Hver er Mosfellingur ársins 2024?

Val á Mosfellingi ársins 2024 stendur nú yfir. Lesendum gefst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykja verðugir að bera nafnbótina. Öllum er frjálst að senda inn tilnefningar í gegnum heimasíðu blaðsins www.mosfellingur.is. Þetta er í 20. sinn sem valið fer fram á vegum bæjarblaðsins Mosfellings. Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt og senda inn tilnefningar. Gjarnan má fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tilnefningunni og hvað viðkomandi hefur lagt til samfélagsins.

Áður hafa þessi hlotið nafnbótina: Sigsteinn Pálsson, Hjalti Úrsus Árnason, Jóhann Ingi Guðbergsson, Albert Rútsson, Embla­ Ágústsdóttir, Steindi Jr., Hanna Símonardóttir, Greta Salóme, Kaleo, Jóhanna Elísa Engelhartsdóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir, Guðni Valur Guðnason, Jón Kalman Stefánsson, Óskar Vídalín Kristjánsson, Hilmar Elísson, Sigmar Vilhjálmsson, Elva Björg Pálsdóttir, Halla Karen Kristjánsdóttir og Dóri DNA.

Útnefningin verður kunngjörð í fyrsta blaði ársins 2025, fimmtudaginn 9. janúar.

 

Fyrsti heiti pottur sinnar tegundar fyrir hreyfihamlaða

Á myndinni að ofan má sjá Harald Þorleifsson rampara, Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra og Ásmund Einar Daðason ráðherra skrifa undir í votta viðurvist á bökkum Lágafellslaugar.

Dæmi um útfærslu.

Mos­fells­bær, mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­ið og Römp­um upp Ís­land hafa skrifað undir vilja­yf­ir­lýs­ingu um fjár­mögn­un á heit­um potti með rampi fyr­ir hreyfi­haml­aða við Lága­fells­laug.
Lága­fells­laug er ein fjöl­sótt­asta sund­laug lands­ins með um 224.000 heim­sókn­ir á ári og er afar vin­sæl með­al barna­fjöl­skyldna.
Mun heiti pott­ur­inn með að­gengi fyr­ir öll bæta enn ­frek­ar þjón­ustu og að­gengi fyr­ir hreyfi­haml­aða sund­gesti en hann verð­ur sér­stak­lega hugs­að­ur fyr­ir hreyfi­hömluð börn og ung­menni.
Pott­ur­inn verð­ur sá fyrsti sinn­ar teg­und­ar á Ís­landi.

Einstakt verkefni og gott samstarf
Í fjár­hags­áætlun Mos­fells­bæj­ar fyr­ir árið 2025 er gert ráð fyr­ir 30 millj­ónum krón­a til þess að byggja pott­inn og munu ráðu­neyt­ið og Römp­um upp Ís­land hvort um sig leggja 10 millj­ón­ir króna til verk­efn­is­ins auk þess sem óskað hef­ur ver­ið eft­ir styrk frá Jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga vegna upp­bygg­ing­ar­inn­ar.
Frum­kostn­að­ar­áætlun ger­ir ráð fyr­ir að fram­kvæmd­in fari fram á ár­inu 2025.
„Þetta er ein­stakt verk­efni og mun von­andi hafa áhrif á hönn­un heitra potta í al­menn­ings­laug­um í fram­tíð­inni. Þá erum við mjög ánægð með sam­starfs­að­il­ana en við höf­um átt í mjög góðu sam­starfi við verk­efn­ið Römp­um upp Ís­land og það­an er hug­mynd­in sprott­in,“ seg­ir Regína Ás­valds­dótt­ir bæj­ar­stjóri Mos­fells­bæj­ar.
Á myndinni að ofan má sjá Harald Þorleifsson rampara, Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra og Ásmund Einar Daðason ráðherra skrifa undir í votta viðurvist á bökkum Lágafellslaugar.
Til hliðar má sjá dæmi um útfærslu.

Hljóðlátir leiðtogar

Þórir Hergeirsson er besti þjálfari Íslands, fyrr og síðar. Hann varð Evrópumeistari um síðustu helgi með lið sínu Noregi. Hann varð með sigrinum um helgina sigursælasti þjálfari í sögu handboltans. Það sem einkennir hann öðru fremur er hversu góð manneskja hann er. Það sýndi sig vel í viðtölum eftir úrslitaleikinn, bæði við hans eigin leikmenn og enn meir í viðtali við þjálfara danska landsliðsins, Jesper Jensen, sem nánast táraðist á blaðamannafundi eftir leik í þakkar- og kveðjuræðu sinni um Þóri.

Ég hef fylgst með Þóri lengi, horft og lesið mörg viðtöl við hann og það er akkúrat þetta sem skín í gegn. Hann skilur fólk, tengir við það og nálgast það sem manneskjur, hvort sem það eru leikmenn hans, þjálfarar eða aðrir sem hann á í samskiptum við. Hann trúir á gildi og mælir með því að þjálfarar byrji snemma að vinna með þau. Búi til einfaldar, en skýrar samskiptareglur sem ýti undir að krökkum líði vel á æfingum og hlakki til að mæta.

Draumar skipta líka máli samkvæmt Þóri, stórir draumar eru hvetjandi og við eigum ekki að draga úr þeim. Þórir ber sér lítið á brjóst sjálfur, hann lætur verkin tala og hefur öðlast miklau virðingu í íþróttaheiminum fyrir það.

