Blanda af safngötu og húsagötu fyrir ungar fjölskyldur
Þannig er mál með vexti að ég er nýfluttur í Langatangann með fjölskylduna. Við færðum okkur ekki langt um set þar sem áður bjuggum við í Gerplustræti í Helgafellshverfinu.
Ég velti því fyrir mér hversu margar ungar fjölskyldur í Mosfellsbæ eru að kljást við sömu áhyggjur og við. Langitanginn er flokkaður sem blanda af safngötu og húsagötu. Þetta þýðir það að þarna fara í gegn bílar úr hverfum allt í kring en einnig snúa innkeyrslur beint út á götu.
Umferðarþunginn og hraðinn á þeim bílum sem keyra hér í gegn er gífurlegur. Fyrir framan innkeyrsluna hjá okkur er hraðahindrun. Þessi hraðahindrun þjónar engum tilgangi, hvorki til að hægja á hraða né sem gangbraut. Frekar virkar þessi hraðahindrun sem lítill rampur fyrir bíla þar sem þeir geta prófað fjöðrunina á bílunum.
Vefarastrætið er að mínu mati einnig gata sem býður upp á hættu frá umferðarþunga og hraða þar í gegn. Húsin eru byggð mjög nálægt veginum og það má ekki mikið út af bregða til að börn séu komin út á götu.
Einnig má nefna Reykjaveginn í þessu samhengi og eflaust fleiri götur.
Hinsvegar má ekki gagnrýna án þess að benda á það sem vel er gert, og finnst mér nýtt skipulag á Skeiðholti (framhjá Holtunum) til algjörrar fyrirmyndar og mætti yfirfæra slíkt skipulag á fleiri hverfi.
Ég held að við sem Mosfellingar verðum að fara að setja öryggi almennings og barnanna okkar í fyrsta sætið þegar það kemur að skipulagsmálum í Mosfellsbæ.
Kári Sigurðsson
– Gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ.