Gott að grípa tækifærin þegar þau gefast

Eva Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og stofnandi Podium veitir viðskiptavinum sínum ráðgjöf sem miðar að því að styrkja stjórnendur fyrirtækja í mótun, stefnu og innleiðingu með sérstakri áherslu á sjálfbærni, markaðs- og samskiptamál.
Eva hefur umfangsmikla reynslu úr íslensku atvinnulífi, hún sat í framkvæmdastjórn Mílu til fjölda ára og gegndi stöðu forstöðumanns samskipta hjá Símanum. Hún hefur auk þess sinnt blaða- og fréttamennsku um langt skeið.

Eva fæddist í Reykjavík 8. apríl 1964. Foreldrar hennar eru þau Anna Gréta Þorbergsdóttir fyrrv. matráður hjá Norðuráli og Íslenskum aðalverktökum og Magnús Ólafsson fyrrv. fjár-og bleikjubóndi og starfsmaður Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.
Systkini Evu eru þau Kristín f. 1962, Ólafur Hjörtur f. 1970 og Þórunn Elfa f. 1972.

Hljóp hvenær sem færi gafst
„Ég ólst upp til fimmtán ára aldurs upp undir hæsta tindi Skarðsheiðar, Heiðarhorni, á bæ sem heitir Efra-Skarð í Hvalfjarðarsveit. Það var dásamlegt að alast þar upp í nálægð við náttúruna. Á heimili mínu sem var tvíbýli voru ekki bara foreldrar mínir heldur líka amma og afi, það var því alltaf einhver heima til að aðstoða mann.
Æskuminningarnar eru margar og skemmtilegar, flestar tengjast þær hreyfingu að einhverju leyti. Ég hljóp nefnilega hvenær sem færi gafst því að ganga á jafnsléttu var alltaf svo seinlegt. Þess á milli settist maður niður og hlustaði á lækinn hjala, það var mitt jóga.
Það var gestkvæmt um helgar þegar föðursystur mínar komu að heimsækja afa og ömmu. Þær voru barnmargar og við krakkarnir lékum okkur öll saman, hlupum um fjöllin og veiddum silung í stöðuvötnum.“

Hugsa til skólans með hlýju
Eva gekk í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. „Ég var eitt af þessum jákvæðu börnum sem fannst allt gaman í skólanum. Ég varð strax mjög metnaðargjörn og átti auðvelt með að læra.
Heiðarskóli var íþróttamiðaður skóli sem mér líkaði vel og svo var maður duglegur við að spila fótbolta í frímínútum. Ég hugsa alltaf með hlýju til skólans, mér kom vel saman við kennarana þó svo að ég og Sigga besta vinkona mín þættum stundum hlæja heldur of mikið í tímum,“ segir Eva og brosir.

Afi mældi fyrir hlaupabrautinni
„Á sumrin var ég líkt og önnur börn í sveit að vinna við hefðbundin sveitastörf. Það var oft kapphlaup við veðrið þegar við þurftum að koma heyinu í hús, stundum fauk það út í veður og vind þegar Skarðsheiðin sýndi klærnar.
Ég keppti í frjálsum íþróttum á mínum yngri árum, hástökki, hlaupi og langstökki. Ég æfði spretthlaup á túninu heima á milli hefðbundinna æfinga í skólanum. Afi mældi fyrir hlaupabrautinni, var með skeiðklukkuna og fylgdist með framförum mínum af miklum áhuga. Ég var þokkaleg í styttri vegalengdum, náði meira að segja silfri í 60 metrunum. Ég var dálítil keppnismanneskja í mér og ekki alltaf sátt við annað sætið.“

Flutti til Svíþjóðar
Að loknu stúdentsprófi 1984 flutti Eva til Svíþjóðar, til Lundar, og bjó þar í sex ár. Þar fór hún í háskólanám í þjóðháttafræði og leikhús- og kvikmyndafræði með sænsku í vali. Eftir að Eva flutti heim til Íslands þá sótti hún nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands og útskrifast 1992.
Eiginmaður Evu er Finnur Sigurðsson hugbúnaðarráðgjafi hjá Tegra. Dætur þeirra eru Ísabella Ýr f. 1995 og Gréta Rós f. 1998. „Okkur fjölskyldunni finnst mjög gaman að ferðast. Við höfum farið í margar góðar ferðir sem hafa verið einstaklega eftirminnilegar og skemmtilegar. Við erum líka dugleg að fara í leikhús og á tónleika, þá sérstaklega fyrir jólin.“

Mikið rosalega var þetta gaman
„Ég hef átt mörg áhugamál í gegnum tíðina og verið töluvert félagsmálatröll,“ segir Eva aðspurð um áhugamálin. „Ég byggði upp, ásamt góðu fólki, fimleikadeild Aftureldingar þegar dætur mínar voru iðkendur og var í stjórninni í níu ár. Ég hef starfað lengi í pólitík, var formaður fræðslu- og skólanefndar og skólanefndar FMOS í nokkur ár. Hef einnig tekið að mér kosningastjórn fyrir vinkonur mínar sem hafa farið í prófkjör og kosningar. Þess á milli hef ég sinnt ýmsum ábyrgðarstörfum fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu.
Ég stunda mikla útivist og nýt þess mjög, stærsta áskorun mín í þeim efnum var þegar ég skráði mig í heilan Landvætt, 50 km gönguskíðakeppni, 60 km á fjallahjóli, 24 km fjallahlaup og 2,5 km villisund í Urriðavatni, þetta tók vissulega á en mikið rosalega var þetta gaman.“

Blaðamennskan alltaf heillað
Eftir útskrift úr HÍ hóf Eva störf sem þáttastjórnandi á Aðalstöðinni og Stjörnunni. „Það var mjög skemmtilegt að starfa á báðum þessum stöðum en þetta var frekar ótrygg vinna þar sem útvarpsstöðvarnar skiptu oft um eigendur.
Vorið 1992 hóf ég störf sem blaðamaður á DV og starfaði þar í sex ár, í ferðamálum og fréttum en mitt síðasta verk var að ritstýra helgarblaðinu. Blaðamennskan hafði heillað mig alveg frá barnæsku enda ætlaði ég mér alltaf að verða blaðamaður þegar ég yrði stór,“ segir Eva og brosir.

Þessu fylgdi mikið álag
Eftir árin á DV lá leið Evu í almannatengslin hjá Kynningu og markaði, henni var síðan boðið starf hjá Símanum þar sem hún starfaði í sjö ár, fyrst sem kynningarfulltrúi og síðar sem forstöðumaður almannatengsla.
„Á þessum tíma gekk Síminn í gegnum alvarlegt fjársvikamál, dramatísk forstjóraskipti, misheppnaða sölutilraun og eina sölu. Það fylgdi því mikið álag að taka á móti öllum þessum fréttamiðlum en starfið var mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Eva og brosir.
„Ég skellti mér í MBA nám við HÍ og árið 2006 var mér boðið starf sem forstöðumaður heildsölu Símans. Á þessum tíma var unnið að því að skipta Símanum upp, skilja grunnnetið frá en ég fékk það starf að fara með hinu nýja fyrirtæki, fjarskiptanetinu. Netið fékk síðan nafnið Míla, þar sat ég í framkvæmdastjórn, stýrði mörkunarvinnu, sölu og þjónustumálum.“

Bjartsýn á alþjóðlegt samstarf
Árið 2015 ákvað Eva að stofna sitt eigið fyrirtæki, Podium. Hún veitir ráðgjöf til fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á sviði stefnumótunar, breytingastjórnunar og sjálfbærni auk þess að ritstýra sjálfbærni­skýrslum. Til þess notar hún hina ýmsu staðla sem fyrirtæki hafa verið að innleiða auk innleiðingar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
„Á þessum 10 árum sem liðin eru hefur áhugi á sjálfbærni aukist til muna og fyrirtækin komið auga á tækifærin. Áhersla á þessa þætti skilar samkeppnishæfara umhverfi, skilvirkari rekstri, auknum tekjum af nýsköpun og komið er til móts við kröfur fjárfesta.
Ég er bjartsýn á að með alþjóðlegu samstarfi, vísindum, tækni og pólitískri samstöðu verði hægt að nýta þau tækifæri sem gefast í nýsköpun í sjálfbærnimálum, svo við öll getum endað á góðum stað,“ segir Eva að lokum er við kveðjumst.

„Örlögin í okkar höndum,“ segir Maggi

Næstkomandi sunnudag verður nákvæmlega eitt ár liðið síðan Afturelding komst upp í Bestu deild karla í fótbolta í fyrsta skipti í sögunni eftir sigur í úrslitaleik á Laugardalsvelli.
Sumarið í Bestu deildinni hefur verið skemmtilegt og það hefur verið gaman að sjá frábæran stuðning frá Mosfellingum á heimaleikjum á Malbikstöðinni að Varmá.

Öflugir sigrar á heimavelli í sumar
Afturelding hefur unnið mjög öfluga sigra á heimavelli í sumar og einungis tapað tveimur leikjum. Leikmannahópurinn er mikið til sá sami og komst upp í Bestu deildina í fyrra og ekkert lið í Bestu deildinni hefur teflt fram fleiri uppöldum leikmönnum í sumar.
Það er til marks um frábært barna- og unglingastarf hjá Aftureldingu. Fram undan eru fjórir leikir í úrslitakeppni til að tryggja áframhaldandi sæti í Bestu deildinni.
Klukkan 16 á sunnudag kemur KA í heimsókn á Malbikstöðina að Varmá og verður boðið upp á skemmtilega fjölskyldudagskrá í kringum þann leik. Það hefur sést í úrslitakeppnum undanfarin ár í öllum íþróttum að stuðningsmenn Aftureldingar eru þeir bestu á landinu þegar þeir taka sig til.

KFC býður frítt á völlinn á sunnudaginn
„Það væri geggjað að fá sem flesta rauðklædda áhorfendur á völlinn á sunnudag til að hjálpa strákunum í þessum mikilvæga leik. Gerum þetta saman fyrir Aftureldingu og Mosó. Örlögin eru í okkar höndum – hjálpumst að og tryggjum sætið í Bestu deildinni,“ segir Magnús Már þjálfari Aftureldingar.
Frítt verður á völlinn í boði KFC.

