Óskað eftir því að Kirkjukór Lágafellssóknar hætti

Sungið í Lágafellskirkju fyrir nokkrum árum.

„Okkur var sagt á síðustu æfingu að við værum rekin,“ segir Valgerður Magnúsdóttir formaður Kirkjukórs Lágafellssóknar.
„Ég er búin að vera alveg miður mín yfir þessu og ekki sofið hálfan svefn. Þó svo að mörg okkar séu orðin fullorðin þá getum við sungið, þó vissulega hefði endurnýjun í kórnum getað verið markvissari.
Við eigum ekki skilið svona framkomu. Ég tek þetta mjög nærri mér,“ segir Vallý en kórinn var stofnaður árið 1948.
Margir kórfélaganna hafa haldið tryggð við kórinn og kirkjuna í tugi ára.

Haldið áfram að leita farsælla lausna
Samkvæmt kórfélögum voru þeim færðar þessar döpru fréttir á æfingu þann 11. febrúar og ekki hefur verið sungið síðan. Þá hafi organistinn sagt við þau að þau skyldu hætta. Kórinn væri ekki nægilega góður og orðinn of gamall.
Greinilegir samstarfsörðugleikar eru þarna á milli og hefur kórinn gefið það út að hann muni ekki syngja áfram undir sömu stjórn eftir þessa uppákomu.
Nálgast nú annasaman tíma í kirkjunni með fermingum og páskum.
Sáttafundur var haldinn rétt áður en blaðið fór í prentun og að sögn sóknarnefndar var fundurinn árangursríkur. „Haldið verður áfram að leita farsælla lausna.“

Vel heppnuð afmælis­ráðstefna Reykjalundar

Undirbúningsnefndin: Edda Björg, Kristín, Helga, Árdís og Pétur.

Á dögunum fór fram glæsileg ráðstefna um endurhæfingu á vegum Reykjalundar í tilefni af 80 ára afmæli Reykjalundar á þessu ári.
Tæplega 250 manns voru skráðir til leiks og hlustuðu á metnaðarfulla dagskrá um stöðu mála í endurhæfingu.

Endurhæfing er samvinna
Afmælisráðstefnan bar titilinn „Endurhæfing er samvinna – Sköpum framtíðina saman“ en starfsfólk Reykjalundar vill gjarnan auka samvinnu þeirra sem starfa í endurhæfingarþjónustu, sjúklingunum og samfélaginu til bóta. Það var mikill samhljómur um aukna samvinnu hjá þeim sem töluðu á ráðstefnunni.
Heilbrigðisráðherra flutti líflegt og áhugavert ávarp, farið var yfir mikilvægi endurhæfingar út frá heilsuhagfræði, rætt um nýjungar, velt upp framtíðarsýn og erlendur gestur kynnti alþjóðalega CARF-gæðavottun sem Reykjalundur stefnir á að fara í gegnum nú síðar á árinu.
Síðast en ekki síst var fléttað inn í dagskrána stuttum kynningum frá fjölda aðila sem í málaflokknum starfa.

Þörf fyrir endurhæfingu mun aukast
Fram kom að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, hefur áætlað að þörf fyrir endurhæfingu muni aukast á heimsvísu samhliða samfélagsbreytingum og lýðfræðilegum breytingum, s.s. breyttri aldurssamsetningu þjóða, bættum læknismeðferðum og aukinni lifun í kjölfar greiningar á langvinnum sjúkdómum. Áætlað er að einn af hverjum þremur muni þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni.
Því er ljóst að endurhæfing mun gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Gísli Einarson fjölmiðlamaður stýrði dagskránni af alkunnri snilld og í lokin lét hann þessa limru falla:
Endurhæfing ætla ég
að ætti að vera skemmtileg
skörp og skýr
ekki of dýr
og þokkalega þverfagleg.

Rástefnunefnd Reykjalundar þakkar öllum fyrir sín innlegg og þátttakendum kærlega fyrir komuna.

Afmæli og nýju eldhúsi fagnað á leikskólanum Reykjakoti

Sardar, Regína, Kristlaug og Iryna.

Leik­skól­inn Reykja­kot fagn­aði 30 ára af­mæli á dögunum og vígði við sama til­efni nýtt eld­hús. Leik­skól­inn hef­ur stækkað og dafn­að í gegn­um tíð­ina og í dag eru um 85 börn þar á aldr­in­um 1-5 ára.
Stjórn­end­ur og starfs­fólk Reykja­kots hafa átt frum­kvæði að og tek­ið þátt í fjölda þró­un­ar- og frum­kvöðl­a­verk­efna í gegn­um tíð­ina, bæði stór­um sem smá­um. Þann­ig hef­ur starfs­fólk skól­ans kom­ið að því að skrifa leik­skóla­sögu bæj­ar­ins og tek­ið virk­an þátt í þeirri nýbreytni og fag­legu fram­þró­un sem ein­kennt hef­ur leik­skólast­arf í Mos­fells­bæ. Sök­um þessa hef­ur oft ver­ið leitað sér­stak­lega til Reykja­kots í gegn­um tíð­ina varð­andi þátt­töku í þró­un nýrra kennslu- og starfs­hátta.

Uppfyllir allar nýjustu kröfur
Verktak­inn Mineral ehf. sá um fram­kvæmd­ina á nýja eld­hús­inu og not­að­ist við svo­kall­aða Durisol kubba í burð­ar­virk­ið á nýju bygg­ing­unni sem er 97 fer­metr­ar að stærð. Kubb­arn­ir eru fram­leidd­ir úr sér­völd­um end­urunn­um viði og síð­an stein­gerð­ir með vist­væn­um að­ferð­um. Eld­hús­ið upp­fyll­ir all­ar nýj­ustu kröf­ur sem gerð­ar eru til slíkra eld­húsa tengt að­geng­is­mál­um, bygg­ing­a­reglu­gerð, heil­brigðis­eft­ir­liti og vinnu­eft­ir­liti svo eitt­hvað sé nefnt.
Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri var við vígsluna og færði starfs­fólki blóm­vönd og gjöf og ósk­aði starfs­fólki, börn­um, for­eldr­um og öll­um velunn­ur­um skól­ans til ham­ingju með af­mæl­ið og nýja eld­hús­ið. Þá þakk­aði hún starfs­fólki skól­ans sér­stak­lega fyr­ir þeirra fram­lag og natni við að gera Reykja­kot að þeim góða leik­skóla sem hann er.

Eigendaskipti á Fótaaðgerðarstofu Mosfellsbæjar

Sigrún, Anna Vilborg og Auður Ósk.

Þann 1. febrúar urðu eigendaskipti á Fótaaðgerðarstofu Mosfellsbæjar þegar Auður Ósk Ingimundardóttir afhenti nýjum eigendum Önnu Vilborg Sölmundardóttir og Sigrúnu Áslaugu Guðmundsdóttir lyklana.
Fótaaðgerðastofan hefur verið starfandi frá árinu 2009 og eru fjórir fótaaðgerðafræðingar sem starfa þar. Stofan er staðsett í Þverholti 3.

Smáskref

Ég er búinn að vera að vinna með litlu skrefin undanfarna mánuði. Fékk spark í rassinn um mitt síðasta ár þegar ég missti á einni nóttu styrk í hægri upphandlegg. Fékk mjög góð ráð frá sjúkraþjálfaranum mínum sem setti mig í daglegar æfingar. Hef síðan notað um þrjátíu mínútur fyrir vinnu á morgnana til að gera æfingarnar sem hann setti mér fyrir ásamt vel völdum liðleika- og styrktaræfingum sem ég veit að gera mér gott. Í dag er ég með tvö sett af æfingum sem ég geri til skiptist á morgnana. Ég byrja samt alltaf á sömu gólfæfingunum. Fyrst æfingum sem styrkja og liðka hálsinn, skipti yfir í barnarúll, rugg og nokkrar dýragönguæfingar áður en ég æfi mig mjúklega í að detta. Ég enda þessar gólfæfingar á nokkurs konar plankahring. Eftir gólfæfingar vinn ég í mismunandi (eftir dögum) styrk og liðleika. Síðasta morgunæfingin er alltaf að hanga á stöng, fyrir bakið og gripið.

Lykilatriði í þessum morgunæfingum er að ég hef í ör-skrefum gert þær erfiðari. Ör-skrefin eru svo lítil – kannski bæti ég bara við 1-2 sekúndu á viku í plankann eða hangsið – að líkaminn áttar sig ekki á því að hann er vinna meira en áður. En þetta safnast saman og þegar maður hefur ör-bætt sig í margar vikur og marga mánuði, þá eru framfarirnar orðnar vel merkjanlegar. Það sem var áskorun fyrir nokkrum mánuðum, er auðvelt í dag.

Þolinmæði og þrautseigja er það sem skiptir máli þegar kemur að því að byggja sig upp, sama hver grunnurinn er. Það kemur ekkert af sjálfu sér, en langtímaárangur næst ekki með því að reyna að komast hærra og lengra of hratt. Það er ávísun á meiðsli og yfirkeyrslu sem leiðir til þess að fólk gefst upp, hættir og gerir ekkert í langan tíma. Prófaðu litlu skrefin, þau gefa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. mars 2025

 

 

Bæði karla- og kvennalið Aftureldingar í undanúrslitum

Blakdeild Aftureldingar er með bæði karla- og kvennalið í FINAL4 bikarkeppni Blaksambands Íslands sem haldin er í Digranesi í Kópavogi 6.-8. mars.
Strákarnir hefja leik í kvöld, fimmtudag og spila kl. 19:30 gegn KA. Stelpurnar spila á morgun, föstudag, kl 17:00 og einnig á móti KA. Það er ljóst að báðir þessir leikir verða ótrúlega erfiðir og er allt Aftureldingarfólk hvatt til að mæta í rauðu í Digranesið og hvetja liðin okkar áfram.

Úrslitaleikirnir fara fram á sunnudaginn
Miðasala er á Stubb.is appinu og rennur aðgangseyrir á undanúrslitaleikjunum til félaganna ef merkt er við félagið.
Úrslitaleikirnir fara svo fram á laugardaginn, karlaleikurinn er kl. 13:00 og kvennaleikurinn er kl. 15:30. Þangað stefna bæði Aftureldingarliðin að sjálfsögðu.
Síðast komust bæði karla- og kvennaliðið í FINAL4 helgina árið 2017.

Fimm nýir stungupallar í Lágafellslaug

Sundkappinn Kolbeinn Flóki Gunnarsson var drifkrafturinn í því að nýir löglegir keppnisstungupallar eru nú komir í Lágafellslaug.
„Pallarnir sem voru í Lágafellslaug voru ekkert sérstaklega góðir svo einn daginn hugsaði ég með mér að panta tíma með bæjarstjóranum og leggja undir hana hvort hægt væri að fá nýja betri palla í laugina,“ segir Kolbeinn Flóki sem er 12 ára og hefur æft sund í fimm ár með sunddeild Aftureldingar.

Getum æft stungur almennilega
„Núna eru komnir fimm nýir stungupallar sem eru alveg frábærir. Helsti munurinn á pöllunum sem voru og þeim nýju er að gömlu pallarnir hölluðu ekki og höfðu heldur ekki sandpappírsgrip.
Nýju pallarnir eru keppnispallar og þetta munar miklu fyrir okkur að geta æft stungur almennilega,“ segir Kolbeinn og bætir við að allir í sunddeildinni séu mjög glaðir með breytinguna.

Þetta er skemmtilegasta starf í heimi

Guðrún Helgadóttir forstöðumaður ungmennastarfs í Mosfellsbæ leggur áherslu á jákvæða liðsheild og virðingu.

Í félagsmiðstöðvum Mosfellsbæjar er boðið upp á uppbyggilegt frístundastarf fyrir 10-16 ára börn og unglinga. Markmiðið er að stuðla að jákvæðum og þroskandi samskiptum og örva félagsþroska þeirra og lýðræðisvitund.
Guðrún Helgadóttir forstöðumaður segir að börn og unglingar í Mosfellsbæ séu til einstakrar fyrirmyndar, þau séu bæði hugmyndarík og kurteis. Auðvitað passi ekki allir undir sama hatt en þá þurfi að finna leið til að þau finni sig og nái að vera besta útgáfan af sjálfum sér.

Guðrún er fædd á Akureyri 1. júlí 1975. Foreldrar hennar eru Helga Stefánsdóttir og Helgi R. Einarsson en þau störfuðu bæði sem kennarar.
Guðrún á þrjár systur, Hrönn f. 1970, Kristjönu f. 1972 og Ingu Rún f. 1987.

Snerting við sveitalífið
„Fyrstu ár ævi minnar bjó ég í Fnjóskadal, held að það hafi hentað mér einstaklega vel því ég er mikið náttúrubarn, það eru mikil forréttindi að fá að alast upp í sveit.
Við flytjum síðan í Mosfellssveit og hér vorum við með hesta og hund svo maður var með smá snertingu við sveitalífið hér líka. Við bjuggum í Teigahverfinu þangað til ég varð 11 ára og það var mikið af krökkum í hverfinu, hefðin var að vera í útileikjum á kvöldin.
Ég á einnig góðar minningar frá ferðinni okkar um Evrópu en þá vorum við fjölskyldan á flakki í heilan mánuð.“

Þetta er ótrúlegt en satt
„Ég gekk í Varmárskóla og Gaggó Mos og skólagangan var frábær í alla staði. Ég var í sama bekk öll árin mín í Varmárskóla en síðan var bekknum stokkað upp. Ótrúlegt en satt þá var mamma mín umsjónarkennarinn minn öll árin í barnaskóla.
Þegar ég kom upp í Gaggó Mos þá tók pabbi við sem umsjónarkennari, fyrsta árið. Það er merkilegt að foreldrar mínir hafi komist heilir í gegnum þetta því ég var virkur krakki sem átti það til að masa mikið og hátt,“ segir Guðrún og brosir. „Ég eyddi miklum tíma í félagsmiðstöðinni Bólinu og ég hafði einnig gaman af leiklist og tók þátt í sýningum með Leikfélagi Mosfellssveitar.
Á sumrin vann ég í unglingavinnunni, var flokksstjóri í Vinnuskólanum og svo ferðaðist ég mikið, bæði með fjölskyldu og lúðrasveitinni. Ég vil meina að ég hafi verið að „túra með Lúðró“ því það hljómar svo töff. Ég vann einnig við ræstingar auk þess að vinna í síld en ekki misskilja mig, ég upplifði aldrei verbúðarlíf, því ég vann í Kópavogi.“

Hún græddi heldur betur á því
„Eftir útskrift úr gaggó þá fór ég í eitt ár á íþróttabraut í Árósum í Danmörku. Það var alveg einstakt, bæði þroskandi og skemmtilegt. Danski hópurinn varð mjög náinn enda fórum við í mörg ferðalög, ég mæli með þessu fyrir alla.
Ég byrjaði í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti eftir að ég kom heim en varð svo ófrísk þannig að ég kláraði námið í kvöldskóla. Ég starfaði svo á Hjallastefnuleikskóla í Hafnarfirði í fjögur ár sem kveikti áhuga minn á að vinna með börnum.
Árið 1999 tók ég skyndiákvörðun og skellti mér í inntökupróf á hrossaræktarbraut í Bændaskólanum á Hólum og komst inn. Þá flutti ég ásamt Örnu dóttur minni í Skagafjörðinn og það hentaði mér vel. Ég var sú eina á hestabrautinni með barn og Arna græddi heldur betur á því, allir dekruðu við hana.
Í lok starfsnáms árið 2000 lenti ég í slysi við tamningar og axlarbrotnaði. Þar sem ég var ekki vinnufær í tamningum þá leitaði ég að öðru starfi og fór að vinna í Bólinu. Þetta var haustið 2000 en ég varð svo aðstoðarforstöðumaður 2001. Ég starfaði í Bólinu í 4 ár á meðan ég var í diplómanámi í tómstunda- og félagsmálafræði en á þessum árum var ekki farið að kenna fullt nám á Íslandi. Á haustönn 2004 fór ég í skiptinám til Kaupmannahafnar, eða um leið og námið var komið á BA stig á Íslandi.
Ég starfaði svo sem umsjónarkennari í Lágafellsskóla í tvö ár í 1995 árganginum, flottir krakkar.“

Fátt sem toppar góðar útilegur
Eiginmaður Guðrúnar er Jóhann Benediktsson stafrænn markaðsstjóri hjá Icelandair. Saman eiga þau tvö börn Einar Mána f. 2006 og Helgu Sóleyju f. 2008 en fyrir átti Guðrún Örnu Kristínu f. 1994. Heimilishundurinn Esja er að sögn Guðrúnar Ameríkani með áfallastreituröskun og geltir með hreim.
„Við fjölskyldan höfum ferðast mikið og gerum enn og svo er fátt sem toppar útilegur með fjölskyldu og vinum. Við förum árlega í þær og þar á meðal á hina alfrægu Leynihátíð sem er auðvitað alltaf einstök.
Heiti potturinn er í miklu uppáhaldi, að dansa við góða tónlist og hestaferðir veita ofurorku, bæði krafturinn sem reiðmennskan gefur auk gleðinnar sem góðir vinir gefa.“
Fluttu utan
„Árið 2008 fluttum við fjölskyldan til Danmerkur, ég byrjaði í fæðingarorlofi en fór svo í nám í mannauðsstjórnun í CBS viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar. Með náminu starfaði ég sem þjónn í klúbbi æðstu manna í sjóher Danmerkur. Síðar hóf ég störf sem deildarstjóri á leikskóla.
Árið 2015 fluttum við fjölskyldan til Boston og bjuggum þar í tvö ár. Ég var ekki með atvinnuleyfi svo ég kom inn í landið sem maki. Þá var ég bara „all-in“ húsmóðir, hjálpaði til við heimalærdóm, fór í ræktina og hitti nágrannanna í kokteil á veröndinni.“

