Fyrsti Mosfellingur ársins

Fyrsti Mosfellingur ársins 2026 er dásamleg stúlka sem fæddist á Akranesi kl. 21.34 þann 1. janúar og mældist 3.726 gr og 51 cm. Foreldrar hennar eru þau Stefanía Katrín Einarsdóttir og Magnús Veigar Ásgrímsson. Þau hafa búið í Mosfellsbæ í eitt ár ásamt hundinum Heklu.
„Ég var sett þann 31. desember en fór svo í gangsetningu á nýársdagsmorgun, verkirnir fóru að koma um kl. 18, við vorum komin upp á Skaga rétt fyrir kl. 20 og hún fæðist svo um einum og hálfum tíma síðar. Mosfellingurinn Hafdís Rúnarsdóttir var ljósmóðirin okkar og hún var alveg yndisleg,“ segir Stefanía.

Þetta er allt skrifað í skýin
„Við erum alveg rosalega ánægð hérna í Mosfellsbæ og hlökkum til að ala dóttur okkar upp hérna. Við höfum smá tengingu í Mosó og í fyrrahaust tókst okkur að smygla okkur í KALEO ferð Aftureldingar til Lissabon, eftir þá ferð vorum við alveg ákveðin í að hér vildum við búa. Viku eftir heimkomu var tilboði tekið í þessa íbúð, við fluttum hérna inn í kringum áramótin og skelltum okkur svo á þorrablótið. Við uppgötvuðum svo um páskana að von væri á dömunni og svo fær hún titilinn fyrsti Mosfellingur ársins, þetta er allt skrifað í skýin,“ segir stoltur faðirinn Magnús Veigar.

Mosfellingur ársins 2025

Mosfellingur ársins 2025 er Jökull Júlíusson, söngvari og lagahöfundur mosfellsku hljómsveitinnar KALEO.
„Að fá þennan titil Mosfellingur ársins er stærsti heiður sem ég hef fengið á ferlinum, ég er þakklátur fyrir að tilheyra þéttum kjarna Mosfellinga og gaman að sjá hvernig meðbyrinn og samstaðan hefur þróast hérna undanfarin ár. Mér þykir mjög vænt um bæinn minn og alltaf gott að koma heim,“ segir Jökull sem á undanförnum árum hefur verið 250–300 daga á ári á tónleikaferðalögum þar sem KALEO hefur verið með um 100 tónleika á ári um allan heim.
Jökull segir það forréttindi að hafa alist upp í Mosfellsbæ og er ánægður með hve vel hefur tekist að halda í bæjarbraginn í samfélaginu þrátt fyrir fólksfjölgun á undanförnum árum.

Gott samstarf með Aftureldingu
KALEO hefur verið í samstarfi með knattspyrnudeild Aftureldingar síðan 2021, verið með merkið sitt framan á búningum liðanna og haldið fjölmörg styrktarkvöld.
„Það hefur verið virkilega gaman og gefandi að fá að taka þátt í samfélaginu á þennan hátt. Ég hef markvisst verið í Aftureldingartreyjunni á tónleikum um allan heim. Treyjan er eftirsótt og við erum að vinna í því þessa dagana að geta haft hana til sölu þegar við erum að spila og stutt félagið með þeim hætti. Þetta verkefni hefur verið ótrúlega gott fyrir Mosóhjartað.“

Mosfellingar fjölmennt á tónleika
„Það er með skemmtilegri upplifunum á ferlinum hjá mér þegar Mosfellingar fjölmenna á tónleika hjá okkur. Að upplifa að um 200 Mosfellingar taki yfir einhverja borg í Evrópu, það er algjörlega einstakt. Allir í Aftureldingartreyjum, Mosfellingar á öllum aldri og mættir til að hafa gaman, maður fær alveg Mosó í æð. Við reynum að skipuleggja það þannig að við getum gefið okkur tíma í hitta hópinn. Það verða klárlega farnar fleiri svona ferðir og ég hvet Mosfellinga til láta svona viðburð ekki fram hjá sér fara.“

Góðgerðarkvöldið Rauðu jólin
Jökull hefur á undanförnum árum staðið fyrir góðgerðarviðburði á aðventunni í Hlégarði sem nefnist Rauðu jólin. Þar rennur allur ágóði til góðs málefnis.
„Ég er lítið heima en reyni að nýta tímann vel þegar ég kem heim og hóa þá gjarnan saman fjölskyldu og vinum. Það var orðinn fastur liður í kringum jólin að hittast, ég fékk svo liðs við mig gott fólk til að gera þennan viðburð stærri og láta gott af mér leiða til samfélagsins. Það hefur gengið ótrúlega vel og skemmtileg kvöldstund þar sem allir mæta í jólapeysu og hafa gaman. Svo er náttúrulega einstakt að fá að gera þetta í Hlégarði sem er að mínu mati hjartað í Mosfellsbæ.“

Ágóðinn í geðheilbrigðisúrræði
„Í ár veittum ég og Róbert Wessman vinur minn Skólahljómsveit Mosfellsbæjar styrk upp á þrjár milljónir til hljóðfærakaupa en þess má geta að Róbert lék með sveitinni á sínum yngri árum. Ágóði kvöldsins sem var fjórar milljónir rann svo til Grænuhlíðar fjölskyldumiðstöðvar sem sérhæfir sig í geðheilbrigðisúrræðum fyrir börn og unglinga og fjölskyldur þeirra.
Við stefnum á að halda þessu áfram og ég er mjög stoltur yfir því hvað við náum að safna miklu og vonandi náum við að vekja athygli og umtal um þau málefni sem við erum að styrkja í hvert sinn.“

Með mörg járn í eldinum
Þó að mikið sé að gera hjá Jökli þá er hann með nokkur ástríðuverkefni á kantinum, hann hefur á undanförum árum tekið þátt í vínrækt og framleiðslu, hannað skartgripi og fleira.
„Tónlistin er samt alltaf númer 1, 2 og 3 og hún krefst mikils af mér, ég er að semja öll lögin, útset þau og tek upp sjálfur, það er mikill tími sem fer í lagasmíð og plötugerð. Mér finnst mjög mikilvægt eftir að hafa verið mikið erlendis á undanförnum árum að geta komið heim og fá að vera hluti af svona samfélagi, því að ræturnar verða enn þá sterkari í fjarverunni,“ segir Jökull að lokum.
Þess má geta að KALEO stefnir á að halda stórtónleika á Íslandi næsta sumar sem gætu orðið í líkingu við vel heppnað Vor í Vaglaskógi sem sló í gegn síðastliðið sumar.