Hvetur hjartahlýja Mosfellinga til að grafa dýpra

„Ég vil hvetja öll þau sem er annt um konurnar í lífi sínu til að grafa dýpra,“ segir Arnar Logi Ólafsson Hólm, framkvæmdastjóri Ljárdals, fyrirtækis sem sérhæfir sig í sölu á vinnuvélum, um uppboð á bleikri gröfu sem hann stendur fyrir nú í september til styrktar Bleiku slaufunni.
Bleika grafan er af gerðinni HT-10 en slík týpa kostar almennt án afsláttar 1,6 milljónir króna. Hæsta boð í vélina er nú milljón krónur, „sem er algjörlega frábært,“ segir Arnar Logi, „en ég hef trú á að í Mosfellsbæ leynist framkvæmdamanneskja með hjartað á réttum stað sem er tilbúin að bjóða enn betur.“ Hver einasta króna fer til Bleiku slaufunnar.
Hann minnir á að það eru fáir dagar til stefnu því sá sem á hæsta boð í lok dags 30. september eignast gröfuna. Hún verður svo afhent við upphaf árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufunnar, í byrjun október.

Viðtökurnar frábærar
„Mínar rætur liggja í Mosfellsdalnum og ég veit að Mosfellingar eru ekki aðeins með stærsta hjartað heldur drífandi og verkglaðir,“ segir Arnar Logi. Bleika grafan, sem er aðeins eitt tonn að þyngd og því lipur og snör í snúningum, er góður vinnufélagi í garðinn eða sumarbústaðalandið.
Fyrirtækið Ljárdalur var stofnað í september 2023 og fagnar nú tveggja ára afmæli. „Viðtökurnar hafa verið hreint út sagt frábærar og við höfum afhent tæplega 200 vinnuvélar af ýmsum stærðum og gerðum,“ segir Arnar Logi sem segist leggja sig fram við að bjóða bestu verðin og veita öllum framúrskarandi þjónustu.

Kílómarkaður á gröfum
„Til að gefa til baka og þakka fyrir okkur ákváðum við að flytja inn bleiku vélina og bjóða hana upp,“ segir Arnar Logi. En hann lætur ekki aðeins þar við sitja. „1.000 krónur kílóið er búið að blunda í okkur lengi,“ segir hann um nýjasta útspil Ljárdals og útskýrir frekar:
„Með styrkingu krónunnar og frábærum afmæliskjörum frá verksmiðjunni okkar getum við boðið viðskiptavinum að kaupa gröfur sem eru frá 1 upp í 2 tonn á 1.000 krónur kílóið!“
Verðið er án VSK. Á kílómarkaði þessum fæst 690.000 króna afsláttur af HT20 gröfunni. „Verðbólga hvað!“

Hér má bjóða í bleiku gröfuna.

Íbúar ánægðir með Í túninu heima 2025

Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, fór fram dagana 28. til 31. ágúst í frábæru veðri. Hátíðin fagnaði 20 ára afmæli sínu í ár og voru um hundrað viðburðir á dagskrá.
Á hátíðinni var að finna hefðbundna dagskrárliði, svo sem brekkusöng í Álafosskvos, flugvéla- og fornbílasýningu á Tungubökkum, götugrill og stórtónleika en þeir voru fluttir fram á sunnudag og haldnir á Hlégarðstúninu.
Vegna mikillar umræðu í aðdraganda hátíðarinnar, um tilfærslu á staðsetningu og tímasetningu á tónleikunum, töldu bæjaryfirvöld mikilvægt að fá fram sjónarmið íbúa í kjölfar hátíðarinnar.

Könnunin opin öllum áhugasömum
Könnunin var opin öllum áhugasömum á vef Mosfellsbæjar, samfélagsmiðlum bæjarins, Bólsins og Mosfellings.
Alls bárust 566 svör. Um 82% þátttakenda mátu fjölbreytni og gæði dagskrár frekar eða mjög góð.
Þegar horft er til þátttöku stóðu ákveðnir viðburðir skýrt upp úr, þar á meðal, stórtónleikarnir (58%), Ullarpartýið í Álafosskvos (50%), fjölskylduvænir viðburðir (45%), götugrillin (42%), Gullgarðurinn við Hlégarð (34%) og tívolíið (33%).

Götugrill fengu aukið svigrúm
Götugrillin skipuðu stóran sess í upplifun íbúa, en 56% svarenda áttu þess kost að taka þátt í götugrilli. Það myndaðist skemmtileg stemning í hverfunum og margir svarenda lýstu ánægju með að hafa nægan tíma til að njóta samverunnar án þess að þurfa að flýta sér á tónleika.
Að auki var mikil ánægja með þá nýbreytni að bjóða upp á trúbadora og pylsur í boði Mosfellsbæjar í götugrillin.

Stórtónleikar færðir á sunnudag
Eins og fram hefur komið var sú breyting gerð á dagskrá hátíðarinnar í ár að flytja stórtónleikana frá laugardagskvöldi til eftirmiðdags á sunnudeginum. Ástæðan var fjöldi gesta undir lögaldri sem voru einir á ferð undanfarin ár og var því markmiðið með nýrri tímasetningu að skapa fjölskylduvæna stemningu og auka rými fyrir götugrillin.
Stór hluti svarenda, eða 64%, telur breytinguna að færa stórtónleikana yfir á sunnudag vera góða. Svarendur töldu að með tilfærslunni hefði hátíðin orðið fjölskylduvænni, afslappaðri og lengt stemninguna yfir helgina.

Ungmennin ekki hlynnt breytingunum
Hins vegar kemur fram að óánægja með breytinguna er meðal yngsta aldurshópsins, 20 ára og yngri, en 82% þeirra telja breytinguna slæma. Skýrar ábendingar komu jafnframt fram í könnuninni um að skort hafi viðburði sem höfði til ungmenna á aldrinum 15-20 ára.
Margir svarenda nefndu einnig veðrið sem lykilþátt í stemningu og jákvæðri upplifun af hátíðinni. Mosfellsbær getur því miður ekki stjórnað sólinni og veðrinu, en hún hjálpaði engu að síður til að gera bæjarhátíðina okkar í ár enn eftirminnilegri.

Niðurstöðurnar nýttar
Regína bæjarstjóri segir að: „Mosfellsbær mun nýta niðurstöðurnar til að efla hátíðina enn frekar. Við sjáum tilefni til að rýna sérstaklega viðburði fyrir ungmennin okkar og munu við gera það í góðu samtali við þau.
Mig langar að koma á framfæri þakklæti til Mosfellinga fyrir virka þátttöku í hátíðinni og fyrir að svara könnuninni, en endurgjöf sem þessi er mikilvæg til að við getum þróað og bætt hátíðina okkar.“

Leikskólinn Hlíð 40 ára

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Ragnheiður Halldórsdóttir fyrrverandi leikskólastjóri, Þrúður Hjelm leiðtogi í leikskólamálum, Steinunn Bára Ægisdóttir leikskólastjóri og Ólöf Kristín Sívertsen sviðsstjóri fræðslu og frístundar.

Ungbarnaleikskólinn Hlíð fagnaði 40 ára afmæli mánudaginn 22. september. Leikskólinn hóf starfsemi sína árið 1985 en varð alfarið ungbarnaleikskóli fyrir börn á aldrinum 1–3 ára frá og með haustinu 2020.
Byggt var við skólann árið 2000 og fór leikskólinn þá úr 430 fermetrum upp í 800 fermetra eins og hann er í dag. Skólastjóri er Steinunn Bára Ægisdóttir og aðstoðarleikskólastjóri Kristín Ásta Jónsdóttir.

Mikilvægi umhyggju í leikskólastarfi
Hugmyndafræði leikskólastarfsins á Hlíð grundvallast á hugmyndum um mikilvægi umhyggju í leikskólastarfi. Umhyggja er leiðarstef Hlíðar og notuð sem regnhlífarhugtak sem nær utan um allt starf leikskólans, allt frá því að taka á móti barni að morgni og til þess að skapa þroskavænlegt námsumhverfi í skólanum.
Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri færði leikskólanum segulkubba fyrir 18 mánaða og eldri og blómvönd að gjöf í tilefni afmælisins.

Hafdís Huld bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2025

Á sérstakri hátíðardagskrá við setningu bæjarhátíðarinnar Í túninu heima var tónlistarkonan Hafdís Huld Þrastardóttir útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Hafdís Huld Þrastardóttir er söngkona og lagahöfundur. Hún hóf feril sinn ung og hefur átt farsælan og fjölbreyttan feril sem spannar yfir þrjá áratugi.
Ferill Hafdísar hófst þegar hún var 15 ára gömul þegar hún gekk til liðs við raftónlistarsveitina GusGus, sem þá var nýtilkomin en varð síðar ein af þekktustu hljómsveitum Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Hún tók þátt í fyrstu plötum sveitarinnar og fór í tónleikaferðir víða um heim. Þrátt fyrir ungan aldur fékk hún mikla reynslu og viðurkenningu á þessum tíma.

Þróaði sinn eigin tónlistarstíl
Eftir nokkur ár í GusGus ákvað Hafdís að einbeita sér að sólóferli og flutti til Bretlands þar sem hún stundaði nám í tónsmíðum og söng við London Collage of Creative Media. Þar þróaði hún eigin tónlistarstíl og hóf að semja lög sem áttu síðar eftir að rata á plötur hennar og annarra listamanna.
Árið 2006 gaf hún út sína fyrstu sólóplötu, Dirty Paper Cup, sem hlaut afar góðar viðtökur, meðal annars Íslensku tónlistarverðlaunin sem plata ársins í flokki popptónlistar. Platan innihélt lög á borð við Tomoko og Plastic Halo sem vöktu mikla athygli fyrir grípandi laglínur og frumlega útsetningu.
Í kjölfarið gaf Hafdís út fleiri plötur, þar á meðal Synchronised Swimmers (2009), Vögguvísur (2012), Barnavísur (2015), Dare to Dream Small (2017) og Við jólatréð (2021)
Vinsælust á streymisveitum
Platan Vögguvísur hefur notið mikilla vinsælda og seldist í yfir 20.000 eintökum. Plötunni hefur verið streymt hvað mest íslenskra platna á streymisveitunni Spotify, og lagið Dvel ég í draumahöll af sömu plötu trónir jafnan á toppinum yfir mest streymdu lög landsins. Önnur lög af sömu plötu njóta jafnframt mikillar hylli.
Hafdís Huld hefur unnið mikið með eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Alisdair Wright, sem sér um upptökur og útsetningar margra laga hennar.

Umhverfið í Mosfellsdal hefur áhrif
Hafdís Huld er búsett í Mosfellsdal og tengist bænum sterkum böndum bæði í starfi og daglegu lífi. Umhverfið í Mosfellsdal hefur haft djúpstæð áhrif á tónlistarsköpun hennar. Platan Home var til að mynda tekin upp að miklu leyti heima hjá henni í dalnum. Hafdís hefur ítrekað talað um hversu miklu það máli skiptir fyrir hana og fjölskyldu hennar að búa í samfélagi þar sem nálægð við náttúru, fjölskylduvænt umhverfi og sköpun fara saman.

Pizzabær?

