Bæjarhátíð í 20 ár

Regína Ásvaldsdóttir

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður sett fimmtudaginn 28. ágúst næstkomandi og fagnar 20 ára afmæli í ár.
Í tilefni afmælisins var nýtt merki hátíðarinnar kynnt sem auglýsingastofan ENNEMM á heiðurinn af.
Bæjarhátíðin var haldin í fyrsta sinn árið 2005 en það var þáverandi garðyrkjustjóri bæjarins, Oddgeir Þór Árnason, sem vann að undirbúningnum og átti frumkvæði að nafninu Í túninu heima. Eins og flestir vita vísar nafnið í bók nóbelskáldsins og Mosfellingsins Halldórs Kiljan Laxness. Í framhaldinu verkstýrði Daði Þór Einarsson stjórnandi skólahljómsveitar Mosfellsbæjar hátíðinni þar til Hilmar Gunnarsson ritstjóri Mosfellings og viðburðastjóri Hlégarðs tók við því hlutverki og hefur sinnt því undanfarin ár ásamt Auði Halldórsdóttur forstöðumanni bókasafns og menningarmála.

Fyrir bæjarfélag eins og Mosfellsbæ er svona hátíð afar þýðingarmikil. Hún skapar umgjörð fyrir okkur til að draga fram allt það góða sem við eigum í okkar menningarlífi, íþrótta- og félagsstarfi. Hátíðin hefur alla tíð verið þátttökuhátíð þar sem bæjarbúar bjóða til dæmis upp á tónleika í heimagörðum, skipuleggja götugrill og skreyta í hverfalitum. Þannig hvetur bæjarhátíðin til samstarfs, samtals og samveru fjölskyldna, vina og nágranna. Við erum líka stoltir gestgjafar og viðburðir eins og grænmetismarkaðurinn og Tindahlaupið hafa verið gríðarlega vinsælir. Í fyrra var haldið sérstakt hundahlaup í fyrsta sinn sem sló í gegn.
Í ár verða fjölmargir viðburðir eins og undanfarin ár og það er gaman að sjá hversu margir listamenn bjóða heim en við erum með tónleika og listsýningar á 15 heimilum og vinnustofum í bænum. Mig langar að þakka þessu góða fólki sérstaklega fyrir gestrisnina.

Stórtónleikar á torginu á laugardagskvöldinu hafa verið fyrir marga hápunktur hátíðarinnar. Mosfellsbær hefur alla tíð staðið fyrir tónleikunum undir formerkinu fjölskyldutónleikar. Á undanförnum árum hefur fjöldi unglinga af öllu höfuðborgarsvæðinu sótt þessa tónleika, án þess að vera í fylgd með foreldrum.
Fjöldinn og áfengisneyslan hefur stigmagnast og náði hámarki á tónleikunum 2024. Viðbragðsaðilar í Mosfellsbæ voru mjög vel undirbúnir og okkar góða starfsfólk í Bólinu, Flotanum sem er færanleg félagsmiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið, barnavernd, björgunarsveitin og lögreglan stóðu öll vaktina. Þá var keypt þjónusta frá sérstöku öryggisfyrirtæki og sérsveitin var einnig til taks. Neyslan var óhófleg, mikil spenna og slagsmál og það hafa aldrei fleiri ungmenni verið færð í athvarf á þessum tónleikum eins og í fyrra.
Það var ljóst að einhverju þurfti að breyta í ár til að brjóta upp þetta mynstur. Nærtækast var að færa tónleikana fyrr um kvöldið en það skarast hins vegar á við götu­grillin. Þess vegna var ákveðið að ljúka hátíðinni í ár með fjölskyldutónleikum á sunnudagseftirmiðdeginum þar sem flottir tónlistarmenn koma fram.
Brekkusöngurinn verður á sínum stað og á laugardagskvöldinu munum við fá tónlistarmenn til að skemmta í fjölmennustu götugrillunum. Þá verður sundlaugarbíó fyrir unglingana í Lágafellslaug og Pallaballið verður í Hlégarði og hefst fyrr en undanfarin ár.
Við munum svo ljúka kvöldinu með ljósa­sýningu á Helgafelli.
Fyrir hönd bæjaryfirvalda vil ég færa öllum þeim sem hafa komið að undirbúningi hátíðarinnar í ár okkar bestu þakkir. Þá vil ég þakka fyrirtækjum í Mosfellsbæ fyrir stuðninginn.
Ég vona að sem flestir Mosfellingar finni eitthvað við sitt hæfi á bæjarhátíðinni Í túninu heima 2025 og að veðurguðirnir verði með okkur í liði!

Regína Ásvaldsdóttir
bæjarstjóri Mosfellsbæjar

Menningin, sagan, Álafoss og ullin

Anna Sigríður Guðnadóttir

Í aðdraganda bæjarhátíðarinnar Í túninu heima leitar menningin á hugann.
Á bæjarhátíðinni birtist bæjarmenningin skýrt. Bæjarbúar, félög og fyrirtæki taka þátt með ýmsum viðburðum og uppákomum sem draga til sín bæði okkur íbúana og aðra gesti. Við hittum nágranna á förnum vegi og eigum jákvæð samskipti við fólk sem við höfum kannski aldrei hitt áður. Mosfellsbær heldur utan um hátíðina og leggur mikinn metnað, vinnu og talsverðan kostnað í að allt fari fram á sem bestan máta.
Menning og menningarlíf í Mosfellsbæ er fjölbreytt og alls konar á öllum árstíðum og það er staðreynd að öflugt menningarlíf á gríðarlegan þátt í jákvæðum og uppbyggilegum bæjarbrag. Okkur langar að nefna hér til sögunnar örfá af þeim verkefnum sem meirihluti Framsóknar, Viðreisnar og Samfylkingar hefur unnið að og komið í framkvæmd á yfirstandandi kjörtímabili. Hlégarður er kominn heim og þar er fjölbreytt starfsemi flesta daga ársins. Í Hlégarði hafa á kjörtímabilinu verið haldin árleg Sögukvöld sem slegið hafa algjörlega í gegn. Þar hafa verið teknir fyrir vissir þættir í sögu sveitarfélagsins og fólksins sem byggði þennan bæ. Brúarland er gengið í endurnýjun lífdaga og iðar af lífi alla vikuna undir stjórn Félagsstarfs aldraðra. Báðar byggingarnar hafa fengið umfangsmikið og löngu tímabært viðhald og upplyftingu þó enn sé nokkuð í land að þeirri vinnu ljúki.

Halla Karen Kristjánsdóttir

Álafosskvos
Ríkur þáttur í menningar- og atvinnusögu Mosfellsbæjar er starfsemi ullarverksmiðju í Álafosskvos, lífið í kringum hana og áhrif hennar á þróun samfélagsins. Vagga íslensks ullariðnaðar var í kvosinni og saga ullariðnaðarins í Álafosskvos er bæjarsaga Mosfellsbæjar. Í Álafosskvos hefur varðveist sérstakur staðarandi í gegnum tíðina þótt ullariðnaður hafi löngu lagst af og staðurinn gegnir enn mikilvægu hlutverki í menningar- og félagslífi bæjarbúa. Heildarmynd svæðisins hefur haldist merkilega vel eins og kemur fram í skýrslu sem gerð hefur verið um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð.
Í vinnu við nýja atvinnustefnu Mosfellsbæjar á kjörtímabilinu var unnið sérstaklega með hugmyndir um áfangastaðinn Álafosskvos. Það kom glöggt í ljós í vinnustofu, á opnum fundi og samtölum við hagaðila að í huga langflestra var Álafosskvosin mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustu í bænum í ljósi þeirrar miklu og sérstöku sögu sem þar býr.

Ný tækifæri í ullinni
Í gegnum tíðina hafa margir rætt að halda þurfi sögu Álafossverksmiðjunnar á lofti og sýna henni þann sóma sem hún á skilið. Safn

Lovísa Jónsdóttir

um sögu starfseminnar hefur oft verið nefnt. Með safni eða sýningu er sagan ekki bara varðveitt heldur opnast möguleikar á að miðla henni líka til ungra Mosfellinga sem eldri, til gesta og gangandi. Það er því gríðarlega ánægjulegt að nú, þegar Mosfellsbær hefur unnið grunnvinnuna sem birtist í nýrri atvinnustefnu, skýrslu um áfangastaðinn Álafosskvos sem unnin var með Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og tillögu um að Álafosskvosin verði gerð að verndarsvæði í byggð, komi fram ósk frá nýjum eigendum jarðhæðarinnar í verksmiðjuhúsinu um samstarf við uppbyggingu sýningar um sögu starfseminnar að Álafossi. Hugmyndir eigenda eru mjög áhugaverðar en aðkoma bæjarins yrði einungis sú að eiga og reka framangreinda sýningu inni í húsnæðinu þar sem sögu ullarinnar og ullarvinnslu í Álafosskvos yrðu gerð góð skil. Bærinn kæmi ekki að rekstri annarrar starfsemi á staðnum.
Á fundi bæjarráðs 21. ágúst var samþykkt að fela bæjarstjóra að fara í viðræður við nýja eigendur jarðhæðar verksmiðjuhússins í Álafosskvos um samstarf um uppbyggingu safns um sögu Álafosskvosarinnar og ullariðnaðarins á Íslandi á jarðhæð verksmiðjuhússins. Markmið samstarfsins er að lyfta ásýnd Álafosskvosarinnar, varðveita söguna og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn.
Í þessu samstarfi yrðu fólgin mikil tækifæri fyrir Mosfellsbæ.

Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingarinnar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Að áliðnu sumri

Ég hef búið í Mosfellsbæ allar götur síðan í ársbyrjun 1983 og alltaf í sama húsinu. Hér hef ég átt góð ár þar sem börnin okkar hjóna ólust upp og við notið vináttu og velvildar ótalmargra góðra granna gegnum árin. Já, þar sem okkur líður vel þar er alltaf gott að búa.
Á þessum rúmlega 40 árum hefur ótalmargt breyst. Íbúum sveitafélagsins hefur fjölgað mjög mikið eða úr 3.000 í nálægt 15.000. Mosfellssveitin eins og sveitarfélagið var nefnt lengi vel er kaupstaður frá 1987 og orðið eitt af fjölmennustu sveitafélögum landsins. Og Mosfellsbærinn er á næstu misserum að vaxa saman við Reykjavík. Áður fyrr var Mosfellsssveitin töluvert langt utan við Reykjavík en allt er í heiminum hverfult, þ.e. breytingum háð.
Nú er ég kominn á áttræðisaldur og eitt af tómstundamálum mínum er að rölta í rólegheitum niður að Leirvogi, virða fyrir mér fjölbreytt fuglalífið, hestana á beit og stundum lendi ég á tali við annað fólk, jafnvel golfarana sem iðka sína íþrótt guðslangan daginn sér til ánægju. Oft verður útiveran tilefni til ýmissa hugrenninga sem ritaðar eru niður þá heim er komið.
Það hefur lengi verið markmið mitt á gönguferðum mínum að ganga út á Blikastaðanesið. Nú er svo komið að mér finnst að bekkirnir á þessari leið hafi verið mátt vera fleiri og áfangarnir því full langir. Það þarf að huga betur að okkur sem eldri erum sem finnst gott að tylla sér um stund.
Og stígarnir sem voru lagðir undir lok síðustu aldar eru margir hverjir börn síns tíma, lagðir með miklum hug en kannski af vanefnum. Ekki var vandað nóg til þeirra fyrstu, hvorki undirlags né endalausrar endingar. Víða eru þeir orðnir býsna lélegir, sprungnir og skörðóttir enda vinna náttúruöflin vel á að kvarna úr þeim og gera lakari með hverju árinu sem líður. Sjá má að síðari kynslóð þessara stíga var mun betur undirbúni auk þess sem þeir eru breiðari en þeir eldri. Á þessu þyrfti að taka, bæta og laga það sem þörfin er fyrir á vegum bæjarins og sem mikið er notað. Áður fyrr voru þeir fáfarnir en á góðviðrisdegi eru þeir stundum yfirfullir af hjólreiðafólki, göngufólki og hlaupandi íþróttafólki að þjálfa sig fyrir næstu hlaup. Nauðsyn er að aðgreina betur.
Og Fuglaskoðunarhúsið við Langatanga hefur mátt sjá fífil sinn fegurri. Einhverjir illa uppaldir götustrákar hafa gert að gamni að skemma það eins og þá lystir. Á þessu þarf að taka sem væri okkur öllum fremur til sóma en ekki til vansa. Má nefna að síðasta árbók Ferðafélags Íslands fyrir árið 2025 er helguð fuglum og fuglaskoðunarstöðum um allt Ísland og er Leirvogurinn talinn vera einn allra besti fuglaskoðunarstaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Þá er einstaklega gaman að ganga um stíga bæjarins og skoða trjágróðurinn sem er víða orðinn mjög þroskaður og hávaxinn. Garðarnir eru misjafnir, langflestir eru mjög vel hirtir þar sem metnaður er mikill að rækta allt sem best. Er unun að skoða þessa garða sem eru eigendum til mikils sóma. Má t.d. sjá í einum garði eik sem er líklega ein sjaldgæfasta trjátegund sem þrífst á Íslandi. En miður er að rekast á nokkra garða sem illa hefur verið haldið við jafnvel í áratugi.
Það hefur reynst vel að búa í Mosfellsbæ. Við getum öll í sameiningu gert bæinn okkar enn betri.

Guðjón Jensson
Eldri borgari, tómstundablaðamaður og leiðsögumaður
Arnartangi43@gmail.com

Uppbygging öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ

Eybjörg H. Hauksdóttir

Eir hjúkrunarheimili er sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá, sem var stofnað til árið 1993 á grundvelli samfélagslegra hugsjóna, án allra hagnaðarsjónarmiða.
Tilgangurinn með stofnun Eirar var að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veikra sem eru í þörf fyrir slíka þjónustu.
Mosfellsbær varð aðili að Eir í nóvember árið 2002 og stendur að sjálfseignarstofnuninni ásamt Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, ýmsum stéttarfélögum og félögum eldri borgara, sem og nokkrum félagasamtökum. Þannig tilnefnir Mosfellsbær þrjá einstaklinga til setu sem fulltrúar í fulltrúaráði Eirar og Félag eldri borgara í Mosfellsbæ tilnefnir einn fulltrúa í fulltrúaráðið. Fulltrúaráðið, sem er skipað alls 37 einstaklingum, skipar svo í stjórn Eirar og hefur ákveðið eftirlit með starfsemi stofnunarinnar. Kjarni Eirar er þannig samstarf margra ólíkra aðila, sem eru samankomnir í þeim eina tilgangi að veita faglega þjónustu til aldraðra.
Samstarf Eirar og Mosfellsbæjar varð því ekki til í tómarúmi en þann 7. júlí 2005, eða fyrir rúmum 20 árum síðan, undirrituðu Mosfellsbær og Eir hjúkrunarheimili svo rammasamning aðila um uppbyggingu öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ. Markmið samstarfsins var að byggja upp og efla þjónustu fyrir aldraða íbúa Mosfellsbæjar, í þeirra heimabyggð. Liður í því samkomulagi var að aðilar myndu beita sér fyrir byggingu hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu, út frá starfsemi Eirhamra, á lóð frá Mosfellsbæ. Hamrar hjúkrunarheimili opnaði svo árið 2013 og rak Eir hjúkrunarheimilið á grundvelli samnings við bæinn, í gegnum dótturfélagið Hamra hjúkrunarheimili. Hjúkrunarheimilið er í dag rekið á grundvelli þjónustusamnings milli Hamra hjúkrunarheimilis og Sjúkratrygginga Íslands.
Þau merku tímamót urðu svo þann 1. júlí sl. að gengið var frá samkomulagi um stækkun Hamra hjúkrunarheimilis, en ætlunin er að fjölga hjúkrunarrýmum úr 33 í 99 rými. Mikil þörf er fyrir fjölgun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ og í raun á höfuðborgarsvæðinu öllu. Mikilvægt er að stækkun heimilisins verði unnin í þéttu samráði við stjórnendur Hamra til að tryggt sé að uppbygging húsnæðisins sé unnin út frá þörfum þeirra sem þar eiga að búa og með hliðsjón af þeirri starfsemi sem þar er fyrir. Við á Eir og Hömrum fögnum mjög fyrirhugaðri stækkun og hlökkum til samstarfs um framkvæmd hennar.
Samkomulagið um stækkun Hamra kom í kjölfar undirritunar samninga í tengslum við Gott að eldast verkefni stjórnvalda í apríl sl., en með þeim samningum tók Eir hjúkrunarheimili að sér veitingu samþættrar heimaþjónustu í Mosfellsbæ, dagþjálfunin Hlýjan var stækkuð og efld, auk þess sem verkefni um heimaendurhæfingarteymi var sett af stað.
Umtalsverð uppbygging hefur því átt sér stað í öldrunarþjónustu í Mosfellsbæ í gegnum áratuga samstarf Eirar og Mosfellsbæjar og er sú uppbygging enn í fullum gangi. Markmið Eirar er það sama í dag og fyrir 32 árum síðan, það er að veita framúrskarandi öldrunarþjónustu til hrumra og veika sem þess þurfa í samfélaginu. Við hlökkum til að þjónusta íbúa Mosfellsbæjar næstu áratugi og þökkum það mikla traust og þann stuðning sem Mosfellsbær hefur sýnt stofnuninni í gegnum árin.

Eybjörg H. Hauksdóttir,
forstjóri Eirar, Skjóls og Hamra

Vetrarstarfið fjölbreytt og skemmtilegt

Kæru Mosfellingar
Íþróttir og annað félagsstarf er mikilvægur þáttur í uppeldi barna og ungmenna á Íslandi í dag og er framboð íþróttagreina í bænum okkar eins og best verður á kosið.
Við hjá Aftureldingu tökum vel á móti komandi vetri og bjóðum áfram upp á fjölbreytt og vandað starf innan 11 íþróttagreina.
Okkar markmið er að allir geti fundið sinn vettvang innan félagsins, umhverfi til að þroskast, blómstra og hafa gaman.
Á sama tíma og við kynnum okkar starf og æfingatöflur vetrarins þá langar mig að nota tækifærið og hvetja foreldra til að taka virkan þátt með börnunum sínum í vetur. Sýnum áhuga, sýnum stuðning og verum hvetjandi. Ykkar þáttur er ekki síður mikilvægur.
Bjóðum veturinn velkominn.

Einar Ingi Hrafnsson
Framkvæmdastjóri Aftureldingar

Tækifæri til eflingar atvinnumála í Mosfellsbæ

Ásgeir Sveinsson

Mikil uppbygging atvinnusvæða á sér nú stað í Mosfellsbæ og mun sú uppbygging halda áfram á næstu árum.
Tækifæri eru til þess að efla atvinnulíf og fjölga fyrirtækjum í Mosfellsbæ samhliða þessari uppbyggingu auk þess sem tækifæri eru fyrir hendi hvað varðar fjölbreytta nýsköpun.

Verið er að leggja lokahönd á atvinnustefnu Mosfellsbæjar og færi vel á því að mati okkar bæjarfulltrúa D-lista að öflug atvinnu- og nýsköpunarnefnd innleiði og fylgi eftir atvinnustefnunni.
Nefndin gæti einnig verið í fararbroddi við kynningu Mosfellsbæjar sem spennandi kost fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi fyrir einstaklinga, stofnanir og fyrirtæki í samstarfi við þá landeigendur sem koma að uppbyggingu nýrra atvinnusvæða í bænum.

Öflugt kynningar- og markaðsstarf er nauðsynlegt

Jana Katrín Knútsdóttir

Á næstu árum er mikilvægt að leggja áherslu á skipulagningu á hagrænum hvötum, markaðssetningu, ímynd og sérstöðu bæjarins sem ákjósanlegan valkost – bæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur til að búa í, en einnig fyrir fyrirtæki að stunda sinn rekstur.

Skipulagning á hagrænum hvötum
Skoða þarf möguleika á hagrænum hvötum sem hvetja fyrirtæki til þess að flytja í bæinn, s.s. lægri gatnagerðargjöld og/eða aðrar tímabundnar ívilnanir eða fríðindi. Það eru fordæmi fyrir slíku í Mosfellsbæ frá fyrri tíð og öðrum sveitarfélögum sem eru að bjóða slíkar lausnir í dag.
Einnig þarf að skoða að bjóða upp á hvetjandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun, t.d. með samstarfi við háskóla og stofnanir. Að leggja áherslu á græna uppbyggingu og umhverfisvæna starfsemi sem gæti laðað að fyrirtæki sem starfa að nýsköpun í sjálfbærni, hreinni orku, grænum lausnum og hringrásarhagkerfi. Bærinn gæti þannig orðið fyrirmyndarbær í vistvænni atvinnuuppbyggingu.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Leggja áherslu á markaðssetningu og ímynd Mosfellsbæjar sem vel staðsett sveitarfélag fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi
Kynna þarf Mosfellsbæ sem heilsueflandi, náttúruvænan og fjölskylduvænan stað fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Ná beint til fyrirtækja með kynningum, fundum eða samstarfi við atvinnuþróunarfélög og vera með gott aðgengi að upplýsingum um lausar lóðir, ferli umsókna og þjónustu sveitarfélagsins.

Móta sérhæfingu og sérstöðu Mosfellsbæjar og kynna hana
Skapa þarf sérstöðu, t.d. með því að laða að græna nýsköpun, heilsutengd fyrirtæki eða list- og handverksmiðstöðvar svo eitthvað sé nefnt. Mosfellsbær hefur fjölbreytta og fallega náttúru, útivistarsvæði og sögu sem hægt er að nýta til að þróa ferðaþjónustu, bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamenn.
Ljóst er að með aukinni atvinnuppbyggingu getur bærinn laðað að veitingastaði, gistingu, afþreyingu og heilsutengda þjónustu.

Helga Jóhannesdóttir

Leggja á áherslu á fljóta, góða og skilvirka stjórnsýslu
Mikilvægt er að veita lóðaeigendum sem og öðrum góða þjónustu með skjótum og skilvirkum svörum um lóðir, leyfi og reglur. Þannig gætum við náð upp ímynd sem lausnamiðað og sveigjanlegt sveitarfélag gagnvart atvinnurekstri.

Mun Mosfellsbær sitja eftir í samkeppninni?
Mikil samkeppni ríkir milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í að laða til sín fyrirtæki. Sveitarfélögin eru flest að leggja mikla vinnu og áherslu á að kynna hvað þau hafa upp á að bjóða en það virðist ekki vera áhersla Mosfellsbæjar undir stjórn núverandi meirihluta.
Á síðasta bæjarstjórnarfundi lagði meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar fram tillögu um að leggja niður atvinnu- og nýsköpunarnefnd, nefnd sem þessi meirihluti stofnaði í upphafi kjörtímabilsins árið 2022.
Sem viðbragð við tillögu meirihlutans lögðu fulltrúar D- og L-lista í bæjarstjórn fram tillögu um að það yrði ekki gert heldur blásið til sóknar í að efla atvinnumálin í Mosfellsbæ undir forystu atvinnu- og nýsköpunarnefndar.
Tillagan var því miður felld þar sem þar sem nefndin þótti ekki passa lengur inn í nýtt skipurit meirihlutans. Þetta er að okkar mati slæm ákvörðun með vísan í núverandi og fyrirhugaða atvinnuuppbygginu í Mosfellsbæ. Hagsmunir Mosfellsbæjar eru í húfi og þeir eru mun mikil­vægari en hvað mögulega passar inn í skipurit meirihlutans.

Ásgeir Sveinsson, Jana Katrín Knútsdóttir, Rúnar Bragi Guðlaugsson og Helga Jóhannesdóttir
bæjarfulltrúar D-lista

Breytingar á nefndaskipan – mikilvægi atvinnu og nýsköpunarnefndar

Dagný Kristinsdóttir

Málefni vorsins hjá bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafa verið umræður um breytingar á nefndaskipan og fastaráðum bæjarins. Þessi umræða var hluti af stærra máli sem eru hagræðingaraðgerðir bæjarins og er efni í annan pistil.
En hvað varðar fastanefndir var tillagan sú að þrjár nefndir yrðu lagðar niður eða sameinaðar öðrum. Það var á margan hátt áhugaverð nálgun, því í upphafi kjörtímabils var nefndum fjölgað um tvær og verkefnum endurútdeilt á milli nefnda. Ein þeirra er atvinnu- og nýsköpunarnefnd sem var stofnuð í upphafi kjörtímabils. Í þeim tillögum sem lagðar voru fram nú á vordögum, var lagt til að þessi nefnd yrði lögð niður og verkefni hennar færð undir bæjarráð. Það töldum við ekki góða ákvörðun í þeirri stöðu sem sveitarfélagið er í, í dag.
Eftir samtal við sjálfstæðismenn kom í ljós að báðir flokkar ætluðu að leggja fram tillögu þess efnis að þessu yrði breytt og nefndin héldi starfsemi sinni og vægi. Við lögðum því fram sameiginlega tillögu.

Af hverju er nefndin mikilvæg?
Ástæða þess að við í Vinum Mosfellsbæjar teljum mikilvægt að halda þessari nefnd inni, snýr að því að vera með nefnd sem hvetur til nýsköpunar og styður við fjölbreytt atvinnulíf. Nefndin er búin að setja á laggirnar atvinnustefnu og það er hennar hlutverk að fylgja stefnunni eftir. Nefndin vinnur þvert á svið bæjarins; skipulagsmál, menntun og umhverfi og hefur það hlutverk að horfa til atvinnulífs sem byggir á styrkleikum okkar og vinna með veikleikana.
Við þurfum að stíga fram og spyrja af hverju eigendur fyrirtækja sjá ekki hag sinn í að setja fyrirtæki sín niður í okkar bæ og búa til hvata fyrir fyrirtækin til að þau sjái hag sinn í að koma hingað. Með auknum fjölda fyrirtækja eykst umferð fólks í bænum á dagvinnutíma, sem aftur kallar á aukna þjónustu. Fólkið þarf að borða og það vill versla. Í þeirri miklu uppbyggingu sem framundan er, skiptir þessi þáttur miklu máli fyrir okkur. Við teljum einnig að nefndin séu betur til þess fallin en bæjarráð að fylgja eftir markaðsáætlun, atvinnustefnu og nýsköpunarhugmyndum bæjarins.

Hvaða möguleikar eru fyrir hendi?
Atvinnu og nýsköpunarnefnd gæti staðið fyrir breiðvirku samstarfi stofnana bæjarins í atvinnu- og nýsköpunarmálum. Við þurfum að gera bæinn aðlaðandi fyrir fyrirtæki og stofnanir, það þarf að ákveða hvaða ívilnanir verða til staðar og hvaða lóðir væru klárar. Þessar ákvarðanir eru pólitískar og því mikilvægt að hafa samtal við fundarborðið.
Við þyrftum einnig að hugsa til þess að vera með sérstakan starfsmann í því að markaðssetja Mosfellsbæ, sem spyr þeirra spurninga sem ég nefndi fyrr – af hverju sjá fyrirtækin ekki hag sinn í að koma hingað. Það þarf einnig að horfa til þess að efla samvinnu innan sveitarfélagsins, á milli sveitarfélagsins, atvinnulífs og skóla. Það kostar að fara þessa leið en fjárhagslegur ávinningur er margfalt meiri. Ef við viljum hugsa um nýsköpun að þá þarf að skoða hvaða möguleikar eru fyrir hendi og huga að aðstöðu fyrir slíka starfsemi.
Okkur þykir miður að tillagan hafi verið felld, því við teljum þetta mikilvæga og nauðsynlega vinnu til að horfa til framtíðar fyrir bæinn okkar. Öflug nefnd leiðir öfluga stefnu og heldur henni á lofti.

Dagný Kristinsdóttir
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Fækkun nefnda og breytt launakjör

Halla Karen Kristjánsdóttir

Þann 25. júní síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn að aftengja laun bæjarfulltrúa við þingfararkaup og fækka áheyrnarfulltrúum í nefndum bæjarins.
Þá var samþykkt að laun bæjarstjóra fylgi launahækkunum á vinnumarkaði í stað launavísitölu. Einnig samþykkti bæjarstjórn að fækka fastanefndum bæjarins um þrjár.
Ákvörðunin um að fækka fastanefndum á sér rætur í stjórnsýsluúttekt sem meirihluti B, S og C lista lét gera. Í september 2023 tók gildi nýtt skipurit fyrir stjórnsýsluna sem fól í sér breytingar á fjölda og verkefnum sviða og skrifstofa. Í framhaldi af þeim breytingum þótti eðlilegt að skoða nefndaskipan sveitarfélagsins með það fyrir augum að auka skilvirkni, samfellu, yfirsýn og hagræðingu í stjórnsýslunni. Með þessu nýja fyrirkomulagi starfar ein nefnd með hverju sviði.

Launakjör
Eins og fólk kannski man þá voru gerðir samningar í fyrra sem fólu í sér hóflegar launahækkanir sem lið í sameiginlegu átaki til að ná niðurlögum verðbólgu og að vinna að lækkun vaxta. Almennar launahækkanir í þessum samningum, þ.á.m. samningum við starfsfólk Mosfellsbæjar, voru 3,5%. Meirihluti B, S og C lista vildi taka þátt í þessari aðgerð og lagði því til að árleg launahækkun yrði aftengd þingfararkaupi sem hefði þýtt hækkun um 5,6%. Þess í stað munu launin hækka um 3,5%

Anna Sigríður Guðnadóttir

eins og samningar starfsmanna Mosfellsbæjar.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri óskaði sjálf eftir því að laun hennar skv. ráðningarsamningi yrðu aftengd launavísitölu við launaákvörðun 1. júlí. Þessi ósk þýðir að laun bæjarstjóra munu ekki hækka um 8,2% í samræmi við vísitölu heldur um 3,5% í samræmi við samninga á opinbera og almenna markaðnum. Vert er að geta þess að þetta er í annað sinn á kjörtímabilinu sem bæjarstjórinn óskar eftir slíkri aftengingu við vísitöluhækkun.

