Uppfærsla samgöngusáttmála – nei takk

Dagný Kristinsdóttir

Mál málanna hjá bæjarstjórn í september var uppfærður samgöngusáttmáli en markmiðið með honum er að liðka fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu og bjóða upp á fjölbreyttari valkosti til ferða á milli svæða.
Það er margt gott í sáttmálanum en það eru líka margir þættir sem eru óljósir og þarfnast umræðu.

Hvað er í þessu fyrir okkur?
Einhverjir vilja að við horfum til þess hvað sáttmálinn færir höfuðborgarsvæðinu í heild sinni en við getum ekki annað en skoðað hvað þessi uppfærsla færir okkur, íbúum í Mosfellsbæ. Stutta svarið er í raun einfalt. Á komandi ári er lagt til að ferðir á leið 15 verði tíðari.
En sú breyting ein og sér gerir ekki mikið. Aðrar samgöngubætur fyrir okkur eru annars vegar Borgarlína sem á, samkvæmt uppfærslunni, að fara í keyrslu upp úr 2032. Það er eftir átta ár.
Og hins vegar Sundabraut sem á að vera tekin í gagnið á svipuðum tíma. En líkurnar á að það gerist myndi ég telja harla litlar. Á sama tíma mun ferðatími okkar lengjast ár frá ári samhliða gríðarlegri uppbyggingu í bæjarfélaginu, t.d. á Blikastöðum og á Korputúni.

Af hverju segi ég nei?
Eftir að hafa kynnt mér málin og rætt við fólk sem hefur meiri þekkingu á þessu sviði ákvað ég að segja nei við uppfærslunni. Ástæðan er ekki það fjármagn sem við leggjum til verkefnisins, heldur aðrir þættir málsins.
Það er margt í sáttmálanum sem er óljóst, sem dæmi má nefna gríðarlegar fjárhæðir sem geta tengst hinum ýmsu verkefnum og framkvæmdum, en ekki hefur verið ákveðið hvar kostnaðarhliðin leggst.
Við, oddvitarnir í minnihlutanum, bentum á þetta við umræðu málsins og ekki að ástæðulausu. Í dag er staðan sú að ríkisstjórnin er fallin og verkefnin í sáttmálanum eru ófrágengin af ríkisins hálfu.

Önnur ástæða fyrir því að ég var ekki tilbúin að segja já við þessari uppfærslu er sú að á sama tíma og uppbygging samgönguinnviða fer fram, verðum við í framkvæmdum á Blikastöðum sem eiga eftir að kosta bæinn gríðarlega fjármuni.
Ég hefði viljað spyrja að því, fyrir undirritun, hvað ætlum við að gera ef samgönguframkvæmdir sigla í strand eða kostnaður eykst, á sama tíma og fjárfrekar framkvæmdir eru í gangi hjá okkur. Það er okkar ábyrgð að hugsa út í það.
Svo er það annað veigamikið atriði. Kjörnir fulltrúar eru fulltrúar íbúa. Ég er ekki tilbúin að koma fram sem kjörinn fulltrúi og segja við mína kjósendur að ég hafi samþykkt sáttmála sem gefi okkur einhverjar umferðarbætur eftir átta ár, hið fyrsta. Hagsmunir bæjarfélagsins eru gríðarlegir, góðar samgöngur til og frá bænum eru ein forsenda þess að fólk vilji flytja í bæinn og það er okkar hlutverk að standa vörð um þann málstað.
Hver og einn bæjarfulltrúi kaus eftir sinni sannfæringu. Mín sannfæring var þessi. Ég er ekki tilbúin að samþykkja svo stórt verkefni án þess að hafa allar staðreyndir á pappír fyrir framan mig. Þarna vantaði samráð og samtal, kjörnir fulltrúar fengu vitneskju um sáttmálann tveimur dögum fyrir undirritun. Svoleiðis vinnubrögð finnast mér ekki góð.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Samgöngusáttmáli

Ásgeir Sveinsson

Á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þann 25. september sl. var samþykkt uppfærsla á Samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið sem fyrst var samþykktur árið 2019.

Það er margt jákvætt í uppfærðum samgöngusáttmála sem er nauðsynlegur til að komast úr þeirri kyrrstöðu sem ríkt hefur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er einnig jákvætt að ríkið komi með aukið fjármagn í verkefnið og taki þátt í stofnun og rekstri félags um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.
Kostir og gallar í uppfærðum samningi
Bæjarfulltrúar D-lista gerðu athugasemdir og fyrirvara varðandi uppfærðan samgöngusáttmála, einkum hvað varðar forgangsröðun verkefna, skipulagsmál og kostnaðaráætlun.
Frestun verkefna samgöngusáttmálans síðustu árin, ásamt skipulagsbreytingum meirihlutans í Reykjavík varðandi skerðingu á umferð einkabíla eru forsendubrestur við markmið sáttmálans. Þessar breytingar kalla á annars konar framkvæmdaröðun en þá sem kveðið er á um í uppfærðum samgöngusáttmála.

Jana Katrín Knútsdóttir

Má til dæmis nefna mislæg gatnamót við Bústaðarveg, legu, skipulag og hönnun Sundabrautar. Í kostnaðaráætlun virðist vanta áætlaðan kostnað m.a fyrir vagnakaup og  uppkaup lands vegna fyrirhugaðrar legu Borgarlínu.

Samgöngusáttmálinn er langtímaverkefni og líklegt að þetta mikilvæga verkefni eigi eftir að fara í gegnum fleiri uppfærslur á komandi árum og taka breytingum í tíma, skipulagi og kostnaði.
Það er margt sem þarf að ganga upp svo að tímalína sáttmálans standist. Það sem snýr að okkur Mosfellingum er m.a. uppbygging í Keldnalandi, uppbygging í Blikastaðalandi og bygging Sundabrautar en sú framkvæmd er ekki hluti af sáttmálanum sem eru viss vonbrigði út af fyrir sig. Fjármögnun sáttmálans frá hendi ríkisins hefur ekki verið samþykkt og það verður áskorun að fá bæði verktaka og fjármagn til að vinna að þessari miklu uppbyggingu innan þeirra tímamarka sem áætluð eru í uppfærðum sáttmála.
Bráðabirgðaframkvæmdir strax
Það er ljóst að með áframhaldandi fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir að umferðarþungi aukist mikið á næstu árum. Það er nauðsynlegt að bregðast við strax með viðbótaraðgerðum til að auka flæði strætó og almennrar bílaumferðar þar til stærri verkefni sáttmálans s.s. Borgarlínan, stokkar og göng verða tilbúin og munum við bera fram tillögur í þeim efnum á næstu misserum.

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í sáttmálanum kemur fram að flýti- og umferðargjöld verði tekin upp árið 2030 og gert er ráð fyrir að þessi gjaldtaka hafi áhrif á ferðavenjur íbúa höfuðborgarsvæðisins. Ef markmiðið er að auka notkun almenningssamgangna meðal íbúa er nauðsynlegt að hefja sem fyrst vinnu við að bæta gæði þjónustunnar og ímynd almenningssamgangna í samfélaginu, sem og að hafa áhrif á ferðavenjur fólks.