Það er rafíþróttakvöld í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ (FMOS) í kvöld, fimmtudaginn 25. september. Við, samfélagið, erum að koma á fót rafíþróttastarfi í bænum. FMOS mun bjóða upp á æfingaaðstöðu, Mosfellsbær fjármagnar kaup á búnaði og Rafíþróttadeild Mosfellsbæjar (RafMos) mun halda utan um starfið sjálft. RafMos tekur fagnandi á móti öllum sem vilja taka þátt í starfinu, sérstaklega foreldrum þeirra barna sem vilja æfa rafíþróttir í haust og vetur. Rafíþróttir eru hugaríþrótt eins og skák, en nýstofnað Skákfélag Mosfellsbæjar hefur einmitt hafið æfingar í bænum. Þær fara fram í Varmárskóla á fimmtudögum milli 16:30 og 18:00. Fram að áramótum er frítt á þessar æfingar og allir krakkar að sjálfsögðu velkomnir.

Það má líka segja að borðtennis sé ný íþrótt í Mosfellsbæ, en Borðtennisfélag Mosfellsbæjar stendur nú fyrir reglulegum æfingum í nýjasta íþróttahúsi bæjarins, íþróttahúsinu við Helgafellsskóla. Félagið var áður með æfingar í matsal Lágafellsskóla, en ný aðstaða býður upp á tækifæri til vaxtar. Parkour er sömuleiðis ný íþrótt í Mosfellsbæ, en Fimleikadeild Aftureldingar býður nú upp á æfingar fyrir bæði börn og fullorðna í parkour í fimleikasalnum að Varmá.

Fjallahjólasportið er mjög vaxandi í Mosfellsbæ, enda kraftmiklir frumkvöðlar sem leiða starfið og stuðla að framþróun og tækifærum fyrir unga sem aldna. Mosfellsbær vill vera leiðandi á sviði heilsueflingar fyrir íbúa á öllum aldri og næstu daga verður boðið upp á fallæfingar og fyrirlestra fyrir eldri borgara, göngufótbolta fyrir okkur sem erum miðaldra og megum ekki lengur rennitækla og leikskólaleika fyrir yngstu kynslóðina.

Pizzabær? Nah, ekki lengur, Dóri minn. Í dag erum við íþróttabær. Og við erum rétt að byrja. Við viljum meira. Það er alltaf svigrúm til bætinga. Og við þurfum að hugsa þannig. Horfa til framtíðar og finna leiðir til þess að geta boðið upp á enn fleiri íþróttir í Mosfellsbæ þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 25. september 2025

Hef alltaf sett mér háleit markmið

Cecilía Rán Rúnarsdóttir er ein fremsta knattspyrnukona okkar Íslendinga í dag. Hún steig sín fyrstu skref á ferlinum hjá Þrótti en færði sig svo yfir til Aftureldingar sjö ára gömul. Hún var einungis 16 ára þegar hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik með íslenska landsliðinu, þá nýútskrifuð úr grunnskóla. Í dag er hún aðalmarkvörður liðsins.
Cecilía Rán býr í Mílanó á Ítalíu þar sem hún spilar með stórliðinu Inter Milan. Frammistaða hennar hefur ekki farið fram hjá neinum þar í landi, í maí síðastliðnum var hún valin besti markmaður ítölsku deildarinnar.

Cecilía Rán fæddist í Reykjavík 26. júlí 2003. Foreldrar hennar eru þau Hrund Guðmundsdóttir bókari og Rúnar Þór Haraldsson framkvæmdastjóri.
Systkini Cecilíu eru Birta Líf f. 2008, Alex Þór f. 2010 og Sunna Marín f. 2013.

Mættum með tjald meðferðis
„Ég flyt sjö ára frá Laugardalnum í Reykjavík í Leirvogstunguna í Mosfellsbæ. Á þessum tíma var þetta mikil sveit og ekki mikið af húsum í kringum okkur.
Ég og vinir mínir í hverfinu eyddum næstum öllum okkar tíma á sparkvellinum sem var settur upp í Leirvogstungunni og ein af mínum bestu æskuminningum er þaðan. Við mættum einn daginn með tjald meðferðis og tjölduðum því á grasið fyrir utan völlinn. Spiluðum svo fótbolta allan daginn og langt fram á kvöld, gistum svo í tjaldinu og héldum svo áfram að spila næsta dag. Þetta var alveg ótrúlega gaman,“ segir Cecilía og brosir.

Byrjaði ung í meistaraflokki
„Ég gekk í Varmárskóla og mér fannst alltaf gaman í skólanum. Ég eignaðist marga góða vini sem ég er enn í góðu sambandi við í dag. Kennararnir og starfsfólk skólans voru alveg hreint yndisleg og gerðu skólagönguna enn skemmtilegri.
Ég byrjaði að æfa knattspyrnu hjá Þrótti en færði mig svo yfir til Aftureldingar þegar ég var 7 ára. Á Pæjumótinu í Vestmannaeyjum 2013 setti ég fyrst upp markmannshanskana. Það markaði ákveðin tímamót því þá gerðist eitthvað sem ég get ekki lýst betur en svo að ég tengdi betur við leikinn, síðan þá hef ég spilað í marki.
Ég var þrettán ára þegar ég byrjaði að æfa með meistaraflokki og á sumrin var maður á fullu á æfingum og á leikjum. Ég var líka að þjálfa á fótboltanámskeiðum sem mér fannst mjög gaman.“

Flutti ein síns liðs til Svíþjóðar
Cecilía Rán fór í Verzlunarskóla Íslands eftir útskrift úr gagnfræðaskóla og kláraði þar þrjár annir áður en hún flutti utan til að hefja feril sinn í atvinnumennsku í knattspyrnu. Hún skrifaði undir samning hjá Örebro og fluttist ein síns liðs til Svíþjóðar, einungis 17 ára gömul. Þar stoppaði hún stutt við þrátt fyrir að líka vel en henni bauðst að ganga til liðs við stórliðið Bayern München í Þýskalandi og þangað flutti hún 2022. Þess á milli spilar hún með íslenska landsliðinu.
„Mér leið vel í Örebro enda lífleg borg í hjarta Svíþjóðar en ég þurfti að venjast nýjum hversdagsleika án fjölskyldu og vina, þau voru sem betur fer dugleg að heimsækja mig. Ég var fljót að læra á lífið og tilveruna í borginni en ég viðurkenni alveg að þetta gat tekið á,“ segir Cecilía og brosir.

Allt var svo miklu stærra
„Það var mikil breyting að flytja frá Svíþjóð til Þýskalands. Um leið og ég mætti á fyrstu æfingu hjá Bayern þá fattaði ég hvað allt var miklu stærra. Það var alvöru dæmi að vera komin í raðir þeirra. Ég meiddist svo mjög illa á hné seint á árinu 2023 og var um tíu mánuði að ná mér, þetta var mjög erfiður tími. Vinkona mín sem einnig var að spila með liðinu stytti mér stundir, við vorum duglegar að hittast.
Sumarið 2024 skrifa ég svo undir samning við Inter Milan á Ítalíu þar sem ég bý í dag. Í maí 2025 var ég valin besti markvörður ítölsku deildarinnar sl. vetur, það var mikill heiður. Ég hef nú skrifað undir nýjan samning sem gildir til ársins 2029. Ég er mjög ánægð með að hafa skrifað undir svona langan samning, ég held að það sýni ástríðuna og þá trú sem bæði ég og klúbburinn höfum. Inter hefur náð miklum framförum að undanförnu og ég er stolt af að vera partur af því.
Ég elska Ítalíu, Mílanó er einn besti staður sem ég hef búið á og maturinn hér er á heimsmælikvarða. Veðráttan er líka dásamleg og maður er auðvitað mest úti við.“

Dugleg að ferðast og njóta lífsins
Kærasti Cecilíu til tveggja ára er Róbert Dalmar Gunnlaugsson sjómaður, þau kynntust í gegnum sameiginlega vini. Róbert fer á sjó í þrjár vikur í senn og flýgur svo út til Ítalíu þess á milli.
„Það er alltaf ótrúlega gaman hjá okkur og ég er alltaf jafn spennt að taka á móti honum þegar hann kemur til mín,“ segir Cecilía og brosir. „Við erum dugleg að ferðast og njóta lífsins, elda saman og spila. Það er líka alltaf gaman að skreppa með góðum vinum á kaffihús eða út að borða og sitja í sólinni.“

Þetta voru gríðarleg vonbrigði
Cecilía Rán var stödd á Íslandi í sumar vegna undirbúnings fyrir Evrópumót kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Sviss. 16 þjóðir tóku þátt á mótinu en íslensku stelpurnar áttu opnunarleik gegn Finnum þann 2. júlí.
Draumurinn um að komast áfram var úti eftir leikinn gegn Sviss. Leikurinn fór af stað með krafti enda voru bæði lið staðráðin í að tryggja sér stig. Sviss komst yfir á 76. mínútu og innsiglaði svo 2-0 sigur á 90. mínútu. Völlurinn var þétt setinn enda uppselt á leikinn. Englendingar stóðu svo uppi sem sigurvegarar mótsins eftir sigur gegn Spánverjum.
„Þetta voru auðvitað gríðarleg vonbrigði, við ætluðum okkur áfram, það er bara þannig. Það var yfirlýst markmið okkar en svona er boltinn,“ segir Cecilía aðspurð um mótið. „Við erum óendanlega þakklátar fyrir stuðningsmennina okkar, það voru um 2.000 Íslendingar í stúkunni. Það gefur okkur mikið að finna fyrir þeim, það er bara ekki hægt að lýsa því með orðum.“
Ég spyr Cecilíu Rán að lokum hvar hún sjá sig eftir tíu ár? „Ég hef nú alltaf sett mér háleit markmið, ég ætla mér að verða besti markmaður í heimi.“ Og með þeim orðum kvöddumst við.

Í TÚNINU HEIMA 2025 – DAGSKRÁ

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin 28. til 31. ágúst og fagnar hátíðin 20 ára afmæli í ár. Dagskráin er fjölbreytt og glæsileg að vanda.
Hátíðin verður formlega sett á hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Þá fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar verða umhverfisviðurkenningar.

Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki leggja sitt af mörkum til hátíðarinnar og dagskráin er þannig úr garði gerð að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar prýða hús og garða í litum hverfanna fjögurra og skapa þannig sérstakt svipmót í bænum.