Fækkun nefnda
Á umhverfissviði verður ein nefnd, umhverfis- og skipulagsnefnd. Með því fyrirkomulagi teljum við að yfirsýn verði enn betri og að það sé kostur að í allri umræðu um skipulagsmál verði einnig fjallað um umhverfis- og loftslagsmálin. Þannig verði tryggt að þau mikilvægu málefni verði alls ekki út undan eða gleymist í umræðunni.
Á menningar-, íþrótta- lýðheilsusviði verður einnig ein nefnd að störfum. Markmiðið með stofnun þessa nýja sviðs var einmitt að styrkja stjórnun og yfirsýn í málaflokkunum en sviðið heldur utan um stærsta hlut þess starfs sveitarfélagsins sem snýr að frítíma íbúanna. Með því að skipa málefnum sviðsins í eina fagnefnd teljum við að yfirsýn og skilvirkni verði betri og möguleikar á samlegðaráhrifum í starfi sviðsins aukist. Lýðræðismálin sem áður voru í menningar- og lýðræðisnefnd færast undir bæjarráð.

Lovísa Jónsdóttir

Atvinnu- og nýsköpunarnefndin verður lögð niður en að sjálfsögðu verður unnið ötullega í að fylgja eftir aðgerðaráætlun atvinnustefnunnar. Nefndin hefur skilað af sér miklu og góðu starfi í formi fyrstu atvinnustefnu Mosfellsbæjar. Nú þarf að einbeita sér að því að vinna að þeim fjölmörgu verkefnum sem koma fram í stefnunni. Sú vinna verður á ábyrgð starfsfólks skrifstofu umbóta og þróunar. Þau málefni sem þarfnast umfjöllunar í pólitíkinni fara inn til bæjarráðs enda við búið að þau muni fela í sér fjármálalegar skuldbindingar.
Breyting verður á skipan áheyrnarfulltrúa meirihlutans í nefndum og fallið er frá skipan þeirra til loka kjörtímabilsins.

Sparnaður
Ofangreindar nefndabreytingar eru allar þáttur í að straumlínulaga starf innan stjórnsýslunnar og meirihlutinn telur að þær séu til bóta. Hagræðing sem af þeim stafar er síðan kærkomin inn í rekstur bæjarins en á ársgrundvelli verður hún 19-22 milljónir. Aftenging launakjara kjörinna fulltrúa við hækkun þingfararkaups og breyting kjara bæjarstjóra teljum við vera ábyrga leið til að sýna samfélagslega ábyrgð í baráttunni við verðbólguna. Sú breyting þýðir 3,4 milljóna sparnað fram að áramótum.
Þá hefur nú þegar verið hagrætt um 200 milljónir í rekstri bæjarins á þessu ári, til að mæta meðal annars kjarasamningshækkunum.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar
Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingar
Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar

Takk fyrir okkur!

Aldís Stefánsdóttir

„Þannig týnist tíminn” segir í lagi eftir meistara Bjartmar Guðlaugsson. Það er svo sannarlega tilfinningin þegar við fjölskyldan segjum skilið við Lágafellsskóla eftir tæplega 18 ára samfylgd.
Ætli við séum ekki svona frekar mikil vísitölufjölskylda á mosfellskan mælikvarða. Þrjú börn sem eru fædd á átta árum sem nú hafa lokið sinni grunnskólagöngu. En frá haustdögum ársins 2007 hefur Lágafellsskóli spilað stórt hlutverk í okkar lífi.
Hver einstaklingur gengur í grunnskóla að jafnaði í tíu ár á líklega einu mesta þroska– og mótunarskeiði sem við förum í gegnum í lífinu. Fjölskyldan fer að hluta til í gegnum þennan tíma með barninu og hver vetur á sína föstu punkta. Spennan á skólasetningunni, vetrarfrí, jólaföndrið, foreldraviðtöl, öskudagurinn, bekkjarkvöld, foreldrafundir og páskabingó og svo aftur spennan fyrir skólaslitum. Svo fátt eitt sé nefnt. En svo eru það öll samskiptin við kennara og annað starfsfólk, tilkynningarnar í Mentor, samskipti við aðra foreldra, tölvupóstar um lús og viðburði.
Að hafa þessa föstu punkta ekki lengur í sínu lífi eftir svona langan tíma verða svo sannarlega viðbrigði.
Mig langar að reyna að koma í orð þakklæti mínu til allra kennara, stjórnenda og starfsfólks bæði í leikskólanum og grunnskólanum sem við höfum verið í samskiptum við á öllum þessum árum. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og í þessu þorpi eru skólarnir okkar einn mesti áhrifavaldurinn. Það hefur verið mín reynsla bæði þegar leikskólagöngu og grunnskólagöngu lýkur að þá er mikið lagt í að kveðja hópinn og það hefur okkur þótt vænt um. Börnin eru kvödd með fallegum orðum, skjalfestum árangri og faðmlagi. Þannig er þeim ýtt mjúklega af stað út í heiminn og inn í næsta tímabil í sínu lífi.
Sterkar menntastofnanir og öflugt fagfólk er nauðsynlegt en það sem situr eftir í minningunum er þessi mannlegi þáttur og hvernig okkur leið, sérstaklega á þessum fallegu kveðjustundum. Þakklátir og stoltir foreldrar og kennarar hlið við hlið og barnið í öndvegi.
Takk fyrir okkur Lágafellsskóli – Takk fyrir samfylgdina kæra starfsfólk, kennarar og foreldrar. Takk fyrir vináttuna og allt ykkar framlag til að gera þennan tíma að því sem hann hefur verið.

Aldís Stefánsdóttir
foreldri fyrrverandi grunnskólanemenda í Mosfellsbæ

Foreldrar þurfa bara að redda þessu — aftur(!)

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Mosfellsbær hefur hampað sér fyrir að vera með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu — en á sama tíma er þjónustan að skerðast fyrir foreldra og börn.
Má þar nefna fyrirkomulag sumarleikskólans sem er enn ein skerðingin sem foreldrar átta sig jafnvel ekki enn á.

Tilgangur sumarleikskólans er nefnilega ekki að koma til móts við fjölskyldurnar í Mosfellsbæ heldur fyrst og fremst að bæta starfsumhverfi leikskóla. Þetta veldur því að hefðbundið skólastarf hefst nú viku seinna en vanalega eða 11. ágúst.
Þó svo að þátttaka í sumarleikskólanum hafi dregist saman er ekki þar með sagt að foreldrar þurfi ekki á þjónustunni að halda.
Þvert á móti eru margir hikandi því það er ekki auðveld ákvörðun að senda barnið sitt í nýjan leikskóla, með starfsmanni sem þekkir það ekki, í heila viku eða lengur. Sér í lagi börn með sérþarfir eða þau sem eiga erfitt með breytingar og nýjar aðstæður.

Það er auðvelt og jafnvel sjálfsagt að Mosfellsbær sé með lægstu leikskólagjöldin þegar skerðingarnar á föstudögum og óvissan með sumarleikskólann eru teknar með í myndina. Bæjarstjórn þarf hins vegar líka að horfa á heildarmyndina: Flestir vinna í Reykjavík og ekki allir hafa au-pair eða ömmu og afa á lausu sem geta hlaupið undir bagga til aðstoðar.
Alla jafna er fólk með 25 sumarfrísdaga sem þarf að deila yfir sumarið – að undanskildum vetrarfríum, starfsdögum og blessuðu skráningardögunum sem við gleymum allt of oft að sækja um. Þeir eru efni í annan pistil.
Það er nefnilega eitt að vera með lægstu leikskólagjöldin á landinu en það er annað að bjóða raunverulega þjónustu sem fjölskyldur geta reitt sig á.
Hægt væri að líkja þessu við auglýsa bestu opnunartímana í verslun – en standa svo með tómar hillur.