Hlutverk okkar bæjarfulltrúa er að standa vörð um hagsmuni íbúa Mosfellsbæjar í öllum málum og athugasemdir okkar við uppfærslu samgöngusáttmálans eru í samræmi við það. Áhyggjur okkar beinast að óljósum heildarkostnaði sáttmálans, tímalínu framkvæmda og forgangsröðun verkefna auk tímasetningar á uppbyggingu Sundabrautar. Í ljósi reynslunnar má teljast ólíklegt að sú tímalína sem sett er upp í uppfærðum sáttmála muni standast og því leiða til aukins umferðavanda á höfuðborgarsvæðinu þ.m.t. til og frá Mosfellsbæ.
Áfram skal haldið
Þrátt fyrir ákveðna ágalla í uppfærðum samgöngusáttmála teljum við nauðsynlegt að halda áfram með þetta stóra samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Helga Jóhannesdóttir

Við munum áfram styðja við framgang sáttmálans en um leið horfa gagnrýnum augum á þær tillögur til breytinga sem eiga eftir að koma fram á áætluðum framkvæmdatíma með hagsmuni Mosfellinga að leiðarljósi.

Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi  D-lista
Jana Katrín Knútsdóttir bæjarfulltrúi D-lista
Rúnar Bragi Guðlaugsson bæjarfulltrúi D-lista
Helga Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi D-lista

Við erum komin til að vera – Viltu vera með?

Hanna Símonardóttir

Á 50 ára afmæli knattspyrnudeildar Aftureldingar tókst loks að ná langþráðu markmiði.
Karlalið deildarinnar tryggði sér sæti í BESTU deildinni í hreinum úrslitaleik um sætið fyrir framan tæplega 3.000 áhorfendur á Laugardalsvelli.

Þessi árangur er enginn tilviljun. Um árabil hefur uppbygging verið stigvaxandi, bæði innan liðsins og ekki síður í umgjörðinni. Sjálfboðaliðar hafa unnið þrekvirki í að efla allt sem snýr að umgjörð fyrir liðið og framkvæmd leikja, án þess að ég taki nokkuð af frábærum árangri þjálfarateymisins eða liðinu sjálfu.
Ekki má heldur gleyma hlut styrktaraðilanna í þessum árangri. Með stækkandi hóp öflugra styrktaraðila hefur verið hægt að auka fagmennskuna og bæta í á ýmsum stöðum.

Nú byrjar hins vegar næsti kafli, að halda liðinu uppi, því við erum komin til að vera!!

Um aðstöðuna þarf ekki að fjölyrða, en þar treystum við algjörlega á að Mosfellsbær sé í liði með okkur til að það gangi upp að fá undanþágur frá leyfiskerfinu á meðan varanleg aðstaða rís vonandi sem allra fyrst.
Þjálfarar og leikmenn munu leggja enn harðar að sér en áður, það vitum við. En það þurfum við sjálfboðaliðar líka að gera. Það vantar ekkert upp á að þetta er súper gaman, það vitnar fjöldinn um, sjálfboðaliðahópurinn telur tugi manna og kvenna.
En lengi getur gott batnað, það er pláss fyrir mikið fleiri og þörf á ef við ætlum að bæta í. Þeir sem sitja heima og hugsa um að það gæti verið gaman að ganga til liðs við sjálfboðaliða íþróttastarfsins eru hvattir til að láta verða af því, við tökum öllum fagnandi. Ekki síður ef einhverjir hafa áhuga á að styrkja starfið, þar er heldur betur hægt að taka við og fara vel með.

Endilega setjið ykkur í samband við okkur ef þið hafið áhuga á að vera með okkur í þessari skemmtilegu vegferð, í gegnum netfangið: aftureldingmflkk@gmail.com

Hanna Sím.
sjálfboðaliði

Brúarland gengur í endurnýjun lífdaga

Ólafur Ingi Óskarsson

Brúarland er samofið sögu Mosfellssveitar og síðar Mosfellsbæjar í nærfellt 100 ár. Bygging þess hófst árið 1922 og lauk árið 1929. Brúarland er byggt eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar.
Byggingin hefur hýst margs konar starfsemi í gegnum áratugina. Þar var starfrækt símstöð og pósthús og þar hafa félagasamtök og kórar haft aðstöðu á ýmsum tímum. Brúarland var menningarhús og þingstaður sveitarinnar þar til hvoru tveggja var flutt í Hlégarð árið 1951.
Og ekki má gleyma því að í Brúarlandi voru höfuðstöðvar breska setuliðsins í upphafi fyrri heimsstyrjaldar. En hlutverk hússins sem skólahús er líklega það sem fyrst kemur upp í hugann þegar Brúarland ber á góma. Síðustu árin hefur það staðið autt en unnið að ýmsum endurbótum og viðhaldi.

Félagsstarf eldri borgara
Það mun hafa verið fyrir 15 árum síðan að Félag aldraðra í Mosfellsbæ falaðist fyrst eftir því að fá Brúarland til afnota undir félagsstarf. Af því varð ekki þá og húsið nýtt undir nýstofnaðan Framhaldsskóla í Mosfellsbæ og síðan nýstofnaðan Helgafellsskóla. En hugmyndin um félagsstarf í Brúarlandi var komin á flot.
Mosfellsbær er hratt stækkandi sveitarfélag og fólki á öllum aldri fjölgar, líka eldri borgurum. Hressum og kátum. Við vitum að maður er manns gaman og mikilvægt er að vinna gegn félagslegri einangrun fólks og efla það til þátttöku.
Sumarið 2023 ákvað bæjarstjórn að opna Hlégarð á þriðjudögum undir félagsstarf aldraðra. Skemmst er frá því að segja að sú ákvörðun sló í gegn. Þátttakendur steymdu að og mjög margt fólk mætti sem ekki hafði áður nýtt sér tilboð félagsstarfsins á Eirhömrum.
Sumarið 2023 var farið að skoða hvernig félagsstarfi aldraðra væri best fyrir komið og hvaða þarfir væru fyrir hendi sem þyrfti að uppfylla. Velferðarnefnd ákvað þann 31. október 2023 að fela Velferðarsviði að vinna að tillögum um hvernig aðstöðu til félagsstarfs aldraðra yrði best fyrir komið. Undir árslok það ár var orðið ljóst að sú lausn sem unnið hafði verið með að stækka aðstöðu undir félagsstarfið í samstarfi við EIR myndi ekki ganga eftir.
Fljótlega kom sú hugmynd fram að kanna fýsileika þess að taka Brúarland undir starfsemi félagsstarfsins. Hafist var handa við að skoða hversu vel Brúarland hentaði fyrir félagsstarfið ásamt því að rætt var við forsvarsfólk félagsstarfsins um vilja félagsstarfsins til þess að flytja meginhluta sinnar starfsemi í Brúarland. Félag aldraðra var einnig inni í þessu samtali.
Í stuttu máli hefur þessi vegferð sem hrundið var af stað með samþykkt Velferðarnefndar haustið 2023 leitt til þess að þann 28. ágúst síðastliðinn var þetta sögufræga og merka hús afhent Félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ til afnota. Félagsstarfið er þá til húsa á þremur stöðum, í Eirhömrum, Hlégarði og núna líka í Brúarlandi. Það er verulegt tilhlökkunarefni að fylgjast með starfseminni blómstra á öllum þessum stöðum.