Smelltu hér til að skoða dagskrá bæjarhátíðarinnar (pdf)

 

Þriðju­dag­ur 26. ág­úst

17:00-20:00 Perlað með Krafti
Kraft­ur kem­ur í Hlé­garð og perl­ar arm­bönd með Aft­ur­eld­ingu og Mos­fell­ing­um. Kraft­ur er stuðn­ings­fé­lag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein.
17:00-18:00 Prjóna­skreyt­ing­ar
Kven­fé­lag Mos­fells­bæj­ar skreyt­ir asp­irn­ar við Há­holt í mið­bæ Mos­fells­bæj­ar með hand­verki. Íbú­ar geta tek­ið þátt og kom­ið með það sem þeir eru með á prjón­un­um.

Mið­viku­dag­ur 27. ág­úst

14:00-16:00 Kynn­ing fyr­ir eldri borg­ara
Kynn­ing­ar­fund­ur í Hlé­garði um þá þjón­ustu sem stend­ur til boða í sveit­ar­fé­lag­inu. Þjón­ustu­að­il­ar með kynn­ing­ar­bása og heitt á könn­unni.
16:30-17:30 Uppskeruhátíð sumarlesturs í bókasafninu
Frábært lestrarsumar gert upp á uppskeruhátíð í bókasafninu. Sirkus Ananas stýrir skemmtilegri sirkussmiðju.
17:00-19:00 Opið hús – Amsturdam 7
Magne og Ásta í Icebike taka á móti gestum í splunkunýju hjóla- og gönguskíðaleigunni sinni í Amsturdam 7 (rétt sunnan við Reykjalund).
18:00 Hundahlaup
Hundahlaupið er opið öllum. Farin verður sérstaklega falleg hlaupaleið sem hefst við flötina fyrir neðan Reykjalund. Svæðið opnar kl. 16:00, sameiginleg upphitun hefst kl. 17:45, skemmtiskokk ræst kl. 18:00 og 5 km tímataka ræst kl. 18:30.
19:00-20:30 Ball fyr­ir 5.-7. bekk­
Í tún­inu heima ball í Hlé­garði. Dj og sjoppa á staðnum. 1.000 kr. inn.
21:00-23:00 Ung­linga­ball í Hlé­garði fyr­ir 8.-10. bekk
Í tún­inu heima há­tíð­ar­ball á veg­um
fé­lags­mið­stöðv­ar­inn­ar Bóls­ins. Drullusokkarnir, Partývélin ásamt leyniatriði og Maron Birnir. 2.000 kr. inn.
21:00 Há­tíð­ar­bingó í Bank­an­um
Bingó full­orðna fólks­ins með stór­glæsi­leg­um vinn­ing­um að vanda. Bingó­stjórar: Hilm­ar Mos­fell­ing­ur og Einar Scheving.

Fimmtudagur 28. ágúst

Íbú­ar skreyta hús og göt­ur
– Gul­ur: Hlíð­ar, Höfð­ar, Tún og Mýr­ar
– Rauð­ur: Tang­ar, Holt og Mið­bær
– Bleik­ur: Teig­ar, Krik­ar, Álafosskvos,  Lönd, Ásar, Tung­ur og Mos­fells­dal­ur
– Blár: Reykja- og Helga­fells­hverfi
14:00-18:00 Opið hús lista­fólks í Ála­fosskvos – Traust í túninu heima
Ólöf Björg sýnir valin verk í vinnustofu sinni að Álafossvegi 23, 3. hæð. Gefinn er 20% afsláttur af verkum í gallerírými vegna 20 ára afmælis bæjarhátíðarinnar.
16:00-18:00 Álmholt 10
List-Hrönn Gallerí. Myndlistarsýning. Hrönn Helgadóttir sýnir eigin verk.
16:30 Sápubolti við Hlégarð
Félagsmiðstöðin Ból stendur fyrir Sápubolta á túninu við Hlégarð. 5.-7. bekkur kl. 16:30-17:30 og 13-18 ára kl. 17:30-18:30. Villi Karl flytur lög af nýrri plötu og pylsur í boði fyrir þátttakendur.
Í boði að fara í sund eftir á.
17:00 Há­tíð­ar­dagskrá í Hlé­garði og setning bæjarhátíðar
– Um­hverf­is­nefnd veit­ir um­hverfisvið­ur­kenn­ing­ar Mos­fells­bæj­ar 2025.
– Mos­fells­bær heiðr­ar starfs­fólk sem á 25 ára starfsaf­mæli
– Út­nefn­ing bæj­arlista­manns Mos­fells­bæj­ar 2025
– Heitt á könn­unni og öll vel­komin
17:00-19:00 Opnun listasýningar í Lágafellslaug
Samsýning Bonís og BrummBrumm í anddyri Lágafellslaugar. Til að gera opnunina enn sætari verður boðið upp á ís frá Kjörís og jafnvel Bonís-legar kökur fyrir þá fyrstu sem mæta.
17:00-22:00 Sund­laug­ar­kvöld
Húll­um­hæ og frítt í Lága­fells­laug. Blaðr­ar­inn gleð­ur börn­in kl. 18-20. Dj Bald­ur held­ur uppi stuð­inu. Lalli töframaður kl. 18:30. Wipeout-braut opin fyr­ir yngri krakka kl. 17-18 og fyr­ir þá eldri kl. 18-21. Ís í boði og pylsur og safar til sölu.
18:00 Afturelding – Grótta
Meistaraflokkur kvenna í fótbolta tekur á móti Gróttu á heimavelli.
Frítt inn í boði Malbikstöðvarinnar
­18:00 Fella­hring­ur­inn 
Fellahringurinn verður ræstur frá Varmá kl. 18:00. Hjólað er um stíga og slóða umhverfis fellin í Mosfellsbæ. Boðið er upp á tvo mögulega hringi, litla 15 km og stóra 30 km. Nánari upplýsingar má finna á www.afturelding.is.
19:00 Fræðsluganga og tónleikar
Bjarki Bjarnason leiðir fræðslugöngu meðfram Leiruvogi þar sem áhersla verður lögð á náttúru og sögu svæðisins. Gangan hefst við Harðarból, upplestur á vel völdum stöðum og kvennakórinn Stöllurnar syngur. Í göngulok verður efnt til tónleika við Skiphól í Leiruvogi.
20:00 Bíla­klúbbur­inn Krú­ser
Bíla­klúbbur­inn Krú­ser safn­ast sam­an á bíla­plan­inu við Kjarna. Til­val­ið að kíkja á flott­ar dross­í­ur og klass­íska bíla frá lið­inni tíð. Fjöldi glæsi­vagna á svæð­inu ef veð­ur leyf­ir og er heima­fólk hvatt til að mæta.
20:30 Helga EA2 – Skiphóll
Heiða Árnadóttir flytur verkið Helga EA2 eftir Ásbjörgu Jónsdóttur við Skiphól (sem stendur á bak við hesthúsin við Köldukvísl). Helga EA2 verður flutt í lok fræðslugöngu Bjarka Bjarnasonar.
21:00 Bjartmar Guðlaugsson… & Hipsumhaps í Hlé­garði
Það verður sannkölluð tónlistarveisla þegar Bjartmar Guðlaugsson … & Hipsumhaps stíga á svið saman. Tónlist Bjartmars hefur átt stóran sess í íslenskri tónlistarsögu og nú fær hann félagsskap frá Hipsumhaps. Miðar á Tix.is.
21:00 Ingó Veðurguð í Bankanum
Partýgigg með Ingó í Bankanum fimmtudagskvöld. Miðasala á Tix.is

Föstu­dag­ur 29. ág­úst

07:30 Mos­fells­bak­arí
Mosfellsbakarí verður opið virka daga frá kl. 7:30-17:30, 8:00-16:00 á laugardeginum og 8:30-16:00 á sunnudeginum. Bakkelsi í hverfalitunum til sölu um helgina ásamt öðru góðgæti.
09:00 Nettó Sunnukrika
Nettó verður opið alla daga frá 08:00-21:00. Það verða frábær tilboð á girnilegum grillmat alla helgina.
10:00 og 11:00 Söngvasyrpa Lottu
Elsta ár­gangi leik­skól­anna í Mos­fells­bæ er boð­ið á leik­sýn­ingu í bóka­safn­inu. Leik­hóp­ur­inn Lotta flyt­ur söngvasyrpu sem er stút­full af sprelli, fjöri og söng. Dagskrá í sam­starfi við leik­skól­ana.
10:00 ÍSBAND – Þverholti 6
Opið alla virka daga frá kl. 10-17. Sérstök hátíðaropnun laugardaginn 30. ágúst kl. 12-16. Í sýningarsal verður Avenger, fyrsti alrafmagnaði bíllinn frá Jeep. Jeep Wrangler og Grand Cherokee jepparnir verða á sínum stað sem og RAM 3500 öflugu amerísku pallbíllarnir. Fiat atvinnubílarnir Doblo, Scudo og Ducato eru nú boðnir með veglegum afslætti.
14:00-20:30 Gullgarðurinn Hlégarði
Mat­ur, drykk­ir og af­þrey­ing fyr­ir alla.
Kjúllabarinn, matarvagnar frá Götu-bitanum, veltibíllinn og leiktæki frá Köstulum. Prettyboitjokko kl. 17:00, karamellukast kl. 17:30, og heims-meistaramót í eggjakastseinvígi kl. 18:30.
14:00-18:00 Opið hús lista­fólks í Ála­fosskvos – Trú í túninu heima
Ólöf Björg sýnir valin verk í vinnustofu sinni að Álafossvegi 23, 3. hæð.
16:00-18:00 Álmholt 10 
List-Hrönn Gallerí. Myndlistarsýning. Hrönn Helgadóttir sýnir eigin verk.
16:00-20:00 Opin vinnustofa í Álafosskvos
Opin vinnustofa Sig­fríð­ar Lár­us­­dótt­ur og Lár­usar Þórs Pálma­sonar að Ála­foss­vegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli húss).
16:00 Ævintýragarðurinn
Vígsla á nýju Fjölskyldufjallahjólabrautinni í Ævintýragarðinum. Hjóladeild Aftureldingar og hjólavinir á svæðinu.
16:00-18:00 FM95Blö í beinni
Útvarpsþátturinn FM95Blö er sendur út í beinni útsendingu á FM597 frá Kjúllanum í Hlégarði. Mosfellingurinn Steindi Jr. fer fyrir sínum mönnum og góðir gestir líta við.
17:00-19:00 Glíma á Hlégarðstúni
Glímufélag Reykjavíkur býður öllum að taka þátt eða fylgjast með glímuæfingu. Það geta allir komið og kynnt sér krakkaglímuna og grunnnámskeið fullorðinna sem verður á dagskrá í haust.
19:00-23:00 Hamarsteigur 
Pop-up fatamarkaður í botnlanganum við Hamarsteig. Peysur og bolir hannaðir undir merkinu 270.
19:00-23:00 Álafossvegur 27
Opið hús í keramikstúdíóinu Studio Esja.
19:00-23:00 Kaffihús Mosverja
Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar verð­ur með kaffi­hús í Skál­an­um í Ála­fosskvos. Rjúkandi heitt kakó eða kaffi ásamt ýmsu góðgæti.
19:00-22:00 Súpu­veisla Frið­riks V 
Mat­reiðslu­meist­ar­inn Frið­rik V og vinir galdr­a fram kraft­mikla kjötsúpu í Álafosskvos ásamt ljúffengri fiskisúpu og dásemdar vegan-súpu. All­ur ágóði fer til endurbóta á skáta­heim­ili Mosverja
20:00 Sinfó í sundi
Stórtónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða sýndir í beinni útsendingu í innilaug Lágafellslaugar.
20:15 Íbú­ar safn­ast sam­an á Mið­bæj­ar­torgi
Gul­ir, rauð­ir, bleik­ir og blá­ir. Öll hvött til að mæta í lopa­peysu. Skrúð­ganga leggur af stað kl. 20:30. Hesta­manna­fé­lag­ið Hörð­ur leið­ir göng­una með vösk­um fák­um.
21:00-22:30 Ullarpartý í Ála­fosskvos
Brekku­söng­ur og skemmti­dagskrá. Lúðrasveit Mosfellsbæjar ásamt eldri nemendum Skólahljómsveitar Mosfellsbæjar tekur á móti gestum. Una Torfa tekur nokkur lög og Sprite Zero Klan hitar upp brekkuna. Björgunarsveitin Kyndill kveik­ir á blys­um. Hilm­ar Gunn­ars og Gústi Linn stýra brekku­söng.
20:00-00:00 Dj Gassi í Bankanum
Dj Gassi heldur uppi stemningunni í Bankanum og leynigestur mætir á svæðið.
22:00-02:00 MOSÓ ALL-STARS ásamt Doctor Victori
Kjúllinn kynnir partý af gamla skólanum þar sem okkar skærustu Mosfellingar stíga á svið. Fram koma: Steindi Jr., Slææ, Þrándur og Númi, Jóndi, Ólafía &co, Axel og Jökull Andréssynir, Gummi og Guddi, Anna Lilja o.fl. Miðar á Tix.is

Laug­ar­dag­ur 30. ág­úst

– Frítt í Varmár­laug
– Frítt á Gljúfra­stein
– Tív­olí við Mið­bæj­artorg alla helg­ina (að­göngu­mið­ar seld­ir á staðn­um)
8:00-20:00 Golf­klúbbur Mosfellsbæjar
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helg­ina.
9:00-16:00 Tinda­hlaup­ið
Nátt­úru­hlaup sem hefst í Fellinu við Íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Ræst verð­ur í tveim­ur rás­hóp­um, 5 og 7 tind­ar kl. 9:00, 1 tind­ur og 3 tind­ar kl. 11:00.
Tinda­hlaup Mos­fells­bæj­ar er í boði Nettó. Skráning á hlaup.is.
9:30-10:30 Opin fjölskylduæfing
Vala og Gaui bjóða öllum áhugasömum um hreyfingu á opna hreystiæfingu á útiæfingasvæði þeirra að Engjavegi 12. Foreldrar, takið börnin með!
10:00-17:00 Frítt á Gljúfra­stein
Frítt inn á Gljúfrastein laugardaginn 30. ágúst frá kl. 10-17. Gestum verður boðið að ganga um húsið og skoða sýninguna Skrýtnastur er maður sjálfur sem er í móttökunni á Gljúfrasteini.
10:40-16:00 Íslandsmótið í motocross
Síðasta umferðin í Íslandsmótinu í motocross verður haldin í MotoMos í Leirvogstungu. Keppt er í ýmsum flokkum, þar á meðal unglingaflokkum og opnum kvennaflokki. Aðgangur ókeypis og sjoppan verður opin, allar tekjur renna beint til Kyndils sem stendur vaktina.
11:00-11:30  Brúðubíllinn í Álafosskvos
Lilli og Dúskur fara til Dúskalands. Þar hitta þeir Dúskamömmu og dónadúskinn.Tröllið undir brúnni og geiturnar þrjár munu láta sjá sig og dýrin í Afríku.
11:30-13:30 Andlitsmálun 
Andlitsmálun í Kvosinni fyrir káta krakka.
11:00-16:00 Bílskúrssala Hjallahlíð
Bílskúrinn í Hjallahlíð 15 verður opinn.
11:00-17:00 Bílskúrssala Barrholti 5
Allt mjög ódýrt. Föt og skór á alla fjölskylduna. Heimilisvörur, leikföng, bækur og ýmislegt úr bílskúrnum.
11:00-17:00 Loppumarkaður í Kjarna
Loppumarkaður snýr aftur og verður haldinn í Kjarna, Þverholti 2, fyrir framan bókasafnið. Alvöru markaðsstemning.
11:00-16:00 Hús­dýra­garð­ur­inn á Hraðastöðum
Í Mosfellsdal er dýragarður með hin ýmsu húsdýr sem hægt er að klappa. Aðgangseyrir 1.300 kr. og frítt fyrir 2 ára og yngri. Boðið er upp á að teyma undir börnum kl. 13 og 15 fyrir auka 500 kr.
12:00-17:00 Gullgarðurinn Hlégarði
Kjúllabarinn og leiktæki frá Köstulum á sínum stað. KFC bitar í boði frá opnun. Leikir sýndir á risaskjá, Grimsby Town – Bristol Rovers og Man. United – Burnley.
12:00-16:00  Álafossvegur 27
Opið hús í keramikstúdíóinu Studio Esja.
12:00-16:00 Svið í Álafosskvos
12:00 Atli trúbador stjórnar brekkusöng fyrir yngstu kynslóðina.
13:00 Rotturnar (hljómsveit)
13:30 Drullusokkarnir (rafdúett)
14:00 Galdrakarlarnir frá Mos (hljómsveit)
14:30 Gleym mér ei (acoustic dúett)
15:00 Aftur í tímann (hljómsveit)
15:30 Annað (hljómsveit)
Nemendur frá Danssporinu koma fram milli hljómsveita.
12:00 Hópakst­ur um Mos­fells­bæ
Fergu­son­fé­lag­ið stend­ur fyr­ir hópakstri drátt­ar­véla og forn­bíla. Lagt af stað frá Tungu­bakkaflug­velli og keyrt um bæ­inn.
12:00-16:00 Verslun Ásgarðs 
Ásgarður handverkstæði veitir fötluðum einstaklingum vinnu og þjónustu. Í verslun Ásgarðs má til dæmis finna falleg tréleikföng, skrautmuni, töskur og veski og ýmsar vörur fyrir heimilið.
12:00-17:00 Wings and Wheels
Fornbílar, flugvélar og dráttarvélar verða til sýnis á Tungubakkaflugvelli.
13:00-15:00 Íþróttahús Helgafellsskóla
Opið hús í íþróttahúsinu. Hægt verður að prófa þær íþróttir sem verða æfðar í húsinu í haust og vetur – badminton, borðtennis og körfubolta – og fulltrúar frá Aftureldingu og Borðtennisfélagi Mosfellsbæjar verða á svæðinu.
13:00-15:00 Leikskólinn Sumarhús Vefarastræti 2-6
Opið hús í nýjasta leikskólanum í Mosfellsbæ – Sumarhúsum. Hér gefst tækifæri til að skoða nýtt og fallegt húsnæði sem er hannað með þarfir barna og starfsfólks í huga þar sem umhverfið er bjart, hlýlegt og skapandi.
13:00-16:00  Verkstæði Ásgarðs
Listasmiðja Ásgarðs í græna bragganum við brúna. Gestum og gangandi stendur til boða að vera með í að gera listaverk sem sett verður upp í bænum.
13:00-15:00 Hamrahlíð Vinna og virkni  Skálahlíð 9 (Skálatún)
Opið hús og markaður í Hamrahlíð Vinnu og virkni þar sem alls konar handgerðir hlutir verða til sölu.
13:00 Kvennakórinn Stöllur og gestir 
Kvennakórinn Stöllur heldur tónleika fyrir utan Bæjarleikhúsið. Auk kórsins koma fram söngvararnir Ari Kristján Bjarkason, Lea Björk Bjarkadóttir og Eydís Ósk Sævarsdóttir, ásamt gítarleikurunum Ólafi Haraldi og Þóreyju Kristjönu.
13:00-14:00 Hesta­fjör
Teymt und­ir börn­um á Stekkj­ar­flöt­inni í boði Hesta­mennt­ar.
13:00-15:00 Bókasafnið
Náttúrukórónusmiðja með Þykjó.
13:00-17:00 Opin vinnustofa – Reykjavegur 84
Helga Jóhannesdóttir myndlistarkona býður bæjarbúa og aðra gesti hjartanlega velkomna á opna vinnustofu sína að Reykjavegi 84. Sölusýning á málverkum og keramiki. Léttar veitingar verða í boði.
13:00 Gallerí Hvirfill í Mosfellsdal
Bjarki Bjarnason kynnir tvær nýjustu bækurnar sínar sem eru  Gröf minninganna (skáldsaga) og Myndarleg ljóð  (ljóða- og ljósmyndabók). Bækurnar verða til sölu á bæjarhátíðarverði.
13:00-17:00 Karl­ar í skúr­um 
Opið hús að Skála­hlíð 7A, Litla­hlíð, á svæði Farsældartúns (áður Skála­túns). Margs kon­ar verk til sýn­is. Út­skurð­ur, tálg­un, renn­ismíði, mód­el­smíði, flugu­hnýt­ing­ar o.fl. Kaffi og með­læti.
14:00-17:00 Opin vinnustofa – Hlíðartúni 3 
Vinnustofa opin gestum og gangandi. Helga sýnir verk unnin úr blandaðri tækni. Allir velkomnir.
14:00-18:00 Opið hús lista­fólks í Ála­fosskvos – Frelsi í túninu heima
Ólöf Björg sýnir valin verk í vinnustofu sinni að Álafossvegi 23, 3. hæð.
14:00 Kjarni
Varmárkórinn tekur lagið í Kjarna.
14:00-18:00 Opin vinnustofa 
Opin vinnustofa Sig­fríð­ar Lár­us­­dótt­ur og Lár­usar Þórs Pálma­sonar að Ála­foss­vegi 23, 4. hæð (lyfta á gafli húss).
14:00-16:00 Kjúk­linga­festi­val
Stærstu kjúk­linga- og mat­væla­fram­leið­end­ur lands­ins kynna af­urð­ir sín­ar, selja og gefa smakk við íþróttamið­stöð­ina að Varmá. Mat­ur og skemmt­un fyr­ir alla.
14:00-17:00 Stekkj­ar­flöt 
Frítt fyr­ir káta krakka í hoppu­kastala.
15:00 Álmholt 10 – Mosfellingar bjóða heim 
Tenórarnir þrír. Hrönn og Davíð bjóða til óperutónleika á lóðinni við Álmholt 10. Tenórarnir þrír mæta fullir af lofti og söng. Léttar kaffiveitingar og límonaði.
16:00-18:00 Álmholt 10
List-Hrönn Gallerí. Myndlistarsýning. Hrönn Helgadóttir sýnir eigin verk. Kaffiveitingar.
15:00-16:00 Afmæliskaka 
Mosfellsbær og Mosfellsbakarí bjóða upp á afmælisköku í bakaríinu í tilefni 20 ára afmælis bæjarhátíðarinnar. Frítt fyrir
alla afmælisgesti hátíðarinnar.
15:00 Reykjabyggð 33 – Mosfellingar bjóða heim
Garðtónleikar, Ingibjörg Hólm syngur nokkur af sínum uppáhalds lögum.
16:00-18:00 Súluhöfði 21 – Mosfellingar bjóða heim
Hljómsveitin Less Is More spilar lög frá 9. áratugnum sem flestir ættu að kannast við.
16:00 Hvíti Riddarinn tekur á móti KF
Knattspyrnulið Hvíta Riddarans spilar mikilvægan leik gegn KF. Með sigri færist liðið nær því að komast upp í 2. deild. Leikurinn fer fram að Varmá.
16:00 Akurholt 21 – Mosfellingar bjóða heim  
Fjölskyldan Akurholti 21 býður í tónlistarveislu. Stormsveitin ásamt Þóri Úlfarssyni stígur á stokk með vel valin lög úr öllum áttum. Einnig mætir hljómsveitin Alto sem spilar út öllum sínum trompum.
16:30 Kara­mellukast
Kara­mellukast á Tungu­bakkafluvelli.
17:00 Túnfótur – Mosfellingar bjóða heim
Blúshljómsveit Þorkels Jóelssonar og félaga heldur tónleika á garðpallinum í Túnfæti í Mosfellsdal. Verið velkomin.
18:00-21:00 Götugrill
Íbú­ar í Mos­fells­bæ halda götugrill í vel skreytt­um göt­um bæj­ar­ins.
20:00 Sundlaugarbíó í Lágafellslaug
Bíósýning í innilauginni. Frítt í sund 19:00-22:00.
21:00-02:00 Stórd­ans­leik­ur
Afturelding stendur fyrir Pallaballi í Hlégarði. Alvöru stuð og stemning. Húsið opnar kl. 21 og tryllt orka frá upphafi eins og Palli kann best. 20 ára aldurstakmark og miðasala á MidiX.is.
21:00 – 00:00 Ljósasýning á Helgafelli
Helgafell uppljómað í hverfalitunum. Stórbrotið listaverk sem sést víða að.

Sunnu­dag­ur 31. ágúst

8:00-20:00 Golf­klúbbur Mosfellsbæjar
Tveir fyr­ir einn af vall­ar­gjaldi á golf­vell­in­um í Bakka­koti í Mos­fells­dal um helg­ina.
9:30-11:00 Opinn fjölskyldutími 
Fyrsti opni fjölskyldutími vetrarins í íþróttahúsinu að Varmá. Ætlað börnum á grunnskólaaldri og allri fjölskyldunni. Leikir, íþróttir, boltar, borðtennis, fimleikar, dans og margt fleira. Frítt í sund fyrir alla fjölskylduna að tímanum loknum.
9:00-17:00 Tungu­bakkar
Fót­bolta­mót Aft­ur­eld­ing­ar og Gæða-baksturs, 7. og 8. flokk­ur karla og kvenna.
11:00-17:00 Bílskúrssala Barrholti 5
Allt mjög ódýrt! Föt og skór á alla fjölskylduna. Heimilisvörur, leikföng, bækur og ýmislegt úr bílskúrnum.
11:00-16:00 Hús­dýra­garð­ur­inn á Hraðastöðum
Í Mosfellsdal er dýragarður með hin ýmsu húsdýr sem hægt er að klappa. Aðgangseyrir 1.300 kr. og frítt fyrir 2 ára og yngri. Boðið er upp á að teyma undir börnum kl. 13 og 15 fyrir auka 500 kr.
12:00-16:00 Matarmarkaður í Álafosskvos
Framleiðendur sýna, segja frá og selja. Spennandi markaður með góðum mat beint frá framleiðendum.
13:00 Skákmót í Kjarna
Nýstofnað skákfélag Mosfellsbæjar stendur fyrir skákmóti þar sem teflt verður um titilinn Skákmeistari Mosfellsbæjar. Tefldar verða 7 umferðir með tímamörkunum 7 mínútum á mann.
13:00-17:00 Álmholt 10
List-Hrönn Gallerí. Myndlistarsýning. Hrönn Helgadóttir sýnir eigin verk. Kaffiveitingar.
13:00-17:00 Karl­ar í skúr­um
Opið hús að Skála­hlíð 7A, Litla­hlíð, á svæði Farsældartúns (áður Skála­túns). Margs kon­ar verk til sýn­is. Út­skurð­ur, tálg­un, renn­ismíði, mód­el­smíði, flugu­hnýt­ing­ar o.fl. Kaffi og með­læti.
14:00 Leirutangi 53 – Mosfellingar bjóða heim
Ungar hljómsveitir úr Listaskóla Mosfellsbæjar spila ábreiður af þekktum rokk- og poppslögurum.
14:00 Afturelding – FH í Bestu deild
Heimaleikur á Malbikstöðinni að Varmá. Afturelding er í harðri baráttu í Bestu deild karla. Stemning á heimaleikjum í sumar hefur verið mögnuð.
14:00-16:00 Opið hús á slökkvi­stöð­inni
Slökkvi­stöðin við Skar­hóla­braut verð­ur til sýn­is fyr­ir há­tíð­ar­gesti. Gest­um býðst að skoða bíla, tæki og bún­að slökkvi­liðs­ins í bíla­sal. Hinn ástsæli Bjössi brunabangsi kíkir í heimsókn. Öll vel­komin.
15:00 – Skógræktin Hamrahlíð
Gjöf Mosfellsbæjar í tilefni af 70 ára afmæli Skógræktarfélagsins afhúpuð. Gjöfin er nýtt grill í Hamrahlíðarskóginum og á því verða grillaðar pylsur og vonandi mæta sem flestir og eiga saman góða stund í skóginum.
16:00 Valdimar á stofutónleikum  
Síðustu stofutónleikar sumarsins á Gljúfrasteini. Þá mun enginn annar en tónlistamaðurinn og söngvarinn Valdimar Guðmundsson koma fram í stofunni og flytja lög úr ýmsum áttum. Aðgangseyrir er 3.900 kr. og miðar seldir á staðnum.
17:00-19:00 Stórtónleikar á Hlégarðstúni
Skemmt­un fyr­ir alla fjöl­skyld­una þar sem Mos­fells­bær býð­ur upp á stór­tón­leika á Hlégarðstúni. Fram koma: Bestu lög barnanna, Sylvía og Árni, GDRN, Klara Einars, Emmsjé Gauti og VÆB.
Kynnar verða Mosfellingarnir Steindi og Dóri DNA.
20:00 Kvöld­messa
Kvöldmessa í Lágafellskirkju. Sr. Arndís G. Bernhardsdóttir Linn og sr. Guðlaug Helga Guðlaugsdóttir þjóna fyrir altari. Organisti er Bjarmi Hreinsson.

 

Í túninu heima 20 ára

Kvenfélagskonur undirbúa árlegar skreytingar í miðbænum.   Mynd: RaggiÓla

Bæjarhátíðin Í túninu heima verður haldin 28. til 31. ágúst og fagnar hátíðin 20 ára afmæli í ár. Dagskráin er fjölbreytt og glæsileg að vanda.
Hátíðin verður formlega sett á hátíðardagskrá í Hlégarði á fimmtudegi. Þá fer fram útnefning bæjarlistamanns og veittar verða umhverfisviðurkenningar.

Allir taka þátt
Íbúar, félagasamtök og fyrirtæki leggja sitt af mörkum til hátíðarinnar og dagskráin er þannig úr garði gerð að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Mosfellingar prýða hús og garða í litum hverfanna fjögurra og skapa þannig sérstakt svipmót í bænum. Líkt og undanfarin ár verður hægt að njóta fjölda góðra tónleika í görðum bæjarins, en „Mosfellingar bjóða heim“ er eitt af sérkennum hátíðarinnar. Listamenn bæjarins taka einnig þátt með því að opna vinnustofur sínar og bjóða gesti velkomna.
Í garðinum við Hlégarð verður glatt á hjalla á föstudag og kjörið að staldra þar við áður en skrúðgangan leggur af stað frá Miðbæjartorgi með hestamannafélagið Hörð í fararbroddi. Leiðin liggur í Ullarpartý í Álafosskvos, þar sem Mosfellingar sameinast í brekkusöng. Björgunarsveitin Kyndill kveikir á blysum og baðar kvosina í bleikum lit.
Eftir að hafa notið fjölbreyttrar dagskrár vítt og breitt um bæinn á laugardag safnast íbúar Mosfellsbæjar í götugrill í skreyttum götum bæjarins. Í tilefni af 20 ára afmæli hátíðarinnar styrkir Mosfellsbær skipuleggjendur götugrilla með pylsum og pylsubrauðum, auk þess sem trúbadorar munu sjá um að skapa stemningu. Þegar fer að dimma geta bæjarbúar séð Helgafell uppljómað í hátíðarbúning.

Breytingar á fjölskyldutónleikunum
Einn af hápunktum hátíðarinnar hefur verið sá að Mosfellingum og gestum þeirra er boðið á fjölskyldutónleika á bæjartorginu. Í ár var ákveðið að flytja fjölskyldutónleikana frá laugardagskvöldi til seinni parts á sunnudegi og halda þá á Hlégarðstúninu. Tilgangur þess er að leitast við að brjóta upp það mynstur sem sést hefur síðastliðin tvö til þrjú ár. Frá árinu 2022 hefur fjöldi gesta undir lögaldri sem voru einir á ferð í Mosfellsbæ aukist verulega. Sú þróun náði hápunkti í fyrra sem kallaði á aukna löggæslu, kaup á öryggisgæslu, aukna viðveru barnaverndarstarfsmanna og athvarf fyrir þá unglinga sem þurftu aðstoð.
Þessi breyting hefur vakið upp ólík viðbrögð meðal bæjarbúa, en markmiðið er að tryggja jákvæða og fjölskylduvæna stemningu á hátíðinni.

