Vinn að endurheimt líkamans
Halldóra Huld Ingvarsdóttir, sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum, er mikil ævintýramanneskja. Hún hefur verið í hestamennsku frá unga aldri en eftir því sem hún varð eldri fór hún einnig að hafa áhuga á fjallgöngum, jöklagöngum, utanvegahlaupum og stangveiði.
Draumur Halldóru er að heimsækja allar heimsálfurnar og upplifa mismunandi menningarheima en þau ævintýri þurfa að þola smá bið því í byrjun apríl á hún von á sínu fyrsta barni.
Halldóra Huld fæddist í Reykjavík 15. júlí 1988. Foreldrar hennar eru Helga Hrönn Þorleifsdóttir grafískur hönnuður og keramiker og Ingvar Ingvarsson læknir.
Systkini Halldóru eru Þorleifur Þorri f. 1981, Játvarður Jökull f. 1984 og tvíburasystirin Sigríður Sjöfn f. 1988.
Alltaf verið mikið náttúrubarn
„Ég hef alltaf búið í Mosfellsbænum, ólst upp utarlega í Reykjabyggðinni. Ég er mikið náttúrubarn svo þetta var fullkominn staður til að alast upp á.“
„Æskuminningar mínar er flestar tengdar hestamennskunni og útivistinni sem henni fylgir. Á mínum yngri árum var fjölskyldan með hestana í heima haga á sumrin og við systurnar lékum okkur mikið úti í kringum þá ásamt vinkonum okkar. Eins eyddum við miklum tíma í hesthúsinu og það kom fyrir að við gistum allar saman þar. Seinna tóku svo hesthúsapartýin við svo hesthúsið hefur verið staður dýrmætra minninga.
Hestaferðirnar á Öræfin eru samt þær sem standa upp úr, þar sem riðið var með allt stóðið á milli fjallakofa, í allskonar veðrum. Öll þessi hestaævintýri hafi mótað mig mikið, mér líður einstaklega vel á fjöllum og finnst ekkert að því að leggja af stað í roki og rigningu.
Foreldrar mínir voru líka dugleg að fara með okkur fjölskylduna í ferðalög erlendis. Flórída varð þá oftast fyrir valinu en við ferðuðumst einnig um Evrópu og þá helst í kringum heimsmeistaramótin í hestaíþróttum.“
Skólaböllin hápunkturinn
„Ég gekk í Varmárskóla og síðan Gaggó Mos, kennararnir voru góðir og ég hafði gaman af að læra. Á þessum árum gengu allir bæjarbúar í þessa skóla og maður þekkti því jafnaldra sína vel. Þarna kynntist ég nokkrum af mínum bestu vinkonum og ég á góðar minningar frá skólaárunum. Skólaböllin og limmósínurnar á undan voru hápunkturinn í Gaggó Mos og það voru vinsælar hljómsveitir sem komu fram eins og Írafár, Á móti sól og Í svörtum fötum.
Á sumrin starfaði ég ásamt frændsystkinum mínum í bílaumboðinu hjá afa okkar og ömmu við að þrífa og bóna bíla. Það var ótrúlega gaman að vinna hjá þeim og maður reyndi að gera þau stolt. Maður var kannski ekki alltaf fyrirmyndarstarfsmaður, amma komst að því einu sinni að við höfðum stimplað okkur inn en fórum svo saman beinustu leið í Húsdýra- og fjölskyldugarðinn. Það þarf ekki að taka það fram að þetta gerðist bara einu sinni,“ segir Halldóra og brosir.
Þetta voru mistök
„Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór ég í Menntaskólann Hraðbraut. Ég hafði alltaf stefnt á MS en tók skyndiákvörðun um að fara í Hraðbraut. Þetta voru mistök, mér fannst lærdómurinn í skólanum mjög þrúgandi og skólinn einangrandi. Ég segi alltaf að ég sé laumu MS-ingur því mér fannst ég vera að missa svo mikið úr félagslífinu sem vinkonur mínar í grunnskóla voru að upplifa.