Útskrifuð frá framhaldsskólanum

Útskriftarhátíð Framhaldsskólans í Mosfellsbæ fór fram 19. desember við hátíðlega athöfn í húsnæði skólans við Bjarkarholt 35.
Alls voru 13 nemendur brautskráðir. Af félags- og hugvísindabraut voru brautskráðir tveir nemendur og einn af náttúruvísindabraut. Af opinni stúdentsbraut – almennu kjörsviði voru brautskráðir fimm nemendur og af íþrótta- og lýðheilsukjörsviði einn nemandi. Fjórir nemendur voru brautskráðir af umhverfis- og líffræðibraut.
Við athöfnina voru flutt tónlistaratriði frá nemendum tónlistarskólans í Mosfellsbæ en hefð er fyrir því að nemendur tónlistarskólans flytji tónlist við góðar undirtektir á útskriftarhátíðum skólans enda um áralangt farsælt samtarf að ræða á milli skólanna. Fulltrúi kennara hélt ræðu fyrir hönd starfsmanna og einnig hélt nýstúdent ræðu fyrir hönd útskriftarnema.
Í ræðu nýráðins skólameistara Kristjáns Arnar Ingasonar sem hóf störf í desember sl. kom m.a. fram ósk um bjarta framtíð til handa útskriftarnemum og nauðsyn þess að gefa sér góðan tíma til að íhuga næstu skref í lífinu. Að lokum var útskriftarnemendum óskað til hamingju með áfangann og óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Þetta er staða sem ég óska engum að vera í

Þorsteinn Hallgrímsson kerfisfræðingur var með þeim fyrstu til að veikjast af Covid-19 hér á landi. Hann er einn af þúsundum Íslendinga sem glíma við langtímaafleiðingar veikindanna og er í dag óvinnufær.
Í einlægu viðtali við Ruth Örnólfsdóttur segir hann frá æskuárunum í Vestmannaeyjum, golfferlinum og veikindunum sem hafa tekið virkilega á, bæði andlega og líkamlega.

Þorsteinn fæddist í Vestmannaeyjum 13. september 1969. Foreldrar hans eru þau Ásta María Jónasdóttir fiskverkakona og Hallgrímur Júlíusson netagerðameistari.
Systkini Þorsteins eru Júlíus f. 1973 og Þóra f. 1976.

Fórum út til að skoða eldsumbrotin
„Ég ólst upp í Vestmannaeyjum og mín fyrsta æskuminning er gosnóttin 23. janúar 1973. Þá fór pabbi með mig út og upp á hól sem var við húsið okkar til að skoða eldsumbrotin, ég skildi ekkert í því sem var að gerast.
Hús foreldra minna er vestarlega í bænum og fór því ekki undir hraun eins og um fjögur hundruð hús gerðu. Fjölskylda mín flutti aftur til Eyja um haustið sama ár.“

Öll eyjan eitt leiksvæði
„Að alast upp í Eyjum voru forréttindi þar sem öll eyjan er eitt leiksvæði. Eftir 1980 þegar að mestu var búið að hreinsa öskuna úr bænum þá var alltaf nóg að gera. Við vorum að spranga, ganga á fjöll, fara á árabát út í Löngu eða spila fótbolta og golf.
Í kringum tíu ára aldurinn var ég byrjaður að aðstoða við að rekja í nálar á netaverkstæðinu Net hf. hjá Júlla afa og að aðstoða mömmu við að dreifa salti yfir síld þegar saltað var í tunnur í Hraðfrystistöðinni.
Við peyjarnir byrjuðum um tólf ára aldur að vinna í Fiskimjölsverksmiðju Vestmannaeyja þar sem þorskhausum var sturtað, gellan skorin af þorskinum og svo seld í fiskbúðina heima í Eyjum sem seldi svo áfram til hótela í borginni á margfalt hærra verði en við fengum greitt fyrir kílóið. Í minningunni var hægt að vinna sér inn mikla peninga á þennan hátt.“

Kaus að vera heima að æfa mig
„Ég gekk í Grunnskóla Vestmannaeyja, það var skemmtilegur tími sem einkenndist af leik og gleði með skólasystkinum mínum. Í frímínútum var spilaður fótbolti á milli árganga.
Ég æfði fót- og handbolta frá sex ára aldri með Tý sem var annað af tveimur íþróttafélögum í Eyjum þangað til liðin sameinuðust undir merki ÍBV. Ég var níu ára gamall þegar ég byrjaði að spila golf og hef gert það síðan. Ég náði fljótlega ágætis tökum á golfíþróttinni og voru því öll sumur frátekin fyrir golf og fótbolta. Á meðan foreldrar mínir fóru með systkini mín til Spánar þá kaus ég að vera frekar að vera heima að æfa mig,“ segir Þorsteinn og brosir.
„Ég útskrifaðist frá Framhaldsskóla Vestmannaeyja sem sveinn í netagerð og vann hjá fjölskyldufyrirtækinu Net hf. frá því ég var þrettán ára þangað til ég lenti í vinnuslysi 1993. Í kjölfarið varð ég að skipta um starfsvettvang og lauk námi í forritun og kerfisfræði í kringum aldamótin.“

