Vertu með

Elín Anna Gísladóttir

Fyrir fjórum árum síðan tók ég þátt í því að koma á laggirnar stjórnmálaflokk hér í Mosfellsbæ, Viðreisn í Mosfellsbæ.
Þátttaka mín í þeirri vegferð kom ekki til af því ég skilgreindi sjálfa mig sem manneskju sem hefði brennandi áhuga á pólitík, heldur kom hún til af einlægri ást minni á bænum mínum – Mosfellsbæ.
Ég var ekkert endilega þeirrar skoðunar að hér væri allt ómögulegt, meira þeirrar skoðunar að það væri hægt að gera betur. Og jafnvel ennþá betur en hafði verið gert.
Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart í þessari vegferð sem þetta hefur verið frá síðustu sveitarstjórnarkosningum er hversu ótrúlega gaman þetta hefur verið. Ég hef í gegnum stjórnmálin kynnst ótrúlega fjölbreyttum hópi fólks, en einnig hef ég eignast dýrmæta vini í félögum mínum í Viðreisn.
Það er nefnilega þannig að þátttaka sem þessi getur gefið manni svo margt. Vináttu, reynslu, tækifæri til þess að hafa áhrif, innsýn inn í hið dýrmæta samfélag sem við eigum hér í Mosfellsbæ og margt fleira. Ég er þakklát fyrir þetta og langar til þess að fleiri sem kannski eru núna á sama stað og ég var fyrir fjórum árum taki skrefið og taki þátt.
Ef þú hefur áhuga á því að vera með okkur í málefnavinnunni, ef þú vilt bjóða þig fram á lista hjá okkur, ef þú vilt deila af reynslu þinni, ef þú vilt vita eitthvað meira um félagið, ef þú vilt taka þátt í þessari vegferð með okkur þá hvet ég þig til þess að setja þig í samband við okkur á mosfellsbaer@vidreisn.is, í gegnum facebook síðuna okkar eða í gegnum einhvern af okkar fulltrúum.
Saman getum við nefnilega ennþá gert betur!

Elín Anna Gísladóttir
Formaður stjórnar Viðreisnar í Mosfellsbæ