Lýðræðisveisla í Mosfellsbæ

Ragnar Bjarni Zoëga

Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ heldur prófkjör laugardaginn 31. janúar, þar sem kosið verður um fyrstu átta sæti á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Prófkjör eru gjarnan kölluð lýðræðisveisla og sú lýsing á vel við hér. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir hafa boðið sig fram og sýna með því vilja til að leggja sitt af mörkum í þágu samfélagsins okkar.
Ég heiti Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson og býð mig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ. Á síðasta kjörtímabili hef ég tekið virkan þátt í bæjarmálum og setið í umhverfisnefnd, skipulagsnefnd og fræðslunefnd Mosfellsbæjar. Sú reynsla hefur veitt mér dýrmæta innsýn í starfsemi bæjarins og þau tækifæri og áskoranir sem fram undan eru.
Mosfellsbær hefur um árabil verið eftirsóttur bær fyrir ungt fólk og fjölskyldur. Það er þó ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Við þurfum markvisst að vinna að því að halda í þau gæði sem gera bæinn okkar sérstakan: góða skóla og leikskóla, öflugt tómstunda- og íþróttastarf, góða þjónustu og sterkt samfélag. Þá skiptir nálægð við náttúruna og fjölbreyttar útivistarperlur bæjarins miklu máli og er einn af styrkleikum Mosfellsbæjar sem vert er að hlúa að.
Mosfellsbær er bær þar sem fólk á öllum aldri vill búa og vera. Til þess að svo megi áfram vera þurfum við að hlusta á bæjarbúa, taka ábendingum þeirra alvarlega og byggja ákvarðanir á samráði og trausti. Þannig skapast samfélag þar sem fólki líður vel og hefur trú á framtíðinni.
Fram undan eru stór og spennandi verkefni: uppbygging nýrra hverfa, bætt þjónusta, aukin tækifæri fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur og áframhaldandi uppbygging öflugs og ábyrgs samfélags. Til að takast á við þessi verkefni þarf bæði reynslu og ferska sýn, skýra framtíðarsýn og góða samvinnu.
Ég vil leggja mitt af mörkum til að Mosfellsbær haldi áfram að vaxa og dafna, af ábyrgð, framsýni og í góðu samtali við bæjarbúa.
Saman gerum við góðan bæ enn betri.

Ragnar Bjarni Zoëga Hreiðarsson.
Frambjóðandi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Umdeild hugmynd að stækkun golfvallar

Guðjón Jensson

Á dögunum rakst ég á að tekin hafi verið sú ákvörðun að slá tveimur ólíkum málaflokkum saman og sameina skipulagsmál og umhverfismál meðal nefnda í Mosfellsbæ. Þessi ákvörðun var tekin í fyrravor og frá og með júní 2025 fer þessi nefnd með bæði skipulags- og umhverfismál.
Það verður að segja sem er að ótalmargt ólíkt er með þessum málaflokkum. Við skipulagsmál er lögð áhersla á sem hagkvæmustu landnýtingu oftast í þágu þeirra sem byggja sem og öryggi. Hins vegar fást umhverfismálin við að vernda umhverfið þar sem yfirleitt engir fjárhagslegir hagsmunir koma við sögu.
Hvernig þessi ákvörðun hefur verið rökstudd hefur farið býsna hljótt um. Er kannski verið að fara nákvæmlega sömu leið og þegar Guðlaugur Þór sameinaði orkumálin og umhverfismálin þegar hann varð ráðherra beggja þessara málaflokka hérna um árið? Með því gerði hann umhverfismál hornreka.
Um þetta þurfa að fara fram umræður: Hverjir stóðu fyrir þessari breytingu og hver er tilgangurinn?

Þá er komið að því sem mig langar til að beina athygli Mosfellinga að: Fyrir liggur hugmynd um stækkun aðalgolfvallar Mosfellsbæjar. Mér þykir hún vera allbrött hugmynd um nýjar þrjár brautir sem bætast við sem merktar eru 4, 5 og 6 á meðfylgjandi uppdrætti. Nánar má um þessa hugmynd skoða á heimasíðu Mosfellsbæjar í fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar 12.12.2025, dagskrárliður 3.
Með fullum skilningi fyrir þessari tómstund þá sé ég ekki annað en hugmyndin muni þrengja býsna mikið að öðrum áhuga- og útivistarmálum okkar Mosfellinga. Ef þessi hugmynd nær brautargengi þá teygist golfvallarsvæðið allt frá ósum Úlfarsár við mörk Reykjavíkur og langleiðina að hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ. Aðeins örfáir metrar eru frá skolpdælustöðinni við brennusvæðið og að athafnasvæði hestamannafélagsins.
Bakkarnir neðan við Arnartanga hafa lengi verið okkur kærir sem margra annarra. Það var lengi vel einn aðalvettvangurinn í nánasta umhverfi okkar í frístundum. Smám saman hefur það verið að gróa upp, töluvert skóglendi hefur myndast með fjölbreyttum trjágróðri sem veitir gott og mikið skjól bæði fyrir okkur mannfólkið sem og fuglana sem margir eiga sér þarna gott næði.
Þarna hef ég ásamt fjölda Mosfellinga notið nærveru náttúrunnar, þarna hafa orðið til margar hugmyndir að flestu af því sem ég hef fengist við að skrifa í meira en fjóra áratugi: greinar í blöð og tímarit og meira að segja alllangt skáldverk, Löngu horfin spor. Því miður hefur afar lítið verið fjallað opinberlega um það.

Ef land verður tekið undir golfið, þá þrengist fyrir ýmsu öðru. Trjálundirnir norður af Arnartanganum, vettvangur fuglaskoðunar, yrðu felldir meira og minna til að koma fyrir snöggslegnum brautum. Þessi hugsunaháttur er orðinn ríkjandi í rekstri Mosfellsbæjar: öll opinber svæði eigi að vera snöggslegin eins og fínustu golfbrautir! Engar blómabrekkur eiga lengur að sjást sem eru venjulegu fólki til yndisauka. Um tugur sumarbeitarhólfa mun hverfa. Mér finnast hestarnir prýða Mosfellsbæinn okkar og það þykir væntanlega flestum. Öryggi hestafólks þarf að tryggja en golfbrautir eru hugsaðar beggja megin við gamla reiðstíginn.
Nauðsynlegt verður í náinni framtíð að aðgreina betur gangandi og hjólandi vegfarendur en stígarnir eru börn síns tíma, víðast mjóir og býsna úr sér gengnir.

Guðjón Jensson
arnartangi43@gmail.com

Prófkjör D-lista í Mosfellsbæ 31. janúar

Ásgeir Sveinsson

Prófkjör D-listans í Mosfellsbæ verður haldið 31. janúar og er það mikilvægur áfangi í undirbúningi okkar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Prófkör er ekki aðeins val á einstaklingum heldur lýðræðisleg ákvörðun um hvernig frambjóðendur raðast á D-lista fyrir kosningarnar 16. maí nk. Það er ljóst að sá listi verður skipaður hæfileikaríku fólki sem sameinar reynslu, nýja krafta og skýra framtíðarsýn.
Ég hef setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í átta ár. Fyrst í meirihluta á árunum 2018–2022, þar sem ég gegndi meðal annars starfi formanns bæjarráðs, og síðan sem oddviti D-listans í minnihluta frá 2022. Þessi ár hafa kennt mér að árangur í sveitarstjórnarmálum byggist fyrst og fremst á skýrri stefnu, samstarfi, og því að hafa fólk með mismunandi styrkleika sem vinnur saman að sameiginlegu markmiði og þorir að taka ákvarðanir og standa með þeim. Eftir þessum gildum höfum við D-lista fólk starfað á líðandi kjörtímabili í minnihluta í bæjarstjórn með góðum árangri fyrir Mosfellinga. Ég hef brennandi áhuga á bæjarmálunum og vil halda áfram að láta gott af mér leiða á þeim vettvangi á næsta kjörtímabili.

