sveitarfélög hér: www.barnvaensveitarfelog.is

Anna Sigríður Guðnadóttir
bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður stýrihóps um barnvænt sveitarfélag

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Sævar Birgisson

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.
Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.
Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.
Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.
Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.
Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.

Sævar Birgisson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Kjartan Helgi Ólafsson

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun.
Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: Almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:
• Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
• Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
• Hækka frístundastyrki.
• Styrkja starf félagsmiðstöðva.
• Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
• Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
• Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
• Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla.
Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.
Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru.
Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.
Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð.
Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: Að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.
Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu.
Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.
Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: Að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.
Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson,
Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Mosfellingar, tökum vel á móti iðkendum Aftureldingar

Hanna Björk Halldórsdóttir

Fjáröflun stendur yfir fyrir æfinga- og keppnisferðir erlendis
Á næstu vikum má búast við því að ungir og metnaðarfullir iðkendur Aftureldingar láti til sín taka víðs vegar um Mosfellsbæ. Iðkendur munu banka upp á heimili og bjóða ýmis konar vörur og þjónustu, allt til þess að safna fyrir væntanlegum æfinga- og keppnisferðum erlendis árið 2026.
Afturelding stendur sterkt í barna- og unglingastarfi, með um 2000 iðkendur á aldrinum 6–18 ára. Þar er því hvorki skortur á iðkendum né tækifærum – en ferðir af þessu tagi krefjast óhjákvæmilega töluverðs fjár og mikils skipulags. Því eru flokkarnir farnir á fullt skrið í að fjárafla.

Dýrmæt reynsla fyrir ungt fólk
Iðkendur telja æfinga- og keppnisferðir erlendis meðal hápunkta ársins. Þær kenna sjálfstæði, efla samvinnu, styrkja félagsfærni og skapa minningar sem fylgja þeim lengi. Fyrir suma getur slík ferð jafnvel ráðið framhaldinu í íþróttinni.
Til að ná markmiðum sínum leggja unglingarnir sjálfir verulegt á sig. Þau mæta á skipulagsfundi, skipta með sér verkefnum og standa að fjáröflun í hvaða veðri sem er. Þau læra að taka ábyrgð – ekki aðeins á eigin ferðum heldur á sameiginlegu verkefni hópsins.

Vonast eftir góðu viðmóti bæjarbúa
Forsvarsmenn Aftureldingar hvetja Mosfellinga eindregið til að taka vel á móti krökkunum á meðan fjáröflunin stendur yfir. Jákvætt viðmót, kurteisi og hvatning skiptir þau miklu máli, hvort sem fólk kaupir eitthvað eða ekki. Hrósið kemur þeim langt áfram í svona verkefnum.
Smærri framlög eru jafn mikilvæg og þau stærri – allt leggst á vogarskálarnar þegar kemur að því að gera drauma krakkanna að veruleika. Um leið er verið að styrkja íþróttastarf í Mosfellsbæ, sem er ein af stoðum samfélagsins.

Sterkt samfélag – sterk liðsheild
Ungmennafélagið Afturelding þakkar öllum bæjarbúum fyrir stuðninginn og hlýhuginn sem samfélagið sýnir ár eftir ár. Með sameiginlegu átaki ná krakkarnir markmiðum sínum og Mosfellsbær heldur áfram að vera líflegt og kraftmikið íþróttasamfélag.
Áfram Afturelding!

Hanna Björk Halldórsdóttir
Íþróttafulltrúi Aftureldingar

Best að spyrja börnin

Halla Karen Kristjánsdóttir

Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.
Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.

Framkvæmd Krakka Mosó
Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli
Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.
Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.
Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.

Skemmtileg leiktæki
Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.
Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.
Framtíðin er björt, allir út að leika.

Halla Karen Kristjándóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Greining er ekki lausn