Þetta var mikill heiður
Þorsteinn var 18 ára þegar hann hætti í boltanum og þá tók golfið alveg yfir. Hann var einungis fimmtán ára þegar hann var valinn í 21 árs landsliðið í golfi og lék með öllum yngri landsliðum til 21 árs aldurs. Þá byrjaði hann með karlalandsliðinu og spannar ferill hans frá árinu 1984-2000. Hann sigraði nokkrum sinnum á Íslandsmótum í unglingaflokknum sem og í sveitakeppni með liði Golfklúbbs Reykjavíkur.
„Að vera afreksmaður í íþróttum er mikil vinna en jafnframt mikill heiður. Besti árangur sem við náðum í karlalandsliðinu var Norðurlandameistaratitill árið 1992 og undanúrslit á Evrópumótinu 1996. Ég varð Íslandsmeistari í höggleik 1993 og sigraði einnig á Íslandsmótinu í holukeppni 1997.“

Best að búa í Mosfellsbæ
Eiginkona Þorsteins er Ingibjörg Valsdóttir, hún starfar hjá dómsmálaráðuneytinu auk þess sem hún vinnur sem þýðandi, ritstjóri og rithöfundur. Börn þeirra eru Kristín María f. 1998 og Valur f. 2001. Kristín María er í sambúð með Theodór Emil Karlssyni og þau eiga tvær dætur, Steinunni Eddu og Emmu Sif. Valur er í sambúð með Birnu Einarsdóttur og saman eiga þau þrjú börn, Natan Leó og Maron Kára Viktorssyni og Ástrós Birtu.
„Ég flutti í Mosfellsbæinn til Ingu árið 1997, við keyptum okkur hús hér og erum ekkert á förum, hér er best að búa,“ segir Þorsteinn og brosir.

Þetta voru erfið ár
„Eftir að námi mínu lauk vann ég við að sjá um tölvukerfi Viðskipta og tölvuskólans og kenndi þar á Office-forritin og Windows stýrikerfi. Ég starfaði einnig í Lágafellsskóla í nokkur ár við að reka tölvukerfi skólans og það var mjög skemmtilegur tími. Þar kynntist ég vel starfsfólkinu og mörgum krökkum sem ég hef fylgst með áfram, hvort sem það er í gegnum íþróttir, tónlist eða annað.
Ég færði mig svo um set til fyrirtækis sem hét Þekking og sá þar um rekstur tölvukerfa fyrir fyrirtæki. Tíminn hjá Þekkingu var frábær og á ég marga vini frá tíma mínum þar. Þrátt fyrir að vera í vinnu þá fór mikill tími fyrir utan vinnutíma í að sjá um golfmót fyrir fyrirtæki, fararstjórn í golfferðum og lýsingar í sjónvarpi frá golfmótum.
Ég lét af störfum hjá Þekkingu 2008 en það sama ár bauðst okkur Ingu að ganga inn í eigendahóp golfverslunarinnar Hole In One. Við stukkum á það og sáum fyrir okkur að það væri kannski hægt að prófa að vera eingöngu í vinnu við það sem snérist um golf. Það var erfitt að ganga í gegnum bankahrunið, við náðum að halda fyrirtækinu gangandi til ársins 2016 en þá skelltum við í lás eftir erfið ár. Þá lá leið mín aftur til Þekkingar þar sem ég starfaði til ársins 2020.“

Stór hópur fólks í sömu sporum
Fyrsta tilfellið af Covid-19 á Íslandi greindist 28. febrúar 2020 en sjúkdómsins varð fyrst vart í heiminum í Kína í lok árs 2019. Algengustu einkennin líkjast helst inflúensusýkingu, beinverkir, hálsbólga, hiti og hósti. Ýmsum öðrum einkennum hefur þó verið lýst, m.a. tapi á bragð- og lyktarskyni og meltingarfæratruflunum.
„Eins og margir muna þá var þessi Covid-19 tími skrýtinn, við Inga greindumst bæði í mars 2020, urðum mjög veik og erum enn að glíma við eftirköst veikindanna, hvort á sinn hátt. Ég þurfti að leggjast inn á kórónuveirudeild Landspítalans en slapp við gjörgæsluna. Nokkrum vikum eftir spítalaleguna vaknaði ég einn daginn algjörlega orkulaus, lyktar- og bragðskyn var farið og svo var ég með heilaþoku. Staðan mín er enn svona, það er skrítið að borða án þess að finna lykt eða bragð en það venst, nú horfi ég bara á áferð og framsetningu.
Inga nær að stunda sína vinnu en gerir ekki nálægt því sömu hluti og hún gerði áður en hún veiktist og ég er í dag óvinnufær. Það er stór hópur fólks þarna úti sem er í sömu sporum og við, því miður,“ segir Þorsteinn alvarlegur á svip.

Þurfti að byrja rólega í uppbyggingunni
„Eftir að hafa reynt að snúa aftur til vinnu nokkrum sinnum sumarið 2020 þá var nokkuð ljóst að þessi veikindi voru meira en einhver flensa. Ég ákvað að prófa að fara á Heilsustofnunina í Hveragerði á meðan ég beið eftir að komast inn á Reykjalund. Fyrstu tvær vikurnar í Hveragerði voru mjög lærdómsríkar og maður lærði margt um sjúkdóminn, verkefni mín voru eingöngu að hvíla og sofa.
Mér fannst þetta mjög skrítið, ég svaf mjög mikið þessar tvær vikur, eins og ég hafði í raun gert líka heima. Munurinn var sá að þegar ég var heima þá var ég alltaf að gera of mikið sem gerði það að verkum að ég lá í rúminu svo dögum skipti af því að ég var svo útkeyrður. Á Heilsustofnuninni var mér bent á að ég þyrfti að hvíla mig vel áður en hægt væri að byrja rólega á uppbyggingunni. Þetta var mjög skrítið fyrir einstakling sem hefur alltaf verið mjög virkur, hvort sem er í vinnu, leik eða félagsstarfi. Þetta kom hreinlega af sjálfu sér því það var engin orka eftir til að gera neitt, hvort sem það var að vinna, fara í búðina eða sinna heimilisverkum.“

