Lýðræðisveislan heldur áfram
Sjálfstæðisflokkurinn heldur prófkjör hér í Mosfellsbæ um komandi helgi.
Sjálfstæðisflokkurinn var eina stjórnmálaaflið sem hélt fjölmenn prófkjör í öllum kjördæmum fyrir síðustu alþingiskosningar. Í þeim tóku yfir 20.000 félagsmenn þátt í að stilla upp á lista sem boðnir voru fram í kosningum þar sem Sjálfstæðisflokkurinn náði áfram þeim árangri að vera stærsti flokkurinn á þingi og burðarafl í ríkisstjórn sem hélt velli. Ekkert annað stjórnmálaafl stillir framboðslistum sínum upp með jafn lýðræðislegum hætti og með aðkomu svo stórs hluta kjósenda landsins.
Nú heldur veislan áfram og þér gefst kostur á að velja milli 17 frambærilegra einstaklinga sem allir vilja vinna fyrir þig að því að gera sveitarfélagið okkar framúrskarandi. Að prófkjörinu kemur fjöldi fólks. Auk þeirra 17 sem bjóða sig fram, fjölskyldna þeirra og stuðningsmanna, eru fjölmargir sjálfboðaliðar sem koma að framkvæmd prófkjörsins. Ég þakka ykkur öllum fyrir ykkar framlag.
Kosið um nýjan oddvita
Sitjandi oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Mosfellsbæjar til margra ára, Haraldur Sverrisson, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Frá árinu 2007 hefur Haraldur leitt sveitarfélagið og meirihlutasamstarf Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í gegnum margvíslegar áskoranir. Mosfellsbær er vel rekið sveitarfélag þar sem þjónusta sveitarfélagsins mælist með því besta sem gerist á landinu.
Ég vil nota tækifærið og þakka Haraldi fyrir vel unnin störf en honum, ásamt bæjarstjórn og ómetanlegum starfsmönnum bæjarins, hefur tekist að gera þjónustufyrirtækið Mosfellsbæ að því sem það er. Sveitarfélagi sem ávallt kemur vel út í mælingum, sveitarfélagi og samfélagi sem í búar geta verið stoltir af því að tilheyra.
Nú gefst okkur tækifæri til að kjósa nýjan oddvita og vonandi með því nýjan bæjarstjóra beri Sjálfstæðisflokknum áfram gæfa og traust til að stýra sveitarfélaginu okkar. Tækifærið er þitt, íbúi góður, til að taka þátt í að stilla upp öflugum lista sjálfstæðisfólks, fólks sem vill vinna fyrir þig að því að gera bæinn okkar enn betri.
Mættu og taktu þátt í lýðræðisveislunni!
Bryndís Haraldsdóttir
Þingmaður Mosfellinga og fyrrverandi bæjarfulltrúi.