Sigurður Árni Reynisson

Greining er eins og að setja nafn á sjúkdóm án þess að ávísa meðferð. Hún skýrir vandann en leysir hann ekki. Í skólakerfinu höfum við náð langt í að finna nöfnin, eins og ADHD og lesblindu, en alltof stutt í að skapa raunveruleg úrræði sem breyta daglegu lífi barna.
Við mælum, prófum og flokkum börn af mikilli nákvæmni og fáum sífellt ítarlegri hugtök til að lýsa erfiðleikum þeirra. En það sem vekur áhyggjur er að við virðumst oft stoppa þar. Þegar greiningin liggur fyrir, dofnar ákallið um að bregðast við í kennslustofunni.
Það er eins og meginmarkmiðið sé að nefna erfiðleikann en ekki að leysa hann. Við segjum „þetta barn er með ADHD,“ en því fylgir engin skýr leiðbeining um hvað kennarinn á að gera næst. Foreldrar standa uppi með skýrslu, kennarar með lista yfir greiningar í bekknum, en það sem vantar eru raunveruleg skref fram á við sem nýtast í daglegu starfi. Þetta er afleiðing menningar í kerfinu, þar sem fjárfest er í prófum og mælitækjum, en lausnirnar fá oft lítið rými. Við teljum að greiningin sjálf sé svarið, þegar hún ætti aðeins að vera upphafið.
Þessi nálgun hefur alvarlegar afleiðingar. Börnin sjálf finna fljótt hvort greiningin breytir einhverju í þeirra skólagöngu eða ekki. Ef ekkert gerist, ef ekkert nýtt er reynt, verður greiningin að stimpilmerki fremur en tækifæri. Hún segir barninu hvað það heitir í flokkunarkerfinu, en hún segir ekki hvernig það getur lært á eigin forsendum. Þannig er hætta á að sjálfsmynd barnsins mótist af veikleikanum einum, í stað þess að lausnir kalli fram styrkleikana.
Foreldrar standa líka oft ráðalausir eftir að fá niðurstöðu. Þau fá ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig þau geta stutt barnið heima. Hvernig hjálpum við með heimanámið? Hvernig nýtum við styrkleikana? Of oft fá þau engin svör. Kennarar eru í sömu stöðu. Þeir fá upplýsingar um greiningu en ekki tæki eða aðferðir til að nýta í kennslu. Þannig verður greiningin að byrði frekar en stuðningi, hún segir að eitthvað sé að, en ekki hvernig eigi að mæta því.
Við verðum að spyrja okkur, af hverju er þetta svona? Hvers vegna hefur greiningin sjálf hlotið meira vægi en lausnirnar? Er það vegna þess að greiningin er mælanleg og auðvelt að setja hana í skýrslu á meðan lausnir eru flóknari og krefjast sveigjanleika? Er það vegna þess að kerfin okkar eru hönnuð til að safna gögnum en síður til að aðlaga kennsluhætti? Hver sem skýringin er, þá er ljóst að jafnvægið er rangt. Greining getur verið gagnleg en hún breytir engu ein og sér. Það sem skiptir máli er hvort lausnir fylgja í kjölfarið.
Þessar lausnir ættu ekki aðeins að mæta vanda barnsins heldur byggja það upp, kalla fram styrkleika þess og kveikja nýja von um að það geti blómstrað. Þær ættu að vera lausnir sem kennarar geta gripið til strax í kennslustund og foreldrar geta notað heima til að styðja við nám barnsins. Það er í þessum lausnum sem vonin býr, ekki í orðinu sjálfu sem greiningin gefur. Við verðum að snúa þessu við. Greiningar eiga ekki að vera markmið heldur tæki. Þær eiga að vísa okkur á næstu skref, ekki vera lokapunktur. Kerfið okkar á ekki að vera framúrskarandi í að skilgreina erfiðleika barna, heldur í að veita þeim raunverulega aðstoð.
Börn læra ekki af greiningu. Þau læra af kennslu sem mætir þeim á þeirra forsendum. Og kennarar kenna ekki betur af því að fá stimpil á barnið eða greiningu á blað. Þeir kenna betur þegar þeir hafa lausnir sem virka.
Þess vegna þurfum við að leggja jafnmikla vinnu í lausnir og við leggjum í greiningar. Svarið er augljóst, lausnirnar skipta máli. Þær eru það sem breyta daglegu lífi barnsins, gera kennurum kleift að kenna og foreldrum kleift að styðja. Greining getur verið byrjunin, en án lausna er hún aðeins orð á blaði.

Sigurður Árni Reynisson
kennari í Lágafellsskóla

Allir út að leika!

Sævar Birgisson

Það er fátt sem gleður meira en að sjá bæinn okkar vaxa og dafna, ekki bara í tölum og framkvæmdum heldur einnig í lífi og leik.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið mikið unnið að því í Mosfellsbæ að bæta aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur. Í bæ þar sem íbúum fjölgar stöðugt og hlutfall barna og barnafjölskyldna er hátt, skiptir miklu máli að leik- og útivistarsvæði séu góð, örugg og aðgengileg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á leikvöllum víðsvegar um bæinn, nýir og endurnýjaðir leikvellir eru nú orðnir enn meira áberandi hluti af bæjarmyndinni og það sýnir hversu mikla áherslu Mosfellsbær leggur á leik og samveru. Þessi uppbygging hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknar og meirihlutans í Mosfellsbæ á kjörtímabilinu.
Má þar nefna leikvöllinn við Klapparhlíð, sem hannaður er með aðgengi fyrir öll börn í huga, leikvöllinn við Leirutanga, sem hefur fengið nýtt líf með gervigrasvelli, körfuboltavelli og fjölbreyttum leiktækjum, og nýju leikvellina við Liljugötu og Snæfríðargötu í Helgafellshverfi sem hafa þegar orðið vinsælir viðkomustaðir í hverfinu.
Eins hefur Ævintýragarðurinn fengið ýmsar viðbætur og lagfæringar sem heppnast hafa virkilega vel. Þá hefur leikvöllurinn í Lindarbyggð verið endurnýjaður og bættur til muna og er orðinn að skemmtilegu leik- og samverusvæði fyrir börn og fjölskyldur í hverfinu. Því til viðbótar hafa heilmiklar endurbætur átt sér stað við skólalóðir Varmárskóla og Lágafellsskóla, sem og leikskólalóðirnar við Hlíð og Hulduberg og Reykjakot. Að ógleymdu leiksvæðinu við nýjasta leikskóla bæjarins, Sumarhús í Helgafellshverfi.
Þessi leikvæði eru ekki bara staðir til að leika sér, þau eru hjartsláttur nærumhverfisins. Svæðin skapa rými þar sem börn fá að leika sér og efla hreyfigetu, og þar sem foreldrar hittast og mynda tengsl. Það að leggja áherslu á barnvænt umhverfi er ekki aðeins spurning um framkvæmdir, það snýst um lífsgæði. Með því að skapa aðstöðu sem hvetur til leiks, útivistar og samveru, erum við að styrkja grunninn að samfélagi þar sem börnum líður vel og allir fá að taka þátt.
Það er í raun þessi daglega samvera sem gerir samfélag eins og Mosfellsbæ að góðum stað til að ala upp börn.

Sævar Birgisson
Bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Börnin og skólasamfélagið

Sveinn Óskar Sigurðsson

Börnin okkar eru mörg áttavillt. Það er ekki að undra að þau séu það, séum við, fullorðna fólkið og aðstandendur, það einnig.
Leikskólinn og grunnskólinn búa við að sveitarfélög setja sér stefnu sem er óljós og án mælanlegra markmiða sem hægt er að botna í. Leikskólar og grunnskólar fylgja aðalnámskrám sem fáir eða jafnvel enginn nær að höndla enda efnið svo óljóst að ekki er hönd á festandi hvert ber að stefna með nám barnanna. Við tekur framhaldsskólinn og þar starfa 27 skólar sem hver um sig ræður stefnunni og lítið eða ekkert samráð þar á milli. Kennarar við framhaldsskóla eru farnir að taka við börnum úr grunnskólum sem hafa ekki næga hæfni til að lesa sér til gagns.
Í Mosfellsbæ starfa ótal hæfir kennarar á þessum skólastigum og vilja vel. En lesa má úr greinum, ítarlegum skýrslum og í samtölum við fagfólk sem og foreldra að víða er pottur brotinn. Mikið álag er á kennurum og oft meira sett á þeirra herðar en ætlunin var. Allt eru þetta pólitískar ákvarðanir sem valda vandanum eða þá ákvarðanaleysi. Ríkjandi stjórnvöld hverju sinni eiga það til að reyna eftir fremsta megni að fela stöðuna, dylja vandann og vilja helst ekki ræða hann. Það skiptir litlu hvað efsta stig stjórnsýslunnar gerir hvað skólakerfið varðar, það eru kennararnir sem verða að bjarga málunum hvað sem á dynur. Það eru þeir sem mæta til vinnu og þurfa að standa vaktina gangvart börnunum og aðstandendum þeirra í sífellt flóknara samfélagi.
Kjarnahlutverk skólans á að vera að skapa þokkalegt næði þar sem nemandi hefur göngu sína upp löngu brekkuna. Þar verður hver og einn nemandi að eiga kost á að getað öðlast þjálfun, geta glímt við verkefni og lært. Til að það sé mögulegt má skólinn ekki vera á e.k. viðbúnaðarstigi í björgunarleiðangri alla daga. Skóli sem er starfandi í e.k. æðibunugangi er ekki þessi staður fyrir börnin til að koma þeim upp lengstu og bröttustu brekkurnar. Við eigum að tryggja að skólinn sé skjól til mennta, skjól til að geta öðlast þekkingu og getu til að takast á við lífið fram undan.
Hér á landi er talið að um 34% barna þurfi á skólaferli sínum á sérkennslu að halda í meiri eða minni mæli og lítið sem ekkert vitað hvernig þetta flokkast. Í Svíþjóð nemur þetta hlutfall um 5,8%, Noregi 7,7% og Danmörku 6,6%. Þetta er með miklum ólíkindum.
Við í Miðflokknum höfum svo ótal oft fjallað um þetta efni og margoft rætt málefni barna, aðstæður í skólum hér í Mosfellsbæ og hag barnafólks í bænum sem við viljum setja í fyrsta sæti. Enn og aftur minnum við á þetta og munum halda því áfram. Það er að mörgu að hyggja og afskaplega mikilvægt að framtíðarforysta hér í bænum leggi höfuðáherslu á þennan málaflokk og gefi ekkert eftir þegar velta á við steinum til að tryggja bættan hag barna og barnafólks.
Með frábærum kennurum og öðru starfsfólki skólanna er markmiðið að ná árangri.

Sveinn Óskar Sigurðsson,
oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ

Sundabrautin

Úrsúla Jünemann

Um daginn var haldinn upplýsingafundur í framhaldsskólanum hér í Mosfellsbæ. Um það bil 50 manns mættu og hefði ég viljað sjá fleiri.
Nú hugsa örugglega margir að Sundabrautin skipti okkur hér ekki svo miklu máli því við munum væntanlega ekki nota hana. En svo einfalt er það ekki. Með tilkomu þessa mannvirkis mun umferðin léttast talsvert hér í gegnum bæinn okkar og kannski einnig í Ártúnsbrekkunni og lengra.
En fyrir okkur í Mosfellsbænum er mjög mikilvægt hvernig útfærslan muni verða. Við eigum nefnilega eitt stórkostlegasta náttúruverndar- og útivistarsvæði: Leiruvoginn. Það er nú þegar búið að skemma flest allar leirur á höfuðborgarsvæðinu og er ekki mikið eftir af óskemmdum leirum. En leirur eru mjög mikilvæg vistkerfi, þær binda mikið kolefni og skapa næringu fyrir óteljandi fugla. Leiruvogurinn er eitt albesta fuglaskoðunarsvæði þó víðar sé leitað. Bæði farfuglar og umferðafuglar koma við og næra sig sérlega á vorin og haustin. Íslendingar bera ábyrgð á mörgum fuglategundunum sem standa höllum fæti á heimsvísu en hafa viðkomu hér.
Leiruvogurinn og framhaldið Reykjavíkurmegin er mikið notað til útivistar og náttúruupplifunnar. Jafnvel er hægt að skoða seli mjög nálegt í Gorvíkinni syðst í Leiruvogi. Gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur nota strandlengjuna mikið, svo ekki sé talað um golfiðkendur.
Hvað mun gerast ef Sundabrautin yrði lögð á brú yfir Leiruvoginn? Ódýrasta áætlun gerir ráð fyrir landfyllingu sem skilur einungis smá op eftir þar sem sjórinn streymir út og inn. Nú vitum við og höfum reynslu af því hvernig svona framkvæmdir hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á lífríkið til dæmis í Kolgrafarfirðinum.
Fjórar ár renna í Leiruvoginn með tilheyrandi framburði. Þar sem sjórinn mun ekki ná að hreinsa setið út í gegnum svona þröng op mun Leiruvogurinn fyllast smátt og smátt.
Þessi Sundarbraut á brú mun verða hraðbraut og niðurinn af umferðinni mun skemma fyrir fólki sem ætlar að fá frið frá daglegu amstri þarna meðfram ströndinni.
Við eigum að setja áherslu á að fá Sundagöng en ekki brú þó þetta muni kosta meira. Þá þurfum við ekki að naga okkur í handarbökin seinna meir þegar óafturkræf náttúruspjöll hafa átt sér stað.

Úrsúla Jünemann

Hvað hefur áunnist

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fyrir tæplega þremur og hálfu ári var gengið til kosninga til sveitarstjórna og því liggur fyrir að það styttist í að við kjósum aftur. Já, tíminn líður raunverulega svona hratt. Á þessum tímamótum veltum við auðvitað fyrir okkur hverju við í meirihlutanum, sem samanstendur af Framsókn, Samfylkingu og Viðreisn, höfum áorkað á þessum tíma sem liðinn er.
Það fylgir því mikil ábyrgð að vera í bæjarstjórn og stýra heilu sveitarfélagi. Öll verkefnin sem fjallað er um eða beðið er um að við tökum fyrir þarf að skoða og meta frá öllum hliðum og ávallt er verið að gæta almannahagsmuna og viðhafa gagnsæi og lýðræðisleg vinnubrögð varðandi allar ákvarðanir. Að baki þessum ákvörðunum liggja margar vinnustundir, símtöl, fundir og viðræður sem svo oft eru ekki sýnilegar bæjarbúum.

Hér á eftir verður stiklað á stóru og listuð upp helstu viðfangsefnin, stór sem smá.
Listinn er alls ekki tæmandi og kjörtímabilið ekki búið þannig að hann er stöðugt í vinnslu:
• Kvíslarskóli endurnýjaður og nútímavæddur
• Varmárskóli – miklar endurbætur og viðhald

Aldís Stefánsdóttir

• Skólalóðir er verið að endurbæta í samvinnu við nemendur og skólastjórnendur
• Endurbætur á leikvöllum.
• Forvarnarverkefnið „Börnin okkar“
• Samið við Bergið headspace um þjónustu í Mosfellsbæ fyrir ungt fólk til 25 ára
• Sálfræðiþjónusta í skólana og opin foreldralína fyrir foreldra unglinga.
• Félagsmiðstöðvar – Opnunartími hefur verið lengdur, nú er opið allt árið.
• Brúarland endurnýjað og félagsstarf eldra fólks er flutt þangað. Húsið iðar af lífi og mikill uppgangur í félagsstarfi eldra fólks.
• Hlégarður tekinn í rekstur hjá sveitarfélaginu og viðburðastjóri ráðinn.
• Sundlaugar – opnunartími lengdur á virkum dögum.
• Frisbígolfvöllur stækkaður og teigar endurbættir
• 3 nýjar tæknihjólabrautir í Ævintýragarðinum.
• Gönguskíðaspor á veturna í bænum okkar.
• Nýr aðalvöllur að Varmá með gervigrasi, flóðlýsingu og vökvunarkerfi

Sævar Birgisson

• Gervigrasvöllurinn endurgerður með vökvunarkerfi.
• Stjórnsýsluúttekt – 74 umbótatillögur, flestum lokið. Nýtt skipurit, innri endurskoðun og mælaborð.
• Forysta í stafrænum málum
• Verið er að LED-væða götulýsingu í bænum
• Álafosskvosin – þar er komin áfangastaðagreining fyrir möguleika á aukinni ferðaþjónustu og verndaráætlun fyrir byggðina
• Atvinnustefna samþykkt
• Nýtt íþróttahús við Helgafellsskóla tekið í notkun
• Leikskólinn Sumarhús opnaði í sumar, fyrir 150 börn
• Nýr búsetukjarni opnaður fyrir fatlað fólk í Helgafellshverfi
• Lóðum úthlutað fyrir einbýlishús, raðhús og fjölbýli, tæplega 300 íbúðir
• Dagdvöl fyrir aldraða fjölgun um 16 rými

Örvar

Það þurfa margir þættir að koma saman til að skapa gott samfélag. Hæfileg uppbygging á hverjum tíma, góðir skólar, þjónusta við fatlaða og eldra fólk og svo mætti auðvitað lengi telja. Þó er það alltaf mannlegi hlutinn sem skapar virkilega gott samfélag þar sem fólki líður vel. Að hlusta á hvert annað, vanda okkur í samskiptum og láta virðingu, samheldni og tillitssemi vera í öndvegi alla daga.
Inn í þetta allt þarf svo að blanda hæfilegum skammti af skynsemi þegar kemur að uppbyggingu innviða. Því auðvitað langar alla að gera margt og mikið en það er ekkert öðruvísi með sveitarfélag en heimilisreksturinn, það þarf að forgangsraða.

Bæjarfulltrúar Framsóknar
Halla Karen Kristjánsdóttir, Aldís Stefánsdóttir, Sævar Birgisson og Örvar Jóhannsson.

Á að slá fram að jólum?

Úrsúla Jünemann

Það vekur furða mína að enn þá eru sláttuvélar að störfum við að nauðraka alla grasfleti í Mosfellsbænum þótt það sé komið fram í seinni part september. Og grassprettan er eiginlega búin.
Það er eins og menn vilji ekki sjá eina einustu blómstrandi jurt. Sama var á teningunum í vor: varla var snjórinn farinn þá byrjuðu sláttuvélar að bruna um allan bæinn, alveg sama hvort eitthvað gras var farið að vaxa.
Svona snöggslegnar grasflatir henta auðvitað til að spila fótbolta eða golf. En annars eru þetta algjörlega dauð vistkerfi. Af hverju mega ekki villt blóm njóta sín alla vega sums staðar? Þau gefa býflugum, humlum og fleirum skordýrum næringu og þessi smádýr eru ósköp mikilvæg fyrir frjóvgun margra plantna.
Mig grunar að fyrirtækin sem standa fyrir þessum allt of öra grasslætti vanti verkefni. Mosfellbær gæti sparað talsvert með því að fækka þessu. Ég skora á umhverfisnefndina að skoða þetta á næsta ári. Hér er þörf á hugarfarsbreytingu.

Úrsúla Jünemann

Bæjarhátíð í 20 ár

Regína Ásvaldsdóttir

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður sett fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi og fagnar 20 ára afmæli í ár.
Í tilefni afmælisins var nýtt merki hátíðarinnar kynnt sem auglýsingastofan ENNEMM á heiðurinn af.
Bæjarhátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2005 en það var þáverandi garðyrkjustjóri bæjarins, Oddgeir Þór Árnason, sem vann að undirbúningnum og átti frumkvæði að nafninu Í túninu heima. Eins og flestir vita vísar nafnið í bók nóbelskáldsins og Mosfellingsins Halldórs Kiljan Laxness. Í framhaldinu verkstýrði Daði Þór Einarsson stjórnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar hátíðinni þar til Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings og viðburðastjóri Hlégarðs tók við því hlutverki og hefur sinnt því undanfarin ár ásamt Auði Halldórsdóttur forstöðumanni bókasafns og menningarmála.

Fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ er svona hátíð afar þýðingarmikil. Hún skapar umgjörð fyrir okkur til að draga fram allt það góða sem við eigum í okkar menningarlífi, íþrótta- og félagsstarfi. Hátíðin hefur alla tíð verið þátttökuhátíð þar sem bæjarbúar bjóða til dæmis upp á tónleika í heimagörðum, skipuleggja götugrill og skreyta í hverfalitum. Þannig hvetur bæjarhátíðin til samstarfs, samtals og samveru fjölskyldna, vina og nágranna. Við erum líka stoltir gestgjafar og viðburðir eins og grænmetismarkaðurinn og Tindahlaupið hafa verið gríðarlega vinsælir. Í fyrra var haldið sérstakt hundahlaup í fyrsta sinn sem sló í gegn.
Í ár verða fjölmargir viðburðir eins og undanfarin ár og það er gaman að sjá hversu margir listamenn bjóða heim en við erum með tónleika og listsýningar á 15 heimilum og vinnustofum í bænum. Mig langar að þakka þessu góða fólki sérstaklega fyrir gestrisnina.

Stórtónleikar á torginu á laugardagskvöldinu hafa verið fyrir marga hápunktur hátíðarinnar. Mosfellsbær hefur alla tíð staðið fyrir tónleikunum undir formerkinu fjölskyldutónleikar. Á undanförnum árum hefur fjöldi unglinga af öllu höfuðborgarsvæðinu sótt þessa tónleika, án þess að vera í fylgd með foreldrum.
Fjöldinn og áfengisneyslan hefur stigmagnast og náði hámarki á tónleikunum 2024. Viðbragðsaðilar í Mosfellsbæ voru mjög vel undirbúnir og okkar góða starfsfólk í Bólinu, Flotanum sem er færanleg félagsmiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið, barnavernd, björgunarsveitin og lögreglan stóðu öll vaktina. Þá var keypt þjónusta frá sérstöku öryggisfyrirtæki og sérsveitin var einnig til taks. Neyslan var óhófleg, mikil spenna og slagsmál og það hafa aldrei fleiri ungmenni verið færð í athvarf á þessum tónleikum eins og í fyrra.
Það var ljóst að einhverju þurfti að breyta í ár til að brjóta upp þetta mynstur. Nærtækast var að færa tónleikana fyrr um kvöldið en það skarast hins vegar á við götu­grillin. Þess vegna var ákveðið að ljúka hátíðinni í ár með fjölskyldutónleikum á sunnudagseftirmiðdeginum þar sem flottir tónlistarmenn koma fram.
Brekkusöngurinn verður á sínum stað og á laugardagskvöldinu munum við fá tónlistarmenn til að skemmta í fjölmennustu götugrillunum. Þá verður sundlaugarbíó fyrir unglingana í Lágafellslaug og Pallaballið verður í Hlégarði og hefst fyrr en undanfarin ár.
Við munum svo ljúka kvöldinu með ljósa­sýningu á Helgafelli.
Fyrir hönd bæjaryfirvalda vil ég færa öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi hátíðarinnar í ár okkar bestu þakkir. Þá vil ég þakka fyrirtækjum í Mosfellsbæ fyrir stuðninginn.
Ég vona að sem flestir Mosfellingar finni eitthvað við sitt hæfi á bæjarhátíðinni Í túninu heima 2025 og að veðurguðirnir verði með okkur í liði!

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar

Menningin, sagan, Álafoss og ullin

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Í túninu heima leitar menningin á hugann.
Á bæjarhátíðinni birtist bæjarmenningin skýrt. Bæjarbúar, félög og fyrirtæki taka þátt með ýmsum viðburðum og uppákomum sem draga til sín bæði okkur íbúana og aðra gesti. Við hittum nágranna á förnum vegi og eigum jákvæð samskipti við fólk sem við höfum kannski aldrei hitt áður. Mosfellsbær heldur utan um hátíðina og leggur mikinn metnað, vinnu og talsverðan kostnað í að allt fari fram á sem bestan máta.
Menning og menningarlíf í Mosfellsbæ er fjölbreytt og alls konar á öllum árstíðum og það er staðreynd að öflugt menningarlíf á gríðarlegan þátt í jákvæðum og uppbyggilegum bæjarbrag. Okkur langar að nefna hér til sögunnar örfá af þeim verkefnum sem meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur unnið að og komið í framkvæmd á yfirstandandi kjörtímabili. Hlégarður er kominn heim og þar er fjölbreytt starfsemi flesta daga ársins. Í Hlégarði hafa á kjörtímabilinu verið haldin árleg Sögukvöld sem slegið hafa algjörlega í gegn. Þar hafa verið teknir fyrir vissir þættir í sögu sveitarfélagsins og fólksins sem byggði þennan bæ. Brúarland er gengið í endurnýjun lífdaga og iðar af lífi alla vikuna undir stjórn Félagsstarfs aldraðra. Báðar byggingarnar hafa fengið umfangsmikið og löngu tímabært viðhald og upplyftingu þó enn sé nokkuð í land að þeirri vinnu ljúki.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Álafosskvos
Ríkur þáttur í menningar- og atvinnusögu Mosfellsbæjar er starfsemi ullarverksmiðju í Álafosskvos, lífið í kringum hana og áhrif hennar á þróun samfélagsins. Vagga íslensks ullariðnaðar var í kvosinni og saga ullariðnaðarins í Álafosskvos er bæjarsaga Mosfellsbæjar. Í Álafosskvos hefur varðveist sérstakur staðarandi í gegnum tíðina þótt ullariðnaður hafi löngu lagst af og staðurinn gegnir enn mikilvægu hlutverki í menningar- og félagslífi bæjarbúa. Heildarmynd svæðisins hefur haldist merkilega vel eins og kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð.
Í vinnu við nýja atvinnustefnu Mosfellsbæjar á kjörtímabilinu var unnið sérstaklega með hugmyndir um áfangastaðinn Álafosskvos. Það kom glöggt í ljós í vinnustofu, á opnum fundi og samtölum við hagaðila að í huga langflestra var Álafosskvosin mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í bænum í ljósi þeirrar miklu og sérstöku sögu sem þar býr.

Ný tækifæri í ullinni
Í gegnum tíðina hafa margir rætt að halda þurfi sögu Álafossverksmiðjunnar á lofti og sýna henni þann sóma sem hún á skilið. Safn

Lovísa Jónsdóttir

um sögu starfseminnar hefur oft verið nefnt. Með safni eða sýningu er sagan ekki bara varðveitt heldur opnast möguleikar á að miðla henni líka til ungra Mosfellinga sem eldri, til gesta og gangandi. Það er því gríðarlega ánægjulegt að nú, þegar Mosfellsbær hefur unnið grunnvinnuna sem birtist í nýrri atvinnustefnu, skýrslu um áfangastaðinn Álafosskvos sem unnin var með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og tillögu um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð, komi fram ósk frá nýjum eigendum jarðhæðarinnar í verksmiðjuhúsinu um samstarf við uppbyggingu sýningar um sögu starfseminnar að Álafossi. Hugmyndir eigenda eru mjög áhugaverðar en aðkoma bæjarins yrði einungis sú að eiga og reka framangreinda sýningu inni í húsnæðinu þar sem sögu ullarinnar og ullarvinnslu í Álafosskvos yrðu gerð góð skil. Bærinn kæmi ekki að rekstri annarrar starfsemi á staðnum.
Á fundi bæjarráðs 21. ágúst var samþykkt að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við nýja eigendur jarðhæðar verksmiðjuhússins í Álafosskvos um samstarf um uppbyggingu safns um sögu Álafosskvosarinnar og ullariðnaðarins á Íslandi á jarðhæð verksmiðjuhússins. Markmið samstarfsins er að lyfta ásýnd Álafosskvosarinnar, varðveita söguna og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn.
Í þessu samstarfi yrðu fólgin mikil tækifæri fyrir Mosfellsbæ.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingarinnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Að áliðnu sumri