Flest verk komin í hendur annarra
„Á Heilsustofnuninni þurfti ég að fara í próf þar sem skoðað var hvort ég gæti mögulega verið með ME eða síþreytu. Það kom svo í ljós að ég er með ME og hef verið að glíma við það síðan. Ég fékk ákveðnar leiðbeiningar og vitneskju um hver einkennin væru. Þau eru meðal annars einbeitingarleysi, hægari hugsun, orkuleysi, örmögnun, höfuðverkur og of lítil eða mikil svefnþörf. Við það að fá þessar upplýsingar þá var auðveldara að sætta sig við stöðu mála, það er að segja að geta ekki hluti sem ég gat gert áður. Í dag hitti ég sálfræðing og sjúkraþjálfara og það er sú skipulagða meðferð sem ég er í.
Að veikjast af því sem virðist vera langvarandi sjúkdómur er mikil breyting á lífi einstaklings og ekki síður fjölskyldunnar. Flest verk sem ég gerði áður eru nú komin í hendur annarra í fjölskyldunni. Það tekur virkilega á andlega að geta ekki gert þessa hluti lengur, þetta er staða sem ég óska engum að vera í.“

Orkan mín er búin á þessum tíma
„Það má ekki gleyma því að það velur sér enginn að lenda í langvarandi veikindum eða verða fyrir slysi sem breytir aðstæðum einstaklingsins og fjölskyldunnar. Það er því mjög mikilvægt að styðja við þann sem lendir í veikindunum en ekki ætlast til þess að viðkomandi geri það sama og fyrir veikindin, því það er bara ekki raunhæft. Það þurfa allir í fjölskyldunni að hjálpast að.
Það sem mig langar til að geta gert er að hafa orku til að leika við barnabörnin, mæta aftur til vinnu, hugsa um húsið okkar og lóðina, svo ég tali nú ekki um að þurfa ekki að vera kominn upp í rúm klukkan 20:00 flest kvöld vikunnar. Orkan mín er hreinlega búin á þessum tíma þrátt fyrir að ég leggi mig yfir daginn.
Á hefðbundnum degi vakna ég um klukkan 8:00 og jafna mig smá stund. Klukkutíma síðar fer ég í Lágafellslaug þar sem pottarnir bíða mín, bæði heiti og kaldi. Ég fer þrisvar sinnum í kalda pottinn í hverri sundlaugarferð og er í pottinum í 40 sekúndur. Ég lærði að í mínu tilfelli þá skiptir meira máli að fara oftar í kalda pottinn heldur en að vera lengi, það hef ég tileinkað mér síðan. Ég fer svo heim til að hvíla mig eftir sundið, geng svo um nágrennið ef orka mín leyfir og á mínum góðu dögum þá fer ég aftur í Lágafellslaug seinni partinn og geri það sama og um morguninn. Klukkan 20:00 er ég svo kominn upp í rúm, þá er komin nótt hjá mér.“

Þakklátur fyrir það sem ég get gert
„Ég hef oft verið spurður að því af hverju ég fái mér ekki heitan og kaldan pott heim. Fyrir utan fjárhagslegan kostnað þá skiptir það mig miklu máli að fara í laugina, hitta fólk og eiga skemmtilegt spjall.
Það sem ég er búinn að læra á þessum næstum 6 árum í mínum veikindum er að ég verð aldrei sá Þorsteinn sem ég var 2020. Heldur er ég ánægður með þann Þorstein sem ég er núna, og ég er sáttur við hann. Ég er þakklátur fyrir það sem ég get gert á hverjum degi sem getur verið mjög misjafnt milli daga. Ég einbeiti mér að því að gera hluti sem gleðja mig því andleg heilsa er það sem skiptir mestu máli núna. Ég spila snóker og golf og reyni að stunda þessar íþróttir eins mikið og orka mín leyfir.
Við Inga erum lánsöm að börnin okkar búa með sínum fjölskyldum hér í Mosfellsbæ og því stutt að heimsækja þau. Fjölskylda mín stendur þétt við bakið á mér og ég á ekki orð til að lýsa þakklæti mínu til þeirra. Ég hef heyrt því miður af of mörgum einstaklingum í svipaðri stöðu og ég þar sem skilningur nánustu fjölskyldu er ekki nógu góður og andleg heilsa verður mjög erfið sem leggst enn frekar á alla í fjölskyldunni.“

Það skiptir máli að tilheyra
„Hluti af því að halda andlegri heilsu skiptir mig mjög miklu máli, það er að tilheyra og því er ég að aðstoða nokkra afrekskylfinga og miðla af minni reynslu og það er mjög gefandi.
Þegar læknavísindin verða búin að finna hvernig á að vinna á þessum eftirköstum af Covid-19 veirunni þá ætla ég ekki að vera búinn að þróa með mér andleg veikindi og erfiðleika heldur vera tilbúinn að ná heilsu á ný,“ segir Þorsteinn og brosir er við kveðjumst.

Sækist ekki eftir oddvitasæti

Ásgeir Sveinsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ hefur ákveðið að sækjast ekki eftir 1. sæti á lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
Ásgeir hefur setið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá árinu 2018. „Ég brenn fyrir velferð Mosfellsbæjar og vil halda áfram að láta gott af mér leiða. Ég ætla því að halda áfram í pólitíkinni og taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í maí 2026. Ég mun bjóða mig fram í 6. sæti listans,“ segir Ásgeir.

