Vinn að endurheimt líkamans

Halldóra Huld Ingvarsdóttir, sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum, er mikil ævintýramanneskja. Hún hefur verið í hestamennsku frá unga aldri en eftir því sem hún varð eldri fór hún einnig að hafa áhuga á fjallgöngum, jöklagöngum, utanvegahlaupum og stangveiði.
Draumur Halldóru er að heimsækja allar heimsálfurnar og upplifa mismunandi menningarheima en þau ævintýri þurfa að þola smá bið því í byrjun apríl á hún von á sínu fyrsta barni.

Halldóra Huld fæddist í Reykjavík 15. júlí 1988. Foreldrar hennar eru Helga Hrönn Þorleifsdóttir grafískur hönnuður og keramiker og Ingvar Ingvarsson læknir.
Systkini Halldóru eru Þorleifur Þorri f. 1981, Játvarður Jökull f. 1984 og tvíburasystirin Sigríður Sjöfn f. 1988.

Alltaf verið mikið náttúrubarn
„Ég hef alltaf búið í Mosfellsbænum, ólst upp utarlega í Reykjabyggðinni. Ég er mikið náttúrubarn svo þetta var fullkominn staður til að alast upp á.“
„Æskuminningar mínar er flestar tengdar hestamennskunni og útivistinni sem henni fylgir. Á mínum yngri árum var fjölskyldan með hestana í heima haga á sumrin og við systurnar lékum okkur mikið úti í kringum þá ásamt vinkonum okkar. Eins eyddum við miklum tíma í hesthúsinu og það kom fyrir að við gistum allar saman þar. Seinna tóku svo hesthúsapartýin við svo hesthúsið hefur verið staður dýrmætra minninga.
Hestaferðirnar á Öræfin eru samt þær sem standa upp úr, þar sem riðið var með allt stóðið á milli fjallakofa, í allskonar veðrum. Öll þessi hestaævintýri hafi mótað mig mikið, mér líður einstaklega vel á fjöllum og finnst ekkert að því að leggja af stað í roki og rigningu.
Foreldrar mínir voru líka dugleg að fara með okkur fjölskylduna í ferðalög erlendis. Flórída varð þá oftast fyrir valinu en við ferðuðumst einnig um Evrópu og þá helst í kringum heimsmeistaramótin í hestaíþróttum.“

Skólaböllin hápunkturinn
„Ég gekk í Varmárskóla og síðan Gaggó Mos, kennararnir voru góðir og ég hafði gaman af að læra. Á þessum árum gengu allir bæjarbúar í þessa skóla og maður þekkti því jafnaldra sína vel. Þarna kynntist ég nokkrum af mínum bestu vinkonum og ég á góðar minningar frá skólaárunum. Skólaböllin og limmósínurnar á undan voru hápunkturinn í Gaggó Mos og það voru vinsælar hljómsveitir sem komu fram eins og Írafár, Á móti sól og Í svörtum fötum.
Á sumrin starfaði ég ásamt frændsystkinum mínum í bílaumboðinu hjá afa okkar og ömmu við að þrífa og bóna bíla. Það var ótrúlega gaman að vinna hjá þeim og maður reyndi að gera þau stolt. Maður var kannski ekki alltaf fyrirmyndarstarfsmaður, amma komst að því einu sinni að við höfðum stimplað okkur inn en fórum svo saman beinustu leið í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn. Það þarf ekki að taka það fram að þetta gerðist bara einu sinni,“ segir Halldóra og brosir.

Þetta voru mistök
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Menntaskólann Hraðbraut. Ég hafði alltaf stefnt á MS en tók skyndiákvörðun um að fara í Hraðbraut. Þetta voru mistök, mér fannst lærdómurinn í skólanum mjög þrúgandi og skólinn einangrandi. Ég segi alltaf að ég sé laumu MS-ingur því mér fannst ég vera að missa svo mikið úr félagslífinu sem vinkonur mínar í grunnskóla voru að upplifa.
Ég hætti í Hraðbraut eftir eitt ár og fór yfir í Borgarholtsskóla, ákvað að leggja minni áherslu á lærdóm en áður og njóta félagslífsins í botn. Þar kynntist ég dýrmætum vinum og átti ógleymanlega tíma.“

Við Eyjólfur erum heppin
Unnusti Halldóru heitir Eyjólfur Þorsteinsson og er hestamaður. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í apríl en fyrir átti Eyjólfur Valdísi Mist sem er 11 ára.
„Við Eyjó erum heppin að eiga mörg sameiginleg áhugamál og erum dugleg að fara í fjallgöngur, skíðaferðir, veiðiferðir, hlaupa og stunda hestamennsku.
Við höfum einnig gaman af að ferðast bæði innan- og utanlands, skemmtilegustu ferðalögin eru þau sem innihalda útiveru og hreyfingu.“

Hlaupin eru lúmskt skemmtileg
Utanvegahlaup er helsta áhugamál Halldóru en hún fer einnig í götuhlaup til að fá tíma. Hún æfir og keppir á braut á veturna til að ná upp meiri hraða og segir brautahlaupin lúmskt skemmtileg og stemmingin í kringum þau mikil.
„Ég mæli með að þeir sem stefna á keppnishlaup yfir sumartímann prófi brautarhlaupin á veturna, það hjálpar mikið við undirbúninginn. Sumrin hjá mér fara núna í að ferðast í kringum hlaupakeppnirnar sem eru víðs vegar um landið og erlendis.
Þegar ég komst að því s.l. sumar að ég væri ófrísk þá voru tvö af mínum stærstu hlaupum eftir, annað var CCC by UTMB sem er 100 km utanvegahlaup í kringum Mont Blanc og hitt var götumaraþon í Frankfurt. Á meðan ég var að hugsa mína stöðu hvort ég ætti að fara þá tók ég þátt í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu og tókst að vinna það.“

