Ævintýragarðurinn í Mosfellsbæ – ert þú með góða hugmynd?

Ásgeir Sveinsson

Ásgeir Sveinsson

Í framhaldi af hugmyndasamkeppni sem var haldin um hönnun á Ævintýrgarðinum í Mosfellsbæ hefur verið unnið að uppbyggingu garðsins í samráði við sigurvegara samkeppninnar og hafa framkvæmdir staðið yfir frá árinu 2010. Nú er í gangi deiliskipulagsvinna fyrir svæðið og Mosfellsbær óskar eftir hugmyndum frá íbúum inn í þá skipulagsvinnu.

Hvað er búið að framkvæma?
Stígagerð hefur verið ríkjandi á þessum fyrstu stigum framkvæmdanna, þar sem lagður hefur verið malbikaður og upplýstur aðalstígur, sk. „Rósastígur“, í gegnum garðinn frá miðbæ Mosfellsbæjar að Leirvogstungu, með göngubrýr yfir Varmá og Köldukvísl í hvorum enda.
Lagður hefur verið sk. „Ætistígur“ þar sem gróðursettar hafa verið ýmsar tegundir ætiplantna við malarstíg sem liggur út frá Rósastígnum og settir upp áningarstaðir. Mikið hefur verið unnið að gróðursetningu í garðinum og þá sérstaklega í kringum Rósastíginn og Ætistíginn.
Unnið hefur verið við uppsetningu áningarsvæða þar sem m.a. eru notaðir náttúrulegir bekkir frá Ásgarði. Fræðsluskilti um garðinn hefur verið sett upp þar sem komið er inn í garðinn að sunnanverðu þar sem upplýsingar eru um helstu svæði í garðinum og þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er skv. vinningstillögu hugmyndasamkeppninnar.

Bryndís Brynjarsdóttir

Bryndís Brynjarsdóttir

Fjölbreytt leiktæki, frisbígolfvöllur og hundagerði
Í garðinum er fjöldi skátaleiktækja sem voru sett upp í suðurenda garðsins í samvinnu við Skátafélagið Mosverja. Um er að ræða ýmis klifur- og þrautaleiktæki fyrir alla aldurshópa, s.s. klifurbrú, hlaupakött, klifurturn og klifurslá.
Svæðið er mikið notað, m.a. af ýmsum skólum og námskeiðum. Ásgarður gaf Mosfellsbæ árið 2013 nokkur leiktæki úr tré sem sett hafa verið upp með skátaleik­tækjum, s.s. traktor og dýr. Sett hefur verið upp klifurnet og áningarstaður norðan við fyrirhugað miðsvæði.
Hannaður var 9 holu frisbígolfvöllur í garðinum sem nýtist bæði almenningi og keppendum í íþróttinni. Sett hefur verið upp afgirt hundagerði á hluta íþróttaflatar, þar sem heimilt er að sleppa hundum lausum undir eftirliti og þar settur upp bekkur, merkingar og ruslafata.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvað á 30 ára afmæli bæjarins árið 2017 að setja sérstakt fjármagn í uppsetningu á leiktæki og var keyptur stór klifurkastali sem hentar vel í náttúrulegu umhverfi eins og í Ævintýragarðinum. Auðvelt verður að tengja kastalann við fleiri leiktæki í framtíðinni við uppbyggingu garðsins.

Skipulagsvinna í gangi
Hafist hefur verið handa við deiliskipulag fyrir Ævintýragarðinn. Þessi vinna mun skapa heildstætt skipulag fyrir garðinn, skila sér í skýrari verkaskiptingu, forgangsröðun og betri yfirsýn yfir uppbyggingu garðsins. Þessi deiliskipulagsvinna er í höndum skipulagshönnuða og undir umsjón skipulagsfulltrúa Mosfellsbæjar.
Forgangur í áframhaldandi uppbyggingu svæðisins verður á miðsvæði garðsins. Þetta svæði hentar mjög vel fyrir leik- og útivistarsvæði, og verður lögð áhersla á að koma upp nýju og fjölbreyttu leiksvæði með náttúrulegu yfirbragði, á því svæði sem núverandi kastali og klifurnet eru staðsett.
Hugsunin er að leiksvæðið verði heildstætt safn útivistarleiktækja sem falla muni vel að hugmyndafræði og umhverfi garðsins. Í þeirri vinnu er m.a. gert ráð fyrir fleiri leiktækjum og grillskýli á svæðinu, sparkvelli, minigolfvelli, litlu leiksviði og fleiri skemmtilegri afþreyingu fyrir íbúa Mosfellsbæjar á öllum aldri.

Kynning Í túninu heima
Kynning á skipulagsvinnu fyrir Ævintýragarðinn verður fyrir framan íþróttamiðstöðina að Varmá á bæjarhátíðinni Í túninu heima laugardaginn 31. ágúst kl. 13.00-15.00. Þar munu hönnuðir frá verkfræðistofunni Landmótun auk fulltrúa frá Mosfellsbæ svara spurningum og taka við góðum hugmyndum frá íbúum Mosfellsbæjar varðandi áframhaldandi uppbyggingu á Ævintýragarðinum í Mosfellsbæ.

Ásgeir Sveinsson formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar
og Bryndís Brynjarsdóttir varaformaður skipulagsnefndar.