Þjónusta við Leirvogstunguhverfi og Helgafellshverfi aukin

stræto7

Stjórn Strætó bs. hefur fallist á ósk Mosfellbæjar að auka þjónustu við íbúa Mosfellsbæjar með áherslu á þjónustu við íbúa Leirvogstunguhverfis og Helgafellshverfis.
Niðurstaðan varð sú að frá og með 7. janúar 2018 mun leið 7 sinna Leirvogstunguhverfi og Helgafellshverfi samkvæmt áætlun á 30 mínútna fresti. Gert er ráð fyrir tveimur stoppistöðvum í Leirvogstunguhverfi og þremur stoppistöðvum í Helgafellshverfi, báðum megin á Álafossvegi og síðan öðru megin í Vefarastræti.
Gert er ráð fyrir að endastöð leiðar 7 verði í Leirvogstungu og að sett verði upp ný stoppistöð við Hlégarð.

Nýju hverfin þjónustuð betur
Fulltrúar Strætó bs. og umhverfissvið Mosfellsbæjar vinna nú að útfærslu á staðsetningu biðstöðva og öðrum hagnýtum verkefnum tengd þessari eflingu á almenningssamgöngum innan og við Mosfellsbæ.
„Það er ánægjulegt að tekist hefur að fá nýju hverfin okkar í Helgafelli og Leirvogs­tungu þjónustuð betur,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta hefur verið ósk íbúanna í töluverðan tíma og gott að þetta hefur nú náðst í gegn. Þróun og efling almenningssamgangna er eitt af stóru sameiginlegu verkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sú breyting sem verður á leiðarkerfinu nú um áramótin er liður í þeirri þróun.
Við vonum að þessi breyting verði til þess að enn fleiri Mosfellingar velji þann umhverfisvæna samgöngumáta sem almenningssamgöngur eru.“