Hef nýtt tímann í að mála
„Ég ákvað svo að fara út í bæði hlaupin og tvíburasystir mín, Sigga, kom með mér út til að aðstoða mig. Það var mjög gott, ekki síst vegna þess að hún er læknir og því með þekkingu á þessu sviði. Ég lofaði sjálfri mér því og mínu fólki að ef hún myndi segja mér að hætta keppni þá myndi ég gera það tafarlaust.
Eftir CCC hlaupið var haldið til Frankfurt, fyrir það hafði ég bókað ferð til Kenýa þar sem ég ætlaði að búa í 2400 metra hæð til að fjölga rauðum blóðkornum. Upphaflega ætlaði ég að nota Kenýa ferðina sem æfingabúðir en breytti því í rólegheitaferð með smá hlaupum. Eftir maraþonið þurfti ég svo að hvíla mig andlega frá hlaupum og fara að njóta óléttunnar. Ég hef nýtt tímann í að mála og þá helst olíumálverk, oftast af hestum og náttúru enda hefur áhuginn legið þar.“

Nær vel yfir mitt áhugasvið
Halldóra Huld hefur starfað mest í gegnum tíðina við umönnun, þá aðallega á elliheimilum en einnig á leikskólanum Hlaðhömrum.
„Ég hóf störf í Lágafellslaug árið 2011 og fór svo í sjúkraþjálfaranám, starfaði þar áfram með námi en ég útskrifaðist 2017. Þetta hentað mér vel því ég hreinlega dýrka þessa sundlaug.
Í dag starfa ég sem sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum, þetta er mjög fjölbreytt starf þar sem maður hittir margt áhugavert og skemmtilegt fólk. Starfið nær vel yfir áhugasvið mitt, að vinna að endurheimt líkamans. Hreyfing nær einnig yfir áhugasviðið því hún spilar stórt hlutverk og er allra meina bót. Ekki skemmir fyrir að starfsfélagarnir eru algjör eðalmenni,“ segir Halldóra Huld og brosir er við kveðjumst.

UMFUS styrkir Reykjadal

Garðar Smárason þjálfari, Örvar Daði Marinósson forseti félagsins, Andrea Rói og Hildur Helgadóttir frá Reykjadal og formenn UMFUS þeir Ragnar Símonarson og Ingi Björn Kárason.

UMFUS (Ungmennafélagið Ungir sveinar) stóð fyrir glæsilegu kótilettukvöldi þann 28. febrúar. Um var að ræða góðgerðarkvöld þar sem allur ágóði rann í gott málefni.
Staðið var fyrir happdrætti, uppboði, skemmtiatriðum og almennri gleði um kvöldið.

Ágóði kvöldsins varð alls 1.431.500 kr. og var upphæðin afhent Reykjadal í Mosfellsdal á dögunum. Glæsilegur styrkur frá flottum félagsskap sem kemur saman að jafnaði tvisvar í viku í íþróttamiðstöðinni Lágafelli og ræktar líkama og sál.
UMFUS vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem styrktu kvöldið með happdrættismiðum og sérstaklega Höfðakaffi sem skaffaði aðstöðu og fleira.

Besta deildin hefst í kvöld

Laugardaginn 5. apríl mun karlalið Aftureldingar spila sinn fyrsta leik í sögunni í Bestu deildinni en liðið heimsækir þá Íslandsmeistara Breiðabliks á Kópavogsvöll klukkan 19.15.
Mikil spenna er fyrir fótboltasumrinu í Mosfellsbæ enda er um sögulegt tímabil að ræða hjá Aftureldingu.
„Strákarnir hafa æft gríðarlega vel í vetur og þjálfarateymið, sjálfboðaliðar í kringum liðið og allir sem að þessu standa hafa lagt mjög mikla vinnu á sig í vetur til að hægt verði að ná sem bestum árangri í sumar. Það er mikil gleði og liðsheild hjá okkur,“ segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
„Stemningin í hópnum er virkilega góð eins og hefur verið einkenni liðsins síðastliðin ár. Það ýtir undir spennuna og stemninguna í hópnum að vera loksins meðal þeirra bestu og við getum ekki beðið eftir að byrja mótið,“ segir Aron Elí Sævarsson fyrirliði liðsins.

Öflugur liðsstyrkur
Afturelding hélt fréttamannafund í Hlégarði í desember þar sem fjórir nýir leikmenn voru kynntir til sögunnar. Bræðurnir Axel og Jökull Andréssynir eru mættir alfarið á heimaslóðir eftir að hafa farið ungir í atvinnumennsku erlendis hjá Reading á Englandi.
Oliver Sigurjónsson, reynslumikill miðjumaður, kom til Aftureldingar frá Íslandsmeisturum Breiðabliks og kantmaðurinn Þórður Gunnar Hafþórsson bættist í hópinn frá Fylki.
„Allir þessir leikmenn hafa reynslu af því að spila á háu getustigi. Þetta eru karakterar sem bætast við mjög öfluga liðsheild hjá okkur og við erum með mjög öflugan og spennandi leikmannahóp fyrir tímabilið,“ segir Magnús Már.
Fleiri Mosfellingar en Blikar?
Í Bestu deild karla eru 12 lið og mætast öll liðin tvisvar áður en deildinni er skipt í efri og neðri hluta þar sem leiknir eru 5 aukaleikir. Tímabilinu lýkur því ekki fyrr en í lok október og stendur yfir í tæpa sjö mánuði.
„Þetta verður langt og skemmtilegt tímabil og við erum komnir til að vera. Við ætlum okkur að festa Aftureldingu í sessi í Bestu deildinni og vonumst til að fá góðan stuðning frá stuðningsmönnum okkar. Ég vonast til að stuðningurinn sem var í úrslitakeppninni í fyrra fylgi okkur inn í þetta tímabil og skora á Mosfellinga að mæta í Kópavoginn á laugardagskvöld.
Ég hef trú á að stuðningsmenn Aftureldingar geti verið fjölmennari en stuðningsmenn Breiðabliks á þessum opnunarleik Íslandsmótsins,“ segir Magnús Már.