Fjölbreyttur hópur frambjóðenda
Í prófkjörinu að þessu sinni tekur þátt hópur af mjög hæfileikaríku fólki, á fjölbreyttum aldri með mismunandi bakgrunn, þekkingu og reynslu. Það sem sameinar þennan flotta hóp er einlægur metnaður og áhugi allra þessara einstaklinga fyrir velferð Mosfellsbæjar og Mosfellinga og öll viljum við láta gott af okkur leiða í vinnu fyrir bæinn okkar.
Hilmar Gunnars er öflugur nýr frambjóðandi sem býður sig fram til oddvitasætis og ég styð hann heilshugar í það verkefni, og ég veit að hann á eftir að standa sig mjög vel í því hlutverki.
Ég tók þá þá ákvörðun að bjóða mig fram í 6. sæti D-listans, í komandi prókjöri, sæti sem við ætlum að gera að baráttusæti fyrir kosningarnar í vor.
Markmið okkar er skýrt, að ná meirihluta í kosningum í vor og mynda sterkt, traust og reynslumikið lið, sem mun láta verkin tala, fólk sem sem getur tekið ábyrgð á áframhaldandi uppbyggingu Mosfellsbæjar. Með því að sækjast eftir 6. sætinu vil ég leggja mitt af mörkum að fylgi mitt nýtist á kjördag, ég vil styðja nýja forystu í nýju hlutverki og vil leggja mína þekkingu og reynslu af mörkum þar sem hún skiptir mestu máli.
Prófkörið 31. janúar verður jákvæður styrkur fyrir D-listann í Mosfellsbæ. Það gefur kjósendum innan flokksins raunverulegt val og mótar lista sem endurspeglar breidd, reynslu og framtíðarsýn. Ég veit að með samstilltu átaki, skýrum markmiðum, stefnu og öflugu samhentu liði mun D-listinn bjóða Mosfellingum sterkan valkost í kosningunum í vor.

Markmið mitt er skýrt
Með því að bjóða mig fram í 6. sæti er ég að styrkja liðið okkar sem heild, tryggja að fjölbreytt reynsla mín og þekking í rekstri sveitarfélaga og í einkarekstri nýtist sem best, auk þess að senda skýr skilaboð um að ég hef fulla trú á að D-listinn geti unnið góðan sigur í kosningunum í vor.
Ég hvet allt D-lista fólk í Mosó til að taka þátt í prófkjörinu, ég treysti á stuðning ykkar, ég hlakka til samtalsins við flokksfólk og áframhaldandi vinnu fyrir Mosfellsbæ í nýju hlutverki á listanum, með sama krafti og eldmóði og áður.

Ásgeir Sveinsson
Oddviti D-lista og bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ

Saman mótum við framtíðina

Nanna Björt Ívarsdóttir

Mosfellsbær er samfélag í stöðugri þróun. Uppbygging, fólksfjölgun og breyttar þarfir kalla á framsýna stefnumótun og virkt samtal við íbúa. Í slíkri þróun skiptir máli að fleiri sjónarmið fái vægi – ekki síst sjónarmið ungs fólks.
Þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, sem fram fer 31. janúar 2026.

Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbæ og hef alla tíð átt hér heima með fjölskyldu minni. Hér hef ég gengið í skóla, stundað íþróttir, tekið þátt í menningarlífi og starfað með börnum og ungmennum. Skólaganga mín hófst í Krikaskóla, hélt áfram í Varmárskóla og lauk í Kvíslarskóla.
Frá unga aldri hef ég tekið virkan þátt í samfélaginu, meðal annars með því að stunda handbolta fyrir Aftureldingu upp alla yngri flokka og einnig í meistaraflokki félagsins, auk þess að leika á trompet og taka þátt í því frábæra starfi sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar hefur að geyma.

Jafnframt hef ég öðlast mikilvæga reynslu af störfum innan skólakerfisins, meðal annars með starfi á leikskóladeild Krikaskóla og í Helgafellsskóla. Þá tók ég einnig þátt í sumarvinnuverkefnum Mosfellsbæjar fyrir ungmenni. Sú reynsla veitti mér dýrmæta innsýn í starfsemi sveitarfélagsins og undirstrikaði mikilvægi þess að styðja ungt fólk til ábyrgðar, þátttöku og virkni í samfélaginu.

Ungt fólk býr yfir ferskri sýn og skýrum hugmyndum um þau málefni sem snerta daglegt líf í Mosfellsbæ – svo sem skólamál, tómstundastarf, húsnæðismál og lýðræðislega þátttöku. Þrátt fyrir það finnst mér rödd ungs fólks of oft vera vanmetin í opinberri umræðu. Með því að tryggja ungu fólki raunverulega aðkomu að ákvarðanatöku styrkjum við lýðræðið og byggjum upp samfélag sem endurspeglar breiðari og réttlátari sjónarmið.

Ég legg sérstaka áherslu á málefni barna og ungmenna. Þar tel ég brýnt að efla skóla- og leikskólastarf, styrkja fjölbreytt tómstundalíf og skapa öruggt og hvetjandi umhverfi þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að blómstra. Jafnframt tel ég mikilvægt að sveitarfélagið leggi aukna áherslu á forvarnir, meðal annars með því að styðja við sterkt félagslegt umhverfi, efla snemmtækan stuðning og vinna í nánu samstarfi við skóla, foreldra, íþrótta- og frístundastarf. Með markvissum forvörnum er hægt að bregðast fyrr við áskorunum og draga úr vanda áður en hann verður alvarlegur. Slík fjárfesting er ekki aðeins samfélagsleg skylda heldur forsenda sterks og sjálfbærs Mosfellsbæjar til framtíðar.

Jafnframt tel ég mikilvægt að Mosfellsbær sé réttlátt og skilvirkt sveitarfélag þar sem stjórnsýsla er gagnsæ og ákvarðanir teknar á málefnalegum og sanngjörnum grundvelli. Laganám mitt hefur styrkt skilning minn á mikilvægi skýrra leikreglna, vandaðrar málsmeðferðar og ábyrgðar gagnvart íbúum. Traust íbúa til sveitarfélagsins er grundvallarforsenda virks lýðræðis.
Framsækið samfélag byggir á samspili reynslu og nýrrar hugsunar. Ég er tilbúin að hlusta, læra og vinna af heilindum fyrir Mosfellsbæ og leggja mitt af mörkum til áframhaldandi uppbyggingar.
Saman tryggjum við framsækinn, öruggan og umhyggjusaman Mosfellsbæ og ég óska eftir stuðningi þínum í 5. sætið.

