Býrð þú yfir þrautseigju og seiglu?
Mörg okkar gera markvissar æfingar til að efla líkamlegt úthald og vöðvastyrk en spurning hversu mörg okkar gera æfingar til að auka andlegan styrk og verða sterkari í daglegu lífi?
Hvað er þrautseigja/seigla?
Þessi hugtök eru sannarlega ekki ný af nálinni enda voru þau og merking þeirra til umræðu hjá forngrískum heimspekingum á borð við Aristóteles og Plató. Hugtökin er náskyld og segja sumir að seigla sé hluti af þrautseigju en hér verða þau lögð að jöfnu.
Þrautseigja/seigla er notað um þá færni sem við beitum þegar við mætum mótlæti í lífinu og það að gefast ekki upp þó að á móti blási. Hún einkennist af staðfestu, andlegum styrk og og úthaldi til að takast á við áskoranir og krefjandi breytingar í lífi okkar. Þeir sem hafa náð að tileinka sér þrautseigju/seiglu eiga það flestir sameiginlegt að hafa trú á eigin getu, vera sjálfsöruggir, sjálfstæðir, ábyrgðarfullir og líta jákvæðum augum á lífið.
Vellíðan og farsæld
Þrautseigja/seigla kemur ekki í veg fyrir erfið tímabil eða áföll í lífi okkar en þessir eiginleikar gera það af verkum að við eigum auðveldara með að takast á við áskoranir og halda áfram farsælu lífi þrátt fyrir krefjandi tímabil. Þótt við búum yfir þessum eiginleikum kemur það ekki í stað þess að leita aðstoðar sérfræðinga ef á þarf að halda á erfiðum tímum, slíkt getur verið mikilvæg leið til vaxtar og þroska.
Þrautseigja/seigla er talin samstanda af félagslegri hæfni, samskiptahæfni, lífsleikni, sjálfsstjórn og því umhverfi og aðstæðum sem við búum við.
Það sem styður við þrautseigjuna/seigluna, og þar með vellíðan okkar og farsæld í lífinu, er að ástunda heilbrigðan lífsstíl sem einkennist af góðum venjum s.s. að vinna með eigin tilfinningar, hvílast og nærast vel, hreyfa sig reglulega, stunda útivist og eiga í góðum félagslegum samskiptum.
Leggjum rækt við andlegan styrk, lærum um leiðir hugans og látum það endurspeglast í viðhorfum okkar og hegðun.
Bjartsýni og þrautseigja/seigla eru eitt af því mikilvægasta sem við lærum því þannig tekst okkur betur að takast á við hindranir og njóta lífsins.
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur og verkefnastjóri
Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