Nýtt og breytt hlutverk
„Ég er þakklátur fyrir traustið sem ég hef notið á líðandi kjörtímabili og það öfluga samstarf sem við á D-lista höfum byggt upp undanfarin ár. Við höfum náð góðum árangri saman, unnið af ábyrgð að málefnum Mosfellsbæjar, og sýnt að sterk liðsheild, fagmennska og samtakamáttur er lykillinn að góðum árangri.
Í ljósi þess að nýr og öflugur frambjóðandi í oddvitasæti hjá okkur á D-lista í Mosó hefur nú stigið fram, aðili sem ég ber fullt traust til, hef ég ákveðið að sækjast ekki eftir oddvitasætinu í prófkjörinu að þessu sinni.
Þekking mín og reynsla í sveitarstjórnarmálum er eitthvað sem ég vil leggja áfram af mörkum í nýju og breyttu hlutverki á næsta kjörtímabili, en til þess þurfum við að ná háleitum markmiðum í kosningunum í vor, sem er meirihluti í bæjarstjórn.“

Hlakkar til komandi tíma
„Fái ég stuðning í 6. sæti listans í prófkjörinu verður krefjandi og spennandi markmið í komandi sveitarstjórnarkosningum í vor að halda sæti mínu í bæjarstjórn, þar sem reynsla mín og þekking mun áfram nýtast vel.
Ég hlakka til komandi prófkjörs og kosningabaráttu og vona að ég njóti stuðnings D-lista fólks þann 31. janúar.“

Hver er Mosfellingur ársins 2025?

Val á Mosfellingi ársins 2025 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í 21. sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, KALEO, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson, Hilmar Elísson, Sigmar Vilhjálmsson, Elva Björg Pálsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir, Dóri DNA og Magnús Már Einarsson.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2026, fimmtudaginn 8. janúar.

 

Viljayfirlýsing vegna fyrirhugaðrar ullarsýningar í Álafosskvos

Þann 5. desember var undirrituð viljayfirlýsing milli Mosfellsbæjar og Desjamýri 11 ehf. um opnun nýrrar sýningar um sögu ullariðnaðarins í Álafosskvos.
Samhliða voru kynntar fyrirhugaðar endurbætur á verslun og nýrri veitingasölu sem stendur til að opna þar og gert er ráð fyrir fjölbreyttu viðburðahaldi á staðnum.

Verslunin lokar í mars
Sýningin, sem áformað er að opna, verður um sögu Álafosskvosar og ullariðnaðar á Íslandi og verður hún staðsett í verslunar- og athafnarými verksmiðjuhússins að Álafossvegi 23 þar sem Álafossverslunin hefur verið til húsa. Sú verslun mun loka í mars næstkomandi en þá hefjast endurbætur á húsnæðinu og uppbygging sýningarinnar.
Forhönnun breytinga hefur verið unnin af Basalt arkitektum og er rýmið hannað jafnt fyrir nærsamfélagið sem og gesti. Þar verður barnahorn, aðstaða fyrir prjónanámskeið, fjölnota svæði fyrir tónleika og viðburði sem stuðla að félagslegum samskiptum, sköpunargleði og menningarlegri þátttöku. Myndir af forhönnun verkefnisins eru nú til sýnis í Álafossversluninni.

Efla Álafosskvos sem áfangastað
Desjamýri 11 ehf. ber allan kostnað vegna sýningarinnar og mun sjá um hönnun og framkvæmd hennar í samráði við Mosfellsbæ. Viljayfirlýsingin gildir til fimm ára, á þeim tíma mun bærinn greiða leigu af sýningunni og verður sýningin eign bæjarins að sýningartíma loknum.
Álafosskvos er miðstöð lista og menningar í Mosfellsbæ og er markmiðið með endurbótunum og væntanlegri sýningu að lyfta ásýnd svæðisins, varðveita sögu þess og efla Álafosskvos sem áfangastað fyrir ferðamenn. Þá er gert ráð fyrir að nemendur í skólum Mosfellsbæjar geti heimsótt sýninguna á vegum skólanna án endurgjalds.

Verndarsvæði í byggð
Verkefnið byggir á áfangastaðagreiningu sem Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins vann fyrir Mosfellsbæ. Greiningin fól í sér stöðumat á svæðinu, samtal við hagaðila, hugmyndagöngu og vinnustofu sem leiddi í ljós skýran áhuga á ullarsafni, kaffihúsi, menningarviðburðum og fræðslu í Álafosskvos.
Auk þess að undirbúa sýningu um sögu svæðisins hefur Mosfellsbær unnið að gerð verkefnisins Verndarsvæði í byggð sem byggir á skrásetningu um svæðið, þ.e. húsakost, ásýnd, tengsl byggðar og náttúru, sögulegar minjar og lifandi menningararf sem þróast hefur á rúmlega öld.

Vinkonukvöld skilaði 1,5 milljónum til Bergsins

Eva Rós, Lára, Rut og Berta.

Vinkonukvöld Soroptimista Mosfellssveitar safnaði 1,5 milljónum króna fyrir Bergið Headspace
Þann 16. október hélt Soroptimistaklúbbur Mosfellssveitar árlegt vinkonukvöld í Hlégarði. Kvöldið var vel sótt eða um 120 konur komu saman til að njóta samveru og skemmtunar ásamt því að safna fjármunum til stuðnings Berginu Headspace. Stemningin var einstök frá upphafi og minnti okkur á þann kraft sem skapast þegar fólk sameinast um gott málefni.
Dagskráin var fjölbreytt og lifandi og samanstóð af góðum mat, happdrætti og skemmtiatriðum. „Við færum sérstakar þakkir öllum þeim sem komu fram – hljómsveitunum Gleym mér ei og Imperial ásamt Ólafíu Hrönn fyrir að gefa af sér og skapa ógleymanlega stemningu. Jafnframt færum við fyrirtækjunum VGH, Byggingafélaginu Bakka, Íþöku, Eignaþrif og KORA bestu þakkir fyrir þeirra velvilja og stuðning.
Við viljum einnig þakka öllum þeim sem lögðu kvöldinu lið, hvort sem það var með afslætti, vinnuframlagi, þjónustu eða vinningum. Samfélagið okkar sýndi enn á ný hversu miklu það getur áorkað þegar það stendur saman.“
Útkoma kvöldsins fór fram úr væntingum og alls söfnuðust 1.500.000 krónur, sem runnu óskiptar til Bergsins Headspace. Framlagið jafngildir annars vegar 88 einstökum viðtölum fyrir ungmenni eða hins vegar 20–30 ungmennum sem fá 3–5 samtöl hvert. Með styrknum er stuðlað að styttri biðlistum og tryggt að ungmenni fái aðstoð á réttum tíma. Bergið er með útibú í Mosfellsbæ.
Styrkurinn var afhentur Berginu formlega í síðustu viku. Verkefnið sýnir vel þann samfélagslega kraft sem getur myndast þegar einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök taka höndum saman um mikilvægt málefni.
Vinkonukvöld Soroptimista er skýr staðfesting á því að þegar gleði, samhugur gleði og góðvild mætast, þá gerast stórkostlegir hlutir. „Við erum afar þakklátar öllum þeim sem tóku þátt og lögðu sitt af mörkum til að gera kvöldið að veruleika,“ segir Berta Þórhalladóttir verkefnastjóri Soroptimistaklúbbs Mosfellssveitar