Annar hljóðlátur leiðtogi sem ég hef fylgst með undanfarið er Nuno Espírito Santo, knattspyrnustjóri Nottingham Forest. Eitt af því sem hann á sameiginlegt með Þóri er að trúa á allan leikmannahópinn, ekki bara byrjunarliðið eins og sumir þjálfarar. Nuno gerir 4-5 skiptingar í hverjum leik og það á sinn þátt í að Forest er í dag í fjórða sæti í erfiðustu deildarkeppni í heimi. Við getum yfirfært þetta yfir á lífið – höldum fast í gildin okkar og förum eftir þeim, þorum að láta okkur dreyma og trúum á fólkið sem við stýrum, kennum, leiðbeinum eða vinnum með.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. desember 2024

„Andrúmsloftið er alveg einstakt þegar Mosó mætir“

Mosfellingar á sviði í Lissabon.

Afturelding stóð fyrir hópferð á KALEO-tónleika í Lissabon í Portúgal í byrjun nóvember. Hátt í 200 Mosfellingar voru með í för og var mikil stemning í hópnum enda Afturelding nýbúin að tryggja sér sæti í Bestu deild og var bikarinn með í för.
„Það er oftast mikil stemning á tónleikum hjá okkur en það er óhætt að segja að andrúmsloftið sé einstakt í þau skipti sem hópurinn úr Mosó mætir,“ segir Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar KALEO.
Áður hafði verið farið í ferð til Dublin árið 2022. „Þetta er smá eins og þegar íslenskt landslið fer á stórmót og fólk mætir erlendis til að styðja. Það er virkilega einstakt fyrir Mosfellsbæ og ég elska að fá að vera hluti af því,“ segir Jökull.

Sameinar samfélagið í Mosó
Fyrir þremur árum gerðist KALEO styrktaraðili knattspyrnudeildar Aftureldingar og hefur merki hljómsveitarinnar verið framan á búningum meistaraflokkanna.
„Samstarfið hefur verið frábært í alla staði. Við höfum haldið einkatónleika og styrktartónleika fyrir félagið og reynt að bera hróður þess sem og Mosfellsbæjar út um allan heim.
Það skemmtilegasta við þetta allt er hvað þetta sameinar samfélagið í Mosó og gerir mikið fyrir fólkið.“

Stefna að nýrri plötu með vorinu
Mosfellingarnir í KALEO hafa verið á tónleikaferðalagi frá því í júní. Fyrst var farið um Norður-Ameríku og nú eru þeir á ferð um Evrópu fram í miðjan desember. „Það er mikil stemning en ég neita því ekki að það er komin smá þreyta í hópinn.“
Strákarnir halda áfram tónleikaferð um heiminn á nýju ári og bíður þeirra Ástralía, Nýja Sjáland og Suður Ameríka svo eitthvað sé nefnt. „Svo stefnum við að því að gefa út nýja plötu næsta vor,“ segir Jökull.
„Við vonumst til þess að geta haldið tónleika á Íslandi á næsta ári. Við höfum verið að plana stóra tónleika heima í einhvern tíma en það þurfa nokkrir hlutir að ganga upp í takt við skipulag og tímaramma. Við lofum alla vega dúndur „showi“ þegar að því kemur,“ segir Jökull að lokum.

Stofna hóp ábyrgra foreldra

Snædís og Daðey segja foreldrasamstöðu öflugustu forvörnina.

Mosfellingurinn Daðey Albertsdóttir er sálfræðingur sem vinnur mikið með börnum og unglingum.
Hún hefur fundið það í sínu starfi að snjallsímanotkun hjá börnum og unglingum er vaxandi vandamál á heimsvísu og mikið er fjallað um þann skaða sem börn og ungmenni verða fyrir með aukinni notkun samfélagsmiðla og snjallsíma.
Kvíði og önnur vandamál eru vaxandi heilsuvandamál meðal barna og hefur Daðey meðal annars verið að vinna að skjátímaviðmiðum og fleiru tengt þessum efnum í gegnum starf sitt sem sálfræðingur.

Öflug foreldrasamstaða
Daðey er þessa dagana í fæðingarorlofi með sitt annað barn en fyrir á hún son í 2. bekk í Lágafellsskóla. Hún ásamt Snædísi Jónsdóttur sem einnig er í fæðingarorlofi og á son í 3. bekk í sama skóla stofnuðu nýverið facebook-síðuna Áhugahópur ábyrgra foreldra í Mosfellsbæ – börn og samfélagsmiðlar.
„Já, við Snædís erum sem sagt saman í fæðingarorlofi, erum báðar bekkjarfulltrúar í Lágafellsskóla og höfum meðal annars verið að vinna saman að bekkjarsáttmála.
Miklar umræður skapast í svona vinnu og hugmyndir koma fram. Við erum að sjá fréttir utan úr heimi um að snjallsímanotkun og samfélagsmiðlar eru vaxandi vandamál. Við erum sannfærðar um að foreldrasamstaða sé öflugasta forvörnin.“

Ótti við að barnið þitt verði útundan
„Helsta vandamálið er að þótt foreldrar vilji ekki láta undan að gefa barninu sínu snjallsíma eða hleypa því á samfélagsmiðla, þá er það þessi pressa að ALLIR aðrir eigi síma og það er þessi ótti hjá foreldrum að barnið þeirra sé að verða útundan, þá erum við líklegri til að gefa eftir. Ef við sem foreldrar stöndum saman og erum með samræmd markmið þá er auðveldara standa með okkar ákvörðunum.“

Frábær viðbrögð við hópnum
Þær Daðey og Snædís segja að viðbrögðin við hópnum hafi verið frábær og nú eru rúmlega 600 meðlimir í honum. Hugmyndin var að búa til stuðningshóp fyrir foreldra í Mosfellsbæ sem átta sig á hættum samfélagsmiðla og vilja þar af leiðandi halda samfélagsmiðlum frá börnunum sínum sem lengst.
Markmið hópsins er að vera styðjandi við aðra foreldra og hvetja til ábyrgrar hegðunar varðandi snjalltæki. Þær stöllur segja að hópurinn sé vettvangur fyrir foreldra að skiptast á hugmyndum og styðja hvert annað í að vera ábyrgir foreldrar í Mosfellsbæ. Þær hvetja alla Mosfellinga til að ganga í hópinn og deila góðum ráðum og sýna samstöðu.