Ég hætti í Hraðbraut eftir eitt ár og fór yfir í Borgarholtsskóla, ákvað að leggja minni áherslu á lærdóm en áður og njóta félagslífsins í botn. Þar kynntist ég dýrmætum vinum og átti ógleymanlega tíma.“
Við Eyjólfur erum heppin
Unnusti Halldóru heitir Eyjólfur Þorsteinsson og er hestamaður. Þau eiga von á sínu fyrsta barni í apríl en fyrir átti Eyjólfur Valdísi Mist sem er 11 ára.
„Við Eyjó erum heppin að eiga mörg sameiginleg áhugamál og erum dugleg að fara í fjallgöngur, skíðaferðir, veiðiferðir, hlaupa og stunda hestamennsku.
Við höfum einnig gaman af að ferðast bæði innan- og utanlands, skemmtilegustu ferðalögin eru þau sem innihalda útiveru og hreyfingu.“
Hlaupin eru lúmskt skemmtileg
Utanvegahlaup er helsta áhugamál Halldóru en hún fer einnig í götuhlaup til að fá tíma. Hún æfir og keppir á braut á veturna til að ná upp meiri hraða og segir brautahlaupin lúmskt skemmtileg og stemmingin í kringum þau mikil.
„Ég mæli með að þeir sem stefna á keppnishlaup yfir sumartímann prófi brautarhlaupin á veturna, það hjálpar mikið við undirbúninginn. Sumrin hjá mér fara núna í að ferðast í kringum hlaupakeppnirnar sem eru víðs vegar um landið og erlendis.
Þegar ég komst að því s.l. sumar að ég væri ófrísk þá voru tvö af mínum stærstu hlaupum eftir, annað var CCC by UTMB sem er 100 km utanvegahlaup í kringum Mont Blanc og hitt var götumaraþon í Frankfurt. Á meðan ég var að hugsa mína stöðu hvort ég ætti að fara þá tók ég þátt í hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu og tókst að vinna það.“
Hef nýtt tímann í að mála
„Ég ákvað svo að fara út í bæði hlaupin og tvíburasystir mín, Sigga, kom með mér út til að aðstoða mig. Það var mjög gott, ekki síst vegna þess að hún er læknir og því með þekkingu á þessu sviði. Ég lofaði sjálfri mér því og mínu fólki að ef hún myndi segja mér að hætta keppni þá myndi ég gera það tafarlaust.
Eftir CCC hlaupið var haldið til Frankfurt, fyrir það hafði ég bókað ferð til Kenýa þar sem ég ætlaði að búa í 2400 metra hæð til að fjölga rauðum blóðkornum. Upphaflega ætlaði ég að nota Kenýa ferðina sem æfingabúðir en breytti því í rólegheitaferð með smá hlaupum. Eftir maraþonið þurfti ég svo að hvíla mig andlega frá hlaupum og fara að njóta óléttunnar. Ég hef nýtt tímann í að mála og þá helst olíumálverk, oftast af hestum og náttúru enda hefur áhuginn legið þar.“
Nær vel yfir mitt áhugasvið
Halldóra Huld hefur starfað mest í gegnum tíðina við umönnun, þá aðallega á elliheimilum en einnig á leikskólanum Hlaðhömrum.
„Ég hóf störf í Lágafellslaug árið 2011 og fór svo í sjúkraþjálfaranám, starfaði þar áfram með námi en ég útskrifaðist 2017. Þetta hentað mér vel því ég hreinlega dýrka þessa sundlaug.
Í dag starfa ég sem sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum, þetta er mjög fjölbreytt starf þar sem maður hittir margt áhugavert og skemmtilegt fólk. Starfið nær vel yfir áhugasvið mitt, að vinna að endurheimt líkamans. Hreyfing nær einnig yfir áhugasviðið því hún spilar stórt hlutverk og er allra meina bót. Ekki skemmir fyrir að starfsfélagarnir eru algjör eðalmenni,“ segir Halldóra Huld og brosir er við kveðjumst.