Foreldrar vilja geta treyst á þá þjónustu sem bæjarfélagið á að veita – þjónustu sem gerir fjölskyldum kleift að láta daglegt líf ganga upp. Ekki aðeins með því að lágmarka kostnað á blaði heldur með raunverulegum stuðningi sem nýtist í verki – þess þá heldur ef Mosfellsbær ætlar að skreyta sig með þeim stimpli að vera barnvænt sveitarfélag.

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Ársreikningur Mosfellsbæjar 2024

Ásgeir Sveinsson

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2024 var samþykktur í bæjarstjórn á dögunum.
Fulltrúar meirihlutans ásamt bæjarstjóra hafa lýst yfir mikilli ánægju með niðurstöðu ársreikningsins. Það er margt jákvætt við niðurstöðuna, en ekki er allt sem sýnist og höfum við fulltrúar D-lista bent á það í umræðunni.
Þótt ársreikningur A- og B-hluta sýni jákvæða rekstrarniðurstöðu verður að undirstrika að þessi afkoma byggir fyrst og fremst á einskiptistekjum, þ.e. tekjum af lóðasölu og byggingarrétti. Tekjur sem eiga m.a. að standa undir innviðauppbyggingu vegna nýbygginga.
Ef tekjur þessar eru teknar til hliðar má sjá að rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs er neikvæð um 50 milljónir.

Skattar og álögur á íbúa halda áfram að hækka og skuldir aukast
Þetta er þriðja árið í röð sem tap er á reglulegum rekstri bæjarins, þ.e. af daglegri þjónustu og starfsemi og er það áhyggjuefni að okkar mati. Þetta gerist á sama tíma og tekjur hækka um 10% á milli ára og eru þær hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Er það m.a. þar sem álögur og skattar á íbúa hafa stórhækkað síðustu árin og þá sérstaklega fasteignaskattur, lóða­leiga og sorphirðugjöld.

Jana Katrín Knútsdóttir

Skuldir halda áfram að aukast og jukust þær um 2 milljarða milli áranna 2023 og 2024.
Þetta er staðan þrátt fyrir að núverandi meirihluti hafi fengið í vöggugjöf tekjur af úthlutun lóða og byggingaréttar sem nú þegar hafa numið tæpum 2 milljörðum króna og gætu þær tekjur verið komnar hátt í 4 milljarða í lok þessa kjörtímabils.

Lóðaúthlutun hefur reyndar tafist af mörgum skrýtnum ástæðum alveg frá því í upphafi þessa kjörtímabils. Framkvæmdum við byggingu leikskóla í Helgafelli var frestað og töfðust þær um tæplega eitt ár.
Uppbygging að íþróttasvæðinu að Varmá var einnig í frosti í tvö ár og ekkert bólar enn á teikningum eða útboði á þjónustubyggingu að Varmá, sem ætti að vera langt komin í byggingu samkvæmt áætlunum. Þessar tafir hafa og munu kosta bæði óþægindi og aukinn kostnað fyrir skattgreiðendur í Mosfellsbæ.

Aukin rekstrarkostnaður og engin hagræðing
Það sem vekur líka sérstaka athygli er aukinn rekstrarkostnaður. Það er keyrt áfram á fullum krafti m.a. í innleiðingu á nýju skipuriti

Rúnar Bragi Guðlaugsson

sem meirihlutinn lagði til og mun kosta tugi milljóna. Auk þess sem ráðningar í ný stöðugildi eru í gangi og enn fleiri á döfinni meðal annars í skrifstofuhaldi.
Fulltrúar meirihlutans hafa ekki gripið til neinna aðgerða til að bæta afkomu bæjarsjóðs og því er það athyglisvert þegar þau koma fram og hrósa sér fyrir góða fjármálastýringu.
Bætt afkoma milli ári byggir eingöngu á hærri sköttum og álögum á bæjarbúa og á einskiptistekjum, en ekki á góðri og aðhaldssamri fjármálastjórn meirihlutans.
Þessi staða og ósjálfbærni í rekstri bæjarins er áhyggjuefni að mati bæjarfulltrúa D-lista. Hún sýnir að grunnreksturinn stendur ekki undir sér og að jákvæð rekstrarniðurstaða ársins 2024 er hvorki sjálfbær né endurspeglar heilbrigðan rekstur til framtíðar.

Nýlega var skrifað undir kjarasamning við grunnskólakennara og var það mjög jákvætt skref í kjarabótum fyrir þessa mjög svo mikilvægu stétt. Kjarasamningurinn fól í sér hærri launakostnað en gert var ráð fyrir í áætlunum Mosfellsbæjar. Flest sveitarfélög hafa þegar kynnt sínar áætlanir til að loka

Helga Jóhannesdóttir

því fjárhagslega gati sem samningurinn skapaði en ekkert hefur enn komið frá meirihlutanum í Mosfellsbæ um áform þeirra í þessu máli.

Meirihlutinn þarf að bregðast við
Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar i Mosfellsbæ stendur frammi fyrir skýrri áskorun nú þegar ár er eftir af líðandi kjörtímabili.
Sú áskorun er að tryggja sjálfbæran rekstur bæjarsjóðs án þess að reiða sig á einskiptistekjur og óreglulegar tekjur og að halda aftur af aukinni skuldasöfnun með skýru aðhaldi í útgjöldum.
Það þarf að bregðast við núna — með ábyrgð, festu og fjárhagslegri framsýni og það felur í sér að taka þurfi erfiðar ákvarðanir. Þar reynir á samheldni og samstarf meirihlutans.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi. D- lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D- lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Grúskað í gömlum heimildum