Tveir heimaleikir í apríl
Afturelding mætir ÍBV í fyrsta heimaleik sumarsins sunnudaginn 13. apríl klukkan 17 á Malbikstöðinni að Varmá. Fimmtudaginn 24. apríl, á sumardaginn fyrsta, koma síðan Víkingar í heimsókn.
„Stuðningurinn skiptir algjörlega öllu máli. Stuðningsmenn liðsins eru ástæðan fyrir því að það er skemmtilegast að mæta á völlinn í Mosó. Liðið spilar með meiri orku og gleði þegar stuðningurinn er til staðar,“ segir Aron Elí.

Nýi leikskólinn fær nafnið Sumarhús

Í haust tekur til starfa nýr leikskóli í Vefarastræti í Helgafellslandi og hefur hann nú hlotið nafnið Sumarhús. Nafn skólans var valið á fundi fræðslunefndar eftir hugmyndaöflun frá bæjarbúum.
Sumarhús var ein af þeim hugmyndum sem oftast komu fyrir í hugmyndaleitinni og hefur sérstaka skírskotun til bókmennta Halldórs Laxness, eins virtasta rithöfundar þjóðarinnar og Nóbelsverðlaunahafa í bókmenntum, eins og raunar hverfið allt.

Tilvísun í Bjart í Sumarhúsum
Segja má að nafnið Sumarhús fangi anda bernskunnar, náttúrunnar og menningarlegrar arfleifðar skáldsins. Það endurspeglar þá ró og gleði sem leikskóli á að standa fyrir og styrkir tengsl leikskólans við íslenska bókmennta- og menningararfleifð. Með tilvísun í Bjart í Sumarhúsum fær nafnið dýpri merkingu sem tengist baráttu, von og þeirri trú að framtíðin byggist á sterkri sjálfsmynd og góðum uppeldisaðstæðum.
Alls bárust hugmyndir að nafni frá um 170 manns og þökkum við bæjarbúum innilega fyrir áhugann og aðstoðina. Þeim aðilum sem stungu upp á þessu nafni verður boðið sérstaklega til veislu þegar leikskólinn Sumarhús verður vígður formlega.

Verið að ganga frá ráðningu skólastjóra
Vinna við húsið sjálft hefur gengið vel og er á áætlun. Uppsteypu og frágangi á ytra byrði hússins er að mestu lokið og er stefnt að því að framkvæmdum verði lokið í lok júní.
Verið er að ganga frá ráðningu leikskólastjóra sem mun veita Sumarhúsum forstöðu og taka, ásamt starfsfólki, á móti börnum í skólann í haust. Börn og starfsfólk leikskólans Hlaðhamra munu jafnframt fá að njóta Sumarhúsa á meðan verið er að skoða og meta ástandið á húsnæði Hlaðhamra.
Það er ekki á hverjum degi sem opnaður er nýr skóli í sveitarfélaginu en þetta verður glæsileg bygging sem á eftir að halda vel utan um börn og starfsfólk í leik og starfi til framtíðar.

Samþætt heimaþjónusta við eldra fólk og stórefling dagdvalarþjónustu

Samningar voru undirritaðir í vikunni um samþætta heimaþjónustu við íbúa Mosfellsbæjar, aukna dagdvalarþjónustu með fleiri rýmum og stofnun heima-endurhæfingarteymis fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Með samningunum verður rekstur allrar heimaþjónustu á hendi Eirar sem rekur hjúkrunarheimili og dagdvöl í bæjarfélaginu. Dagdvölin stækkar til muna og verður þar rými fyrir 25 einstaklinga í stað níu áður.
Með því að efla og samþætta heima- og dagþjálfunarþjónustu á eina hendi er þess vænst að betur megi sníða hana að einstaklingsbundnum þörfum notenda og bregðast tímanlega við breytingum á aðstæðum þeirra og heilsufari.

Stórgott að eldast í Mosfellsbæ
Undirritunin fór fram að Hlaðhömrum í Mosfellsbæ, viðstödd voru Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra; Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra; Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar; Elmar Hallgríms Hallgrímsson, sviðsstjóri samningasviðs Sjúkratrygginga Íslands; Eybjörg Helga Hauksdóttir, forstjóri hjúkrunarheimilisins Eirar og Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Verkefnin sem talin eru upp hér að neðan eru öll liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda, Gott að eldast. Markmiðið er að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk og flétta saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin.

