Hér má finna mikinn fjársjóð

Birna Mjöll Sigurðardóttir þjóðfræðingur varðveitir skjöl stofnana, einstaklinga, félaga og fyrirtækja í Mosfellsbæ.

Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar var formlega opnað 24. október 2001.
Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn ber safninu að varðveita skjöl frá stofnunum bæjarins en einnig að varðveita einkaskjalasöfn frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum.
Skjalasafn sveitarfélagsins endurspeglar gerð stjórnsýslunnar gegnum tíðina, þróun og breytingar á embættum og stofnunum. Sú þekking sem finna má í skjölum er mikilvæg til að átta sig á tilurð og uppbyggingu sveitarfélagsins.

Birna Mjöll er fædd í Reykjavík 16. febrúar 1970. Foreldrar hennar eru þau Lillý Sigríður Guðmundsdóttir og Sigurður Sveinbjörn Bjarnason múrarameistari en hann lést árið 2015. Birna á tvö systkini, Aldísi f. 1962 d. 2017 og Bjarka f. 1965.

Mosfellssveit bar nafn með rentu
„Mín fyrstu ár bjó fjölskyldan í Bústaðahverfinu og ég hóf nám í 1. bekk í Fossvogsskóla. Það var mikil samheldni og vinskapur hjá krökkunum í hverfinu og við lékum okkur mikið úti við.
Árið 1976 var hafist handa við byggingu einbýlishússins okkar í Mosfellssveit og við fluttum inn í hálfklárað húsið ári síðar. Hundur bættist fljótlega við heimilið en fyrir áttum við kött og svo stuttu seinna var fyrsti hesturinn keyptur. Á þessum árum bar Mosfellssveitin nafn með rentu því um hundrað metrum frá húsinu okkar voru hestar á beit. Sveitin var á þessum tíma í hraðri uppbyggingu en íbúar voru um 2.500.
Það var mikið frelsi að alast hér upp og það var ýmislegt kannað, hvort sem það voru síli út á Varmárbökkum eða útreiðar um fjöll og firnindi.
Ég gekk í Varmárskóla og Gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar og yfir sumartímann starfaði ég sem flokkstjóri í unglingavinnunni, þar af tvö sumur sem hverfastjóri.“

Fórum ríðandi að Hafravatnsrétt
„Eitt það skemmtilegasta sem ég og Sigurbjörg vinkona mín gerðum var að fara ríðandi að Hafra­vatnsrétt. Þar var sprett af klárunum og þeim komið fyrir í hestheldum dilk. Við tókum með okkur nesti og þarna lékum við okkur allan daginn. Á þessum tíma voru engir farsímar en ég var svo gæfusöm að foreldrar mínir treystu mér fullkomlega svo maður gat farið um sveitina að vild.
Ég hringdi líka árlega í bændur í Mosfellsdal og spurði hvort ég mætti smala fyrir þá og það stóð ekki á því. Það voru því ófá haustin sem ég reið um Mosfellsheiðina í leit að rollum og það fannst mér sko ekki leiðinlegt,“ segir Birna Mjöll og hlær.

Aflinn settur í reyk
„Við fjölskyldan eigum einnig margar góðar minningar frá Hæðargarðsvatni rétt fyrir utan Kirkjubæjarklaustur. Fyrst gistum við í hjólhýsi en síðar var byggður sumarbústaður og þarna nutum við lífsins.
Mér er minnisstætt þegar við vorum að nóttu til við veiðar í vatninu, pabbi óð út í ána meðan við mamma stóðum á bakkanum. Pabbi kastaði og það brást ekki að þegar hann óð í land var búið að bíta á. Svona gekk þetta fram eftir nóttu og var aflinn orðinn töluverður sem síðar var settur í reyk.“