Heilsueflandi hátíð að vanda
Að vanda eiga íþróttir sinn mikilvæga sess á dagskrá hátíðarinnar.
Tindahlaup Mosfellsbæjar er eitt vinsælasta utanvegahlaup landsins. Tindahlaupið er samstarfsverkefni Mosfellsbæjar, Björgunarsveitarinnar Kyndils og blakdeildar Aftureldingar.
Fellahringurinn verður haldinn í sjöunda sinn, en í honum er hjólað um stíga og slóða umhverfis fellin í Mosfellsbæ.
Hundahlaupið fer fram í annað sinn í Mosfellsbæ, en markmið þess er að kynna öðruvísi nálgun á útivist með hundum.
Ný fjölskyldufjallahjólabraut verður opnuð í Ævintýragarðinum og þá verður haldið skákmót í Varmárskóla en opnar skákæfingar hefjast þar nú í haust. Fótboltamót Aftureldingar og Gæðabaksturs fyrir 7. og 8. flokk karla og kvenna verður haldið á Tungubökkum.
Þá verður síðasta umferðin í Íslandsmótinu í motocross haldin í hinni stórkostlegu braut MotoMos í Leirvogstungu.

Fyrir börn og ungmenni
Margt verður um að vera fyrir börnin á bæjarhátíðinni.
Sirkus Ananas stýrir skemmtilegri sirkussmiðju á uppskeruhátíð sumarlesturs bókasafnsins á miðvikudag, og á laugardag verður ÞYKJÓ með skemmtilega smiðju í bókasafninu þar sem ungir sem aldnir geta föndrað náttúrukórónur.
Brúðubíllinn sýnir í Álafosskvos, teymt undir börnum og hoppukastalar á Stekkjarflöt.
Slökkvistöðin við Skarhólabraut verður til sýnis og gestum býðst að skoða bíla, tæki og búnað slökkviliðsins í bílasal.
Ýmislegt er á dagskrá sem er ætlað ungmennum. Í Hlégarði verður slegið upp tveimur böllum, fyrir miðstig og efsta stig grunnskóla. Félagsmiðstöðin Ból stendur fyrir sápubolta á túninu við Hlégarð en sá viðburður sló í gegn í fyrra. Ungum hljómsveitum gefst kostur á að flytja tónlist sína á sviði í Álafosskvos á laugardag.

Buslandi bæjarhátíð
Í Lágafellslaug verða fjórir spennandi viðburðir. Sundlaugarkvöldið býður upp á skemmtun fyrir alla aldurshópa með Blaðraranum, Lalla töframanni og DJ Baldri. Í anddyri laugarinnar opnar samsýning Bonís og BrummBrumm. Stórtónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða sýndir í beinni útsendingu í innilaug Lágafellslaugar á föstudagskvöld og boðið verður í sundlaugarbíó á laugardagskvöld.
Mosfellsbær og Mosfellsbakarí bjóða upp á ljúffenga afmælisköku í tilefni 20 ára afmælis bæjarhátíðarinnar fyrir utan Mosfellsbakarí á laugardag.

 

Hér má sjá dagsrá hátíðarinnar í heild sinni. 

Samstaða um það mikilvægasta

Ég var að lesa Líf á jörðinni okkar. Bókin kom út fyrr á þessu ári, höfundurinn, David Attenborough, er ekki nema 99 ára, kýrskýr og hvetjandi. Bókin sem ég las á undan henni, Lífið í skóginum (Walden), eftir Henry David Thoreau, kom fyrst út árið 1854 – fyrir tveimur góðum mannsöldrum. Báðar fjalla í grunninn um það sama. Mikilvægi óspilltrar náttúru fyrir allt líf á jörðinni, þar á meðal okkar mannfólksins. Og þau lífsgæði sem felast í einfaldleikanum. Við hvorki þurfum né getum haldið endalaust áfram að hlaupa hraðar og hoppa hraðar – jörðin okkar þolir ekki endalausan vöxt. Það er löngu ljóst og vel útskýrt af Attenborough. En hann er líka maður lausna og leiða og útskýrir í seinni hluta bókarinnar hvað við getum, eða öllu heldur, verðum að gera til þess að byggja aftur upp jafnvægi á jörðinni.

Við þurfum að horfa á stóru myndina og vera samstíga í að gera það sem skiptir mestu máli. Við verðum að vera tilbúin til þess að gera breytingar. Breytingar eru fyrir mörgum það versta í heimi. Hlutirnir hafa alltaf verið svona og þess vegna verða þeir að vera svona áfram. Af því bara. Flugeldar eru eitt lítið dæmi – og ég veit að ég er á hálum ís hér. Framleiðsla þeirra krefst málma, efnasalta og annarra hráefna sem eru unnin með jarðefnavinnslu sem hefur sín umhverfisáhrif. Við sprengingarnar losna svifryk, málmagnir og gastegundir út í andrúmsloftið. Við bætist ruslið sem fylgir flugeldunum, pappír, plast og málmar. Ég elska sjónarspilið og hljóðin sem fylgja flugeldum, en er tilbúinn að breyta til, finna aðra leið til að fagna tímamótum og vinna þannig með óspilltri náttúrunni, ekki á móti henni. Ég styð líka þá ákvörðun að breyta bæjarhátíð til þess að gera hana fjölskylduvænni og vinalegri, þannig bætum við samfélagið. Fögnum breytingum til hins betra.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 26. ágúst 2025

Hef alla tíð verið tengd náttúrunni

Jóhanna B. Magnúsdóttir garðyrkjufræðingur lét draum sinn rætast árið 2011 þegar hún stofnaði Ræktunar- og fræðslusetur að Dalsá í Mosfellsdal. Þar eru kjöraðstæður bæði til ræktunar og námskeiðahalds, í jaðri höfuðborgarsvæðisins, upp í sveit en þó nærri þéttbýlinu.
Markmiðið með starfsemi setursins er að aðstoða fólk við að tengjast náttúrunni, efla lífræna ræktun í heimilisgörðum og að reka gróðrarstöð með lífræna grænmetisframleiðslu.

Jóhanna Borghildur er fædd í Reykjavík 31. ágúst 1946. Foreldrar hennar eru þau Steinunn Jóhannsdóttir húsmóðir og Magnús Björgvin Sveinsson bílstjóri og bóndi. Systkini Jóhönnu eru Júlíana f. 1945, Sveinn f. 1948, Kristján Már f. 1951 og Ingibjörg f. 1958.

Góðar minningar frá Snæfellsnesi
„Fyrstu árin mín bjuggum við fjölskyldan á Laugateigi í Reykjavík en ég var einnig mikið hjá afa mínum og ömmu á Syðra Lágafelli á Snæfellsnesi. Mínar allra sterkustu æskuminningar eru þaðan, við að gefa hænunum og haninn dálítið fúllyndur, leika mér við heimalninginn eða taka þátt í heyskapnum á túninu og út á engjum.
Ég var oft send með kaffið út á engjar, þá kíkti maður ofan í mógrafirnar þó ég hafði verið vöruð við og horfði á brunnklukkurnar dýfa sér ofan í vatnið. Ég fékk svo að sitja á hestunum á leiðinni heim, milli heybagganna.
Minningin um sólmyrkvann 1954 fellur mér seint úr minni, afi hafði sett sót á gler sem við notuðum til að horfa á sólina hverfa smám saman, þetta fannst mér spennandi.”

Við systkinin tókum öll þátt
„Foreldrar mínir stofnuðu nýbýlið Norðurbrún í Reykholti í Biskupstungum. Fljótlega reistu þau tvö gróðurhús þannig að ég er því að hluta til alin upp í gróðurhúsi,” segir Jóhanna og brosir. Í kringum íbúðarhúsið byggði mamma upp glæsilegan heimilisgarð sem við systkinin tókum þátt í að vinna við.
Ég var átta ára þegar ég byrjaði í barnaskólanum í Reykholti, ég naut mín vel þar, góð kennsla og frábær félagsskapur. Við krakkarnir lékum okkur úti í frímínútum þangað til Óli Möller skólastjóri blés í flautuna sína sem merki um að nú skyldi kennsla hefjast á ný.
Lítil sundlaug var í Reykholti á þessum tíma og það leið varla sá dagur að við færum ekki að synda og leika okkur þar.
Lífið á sumrin gekk út á að sinna búskapnum á Norðurbrún, sækja kýrnar, snúa heyinu, naglhreinsa timbur og sækja mjólkurbrúsana. Ég fór síðan í Héraðsskólann á Laugarvatni og eftir útskrift hóf ég störf hjá Kaupfélagi Árnesinga á Selfossi.”

Farsæl ár í Tungunum
Jóhanna kynntist eiginmanni sínum, Birni Halblaub, árið 1963. Þau eiga þrjá syni, Magnús f. 1964, Ágúst f. 1968 og Torfa f. 1972. Barnabörnin eru níu.
„Fyrstu árin bjuggum við í Reykjavík og líf mitt snerist þá mest um það að sinna börnum og heimilinu en ég starfaði einnig á leikskólanum Drafnarborg. Við færðum okkur svo um set og fluttum austur í Biskupstungur. Þar rak maðurinn minn vélaverkstæði og ég sinnti gróðurhúsunum, ræktaði þar tómata, gúrkur og kálplöntur og einnig sumarblóm til framhaldsræktunar.
Eftir farsæl sjö ár í Tungunum fluttum við í Mosfellssveitina, það var árið 1976. Þegar drengirnir okkar voru komnir á unglingsaldur þá skildu leiðir okkar Björns.”

Hefur gert margt á lífsins leið
Jóhönnu hafði alltaf dreymt um að fara í nám og lét verða af því að fara í öldungadeild Hamrahlíðarskóla og útskrifaðist sem stúdent 1990. Sama ár útskrifaðist hún af umhverfisbraut frá Garðyrkjuskóla ríkisins en hún hefur allt tíð verið mikið tengd náttúrunni.
Jóhanna hefur gert margt á lífsins leið og hefur haft mikla ánægju af að vinna með fólki. Áhugasvið hennar er fyrst og fremst á sviði umhverfismála og ræktunar í víðum skilningi og að fræða fólk um náttúruna.
Hún var ráðin sem fyrsti umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs og gegndi því til ársins 1993. Hún hefur verið ötul í baráttu fyrir náttúruvernd og stofnaði ásamt félögum sínum Sjálf­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­boðaliðasamtök um náttúruvernd. Einnig starfaði hún hjá Náttúruverndarráði, Landvernd, Tilraunastöð Háskólans á Keldum og sem ferðamálafulltrúi fyrir Skaftárhrepp. Árið 2003 réðst Jóhanna til starfa hjá Garðyrkjufélagi Íslands sem framkvæmdarstjóri. Hún hefur einnig starfað við móttöku ferðamanna til landsins.
Jóhanna hefur ferðast mikið um hálendið bæði akandi og gangandi og tengst því sterkum böndum. Síðastliðna áratugi hefur hún verið að hjálpa fólki við að efla tengsl sín við náttúruna, vernda ósnortna náttúru og rækta grænmeti.