Mikilvægar nýjungar
„Við erum gríðarlega ánægð með bæði samþættingu heimaþjónustu og heimahjúkrunar og fjölgun plássa í dagdvölinni,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og nefnir sérstaklega mikilvægi þess að fá 10 ný dagþjálfunarrými fyrir einstaklinga sem kljást við heilabilun.
„Það skiptir miklu máli fyrir þann hóp að fá þjónustu í Mosfellsbæ þar sem þekking á umhverfinu eykur öryggiskennd.“
„Með því að starfsmenn samþættrar heimaþjónustu heyri undir dagdvöl gefst mikilvægt tækifæri fyrir stjórnvöld til að prófa nýjar leiðir við að veita þjónustu. Við erum spennt að fylgjast með árangrinum. Dagdvalir eru afar mikilvægar, ekki síst til að draga úr félagslegri einangrun meðal eldra fólks, og ríkisstjórnin leggur áherslu á að fleiri eigi kost á dagdvöl. Samþætting heimaþjónustu mun síðan tryggja heildrænni og öruggari þjónustu og skapa ný tækifæri þar sem saman kemur öflugt starfsfólk heilbrigðis- og félagsþjónustu,“ segir Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.
„Við vitum hvað það er mikilvægt fyrir fólk að viðhalda sjálfstæði sínu,“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.
„Samþætt heimaþjónusta, stóraukin dagdvalarþjónusta og tilkoma heima-endurhæfingarteymisins tel ég að muni auka til muna raunhæfa möguleika eldra fólks til að búa heima hjá sér við góðar aðstæður og bætt lífsgæði, þrátt fyrir færniskerðingu“


Samþætt heimaþjónusta
Eir hefur sinnt heimaþjónustu fyrir hönd Mosfellsbæjar um árabil en heimahjúkrunin verið veitt af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Samþætting þjónustunnar byggist því annars vegar á uppfærðum samningi Mosfellsbæjar við Eir sem undirritaður var í dag og hins vegar á undirritun samnings milli HH og Eirar sem mun því annast þjónustuna í heild og reka hana í tengslum við dagþjálfunarþjónustuna. Markmiðið er að bæta yfirsýn yfir þarfir þeirra sem þjónustu þurfa með og bregðast tímanlega við breytingum á aðstæðum þeirra og heilsufari.

Stækkuð og stórefld dagdvöl
Dagdvalarrýmum á Eir verður fjölgað úr 9 í 15 og einnig sett á fót 10 dagþjálfunarrými fyrir eldra fólk með skerta getu vegna heilabilunarsjúkdóma. Samningur þessa efnis milli Eirar og Sjúkratrygginga Íslands var einnig undirritaður. Mosfellsbær mun annast akstur fólks í dagdvalarþjónustu og leggur jafnframt til aukið húsnæði fyrir dagdvöl Eirar.

Endurhæfing í heimahúsum
Heima-endurhæfingarteymi verður komið á fót með stuðningi heilbrigðisráðuneytis en teymið veitir persónumiðaða þjónustu sem fram fer á heimili viðkomandi notanda. Þjónustan felur í sér tímabundna þjálfun og ráðgjöf til að auka færni, virkni og bjargráð í athöfnum daglegs lífs sem og samfélagsþátttöku.

 

Leikskólanum Hlaðhömrum lokað

Miklar breytingar hafa orðið á aðstæðum barna og starfsfólks á leikskólanum Hlaðhömrum á undanförnum mánuðum.
Árið 2024 fannst raki í eldra húsi Hlaðhamra og úr varð að hluta þess húsnæðis var lokað samkvæmt ströngustu kröfum þar um. Í lok síðasta árs kom síðan upp leki í tengibyggingu milli eldri og yngri hluta leikskólans og á svipuðum tíma sprakk hitaveiturör í vegg í rými sem hafði verið lokað.
Í kjölfarið var tekin sú ákvörðun að loka eldra húsinu alfarið auk þess hluta tengibyggingarinnar sem lak.
Vegna lokunarinnar þurfti að bregða á það ráð að flytja 22 börn af 50, ásamt hluta starfsfólks, yfir í Krikaskóla þar sem vel var tekið á móti þeim. Í kjölfarið var Efla fengin til að gera úttekt á yngri hluta húsnæðis Hlaðhamra og þegar niðurstöður lágu fyrir var ákveðið í samráði við starfsfólk að loka skólanum og flytja starfsemina tímabundið á nýjan stað.
Tekin var ákvörðun í samráði við stjórnendur að leigja þrjú rými í Þverholti nr. 3, 5 og 7. Starfsemi hófst í Þverholtinu þann 18. mars sl. og eru bæði börn og starfsfólk í óða önn að setja sig inn í aðstæður á nýjum stað. Sökum nálægðar við Hlaðhamra er hægt að nýta útisvæðið þar áfram en matur er eldaður í Krikaskóla og sendur þaðan í hitakössum í Þverholtið.

Sameinast síðar í nýjum leikskóla í Helgafellshverfi
Starfsfólk Hlaðhamra hefur staðið sig einstaklega vel í krefjandi aðstæðum og hafa íbúar í Þverholti einnig lagt sitt af mörkum við að láta þetta allt saman ganga upp. Dvölin í Þverholti mun þó eingöngu standa fram að sumarleyfum en að þeim loknum munu börn og starfsfólk Hlaðhamra sameinast á ný í húsnæði nýja leikskólans í Helgafellslandi.
Þá hef­ur bæj­ar­ráð sam­þykkt að fara í heild­ar­end­ur­skoð­un á hús­næði leik­skól­ans Hlað­hamra til þess að meta hvort eigi að rífa allt hús­ið og byggja nýtt eða að hluta. Það helst einn­ig í hend­ur við fram­tíð­ar­sýn um upp­bygg­ingu leik­skóla í bæn­um.

