Varmárskóla skipt upp í tvo sjálfstæða skóla

Haustið 2020 fór fram ytra mati á Varm­árskóla á vegum Menntamálastofnunar. Í niðurstöðum þess mats komu fram vísbendingar um að skoða þyrfti nánar stjórnskipulag skólans.
Á fundi bæjarráðs hinn 4. júní 2020 samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra og framkvæmdastjóra fræðslu- og frístundasviðs að láta gera úttekt og mat á stjórnskipulagi Varmárskóla og á þeim grunni setja fram tillögur að breytingum ef tilefni væri til. Úttekt fór fram haustið 2020 og var fenginn til verksins Haraldur Líndal Haraldsson hjá HLH ráðgjöf.
Á fundi bæjarráðs hinn 14. janúar 2021 var úttekt á stjórnskipulagi Varmárskóla og tillögur að breytingum frá HLH ráðgjöf lagðar fram.

Kostir og gallar metnir
Í úttekt HLH ráðgjafar eru tilgreindir kostir og gallar núverandi fyrirkomulags í stjórnskipun skólans. Gallarnir voru metnir fleiri en kostirnir sem að mati úttektaraðila kölluðu á tillögur um breytt fyrirkomulag. Þrjár sviðsmyndir til breytinga voru settar fram. Sú sviðsmynd sem metin var best að mati úttektaraðila var að skipta skólanum upp í tvo sjálfstæða skóla með skólastjóra í hvorum skóla, ásamt stjórnunarteymi deildarstjóra.
Með slíkri skiptingu fengist markvissari fagleg og fjárhagsleg stjórnun á málefnum hvors skóla. Einnig var það mat úttektaraðila að skiptingin kalli ekki á aukinn rekstrarkostnað.
Dagana 14.-20. janúar fóru fram kynningar fyrir stjórnendur, starfsfólk og foreldra.

1.-6. bekkur og 7.-10. bekkur
Á fundi fræðslunefndar hinn 20. janúar lagði nefndin til í umsögn sinni að bæjarráð samþykkti þá tillögu að skólanum væri skipt upp í tvo sjálfstæða skóla. Jafnframt lagði nefndin áherslu á að fulltrúar hagaðila ættu aðkomu að vinnu við framkvæmd skiptingarinnar.
Í skólaráði Varmárskóla var úttektin kynnt á fundi 19. janúar og umsögn barst 27. janúar. Fulltrúar í skólaráði veittu sín viðbrögð að höfðu samráð við þá sem þeir eru fulltrúar fyrir en fulltrúar foreldrafélagsins náðu ekki að fá viðbrögð innan þess tímaramma sem gefinn var.
Á grundvelli samantektar á niðurstöðu úttektaraðila, kynningum og umsögnum var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 4. febrúar að Varmárskóla yrði skipt upp í tvo skóla, annars vegar grunnskóla fyrir 1.-6. bekk og hins vegar grunnskóla fyrir 7.–10. bekk frá og með 1. ágúst 2021.