Brynja býður sig fram í 5. sæti

Brynja Hlíf Hjaltadóttir býður sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins sem fer fram laugardaginn 31. janúar 2026. Brynja er lögmaður og starfar á því sviði. Jafnframt hefur hún tekið virkan þátt í sveitarstjórnarmálum á kjörtímabilinu sem varamaður í bæjarstjórn, aðalmaður í velferðarnefnd, en þar áður sat hún í atvinnu- og nýsköpunarnefnd og lýðræðis- og mannréttindanefnd. Brynja er 27 ára og eiga þau Egill Ari saman einn son á leikskólaaldri.

„Ég býð mig nú fram í annað sinn, reynslunni ríkari. Ég vil halda áfram að bæta bæjarfélagið okkar og stuðla að því að öllum hópum samfélagsins vegni vel og að Mosfellsbær sé öllum aðgengilegur. Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi kjörtímabili og er tilbúin að leggja allt mitt af mörkum.“

Júlíana sækist eftir 3. sæti

Júlíana Guðmundsdóttir, lögmaður hjá Visku – stéttarfélagi, gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins í Mosfellsbæ. Júlíana býr yfir víðtækri reynslu og mikilli þekkingu á sviði samninga- og vinnuréttar ásamt vinnumarkaðsmálum, en hún hefur starfað í stéttarfélagsmálum í áratug. Hún er menntaður lögfræðingur með héraðsdómsréttindi. Á kjörtímabilinu hefur Júlíana tekið þátt í samfélagsmálum bæjarins. Hún hefur setið í yfirkjörstjórn og er aðalmaður í Notendaráði fatlaðs fólks.

„Mig langar til þess að halda áfram að leggja mitt af mörkum til bæjarins, styðja samfélagið, þjóna bæjarbúum og vinna að því að gera Mosfellsbæ enn betri og eftirsóknarverðari stað til að búa á.“ Júlíana er gift Sigurði Árna Reynissyni, kennara í Lágafellsskóla, og eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn.

Elín María gefur kost á sér í 5. sæti

Elín María Jónsdóttir gefur kost á sér í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fram fer 31. janúar. Undanfarin 16 ár hefur Elín sinnt móðurhlutverkinu sem aðalstarfi. Hún hefur tekið virkan þátt í foreldrastarfi í Mosfellsbæ og setið í stjórn Heimilis og skóla – samtaka foreldra. Á þessu kjörtímabili hefur hún verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fræðslunefnd Mosfellsbæjar. Elín hefur jafnframt mikinn áhuga á skipulags- og byggingarmálum.

Elín er gift Mosfellingnum Guðmundi Erni Kjærnested og saman eiga þau fjögur börn á aldrinum 8-16 ára. „Ég tel að þekking mín og reynsla í fræðslumálum og foreldrastarfi muni nýtast vel á næsta kjörtímabili. Mér þykir óskaplega vænt um Mosfellsbæ og vil leggja mitt af mörkum til að bæta þjónustu við börn og taka þátt í uppbyggingu bæjarins, með það að leiðarljósi að Mosfellsbær haldi áfram í gildin sín – sveit í borg með mannvæna byggð og að áfram verði gott og eftirsóknarvert að búa í Mosfellsbæ.“

Þórarinn Örn gefur kost á sér í 3. sæti

Þórarinn Örn Andrésson gefur kost á sér í 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þórarinn er tölvunarfræðingur frá HÍ og með MBA gráðu frá HR. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Verkfræðistofunnar Vista, hugbúnaðarfélagsins Vista Data Vision og er nú framkvæmdastjóri Oxstone sem er nýtt hugbúnaðarfyrirtæki.

„Ég hef búið í Mosfellsbæ svo gott sem alla tíð og hér er frábært að vera. Ég býð mig nú fram því ég vil taka virkan þátt í að bæta bæinn okkar. Ég tel mig hafa fjölbreytta reynslu sem muni nýtast vel í þágu bæjarbúa. Hér er margt vel gert, en ég veit að það er líka mjög margt sem við getum unnið í að bæta.“

Síungir karlmenn gefa innblástur, innsæi og ráð

Sævar Kristinsson og Karl Friðriksson.

Bókin „Síungir karlmenn“ eftir Mosfellingana Karl Friðriksson og Sævar Kristinsson gefur hagnýt ráð fyrir lífsgleði, virkni og vellíðan – óháð aldri.
Með bókinni vilja höfundar ögra vanabundnum viðmiðum, ýta við hugsun og opna dyr að nýjum viðhorfum og möguleikum fyrir síunga karlmenn og fólk á besta aldri.
Bókin hefur að geyma 45 hugleiðingar þar sem höfundarnir deila reynslu og innsæi sem nýtist öllum sem vilja njóta lífsins, rækta tengsl og halda áfram að vaxa. Margar hugmyndanna hafa fæðst í Mosfellsbakaríi þar sem þeir félagar hittast gjarnan og ræða við áhugaverða Mosfellinga. Einnig stunda þeir útivist, ýmist á fellin í Mosfellsbæ eða í Lágafellslaug en hvort tveggja getur verið endalaus innblástur góðra hugleiðinga.