Samnýting og samstarf

Ég fór með samstarfsfólki mínu í fræðsluferð til Finnlands í síðustu viku. Það er margt sem við getum lært af Finnunum, ekki síst samnýting á aðstöðu. Hluti hópsins fór í dagsferð til Tampere þar sem við fengum kynningu á hinum glæsilega Tammelan leikvangi sem var vígður á síðasta ári. Framkvæmdastjóri vallarins, Toni Hevonkorpi, tók á móti okkur og sýndi okkur mannvirkið. Nýtingin á vellinum sjálfum er þannig að meistaraflokkar félagsins æfa á honum fyrir hádegi, eftir hádegi fá skólar og eldri borgarar að nýta hann áður en yngri flokkar Ilves, heimaliðsins, mæta á æfingar. Hluti af stúkubyggingunni er leigður út sem skrifstofurými á daginn og neðsti hluti stúkubyggingarinnar er vel skipulagt geymslusvæði.

En Tammelan völlurinn er ekki bara fótboltavöllur. Í mannvirkinu er einnig stór matvöruverslun, þrír veitingastaðir og bílakjallari. Stórt fjölbýlishús er einnig hluti af mannvirkinu sem fellur vel inn í umhverfið í borginni. Fótbolti er í aðalhlutverki, en viðburðir á borð við tónleika er mikilvægur hluti af rekstrinum. Tampere er markvisst að markaðssetja sig sem íþrótta – og viðburðaborg og fjölnýtanleg mannvirki eru þar í aðalhlutverki. Nokia Arena, að grunni til íshokkíhöll, er veglegasta mannvirkið af þessu tagi í Tampere, en þar mun einmitt einn riðill í úrslitakeppni Evrópumótsins í körfubolta fara fram í ágúst. Næst á dagskrá er að byggja íþrótta- og viðburðamannvirki fyrir finnskan hafnabolta – en sú íþrótt er hátt skrifuð hjá frændum okkar Finnum.

Finnarnir eru líka til fyrirmyndar þegar kemur að því að hvetja til heilbrigðrar útiveru. Meðfram strandlengjunni í Helsinki eru göngu-, hlaupa- og hjólastígar, garðar, padelvellir, apastigar, æfingatæki, saunur, bryggjur, bátar og kaffihús sem laða heimamenn og gesti til sín. Ég sá fyrir mér Hafravatnið þegar ég labbaði meðfram ströndinni í Helsinki. Við gætum búið til útivistarparadís í kringum vatnið – grunnurinn er til staðar – það sem þarf til er vilji til samstarfs og samnýtingar.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 3. apríl 2025

Hef væntingar um að þetta muni skila sér

Þann 10. maí 2023 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027, sem gengur undir nafninu Gott að eldast. Markmið verkefnisins er m.a. að finna góðar lausnir til að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu og stórbæta aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.
Guðleif Birna Leifsdóttir félags- og tengiráðgjafi heldur utan verkefnið fyrir hönd bæjarins. Hún segir að lögð verði sérstök áhersla á virkni og vellíðan eldra fólks til þess að draga úr áhættu á félagslegri einangrun og einmanaleika.

Guðleif Birna er fædd á Sauðárkróki 22. febrúar 1974. Foreldrar hennar eru Kristín Bára Ólafsdóttir og Leifur Hreinn Þórarinsson bændur í Keldudal í Skagafirði. Leifur lést árið 2006.
Systkini Guðleifar eru Ólöf Elfa f. 1960 d. 2019, Stefanía Hjördís f. 1965, Þórarinn f. 1966, Kristbjörg f. 1969 og Álfhildur f. 1977.

Þessi blanda hafði mótandi áhrif
„Ég er alin upp í Keldudal í Skagafirði, á æskuheimili mínu var ansi mannmargt því auk okkar systkinanna tóku foreldrar mínir að sér fósturbörn í mörg ár. Maður ólst upp við hefðbundin sveitastörf en hjá okkur var blandað bú, hestar, kýr og kindur. Foreldrar mínir voru afburða bændur og ræktun þeirra bæði í hrossarækt og sauðfjárrækt landskunn.
Æskuárin í Skagafirði voru hamingjurík, það var alltaf mikið um að vera og mikill gestagangur en alltaf tími fyrir okkur börnin. Foreldrar mínir lögðu áherslu á seiglu, metnað og sjálfstæði, í bland við mikinn kærleika og hlýju, þessi blanda hefur haft mótandi áhrif á mig.
Skagafjörðurinn er einstakur og bjarta vornóttin þar er engu lík.“

Skólagangan farsæl í alla staði
„Fyrstu sjö árin í grunnskóla var ég í litlum sveitaskóla í Hegranesi en lauk svo grunnskóla frá Gagnfræðaskóla Sauðárkróks. Það voru töluverð viðbrigði að koma úr litlum skóla þar sem við vorum þrjú yfir í það að verða 60 manna árgangur. Skólagangan var farsæl í alla staði og ég eignaðist stóran vinahóp og sú vinátta hefur haldist óslitin síðan.
Á sumrin tók ég þátt í búskapnum heima og aðstoðaði við uppeldi fósturbarnanna, þessi góði grunnur hefur fylgt mér og hefur eflaust haft áhrif á starfsval mitt til framtíðar.
Þegar unglingsárin færðust yfir þá tóku við nokkur ár af sveitaballastemningu. Við vinkonurnar létum ekki böllin hjá Sálinni, SSSól eða Stjórninni fram hjá okkur fara. Þetta voru sannarlega skemmtilegir tímar segir,“ Guðleif og brosir.

