Brúarland, félags- og tómstundahús
Fulltrúar D-lista í bæjarráði lögðu fram tillögu á fundi bæjarráðs þann 19. október sl. um að félagsstarf eldri borgara fái afnot af Brúarlandi fyrir starfsemi sína.
Tillögunni var vísað á fundi bækjarráðs til velferðarsviðs og á fundi bæjarráðs þann 29. febrúar var tillagan samþykkt og mun félagsstarf eldri borgara flytja í Brúarland þegar framkvæmdum við húsnæðið verður lokið.
Félags- og tómstundstarf eldri borgara
Í Mosfellsbæ er rekið öflugt félagsstarf fyrir eldri borgara. Íbúar Mosfellsbæjar 67 ára og eldri eru um 1.400. Félagsstarf eldri borgar í Mosfellsbæ er opið öllum sem náð hafa 60 ára aldri og er fjöldi íbúa 60 ára og eldri í Mosfellsbæ um 2.400. Þátttakendum í félagsstarfi fjölgar stöðugt og er núverandi húsnæði á Eirhömrum orðið of lítið fyrir starfsemina.
Með flutningi félagsstarfsins í Brúarland opnast tækifæri til að efla enn frekar starfið og auka fjölbreytni, auk þess sem hægt verður að þjóna betur ört stækkandi hóp eldri borgara sem vilja taka þátt í starfinu.
Hentugt og vel staðsett húsnæði fyrir félags- og tómstundastarfsemi
Undanfarna mánuði hefur verið haldið úti félagsstarfi í Hlégarði á þriðjudögum. Sú breyting hefur tekist mjög vel og mun vonandi halda áfram því félagsstarf í Brúarlandi og í Hlégarði mun styðja hvort við annað.
Staðsetning Brúarlands er afar heppileg fyrir þessa starfsemi, húsið er í nálægð við gönguleiðir í Ævintýragarðinum, við íþróttasvæðið að Varmá og við Hlégarð, ásamt því að bílastæði eru ekki af skorunum skammti þar líkt og hefur verið vandamál við Eirhamra.
Það kom einnig fram í okkar tillögum um nýtingu Brúarlands að mikilvægt væri að horfa til þess að nýta húsnæðið í þágu íbúa bæjarins á öllum aldri með einhvers konar blandaðri starfsemi. Það er kjörið tækifæri í að leigja hluta hússins út á kvöldin og um helgar í margvíslega félags- og tómstundastarfsemi, á þeim tímum sem félagsstarf eldri borgara er ekki í gangi.
Það er einnig mikilvægt að huga vel að þjónustu við þá eldri íbúa sem heilsu sinnar vegna ættu erfitt með að sækja starfið utan Eirhamra, að félagsstarf væri áfram í boði fyrir þann hóp á Eirhömrum.
Áhersla á málefni eldri borgara
Fulltrúar D-lista í bæjarstjórn hafa undanfarin ár lagt mikla áherslu á það mikilvægi sem lýðheilsa og aðgangur að öflugu félagsstarfi sé í boði í Mosfellsbæ og við munum halda áfram þeirri vinnu okkar í nefndum og í bæjarstjórn.
Við áttum frumkvæði og stóðum að því á síðasta kjörtímabili í samstarfi við VG að stórefla framboð og fjölbreytni í skipulögðum leikfimitímum fyrir eldri borgara sem hafa heldur betur notið vinsælda og við stóðum fyrir stofnun Karla í skúrum sem er mikilvægur og stækkandi félagsskapur.
Einnig komum við í framkvæmd könnun um þarfir og líðan eldri borgara þar sem fram hafa komið góðar ábendingar um hvað mætti betur fara í málefnum eldri borgara og unnið hefur verið í þeim málum undanfarin misseri.
Það er sérstaklega ánægjulegt að tillaga okkar um færslu félagsstarfsins í Brúarland skuli hafa verið samþykkt og hvetjum við eldri borgara sem nú þegar eru ekki að taka þátt í starfinu að skoða vel hvað er í boði, því allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Við hlökkum til að sjá Brúarland sem tómstundahús allra Mosfellinga.
Ásgeir Sveinsson bæjarfulltrúi, oddviti D-lista
Svala Árnadóttir fulltrúi D-lista í Öldungaráði