Tek þetta að mér með skýr markmið í huga

Ásgeir Jónsson hefur veitt grunnnámi viðskipta- og hagfræðideildar Háskólans í Reykjavík forstöðu og komið að hinum ýmsu nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Í dag kennir hann ásamt teymi fjölmennasta háskóla­áfanga landsins, Nýsköpun og stofnun fyrirtækja.
Á vordögum tók Ásgeir við formanns­embætti hjá Ungmennafélaginu Aftureldingu en þar er hann öllum hnútum kunnugur bæði sem leikmaður og þjálfari. Ásgeir er með skýr markmið og vonast til að geta látið gott af sér leiða.

Ásgeir er fæddur í Reykjavík 12. janúar 1983. Foreldrar hans eru Áslaug Höskuldsdóttir listakona og Jón Steinar Árnason skipstjóri.
Ásgeir á fjögur systkini, Steinunni f. 1968, Árna f. 1972, Ösp f. 1977 og Agnar f. 1979.

Uppátækjasamir í meira lagi
„Ég er alinn upp í Mosfellssveit, síðar Mosfellsbæ. Fyrstu ár ævinnar bjó ég í Skál í Krókabyggð. Það var dásamlegt og mikið frelsi, að hlaupa um melinn svokallaða og slæpast um skóglendið í kring. Fyrstu árin voru þetta bara húsin á Reykjaveginum og Reykjum og einstaka hús í kring. Svo auðvitað Reykjalundur og Dælustöðin, þar sem afi minn Höskuldur Ágústsson var stöðvarstjóri.
Ég og Oddur vinur minn vorum uppátækjasamir í meira lagi og áttum til að reyna verulega á þolinmæði samferðafólks, sér í lagi foreldranna.“

Við afi vorum nánir vinir
„Þegar ég var 8 ára héldu foreldrar mínir í sitt hvora áttina. Við systkinin og mamma bjuggum þá hjá afa Höska og ömmu Áslaugu í tæp tvö ár. Ómetanlegir tímar þar sem við afi urðum nánir vinir, hann kenndi mér að lesa og skrifa ljóð.
Um 10 ára aldurinn fluttum við svo í Miðholtið og þar tók maður út gelgjuna. Strákapörin áfram rauður þráður en handboltinn átti alltaf stóran þátt í lífi mínu og hélt manni á mottunni,“ segir Ásgeir og brosir.
„Æskuminningarnar eru margar frábærar en besta minningin var alltaf sú síðasta. Heima þegar pabbi kom heim eftir siglingar og færði okkur systkinunum gjafir sem fengust ekki á landinu. En rauði þráðurinn þegar maður hugsar til baka er hversu kærleiksrík mamma var og er, ég verð alltaf þakklátur fyrir það.“

Þar lærði ég á lífið að miklu leyti
„Ég gekk í Varmárskóla og fór síðan í Gaggó Mos eins og það var kallað í den tid. Ég átti auðvelt með að læra, ef ég hafði áhuga á faginu. Ef ekki gat ég eflaust verið nokkuð krefjandi og átti auðvelt með að sannfæra samnemendur um að slást með í för. Ég á kennurum mínum mikið að launa í því samhengi, að þessar elskur hafi haft þolinmæði fyrir mér þegar mest á reyndi.
Ég mætti í tvo daga í unglingavinnu en fann strax að ég nennti ekki því hangsi. Var svo lánsamur að fá vinnu hjá Gísla í Dalsgarði og Nonna í Mosskógum, þar vann ég öll sumur þar til ég var 19 ára. Hjá þeim fékk maður betri laun, meiri ábyrgð og að keyra Löduna. Það var yndislegt að umgangast allt þetta litríka fólk í Mosfellsdalnum, Dalnum sem hefur ætíð átt sérstakan stað í mínu hjarta, þar lærði ég á lífið að miklu leyti.“

Ég stökk á tækifærið
Ásgeir kláraði nám í félagsfræði við Borgarholtsskóla og að lokinni útskrift tók hann sér frí og fór að starfa hjá pípulagningameistara. Eftir eitt ár hóf hann nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
„Námið gekk vel en ég sá ekki tilganginn í náminu nema til að vera betur undirbúinn í kjaftbrúk í fjölskylduboðum. Þegar mér bauðst svo starf sem blaðamaður á DV stökk ég á tækifærið. Vann sem slíkur í 7 ár og sinnti ýmsum verkefnum. Stýrði helgar- og innblaði þar sem ég tók forsíðuviðtöl og skrifaði um menningu.
Eftir árin á DV leiddi handbolti og námsþorsti mig norður á Akureyri þar sem ég nam sjávarútvegsfræði. Að því loknu kláraði ég master í matvælafræði í HÍ.“