Hóf störf á hestabúgarði í Sviss
„Ég byrjaði í Menntaskólanum við Sund en sá skóli hentaði mér ekki en ég kláraði samt fyrsta árið. Ég hóf síðan störf á hestabúgarði í Sviss en eftir heimkomu byrjaði ég að vinna í spunadeildinni á Álafossi. Ég ákvað síðan að fara í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og útskrifaðist sem stúdent 1995.
Ég skráði mig í þjóðfræði í Háskóla Íslands og útskrifaðist 1999. Ég tók síðar sagnfræði og mannfræði og námskeið sem heitir eiginlegar rannsóknaraðferðir. Núna er ég langt komin með meistaranám í safnafræði svo það má segja að það sé aldrei lognmolla,“ segir Birna Mjöll og brosir.

Á mikið safn gamalla muna
Áhugamál Birnu eru margvísleg, hestamennska, sápugerð og hönnun en safnamál er hennar aðaláhugamál og skiptir ekki máli hvaða gerð safna er um að ræða því hún segist elska að skoða söfn og sýningar enda lita safnamál flesta fleti lífsins. Hún á sjálf mikið safn gamalla muna og svo á hún heilmikið af bókum.
Fyrsta starf hennar í safnageiranum var undirbúningur, forvinna og uppbygging á Stríðsárasafninu á Reyðarfirði. Hún vann ásamt öðrum þjóðfræðinemum að gagnasöfnun á höfuðborgarsvæðinu en sumarið 1997 vann hún á Reyðarfirði við söfnun heimilda og muna en safnið sjálft opnaði ekki fyrr en ári seinna.

Handritin er misgömul
„Fyrsta starf mitt eftir útskrift úr Háskólanum var hjá Þjóðminjasafni Íslands í ljósmynda- og munadeild. Þaðan fór ég til Örnefnastofnunar Íslands og sá þar um skráningu gamalla skjala en hóf svo störf hjá Húsafriðunarnefnd ríkisins, þar starfaði ég sem skrifstofustjóri og aðstoðarmaður forstöðumanns. Í starfinu fólst m.a. að koma upp myndasafni af öllum friðuðum húsum á landinu.
Árin 2002-2004 vann ég aukalega fyrir Húsafriðunarnefnd við að skrifa upp úr vísitasíum prófasta og biskupa, friðaðra kirkna á landinu, og koma því í tölvutækt form. Handritin eru misgömul og afmarkast af aldri viðkomandi kirkju.
Þá vann ég í nokkur ár við að aðstoða við uppsetningar og skipulagningar á sýningum í Norska húsinu í Stykkishólmi.“

Safninu ber að varðveita skjöl
Birna hóf störf hjá Mosfellsbæ árið 2005 og starfaði bæði í þjónustuverinu og í Héraðsskjalasafni Mosfellsbæjar en árið 2013 tók hún alfarið við skjalasafninu. „Héraðsskjalasafnið var formlega opnað 24. október 2001 svo í ár ætlum við að halda upp á að það séu komin 20 ár síðan með því að bjóða upp á sýningu.
Samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn ber safninu að varðveita skjöl frá stofnunum bæjarins en einnig að varðveita einkaskjalasöfn frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum svo hér má finna mikinn fjársjóð um sögu og menningu bæjarfélagsins,“ segir Birna um leið og hún sýnir mér nokkra fallega muni.
„Skjöl eru hvers konar gögn, skrifleg, teikningar, uppdrættir, ljósmyndir, filmur, hljóðupptökur, rafræn gögn eða önnur hliðstæð gögn. Ástæða fyrir varðveislu skjala er annars vegar hagnýtt gildi þ.e. notkun þeirra og sögulegt gildi þ.e varðveisla á sögu og menningu samfélagsins.
Ég vil hvetja alla Mosfellinga til að skoða hjá sér hvort það sé ekki eitthvað sem þeir gætu fært safninu til varðveislu, ég er viss um að það séu leyndir fjársjóðir víða. Hér er vel tekið á móti öllum,“ segir Birna Mjöll að lokum er við kveðjumst.