Guðjón Jensson

Í fyrra sem leið mátti minnast þess að hálf öld var liðin frá því að Páll Ísólfsson (fæddur 1893) var allur.
Hann var landsþekktur fyrir tónlist sína bæði sem orgelleikari við Dómkirkjuna og sem stjórnandi ýmissa kóra og hljómsveita. En líklega mun hann vera einna þekktastur fyrir tónsmíðar sínar. Einna hæst er úr „Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar“ ein fegursta tónsmíð frá hendi Páls. Hún er undir miklum áhrifum frá þessu þekkta skáldi okkar Íslendinga sem var besti fulltrúi okkar rómantísku stefnunnar í bókmenntum.
Páll nam hljóðfæraleik í Leipzig frá 1913 og var þar næstu ár sem einkenndust einna mest af þeim mikla ófrið sem nefnd hefur verið fyrri heimsstyrjöldin. Eitt er það sem fáir vita að á námsárum Páls í Þýskalandi fékk myndasmiður nokkur þá hugmynd í samstarfi við framleiðenda, að móta litlar styttur af helstu tónlistamönnum heims. Vel gekk nema smiðurinn kvaðst vera í vandræðum með að móta höfuð Mozarts enda einungs gamlar teikningar til af þessum heimsþekkta tónlistamanni. Var sett upp auglýsing á tónlistarháskólanum (Konservatorium) í Leipzig eftir tónlistarnema sem líktist Mozart og var Páll valinn úr fjölda umsækjenda. Þessar litlu styttur voru fjöldaframleiddar í tugum þúsunda eintaka og má víða sjá þær um alla heimsbyggðina. Eitt sinn var ég staddur í Hollandi og rakst þá á eina slíka styttu sem ég kannaðist strax við Pál Ísólfsson ungan að árum. Og á styttunni var letrað Wolfgang Amadeus Mozart. Þetta þótti mér virkilega áhugavert og hef oft langað til að segja frá þessu.
Líklega munu fáir Mosfellingar vita um tengsl Páls við Mosfellsdal. Páll var kvæntur Sigrúnu (1911-1990) elstu dóttur Eiríks Ormssonar (1887-1983). Hann var annar Bræðranna Ormsson sem lengi hefur verið landsþekkt fyrirtæki. Eiríkur keypti Skeggjastaði 1939, virkjaði Leirvogsá sem enn má sjá ummerki um og byggði upp elstu húsin sem þar eru. Á Skeggjastöðum lét Eiríkur byggja lítið sumarhús handa dóttur sinni og tengdasyni. Dvöldu þau þar mjög oft og má rifja upp að þar mun tónverkið „Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar“ hafa orðið til.
Annar þekktur landsþekktur tónlistarmaður, Skagfirðingurinn Sigurður Skagfield (1895-1956), ritaði grein sem kemur inn á þetta atriði. Sigurður var afburðagóður hetjutenór á sínum tíma og söng á millistríðsárunum í fjölda óperuhúsa í Þýskalandi og víðar. Því miður varð hann innlyksa þar í landi, kom víða fram sem söngvari á dögum heimsstyrjaldarinnar síðari en lenti í ýmsum útistöðum við yfirvöld sem léku hann býsna grátt. Mun Sigurður aldrei hafa borið sitt barr eftir þær hildir og má skilja þá miklu depurð sem einkenndi hann af öllu því mótlæti. Sigurður skrifar greinina Baðstofuhjal sem birtist í Tímanum 5.3.1953:
„Nálægt höfuðstað Íslands er jörðin Skeggjastaðir, þar er sumarbústaður helztu leiðtoga smjörlíkisklíkunnar og þar hafa hingað til verið teknar allar hinar stærstu ákvarðanir í öllum tónlistarmálum og STEF málum. Þar var saminn hinn frægi forleikur, sem miður velviljaðir menn hafa kallað „Skeggjastaða-forleikinn“, og sem leikinn var, þegar Musterið, eða Þjóðleikhúsið var vígt. Þessa frægu jörð átti að selja fyrir 2 milljónir króna, en tókst ekki, vegna þess, að menn héldu, að enn svifu í sölum hússins á Skeggjastöðum, hinir ósamræmdu erlendu tónar forleiksins, sem gera mundu brennivínssjúklingana að ennþá meiri sjúklingum og þar af leiðandi gæti komið hæstvirtri ríkisstjórn í vandræði.“
Finna má þessa grein á slóðinni: https://timarit.is/files/64199497
Það verður að segja sem er, þessi ummæli eru hinum landsþekkta hetjutenór til mikils vansa. En fyrrum tíðkaðist að margir tóku býsna djúpt í árina, kunnu sér ekki hóf í vafasömum fullyrðingum sínum sem oft urðu tilefni harkalegrar tortryggni og óvildar, jafnvel langvinnra málaferla. Svona ummæli um æru annarra lætur enginn hugsandi maður frá sér fara í dag. En sjálfsagt hefur það verið afar bitur maður sem hélt á penna og skrifað með velþóknun Jónasar frá Hriflu sem líklega hefur enn verið áhrifamaður hjá Tímanum þó Þórarinn Þórarinsson hafði þá tekið við ritstjórn blaðsins. Hann nýtti hvert tækifæri til að skattyrðast og skammast út í pólitíska andstæðinga sína að fornu og nýju.

Aths.
Sigurður Skagfield minnist á „smjörlíkisklíkuna“. Þar er átt við Ragnar Jónsson bókaútgefanda sem rak Smjörlíkisgerðina Smára. Hann var með tengsl við helstu tónlistamenn landsins og ýmsa rithöfunda eins og Halldór Laxness gegnum bókaforlag sitt Helgafell.

Guðjón Jensson
grúskari á gamals aldri

Skólahald á Blikastaðalandi

Dagný Kristinsdóttir

Nú styttist í að deiliskipulag Blikastaðalands verði tekið til umræðu og staðfestingar og þá þarf að taka ákvarðanir er snúa að uppbyggingu innviða á svæðinu.
Eitt af því sem þarf að skoða er hvernig uppbygging t.d. skólamannvirkja á að vera. Ljóst er að uppbygging þessara mannvirkja hleypur á milljörðum króna og því skiptir máli að uppbyggingin sé eins skynsamleg og hagnýt og hægt er.
Skólahúsnæði á að vera hjartað í hverfinu, þar slær takturinn og fólk streymir að þegar skemmtanir og annað uppbrot á sér stað. Rekstrarlega skiptir einnig máli að húsnæðið sé í notkun eins mikið og hægt er á degi hverjum.
Sem dæmi má nefna að hægt er að samnýta húsnæði fyrir grunnskóla, frístund, félagsmiðstöð og jafnvel hafa íþróttahús sambyggt við. Öll þessi starfsemi gengur upp í sama húsinu, sérstaklega ef gert er ráð fyrir henni í upphafi. Það er því hægt að koma því þannig fyrir að þessi starfsemi fái sitt sjálfstæði í húsinu og sé ekki fyrir öðrum.

Skipulag innviða
Ég hef bent á það og talað fyrir því að uppbygging innviða verði sem mest á þann veg að börn sem búa í hverfinu komist sem lengst og mest fótgangandi eða á hjóli innan þess.
Í ýmsum greinum sem birst hafa í vetur, t.d. eftir Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur skipulagsfræðing, eru þessi hverfi kölluð 20 mínútna hverfi. En þau hverfi eru byggð upp á þann veg að innan 20 mínútna eigirðu að komast í alla þjónustu sem þú þarft. Ástæðan er einföld.
Við vitum að umferðin í kringum hverfið verður gríðarlega þung á fyrstu árunum og því þarf að leita allra leiða til að auka ekki á hana, meira en þarf. Með þessari skipulagskenningu einföldum við einnig líf foreldra sem geta nýtt tímann sinn í annað en að skutla börnum sínum fram og til baka. Hugmyndir um 20 mínútna hverfi minnka einnig álag á aðra innviði í sveitarfélaginu, t.d. Varmársvæðið.
Við sjáum það öll í hendi okkar að það svæði ber ekki nemendur tveggja stórra grunnskóla til viðbótar við alla aðra þjónustu. Því skiptir máli að hugsa um innviði á Blikastaðalandi með þeim hætti að svæðið verði sjálfstætt. Þar rísi fullvaxið íþróttahús. Ekki lítið kennsluíþróttahús sem dugar hvað best yngsta stigi og miðstigi grunnskóla, eins og hefur verið gert við tvo grunnskóla bæjarins, sem veldur því að keyra þarf unglingana í Varmá.
Hvaða skoðun sem við höfum á samningnum um uppbyggingu á Blikastöðum þá skiptir mestu máli að uppbyggingin fari eins mikið fram á okkar forsendum og hægt er, svo fjárhagslegu jafnvægi sveitarfélagsins sé ekki teflt í tvísýnu.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Reykjalaug – Minjar undir malbiki

Kristinn Magnússon

Í Mosfellingi sem kom út í júlí á síðasta ári var greint frá rannsókn sem Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands gerði í þeim tilgangi að reyna að staðsetja leifar Reykjalaugar undir Reykjavegi.
Þar kom fram að niðurstöður rannsóknarinnar væru þær að laugin væri á sínum stað undir veginum.
Reykjalaugar er víða getið í heimildum. Sérstaklega frá 18. öld. Enginn veit þó hversu gömul laugin er en hún gæti verið mun eldri en frá þeim tíma er farið er að fjallað um hana á prenti.
Starfsmenn Þjóðminjasafns Íslands skráðu fornleifar í Mosfellsbæ á árunum upp úr 1980. Þá var laugin ekki lengur sýnileg á yfirborði. Skrásetjarar náðu þó tali af fólki sem séð hafði laugina. Jón Guðmundsson fyrrum bóndi á Suður-Reykjum mundi vel eftir lauginni. Hann sagði frá því að breska setuliðið stóð fyrir því að laugin var hulin árið 1941. Nauðsynlegt þótti að breikka veginn svo að hann nýttist farartækjum setuliðsins betur. Var það gert á þann hátt að mokað var ofan í laugina og vegur lagður yfir. Oddný Helgadóttir húsfreyja á Ökrum lýsti útliti og gerð laugarinnar. Laugin var hlaðin úr grjóti um 3,5 metrar í þvermál og dýpst 2 – 2,5 metrar en vatnshæð rúmlega 1 metri. Hlaðnar tröppur niður og hlaðinn stuttur bekkur þar.

