Ásgeir Jónsson hefur veitt grunnnámi viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans í Reykjavík forstöðu og komið að hinum ýmsu nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Í dag kennir hann ásamt teymi fjölmennasta háskólaáfanga landsins, Nýsköpun og stofnun fyrirtækja.
Á vordögum tók Ásgeir við formannsembætti hjá Ungmennafélaginu Aftureldingu en þar er hann öllum hnútum kunnugur bæði sem leikmaður og þjálfari. Ásgeir er með skýr markmið og vonast til að geta látið gott af sér leiða.
Ásgeir er fæddur í Reykjavík 12. janúar 1983. Foreldrar hans eru Áslaug Höskuldsdóttir listakona og Jón Steinar Árnason skipstjóri.
Ásgeir á fjögur systkini, Steinunni f. 1968, Árna f. 1972, Ösp f. 1977 og Agnar f. 1979.
Uppátækjasamir í meira lagi
„Ég er alinn upp í Mosfellssveit, síðar Mosfellsbæ. Fyrstu ár ævinnar bjó ég í Skál í Krókabyggð. Það var dásamlegt og mikið frelsi, að hlaupa um melinn svokallaða og slæpast um skóglendið í kring. Fyrstu árin voru þetta bara húsin á Reykjaveginum og Reykjum og einstaka hús í kring. Svo auðvitað Reykjalundur og Dælustöðin, þar sem afi minn Höskuldur Ágústsson var stöðvarstjóri.
Ég og Oddur vinur minn vorum uppátækjasamir í meira lagi og áttum til að reyna verulega á þolinmæði samferðafólks, sér í lagi foreldranna.“
Við afi vorum nánir vinir
„Þegar ég var 8 ára héldu foreldrar mínir í sitt hvora áttina. Við systkinin og mamma bjuggum þá hjá afa Höska og ömmu Áslaugu í tæp tvö ár. Ómetanlegir tímar þar sem við afi urðum nánir vinir, hann kenndi mér að lesa og skrifa ljóð.
Um 10 ára aldurinn fluttum við svo í Miðholtið og þar tók maður út gelgjuna. Strákapörin áfram rauður þráður en handboltinn átti alltaf stóran þátt í lífi mínu og hélt manni á mottunni,“ segir Ásgeir og brosir.
„Æskuminningarnar eru margar frábærar en besta minningin var alltaf sú síðasta. Heima þegar pabbi kom heim eftir siglingar og færði okkur systkinunum gjafir sem fengust ekki á landinu. En rauði þráðurinn þegar maður hugsar til baka er hversu kærleiksrík mamma var og er, ég verð alltaf þakklátur fyrir það.“
Þar lærði ég á lífið að miklu leyti
„Ég gekk í Varmárskóla og fór síðan í Gaggó Mos eins og það var kallað í den tid. Ég átti auðvelt með að læra, ef ég hafði áhuga á faginu. Ef ekki gat ég eflaust verið nokkuð krefjandi og átti auðvelt með að sannfæra samnemendur um að slást með í för. Ég á kennurum mínum mikið að launa í því samhengi, að þessar elskur hafi haft þolinmæði fyrir mér þegar mest á reyndi.
Ég mætti í tvo daga í unglingavinnu en fann strax að ég nennti ekki því hangsi. Var svo lánsamur að fá vinnu hjá Gísla í Dalsgarði og Nonna í Mosskógum, þar vann ég öll sumur þar til ég var 19 ára. Hjá þeim fékk maður betri laun, meiri ábyrgð og að keyra Löduna. Það var yndislegt að umgangast allt þetta litríka fólk í Mosfellsdalnum, Dalnum sem hefur ætíð átt sérstakan stað í mínu hjarta, þar lærði ég á lífið að miklu leyti.“
Ég stökk á tækifærið
Ásgeir kláraði nám í félagsfræði við Borgarholtsskóla og að lokinni útskrift tók hann sér frí og fór að starfa hjá pípulagningameistara. Eftir eitt ár hóf hann nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Námið gekk vel en ég sá ekki tilganginn í náminu nema til að vera betur undirbúinn í kjaftbrúk í fjölskylduboðum. Þegar mér bauðst svo starf sem blaðamaður á DV stökk ég á tækifærið. Vann sem slíkur í 7 ár og sinnti ýmsum verkefnum. Stýrði helgar- og innblaði þar sem ég tók forsíðuviðtöl og skrifaði um menningu.