Nanna Björt Ívarsdóttir

Samgöngur eru jafnréttismál og krefjast framtíðarsýnar

Bylgja Bára Bragadóttir

Höfuðborgarsvæðið verður að vera skipulagt sem ein heild með aðgengi, jafnræði og seiglu að leiðarljósi.
Samgöngur snúast ekki fyrst og fremst um vegi, akreinar eða farartæki. Þær snúast um aðgengi. Aðgengi fólks að vinnu, námi, þjónustu og samfélagslegri þátttöku sem ræðst af því hvort samgöngukerfið virkar og fyrir hvern. Þegar það bregst, bitnar það ekki jafnt á öllum. Þess vegna eru samgöngur jafnréttismál.
Stíflan sem myndast reglulega í Ártúnsbrekkunni er skýrt dæmi um kerfisbrest. Hún er ekki aðeins tæknilegt eða staðbundið umferðarmál, heldur afleiðing skorts á heildarsýn og samhæfingu. Á undanförnum árum hafa ákvarðanir um þrengingar í borginni oft verið teknar án nægjanlegs samráðs við önnur sveitarfélög eða lykilhagsmunaaðila á höfuðborgarsvæðinu. Afleiðingin er sú að ákvarðanir sem teknar eru innan borgarmarkanna hafa víðtæk áhrif langt út fyrir þau.
Ártúnsbrekkan varðar því ekki einungis íbúa Reykjavíkur, heldur einnig fólk í Mosfellsbæ og önnur sveitarfélög sem sækja vinnu, nám og þjónustu yfir sveitarfélagamörkin. Þegar slíkar þrengingar eru skilgreindar sem „borgarmál“ fremur en svæðisbundið viðfangsefni, skapast flöskuhálsar sem bitna daglega á tugþúsundum manna. Þetta er hvorki sjálfbært né sanngjarnt skipulag.
Nýlegt umferðarslys á Vesturlandsvegi undirstrikaði enn frekar hversu brothætt samgöngukerfið er. Ein truflun dugði til að lama umferð langt út fyrir slysstaðinn. Slíkar aðstæður snúast ekki aðeins um tafir og óþægindi, heldur einnig um öryggi. Þegar umferð safnast upp í flöskuhálsum, neyðaraðgengi skerðist og fólk situr fast í ófyrirsjáanlegum aðstæðum, eykst áhætta fyrir alla vegfarendur. Samgöngukerfi sem byggir á fáum lykilæðum er því ekki aðeins óhagkvæmt, heldur getur það einnig verið óöruggt. Slíkt ástand er ekki ásættanlegt á höfuðborgarsvæði sem vill standa undir nafni.
Flöskuhálsar í samgöngum mismuna fólki eftir búsetu. Þeir sem búa utan Reykjavíkur en sækja vinnu eða þjónustu inn í borgina bera oft meiri kostnað ekki aðeins í krónum, heldur í tíma, óvissu og streitu. Þetta hefur áhrif á lífsgæði, fjölskyldulíf og raunverulegt jafnræði fólks til þátttöku í samfélaginu. Samgöngur eru því ekki jaðarmál, heldur einn mikilvægasti grunninnviður samfélagsins.
Lausnir í samgöngumálum mega ekki byggjast á falskri andstöðu milli ferðamáta. Markmiðið hlýtur að vera kerfi sem virkar betur fyrir alla. Almenningssamgöngur, þar á meðal Borgarlínan, geta gegnt mikilvægu hlutverki ef þær eru byggðar upp sem raunverulegur, áreiðanlegur og samkeppnishæfur valkostur sem tengir sveitarfélög saman og léttir á stofnbrautum. En þær einar og sér leysa ekki vandann.
Á sama tíma er Sundabrautin nauðsynleg til að dreifa umferð, auka seiglu kerfisins og tryggja að eitt slys eða atvik geti ekki lamað stóran hluta höfuðborgarsvæðisins í einu. Hún er ekki andstæða almenningssamgangna, heldur órjúfanlegur hluti af heildarlausn. Samgöngukerfi sem treystir á fáar meginstoðir er einfaldlega of veikburða.

Í grunninn stöndum við frammi fyrir spurningu um framtíðarsýn. Erum við að skipuleggja samgöngur fyrir næstu ár eða næstu kynslóðir? Höfuðborgarsvæðið þjónar mun fleiri en þeim sem þar búa hverju sinni. Þar fer fram meginhluti atvinnu, þjónustu og verðmætasköpunar landsins. Því verðum við að hugsa innviði af meiri metnaði og skipuleggja svæðið sem eina heild jafnvel eins og hér búi mun fleiri en raun ber vitni í dag.
Samgöngur eru sameiginlegt verkefni. Jafnræði í samgöngum felst ekki í því að allir ferðist eins, heldur að allir hafi raunhæfa möguleika. Til þess þarf framtíðarsýn, samráð og pólitískt þor til að taka ákvarðanir sem styrkja kerfið í heild, fremur en að festa okkur í skammtímalausnum.

Bylgja Bára Bragadóttir, sækist eftir 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram 31. janúar.

Gleðilegt nýtt ár kæru Mosfellingar

Halla Karen Kristjánsdóttir

Ég vil þakka bæjarbúum fyrir það traust sem þið sýnduð Framsókn í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022. Þessi fjögur ár hafa liðið hratt enda mikið og margt í gangi á „stóru heimili“.
Ég er stolt af því sem við höfum áorkað á þessu kjörtímabili. Við höfum tekið hlutverk okkar af ábyrgð og lagt ríka áherslu á fagmennsku og gott samstarf. Meirihlutasamstarf Framsóknar, Samfylkingar og Viðreisnar hefur gengið afar vel og eitt af fyrstu og mikilvægustu skrefunum var að ráða faglegan bæjarstjóra. Þar reyndist ráðning Regínu Ásvaldsdóttur sannkallað gæfuspor fyrir Mosfellsbæ.
Það er eðlilegt í byrjun árs og hvað þá í lok kjörtímabils að fara yfir árin sem liðin eru og skoða hvað hefur áunnist á þessu kjörtímabili.

Velferðarmál
Dagvistunarplássum fyrir eldri borgara hefur fjölgað úr 9 í 25 rými.
Samningur við ríkið um samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu með öflugri endurhæfingarþjónustu = gott að eldast.
Opnuðum búsetukjarna í Helgafellshverfi.
Tókum yfir reksturinn á Skálatúni.
Erum að opna skammtímadvöl fyrir fötluð börn í Leirvogstungu.
Gerðum samning með Garðabæ um vistheimili sem hægt er að bráðavista börn á vegum barnaverndar.
Félagsstarf eldra fólks fór yfir í Brúarland og við það hefur orðið 40% aukning á þátttöku.

Menningar, íþrótta og lýðheilsumál
Tókum Hlégarð yfir og réðum viðburðastjóra.
Verkefninu menning í mars komið á laggirnar, m.a. með sögukvöldum í Hlégarði.
Listasalurinn efldur og búið að undirrita viljayfirlýsingu um gerð sýningar um sögu Álafosskvosar og ullariðnaðarins.
Nýr gervigrasvöllur með flóðlýsingu og vökvunargræjum.
Endurbættum gervigrasvöll sem fyrir var og bættum við vökvunargræjum.
Nýr 200 m frjálsíþróttavöllur.
Styrktaraðstaða fyrir Aftureldingu að Varmá.
Tveir nýir þurrkklefar teknir í notkun.
Búið að bjóða út félagsaðstöðu í íþróttamiðstöðinni að Varmá og nýja þjónustu- og aðkomubyggingu.
Þrjár nýjar hjólatæknibrautir í Ævintýragarðinum ásamt stækkun á frisbígolfvelli
Samningur um skíðaspor og áframhald á fleiri göngu- og hjólastígum.
Fjórar nýjar íþróttagreinar: borðtennis, skák, parkour og rafíþróttir.

