Blak í bænum í 20 ár

Guðrún K. Einarsdóttir

Guðrún K. Einarsdóttir

Blakdeild Aftureldingar var stofnuð árið 1999 og fagnar því 20 ára afmæli sínu í ár. Stofnendur voru konur sem langaði að spila blak.
Haustið 1999 mætti undirrituð á fyrstu æfinguna. Árið 2001 tók ég við formennsku blakdeildarinnar og var fyrsta verkefnið að sækja um Öldungamótið sem við héldum árið 2002 og breytti það starfi deildarinnar því í kjölfarið stofnuðum við barna- og unglingadeild og er barnastarfið í blakdeildinni því aðeins 17 ára gamalt.
Í dag státar Afturelding af karla- og kvennaliðum í úrvalsdeildum, unglingalið pilta og stúlkna spila í 1. deildum karla og kvenna ásamt kvennaliði. Auk þess er stúlknalið sem spilar í 3. deild kvenna og tvö lið í 4. og 5. deildum kvenna. Afturelding hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn kvennamegin þrisvar sinnum og bikarmeistaratitilinn fjórum sinnum frá því að við byrjuðum haustið 2011. Árið 2016 vann Afturelding alla titla kvennamegin sem í boði voru og árið eftir urðu bæði karla- og kvennaliðin bikarmeistarar BLÍ. Á síðustu leiktíð unnu bæði liðin brons í efstu deild eftir mikið uppbyggingarstarf í deildinni í 3 ár og erum við mjög sátt með að komast beint í undanúrslit Íslandsmótsins. Með nýju og glæsilegu gólfi að Varmá og umgjörð sem við höfum náð að skapa þar viljum við gera Varmá að erfiðum heimavelli og ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni með leikmönnum uppöldum í félaginu.
Fyrir utan að taka þátt í Íslandsmótum þá æfa hópar sem teljast til almennings­íþrótta og æfa bæði karla- og kvennahópar 1-2 sinnum í viku. Segja má að gamli salurinn að Varmá sé nýttur til hins ýtrasta því þar eru oft 3 mismunandi hópar að æfa samtímis. Alls eru 11 hópar og lið sem æfa á vegum deildarinnar. Margir einstaklingar koma í blak­íþróttina á fullorðinsaldri og koma því þeir hafa æft blak í menntaskóla eða í grunnskóla. Blak er íþrótt sem gott er að eldast í hafi maður áhuga á boltaíþróttum
Barna- og unglingadeildin rekur metnaðarfullt starf og hafa margir af okkar iðkendum tekið þátt í landsliðsverkefnum og staðið sig mjög vel. Miklir möguleikar eru á háskólanámi erlendis í gegnum blakíþróttina og hafa m.a. 2 stúlkur úr Mosfellsbæ nýtt sér þann möguleika.
Ég vil hvetja foreldra í Mosfellsbæ til þess að benda börnum sínum á að koma og prufa þessa skemmtilegu íþrótt sem blakið er því þótt þau haldi ekki áfram þá kemur það til með að skila þeim kunnáttu seinna meir í íþrótt sem þau geta stundað sér til gleði langt fram eftir aldri. Líklega er hægt að segja að blak sé ein vinsælasta almenningsíþrótt á landinum hvað hópíþróttir snertir því að yfir 3.400 manns stunduðu þessa íþrótt á Íslandi árið 2017 samkvæmt tölum ÍSÍ.
Blakdeild Aftureldingar býður börnum og unglingum að koma og æfa frítt frá skólabyrjun og til 15. september. Auk þess býður deildin upp á æfingar fyrir grunnskólamót UMSK í blaki sem haldið verður 6. október og vonandi taka grunnskólarnir í Mosfellsbæ þátt í því móti.
Velkomin í blakið í Mosó.
Áfram Afturelding

Guðrún K. Einarsdóttir
formaður blakdeildar Aftureldingar