Þetta er meiri árátta en áhugamál
„Ég er í sambúð með Yrju Dögg Kristjánsdóttur, ritara og styrktarþálfara, og hef verið síðustu 18 ár. Mín stærsta lukka var að kynnast Yrju, við vegum hvort annað stórkostlega upp og hún heldur mér í jafnvægi. Við eigum þrjú börn, Viktoríu Nansý f. 2010, Jón Kristján f. 2014 og Bjart Árna f. 2018 og hundana Esju og Móa. Við ferðumst mikið, stundum útivist og svo eru töluverð ferðalög í kringum íþróttir barnanna sem eru mikil forréttindi.
Mín helstu áhugamál eru handbolti, hreyfing, veiði og félagsskapurinn Fálkarnir. Ég er svo lánsamur að eiga maka og marga frábæra vini sem deila ævintýraþránni með mér. Handboltinn hefur fylgt mér frá átta ára aldri og er nær því að vera árátta en áhugamál.“

Sjö ár á flakki
Ásgeir hefur starfaði lengi í fjölmiðlum eða í rúm 10 ár, síðast hjá RÚV í vef-, útvarps- og sjónvarpsfréttum. Eftir að hann kláraði matvælafræðina 2016 bauðst honum starf hjá Háskólanum í Reykjavík.
„Starfið hjá HR fólst í því að koma á laggirnar nýrri námsbraut í Vestmannaeyjum, haftengdri nýsköpun. Þar bjuggum við fjölskyldan í tvö ár og það var dásamlegur tími, eins og má segja um árin okkar þrjú á Akureyri. Eftir sjö ár á flakki fluttum við aftur í Mosó og höfum verið hér síðan.
Hjá HR hef ég kennt í viðskipta- og hagfræðideild, veitt grunnnámi deildarinnar forstöðu og komið að hinum ýmsu nýsköpunar- og þróunarverkefnum. Í dag kenni ég ásamt frábæru teymi fjölmennasta háskólaáfanga landsins, Nýsköpun og stofnun fyrirtækja, og svo er ég jafnframt nýsköpunarfulltrúi í NeurotechEU.“

Með skýr markmið í huga
Fyrir utan störfin hjá Háskólanum í Reykjavík hefur Ásgeir verið handboltasérfræðingur í fjölmiðlum og hlaðvörpum, þjálfari og viðburðahaldari. Hann tók að sér formannsembætti hjá uppeldisfélaginu Aftureldingu í vor og vonast til að geta látið gott af sér leiða.
„Það var persónulega mikill heiður að taka við þessu embætti enda harðari eldingarmaður vandfundinn,“ segir Ásgeir og brosir. „Þetta hefur nú þegar verið viðburðaríkur tími þar sem meistaraflokkarnir í blaki og handbolta hafa barist um titla líkt og síðustu ár og meistaraflokkur karla í knattspyrnu tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn.
Ég tók þetta hlutverk að mér með skýr markmið í huga, að byggja upp innviði félagsins með því að fjölga stöðugildum sem styðja við okkar frábæru sjálfboðaliða. Við höfum setið eftir í samanburði við önnur félög og löngu tímabært að nútímavæða félagið að þessu leyti.
Áfram mun orka og tími fara í að bæta aðstöðu félagsins til að geta talist samkeppnishæft og eins að setja skýra félags- og afreksstefnu. Við búum í mögnuðu samfélagi með öfluga félagsmenningu en það er ekki sjálfsagður hlutur. Þetta þarf að ræða, skilgreina og rækta markvisst,“ segir Ásgeir að lokum.

Meðferðarheimili fyrir ungmenni opnað á Farsældartúni

Á þriðjudag opnaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, meðferðarheimilið Blönduhlíð, sem staðsett er á Farsældartúni í Mosfellsbæ.
Meðferðarheimilið er fyrir ungmenni á aldrinum 13–18 ára sem glíma við hegðunar- og fíknivanda og verður rekið af Barna- og fjölskyldustofu.
Meðferðarheimilinu er ætlað að vera viðbót við greiningar- og meðferðardeild Stuðla. Með því að bæta við öðru meðferðarheimili er unnt að aðgreina betur börn með mismunandi vanda og veita á þann hátt sérhæfðari þjónustu. Áætlað er að börn með þyngri vanda fái áfram greiningu og meðferð á meðferðardeild Stuðla.

Knýjandi þörf eftir bruna á Stuðlum
Vinna við stofnun meðferðarheimilisins hófst seint á síðasta ári þegar þörf var á frekari aðgreiningu milli ungmenna eftir að Stuðlar fóru að taka við börnum í afplánun og gæsluvarðhald. Leigusamningur um húsnæðið var undirritaður í sumar og síðsumars var hafist handa við framkvæmdir á húsnæðinu til þess að það hentaði til þeirrar notkunar sem ætluð var.
Eftir að bruninn varð á Stuðlum í október fækkaði meðferðarplássum á Stuðlum um tvö rými sem voru færð yfir á neyðarvistun Stuðla til bráðabirgða. Allt kapp var þá sett í framkvæmdir á nýja meðferðarheimilinu til að mæta þeim þörfum sem eru knýjandi fyrir börn í viðkvæmri stöðu.

Eiga rétt á öruggu og hlýju umhverfi
Blönduhlíð er staðsett á Farsældartúni, áður Skálatúni, þar sem unnið er að hönnun nýs þjónustukjarna fyrir börn og ungmenni.
Með Farsældartúni er markmiðið að byggja upp miðstöð samstarfs lykilstofnana og félagasamtaka sem starfa í þágu farsældar barna.
„Hvert barn á rétt á öruggu og hlýju umhverfi þar sem það finnur fyrir stuðningi og fær þá aðstoð sem það þarf. Með Blönduhlíð sköpum við úrræði sem byggir á fagmennsku, umhyggju og virðingu fyrir þörfum þeirra ungmenna sem þangað koma,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Helgafellsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin

Halla Tóm­as­dótt­ir for­seti Ís­lands af­henti verð­laun­in þeim Rósu Ingvars­dótt­ur skóla­stjóra og Mál­fríði Bjarna­dótt­ur deild­ar­stjóra sem hef­ur ver­ið helsti hvata­mað­ur verk­efn­is­ins.