Ólafur Ingi Óskarsson
formaður Velferðarnefndar og varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Samgöngusáttmálinn

Anna Sigríður Guðnadóttir

Það voru tímamót haustið 2019 þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkisvaldið gerðu með sér samning um sameiginlega framtíðarsýn fyrir þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Umferðarþungi á höfuðborgarsvæðinu hefur farið sívaxandi og áhrifin dyljast engum. Frá því Samgöngusáttmálinn var undirritaður hefur bílum fjölgað um 16.000 og íbúum um 21.000 á höfuðborgarsvæðinu.

Endurskoðun sáttmálans
Margt hefur breyst frá því sáttmálinn var undirritaður í þverpólitískri sátt árið 2019.
Tímabært var að endurskoða samkomulagið og til að tryggja raunhæfan tímaramma og fjármögnun hefur það verið lengt til 2040. Kostnaðartölur hafa hækkað umtalsvert enda um aukið umfang að ræða sem og vegna mikilla almennra kostnaðarhækkana.
Allar kostnaðaráætlanir hafa verið endurskoðaðar og áætlaðar framkvæmdir sem nú eru nær í tíma eru háðar minni óvissu en áður. Framkvæmdir sem lengra er í eru eðli máls samkvæmt háðar meiri óvissu og fara í ítarlegra greiningarferli. Verkefnin eru umfangsmikil og munu þau verða endurskoðuð reglulega og gætt að fjármögnunar- og fjárfestingargetu

Hvað hefur þegar verið gert?
Rétt er að halda því til haga að unnið hefur verið að framgangi samgöngusáttmálans frá undirritun hans árið 2019.
Stofnvegir: Framkvæmt hefur verið á fjórum stöðum. Fyrst skal nefna breikkun Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Hafra­vatnsvegi hér í Mosfellsbæ. Þá hafa verið gerðar úrbætur á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegi innan Reykjavíkur. Framkvæmdir við Arnarnesveg eru hafnar.
Göngu- og hjólastígar: Lagðir hafa verið um 20 km af stígum frá 2019. Þá hafa þrenn undirgöng og tvær brýr fyrir gangandi og hjólandi verið byggð.
Umferðarstýring, flæði og öryggi: Þegar hefur verið fjárfest fyrir 1,6 ma króna í tækjabúnaði, úrbótum og tækniþróun ljósastýringar, bætts umferðarflæðis og öryggis.

Borgarlína
Ítarlegt undirbúningsferli fyrir framkvæmdir er langt komið. Heildstætt leiðanet Borgarlínu og stórbættrar almenningsvagnaþjónustu er tilbúið.
Framkvæmdir við lotu eitt hefjast á árinu. Sérstaklega ánægjulegt er að lotan sem liggja mun til okkar í Mosfellsbæ hefur verið flutt framar í tímaröðina og er nú önnur í röðinni. Það kemur til af mikilvægi Keldnalands til fjármögnunar verkefnisins sem og væntanlegrar uppbyggingar á Blikastaðalandi. Borgarlínuvagnar munu aka að mestu í sérrými á 7-10 mínútna fresti í góðri tengingu við endurbætt leiðarkerfi almenningsvagna.
Þegar nýtt leiðarkerfi Borgarlínu og almenningsvagna verður komið í rekstur verða 70% íbúa höfuðborgarsvæðisins í göngufjarlægð frá stoppistöð.

Verkefnin fram undan
Flest verkefnin í uppfærðum sáttmála eru þau sömu en tvö stór hafa bæst við. Annað er Sæbrautarstokkur en hann er lykilatriði vegna tengingar Sundabrautar sem er mikilvæg framkvæmd fyrir okkur Mosfellinga.
Hin framkvæmdin er jarðgöng undir Miklubraut í stað stokks. Truflun á umferð vegna jarðgangnagerðar verður mun minni á framkvæmdatíma en ef um stokk yrði að ræða og skiptir það miklu máli fyrir allt umferðarflæðið.

2040
Mosfellingar munu eins og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu njóta mjög góðs af þessum framkvæmdum, hvort sem um er að ræða vegaframkvæmdir, stígagerð eða stórbættar almenningssamgöngur. Enda er höfuðborgarsvæðið eitt atvinnusvæði og Mosfellingar sækja vinnu og þjónustu víða um höfuðborgarsvæðið.
Íbúar munu hafa raunverulegt frelsi til að velja þann samgöngumáta sem þeim hentar.
Samgöngusáttmálinn er í raun ekki fyrir okkur sem um hann ræðum núna árið 2024 eða förum með atkvæðisrétt um þetta samkomulag. Samgöngusáttmálinn er fyrir framtíðina, framtíðar Mosfellinga. Hann er fyrir börn og barnabörn Mosfellinga dagsins í dag.

Anna Sigríður Guðnadóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar

Skólasamfélag barnanna okkar

Dagný Kristinsdóttir

Eitt það mikilvægasta í okkar lífi eru börnin okkar og þeirra velferð.
Við viljum öll að vegur þeirra verði sem greiðastur. Því miður er það nú ekki raunin hjá okkur flestum. Lífið færir okkur ýmis verkefni og áskoranir, í bland við góðu dagana. En þá skiptir máli hvernig við stígum inn í þau mál sem upp koma, hvernig við styðjum við barnið okkar og tölum máli þess, því við erum mikilvægustu bandamennirnir í lífi barnanna okkar.
Þegar eitthvað kemur upp á er eðlilegt að það hreyfi við okkur. Ég hef reynslu af því. Fyrir tæpum 10 árum síðan var ég erfiðasta foreldrið í skóla barnanna minna. Ástæðan var sú að eitt barnið mitt átti erfitt uppdráttar félagslega, það varð undir í félagslegum samskiptum og skólinn greip það heldur seint að mínu mati. Ég breyttist í manneskju sem ég vissi ekki að ég gæti orðið. Ég þorði ekki að segja suma hluti, sagði hluti sem mig langaði að segja og sagði hluti sem ég hefði betur látið ósagða.

En hvað lærði ég?
Ég lærði að það er allt í lagi að vera ósáttur og gera athugasemdir. En maður þarf að gera það á réttum stöðum. Samfélagsmiðlar og opinber umræða er ekki staðurinn. Allt sem við setjum á samfélagsmiðla verður þar um ókomin ár, áminning þess hvernig okkur leið á tilteknum tíma.
Ef við veljum þá leið að ræða persónuleg mál barna okkar á opinberum vettvangi þarf að vanda sig, því barnið kemur til með að lesa orð okkar þegar það fær aldur og þroska til. Við þurfum líka að vanda okkur hvernig við tölum um annarra manna börn. Við vitum ekki hver staða þeirra er. Ég hef lært að það er ástæða fyrir allri hegðun. Ég hef líka lært það að það vaknar enginn að morgni og ákveður að vera vondur við alla í dag. Aftur, fyrir allri hegðun er ástæða. Barnið getur verið svefnlaust, svangt, illt í maganum eða sálinni eða hvoru tveggja.
Ég lærði líka að ég sem foreldri er mikilvægur hlekkur í keðjunni. Ég þarf að anda djúpt, hlusta, meðtaka og vera tilbúin í samtalið. Ég stend ávallt með barninu mínu en þarf líka að vanda mig við að standa með þeirri lausn sem er verið að vinna með hverju sinni. Ég lærði líka að það er allt í lagi að fá hjálp, til dæmis með því að fá þriðja aðila að borðinu.
Einn mikilvægasti lærdómurinn af okkar máli var sá að allir starfsmenn skólans vildu allt fyrir mitt barn og okkur foreldrana gera. Við sáum það ekki endilega í auga stormsins en vitum af því í dag. Þið eigið ævarandi þakkir skilið. Þið vitið hver þið eruð.

Verum partur af lausninni
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar erum við foreldrarnir mikilvægustu bandamennirnir. Við verðum að vera hluti af samtalinu. Við þurfum að leggja okkar af mörkum til að vinna með mál barna okkar. Við þurfum að vera tilbúin að hlusta á mismunandi sjónarmið með opnum huga.
Við megum líka vera meðvituð um það að við erum ekki ráðin sem skemmtikraftar í foreldrahlutverkinu. Stundum er það okkar hlutverk að segja nei og veita leiðbeiningar, sem misvel er tekið í.

Dagný Kristinsdóttir
móðir og bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar

Við getum gert betur

Aldís Stefánsdóttir

Sú staðreynd að börnin okkar séu ekki örugg – hvorki í sínu nærumhverfi eða á opinberum viðburðum er hliðrun á þeim raunveruleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi.
Síðustu vikur hefur verið áþreifanleg sorg í samfélaginu og hluttekning með þeim sem eiga um sárt að binda vegna dauðsfalls ungrar stúlku sem varð fyrir hnífstunguárás á Menningarnótt í Reykjavík. Ofbeldið í samfélaginu er að aukast og við verðum að bregðast við.
Við sjáum vísbendingar í talsvert auknum fjölda tilkynninga til barnaverndar um ofbeldi og notkun vímuefna. Niðurstöður kannana benda einnig til þess að börnum og ungmennum líði ekki vel og þau leita í auknum mæli eftir óheilbrigðum lausnum við þeirri vanlíðan.
Í kjölfar gríðarlega vel heppnaðrar bæjarhátíðar – þrátt fyrir leiðinlegt veður og skugga ofbeldis – er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvort það þurfi að gera breytingar. Mikið hefur borið á unglingadrykkju og vanda sem því tengist á allra síðustu árum. Í túninu heima er ætlað að gefa bæjarbúum tækifæri til að njóta þess besta sem bæjarfélagið okkar býður upp á. Menningu, náttúru og ekki síst samveru vina, nágranna og fjölskyldna. Hátíðinni er ekki ætlað að skapa kjöraðstæður fyrir eftirlitslausa unglingadrykkju og ofbeldishegðun.
Aukum áherslu á forvarnir
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur veitt þessu athygli og leggur áherslu á að farið verði í markvissar forvarnaraðgerðir með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna neyslu áfengis og vímefna í hópi barna og unglinga. Einnig að mæta umræðunni um ofbeldi og vopnaburð með fræðslu og þátttöku alls samfélagsins.

Mosfellsbær er gott samfélag og við viljum halda áfram að þróa það til framtíðar. Kjörnir fulltrúar og starfsfólk fræðslu- og velferðarsviðs, starfsfólk skóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðvarinnar Bólsins ásamt íþróttaþjálfurum og öðrum hópum sem tengjast daglegri umgjörð barna hafa svo sannarlega gert sitt besta til að skapa öruggt umhverfi fyrir börnin okkar og munu halda því áfram. En nú þarf meira til. Það skiptir allt máli. Orðræðan í samfélaginu skiptir máli. Hvernig við tjáum okkur við hvert annað og um hvert annað. Að við innleiðum farsæld í okkar samfélag með þeim hætti að ekkert barn verði skilið eftir. Við höfum alla burði til þess. Við erum auðugt samfélag af svo mörgu og sérstaklega af mannauði.
Við getum gert betur og við verðum að gera betur.

Aldís Stefánsdóttir
bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Til minnis -­ ekki gleyma að gefa af þér

Halla Karen Kristjánsdóttir

Fátt hefur betri áhrif á okkar líðan og andlega og félagslega heilsu en að umgangast fjölskyldu og vini sem hafa góð áhrif á okkur. Fólk sem er styðjandi, hvetjandi, jákvætt og sýnir okkur skilning og hefur trú á okkur.
Það er merkilegt að á okkar tímum þegar tækifærin og tæknin er mikil að þá sé á sama tíma mjög mikil félagsleg einangrun. Oft er talað um að hún sé algengari hjá eldra fólki en það er svo sannarlega ekki einungis þar, heldur á öllum aldursstigum, og sorglegt að heyra að félagsleg einangrun sé að færast niður aldursstigann allt niður í ung börn. Þess vegna er mikilvægt að allir minni sig á það að huga vel að náunganum, hvetja aðra áfram, brosa og vera vingjarnlegur.

Samvera skiptir máli
Gefum okkur tíma til þess að eiga margar og góðar samverustundir og hafa það gaman saman. Í Mosfellsbæ erum við með öflugt íþrótta- og tómstundastarf og nefni ég öflugt starf Aftureldingar, geggjaðan golfvöll og frábært starf þar, hestamannafélagið Hörð sem er til fyrirmyndar, frábært skátastarf og mjög öfluga björgunarsveit, Kyndil.
Já, bæjarfélagið okkar Mosfellsbær býður upp á mikið úrval af fjölbreyttri og skemmtilegri afþreyingu, svo sem sundlaugaferðir í góðu sundlaugarnar okkar, hér er fullt af góðum stikuðum gönguleiðum á fellin okkar og nágrenni.
Það eru hjólastígar sem og góðir samgöngustígar, skemmtilegir leikvellir og skólalóðir sem er verið að bæta í samvinnu við nemendur og starfsfólk. Það eru battavellir, körfuboltavellir, Stekkjarflötin góða og svo Ævintýragarðurinn með allan sinn sjarma. Í vetur var líka gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem voru mikið notaðar enda ekki leiðinlegt að hafa skíðabraut í bakgarðinum sínum.
Félag eldri borgara er líka með mjög fjölbreytt íþrótta- og tómsundastarf. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.

