
Þórdís Rögn Jónsdóttir er annar stofnenda Rekovy fyrirtækisins á bak við Bata sem er eina íslenska smáforritið sem styður við einstaklinga með fíknisjúkdóm. Forritið var þróað í nánu samstarfi við skjólstæðinga og sérfræðinga helstu meðferðaraðila Íslands. Hægt er að nota appið hvenær sem er í bataferlinu og sníða það að sínum eigin þörfum.
Nú er verið að undirbúa markaðssókn Bata erlendis og þar með verður hægt að styðja við fólk út um allan heim.
Þórdís Rögn fæddist í Reykjavík 23. desember 1997. Foreldrar hennar eru þau Katrín Rögn Harðardóttir forstöðumaður verkefnastofu Reiknistofu bankanna og Jón Þór Daníelsson staðarstjóri hjá Ístak.
Bróðir Þórdísar er Daníel Ingi f. 2002.
Söng fyrir kýrnar í fjósinu
„Ég ólst upp í Víðiteig en síðan flutti fjölskyldan í Bjargartanga í einbýlishús með stórum garði og þar lékum við systkinin okkur mikið. Það var gott að alast upp í þessari götu, vinkonur mínar tala enn í dag um afmælisgistipartýin sem ég hélt árlega.
Helstu æskuminningar mínar tengjast listskautum, sem mótuðu mig mikið. Þar lærði ég að setja mér markmið því það þurfti mikinn sjálfsaga til að geta sinnt bæði námi og skautaiðkun.
Mér þykir einnig vænt um minningarnar frá Laufási þar sem skyldmenni mín búa. Það er ótrúlega gott að vera tengdur náttúrunni, verja frítímanum í fjósinu, og syngja fyrir kýrnar.”
Það fór allt úr böndunum
„Ég gekk í Varmárskóla alla mína skólagöngu og mér fannst gaman í skólanum. Árin í 8.-10. bekk standa upp úr, ég var heppin með bekkinn minn og umsjónarkennarann, Kristínu Ástu. Bekkurinn var þekktur fyrir að standa sig vel í námi en ef kennarinn forfallaðist þá fór allt úr böndunum.
Sumrin fóru að mestu í skautaæfingabúðir og svo vann ég í Kjötbúðinni. Þess á milli ferðuðumst við fjölskyldan um landið.“
Fór erlendis í skiptinám
Eftir útskrift lá leið Þórdísar í Verzlunarskóla Íslands, á fyrsta ári í náminu æfði hún enn á listskauta.
„Á þriðja ári mínu í Verzló fór ég í skiptinám til Bandaríkjanna sem hafði mikil áhrif á mig og víkkaði sjóndeildarhringinn. Að mínu mati ættu allir að prófa að búa erlendis á lífsleiðinni.
Ég fór síðan í nám í iðnaðarverkfræði við HÍ og ferðaþráin kallaði aftur á mig svo ég nýtti mér möguleikann á skiptinámi og fór til Ástralíu.“
Máttum velja okkur vandamál
„Þegar ég kom aftur heim þá hófst frumkvöðlavegferð mín. Ég grínast stundum með að kennarinn minn í aðgerðagreiningu í HÍ hafi verið of latur til að búa til verkefni fyrir okkur. Við máttum því velja hvaða vandamál við vildum leysa.
Lengd biðlistans eftir meðferð á sjúkrahúsinu Vogi var mikið í umræðunni á þessum tíma. Við höfðum heyrt orðróm um að það væri ekki verið að nýta öll rúmin til fulls þannig að okkur datt í hug að „besta“ nýtingu rúmanna. Til að gera langa sögu stutta vorum við skólafélagarnir fljót að átta okkur á því að þetta væri ekki besta leiðin til að leysa vandamálið varðandi lengd biðlistans. Við fórum því í samstarf við SÁÁ þar sem við teiknuðum upp ferlið frá því að einstaklingur lagði inn innlagnarbeiðni og þar til hann fékk innlögn. Markmiðið var að finna tækifæri til umbóta.
Því næst fengum við styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna 2020 til að þróa frumgerð að hugbúnaði sem hefði það markmið að styðja fólk og veita því betri þjónustu á meðan það væri á biðlista eftir innlögn. Sú frumgerð hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2021 sem var mikil hvatning til að halda vegferðinni áfram.“
Það gerðist eitthvað innra með mér
„Nokkrum mánuðum fyrir verðlaunaafhendinguna brást heilbrigðiskerfið nánum ættingja mínum. Það gerðist eitthvað innra með mér á þessum tímapunkti, þegar ég upplifði hvernig samfélagið horfði á einstakling með geð- og fíknisjúkdóm sem annars flokks samfélagsþegn. Hvernig gat það í alvöru verið að við Íslendingar værum ekki með fjölbreyttari úrræði fyrir þennan hóp? Á þessum tíma langaði mig að hætta í náminu, fara í pólitík og ná fram kerfislægum breytingum. En hver hefði tekið mark á 22 ára stelpu sem hafði ekki lokið háskólanámi?
Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti nýtt mína reynslu til að styðja þennan hóp. Niðurstaðan var að þróa Bata-appið, nýta tæknina til góðs og aðlaga það að eftirfylgni. Þegar fólk stígur sín fyrstu skref í samfélaginu eftir meðferð í stað þess að ganga út með eitt A4 blað sem týnist eftir heimkomu.
Bati er núna aðgengilegt í App og Play store og var þróað í nánu samstarfi við yfir þrjú hundruð skjólstæðinga og sérfræðinga helstu meðferðaraðila Íslands eins og SÁÁ, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot. Yfir 1.700 manns hafa náð í Bata og daglegir notendur eru um 65 einstaklingar.
Við erum stöðugt að þróa Bata og viljum fá eins mikla endurgjöf frá fólki og hægt er. Það er það sem raunverulega drífur okkur áfram, að bæta líf fólks.“
Vegferðin var ómetanleg reynsla
Eftir útskrift úr BSc náminu hóf Þórdís störf hjá Saltpay. Þar starfaði hún við áhættustýringu og alþjóðlega vörustýringateymið. „Stjórnendur á þessum tíma kenndu okkur að hugsa stórt sem reyndist mér einstaklega vel þegar ég tók mín fyrstu skref á vinnumarkaði.
Í kjölfarið fékk ég starf hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health þar sem ég starfaði í þrjú ár. Þar fékk ég tækifæri til að leiða vöruþróun með frábæru teymi fyrir stærstu lyfjafyrirtæki Evrópu. Ég leiddi einnig þróun lyfseðilsskyldrar stafrænnar meðferðar í Þýskalandi. Vegferðin hjá Sidekick var ómetanleg reynsla og hjálpaði mér við að skilja betur heilbrigðisgeirann á alþjóðavísu.“
Ræðum heimsmálin yfir kaffibolla
Maki Þórdísar er Hlöðver Skúli Hákonarson sérfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra.
„Við Hlöðver reynum að gefa hversdagsleikanum lit með því að fara reglulega í sund, göngutúra, á tónleika og að eiga góðar stundir með fólkinu okkar. Okkur þykir best að ná rólegum morgnum, ræðum heimsmálin með kaffibolla í hönd áður en dagurinn hefst,“ segir Þórdís og brosir.
Markaðssókn erlendis í undirbúningi
„Í dag stunda ég MSc nám í rekstarfræði við HR ásamt því að stýra Regovy. Með mér í liði eru þeir Ágúst Þór Þrastarson og Leifur Baldur Benediktsson. Þeir hafa séð um alla forritun og hönnun á appinu og Bati væri ekki á þeim stað sem það er í dag nema fyrir þá.
Við hlutum nýlega fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni International Society of Addiction Medicine í Þýskalandi fyrir Bata. Þetta var mikil hvatning, sem staðfestir að við erum á réttri leið. Nú erum við að undirbúa markaðssókn Bata erlendis.
Það verður gefandi að sjá litla barnið mitt sem í raun átti aldrei að verða fyrirtæki vaxa og sjá það styðja fólk út um allan heim,“ segir Þórdís Rögn og brosir er við kveðjumst.