Helgafellsskóli hlaut á dögunum Íslensku menntaverðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni.
Verk­efn­ið er ný­sköp­un­ar­verk­efni sem ber heit­ið Snjall­ræði og nær frá leik­skóla­stigi upp á ung­lingast­ig. Markmið verk­efn­is­ins er að nem­end­ur þjálf­ist í skap­andi og gagn­rýn­inni hugs­un. Verk­efn­ið felst í hönn­un­arstund þar sem nem­end­ur takast á við raun­veru­leg sam­fé­lags­vanda­mál og nota til þess ferli hönn­un­ar og hönn­un­ar­hugs­un­ar sem reyn­ir á sam­vinnu, sam­skipti og að hugsa út fyr­ir kass­ann.
Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum 5. nóvember.

Fjölbreytileikinn

Ég og einn góður erum á þeirri gefandi vegferð að prófa allar íþróttir sem stundaðir eru skipulega í Mosfellsbæ. Við verðum í þessu eitthvað fram yfir áramót. Það eru nefnilega svo margar íþróttir sem hægt er að stunda í Mosó. Og það bætist í flóruna. Mér finnst þetta frábært. Sumir finna sig best í hópíþróttum, aðrir í einstaklings­íþróttum. Sumir vilja hefðbundnar íþróttir, aðrir íþróttir sem eru meira á jaðrinum. Sumir vilja æfa inni, aðrir úti í náttúrunni. Og svo framvegis. Það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum.

Út frá lýðheilsusjónarmiði er best þegar börn og unglingar eru hvött og fá tækifæri til þess að prófa allar mögulegar og ómögulegar íþróttir. Þá eru mestar líkur á að þau finni þá hreyfingu sem þeim finnst skemmtilegust og eru líklegust til að stunda reglulega. Það sama gildir um okkur sem eru fullorðin.

Það er ómögulegt að vita hvort maður hefur gaman af íþrótt án þess að prófa hana. Og það er aldrei of seint að mæta á æfingu. Ég er 55 ára, minnir mig, ég pæli eiginlega aldrei í því hvað ég er gamall, og ein af ástæðunum fyrir því að við Hilmar lögðum af stað í að prófa allar íþróttir í bænum var að sýna í verki að það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt. Það er í langflestum, ef ekki öllum, íþróttum hægt að finna leið til þess að æfa á þeim forsendum sem henta manni best.

Fjölbreytileikinn er líka bestur út frá afrekssjónarmiði. Þeir sem æfa fleiri en eina íþrótt langt fram á unglingsárin verða betri alhliða íþróttamenn og eru líklegri til þess að ná lengra í þeirri íþrótt sem þeir síðan velja. Hvað svo næst? Hver veit? Ringó með eldri borgurum, útreiðar með hestamannafélaginu Herði eða blak í Aftureldingu? Fylgist með á Instagramsíðu Mosfellings, ÍþróttaMosó!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 28. nóvember 2024

Ráðist í endurbætur á Mosfellskirkju

Einar smiður Gunnarsson við skrúðhúsið að Lágafelli. Til hægri er Mosfellskirkja sem hefur verið lokuð frá því í vor.

Nú á haustmánuðum hefur verið lagt kapp á vinnu við nauðsynlegar framkvæmdir bæði við Mosfellskirkju og Lágafellskirkju.
Mosfellskirkja hefur verið lokuð vegna mygluskemmda frá því í vor. Sóknarnefnd Lágafellssóknar tók þá ákvörðun á fundum sínum í haust að hefja endurbætur á Mosfellskirkju til að koma í veg fyrir frekari skemmdir sem og að opna kirkjuna að nýju.
Mosfellskirkja í Mosfellsdal var vígð 4. apríl 1965 og fagnar því 60 ára vígsluafmæli á næsta ári. Stefnt er að hátíðarhöldum að framkvæmdum loknum. Mosfellskirkja er gerð eftir teikningu Ragnars Emilssonar.

Viðhald á Lága­fellskirkju
Komið var að nokkru viðhaldi á Lágafellskirkju. Því er nú unnið að lagfæringum á tröppum við skrúðhús kirkjunnar en við þessar endurbætur mun aðgengi fyrir öll bætast til mikilla muna.
Fleiri framkvæmdir eru í gangi, við skrúðhúsið hefur ný eldhúsinnrétting verið sett upp, einnig verður málað innandyra fyrir jól.

Hreppaskjöldurinn áfram í Miðdal

Hrútasýning Sauðfjárræktarfélagsins í Kjós var haldin fimmtudaginn 10. október að Kiðafelli í Kjós.
Að venju var góð mæting og frábær stemning. Eitthvað var verslað með líflömb enda þónokkur með verndandi arfgerð gegn riðu til sölu.
Í félaginu eru sauðfjárbændur í Kjós, á Kjalarnesi og í Mosfellsbæ og kepptu þeir sín á milli um hver ætti besta hrútinn. Sauðfjárdómarar frá RML sáu um mælingar og dóma á gimbrum og hrútum.
Hreppaskjöldurinn eftirsótti fór í hendur Ólafar Óskar og Hafþórs í Miðdal en það var hrúturinn Örn sem var stigahæstur veturgamalla hrúta með 89 stig. Örn er undan Hallmundi frá Kiðafelli.
Í öðru sæti var hrútur nr. 23002 frá Kiðafelli með 87 stig og í því þriðja Golíat frá Efri-Flankastöðum (Katrínu Auðbjörgu) undan Glitni með 82 stig.

Hvítir hyrndir
Nr. 1065 frá Hrísbrú undan Þyrni frá Miðdal 86 stig
Nr. 100 frá Kiðafelli undan Styrmi 86 stig
Nr. 73 frá Kiðafelli undan Hornsteini 86,5 stig

Mislitir
Nr. 4 frá Kiðafelli undan Steini 89,5 stig
Nr. 160 frá Miðdal undan Steini 86 stig
Nr. 96 frá Reykjum undan Ægi frá Miðdal 86 stig

Kollóttir
Nr. 46 frá Kiðafelli undan Hornsteini 87,5 stig
Nr. 21 frá Kiðafelli undan Steini 87 stig
Nr. 37 frá Kiðafelli undan Steini 89 stig

Að þjálfa er mín hugsjón

Sigrún Másdóttir hefur frá unga aldri haft gaman af íþróttum og þá sérstaklega hópíþróttum. Hún æfði flestar þær íþróttagreinar sem í boði voru en handboltinn hafði á endanum vinninginn.
Sigrún var 16 ára þegar hún spilaði sinn fyrsta handboltaleik með meistaraflokki og 51 árs þegar hún spilaði þann síðasta. Hún hefur einnig starfað sem handboltaþjálfari hjá Aftureldingu í yfir 20 ár með dyggri aðstoð yngri leikmanna.

Sigrún er fædd í Reykjavík 15. maí 1972. Foreldrar hennar eru Sigríður Halldóra Gunnarsdóttir bankastarfsmaður l. 2019 og Vöggur Clausen Magnússon. Stjúpfaðir Sigrúnar til fjórtán ára aldurs er Már Gunnarsson.
Sigrún á átta hálfsystkini, Gunnar Skúla, Ólafíu Björgu og Maríu sammæðra og Kristínu, Guðrúnu Maríu, Ólöfu Huld, Zanný og Martein samfeðra.

Maður lék sér í nærumhverfinu
„Ég ólst upp mín fyrstu ár í Laugarneshverfinu en þar bjuggu einnig amma mín og afi. Það var mikið af krökkum í hverfinu og þarna eignaðist ég mínu fyrstu vini. Þegar ég var sjö ára þá fluttum við í Helga­landið í Mosfellssveit og þar lék maður sér mikið í nærumhverfinu, í klettunum í kring.
Við systkinin vorum mikið hjá afa og ömmu fyrstu árin eftir að við fluttum í sveitina, því þá gátum við hitt okkar gömlu vini reglulega.“

Mamma hvatti okkur áfram
Sigrún var ung að árum þegar hún fór að elta Gunnar bróður sinn í íþróttahúsið að Varmá og það fór svo að hún fór að vera þar öllum stundum. Hún fór að æfa flestar þær íþróttagreinar sem í boði voru á þessum tíma, badminton, frjálsar íþróttir, handbolta og knattspyrnu. Sigrún spilaði knattspyrnu á Tungubökkum á sumrin og var einungis ellefu ára þegar hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik við mun eldri stelpur.
„Handboltinn tók yfir og mamma fór í stjórn deildarinnar, hún var því mikið í kringum okkur systkinin í íþróttahúsinu og hvatti okkur áfram. Davíð B. Sigurðsson þjálfaði mig fyrstu árin og hann kenndi mér mikið. Hann er líklega ástæðan fyrir því að ég fór ung að hafa áhuga á þjálfun,“ segir Sigrún og brosir.

Þau sýndu mér mikið traust
„Ég byrjaði skólagönguna í Hvassaleitisskóla en fór svo í 2. bekk í Varmárskóla. Ég á góðar minningar þaðan, eignaðist góða vini og kennararnir voru frábærir. Ég var meira að segja í skólakórnum þótt ég hafi aldrei getað sungið,“ segir Sigrún og hlær.
„Ég fór svo í Gaggó Mos en var ekki sú duglegasta að læra, var með unglingaveiki á tímabili og vildi frekar vera að æfa eða að vinna. Ég æfði dans með vinkonum mínum og við kepptum í Tónabæ og sýndum svo á öllum böllum í skólanum.
Á sumrin passaði ég systur mínar á meðan mamma var í vinnunni en hún sá að mestu leyti ein um uppeldið. Ég fór líka í skólagarðana, bar út dagblöð og fór í unglingavinnuna. Síðar fékk ég vinnu í sjoppunni í Háholti og á Western Fried hjá Ragnari Björnssyni heitnum og Ástu. Þau hjónin sýndu mér mikið traust þrátt fyrir ungan aldur.
Eftir útskrift úr grunnskóla fór ég í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og síðar í snyrtifræði. Með náminu starfaði ég hjá Hugrúnu á snyrtistofunni Líkami og sál og einnig eftir útskrift.“

Ákveðnar að komast upp í efstu deild
Sigrún var sextán ára þegar hún byrjaði að spila með meistaraflokki Aftureldingar í handbolta. Ári seinna voru stelpurnar í liðinu ákveðnar í að komast upp í efstu deild en það gekk ekki eftir. Þá ákváðu margar af eldri stelpunum í liðinu að flytja sig yfir í efstu deildir annarra liða.
„Það var ekki grundvöllur fyrir mig að halda áfram í Aftureldingu, því miður,“ segir Sigrún alvarleg á svip. „Ég fékk símtal frá þjálfara Stjörnunnar og ákvað í framhaldi að ganga til liðs við liðið.“
Árið 1999 var Sigrún búin að spila 200 leiki fyrir Stjörnuna og Íslands- og bikarmeistaratitlar í höfn, eiga tvö börn, lenda í erfiðum meiðslum og var orðin þreytt á akstrinum á æfingar. „Ég sleit krossband og þau meiðsli hafa sett strik í minn feril og þetta háir mér enn í dag. Ég hætti að spila með Stjörnunni árið 2000 eftir að hafa spilað með öllum yngri landsliðum og nokkra A-landsleiki og tók mér síðan frí.
Ég spilaði samt ófáa leiki í utandeildinni með Stjörnunni en ákvað svo 37 ára að taka slaginn með ungu liði Aftureldingar, þar spilaði ég í nokkur ár með Söru dóttur minni og stelpum sem ég hafði þjálfað. Á afmælisdaginn minn 2023 spilaði ég minn síðasta leik, ákvað að þetta væri orðið gott þar sem hnéð þyrfti að halda fyrir starf mitt og áhugamál.“

Aftureldingarhjartað langstærst
„Aftureldingarhjartað mitt er alltaf langstærst og mér fannst leitt að þurfa að yfirgefa félagið. Ég byrjaði ung í handbolta, hef þjálfað hér í 20 ár með aðstoð annarra leikmanna og eins stjórnaði ég handboltaskólanum í tíu ár.
Margir sigrar hafa unnist og ég hef fylgst vel með þeim sem hafa skilað sér upp í meistaraflokk. Að vita að þær hafi notið sín í handboltanum og að ég hafi lagt inn góð gildi fyrir þær er það sem stendur upp úr á ferlinum.“

Dugleg að fara í göngutúra
Eiginmaður Sigrúnar er Stefán Þór Jónsson verslunarstjóri hjá Arctic Trucks. Þau eiga þrjú börn, Gunnar Ágúst f. 1994, Söru Lind f. 1998 og Sindra Þór f. 2014. Barnabörnin eru tvö.
„Við fjölskyldan reynum að eyða eins miklum tíma saman og við getum bæði hér heima og erlendis. Við kíkjum í sveitina, veiðum og erum dugleg að fara í göngutúra. Við förum líka mikið á hand- og fótboltaleiki og á skíði. Það er líka mikið að gera í kórastarfi hjá Stefáni.“

Þessi hópur er orðin partur af lífi mínu
Sigrún starfaði áður sem sem aðstoðarmaður tannlæknis og fór svo í íþróttafræði í HR. Þaðan fór hún til Útlitslækningar og samhliða því þjálfaði hún handbolta. Í dag kennir hún íþróttir í Fossvogsskóla og aðstoðar við handboltaþjálfun drengja hjá UMFA.
„Ég hef líka kennt konum vatnsleikfimi í Lágafellslaug í 12 ár þar sem þær næra bæði líkama og sál. Þessi hópur er orðinn partur af lífi mínu og margar þessara kvenna eru búnar að vera hjá mér frá upphafi. Einnig kenndi ég vatnsleikfimi hjá eldri borgurum í vetur, sem er búið að vera virkilega gaman.
Að kenna eða þjálfa börn og fullorðna þarf að vera gert af hugsjón. Flestir eiga að geta fundið sér hreyfingu eða íþrótt við hæfi, við sem þjálfarar verðum að mæta iðkendum á þeirra forsendum,“ segir Sigrún að lokum er við kveðjumst.

Endurvekja Sönginn í Mosó í Hlégarði

Stefnir í Hlégarði á árum áður.

Karlakórinn Stefnir hóf vetrarstarfið um miðjan september og eru í honum 40 starfandi félagar og nokkur nýliðun hefur verið eftir Covid-faraldurinn.
Stjórnandi er Keith Reed sem upprunninn er í hinni stóru Ameríku en hefur starfað á Íslandi um allmörg ár, kvæntur íslenskri konu og á uppkomin börn. Meðal þeirra er sonur sem líka er söngfugl og fengu gestir á vortónleikum sl. vor að kynnast honum þar sem hann reyndi, ásamt fleirum, að fylla skarð Gretu Salóme sem forfallaðist. Án efa verður reynt aftur að efna til samstarfs við Gretu við gott tækifæri í náinni framtíð.

Gamalgróinn kór stofnaður 1980
Stefnir æfir í Harðarbóli, félagsheimili hestamannafélagsins Harðar, á þriðjudagskvöldum kl. 19 en að auki eru tveir langir æfingalaugardagar yfir veturinn.
„Við höfum verið eindregnir í því að halda þessum gamla kór á lífi í gegnum áskoranir síðustu ára og flestir sammála um mikilvægi þess að halda í það fjölbreytta samfélag karlakóra sem verið hefur við lýði hérlendis undanfarna áratugi. Nýir félagar eru ávallt velkomnir.
Nú fer að líða að fyrstu uppákomu Stefnis á þessu starfsári, en þar erum við að endurvekja það sem við kölluðum „Sönginn í Mosó“ og verður hann í Hlégarði laugardaginn 2. nóvember kl. 16:00. Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum en í boði verða léttar veitingar í hléi. Við höfum jafnan fengið til okkar góða gesti á þennan viðburð og að þessu sinni ætlar Álafosskórinn að heiðra okkur með nærveru sinni.
Það þekkja margir þennan gamalgróna kór sem stofnaður var árið 1980 af starfsmönnum ullarvinnslunnar að Álafossi en stjórnandi hans í dag er Örlygur Atli Guðmundsson. Þarnæsti viðburður verður á þorranum, en nú um nokkurt skeið höfum við dregið okkur út úr jólatónleikaösinni og haldið í staðinn upp á þorrann með þjóðlegum hætti.“

„Ólýsanleg tilfinning“

Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.