Eftir árin á DV leiddi handbolti og námsþorsti mig norður á Akureyri þar sem ég nam sjávarútvegsfræði. Að því loknu kláraði ég master í matvælafræði í HÍ.“
Þetta er meiri árátta en áhugamál
„Ég er í sambúð með Yrju Dögg Kristjánsdóttur, ritara og styrktarþálfara, og hef verið síðustu 18 ár. Mín stærsta lukka var að kynnast Yrju, við vegum hvort annað stórkostlega upp og hún heldur mér í jafnvægi. Við eigum þrjú börn, Viktoríu Nansý f. 2010, Jón Kristján f. 2014 og Bjart Árna f. 2018 og hundana Esju og Móa. Við ferðumst mikið, stundum útivist og svo eru töluverð ferðalög í kringum íþróttir barnanna sem eru mikil forréttindi.
Mín helstu áhugamál eru handbolti, hreyfing, veiði og félagsskapurinn Fálkarnir. Ég er svo lánsamur að eiga maka og marga frábæra vini sem deila ævintýraþránni með mér. Handboltinn hefur fylgt mér frá átta ára aldri og er nær því að vera árátta en áhugamál.“
Sjö ár á flakki
Ásgeir hefur starfaði lengi í fjölmiðlum eða í rúm 10 ár, síðast hjá RÚV í vef-, útvarps- og sjónvarpsfréttum. Eftir að hann kláraði matvælafræðina 2016 bauðst honum starf hjá Háskólanum í Reykjavík.
„Starfið hjá HR fólst í því að koma á laggirnar nýrri námsbraut í Vestmannaeyjum, haftengdri nýsköpun. Þar bjuggum við fjölskyldan í tvö ár og það var dásamlegur tími, eins og má segja um árin okkar þrjú á Akureyri. Eftir sjö ár á flakki fluttum við aftur í Mosó og höfum verið hér síðan.
Hjá HR hef ég kennt í viðskipta- og hagfræðideild, veitt grunnnámi deildarinnar forstöðu og komið að hinum ýmsu nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Í dag kenni ég ásamt frábæru teymi fjölmennasta háskólaáfanga landsins, Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, og svo er ég jafnframt nýsköpunarfulltrúi í NeurotechEU.“
Með skýr markmið í huga
Fyrir utan störfin hjá Háskólanum í Reykjavík hefur Ásgeir verið handboltasérfræðingur í fjölmiðlum og hlaðvörpum, þjálfari og viðburðahaldari. Hann tók að sér formannsembætti hjá uppeldisfélaginu Aftureldingu í vor og vonast til að geta látið gott af sér leiða.
„Það var persónulega mikill heiður að taka við þessu embætti enda harðari eldingarmaður vandfundinn,“ segir Ásgeir og brosir. „Þetta hefur nú þegar verið viðburðaríkur tími þar sem meistaraflokkarnir í blaki og handbolta hafa barist um titla líkt og síðustu ár og meistaraflokkur karla í knattspyrnu tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn.
Ég tók þetta hlutverk að mér með skýr markmið í huga, að byggja upp innviði félagsins með því að fjölga stöðugildum sem styðja við okkar frábæru sjálfboðaliða. Við höfum setið eftir í samanburði við önnur félög og löngu tímabært að nútímavæða félagið að þessu leyti.
Áfram mun orka og tími fara í að bæta aðstöðu félagsins til að geta talist samkeppnishæft og eins að setja skýra félags- og afreksstefnu. Við búum í mögnuðu samfélagi með öfluga félagsmenningu en það er ekki sjálfsagður hlutur. Þetta þarf að ræða, skilgreina og rækta markvisst,“ segir Ásgeir að lokum.