MAIAA í Söngvakeppninni á laugardaginn

Mosfellingurinn MAIAA eða María Agnesardóttir tekur þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2024 með laginu „Fljúga burt“ eða „Break Away“ á ensku. MAIAA keppir í seinni undankeppninni 24. febrúar sem fer fram í Fossaleyni í Grafarvogi.
MAIAA ólst upp í Mosfellsbæ og rekur tónlistarrætur sínar þangað. MAIAA var í Lágafellsskóla og tók þátt í öllu sem tengdist að einhverju leyti tónlist, allt frá söngleikjum settum upp af Lágafellsskóla yfir í söngkeppnir á borð við söngkeppni Bólsins og söngkeppni Kragans.

Fékk gullhnappinn í Iceland Got Talent 2016
Söngvakeppnin er ekki fyrsta skiptið hennar Maríu á stóra sviðinu. Árið 2014 tók María þátt í Ísland Got Talent með afa sínum Þresti Lýðssyni, ekki til mikillar lukku, en María lét það ekki á sig fá, reyndi aftur 2016 og hreppti þar gullhnappinn frá Ágústu Evu.
Ein helsta minning Maríu úr Mosfellsbænum eru þau sumur þar sem hún hjólaði yfir til ömmu sinnar og afa í Krókabyggð.
„Það var tekið á móti manni með opnum örmum hvort sem maður lét vita af sér eða ekki og auðvitað vöfflur og ís alltaf í boði,“ segir María.

Afla reynslu og stækka tengslanet
Það að keppa í Söngvakeppninni hefur verið ævilangur draumur hjá Maríu. Þegar hún var 9 ára stal hún símanum af afa sínum, Sverri Agnarssyni, til að kjósa Jóhönnu Guðrúnu 100 sinnum, sem setti svo sannarlega strik í símreikninginn.
María er einstaklega spennt fyrir Söngvakeppninni og ætlar hún að nýta sér þetta tækifæri eins vel og hún mögulega getur.
„Þetta verður notað til að afla reynslu, stækka tengslanet og kynna þjóðinni fyrir MAIAA,” segir María Agnesardóttir.