Hentar öllum kynjum
Þó svo bókin sé stíluð á karlmenn þá, eins og stendur á bókakápu, hentar hún öllum kynjum. Rannsóknir hafa sýnt að karlmenn á öllum aldri virðast ekki eins duglegir að rækta félagslega hæfni og konur og því í meiri hættu að einangrast. Því vilja höfundar breyta.
Síungir karlmenn er innblástur fyrir lesendur til að lifa bestu árunum – því aldur er ekki hindrun, heldur tækifæri. Þarna er því um að ræða hvatningu um að fara úr viðjum vanans og brjóta upp aldursviðmið samfélagsins.

Jólagjöfin í ár
Bókin hefur fengið góðar viðtökur og náði því t.d. að vera í 5. sæti á metsölulista Pennans Eymundsson í fyrstu útgáfuvikunni. Það má því með sanni segja að hér sé komin jólagjöfin í ár.
Bókinni er þannig ætlað að vekja lesendur til umhugsunar – um sjálfa sig, um samfélagið sitt, um gildi og möguleika aldurs. Á baksíðu bókarinnar er vitnað í Gunnhildi Arnardóttur, framkvæmdastjóra Stjórnvísi, þar sem hún ritar: „Ef þetta er uppskrift að langlífi, þá tek ég tvær! Lífsgleði, forvitni og núvitund í sönnum stíl síungra karlmanna.“
En fyrst og fremst er hún skrifuð til að benda lesandanum á leiðir til að njóta lífsins.

Vil nýta tæknina til góðs

Þórdís Rögn Jónsdóttir er annar stofnenda Rekovy fyrirtækisins á bak við Bata sem er eina íslenska smáforritið sem styður við einstaklinga með fíknisjúkdóm. Forritið var þróað í nánu samstarfi við skjólstæðinga og sérfræðinga helstu meðferðaraðila Íslands. Hægt er að nota appið hvenær sem er í bataferlinu og sníða það að sínum eigin þörfum.
Nú er verið að undirbúa markaðssókn Bata erlendis og þar með verður hægt að styðja við fólk út um allan heim.

Þórdís Rögn fæddist í Reykjavík 23. desember 1997. Foreldrar hennar eru þau Katrín Rögn Harðardóttir forstöðumaður verkefnastofu Reiknistofu bankanna og Jón Þór Daníelsson staðarstjóri hjá Ístak.
Bróðir Þórdísar er Daníel Ingi f. 2002.

Söng fyrir kýrnar í fjósinu
„Ég ólst upp í Víðiteig en síðan flutti fjölskyldan í Bjargartanga í einbýlishús með stórum garði og þar lékum við systkinin okkur mikið. Það var gott að alast upp í þessari götu, vinkonur mínar tala enn í dag um afmælisgistipartýin sem ég hélt árlega.
Helstu æskuminningar mínar tengjast listskautum, sem mótuðu mig mikið. Þar lærði ég að setja mér markmið því það þurfti mikinn sjálfsaga til að geta sinnt bæði námi og skautaiðkun.
Mér þykir einnig vænt um minningarnar frá Laufási þar sem skyldmenni mín búa. Það er ótrúlega gott að vera tengdur náttúrunni, verja frítímanum í fjósinu, og syngja fyrir kýrnar.”

Það fór allt úr böndunum
„Ég gekk í Varmárskóla alla mína skólagöngu og mér fannst gaman í skólanum. Árin í 8.-10. bekk standa upp úr, ég var heppin með bekkinn minn og umsjónarkennarann, Kristínu Ástu. Bekkurinn var þekktur fyrir að standa sig vel í námi en ef kennarinn forfallaðist þá fór allt úr böndunum.
Sumrin fóru að mestu í skautaæfingabúðir og svo vann ég í Kjötbúðinni. Þess á milli ferðuðumst við fjölskyldan um landið.“

Fór erlendis í skiptinám
Eftir útskrift lá leið Þórdísar í Verzlunarskóla Íslands, á fyrsta ári í náminu æfði hún enn á listskauta.
„Á þriðja ári mínu í Verzló fór ég í skiptinám til Bandaríkjanna sem hafði mikil áhrif á mig og víkkaði sjóndeildarhringinn. Að mínu mati ættu allir að prófa að búa erlendis á lífsleiðinni.
Ég fór síðan í nám í iðnaðarverkfræði við HÍ og ferðaþráin kallaði aftur á mig svo ég nýtti mér möguleikann á skiptinámi og fór til Ástralíu.“

Máttum velja okkur vandamál
„Þegar ég kom aftur heim þá hófst frumkvöðlavegferð mín. Ég grínast stundum með að kennarinn minn í aðgerðagreiningu í HÍ hafi verið of latur til að búa til verkefni fyrir okkur. Við máttum því velja hvaða vandamál við vildum leysa.
Lengd biðlistans eftir meðferð á sjúkrahúsinu Vogi var mikið í umræðunni á þessum tíma. Við höfðum heyrt orðróm um að það væri ekki verið að nýta öll rúmin til fulls þannig að okkur datt í hug að „besta“ nýtingu rúmanna. Til að gera langa sögu stutta vorum við skólafélagarnir fljót að átta okkur á því að þetta væri ekki besta leiðin til að leysa vandamálið varðandi lengd biðlistans. Við fórum því í samstarf við SÁÁ þar sem við teiknuðum upp ferlið frá því að einstaklingur lagði inn innlagnarbeiðni og þar til hann fékk innlögn. Markmiðið var að finna tækifæri til umbóta.
Því næst fengum við styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna 2020 til að þróa frumgerð að hugbúnaði sem hefði það markmið að styðja fólk og veita því betri þjónustu á meðan það væri á biðlista eftir innlögn. Sú frumgerð hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2021 sem var mikil hvatning til að halda vegferðinni áfram.“