Afturelding hafði betur gegn Keflavík í úrslitaleik Lengjudeildar-umspils um sæti í Bestu deild karla 2025 á Laugardalsvelli. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Aftureldingar sem karlalið félagsins kemst í efstu deild Íslandsmótsins.
Eina mark leiksins kom á 78. mínútu og var það Sigurpáll Melberg Pálsson sem skoraði þegar hann fylgdi eftir skoti sem var varið frá Arnóri Gauta Ragnarssyni, sem hafði komið inn á sem varamaður mínútu áður.
Þess má til gamans geta að Knattspyrnudeild Aftureldingar fagnar einmitt um þessar mundir 50 ára afmæli.
Mosfellingar fjölmenntu á völlinn og létu vel í sér heyra.

Dagur sem fer í sögubækurnar
„Það var ólýsanleg tilfinning að sjá Aftureldingu taka skrefið upp í efstu deild eftir mikla vinnu og uppgang undanfarin ár,“ segir Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar.
„Það eru ótrúlega margir aðilar sem eiga þátt í því að liðið náði þessu markmiði. Núverandi og fyrrverandi leikmenn, þjálfarateymi, starfslið, stjórnarmenn, sjálfboðaliðar, styrktaraðilar og síðast en ekki síst stuðningsmenn.
Laugardagurinn 28. september 2024 fer í sögubækurnar hjá Aftureldingu og núna þurfum við að gefa ennþá meira í. Við viljum meira og núna bíður gríðarlega spennandi verkefni í Bestu deildinni þar sem við mætum bestu liðum landsins. Við munum reyna að auka fagmennskuna ennþá meira hjá okkur og efla umgjörðina.
Ef sjálfboðaliðar eða styrktaraðilar hafa áhuga á að slást í för með okkur í þessu verkefni þá má endilega hafa samband við mig eða Gísla Elvar Halldórsson formann meistaraflokksráðs.“

Styrkjum liðið á skynsamlegan hátt
„Það er mikill munur á umgjörð og fjármagni liða í Bestu deildinni og Lengjudeildinni og við þurfum að gera allt sem við getum til að hafa okkar starf eins öflugt og mögulegt er.
Barna- og unglingastarf Aftureldingar hefur skilað frábærum leikmönnum í gegnum tíðina og í öðrum félögum eru öflugir Mosfellingar. Við munum styrkja liðið á skynsamlegan hátt og vonandi koma einhverjir uppaldir Mosfellingar aftur heim og taka slaginn með okkur næsta sumar.“

Umgjörðin hefur verið til fyrirmyndar
„Undanfarin ár hefur myndast gríðarlega skemmtileg stemning í kringum liðið og við viljum halda því áfram í Bestu deildinni. Viðburðir og umgjörðin á heimaleikjum hafa verið til fyrirmyndar hjá öflugum sjálfboðaliðum.
Nýr gervigrasvöllur kemur á Varmársvæðið á næsta ári og vonandi sjáum við glæsilega stúku rísa við þann völl sem allra fyrst svo hægt verði að spila heimaleiki á nýja vellinum. Þá mun um leið áhorfenda- og búningsaðstaða verða eins og þekkist hjá öðrum félögum í Bestu deildinni.
Það eru mjög spennandi tímar fram undan og það er mjög gaman að sjá meðbyrinn og stuðninginn hjá fólki í Mosfellsbæ. Við munum undirbúa okkur mjög vel í vetur og allir í kringum liðið eru spenntir að takast á við Bestu deildina næsta sumar. Sjáumst á vellinum. Áfram Afturelding!“ segir Magnús Már að lokum.

Mín ákvörðun

Ég er nú bara þannig að ég vil vera gerandi í eigin lífi og þess vegna er þetta ákvörðun mín,“ sagði frambjóðandi í stjórnmálaflokki um síðustu helgi eftir að uppstillingarnefnd í flokknum hennar hafði raðað frambjóðendum á lista fyrir komandi kosningar.

Ég er sammála henni. Við erum gerendur í eigin lífi. Við þurfum ekki að fara í gegnum lífið á forsendum annarra. Við búum vissulega í samfélagi og höfum hlutverk, en við þurfum ekki að fylgja hópnum í einu og öllu. Okkur líður best og gerum mest gagn þegar við finnum okkar leið. Og það má skipta um kúrs. Við þurfum ekki að halda okkur á sömu leið út lífið. Það má breyta, það er bara hollt og gott að prófa, meta og breyta til.

Það skiptir ekki öllu máli hvað öðrum finnst um þá leið sem við veljum að fara. Aðalmálið er að við séum sjálf sátt við leiðina okkar. Þetta á við um hreyfingu, svefn og mataræði alveg eins og stjórnmál. Mín viðhorf gagnvart þessari mögnuðu þrenningu hafa breyst í gegnum árin og nálgunin sömuleiðis. Mér líður vel þegar ég hreyfi mig reglulega, en langbest þegar hreyfingin er á mínum forsendum. Ég veit núna hvað gerir mér gott og hvað ekki. Það kemur hugsanlega með aldrinum, en ekki endilega.

Við þurfum að pæla í sjálfum okkur hvað þetta varðar og hugsa sjálfstætt. Er það til dæmis frábær hugmynd að hlaupa mörg hundruð kílómetra með rifinn liðþófa? Er góð hugmynd að keyra sig algjörlega út 2-3 sinnum í viku í tæknilega flóknum styrktar- og úthaldsæfingum? Fjölmiðlar og sjálfskipaðir áhrifavaldar elska öfgar og við hin, flest, fréttir sem snúast um öfgar og hetjusögur. En hvar verða þessar hetjur eftir mörg ár af öfgum? Geta þær hreyft sig? Æft? Leikið við barnabörnin? Hugsum sjálfstætt, finnum okkar leið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 24. október 2024