Jón Magnús sonur Jóns Guðmundssonar vísaði á staðinn þar sem faðir hans sagði að laugin lægi undir veginum. Nærri austurenda Reykjavegar beygir vegurinn til norðurs í átt að bæjarhúsunum á Suður-Reykjum. Endastöð almenningsvagna er suðaustan við umrædda beygju en laugin er undir veginum í beygjunni.
Á síðasta ári kom út skýrsla Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjalaug, Mosfellsbæ. Athugun með jarðsjá. Eins og nafnið gefur til kynna var notuð jarðsjá við athugunina. Í skýrslunni segir að með jarðsjá séu sendar rafsegulbylgjur ofan í jörðina með loftneti og síðan tekið á móti endurkasti þeirra með móttaka. Styrkur endurkastsins gefi til kynna hvort einhverjar breytingar séu í jörðinni undir sendi og móttaka.

Í skýrslu Jarðvísindastofnunar kemur fram að þrívíddargreiningu hafi verið beitt til að draga fram niðurstöður mælinga á mismunandi dýpi innan mælingareits. Flett var ofan af reitnum sem mældur var sentímetra fyrir sentímetra, þar til komið var að mörkum mæligetu tækisins. Sú uppsetning sem notuð hafi verið af tækinu gerði kleift að sjá 3 metra niður í jörðina. Í gegnum þessa 3 metra hafi verið hægt að draga fram allar þær breytingar sem orðið hafi í gegnum tíðina frá yfirborði og niður á um 3 metra dýpi.
Mælingarnar sýndu fram á mikið jarðrask tengt framkvæmdum við vegagerð og veituframkvæmdir niður á um 120 cm dýpi undir yfirborði vegarins. Á 120 cm dýpi byrjaði að móta fyrir línulegum strúktúr og á um 165 cm dýpi komu fram skýr merki um línulegan strúktúr sem þveraði austurhluta mælingareits frá suðri til norðurs. Þessi strúktúr skar sig sterkar og sterkar úr eftir því sem neðar dró. Á um 255 cm dýpi byrjaði línulegi strúktúrinn að dofna en hans gætti þó niður á um 285 cm dýpi. Í fyrirliggjandi lýsingu á lauginni segir að veggir hennar hafi verið 2 til 2,5 m á hæð. Mælingar Jarðvísindastofnunar sýna línulegan strúktúr á bilinu 120 til 285 cm undir núverandi yfirborði eða á um 160 cm kafla.Ef mælingarnar sýna hliðar laugarinnar gæti skýringin á þessum mun verið að seinni tíma jarðrask á svæðinu hafi raskað efsta hluta laugarinnar eða að veggir hennar liggi enn dýpra en mælingarnar náðu.
Í skýrslu Jarðvísindastofnunar kemur fram að mælingarnar sýni glöggt að einhverskonar manngert fyrirbæri sé að finna undir nútíma jarðlögum á staðnum. Hugsanlega sé um að ræða vesturvegg Reykjalaugar. Þá segir að austan við hleðslustrúktúrinn hafi komið fram sterkt endurkast sem gæti gefið til kynna setbekk sunnan megin og tröppur ofan í laugina norðan megin. Í skýrslunni er lögð áhersla á að ekki verði fullyrt um hleðslur eða mannvirki sem mögulega leynist þarna undir malbikinu nema með uppgreftri.
Reykjalaug hefur verið mikið mannvirki á þeirra tíma mælikvarða. Líklegast er að laugin liggi lítt skert undir veginum að Reykjum. Um er að ræða elstu minjar um nýtingu heita vatnsins í Mosfellsbæ. Það er vont til þess að vita að þessum merku menningarminjum sé ekki sýndur meiri sómi en raun ber vitni og að þær liggi grafnar undir möl og malbiki þar sem enginn fær notið þeirra.

Kristinn Magnússon
Fornleifafræðingur

Harry Potter og London baby!

Helena María

Það fór fjörugur hópur frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ til London þann 8. maí í Harry Potter ferð.
Þetta var hluti af nemendum úr Harry Potter áfanga sem var kenndur á vorönn 2025. Planið var að fara í leikhús að sjá Harry Potter and The Cursed Child og fara á Harry Potter safnið.
Þetta er í annað sinn sem þessi áfangi hefur verið kenndur en því miður fór hópurinn ekki út síðast þar sem fluginu var aflýst haustið 2023. Í þetta sinn var ekkert óveður sem stoppaði hópinn í að komast til London.
Nemendur leysa fjölmörg verkefni á önninni, þau eru sett í húsin eins og í Hogwarts skólanum, Slytherin, Gryffindor, Hufflepuff og Ravenclaw, þar sem þau reyna að vinna húsbikarinn. Í þetta sinn vann Gryffindor húsbikarinn þar sem þau voru stigahæsta húsið í lok annar. Nemendur lásu síðustu bókina í Harry Potter seríunni og unnu verkefni alla önnina. Svo horfðu þau á blöndu af Harry Potter myndunum ásamt því að gera fjölmörg verkefni en áfanginn er valáfangi í ensku á efsta þrepi.
Hópurinn flaug snemma út á fimmtudegi en nemendur gistu saman á hosteli og skemmtu sér vel saman 8.-11. maí í stórborginni. Þetta var dásamleg ferð í alla staði, nemendur stóðu sig með einstakri prýði og skemmtu sér vel. Þetta voru langir dagar en veðrið lék við okkur. Þau drukku í sig menninguna og nutu saman.
Ferðin var skipulögð með upplifun og menningu í huga og byggt á ferðinni sem átti fyrst að fara í. Ferðin var með þétta dagskrá en smá frjáls tími sem nemendur nýttu í að versla og skoða borgina.
Leikhúsferðin var mjög áhugaverð en leikritið er í tveimur hlutum og fjallar um tríóið Harry, Ron og Hermione , ásamt börnum þeirra og atburði í framtíðinni. Sýningin var ótrúlega flott og vel sett upp og gaman að sjá hvernig þeir útfærðu verkið og blekktu áhorfendur á meðan sýningunni stóð.
Hópurinn fór saman á British National Museum á laugardagsmorgninum en svo var flakkað um borgina og borðað saman um kvöldið.
Síðasti dagurinn fór í Harry Potter safnið. Þar var mikið að sjá og margt að skoða. Þetta var frábær endir á frábærri ferð. Ég er ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara erlendis með hópinn og fá að upplifa þetta í gegnum nemendur.
Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ leggur sig fram við að bjóða nemendum upp á áhugaverða valáfanga sem snúa að áhuga nemenda og kennara.

Helena María Smáradóttir