Sami kjarninn til fjölda ára
„Ég hóf kennslu aftur í Lágafellsskóla eftir að við fluttum heim en fór svo aftur í félagsmiðstöðina Bólið, starfaði í eitt ár sem verkefnisstjóri en tók svo við sem forstöðumaður. Hér er ég enn í dag enda er þetta skemmtilegasta starf í heimi,“ segir Guðrún og brosir.
„Starfsemi okkar er á þremur stöðum og unglingarnir eru frábærir, hugmyndaríkir og kurteisir. Það þarf að passa upp á jákvæða liðsheild og virðingu en auðvitað passa ekki allir undir sama hatt. Þá er spurning að finna leið þannig að þeir finni sig og nái að vera besta útgáfan af sjálfum sér.
Það er nefnilega oft gallinn við okkar kerfi að allir eigi að passa í sama formið. Það er fátt betra en að hjálpa einstaklingi að finna sína hillu í lífinu og að hann upplifi að hann tilheyri einhvers staðar. Það tekur oft tíma að finna hina fullkomnu lausn fyrir ákveðinn einstakling eða hóp en þegar það heppnast þá er það hverrar mínútu virði.
Ég er með frábæran hóp starfsmanna í Bólinu, sami kjarninn til fjölda ára. Þau eiga það sameiginlegt að vera lífsglöð, sýna samkennd, leggja mikið í sína vinnu og vera til staðar fyrir unglingana. Það eru bestu eiginleikar sem starfsmenn geta haft að mínu mati og ég er svo þakklát fyrir þau,“ segir Guðrún að lokum er við kveðjumst.

Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Fyrsti áfangi lýsingar á Tungubakkahringnum vígður

Halla Karen og Jón Geir í nýju ljósi.

Jón Geir Sigurbjörnsson, formaður Hestamannafélagsins Harðar, og Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs klipptu á borða á miðvikudaginn í síðustu viku og vígðu þar með fyrsta áfanga lýsingar á Tungubakkahringnum svonefnda.

Mikið öryggismál og lyftistöng fyrir alla
„Það er gleðilegt að fyrsti áfangi af lýsingu Flugvallarhringsins eða Tungubakkareiðleiðar er klár,“ segir Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar.
„Í fjárhagsáætlun 2025 settum við 25 milljónir króna í 2. áfanga í lýsingu á þessum sama hring og það er ánægjulegt að segja frá því að það verður strax farið í hönnun en verkið kemur til framkvæmda í sumar og er áætlað að því ljúki um haustið.
Svona lýsing er mikið öryggismál fyrir hestamenn og einnig mikil lyftistöng fyrir alla sem stunda hestamennsku því þá er hægt að fara í reiðtúr eða hreyfa hestana sína á hvaða tíma sem er í skammdeginu. Til hamingju!“

Lýsing á reiðleiðum í forgangi
„Reiðvegirnir eru íþróttamannvirki okkar hestamanna,“ segir Jón Geir Sigurbjörnsson formaður hestamannfélagsins Harðar.
„Hestamennskan er stunduð allt árið um kring og lýsing á okkar helstu reiðleiðum hefur verið í forgangi hjá okkur um árabil. Bæði til að auka nýtingu og ekki síst til að auka öryggi iðkenda okkar.
Við fögnum því þessum fyrsta áfanga í lýsingu á Tungubakkahringnum og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar.“
Með þeim Jóni Geir og Höllu Karen á myndinni er hryssan Fluga en hún ásamt vel völdum félögum úr Herði hleyptu á skeið undir ljósunum í fallegu vetrarveðri.

Ný byggð, nýjar áherslur

1. áfangi Blikastaðahverfis

Um miðjan janúar var haldinn opinn íbúafundur í Hlégarði um vinnslutillögu vegna deiliskipulags 1. áfanga í Blikastaðahverfi. Þetta er annar opni fundurinn um uppbyggingaráform í Blikastaðalandi en auk þess voru fyrstu gögn deiliskipulagsáforma, skipulagslýsingin, kynnt í lok ársins 2023.
Jóhanna Helgadóttir, arkitekt hjá Nordic arkitektum, kynnti tillöguna ásamt drögum að umhverfismati og Berglind Hallgrímsdóttir, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, fór yfir samgöngur Blikastaðalandsins, ásamt áhrifum bættra almenningssamgangna og tilkomu fyrirhugaðrar Sundabrautar. Valdimar Birgisson formaður skipulagnefndar var fundarstjóri.
Á fundinum var einnig kynnt áþreifanlegt módel af tillögunni sem gestir gátu rýnt frá öllum sjónarhornum.
Það voru líflegar umræður í kjölfar erindanna og margar spurningar sem brunnu á fundargestum.
Við ræddum við Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra Mosfellsbæjar í kjölfar íbúafundarins.

Hvernig á að koma öllum þessum íbúafjölda fyrir í þeim skólum og leikskólum sem eru í bænum í dag og annarri þjónustustarfsemi?
Vorið 2022 var gerður uppbyggingarsamningur um Blikastaði en svæðið er eitt stærsta óbyggða land innan höfuðborgarsvæðisins eða um 90 hektarar að stærð. Samningurinn tók til alls uppbyggingarsvæðisins, en gert er ráð fyrir 3.500 íbúðum í heildina og um 9 þúsund íbúum. Núna er hins vegar verið að kynna skipulag vegna fyrsta áfangans sem er um 1.270 íbúðir og áætlaður íbúafjöldi um 3.500 manns.
Gert er ráð fyrir því að Blikastaðaland byggist upp á 15-20 árum og er því fjölgunin í takt við það sem hún hefur verið í bænum síðastliðin 20 ár. Forsenda íbúðauppbyggingarinnar er að þarna verði a.m.k. einn grunnskóli í fyrsta áfanganum og tveir leikskólar.
Þá verður hugað að verslun og þjónustustarfsemi í kringum Blikastaðabæinn og þar sem Borgarlínan kemur. Enn fremur erum við að skoða þörf á velferðarþjónustu á svæðinu og íþróttamannvirkjum.