Það sem er alveg glænýtt og var að bætast við er fjallahjólabrautin sem kölluð er „Flækjan“. Hún var formlega opnuð á bæjarhátíðinni Í túninu heima og hefur heldur betur slegið í gegn. Brautin er staðsett í Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ. Þessi skemmtilega tæknibraut er um eins kílómetra löng og hentar bæði byrjendum sem og lengra komnum. Þessi vinna er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Heilsueflandi samfélags, Icebike Adventures og hjóladeildar Aftureldingar.
Magne Kvam frá Icebike Adventures hannaði og lagði brautina ásamt sjálfboðaliðum og stökkpallana smíðaði Sindri Hauksson en ungir iðkendur í hjóladeild Aftureldingar eiga heiðurinn af nafngiftinni.
Einnig var frisbígolfvöllur Mosfellsbæjar endurvígður eftir breytingar en framkvæmdir við hann hafa staðið yfir í sumar. Búið er að færa til brautir og leggja heilsárspalla þannig að nú er hægt að spila þessa fjölskylduvænu íþrótt allt árið um kring.

Forvarnir, lýðheilsa og farsæld
Meirihlutinn í bæjarstjórn leggur afar mikla áherslu á hvers kyns forvarnir og lýðheilsu og teljum við að fjölbreytt afþreying í bænum okkar skili ánægju, gleði og enn betri andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu.
Samvera og góð samskipti eru lykillinn að farsæld auk þess sem bros og dillandi hlátur gerir svo mikið fyrir alla, alveg sama á hvaða aldri manneskjan er. Gleðin skipar nefnilega óneitanlega stóran sess í vellíðan okkar.
Það er þó mikilvægt að við hjálpumst öll að við að skapa samfélag sem byggir á góðum gildum og fallegum bæjarbrag. Látum gott af okkur leiða til barnanna okkar, fjölskyldu, nágranna og vina og búum saman til félagslega töfra.

Halla Karen Kristjánsdóttir,
formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar

Ekki vera píslarvottur

Dögg Harðardóttir Fossberg

Þeir sem hafa verið í leiðtogastöðu eða stjórnunarstarfi um árabil vita að stundum koma erfið mál inn á borð leiðtogans sem honum ber að taka á.
Það getur verið erfitt að taka á málum og taka óvinsælar ákvarðanir en það er engu að síður eitt af því sem leiðtogi er ráðinn til. Leiðtogar verða að þola að það sé talað um þá og að það sé ekki alltaf talað vel um þá. Leiðtogar geta líka þurft að hlusta á gagnrýni, stundum óverðskuldaða eða reiðilestur starfsmanna sem illa liggur á.
Þegar leiðtoginn er vel upp lagður gengur oftast vel að tækla þannig mál. En þar sem leiðtoginn er manneskja þá getur hann verið illa sofinn eða illa fyrir kallaður af öðrum ástæðum og umburðarlyndið og þolinmæðin af skornum skammti. Stundum er auðvelt að leiða særandi hluti hjá sér og stundum ekki.
En það sem skiptir öllu máli er að leiðtoginn fari ekki í hlutverk píslarvotts. Þó svo að starfsfólk eða samferðafólk geti komið illa fram þá skilar það engum árangri að erfa hlutina fyrir lífstíð og rifja endalaust upp hvað aðrir gerðu manni. Á einhverjum tímapunkti þarf maður að ákveða að leggja hlutina að baki sér og halda áfram. Stundum er sagt að það að fyrirgefa ekki sé eins og að drekka eitur og reikna með að einhver annar deyi. Eða að leyfa fólki að búa leigulaust í kollinum á sér.
Það þekkja það sennilega flestir hvernig hægt er að tala við sjálfan sig og rifja upp hversu illa hefur verið komið fram við mann, hversu rætið fólk getur verið og hversu bágt maður eigi. Þetta er mannlegt og kannski í lagi í örfáa daga ef það hjálpar, á meðan maður er að komast yfir óþægindin. En séu liðnir margir mánuðir eða ár frá óþægilegu atviki og leiðtoginn er fastur í því sem aðrir gerðu honum þá er skynsamlegt að taka meðvitaða ákvörðun um að hætta að vera píslarvottur.
Það getur vel verið að fólk hafi komið illa fram við mann. Það getur vel verið að maður hafi verið særður og fengið óverðskuldaða eða verðskuldaða en óvægna og særandi gagnrýni en það er banvænt að hafa hugann endalaust við fortíðina. Taktu þér taki þegar þessar hugsanir skjóta upp kollinum og taktu ákvörðun um að láta þetta vera hluta af fortíðinni sem gerir þig að þeirri manneskju sem þú ert, en hindrar þig ekki í að halda áfram.
Stundum er fólk að rifja upp löngu liðna, óþægilega atburði sem varða fólk sem það er löngu hætt að hitta og ávöxturinn er fyrst og fremst sorg og vanlíðan. Það er til fólk sem hefur aldrei fyrirgefið áratugagömul atvik og valið að vera píslarvottar allt lífið af því að einhver hafði einhvern tímann gert þeim eitthvað. Ekki vera þannig manneskja. Veldu að fyrirgefa. Veldu að vera ekki píslarvottur. Veldu að gera óþægilegu minningarnar að fortíð en ekki samferðamanni og haltu áfram með bros á vör!

Dögg Harðardóttir Fossberg
Markþjálfi hjá sigur.is

Af atvinnumálum í Mosó

Sævar Birgisson

Nú þegar rétt um ár er síðan gildandi atvinnustefna fyrir Mosfellsbæ var samþykkt af bæjarstjórn er tilvalið að taka stöðuna á framvindu verkefna sem því tengjast.
Atvinnustefnan var tímabær fyrir okkar ört vaxandi sveitarfélag, til að skerpa á áherslum í atvinnumálum og ýta undir frekari framþróun og verðmætasköpun í sveitarfélaginu. Svo ekki sé minnst á þau auknu tækifæri og lífsgæði fyrir íbúa sem fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf skapar.

Fyrst ber að nefna þróunarverkefni fyrir Álafosskvos, sem hefur verið í vinnslu síðan í vor í samvinnu við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið gengur út á að greina áfangastaðinn og finna tækifæri til að efla hann enn frekar.
Álafosskvos hefur að geyma mikla sögu og sterkan karakter sem bæjarbúar eru væntanlega flestir sammála um að þurfi að miðla enn betur, hvort sem það er til íbúa eða ferðamanna. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á opnum fundi þann 14. október nk., eru áhugasamir hvattir til að mæta.

Innleiðing á atvinnustefnunni er komin vel á veg og er nú þegar tveimur verkefnum lokið. Annars vegar er það að gera upplýsingar um framboð atvinnulóða og lóðir samkvæmt skipulagi aðgengilegar á vef bæjarins. Hins vegar er það skilgreining á uppbyggingu atvinnu- og menningar í Álafosskvos í samvinnu við íbúasamtök og aðra hagsmunaaðila.
Fleiri verkefni eru svo komin vel af stað, má þar nefna markaðsáætlun fyrir sveitarfélagið, uppfærslu á viðeigandi upplýsingum á vef bæjarins o.fl.
Þróunarverkefnin á Varmársvæðinu og við Háholt 5 eru líka áhugaverð verkefni sem tala vel við atvinnustefnu bæjarins. Markmiðið þar er að kanna áhuga á samstarfi við uppbyggingu á svæðinu, sem býður upp á fjölda möguleika. Þarna er vafalaust spennandi tækifæri fyrir rétta aðila til að koma að uppbyggingu á sögufrægu svæði sem daglega iðar af mannlífi.