Félagsskapurinn mikils virði
„Þegar ég fór að leita að stað til að búa á í sveit, en þó nærri þéttbýlinu, þá var ég svo heppin að Dalsá í Mosfellsdal var til sölu. Núna í vor eru 32 ár síðan ég flutti á þennan draumastað.
Fyrstu árin starfaði ég annars staðar en ákvað svo að starfa eingöngu við framleiðslu grænmetis og fræðslu um matjurtarækt. Það var góð ákvörðun á sínum tíma en svo fyrir nokkrum árum hugsaði ég hvort ekki væri kominn tími á að hætta að rækta eitthvað annað en garðinn minn. Ég hef reyndar alltaf ræktað garðinn minn, sama hvar ég hef búið,” segir Jóhanna og brosir.
Niðurstaðan var að ræktun grænmetis og alls kyns jurta væri óaðskiljanlegur partur af lífi mínu. Ég ákvað því að bjóða vinkonum mínum að rækta í hluta af matjurtagarðinum mínum. Við værum þá saman að ala upp plöntur frá fræi til uppskeru og ræktum þá um leið félagsskapinn sem er mér mikils virði.”

Hefur mikla ánægju af að syngja
Það hefur alla tíð verið hluti af lífi Jóhönnu að sinna félagsstörfum. Hún hefur setið í stjórn FaMos, félags aldraðra í Mosfellsbæ, síðan 2019 og í febrúar sl. tók hún við sem formaður félagsins. Hún hefur einnig mikla ánægju af að syngja, var í Reykjalundarkórnum um tíma en er núna í Vorboðunum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og hefur verið formaður kórsins frá 2020. Hún hefur einnig starfað sem verkefnastjóri á vegum bæjarins.
Ég spyr Jóhönnu að lokum um önnur áhugamál en sönginn? „Hannyrðir og hvers kyns sköpun er einnig stórt áhugamál hjá mér. Ég er með vefstól í stofunni og hef verið að jurtalita garn til vefnaðar. Bókagerð hefur líka alltaf heillað mig og nú á síðustu árum hefur gerð vatnslita úr íslensku grjóti gripið mig og í framhaldi af því fór ég að læra vatnslitun.
Hversdagurinn minn snýst nú orðið um félagsstörf hér í Mosfellsbænum og að rækta garðinn minn hér á Dalsá, það er alltaf nóg um að vera,” segir Jóhanna og brosir er við kveðjumst.

Nýtt sam­komulag fel­ur í sér þreföld­un hjúkr­un­ar­rýma

Samkomulag sem undirritað var þriðjudaginn 1. júlí felur í sér þreföldun hjúkrunarrýma í Mosfellsbæ.
Reisa á nýtt hjúkrunarheimili í bænum með 66 hjúkrunarrýmum en þar eru í dag 33 rými. Alls verða því 99 hjúkrunarrými í Mosfellsbæ.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, undirrituðu samkomulagið í sól og blíðu utan við hjúkrunarheimilið Hamra við Langatanga. Áætlað er að nýja heimilið verði reist sem tengibygging við Hamra.

Stefnt að opnun árið 2028
„Ég er mjög ánægð með þessa miklu fjölgun hjúkrunarrýma og þann samning sem við vorum að undirrita,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar. „Viðbyggingin er staðsett á einstaklega fallegri lóð og hér vonum við að framtíðaríbúar fái notið gæðaþjónustu.“
Mosfellsbær útvegar ríkinu lóðina og á næstunni verður auglýst eftir uppbyggingaraðila sem mun sjá um eignarhald og framkvæmdir gegn langtímaleigusamningi við ríkið. Miðað er við að framkvæmdir hefjist árið 2026 þannig að taka megi hjúkrunarrýmin í notkun árið 2028. Öll herbergin verða einbýli með baðherbergi.

Nýr samningur markar tímamót
Að sögn Regínu þá markar nýr samningur tímamót þar sem 15% þátttaka sveitarfélagsins við uppbygginguna fellur niður en ríkið sér alfarið um uppbyginguna og jafnframt að sveitarfélögum verði heimilt að innheimta gatnagerðargjöld af lóðum fyrir hjúkrunarheimili.
Að lokinni undirritun gróðursettu ráðherra og bæjarstjóri broddhlyn sem mun vaxa samhliða uppbyggingunni við Hamra.

Ávísun á fleiri ævintýri

Styrktarmótið Palla Open var haldið fimmta árið í röð í byrjun júní.
Mótið fer stækkandi ár hvert og er orðið stærsta golfmót sinnar tegundar hér á landi. Að þessu sinni voru það 244 kylfingar sem tók þátt og ríkti mikil gleði á Hlíðarvelli þennan dag í blíðskaparveðri.
Framlag Golfklúbbs Mosfellsbæjar er til fyrirmyndar en allt þátttökugjald rennur beint til málefnisins og jafnframt gefur klúbburinn alla sína vinnu í tengslum við mótið.

Draumurinn að byggja nýtt hús
Á síðustu fimm árum hefur Palla Open safnað um 16 milljónum til styrktar góðum málefnum. Stærstur hluti af þessum fjármunum hefur runnið til Reykjadals. Palla Open hefur keypt fjóra útivistarhjólastóla sem hafa heldur betur nýst vel.
Þá hafa fjölmargir styrktaraðilar gefið glæsilega vinninga í gegnum árin.
Framlag Palla Open styrkir starfsemi, uppbyggingu og aðstöðu í Reykjadal, þar sem vinátta, ævintýri og þátttaka eru í forgrunni. „Draumurinn er að byggja nýtt hús í Reykjadal,“ segir Palli Líndal sem er stórhuga.

Á myndinni eru þau Ágúst, Andrea, Bergljót, Kári, Palli og Hlín með afrakstur síðustu þriggja ára.

Nýr leikskóli í Helgafellshverfi

Berg­lind Grét­ars­dótt­ir, leik­skóla­stjóri Sum­ar­húsa, Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri, Magnús Þór Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Al­efl­is, Aldís Stef­áns­dótt­ir bæj­ar­full­trúi og formað­ur fræðslu- og frí­stunda­ráðs og Svein­björg Dav­íðs­dótt­ir, leik­skóla­stjóri Hlað­hamra.

Mos­fells­bær fagnaði opn­un nýs og glæsi­legs leik­skóla í Helga­fellshverfi þann 30. júní en hann hefur fengið nafnið Sum­ar­hús.
Opn­un leik­skól­ans er stór og mik­il­væg­ur áfangi í bættri þjón­ustu við börn og fjöl­skyld­ur í sveit­ar­fé­lag­inu. Leik­skól­inn er sér­stak­lega hann­að­ur og byggð­ur með þarf­ir barna og starfs­fólks að leið­ar­ljósi.

Efla þjónustu við yngstu íbúa bæjarins
„Þessi dag­ur mark­ar mik­il­væg tíma­mót fyr­ir Mos­fells­bæ, af­hend­ing og vígsla nýs og glæsi­legs leik­skóla,“ seg­ir Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri. „Við erum ein­stak­lega ánægð með sam­vinnu við verk­taka­fyr­ir­tæk­ið Al­efli sem hef­ur stað­ið við all­ar tíma­setn­ing­ar og skil­ar af sér glæsi­legu verki.
Með opn­un Sum­ar­húsa er stig­ið stórt og mik­il­vægt skref í að fjölga leik­skóla­rým­um og efla þjón­ustu við yngstu íbúa bæj­ar­ins og halda þann­ig áfram að gefa börn­um allt frá 12 mán­aða aldri kost á leik­skóla­plássi.“

150 leik­skóla­pláss í Sum­ar­hús­um
Leik­skól­inn Sum­ar­hús er fyr­ir börn á aldr­in­um 1–5 ára og rúm­ar 150 börn. Frá hausti munu um 60 börn ásamt starfs­fólki frá leik­skól­an­um Hlað­hömr­um dvelja þar tíma­bund­ið á með­an unn­ið er að fram­tíð­ar­lausn fyr­ir Hlað­hamra sem varð að loka í vet­ur vegna skemmda á hús­næði.
Leik­skóla­stjóri Sum­ar­húsa er Berg­lind Grét­ars­dótt­ir. Starfs­menn verða um 45 tals­ins í 40 stöðu­gild­um og vel hef­ur geng­ið að ráða í helstu lyk­il­stöð­ur í leik­skól­an­um.

Heilsu­stefn­an að leið­ar­ljósi
Starf Sum­ar­húsa bygg­ir á Heilsu­stefn­unni, þar sem áhersla er lögð á nær­ingu, hreyf­ingu og sköp­un í leik.
„Við hlökk­um mik­ið til að taka á móti þeim börn­um sem hefja skóla­göngu sína í Sum­ar­hús­um að loknu sum­ar­leyfi,“ seg­ir Berg­lind Grét­ars­dótt­ir, leik­skóla­stjóri í Sum­ar­hús­um. Jafn­framt verð­ur spenn­andi að sjá starf­ið þró­ast og dafna og leik­skól­ann verða einn af mátt­ar­stólp­un­um í skóla­sam­fé­lagi Mos­fells­bæj­ar.“

Bjart, nútímalegt og vistvænt
Sum­ar­hús er í nýju og sér­hönn­uðu hús­næði í Helga­fellshverfi sem er í senn bjart, nú­tíma­legt og vist­vænt.
Hug­mynda­fræð­in að baki hönn­un hús­næð­is­ins er að leik­skól­inn verði hag­kvæm­ur í rekstri, að hljóð­vist, lýs­ing og loft­gæði verði sem best og bygg­ing­in í heild sinni falli þann­ig að um­hverfi sínu að auð­velt sé að tengja sam­an skólast­arf, nátt­úru, um­hverfi og sam­fé­lag.

Alefli skilaði fyrir áætluð verklok
Kanon arki­tekt­ar sáu um hönn­un húss­ins og var vinn­an leidd af arki­tekt­un­um Hall­dóru Krist­ínu Braga­dótt­ur og Mos­fell­ingn­um Þor­keli Magnús­syni. Verk­fræði­hönn­un var í hönd­um Tekn­ik ehf. og VSÓ ráð­gjöf sá um bygg­inga­stjórn­un.
Mos­fellska verk­taka­fyr­ir­tæk­ið Al­efli ehf. sá um bygg­ingu leik­skól­ans og gekk vinn­an það vel að verktak­inn skil­aði hús­næð­inu af sér fyr­ir áætluð verklok.