Fræðslumál
Mikið viðhald á skólum, Kvíslarskóla og Varmárskóla ásamt leikskólum bæjarins.
Mikið fjármagn lagt í að bæta skólalóðir og leikvelli í bænum.
Nýr leikvöllur með aðgengi fyrir fötluð börn í Klapparhlíð.
Nýtt íþróttahús og sturtuklefar við Helgafellsskóla.
Leikskólinn Sumarhús opnaði fyrir 150 börn í Helgafellshverfi.
Farið í aðgerðir til að bæta starfsumhverfið í leikskólum.
Opnunartími félagsmiðstöðva lengdur, opið allt árið.
Opnunartími sundlauga lengdur.
Verkefnið Börnin okkar – aukið fjármagn til forvarna um 100 milljónir. 27 aðgerðir sem eru allar komnar til framkvæmda.
Mosfellsbær er orðinn barnvænt samfélag.
Breyttum Okkar Mosó í Krakka Mosó.

Stjórnsýsla og stafræn þróun
Stjórnsýsluúttekt, nýtt skipurit, innri endurskoðun, mælaborð og 74 tillögur sem búið er að framkvæma.
Mikil stafræn vegferð í gangi, erum komin í forystu og verið að vinna að því að bæta upplýsingatæknina.
Atvinnustefna klár.

Skipulags og umhverfismál
Erum að LED væða Mosfellsbæ.
Lýstum upp reiðleiðina „flugvallarhringinn“. Fyrstu 2 áfangarnir búnir.
Nýjar grenndarstöðvar teknar í notkun.
Umhverfisstefna Mosfellsbæjar klár.
Mikið viðhald og ný gatnagerð.
Áhættumatsskýrsla gerð ásamt fjármálagreiningum varðandi uppbyggingu Blikastaðalands.
Aðalskipulag á lokametrunum og framundan er mikil uppbygging í Mosfellsbæ varðandi Blikastaðaland.

16. maí 2026
Nú er kjörtímabilið senn á enda og ég endurtek þakklæti fyrir það traust sem bæjarbúar sýndu okkur í síðustu kosningum.
Ég hef áhuga á að bjóða aftur fram krafta mína í næstu sveitastjórnarkosningum og halda þessari góðu vegferð áfram með öflugu samstarfsfólki, með hagsmuni íbúa, Mosfellsbæjar að leiðarljósi.
Við í Framsókn munum kynna framboðslista og stefnumál okkar þegar nær dregur kosningum.
Með vinsemd og þökk.

Halla Karen Kristjánsdóttir oddviti meirihlutans og bæjarfulltrúi Framsóknar

Sundabraut fyrr en seinna

Nói Þrastarson

Við Mosfellingar þekkjum þetta öll. Umferðin í gegnum bæinn er orðin mun meiri en innviðir þola.
Á álagstíma sitjum við föst í röðum og fylgjumst með flutningabílum aka í gegnum bæinn án þess að eiga nokkurt erindi hingað. Þetta er ekki hvernig ástandið í Mosfellsbæ á að vera. Sundabrautin er lausnin sem getur breytt þessu.
Í dag er Mosfellsbær orðinn eins konar gegnumakstursleið fyrir þá sem eru á ferð milli Reykjavíkur, til útlanda, um Gullna hringinn, til Vesturlands og Vestfjarða. Afleiðingarnar eru tafir, aukin slysahætta og minna öryggi bæði fyrir akandi og gangandi vegfarendur. Sundabrautin myndi taka stóran hluta þessarar umferðar og leiða hana fram hjá bænum. Fyrir okkur sem búum hér þýðir það einfaldlega minni umferð og betra bæjarlíf.
Það er bæði eðlilegt og sanngjarnt að umferð sem á ekki erindi í Mosfellsbæ fari aðra leið. Við viljum að fólk komist leiðar sinnar en ekki á kostnað þeirra sem búa hér. Sundabrautin myndi bæta bæði öryggi og lífsgæði hér í Mosfellsbæ.
Sumir velta fyrir sér hvort Sundabrautin sé of dýr framkvæmd. En á hverjum degi tapast tími í umferðarteppum, eldsneyti fer til spillis og álag á vegakerfið eykst. Þegar þetta er allt lagt saman er Sundabrautin hagkvæm lausn til lengri tíma. Sundabrautin er fjárfesting í tíma okkar, öryggi og betra daglegu lífi.
Við finnum líka beint fyrir því hvað óáreiðanlegar samgöngur kosta. Stressið við að vera seinn í vinnu, missa af fundum eða sitja fastur í umferð þegar sækja þarf börn. Sundabrautin myndi stytta ferðatíma og gera samgöngur fyrirsjáanlegri.
Mikil umræða hefur verið um hvort Sundabrautin eigi að vera brú eða göng. Báðir valkostir hafa sína kosti, en brú hefur ákveðna yfirburði. Göng krefjast sérstakrar öryggisgæslu, loftræstikerfis til að halda mengun frá umferð í skefjum, sem er bæði kostnaðarsamt í byggingu og rekstri. Brú er einfaldari lausn, auðveldari í viðhaldi og skapar ekki sömu áskoranir varðandi loftgæði og öryggi. Mikilvægast er þó að þessi umræða verði ekki til þess að tefja verkefnið endalaust. Ákvörðun þarf að taka og framkvæmdir að hefjast.
Sundabrautin er ekki bara mál Mosfellsbæjar. Hún skiptir einnig miklu máli fyrir Vesturland og Vestfirði. Þeir sem flytja ferskan fisk og aðrar vörur vilja komast hratt leiðar sinnar, ekki sitja fastir í röð í Mosó. Sundabrautin er þjóðhagslegt hagsmunamál.
Niðurstaðan er skýr Sundabrautin er löngu tímabær. Hún mun létta umferð í Mosfellsbæ, bæta öryggi og gera daglegt líf okkar einfaldara. Nú er tíminn kominn til að byggja.

Nói Þrastarson, námsmaður og félagi í Miðflokknum

Tillögur til fjárhagsáætlanagerðar fyrir árið 2026

Dagný Kristinsdóttir

Í desember ár hvert samþykkir bæjarstjórn fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Þar er búið að setja saman rekstur sveitarfélagsins og þær framkvæmdir sem á að fara í, hvort sem um er að ræða viðhald eða nýframkvæmdir.
Við í Vinum Mosfellsbæjar höfum tamið okkur þau vinnubrögð að vera sammála góðum hugmyndum og greiddi ég, sem kjörinn fulltrúi, atkvæði með ákveðnum tillögum meirihlutans og Sjálfstæðismanna. Því það skiptir ekki máli hvaðan gott kemur.
Við lögðum fram tvær tillögur til fjárhagsáætlanagerðar á komandi ári.

Göngustígur á milli Dælustöðvarvegar og Reykjabyggðar verði upplýstur
Göngustígurinn er innan Reykjahverfis og langt utan almennrar götulýsingar. Yfir veturinn er hann mjög dimmur og getur verið hættulegur yfirferðar. Í hverfinu er einn lítill stígur með lýsingu, hún er ekki mikil en nægir til að auka öryggi gangandi vegfarenda, maður sér t.d. hvar er hálka. Helstu göngustígar bæjarins eru mokaðir og sandaðir þegar þannig stendur á, en mjög margir eru það ekki, t.d. göngustígar inni í götum og inni í hverfum, eins og þessi sem um ræðir. Verið er að leggja lokahönd á lýsingu á flugvallarhring fyrir hestafólk og því er í lófa lagið að halda þessari vegferð áfram og skoða hvernig er hægt að bæta aðstöðu okkar íbúanna til hreyfingar og heilsueflingar. Og var það hugmyndin að þessari tillögu.
Óskað var eftir því að þessari tillögu yrði vísað til Umhverfissviðs til kostnaðarmats og skoðunar. Fara þyrfti yfir hvaða lýsing hentar, væri hægt að nota eldri staura, hreyfiskynjara o.s.frv.
Meirihlutinn felldi tillöguna, þar sem ekki væri hægt að taka einn göngustíg út úr framkvæmdaáætlun og ekki lægi ljóst fyrir hvort um væri að ræða formlegan skilgreindan stíg eða slóða. Þeir sem hafa gengið stíginn vita að hann er vel malbikaður, beinn og breiður.

Mosfellsbær niðurgreiði strætó­kort fyrir 12-17 ára ungmenni
Hugmyndin með þessari tillögu var að sveitarfélagið veiti ungmennum á aldrinum 12-17 ára afslátt vegna kaupa á strætókortum. Mosfellsbær er ungt sveitarfélag og mörg heimili eru með eitt eða fleiri ungmenni á sínu framfæri. Afsláttur sem þessi myndi létta undir með heimilum í bænum og hvetja ungmennin til að nota strætó. Það aftur gæti þýtt að skutl mosfellskra foreldra myndi minnka, en við eigum þann vafasama heiður að vera Íslandsmeistarar í skutli. Bent var á að hægt væri að innleiða þessa tillögu í skrefum, t.d. með því að byrja á 12 ára ungmennum. Árskort fyrir 12-17 ára ungmenni kostar 56.000 kr. 20% afsláttur af strætókorti á ári væri 11.200 krónur. Gefum okkur að 70 börn nýti sér afsláttinn, þá væri kostnaður sveitarfélagsins 784 þúsund krónur á árinu.
Við teljum þessa hugmynd mjög góða en meirihlutinn sá þetta ekki sömu augum og felldi tillöguna.
Tillagan er til þess fallin að koma til móts við heimilin í sveitarfélaginu og þjálfa unga fólkið okkar upp í það að vera virkir notendur almenningssamgangna. Við eigum að þora að taka forystu og bjóða upp á almenningssamgöngur sem raunhæfan valkost.
Við sendum Mosfellingum öllum nýárskveðjur, með von um að árið verði okkur öllum gjöfult og gott.

Dagný Kristinsdóttir
Oddviti Vina Mosfellsbæjar

Fjölskyldan, börn og ungmenni

Sveinn Óskar Sigurðsson

Þann 11. nóvember á nýliðnu ári var haldin opin ráðstefna í Hlégarði hér í bæ á vegum Miðflokksins í Mosfellsbæ um málefni fjölskyldunnar, barna og ungmennanna.
Fundurinn var vel sóttur þar sem 4 fyrirlesarar ræddu málefnið og sátu svo síðar fyrir svörum. Líflegar umræður og ótal fyrirspurnir bentu til þess að mikil þörf er í samfélaginu okkar að ræða þessi mikilvægu mál og vinna úr því aðgerðaráætlun sem staðið verður við.
Einn fundarmanna á þessari ráðstefnu okkar í Miðflokknum, sem var öllum opin, var kjörinn manneskja ársins 2025, þ.e. Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður sem sérhæfir sig í að leita að týndum börnum. Í nýlegu viðtali við hann á vef mbl.is í byrjun desember 2025 kom fram að í fyrstu viku þess mánaðar höfðu 369 leitarbeiðnir borist lögreglu vegna týndra barna. Þetta er algjört met en fyrir ári voru beiðnirnar 274 fyrir allt árið 2024.
Einnig kom fram að leitað hafi verið að 93 börnum á árinu, þar af reyndust níu af þeim undir fermingaaldri. Yngsta barnið reyndist vera 11 ára, þ.e. fætt árið 2014. Að auki var þess sérstaklega getið að leitað hafi verið af 55 stúlkum, þar af 37 í fyrsta skipti og 38 drengjum, þar af 21 í fyrsta skipti. Aldrei áður hefur verið um svo margar stúlkur að ræða í hópi barna sem hlaupast á brott. Fram að þessu höfðu þær flestar verið 48, nú 55.
Börnin eru að stinga af frá heimilum sínum og úr meðferðarúrræðum þar sem þau hafa verið vistuð. Langflest þessara barna glíma við fíkni-, hegðunar eða geðræna vanda. Í einhverjum tilvikum fer þetta allt saman og líkurnar aukast að svo sé eftir því sem börnin eldast. Guðmundur hefur margítrekað bent á að það sé fokið í flest skjól ef samfélag okkar sé komið í þá stöðu að eina úrræðið sem er í boði sé að leita atbeina lögreglu. Nýlega fannst drengur á grunnskólaaldri sem leitað hafði verið að í 10 daga og ekki var það í eina skiptið á liðnu ári sem Guðmundur leitaði þessa drengs. Guðmundur hafði leitað hans í tugi skipta á nýliðnu ári og ekkert úrræði var í boði fyrir barnið. Þó svo að e.k. skaðaminnkandi úrræði væri í boði er það ekki meðferðarúrræði fyrir börn í fíknivanda. Það verður að vinna með neysluna í stað þess að láta hana viðgangast inni á meðferðarheimilum hins opinbera. Hvers vegna þurfa foreldrar á Íslandi að leita til Suður-Afríku að úrræðum fyrir börn í þessum vanda?
Þá má hér bæta við bráðri þörf fyrir NEET (ungmenni 18-29 ára án virkni, menntunar og atvinnu) skynslóðina. Þar hefur verið lokað á starfsemi Janusar endurhæfingar ehf. hvað geðrækt þessa hóps og virkniúrræði varðar. Þetta er ekki aðeins miður, þetta er sorglegt.
Þó svo að flokkar og fólk markaðssetji sig sem velunnarar barna og skipa sæti e.k. sjálfskipaðra velferðarflokka, flokka sem telja sig standa vörð um fjölskylduna, börn og ungmenni, er bara ekki að sjá að þeir stjórnamálaflokkar, sem starfað hafa á Íslandi í sveitastjórnum og á Alþingi í áratugi, hafi náð árangri í að mæta þörfum þessa fólks. Fjármagnið sem fer í skýrslugerðirnar endar sjaldan eða aldrei í virkum úrræðum, húsaskjóli og virknihvetjandi lausnum.
Gerum árið 2026 að gleðilegu ári fyrir fjölskyldur, börn og ungmenni þessa lands.

Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ

Með þakklæti í hjarta og trausti til framtíðar

Lovísa Jónsdóttir

Nýtt ár er gjarnan tími uppgjörs og íhugunar. Fyrir mig er þetta ár einnig tími þakklætis – fyrir samstarfið, traustið og þau tækifæri sem mér hafa gefist til að starfa í þágu Mosfellsbæjar. Um leið er þetta tími mikilvægrar og persónulegrar ákvörðunartöku.

