Bjóða upp á arabískan mat

Nýverið opnaði í Kjarnanum veitingastaðurinn Mr. Kebab. Það eru þeir Mustafa Al Hamoodi og Samer Houtir sem eiga og reka staðinn.
Þeir eru báðir ættaðir frá Palestínu en hafa búið á Íslandi um árabil. „Þegar við fórum í að leita að staðsetningu fyrir staðinn okkar þá var okkur bent á að það vantaði fjölbreytni í veitingahúsaflóruna í Mosfellsbæ. Við fengum fjöldan allan af áskorunum og sérstaklega frá Mosfellingum um að opna staðinn hér,“ segir Mustafa.

Fjölbreyttur arabískur matur
„Við bjóðum upp á arabískan mat en á matseðlinum hjá okkur eru hefðbundnir kebab réttir, vefjur, borgarar og fleira. Við notumst aðeins við fyrsta flokks hráefni og gerum allan mat og sósur frá grunni. Verðlagið hjá okkur er líka gott, við reynum að hafa það sem hagstæðast fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Samer en opnunartími staðarins er frá kl. 11 til kl. 22. Allar upplýsingar um Mr. Kebab má finna á heimasíðunni, Facebook og Instagram.

Vefjutilboð á þriðjudögum
„Nú þegar erum við með allar vefjur á matseðli á 1.000 kr. á þriðjudögum. Það hefur verið mjög vinsælt meðal Mosfellinga. Á næstunni bætast við hádegisverðartilboð og einnig ætlum við að vera með sérstök fjölskyldutilboð. Það er mánuður síðan við opnuðum, við höfum fengið mjög góðar viðtökur og það má eiginlega segja að þeir sem koma einu sinni koma aftur og aftur,“ segja þeir félagar að lokum og bjóða alla Mosfellinga sérstaklega velkomna.