Ég hef búið í Mosfellsbæ allar götur síðan í ársbyrjun 1983 og alltaf í sama húsinu. Hér hef ég átt góð ár þar sem börnin okkar hjóna ólust upp og við notið vináttu og velvildar ótalmargra góðra granna gegnum árin. Já, þar sem okkur líður vel þar er alltaf gott að búa.
Á þessum rúmlega 40 árum hefur ótalmargt breyst. Íbúum sveitafélagsins hefur fjölgað mjög mikið eða úr 3.000 í nálægt 15.000. Mosfellssveitin eins og sveitarfélagið var nefnt lengi vel er kaupstaður frá 1987 og orðið eitt af fjölmennustu sveitafélögum landsins. Og Mosfellsbærinn er á næstu misserum að vaxa saman við Reykjavík. Áður fyrr var Mosfellsssveitin töluvert langt utan við Reykjavík en allt er í heiminum hverfult, þ.e. breytingum háð.
Nú er ég kominn á áttræðisaldur og eitt af tómstundamálum mínum er að rölta í rólegheitum niður að Leirvogi, virða fyrir mér fjölbreytt fuglalífið, hestana á beit og stundum lendi ég á tali við annað fólk, jafnvel golfarana sem iðka sína íþrótt guðslangan daginn sér til ánægju. Oft verður útiveran tilefni til ýmissa hugrenninga sem ritaðar eru niður þá heim er komið.
Það hefur lengi verið markmið mitt á gönguferðum mínum að ganga út á Blikastaðanesið. Nú er svo komið að mér finnst að bekkirnir á þessari leið hafi verið mátt vera fleiri og áfangarnir því full langir. Það þarf að huga betur að okkur sem eldri erum sem finnst gott að tylla sér um stund.
Og stígarnir sem voru lagðir undir lok síðustu aldar eru margir hverjir börn síns tíma, lagðir með miklum hug en kannski af vanefnum. Ekki var vandað nóg til þeirra fyrstu, hvorki undirlags né endalausrar endingar. Víða eru þeir orðnir býsna lélegir, sprungnir og skörðóttir enda vinna náttúruöflin vel á að kvarna úr þeim og gera lakari með hverju árinu sem líður. Sjá má að síðari kynslóð þessara stíga var mun betur undirbúni auk þess sem þeir eru breiðari en þeir eldri. Á þessu þyrfti að taka, bæta og laga það sem þörfin er fyrir á vegum bæjarins og sem mikið er notað. Áður fyrr voru þeir fáfarnir en á góðviðrisdegi eru þeir stundum yfirfullir af hjólreiðafólki, göngufólki og hlaupandi íþróttafólki að þjálfa sig fyrir næstu hlaup. Nauðsyn er að aðgreina betur.
Og Fuglaskoðunarhúsið við Langatanga hefur mátt sjá fífil sinn fegurri. Einhverjir illa uppaldir götustrákar hafa gert að gamni að skemma það eins og þá lystir. Á þessu þarf að taka sem væri okkur öllum fremur til sóma en ekki til vansa. Má nefna að síðasta árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 2025 er helguð fuglum og fuglaskoðunarstöðum um allt Ísland og er Leirvogurinn talinn vera einn allra besti fuglaskoðunarstaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þá er einstaklega gaman að ganga um stíga bæjarins og skoða trjágróðurinn sem er víða orðinn mjög þroskaður og hávaxinn. Garðarnir eru misjafnir, langflestir eru mjög vel hirtir þar sem metnaður er mikill að rækta allt sem best. Er unun að skoða þessa garða sem eru eigendum til mikils sóma. Má t.d. sjá í einum garði eik sem er líklega ein sjaldgæfasta trjátegund sem þrífst á Íslandi. En miður er að rekast á nokkra garða sem illa hefur verið haldið við jafnvel í áratugi.
Það hefur reynst vel að búa í Mosfellsbæ. Við getum öll í sameiningu gert bæinn okkar enn betri.

Guðjón Jensson
Eldri borgari, tómstundablaðamaður og leiðsögumaður
Arnartangi43@gmail.com