Kom heim reynslunni ríkari
Guðleif lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra 1994. Hún tók sér hlé frá námi þegar hún var 18 ára og fór þá í heimsreisu. Hún byrjaði hjá Hjördísi systur sinni sem þá var stödd í Guatemala. Þær ferðuðust um Mið- og Suður-Ameríku í fimm mánuði. Guðleif segir að þetta hafi verið algjört ævintýri og að hún hafi komið heim reynslunni ríkari.
„Eftir stúdentspróf fór ég með Eysteini Leifssyni kærastanum mínum til Þýskalands, þar vorum við í nokkra mánuði og störfuðum við hestamennsku. Þegar við komum aftur heim þá settumst við að í Reykjavík og ég hóf nám við Háskóla Íslands í félagsráðgjöf. Við fluttum svo í Mosfellsbæ árið 1998.“

Ógleymanleg veisla af skagfirskum sið
„Ég kynntist Eysteini þegar hann kom í Skagafjörðinn til að nema búfræði og hestamennsku á Hólum í Hjaltadal 1993. Hann flutti 15 ára í Mosfellsbæ frá Stykkishólmi með foreldrum sínum. Hann hefur alla tíð starfað við hestamennsku. Við eigum þrjú börn, Leif Inga f. 1999, Dag f. 2003 og Kristínu Maríu f. 2007. Við giftum okkur 1998, í þreföldu systrabrúðkaupi. Þetta var ógleymanleg veisla að skagfirskum sið, með söng Álftagerðisbræðra og skagfiskri sveiflu fram eftir nóttu.
Það hefur verið frábært að ala upp börnin hér í Mosfellsbæ, þau hafa haft góða kennara, verið í íþróttum hjá Aftureldingu og hafa öll starfað hér í bænum. Við fjölskyldan njótum þess að vera saman og höfum lagt mikið upp úr því að ferðast. Við hjónin komum bæði úr stórum systkinahópum og samvera og ferðalög stórfjölskyldunnar er í algjöru uppáhaldi.
Áhugamál okkar tengist hestamennsku og nú síðustu ár að rækta hross. Ég hef sennilega fengið þessa ræktunardellu frá foreldrum mínum,“ segir Guðleif með bros á vör.
„Ég elska líka að vinna í garðinum mínum og stefnan er að fá sér gróðurhús og svo hef ég frá því ég man eftir mér verið með veiðidellu.“

Þakklát fyrir reynsluna
Meðfram námi í Háskóla Íslands var Guðleif aðstoðarmaður kennara í félagsráðgjöf og svo leysti hún félagsmálastjóra í Skagafirði af um tíma. Eftir að hún lauk námi þá hóf hún störf hjá Reykjavíkurborg, á þjónustumiðstöð í Grafarvogi. Byrjaði í barnavernd en færði sig svo yfir í öldrunar­málin.
„Ég skipti svo um kúrs og starfaði í rúm 12 ár sem ráðgjafi í starfsendurhæfingu hjá VIRK og sinnti þar háskólamenntuðum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu sem voru í endurhæfingu. Á báðum þessum vinnustöðum átti ég frábæra tíma og farsælt starf og ég er þakklát fyrir reynsluna og fyrir allt það fólk sem ég hef unnið með í gegnum árin.“

Gott að eldast
„Þegar mér bauðst starf hjá Mosfellsbæ við að halda utan um verkefnið Gott að eldast þá ákvað ég að slá til og sé alls ekki eftir því en ég hóf störf í mars 2024. Þetta er nýtt starf í mótun sem samþykkt var af Alþingi með tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2023-2027. Mosfellsbær ásamt Kjalarnesi og Kjós sem eitt svæði var valið í verkefnið.
Markmið verkefnisins er m.a að finna góðar leiðir til að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og sveitarfélögin hins vegar. Áherslan er að stuðla að heilbrigðri öldrun og bættu aðgengi að ráðgjöf og upplýsingum fyrir eldra fólk. Einnig verður unnið gegn einmanaleika og félagslegri einangrun og farið í að finna leiðir til að auka virkni og vellíðan íbúa.“

Starfið er fjölbreytt og gefandi
Guðleif er staðsett á velferðarsviði Mosfellsbæjar, hún býður upp á ráðgjafaviðtöl þar og í Brúarlandi og eins kemur hún í heimahús sé þess óskað. Allar upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Mosfellsbæjar, mos.is
„Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að koma að þessu nýja verkefni, starfið er bæði fjölbreytt og gefandi. Ég hef miklar væntingar til þess að það muni skila sér í bættri þjónustu fyrir eldra fólk þannig að það geti notið efri áranna eftir vilja og getu.
Það er og verður sannarlega gott að eldast í Mosfellsbæ,“ segir Guðleif Birna og brosir er við kveðjumst.

Óskað eftir því að Kirkjukór Lágafellssóknar hætti

Sungið í Lágafellskirkju fyrir nokkrum árum.

„Okkur var sagt á síðustu æfingu að við værum rekin,“ segir Valgerður Magnúsdóttir formaður Kirkjukórs Lágafellssóknar.
„Ég er búin að vera alveg miður mín yfir þessu og ekki sofið hálfan svefn. Þó svo að mörg okkar séu orðin fullorðin þá getum við sungið, þó vissulega hefði endurnýjun í kórnum getað verið markvissari.
Við eigum ekki skilið svona framkomu. Ég tek þetta mjög nærri mér,“ segir Vallý en kórinn var stofnaður árið 1948.
Margir kórfélaganna hafa haldið tryggð við kórinn og kirkjuna í tugi ára.

Haldið áfram að leita farsælla lausna
Samkvæmt kórfélögum voru þeim færðar þessar döpru fréttir á æfingu þann 11. febrúar og ekki hefur verið sungið síðan. Þá hafi organistinn sagt við þau að þau skyldu hætta. Kórinn væri ekki nægilega góður og orðinn of gamall.
Greinilegir samstarfsörðugleikar eru þarna á milli og hefur kórinn gefið það út að hann muni ekki syngja áfram undir sömu stjórn eftir þessa uppákomu.
Nálgast nú annasaman tíma í kirkjunni með fermingum og páskum.
Sáttafundur var haldinn rétt áður en blaðið fór í prentun og að sögn sóknarnefndar var fundurinn árangursríkur. „Haldið verður áfram að leita farsælla lausna.“

Vel heppnuð afmælis­ráðstefna Reykjalundar

Undirbúningsnefndin: Edda Björg, Kristín, Helga, Árdís og Pétur.

Á dögunum fór fram glæsileg ráðstefna um endurhæfingu á vegum Reykjalundar í tilefni af 80 ára afmæli Reykjalundar á þessu ári.
Tæplega 250 manns voru skráðir til leiks og hlustuðu á metnaðarfulla dagskrá um stöðu mála í endurhæfingu.

Endurhæfing er samvinna
Afmælisráðstefnan bar titilinn „Endurhæfing er samvinna – Sköpum framtíðina saman“ en starfsfólk Reykjalundar vill gjarnan auka samvinnu þeirra sem starfa í endurhæfingarþjónustu, sjúklingunum og samfélaginu til bóta. Það var mikill samhljómur um aukna samvinnu hjá þeim sem töluðu á ráðstefnunni.
Heilbrigðisráðherra flutti líflegt og áhugavert ávarp, farið var yfir mikilvægi endurhæfingar út frá heilsuhagfræði, rætt um nýjungar, velt upp framtíðarsýn og erlendur gestur kynnti alþjóðalega CARF-gæðavottun sem Reykjalundur stefnir á að fara í gegnum nú síðar á árinu.
Síðast en ekki síst var fléttað inn í dagskrána stuttum kynningum frá fjölda aðila sem í málaflokknum starfa.

Þörf fyrir endurhæfingu mun aukast
Fram kom að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, hefur áætlað að þörf fyrir endurhæfingu muni aukast á heimsvísu samhliða samfélagsbreytingum og lýðfræðilegum breytingum, s.s. breyttri aldurssamsetningu þjóða, bættum læknismeðferðum og aukinni lifun í kjölfar greiningar á langvinnum sjúkdómum. Áætlað er að einn af hverjum þremur muni þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni.
Því er ljóst að endurhæfing mun gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Gísli Einarson fjölmiðlamaður stýrði dagskránni af alkunnri snilld og í lokin lét hann þessa limru falla:
Endurhæfing ætla ég
að ætti að vera skemmtileg
skörp og skýr
ekki of dýr
og þokkalega þverfagleg.

Rástefnunefnd Reykjalundar þakkar öllum fyrir sín innlegg og þátttakendum kærlega fyrir komuna.

Afmæli og nýju eldhúsi fagnað á leikskólanum Reykjakoti

Sardar, Regína, Kristlaug og Iryna.

Leik­skól­inn Reykja­kot fagn­aði 30 ára af­mæli á dögunum og vígði við sama til­efni nýtt eld­hús. Leik­skól­inn hef­ur stækkað og dafn­að í gegn­um tíð­ina og í dag eru um 85 börn þar á aldr­in­um 1-5 ára.
Stjórn­end­ur og starfs­fólk Reykja­kots hafa átt frum­kvæði að og tek­ið þátt í fjölda þró­un­ar- og frum­kvöðl­a­verk­efna í gegn­um tíð­ina, bæði stór­um sem smá­um. Þann­ig hef­ur starfs­fólk skól­ans kom­ið að því að skrifa leik­skóla­sögu bæj­ar­ins og tek­ið virk­an þátt í þeirri nýbreytni og fag­legu fram­þró­un sem ein­kennt hef­ur leik­skólast­arf í Mos­fells­bæ. Sök­um þessa hef­ur oft ver­ið leitað sér­stak­lega til Reykja­kots í gegn­um tíð­ina varð­andi þátt­töku í þró­un nýrra kennslu- og starfs­hátta.

Uppfyllir allar nýjustu kröfur
Verktak­inn Mineral ehf. sá um fram­kvæmd­ina á nýja eld­hús­inu og not­að­ist við svo­kall­aða Durisol kubba í burð­ar­virk­ið á nýju bygg­ing­unni sem er 97 fer­metr­ar að stærð. Kubb­arn­ir eru fram­leidd­ir úr sér­völd­um end­urunn­um viði og síð­an stein­gerð­ir með vist­væn­um að­ferð­um. Eld­hús­ið upp­fyll­ir all­ar nýj­ustu kröf­ur sem gerð­ar eru til slíkra eld­húsa tengt að­geng­is­mál­um, bygg­ing­a­reglu­gerð, heil­brigðis­eft­ir­liti og vinnu­eft­ir­liti svo eitt­hvað sé nefnt.
Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri var við vígsluna og færði starfs­fólki blóm­vönd og gjöf og ósk­aði starfs­fólki, börn­um, for­eldr­um og öll­um velunn­ur­um skól­ans til ham­ingju með af­mæl­ið og nýja eld­hús­ið. Þá þakk­aði hún starfs­fólki skól­ans sér­stak­lega fyr­ir þeirra fram­lag og natni við að gera Reykja­kot að þeim góða leik­skóla sem hann er.