Það gerðist eitthvað innra með mér
„Nokkrum mánuðum fyrir verðlaunaafhendinguna brást heilbrigðiskerfið nánum ættingja mínum. Það gerðist eitthvað innra með mér á þessum tímapunkti, þegar ég upplifði hvernig samfélagið horfði á einstakling með geð- og fíknisjúkdóm sem annars flokks samfélagsþegn. Hvernig gat það í alvöru verið að við Íslendingar værum ekki með fjölbreyttari úrræði fyrir þennan hóp? Á þessum tíma langaði mig að hætta í náminu, fara í pólitík og ná fram kerfislægum breytingum. En hver hefði tekið mark á 22 ára stelpu sem hafði ekki lokið háskólanámi?
Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti nýtt mína reynslu til að styðja þennan hóp. Niðurstaðan var að þróa Bata-appið, nýta tæknina til góðs og aðlaga það að eftirfylgni. Þegar fólk stígur sín fyrstu skref í samfélaginu eftir meðferð í stað þess að ganga út með eitt A4 blað sem týnist eftir heimkomu.
Bati er núna aðgengilegt í App og Play store og var þróað í nánu samstarfi við yfir þrjú hundruð skjólstæðinga og sérfræðinga helstu meðferðaraðila Íslands eins og SÁÁ, Krýsuvík og Hlaðgerðarkot. Yfir 1.700 manns hafa náð í Bata og daglegir notendur eru um 65 einstaklingar.
Við erum stöðugt að þróa Bata og viljum fá eins mikla endurgjöf frá fólki og hægt er. Það er það sem raunverulega drífur okkur áfram, að bæta líf fólks.“

Vegferðin var ómetanleg reynsla
Eftir útskrift úr BSc náminu hóf Þórdís störf hjá Saltpay. Þar starfaði hún við áhættustýringu og alþjóðlega vörustýringateymið. „Stjórnendur á þessum tíma kenndu okkur að hugsa stórt sem reyndist mér einstaklega vel þegar ég tók mín fyrstu skref á vinnumarkaði.
Í kjölfarið fékk ég starf hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health þar sem ég starfaði í þrjú ár. Þar fékk ég tækifæri til að leiða vöruþróun með frábæru teymi fyrir stærstu lyfjafyrirtæki Evrópu. Ég leiddi einnig þróun lyfseðilsskyldrar stafrænnar meðferðar í Þýskalandi. Vegferðin hjá Sidekick var ómetanleg reynsla og hjálpaði mér við að skilja betur heilbrigðisgeirann á alþjóðavísu.“

Ræðum heimsmálin yfir kaffibolla
Maki Þórdísar er Hlöðver Skúli Hákonarson sérfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra.
„Við Hlöðver reynum að gefa hversdagsleikanum lit með því að fara reglulega í sund, göngutúra, á tónleika og að eiga góðar stundir með fólkinu okkar. Okkur þykir best að ná rólegum morgnum, ræðum heimsmálin með kaffibolla í hönd áður en dagurinn hefst,“ segir Þórdís og brosir.

Markaðssókn erlendis í undirbúningi
„Í dag stunda ég MSc nám í rekstarfræði við HR ásamt því að stýra Regovy. Með mér í liði eru þeir Ágúst Þór Þrastarson og Leifur Baldur Benediktsson. Þeir hafa séð um alla forritun og hönnun á appinu og Bati væri ekki á þeim stað sem það er í dag nema fyrir þá.
Við hlutum nýlega fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni International Society of Addiction Medicine í Þýskalandi fyrir Bata. Þetta var mikil hvatning, sem staðfestir að við erum á réttri leið. Nú erum við að undirbúa markaðssókn Bata erlendis.
Það verður gefandi að sjá litla barnið mitt sem í raun átti aldrei að verða fyrirtæki vaxa og sjá það styðja fólk út um allan heim,“ segir Þórdís Rögn og brosir er við kveðjumst.

Orka opnar útibú í Mosfellsbæ

Palli, Gulli, Palli og Gulli.

Orka ehf. er eitt af elstu og traustustu fyrirtækjum landsins, með fjölbreytta starfsemi allt frá árinu 1944. Frá árinu 2005 hefur fyrirtækið starfað í þeirri mynd sem þekkist í dag, sem sérfræðingur í bílrúðum og málningarvörum.
Í dag starfa 30 manns hjá fyrirtækinu og núverandi eigendur Orku ehf. eru Jóhann G. Hermannsson, Jón A. Hauksson og Mosfellingarnir Páll H. Guðmundsson, Guðlaugur Pálsson og Páll H. Guðlaugsson.

Nýtt útibú í Bugðufljóti
Höfuðstöðvar Orku ehf. eru að Stórhöfða 37 í Reykjavík. Nýverið var opnað rúmlega 2.000 fm útibú í Bugðufljóti í Mosfellsbæ, þar sem rekið er bílrúðuverkstæði fyrir allar gerðir bifreiða ásamt vöruhúsi fyrirtækisins. Á Stórhöfða er áfram rekin verslun og bílrúðuverkstæði. Orka ehf. hefur hlotið viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki ár hvert frá árinu 2011.
Rekstur fyrirtækisins er þríþættur; þjónusta við tryggingafélög í tengslum við bílrúður, öflug heildverslun sem þjónustar sprautuverkstæði um land allt og smásala í verslun fyrirtækisins að Stórhöfða.

Fjórir ættliðir undir sama þaki
Á síðasta sumri átti sér stað ánægjulegur viðburður þegar fjórir ættliðir störfuðu samtímis hjá fyrirtækinu: Páll H. Guðmundsson eldri, Páll H. Guðlaugsson yngri, Guðlaugur Pálsson og Guðlaugur Benjamín Kristinsson. Þannig störfuðu saman tveir Pallar og tveir Gullar – skemmtileg staðreynd sem endurspeglar fjölskyldutengsl og samhug innan fyrirtækisins.

Samfélagsleg ábyrgð
Orka ehf. leggur ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð og er stoltur styrktaraðili íþróttafélagsins Aftureldingar. Fyrirtækið hyggst áfram styðja við íþróttastarf í Mosfellsbæ og leggja sitt af mörkum til samfélagsins.