Gamli Blikastaðabærinn mun öðlast nýtt hlutverk.

Mun Borgarlínan ekki frestast eins og aðrar framkvæmdir í tengslum við Samgöngusáttmálann?
Borgarlínan á að koma á þetta svæði í kringum 2033. Tímaáætlanir um Borgarlínu til Mosfellsbæjar standa óbreyttar þótt samgöngusáttmálinn hafi verið lengdur til 2040. Það sem kallast lota 6 hefur verið færð framar í forgangsröðun.

Hvernig verður með umferðina til og frá hverfinu?
Það er mat þeirra sérfræðinga sem hafa gert umferðarmælingar að í fyrsta áfanga byggðarinnar verði hægt að nýta Baugshlíðina. Við höfum hins vegar óskað eftir að Vegagerðin komi að útfærslu á aðkomu að svæðinu og við bindum líka miklar vonir við Sundabrautina, að hún minnki álag á umferðinni um Vesturlandsveg í framtíðinni. Þá mun Borgarlínan breyta miklu í samgöngumálum hverfisins og þeim umferðarhnútum sem Mosfellingar upplifa, s.s. í Ártúnsbrekkunni og víða.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar. 

Hvernig verður byggðin hvað þéttleika varðar? Mun ásýnd Mosfellsbæjar breytast?
Samkvæmt tillögunum þá verður þéttast byggt í kringum Blikastaðabæinn þar sem Borgarlínan á að koma og húsin eru hæst næst Vesturlandsveginum. Byggingarsvæðið er mun lægra en Vesturlandsvegurinn og það hefur áhrif á ásýndina.
Stærstur hluti svæðisins mun skarta húsum á 2-3 hæðum í anda sveitarfélagsins. Það verður mikið lagt upp úr grænum svæðum og að ásýnd hverfisins verði sem mest í tengslum við náttúruna. Það er oft talað um þéttingu byggðar í þessu samhengi en þarna er um óbyggt svæði að ræða þannig að hugtakið þétting byggðar á ekki við í þessu tilviki. Þétting er þegar nýjum byggingum er komið fyrir í grónum hverfum.
Einnig hefur Helgafellshverfið verið nefnt til samanburðar en á það ber að líta að það hverfi er allt öðruvísi byggt upp, með þéttleika á milli fjölbýlishúsa og mörgum stórum einbýlishúsalóðum á meðan þetta hverfi mun einkennast af litlum fjölbýlishúsum og smærri sérbýlum.
Við mótun byggðarinnar hefur verið tekið mið af skuggavarpi og sólarstundum, eins og kynningargögnin sýna. Byggðin er almennt höfð lágreist en húskroppar í nokkru návígi hver við annan til þess að brjóta upp vind og skapa æskileg vindþægindi þar sem dvalarsvæðin eru hugsuð. Þessir þættir náttúrunnar, sól og vindur, í bland við landfræðilegar aðstæður og gæði, hafa haft verulega mótandi áhrif á það hvernig húsin standa og snúa.

Er það rétt að þarna verði tæpt bílastæði á hverja íbúð?
Í þessari vinnslutillögu er ekki búið að hanna húsin og eyrnamerkja hverri íbúð fjölda bílastæða. Meðaltöl sýna okkur að bílastæðin eru mismunandi eftir íbúðum. Hönnun í rammahluta aðalskipulags gerði ráð fyrir 1,8 bílastæðum á íbúð í landi Blikastaða.
Hvað verður um gamla Blikastaða­bæinn?
Samkvæmt áætlunum um uppbyggingu Borgarlínu er gert ráð fyrir að hún liggi um Blikastaðaland með stoppi við Blikastaðabæinn. Bærinn mun öðlast nýtt hlutverk verslunar og þjónustu á miðsvæði byggðarinnar. Það er einmitt verið að kalla eftir hugmyndum að nýtingu bæjarins um þessar mundir og er Halldór Halldórsson eða Dóri DNA að vinna með eigendum Blikastaðalands að hugmyndavinnunni.

Hvernig hefur undirbúningurinn að verkefninu verið?
Greiningar, undirbúningur og tillögugerð hafa staðið yfir allt frá árinu 2018. Fjöldi fagaðila hefur komið að vinnu verkefnisins, þar á meðal Alta ráðgjöf, COWI verkfræðistofa, Nordic arkitektar, Efla þekkingarfyrirtæki og landslagsarkitektastofa SLA í Kaupmannahöfn.

Hvernig verður ferlið fram undan?
Núna er verið að leggja fram vinnslutillögu að áfanga 1 í skipulaginu. Það er hægt að senda umsagnir í skipulagsgáttina á mos.is til 10. febrúar og eru íbúar og aðrir áhugasamir hvattir til að senda inn ábendingar. Það verður unnið úr þeim og deiliskipulagið mótað og kynnt vonandi í haust. Þá verður aftur boðað til íbúafundar og opnað verður fyrir athugasemdir um deiliskipulagið á ný.
Í stjórnsýslunni er verið að vinna að viðaukum við uppbyggingarsamkomulagið frá árinu 2022 og enn fremur að áhættugreina fjárfestingargetu bæjarins með tilliti til íbúafjölgunar.
Það er mikilvægt að það sé áframhaldandi vöxtur í bæjarfélaginu, til að greiða fyrir þá innviði sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum en að sama skapi þá þurfum við að vanda okkur og stilla uppbyggingunni miðað við fjárfestingargetu okkar hverju sinni.

Verkfall á Höfðabergi

„Vonandi ná aðilar saman svo verkfalli ljúki sem fyrst,“ segir Tinna Rún Eiríksdóttir leikskólastjóri á Höfðabergi.
Verkfall er hafið í 14 leikskólum og 7 grunnskólum víða um land. Kennarar, ríki og sveitarfélög sátu á fundum hjá ríkissáttasemjara alla helgina en hafa ekki náð saman til þessa.
Leikskólakennarar á Höfðabergi, einum fjölmennasta leikskólanum í Mosfellsbæ, eru farnir í verkfall og það hefur áhrif á flestar deildir skólans en leikskólinn er níu deilda skóli og í sex deildum eru fagmenntaðir leikskólakennarar sem deildarstjórar.
Á Höfða­bergi eru börn á aldr­in­um 3-5 ára. Óbreytt starf­semi er á einni deild, tvær deild­ir eru opn­ar að hluta en sex deildir lokaðar.

Mikilvægur hópur í okkar barnmarga samfélagi
„Kennarar eru fjölmennur og mjög mikilvægur hópur í okkar barnmarga sveitarfélagi og það er til mikils að vinna að ná að bæta starfsumhverfi í grunn- og leikskólum,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
„Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fer með samningsumboðið fyrir hönd stjórnar sambandsins og það er mikilvægt að deilan verði leyst við það samningaborð og einstaka bæjarstjórar og sveitarstjórnir hafa almennt ekki tjáð sig opinberlega um deiluna.“

Áskorun til bæjaryfirvalda frá foreldraráðum
Bæjaryfirvöld hafa fengið áskorun frá foreldraráðum í leik- og grunnskólum bæjarins, um að beita sér fyrir því að samningar náist.
„Við skorum á að þau loforð sem gefin voru kennurum árið 2016 verði uppfyllt svo allir megi ganga sáttir frá borði. Við förum fram á að Mosfellsbær skorist ekki undan sinni ábyrgð og nýti atkvæðarétt sinn innan Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að berjast fyrir að komið verði til móts við kröfur kennara,“ segir í tilkynningunni.

Dagur og Danirnir

Ég hefði viljað sjá Dag vinna HM í handbolta með króatíska landsliðinu. Danmörk er frábært land, ég veit það eftir að hafa búið þar í sex ár. En það er bara ekkert skemmtilegt að sama liðið vinni alltaf. Ekki nema auðvitað fyrir Danina sjálfa. Dagur er mjög áhugaverður þjálfari sem hefur náð merkilegum árangri á sínum þjálfaraferli. Hann nær vel til leikmanna og nær öðrum fremur að skapa sterka liðsheild þar sem allir hafa hlutverk og allir skipta máli. Snorri Steinn landsliðsþjálfari Íslands getur lært margt af Degi, til dæmis að búa til þannig umhverfi að allir upplifi að þeim sé treyst og að þeir hafi mikilvægt hlutverk í liðinu. Of margir leikmenn okkar voru utan þess umhverfis á mótinu, fengu mjög fáar mínútur inni á vellinum og var kippt út af nánast við fyrstu mistök. Þetta er mitt mat, hafandi horft á leikina og líkamstjáningu leikmanna.

En, Danirnir, maður minn lifandi! Þetta er magnaður árangur, að vinna heimsmeistaratitil fjórum sinnum í röð. Þetta á ekki að vera hægt. Ég viðurkenni að ég veit ekki helstu ástæður þessa árangurs, en ætla að kafa ofan í þær og komast að þeim. Mig grunar að danska leiðin í samskiptum, að gefa öllum tækifæri á að segja sína skoðun, ræða innan hópsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu sé hluti af skýringunni – það er ein leið til þess að skapa umhverfi þar sem öllum finnast þeir skipta máli. En þetta er enn bara tilgáta.

Hvernig er þetta í þínu umhverfi? Upplifir þú að þér sé treyst? Veistu þitt hlutverk? Treystir þú þínu fólki og gefur því svigrúm til að vaxa og dafna sem einstaklingar og um leið sem liðsheild? Við erum öll á einhvern hátt hluti af teymi. Sama hver staða okkar er í teyminu, þá getum við haft jákvæð áhrif á það.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. febrúar 2025

 

Íþróttafólk Mosfellsbæjar heiðrað

Skarphéðinn Hjaltason og Erna Sóley Gunnarsdóttir.

Íþróttafólk Mosfellsbæjar 2024 var heiðrað í Hlégarði þann 9. janúar.
Frjálsíþrótta­kon­an Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir er íþrótta­kona Mos­fells­bæj­ar og júdókapp­inn Skarp­héðinn Hjalta­son er íþrót­ta­karl bæj­ar­ins árið 2024.
Við sama til­efni var karlalið Aft­ur­eld­ing­ar í knatt­spyrnu valið af­rekslið Mos­fells­bæj­ar, Magnús Már Ein­ars­son þjálf­ari liðsins val­inn þjálf­ari árs­ins og móðir hans Hanna Sím­on­ar­dótt­ir val­in sjálf­boðaliði árs­ins.

Erna Sól­ey Gunn­ars­dótt­ir kúlu­varp­ari
Árið 2024 varð Erna Sól­ey fyrsta ís­lenska kon­an til að keppa í kúlu­varpi á Ólymp­íu­leik­um, þegar hún tók þátt í leik­un­um í Par­ís. Þar kastaði hún lengst 17,39 metra og endaði í 20. sæti af 31 kepp­anda.
Erna Sól­ey setti Íslands­met í kúlu­varpi kvenna sum­arið 2024 þegar hún kastaði 17,91 metra. Erna á einnig Íslands­metið í kúlu­varpi inn­an­húss. Það setti hún þegar hún kastaði 17,92 metra í fe­brú­ar 2023.
Erna var í des­em­ber val­in frjálsíþrótta­kona árs­ins 2024 af Frjálsíþrótta­sam­bandi Íslands.
Erna hef­ur lýst yfir metnaði sín­um til að vera meðal þeirra bestu í heim­in­um og stefn­ir á að keppa á Ólymp­íu­leik­un­um í Los Ang­eles árið 2028.

Skarp­héðinn Hjalta­son jú­dómaður
Skarp­héðinn hóf að æfa júdó hjá Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur ell­efu ára gam­all og er nú, níu árum síðar, orðinn einn besti og öfl­ug­asti jú­dómaður lands­ins. Hann náði mjög góðum ár­angri á ár­inu, varð Íslands­meist­ari bæði í -90 kg flokki karla og opn­um flokki karla.
Skarp­héðinn fékk silf­ur­verðlaun á Norður­landa­meist­ara­mót­inu í Svíþjóð, bæði í karla­flokki og í U-21 árs flokki karla, og á alþjóðlegu móti í Dan­mörku, Copen­hagen Open, vann hann einnig til silf­ur­verðlauna.
Skarp­héðinn var val­inn jú­dómaður árs­ins 2024 af Júd­ó­fé­lagi Reykja­vík­ur. Hann er þekkt­ur fyr­ir mikla vinnu­semi og metnað, sem hef­ur skilað sér í stöðugum fram­förum.

Magnús Már þjálfari ársins
Magnús tók við sem aðalþjálf­ari meistaraflokks karla í knattspyrnu í nóv­em­ber 2019, eft­ir að hafa verið aðstoðarþjálf­ari tvö ár þar á und­an.
Und­ir hans stjórn hef­ur Aft­ur­eld­ing bætt sig ár frá ári og náði í sept­em­ber síðastliðnum sögu­leg­um ár­angri þegar liðið tryggði sér í fyrsta sinn í sögu fé­lags­ins sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla

Af­rekslið Mos­fells­bæj­ar
Meist­ara­flokk­ur karla í knatt­spyrnu hjá Aftureldingu. Liðið braut blað í sögu fé­lags­ins með því að tryggja sér sæti í efstu deild Íslands­móts­ins í knatt­spyrnu karla í fyrsta skipti í sögu þess.
Aft­ur­eld­ing sigraði Kefla­vík í úr­slita­leik um­spils­ins í sept­em­ber og tryggði sér þar með sæti í Bestu deild­inni fyr­ir árið 2025.
Árang­ur liðsins hef­ur haft já­kvæð áhrif á íþrótta­líf Mos­fells­bæj­ar og hef­ur hvatt bæði ungt fólk og aðra íbúa bæj­ar­ins til að taka þátt í íþrótt­um og styðja við knatt­spyrnuliðið.

Hanna Sím­ sjálf­boðaliði árs­ins
Hanna er mjög mik­il­væg­ur hlekk­ur í því frá­bæra starfi sem unnið er inn­an knatt­spyrnu­deild­arinnar. Deild­in og fé­lagið allt á henni mikið að þakka en hún hefur verið öt­ull sjálf­boðaliði inn­an Ung­menna­fé­lags­ins Aft­ur­eld­ing­ar í næst­um þrjá ára­tugi.
Hanna hef­ur af mik­illi þraut­seigju stjórnað Li­verpool-skól­an­um sem hald­inn er á sumr­in þar sem fleiri en 400 krakk­ar af land­inu öllu koma og æfa und­ir hand­leiðslu þjálf­ara frá Li­verpool.
Hanna á stór­an þátt í sögu­leg­um ár­angri meist­ara­flokks karla í sum­ar með frum­kvæði sínu og elju­semi.

Þetta er ótrúlega gaman og gefandi

Þorrablót á uppruna sinn að rekja til 19. aldar, íslensk veisla með þjóðlegum mat, drykkjum og siðum. Mosfellingar láta ekki sitt eftir liggja í þeim efnum en þorrablót Aftureldingar er orðinn fastur liður hjá mörgum bæjarbúum í janúar. Óhætt er að segja að blótið sé einn stærsti viðburður sem fram fer innandyra í Mosfellsbæ ár hvert en það var endurvakið í núverandi mynd árið 2008.
Ása Dagný Gunnarsdóttir forseti þorrablótsnefndar segir undirbúning blótsins ganga vel og það stefni í metþátttöku í ár.

Ása Dagný fæddist í Reykjavík 13. janúar 1975. Foreldrar hennar eru Kolbrún Jónsdóttir verkakona og Gunnar Guðmundsson raftæknir en þau eru bæði látin.
Hálfbróðir Ásu Dagnýjar, samfeðra, er Steinn Gunnarsson f. 1970, kennari.

Erfiður tími í okkar lífi
„Ég bjó í Breiðholti fyrstu fimm ár ævi minnar en árið 1980 fluttum við fjölskyldan í Mosfellssveit en við bjuggum í Garði við Álafossveginn. Það var gott að alast hér upp, umhverfið frjálslegt, fullt af krökkum í hverfinu og alltaf nóg um að vera.
Þegar ég var 12 ára þá breyttist líf mitt í einni svipan, þá lést faðir minn ásamt þremur öðrum í flugslysi á Blönduósi. Við tók mjög erfiður tími í lífi okkar mömmu og hagir okkar breyttust í kjölfarið.“

Spiluðum fótbolta út í eitt
„Ég gekk í Varmárskóla og leið almennt vel í skólanum, var í sama bekknum upp í 12 ára bekk en þá færðumst við yfir í Gaggó Mos og þá var okkur skipt upp í nýja bekki. Við spiluðum fótbolta í frímínútum út í eitt sem okkur fannst ekki leiðinlegt.
Á sumrin lék maður sér á leikja- og fótboltanámskeiðum og á unglingsárunum vann maður víða á sumrin og með námi m.a. í unglinga- og bæjarvinnunni, Álafossi, sjoppum og veitingastöðum og í fiskbúð. Ég var líka leiðbeinandi á leikjanámskeiðum.
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Fjölbrautaskólann í Breiðholti á íþróttabraut og útskrifaðist 1995. Þaðan fór ég svo í íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og fór svo í sjúkraþjálfun við HÍ og lauk námi þaðan 2004. Ég tók einnig námskeið hjá KSÍ til UEFA-B gráðu í þjálfun.“