Á dögunum skrifuðu öflug fyrirtæki undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu á nýjum atvinnukjarna á Korputúni, sem er mjög ánægjulegt. Korputún er vistvottaður atvinnukjarni á 15 ha svæði sem væntingar standa til að byggist upp á um 10 ára tímabili. Svæðið er vel staðsett og mun bjóða upp á mjög góðar samgöngutengingar.

Það er allra hagur að í Mosfellsbæ þrífist blómlegt atvinnulíf, með því að beita sér getur sveitarfélagið haft áhrif og stutt undir frekari vöxt og uppbyggingu.
Við munum halda áfram með innleiðingu á atvinnustefnunni ásamt fleiri verkefnum sem hafa það að markmiði að gera Mosfellbæ að enn eftirsóknarverðari kosti þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi

Að eiga bakland til að sækja börnin á leikskólann

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Nú er leikskólatími barna í Mosfellsbæ á föstudögum til kl. 14:00 nema fyrir þau sem nauðsynlega þurfa lengri vistunartíma, vinnu sinnar vegna. Þá er hægt að sækja sérstaklega um með átta daga fyrirvara að ná í börnin klukkan 16:00. Þetta hefur leitt til óánægju og óvæntra áskorana fyrir margar fjölskyldur.

Jafnréttisskekkja í barnvænu sveitarfélagi?
Óformleg könnun sýnir að konur sjá oftast um að sækja börnin fyrr á leikskóla. Launamunur kynjanna gerir það að verkum að konur taka frekar á sig þessa ábyrgð með tilheyrandi áhrifum á þeirra starfsframa.
Þetta fyrirkomulag setur óþarfa pressu á mæður, sem eru þegar undir miklu álagi í að samræma vinnu og fjölskyldulíf. Þá má benda á að Mosfellsbær er staðsettur á jaðri höfuðborgarsvæðisins og langflestir sækja vinnu utan bæjarfélagsins.
Stytting leikskóla hefur því ekki aðeins áhrif á daglegt líf fjölskyldna heldur ýtir einnig undir ójafnrétti kynjanna, þar sem konur þurfa nú enn frekar að velja á milli vinnu og fjölskyldulífs. Væri það ekki eðlilegra að Mosfellsbær myndi styðja við fjölskyldur í stað þess að skapa ný vandamál?

Óskýr grein og hentugar niðurstöður ­formanns fræðslunefndar
Formaður fræðslunefndar fullyrti að 70% foreldra þurfi ekki lengri vistunartíma en til kl. 14:00. Þetta kemur á óvart þar sem ótal margir foreldrar í kringum mig hafa lýst yfir erfiðleikum við að sækja börnin svona snemma. Þessi fullyrðing virðist ekki endurspegla raunveruleikann sem margir foreldrar upplifa, þar sem þau hafa leitað til ömmu og afa, tekið vinnuna með sér heim eða jafnvel unnið á laugardögum til að mæta kröfunni. Einhverjir héldu því fram að með því að „framlengja“ vistunartímann til kl. 16:00 á föstudögum færu þessir tveir tímar af þeim átta skráningardögum sem foreldrar hafa til umráða. Ég leyfi mér líka að opna á það hvaða áhrif þetta getur haft á börnin sem eiga erfitt með breytingar og þurfa skýran ramma.

Steininn tók svo úr þegar móðir í fæðingarorlofi var spurð hvers vegna hún þyrfti að sækja barnið sitt kl. 16:00 ef hún væri hvort eð er bara heima. Þarna birtist sú undarlega afstaða að lengd vistunar á leikskóla eigi að ráðast af vinnu foreldra en ekki þörfum fjölskyldunnar. Þá hefur orðalag leikskólastjóra verið undarlegt og jafnvel ýtt undir samviskubit hjá foreldrum. Orðalagið ,,en þetta er eftir sem áður eingöngu fyrir þá sem hafa enga aðra kosti en að skrá barn í lengri viðveru“ gefur í skyn að þegar öllu er á botninn hvolft, þurfi enginn á þessari framlengingu að halda nema viðkomandi sé að vinna á bráðamóttöku Landspítalans. Þetta verður að þykja ósanngjarnt þar sem atvinnulífið og einkarekstur hafa ekki öll innleitt styttingu vinnuvikunnar. Ég tel einnig að foreldrar væru til í að nýta baklandið sitt í eitthvað annað en að dekka föstudaga og fá frekar pössun þegar eitthvað sérstakt tilefni gefst eða þegar virkilega er þörf á.
Ef þetta er spurning um styttingu vinnuvikunnar vil ég ítreka að styttingin þarf að taka tillit til starfsemi stofnunarinnar, má ekki hafa aukinn kostnað í för með sér og ekki skerða þjónustu. Þá má geta þess að þeir sem eru með styttingu vinnuvikunnar í sínum kjarasamningum eru ekki alltaf með styttingu á föstudögum, heldur getur það einnig verið breytilegt.

Lausnir og framtíðarhorfur
Lausnin gæti verið einföld. Þeir sem ekki þurfa lengri vistun skrái börnin sín þannig yfir önnina. Við hin, sem þurfum að skila af okkur fullum vinnudegi, fáum að klára vinnuna en ekki anda í bréfpoka á leiðinni upp Ártúnsbrekkuna korteri eftir hádegismat að reyna finna út hvenær við vinnum þessa tíma upp. Með þessu móti er tekið tillit til allra foreldra, óháð vinnuaðstæðum og jafnrétti innan sveitarfélagsins þannig tryggt.
Ef Mosfellsbær vill kalla sig barnvænt sveitarfélag þarf að hugsa um heildarmyndina og ekki aðeins velja lausnir sem henta fræðsluyfirvöldum og leikskólastjórnendum. Foreldrar eru mikilvægur hlekkur í þessari ákvarðanatöku og það er ekki bara sanngjarnt heldur einnig nauðsynlegt að þeir séu hafðir með í ráðum þegar breytingar á þjónustu barna þeirra eiga sér stað.
Það má líka benda á, að þau sem sitja í bæjarráði, eiga ekki börn á leikskólaaldri og þurfa því ekki að aðlaga sig og sína fjölskyldu að þessari skerðingu.

Guðfinna Birta Valgeirsdóttir

Seljadalur

Guðjón Jensson

Einn af fegurstu og sérstæðustu dölum innan marka Mosfellsbæjar er Seljadalur.
Þessi skjólsæli og vel gróni dalur er við vesturmörk Mosfellsheiðar, sunnan og austan við Grímannsfell sem er hæsta fjall Mosfellsbæjar. Fremur fátítt er að þar sé fólk á ferð utan hestafólk sem ríður elstu leiðina í átt til Þingvalla.
Þetta var leið þriggja konunga en Kristján IX fór þarna um 1874, Friðrik VIII 1907 og Kristján X 1921.