Sterkt samstarf skilar árangri
Ég er afar stolt af þeim frábæra árangri sem meirihluti Viðreisnar, Framsóknar og Samfylkingar hefur náð á þessu kjörtímabili. Samstarf okkar hefur verið bæði einstakt og afar gefandi. Ekki aðeins faglegt heldur einnig skemmtilegt og byggt á gagnkvæmu trausti og virðingu.
Við oddvitarnir höfum verið samstíga og sú gleði og sá samhugur sem ríkir í samstarf okkar hefur án efa átt stóran þátt í þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu. Slíkt samstarf er ekki sjálfgefið í stjórnmálum og ég tel það forréttindi að hafa verið hluti af þessum meirihluta.
Það var einnig mikil lukka fyrir Mosfellsbæ að fá Regínu Ásvaldsdóttur til starfa sem bæjarstjóra. Framlag hennar til þeirra umbóta sem við höfum innleitt á kjörtímabilinu er ómetanlegt. Hún hefur leitt stjórnsýsluna af festu, fagmennsku og framtíðarsýn og átt stóran þátt í því að hrinda fjölmörgum mikilvægum verkefnum í framkvæmd.
Verkefnin sem við höfum lokið eða komið af stað eru ótal mörg, fleiri en hægt er að telja upp í stuttri grein. Engu að síður vil ég nefna nokkur sem ég veit að hafa verið bæjarbúum til mikilla bóta. Verkefnið Börnin okkar stendur upp úr, en auk þess mikil og metnaðarfull uppbygging á Varmársvæðinu, flutningur félagsstarfs eldri borgara í Brúarland og yfirtaka bæjarins á rekstri Hlégarðs. Þetta eru verkefni sem ég er einstaklega stolt af og endurspegla þá áherslu sem við höfum lagt á velferð, menningu og samfélagslega samheldni.
Þá eru einnig mörg verkefni sem eru kannski ekki sýnileg út á við en eru ekki síður mikilvæg. Fjöldi umbótaverkefna sem snúa að innra starfi stjórnsýslunnar og gagnadrifinna ákvarðanataka, ekki síst þegar kemur að fjármálum bæjarfélagsins.
Mosfellsbær er í dag eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem rekur A-hluta sinn án þess að vera háður byggingarréttargjöldum. Slíkur árangur kemur ekki af sjálfu sér heldur er afrakstur markvissrar stefnu og ábyrgra ákvarðana.

Átta ár í þjónustu Mosfellsbæjar
Undanfarin átta ár hef ég starfað ötullega í þágu Mosfellsbæjar, fyrst sem varabæjarfulltrúi og nefndarmaður í ýmsum nefndum en frá árinu 2022 sem bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar. Þá hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum sem kjörinn fulltrúi eins og að sitja í stjórn Strætó bs. Allt hefur þetta starf verið í senn spennandi og gefandi en líka ábyrgðarmikið.
Kjörtímabilið hefur þó ekki allt verið blómlegt hjá mér persónulega. Í ágúst 2024 urðum ég og fjölskylda mín fyrir því áfalli að sonur minn lést langt fyrir aldur fram. Starf bæjarfulltrúa er aukastarf sem flestir bæjarfulltrúar sinna samhliða annarri vinnu. Slík vinna krefst tíma og orku sem ég sé ekki fram á að geta gefið af mér til lengri tíma litið.
Ég hef því tekið þá ákvörðun að gefa ekki aftur kost á mér til að leiða lista Viðreisnar í komandi sveitarstjórnarkosningum heldur helga mig fjölskyldunni og treysta öðru góðu og öflugu fólki til að leiða fram sterkan lista Viðreisnar í kosningunum í vor. Þessa ákvöðun hef ég tekið með hjartað fullt af þakklæti og stolti og fullu trausti til áframhaldandi bjartrar framtíðar Mosfellsbæjar.

Lovísa Jónsdóttir,
oddviti Viðreisnar og bæjarfulltrúi

„Stoppum nú öll“

Hildur Dís Jónsdóttir Scheving

Hvernig má það vera að stórum parti af börnunum okkar líði illa í skólanum, nái ekki fótfestu?
Á Íslandi njótum við þeirra forréttinda að hér er skólaskylda.
Í fræðslulögum frá 1936 kemur fram að hið opinbera beri ábyrgð á að öll börn eigi möguleika á menntun við hæfi.
Börnin okkar verja því stórum hluta úr degi sínum innan veggja menntastofnana.
Stór hluti barna sem ekki tilheyra eða ná fótfestu í hinu almenna kerfi týnast, rúlla á milli nefnda, ráða, kerfa, stjórnenda, verkefnastjóra … útskrifast úr skyldubundnu námi án þess að ná sínum besta mögulega námsárangri því þau fengu ekki það umhverfi, þá aðstoð, þá hvatningu og utanumhald sem þau þurftu.
Þau féllu á milli.
Vandi þeirra er misstór en úrræðaleysið og hægagangur kerfanna náði ekki utan um þau. Oftar en ekki eru á bakvið þessa nemendur forráðamenn sem eru úrvinda, hafa barist fyrir barnið sitt, fyrir betri líðan og/eða bættum námsárangri í skólanum án úrbóta sem virka, sem festast í sessi og er viðhaldið.
Sum þeirra fá aðstoð, ná fótfestu – klára skólagönguna með sæmd.
Alltof stór hópur verður þó útundan.
Mosfellsbær hlaut nýverið viðurkenningu sem barnvænt samfélag. Í aðgerðaáætlun sem kynnt var í maí 2025 er hægt að sjá þau verkefni og markmið sem átti að vinna að og ná til þess að hljóta viðurkenninguna. Frábært verkefni og virkilega þarft.
Það vakti strax athygli mína að nánast öll markmiðin náðu til barna eldri en 12 ára. Vonandi er á því skýring, sem ég þó finn ekki.
Í dag erum við með viðkvæman hóp nemenda sem fellur undir þann aldursflokk. Þessi hópur hóf sitt skyldubundna nám í heimsfaraldri, hálfa grunnskólagöngu sína til þessa hefur ríkt hættuástand í samfélaginu. Með tilheyrandi rótleysi og starfsmannaveltu. Við erum með þeirra framtíð í höndunum. Þau eru „nýja týnda kynslóðin“.
Einkunnagjöf hefur breyst mikið síðasta áratug, með því minnkaði yfirsýn og eftirfylgni samræmdra mælinga á grunnfærni nemenda, vegna þessa eru takmörkuð gögn til, svo erfitt er að sjá raunverulega hver staðan er.
Háværar raddir frá forráðamönnum eru að heyrast, en þær fá ekki þá heyrn sem til þarf. Forráðamenn hafa áhyggjur af stöðu náms hjá börnum sínum, grunnfærni þeirra og hæfni virðist ekki vera sú sem hún að vera samkvæmt aðalnámskrá og eru nemendur eftir á með námsefni, ásamt því að niðurstöður mælinga sýna að lestrarfærni er í frjálsu falli niður á við, eins og flestum er orðið ljóst.
En hvað erum við að gera sem samfélag til að grípa þessi börn? Þessa nemendur sem hafa ekki hafa náð fótfestu frá upphafi skólagöngu sinnar?
Farsældarlög hafa tekið gildi yfir landið allt. Þau lög eiga að búa til umgjörð utan um barn sem er í vanda. Auðvelda á aðgengi að samþættri þjónustu og tekið fram að það sé án hindrana. Hinsvegar er upplifun forráðamanna barna í vanda í okkar samfélagi þvert á lögin. Forráðamenn sem lýsa algeru úrræðaleysi. Ekki sé hlustað í alltof mörgum tilfellum, ytri aðstæður séu sagðar hamlandi fyrir aðgerðir. Má hér nefna skólastofuna, rými til kennslu, starfsmannaveltu og kennaraskort, hæga afgreiðslu hjá fræðslu- og frístundasviði og fleira. Má nefna að mál sem fá flýtimeðferð taka eitt skólaár í vinnslu að lágmarki.
Hinsvegar er réttur til náms við hæfi lögbundinn ásamt farsældarlögunum sem eiga að vernda nemendur til að þeir fái nám við hæfi og öðlist grunnfærni og hæfni fyrir framtíðina.
Réttur nemenda er brotinn án þess að viðeigandi aðgerðir séu gerðar.
Við þurfum öll að stoppa, bakka aftur um áratug hið minnsta og skoða hvar við fórum út af sporinu. Við erum með dýrmæta framtíð í höndunum.
Börn sem koma til með að verða hér samfélagsþegnar í bænum okkar. Halda honum gangandi, halda uppi heiðri og sögu bæjarins. Þau verða að fá að vita að þau skipti máli í samfélaginu, að á þau sé hlustað, að þau séu að fá menntun við hæfi, að þau öðlist grunnfærni og hæfni til að búa þau sem best fyrir framtíðina. Eins og er þá er það ekki staðan í barnvæna bænum okkar, því miður. Þau líða of mörg fyrir starfsmannaveltu og kerfisflækjur, missa smátt og smátt tækifærin sín sem þau gætu verið að nýta ef þau hefðu náð fótfestu.
Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar- Hvet ég því ykkur öll að velta fyrir ykkur framtíð þessa hóps. Hvað getum við gert til að styðja við framtíð þeirra? Við erum að tala um framtíð bæjarins.

Hildur Dís Jónsdóttir Scheving
Uppeldis- og menntunarfræðingur

Nútímalegri og skilvirkari þjónusta við íbúa í Mosfellsbæ

Kjartan

Góð stjórnsýsla snýst ekki aðeins um að sinna lögbundnum verkefnum, heldur einnig um hvernig þjónustan er veitt.
Í Mosfellsbæ hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að því að efla þjónustuhlutverk sveitarfélagsins, einfalda ferla og bæta aðgengi íbúa að upplýsingum og þjónustu. Þróunin endurspeglar skýra sýn um að sveitarfélag eigi að vera aðgengilegur, skilvirkur og nútímalegur þjónustuaðili.

Á vef Mosfellsbæjar er lögð áhersla á rafræna þjónustu þar sem íbúar geta nálgast ýmis erindi, umsóknir og upplýsingar á einum stað. Með rafrænum lausnum er markmiðið að einfalda samskipti, stytta boðleiðir og tryggja að íbúar geti sinnt sínum málum þegar þeim hentar. Slík þjónusta stuðlar að skýrari ferlum og bættri yfirsýn, bæði fyrir íbúa og starfsfólk bæjarins.
Mikilvægur þáttur í þessari þróun er hlutverk þjónustumiðstöðvar Mosfellsbæjar. Þar er lögð áhersla á að veita íbúum skýra leið inn í stjórnsýsluna, þar sem hægt er að fá upplýsingar, aðstoð og leiðbeiningar um málefni sveitarfélagsins. Þjónustumiðstöðin gegnir lykilhlutverki í því að samræma þjónustu, tryggja samfelld samskipti og stuðla að skilvirkri afgreiðslu erinda. Með slíkri miðlægri nálgun er dregið úr flækjustigi og þjónustan gerð manneskjulegri.
Aðgengi að upplýsingum hefur einnig verið styrkt með markvissri uppbyggingu vefs Mosfellsbæjar. Þar er að finna upplýsingar um starfsemi bæjarins, þjónustuviðmið, fundargerðir og ákvarðanir, auk leiðbeininga um réttindi og skyldur íbúa. Með opnum og aðgengilegum upplýsingum er stuðlað að gagnsæi og trausti, sem eru grundvallarþættir í góðri stjórnsýslu.

Þessi þróun fellur vel að þeim áherslum sem Framsókn hefur lagt í sveitarstjórnarmálum, þar sem einfaldleiki, þjónustulund og nálægð við íbúa hafa verið leiðarljós. Hugmyndin um sveitarfélag sem þjónar fólki, endurspeglast í því hvernig Mosfellsbær vinnur að því að bæta þjónustu, einfalda samskipti og mæta íbúum af virðingu og skilningi.

Þegar litið er yfir þessi skref blasir við skýr mynd af sveitarfélagi sem er í stöðugri þróun. Með aukinni rafrænni þjónustu, öflugri þjónustumiðstöð og betra aðgengi að upplýsingum er Mosfellsbær að styrkja stöðu sína sem nútímalegur og skilvirkur þjónustuaðili. Það er mikilvægt fyrir íbúa, fyrir starfsfólk og fyrir traustið á sveitarfélaginu í heild.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna

Skóli án aðgreiningar krefst nýrrar hugsunar

Elín María Jónsdóttir

Þegar börn falla ekki að kerfinu
Undanfarin ár hefur verið bent á að íslenska skólakerfið nái ekki að mæta þörfum allra barna. Þegar börn finna sig ekki í skólakerfinu er hætta á að sjálfsmynd þeirra veikist og tengsl við skólasamfélagið rofni, sem eykur líkur á vanda síðar.
Samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla á hugtakið skóli án aðgreiningar rætur í hugmyndum um félagslegt réttlæti, þar sem öllum nemendum eru tryggð jöfn eða jafngild tækifæri til náms. Skóli án aðgreiningar er þó ekki ótvírætt hugtak, heldur mótast það af aðstæðum, viðhorfum og skipulagi hvers skólasamfélags.
Til að hugsjónin verði að veruleika þarf skólinn að búa yfir nægilegum stuðningi, mannafla og sérfræðiþekkingu þannig að kennarar geti mætt fjölbreyttum þörfum nemenda.

Börn eru ólík
Í hverri skólastofu mætast börn með ólíkar forsendur, áhuga og áskoranir. Það sem nýtist einum hentar ekki endilega öðrum. Skóli án aðgreiningar snýst ekki um að steypa alla í sama mót, heldur að mæta hverju barni þar sem það er statt. Kennarar þurfa að beita faglegu mati og sveigjanleika, hvort sem það felst í skýrari ramma, markvissari leiðsögn eða auknum áskorunum, þannig að allir fái tækifæri til að dafna.

Styrkleikar hverfa í kerfi sem ræður ekki við fjölbreytileikann
Þegar kerfið ræður ekki við fjölbreytileikann færist áherslan oft frá styrkleikum barnsins yfir á það sem ekki gengur. Hegðun eða frávik verða ráðandi og hæfileikar, áhugi og möguleikar falla í skuggann. Afleiðingin getur verið sú að nemandinn upplifi sig sem vandamál í stað virks þátttakanda. Slíkt getur grafið undan sjálfsmynd og trú á eigin getu.
Skóli sem vill vera án aðgreiningar þarf því að vera næmur fyrir styrkleikum hvers barns og skapa aðstæður þar sem þau fá að njóta sín. Þegar kerfið ræður ekki við fjölbreytileikann bitnar það ekki aðeins á þeim sem þurfa mestan stuðning, heldur einnig börnum sem eiga auðveldara með nám, þar sem kennslan nær síður að kveikja áhuga þeirra eða veita þeim viðeigandi áskoranir.

Skóli án aðgreiningar krefst raunverulegra úrræða
Hugmyndin má ekki vera þannig að hún hamli raunverulegum lausnum. Í umræðu um skóla án aðgreiningar virðist stundum ríkja ótti við að grípa til aðgreiningar, jafnvel þegar það er barni fyrir bestu. Að mæta þörfum nemenda getur kallað á tímabundna aðgreiningu, smærri hópa eða sértækan stuðning. Slík úrræði ganga ekki gegn hugmyndafræðinni heldur styrkja hana, svo lengi sem þau miða að velferð og framförum barnsins.
Raunveruleg innleiðing krefst þess að skólar hafi svigrúm til að þróa fjölbreyttar lausnir og að kennarar starfi við aðstæður sem gera þeim kleift að vaxa í starfi.

Sjálfstraust og seigla sem forvörn
Þegar börn fá stuðning og áskoranir við hæfi upplifa þau að tekið sé mark á þeim og þau tilheyri. Slíkt eflir sjálfstraust þeirra og byggir upp seiglu. Þau læra að takast á við áskoranir og mótlæti með stuðningi. Þannig er byggð upp ein öflugasta forvörnin í skólastarfi: ungmenni sem trúa á sjálf sig.

Hugmyndin er góð – en hvað svo?
Spurningin er ekki hvort skóli án aðgreiningar sé góð hugmynd, heldur hvort við sem berum ábyrgð á framkvæmd hennar séum tilbúin að láta hana virka í raun. Reynslan sýnir að kerfið nær ekki alltaf að styðja við fjölbreyttan nemendahóp.
Hugmyndin verður aðeins að veruleika ef hún er studd í daglegu starfi, ekki aðeins í orði.

Elín María Jónsdóttir
frambjóðandi í 5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Þétting byggðar í Mosfellsbæ: Hvenær er nóg nóg?

Júlíana Guðmundsdóttir

Mosfellsbær stendur frammi fyrir raunverulegri húsnæðisþörf, en það er ekki sjálfgefið að svarið sé meiri þétting á minni svæðum, á sífellt skemmri tíma. Sú nálgun endurspeglar frekar drauma þeirra sem teikna bæi á blað en íbúa sem þurfa að búa við afleiðingarnar í daglegu lífi.
Uppbygging snýst ekki aðeins um fjölda íbúða, heldur líka um lífsgæði, samfélag og traust. Við þurfum því að staldra aðeins við.

Blikastaðalandið – þarf svona mikla þéttingu?
Í skipulagsgögnum fyrir Blikastaðaland er miðað við að uppsöfnuð íbúðaþörf Mosfellsbæjar næsta áratug sé á bilinu 1.300–2.400 íbúðir. Það er frekar skýr rammi. Spurningin er hins vegar hvort við séum þegar farin langt fram úr honum, áður en innviðir og samfélagslegt samþykki eru tryggð.
Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum er Blikastaðalandið um 67 hektarar að stærð og þar er gert ráð fyrir allt að 3.600 íbúðum með mjög háum þéttleika. Þar að auki er gert ráð fyrir umtalsverðu atvinnuhúsnæði. Þetta eru stærðargráður sem munu óhjákvæmilega breyta bæjarbrag, auka álag á umferð, skóla og þjónustu og hafa áhrif á daglegt líf íbúa langt út fyrir svæðið sjálft.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum er hraðinn. Fyrsti áfangi deiliskipulagsins gerir ráð fyrir um 1.270 íbúðum ásamt leik- og grunnskóla. Ef fyrsta skrefið er svona stórt, án þess að allar forsendur séu í föstum skorðum, hver verður þá heildarmyndin þegar næstu áfangar bætast við?

Eru almenningssamgöngur það sem fólk í úthverfum vill og þarf?
Þéttingin í Blikastaðalandi er réttlætt með fyrirhugðum almenningssamgöngum, þar á meðal Borgarlínu. Samkvæmt áætlunum er ekki gert ráð fyrir að Borgarlínuleið um svæðið verði tilbúin fyrr en eftir mörg ár. Borgarlínan er þó stórt áhættuverkefni.
Fólk á höfuðborgarsvæðinu notar ekki þær almenningssamgöngur sem þegar eru til staðar í miklum mæli og ferðavenjur hafa lítið breyst síðasta áratug. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að snúa þróuninni við. Það er því full ástæða til að spyrja hvort forsendur þéttingarinnar standist í raun.

Helgafell, Keldnaland – lærdómur sem margir kjósa að horfa fram hjá
Helgafellslandið í Mosfellsbæ hefur þegar sýnt okkur hvað gerist þegar uppbygging fer fram úr innviðum og sátt við íbúa. Óánægja magnast og traust rofnar. Sama mynstur sést á Keldnalandi, þar sem lögð hefur verið til gríðarleg þétting, takmörkuð bílastæði og mikla trú á „fjölbreyttar samgöngur“.
Að feta sömu braut áfram er ekki framsýni, heldur skortur á auðmýkt gagnvart reynslunni.
Ég tel nauðsynlegt að Mosfellsbær staldri við áður en næstu áfangar Blikastaðalands eru keyrðir áfram. Ekki til að stöðva vöxt, heldur til að setja skýr og bindandi skilyrði. Fjármögnun og tímasetningar fyrir skóla, leikskóla og grunnþjónustu þurfa að liggja fyrir áður en íbúðir rísa, og raunverulegar samgöngulausnir að koma á undan íbúðamassanum. Skipulagið verður einnig að innihalda raunverulega „stopp-punkta“, þar sem hægt er að hægja á eða endurskoða þegar forsendur standast ekki.

Aðalskipulag á að vera leiðarvísir um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar, í takt við vilja bæjarbúa. Þétting byggðar má aldrei verða markmið í sjálfu sér. Þegar hún ógnar lífsgæðum og samfélagi er svarið ekki að þétta meira, heldur að staldra við og velja betri leið.

Júlíana Guðmundsdóttir, frambjóðandi í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ

Við erum að byggja bæ til framtíðar, en fyrir hvern?

Eyþór Bjarki Benediktsson

Mosfellsbær stendur frammi fyrir miklum breytingum. Á næstu árum er gert ráð fyrir að byggja eigi um þrjú þúsund nýjar íbúðir og bæjarfélagið mun stækka hratt.
Það er gott að bærinn vaxi en mér finnst mikilvægt að við ræðum hvernig þessi fjölgun verður og hverjir flytja hingað. Staðreynd er sú að stór hluti fjölgunar á landsvísu undanfarin ár kemur til vegna fólks sem er af erlendu bergi brotið. Dvalarleyfi til ríkisborgara utan EES hafa margfaldast á skömmum tíma. Þetta er staða sem við getum ekki horft framhjá.

Samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps um dvalarleyfi (nóvember 2025) skýra erlendir ríkisborgarar um það bil 70% af fólksfjölgun á Íslandi frá 2017 til 2025. Á sama tíma hefur fjöldi dvalarleyfishafa frá ríkjum utan EES nær fimmfaldast úr um 4.200 einstaklingum í tæplega 20.000 og tvöfaldaðist á síðustu þremur árum.
Þetta sýnir að stór hluti framtíðarfjölgunar íbúa, líka í Mosfellsbæ, mun ráðast af ákvörðunum í útlendinga- og dvalarleyfismálum.
Spurningin er einföld: Hvernig viljum við að Mosfellsbær verði þegar þessi íbúðauppbygging er orðin að veruleika? Hver er framtíðarbærinn sem við sjáum fyrir okkur? Viljum við að fjölgunin verði að mestu vegna ungs fólks sem er að koma sér fyrir, vilja fjölskyldur setjast hér að eða munum við sjá stærstan hluta nýrra íbúa koma erlendis frá? Erum við að byggja upp sjálfbært samfélag?

Við þurfum að eiga heiðarlegt samtal um hvernig við viljum að samfélagið okkar þróist. Mosfellsbær á að vera góður staður fyrir alla sem hér búa. Það er eðlilegt að spyrja hvernig íbúasamsetning og fjölgun hafi áhrif á skóla, þjónustu, húsnæði og samfélagið til framtíðar.
Ég vil að íbúar Mosfellsbæjar setji sér skýr markmið um uppbyggingu næstu ára þar sem tekið er mið af íbúasamsetningu, þjónustu, skólastarfi og samfélagsanda. Við eigum að gera áætlun og gott skipulag en ekki bara vona að allt reddist.

Eyþór Bjarki Benediktsson, Miðflokksmaður í Mosfellsbæ