Eigendaskipti á Fótaaðgerðarstofu Mosfellsbæjar

Sigrún, Anna Vilborg og Auður Ósk.

Þann 1. febrúar urðu eigendaskipti á Fótaaðgerðarstofu Mosfellsbæjar þegar Auður Ósk Ingimundardóttir afhenti nýjum eigendum Önnu Vilborg Sölmundardóttir og Sigrúnu Áslaugu Guðmundsdóttir lyklana.
Fótaaðgerðastofan hefur verið starfandi frá árinu 2009 og eru fjórir fótaaðgerðafræðingar sem starfa þar. Stofan er staðsett í Þverholti 3.

Smáskref

Ég er búinn að vera að vinna með litlu skrefin undanfarna mánuði. Fékk spark í rassinn um mitt síðasta ár þegar ég missti á einni nóttu styrk í hægri upphandlegg. Fékk mjög góð ráð frá sjúkraþjálfaranum mínum sem setti mig í daglegar æfingar. Hef síðan notað um þrjátíu mínútur fyrir vinnu á morgnana til að gera æfingarnar sem hann setti mér fyrir ásamt vel völdum liðleika- og styrktaræfingum sem ég veit að gera mér gott. Í dag er ég með tvö sett af æfingum sem ég geri til skiptist á morgnana. Ég byrja samt alltaf á sömu gólfæfingunum. Fyrst æfingum sem styrkja og liðka hálsinn, skipti yfir í barnarúll, rugg og nokkrar dýragönguæfingar áður en ég æfi mig mjúklega í að detta. Ég enda þessar gólfæfingar á nokkurs konar plankahring. Eftir gólfæfingar vinn ég í mismunandi (eftir dögum) styrk og liðleika. Síðasta morgunæfingin er alltaf að hanga á stöng, fyrir bakið og gripið.

Lykilatriði í þessum morgunæfingum er að ég hef í ör-skrefum gert þær erfiðari. Ör-skrefin eru svo lítil – kannski bæti ég bara við 1-2 sekúndu á viku í plankann eða hangsið – að líkaminn áttar sig ekki á því að hann er vinna meira en áður. En þetta safnast saman og þegar maður hefur ör-bætt sig í margar vikur og marga mánuði, þá eru framfarirnar orðnar vel merkjanlegar. Það sem var áskorun fyrir nokkrum mánuðum, er auðvelt í dag.

Þolinmæði og þrautseigja er það sem skiptir máli þegar kemur að því að byggja sig upp, sama hver grunnurinn er. Það kemur ekkert af sjálfu sér, en langtímaárangur næst ekki með því að reyna að komast hærra og lengra of hratt. Það er ávísun á meiðsli og yfirkeyrslu sem leiðir til þess að fólk gefst upp, hættir og gerir ekkert í langan tíma. Prófaðu litlu skrefin, þau gefa.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. mars 2025

 

 

Bæði karla- og kvennalið Aftureldingar í undanúrslitum

Blakdeild Aftureldingar er með bæði karla- og kvennalið í FINAL4 bikarkeppni Blaksambands Íslands sem haldin er í Digranesi í Kópavogi 6.-8. mars.
Strákarnir hefja leik í kvöld, fimmtudag og spila kl. 19:30 gegn KA. Stelpurnar spila á morgun, föstudag, kl 17:00 og einnig á móti KA. Það er ljóst að báðir þessir leikir verða ótrúlega erfiðir og er allt Aftureldingarfólk hvatt til að mæta í rauðu í Digranesið og hvetja liðin okkar áfram.

Úrslitaleikirnir fara fram á sunnudaginn
Miðasala er á Stubb.is appinu og rennur aðgangseyrir á undanúrslitaleikjunum til félaganna ef merkt er við félagið.
Úrslitaleikirnir fara svo fram á laugardaginn, karlaleikurinn er kl. 13:00 og kvennaleikurinn er kl. 15:30. Þangað stefna bæði Aftureldingarliðin að sjálfsögðu.
Síðast komust bæði karla- og kvennaliðið í FINAL4 helgina árið 2017.

Fimm nýir stungupallar í Lágafellslaug

Sundkappinn Kolbeinn Flóki Gunnarsson var drifkrafturinn í því að nýir löglegir keppnisstungupallar eru nú komir í Lágafellslaug.
„Pallarnir sem voru í Lágafellslaug voru ekkert sérstaklega góðir svo einn daginn hugsaði ég með mér að panta tíma með bæjarstjóranum og leggja undir hana hvort hægt væri að fá nýja betri palla í laugina,“ segir Kolbeinn Flóki sem er 12 ára og hefur æft sund í fimm ár með sunddeild Aftureldingar.

Getum æft stungur almennilega
„Núna eru komnir fimm nýir stungupallar sem eru alveg frábærir. Helsti munurinn á pöllunum sem voru og þeim nýju er að gömlu pallarnir hölluðu ekki og höfðu heldur ekki sandpappírsgrip.
Nýju pallarnir eru keppnispallar og þetta munar miklu fyrir okkur að geta æft stungur almennilega,“ segir Kolbeinn og bætir við að allir í sunddeildinni séu mjög glaðir með breytinguna.