Jón á Reykjum segir svo í mjög fróðlegri lýsingu sinni af Seljadal sem birtist í Mosfellspóstinum 19.6.1981:
„Seljadalurinn er allur eða að mestu í eigu hreppsins, en er upphaflega úr jörðunum Þormóðsdal og Miðdal. Náttúrufegurð er mikil í dalnum enda skýlt úr öllum áttum nema ef til vill að norðaustan.“
Heimild: https://timarit.is/files/66988132

Örnefnið Seljadalur vísar til að í honum hafi verið tvö sel, kannski fleiri. Í dag er einungis eitt þekkt, Nessel vestarlega í dalnum undir Grímannsfelli. Mun það fremur vera kennt við Gufunes en Nes á Seltjarnarnesi.
Má enn í dag sjá vel varðveittar rústirnar og hvernig húsaskipan var, mjög hefðbundin. Í næsta nágrenni rennur lækur en aðgengi að góðu vatni var ein af mikilvægustu forsendum seljabúskaparins enda hreinlæti mjög mikilvægt.
En hvar var hitt selið?
Viðeyjarklaustur var auðugasta klaustur á Íslandi á miðöldum. Til þess var stofnað af helstu höfðingjum landsins, sjálfum Snorra Sturlusyni og Þorvaldi Gissurarsyni, föður Gissurar jarls. Klaustrið var vígt 1226 af Magnúsi biskup í Skálholti, bróður Þorvaldar. Lagði hann til klaustursins biskupstíund (osttolla) milli Botnsár í Hvalfirði og Hafnarfjarðar. Auk þess átti það reka víða um Reykjanes. Klaustrið var rænt tvívegis; 1539 og 1550.

Magnús Guðmundarson sem var prestur á Þingvelli gaf Viðeyjarklaustri selför í Þormóðsdal hinum efri segir í máldaga (eignaskrá) Viðeyjarklausturs frá 1234, heimild: Fornbréfasafn Íslands, fyrsta bindi bls. 507. Nafnið bendir til að örnefnið Seljadalur kemur síðar við sögu eftir að selin hafa verið tvö. Seljadalur er mjög grösugur og skjólsæll og Seljalandsbrúnirnar veita búsmala gott aðhald.
Landbúnaðarsamfélagið fyrrum byggðist á því að unnt væri að hafa seljabúskap yfir hásumarið þannig að afla mætti nægra heyja af heimatúnum og koma búfénu frá. Þannig hefur klausturfólk átt gott samstarf við Gufunesinga við að koma búsmalanum stystu leið upp með Úlfarsá og upp í Seljadal. Þessi leið hefur þann ótvíræða kost að vera fremur stutt og greiðfær enda engar erfiðar torfærur á leiðinni.

Með siðaskiptunum verða gríðarlegar breytingar á búskaparháttum landsmanna. Danski kóngurinn leggur undir sig allar eignir klaustra, kirkna og biskupsstóla og er á einu ári orðinn eigandi 20% allra jarða á Íslandi.
Fyrrum voru jarðirnar leigðar með þeim skilmálum að leiguliðar afhentu klaustrinu tiltekinn hluta af afurðum jarðarinnar, oft 5-10%. Eftir siðaskipti voru þær leigðar með öðrum skilmálum sem einkum var falið í vinnuframlagi í þágu Bessastaðavaldsins. Margir leiguliðar urðu að sjá um að senda vinnumenn sína í verið til að róa á kóngsbátunum og til veiða í Elliðaánum, en fyrirferðarmesta kvöðin hefur verið að vinna viðarkol í Þingvallaskógi og afhenda tiltekið magn á Bessastaði á tilteknum tíma. Þetta hefur væntanlega verið ein þyngsta kvöðin enda verða viðarkol ekki unnin nema um hásumarið þegar mest er um að vera í heyönnum.
Allt þetta breytti öllum búskaparháttum meira og minna. Nautgriparækt dregst verulega saman, enda þörfin fyrir framleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum minni, en sauðfjárbúskapur eykst að sama skapi. Unnt var að sleppa sauðfé í haga eftir sauðburð og ekki þurfti eins mikla fyrirhöfn við að mjólka kýr og sinna tímafrekum bústörfum.

Mér þykir mjög líklegt að Viðeyjarsel hafi verið þar sem nú er Kambsrétt. Hún var skilarétt Mosfellinga og nærsveitarmanna væntanlega fljótlega upp úr siðaskiptum og fram yfir miðja 19. öld. Þá var Árnakróksrétt austan Selvatns tekin í notkun, mjög stór og stæðileg.
Umhverfi hennar er votlendi og þótti auk þess vera nokkuð úr leið einkum fyrir þá Mosfellinga sem í Mosfellsdal bjuggu. Varð það til þess að Hafravatnsrétt var tekin í notkun 1901 og er líklega einna frægust rétta í Mosfellsbæ.

Sögufélag Kjalarnesþings fyrirhugar gönguferð um Seljadal laugardaginn 7. september næstkomandi ef veður leyfir.

Guðjón Jensson

Reykjalaug fundin

Leitað að Reykjalaug með jarðsjá á veginum milli Suður-Reykja og Reykjahvols. Ármann Höskuldsson jarðfræðingur og rannsóknaprófessor, Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands og Diana Brum D Silveira G Alvarez doktorsnemi í jarðfræði við Háskóla Íslands.

Reykjalaug eins og listakonan Hanna Bjartmars Arnardóttir sá hana fyrir sér. Laugin þornaði þegar jarðboranir hófust á fjórða áratug 20. aldar.

Í tengslum við lagningu gangstígs upp Reykjaveg að Suður-Reykjum var ákveðið að reyna að staðsetja Reykjalaug sem lenti undir vegi um 1940.
Mosfellsbær óskaði eftir aðstoð Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og Minjastofnunar Íslands við að finna hina sögufrægu Reykjalaug með jarðsjá. Af hundruðum lauga og hvera sem voru eitt sinn í Mosfellssveit var hún þeirra þekktust. Í öllum helstu ferðabókum frá 18. öld og fram á okkar daga var minnst á Reykjalaug.
Á korti frá 1771 sem fylgir Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er getið þriggja örnefna í Mosfellssveit; Gufuness, Reykjalaugar og Mosfells. Þorvaldur Thoroddsen getur þess í riti sínu Lýsing Íslands að á suðvesturlandi fyrir sunnan Esju séu kunnastar laugar hjá Reykjum í Mosfellssveit og Laugarneslaug sem Reykvíkingar noti til þvotta. Þarna er laugunum í Reykjahverfi og Reykjalaug í raun jafnað við þvottalaugarnar í Laugarnesi.
Síðar kom í ljós mun meiri orka í Reykjahverfi en við Þvottalaugarnar. Laugin var hlaðin úr grjóti um 3,5 metrar í þvermál og dýpst um 2,5 metrar, en vatnshæð um einn metri. Oddný Helgadóttir húsfreyja á Ökrum (f. 1913) sagði að leirtau og lín hefði verið þvegið í lauginni en ekki annar fatnaður. Heitt vatn var leitt úr Reykjalaug í fjósið á Reykjahvoli.
Þessi má geta að árið 1908 var bærinn á Suður-Reykjum fyrsta íbúðarhús á Íslandi sem hitað var upp með rennandi hveravatni. Vatnið kom úr sk. Tunnuhver sem stóð í mynni Skammadals.
Fyrsta gróðurhúsið á Íslandi var einnig sett upp á Suður-Reykjum á árunum 1923-1924. Á fjórða áratugnum var farið að bora eftir heitu vatni á Reykjum, sem svo var flutt í leiðslum til Reykjavíkur. Við það hurfu flestar laugar og hverir af yfirborðinu í Reykjahverfi. Mokað var ofan í hina frægu Reykjalaug og vegur lagður yfir.
Hinn 11. mars sl. mættu Ármann Hösk­ulds­son jarðfræðingur Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Minjastofnun Íslands og Diana Alvarez doktorsnemi í jarðfræði til að leita Reykjalaugar með jarðsjá. Með hinni öflugu jarðsjá mátti greinilega sjá manngerðar hleðslur – Reykjalaug var á sínum stað undir veginum.
Fróðlegt og skemmtilegt væri að Mosfellsbær með stuðningi Orkuveitunnar og landeigenda léti grafa upp hina frægu Reykjalaug í tengslum við lagningu gangbrautar upp að Suður-Reykjum.
Þannig væri hinu sögulega og merka náttúruundri komið til nútímans, en með virkjun jarðhitans á Reykjum hefur heita vatnið skilað landsmönnum milljörðum króna í formi varmaorku. Rétt er að minna Mosfellinga og landsmenn alla á uppruna hinna miklu auðæfa og ekki grafa þau í jörðu.