Erum dugleg að hreyfa okkur
Eiginmaður Ásu Dagnýjar er Jón Smári Pétursson rafvirki, þau giftu sig árið 2006. Þau eiga þrjá syni, Gunnar Smára f. 2005, Arnar Dag f. 2007 og Steinar Kára f. 2010. „Við fjölskyldan erum dugleg að hreyfa okkur, förum á skíði og spilum golf. Synir okkar eru allir í íþróttum og við Jón erum dugleg að fylgja þeim eftir á knattspyrnumótum og í öðrum keppnum.
Ég spila blak í dag en var í fótbolta, handbolta og badminton sem barn og unglingur. Ég var íþróttastelpa fram í tær og fingurgóma,“ segir Ása og brosir. „Ég spilaði fótbolta til 25 ára aldurs og fór svo aftur að spila um fertugt með Hvíta Riddaranum. Ég var líka knattspyrnuþjálfari hjá Fram á árunum 1996-2001.
Ég flækist stundum með hlaupahópnum Morgunfuglunum og svo fer ég reglulega á Úlfarsfellið og í aðrar göngur. Að öðru leyti finnst mér gott að vera í rólegheitunum heima þegar tækifæri gefst.“

Starfsemin svipuð og áður
Eftir að Ása Dagný útskrifaðist sem sjúkraþjálfari hóf hún störf á Reykjalundi. Hún var þá ófrísk að elsta syninum en eftir fæðingarorlof færði hún sig yfir á Landspíta­lann. Þar starfaði hún í tólf ár, á hjarta- og lungnaskurðdeild og krabbameinsdeildunum.
„Árið 2016 starfaði ég samhliða á Heilsuborg og Landspítalanum en færði mig svo alfarið yfir á Heilsuborg 2018. Fyrirtækið varð gjaldþrota korter í Covid en tveir af samstarfsmönnum mínum stofnuðu þá Sjúkraþjálfunina Stíganda og héldu úti svipaðri starfsemi og áður. Okkur hefur þó fjölgað töluvert en við erum 20 starfsmenn í dag.
Við erum með frábæra aðstöðu, tækjasal og möguleika á hópþjálfun. Ég hef oft sagt að ég sé ofanþindar sjúkraþjálfari því ég hef mikinn áhuga á hjarta- og lungnaþjálfun en er líka töluvert að vinna með kjálka-, axla- og hálsvandamál.“

Horfir til betri vegar
Ása Dagný er öllum hnútum kunnug hjá Aftureldingu bæði sem iðkandi og sjálfboðaliði, hún var í barna- og unglingaráði hjá knattspyrnudeildinni í sjö ár og þar af þrjú ár sem formaður. Hún var útnefnd vinnuþjarkur Aftureldingar 2018 á uppskeruhátíð félagsins.
„Iðkendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár með tilheyrandi áskorunum en helsta vandamálið er æfingaaðstaðan en hún batnaði samt mikið þegar Fellið var tekið í notkun. En það horfir til betri vegar þegar gervigras verður sett á gamla aðalvöllinn og sennilega verður sú aðstaða fullnýtt um leið og hún verður tekin í notkun.“

Stefnir í stærsta blót frá upphafi
Ása Dagný kom inn í þorrablótsnefnd Aftureldingar árið 2016 og tók við sem forseti nefndarinnar 2023. Hún segir að í ár stefni í stærsta blót frá upphafi.
„Það hefur verið ótrúlega gaman og gefandi að starfa í þessari nefnd undanfarin ár. Undirbúningur fyrir svona blót hefst nánast um leið og blóti lýkur ár hvert en fer svo á fullt frá september og fram í janúar. Það er svo margt sem þarf að huga að eins og að bóka aðstöðuna, panta listamenn, hljóðmenn, borðbúnað og fleira til.
Þorrablótið er orðið fastur liður hjá Mosfellingum í janúar, þarna hittir maður gamla kunningja og skólafélaga, foreldra iðkenda í barna- og unglingastarfinu og svo er nýjum Mosfellingum á blótinu alltaf að fjölga.
Þar sem blótið fór stækkandi með ári hverju þá ákváðum við 2023 að nýta allan salinn í íþróttahúsinu að Varmá. Blótið okkar hefur það umfram önnur blót að við bjóðum gestum að mæta í hádeginu á blótsdegi og skreyta borð sín. Þar byrjar stemningin og eftirvæntingin, margir búnir að vera að undirbúa skreytingar í langan tíma og metnaðurinn er svakalega mikill,“ segir Ása og brosir.

Bjóðum alla velkomna
„Það hafa skapast hefðir hjá okkur, hópar mæta saman og margir hafa komið ár eftir ár. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að tilheyra einhverjum hópi til að geta mætt, við bjóðum alla Mosfellinga sem og aðra velkomna.
Það er algjörlega ólýsanleg tilfinning að horfa yfir salinn þegar allir eru búnir að skreyta og allt er að smella, þá er undirbúningi þorrablótsnefndar lokið og stutt í að gleðin taki völd,“ segir Ása Dagný með bros á vör er við kveðjumst.

23 nemendur brautskráðir frá Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram föstudaginn 20. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt.
Að þessu sinni voru 23 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir þrír nemendur og þrír af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði voru brautskráðir 15 nemendur og af hestakjörsviði tveir.
Í ræðu Valgarðs Más Jakobssonar skólameistara kom fram að áhersla á farsæld í kjölfar innleiðingar farsældarlaga hafi verið mjög ofarlega á baugi undanfarið í FMOS. Hópur kennara við skólann hefur einnig sérmenntað sig í mannkostamennt (Character Education) þar sem áherslan er lögð á að efla dygðir eins og forvitni, seiglu, kurteisi og hugrekki og áfram eru áherslur FMOS í kennsluháttum að vekja töluverða athygli erlendis fyrir að vera í fararbroddi og framúrskarandi.
Í vetur var stofnuð ný braut fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku og hófu 16 nemendur nám á brautinni í haust og annar eins hópur byrjar nú um áramót. Einnig var stofnuð ný sérnámsbraut fyrir fatlaða einstaklinga með mikla þjónustuþörf sem kallað hefur á töluverðar breytingar á húsnæði.
Að lokum þakkaði skólameistari stúdentum fyrir samstarfið og óskaði þeim hamingju og velfarnaðar í framtíðinni.