Magnús Guðmundsson
Formaður Sögufélagi Kjalarnesþings

Farsæl efri ár

Guðleif Birna Leifsdóttir

Íslensk stjórnvöld hafa nýlega sett fram aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem ber nafnið „Gott að eldast“ sem byggir á nýrri hugsun við ört stækkandi hóp í samfélaginu.
Í þeirri áætlun er leitast eftir að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk, tryggja þjónustu við hæfi á réttu þjónustustigi og fjölga þeim sem taka virkan þátt í samfélaginu. Lögð er áhersla á heilbrigða öldrun með andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsueflingu. Sérleg áhersla er á að auka félagslega virkni og draga úr félagslegri einangrun og einmanaleika eldra fólks.
Félagsleg einangrun einstaklinga er vaxandi vandamál á heimsvísu. WHO Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur vakið athygli á alvarleika málsins og metur félagslega einangrun sem ógn við lýðheilsu á pari við reykingar, ofneyslu áfengis og hreyfingarleysi. Félagsleg einangrun og einmanaleiki eru einnig tengd kvíða, þunglyndi, sjálfsvígum og heilabilun og geta aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum og heilablóðfalli.
Á sex svæðum á landinu hafa verið ráðnir tengiráðgjafar, sem hafa m.a. það hlutverk að hafa yfirsýn yfir bjargir í nærsamfélaginu, auka félagsleg samskipti einstaklinga og hópa í viðkvæmri stöðu, vinna að betri tengingu á milli þjónustuaðila og auka samtal milli félagsþjónustu, heilsugæslu, félagasamtaka, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka og fleiri aðila.
Hugmyndin er að virkja nærumhverfið og taka betur utan um fólk sem er félagslega einangrað eða einmana. Hlutverk tengiráðgjafa er þannig að stíga inn í og finna lausnir sem henta hverjum og einum.
Það er mikilvægt að draga úr félagslegri einangrun sem hefur áhrif bæði á einstaklinga og samfélagið. Aukin félagleg tengsl efla bæði andlega og líkamlega heilsu, auka lífsgæði, vellíðan og bæta samfélagið.
Undirrituð er tengiráðgjafi fyrir Mosfellsbæ, Kjalarnes og Kjós og starfar á velferðarsviði Mosfellsbæjar. Velkomið er að hafa samband við mig varðandi ráðgjöf og upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði.

Guðleif Birna Leifsdóttir
Tengiráðgjafi á velferðarsviði Mosfellsbæjar
gudleifl@mos.is
s. 525-6700

Hvernig viljum við þroskast sem samfélag?

Dagný Kristinsdóttir

Mosfellsbær varð formlega að kaupstað 9. ágúst 1987 og fagnaði því 35 ára kaupstaðarafmæli á liðnu ári. Á liðnum áratug eða svo hefur íbúum sveitarfélagsins fjölgað mikið. Það kemur okkur ekki á óvart – því það er gott að búa í Mosó.
Nú þegar íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað þurfum við sem samfélag að velta því fyrir okkur, hvernig viljum við halda áfram og hvernig viljum við þroskast? Hvað viljum við sjá í okkar samfélagi eða erum við bara sátt við það eins og það er?
Myndum við ekki vilja að fleiri legðu leið sína í okkar fallega bæ til að skoða, njóta og staldra við?
Hvað eru aðrir að gera?
Ástæður þessara vangaveltna og þessarar greinar eru þær að um liðna helgi lagði ég leið mína í Hafnarfjörð og þar streymdi fólkið að. Fólk var annars vegar að sækja tónleika Hunds í óskilum og hins vegar bæjar- og tónlistarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar, en sú hátíð er haldin vikulega yfir hásumarið. Fyrr í sumar var haldin hin árlega Víkingahátíð sem fjölmargir sóttu og að auki er boðið upp á menningar- og heilsugöngur, alla miðvikudaga, sem eru unnar í samstarfi nokkurra stofnana bæjarins. Svo einhverjir viðburðir séu nefndir. Þessir viðburðir eru ekki allir skipulagðir af bænum – en þeir eiga það sameiginlegt að fólk er að leggjast á eitt um að bjóða upp á margvíslega, skemmtilega dagskrá sem fær fólk til að koma í bæinn og kynnast því sem boðið er upp á. Eftir sitja heimsóknir og tekjur sem liggja hjá fyrirtækjum í bænum.
Hvernig væri að við hugsuðum þetta fyrir komandi ár?
Við höfum upp á svo margt að bjóða. Við gætum boðið upp á skipulagðar göngur á fellin, jafnvel einn eða tvo daga þar sem öll fellin væru tekin í einu eða tvennu lagi. Við gætum líka boðið upp á hjólaferðir, söguferð um Álafosskvos, göngutúr um Reykjahverfið og fræðst um hernámið. Við gætum fengið tónlistarfólk bæjarins til að halda tónleika t.d. í Lágafellskirkju, á túninu við Hlégarð eða á Miðbæjartorginu. Við gætum verið með útileikföng á Miðbæjartorginu. Einnig væri hægt að vera með ratleik sem gengi í gegnum bæinn. Markaðurinn í Mosskógum hefur dregið marga að og nú er lag að einhver taki við boltanum þar.
Margt af þessu er gert á Menningu í mars eða á bæjarhátíðinni en við viljum fá fleiri í bæinn en þá einu helgi. Með markvissu skipulagi og vinnu allra aðila værum við að koma bænum á kortið sem áfangastað, ekki bara svefnbæ sem maður keyrir í gegnum. Af þessari vinnu leiðir að fleiri staldri við, sem þýðir að meiri þjónustu er hægt að bjóða upp á í bænum.
Við höfum upp á svo margt að bjóða í okkar umhverfi sem væri gaman að sýna öðrum og myndi lífga upp á sumarlífið okkar.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar