Betri vinnutími á leikskólum

Dagný Kristinsdóttir

Upp úr áramótum 2020 fóru fyrstu kjarasamningar sem fólu í sér styttri vinnutíma að líta dagsins ljós. Í hönd hófst heljarinnar ferli stjórnenda allra stofnana við að finna út úr því hvernig ætti að leysa þetta nýja verkefni. Í fyrstu umferð var þetta mjög skrítið verkefni þar sem ekkert skapalón fylgdi en eitt var alveg ljóst – enginn kostnaður átti að felast í innleiðingunni. Á mörgum stöðum varð ferlið auðveldara eftir því sem samtalið átti sér stað oftar en mjög fljótt varð þó ljóst að meðal ákveðinna starfsstétta yrði þetta erfitt samtal vegna eðli starfanna og er leikskólastéttin ein þeirra.

En af hverju?

Starfsfólk leikskólanna ver 7-7.5 tímum á dag með sínum nemendum. Þegar viðveran er svo mikil er vinnuhagræðið sem felst í innleiðingarferlinu mjög snúið, því allur vinnutíminn er nú þegar undir. Ef það á að stytta vinnutíma starfsmanna á leikskólum segir það sig sjálft að einhver annar þarf að stíga inn og leysa starfsmanninn af. En þá er innleiðingin og verkefnið farið að kosta og það mátti ekki.

Þetta var verkefni leikskóla bæjarins fyrstu tvö árin af innleiðingunni en í vetur bættist við mönnunarvandi. Þá vantaði fólk bæði í daglega starfið og eins til að leysa af. Ef það vantar í hópinn að þá getur fólk ekki farið í burtu, það er bara svo einfalt.

Tillaga til fræðslunefndar

Miðvikudaginn 3. maí kom fyrir fræðslunefnd tillaga að útfærslu á betri vinnutíma á leikskólum bæjarins. Í henni fólst að teknir yrðu upp svokallaðir skráningardagar í leikskólum bæjarins eftir kl. 14 á föstudögum og í skólafríum, alls 15 dagar yfir skólaárið. Í fyrri umferð umræðunnar þennan dag komu ekki fram mörg sjónarmið önnur en frá fulltrúa meirihlutans, undirritaðri og fulltrúa foreldra sem báðar lýstu efasemdum um þetta fyrirkomulag. Ákveðið var að senda hugmyndina til umræðu inn í leikskólastarfið og eins til foreldraráða á leikskólum og þann 6. júní kom tillagan aftur inn til fræðslunefndar og þá með umsögnum foreldraráða og skólastjórnenda.  Öll foreldraráð sýndu tillögunni skilning en bentu á mikilvægi góðrar upplýsingagjafar og góðs undirbúnings. Sérstaklega má hrósa foreldraráði Krikaskóla sem sendi frá sér ítarlega ályktun, í henni voru margar hugmyndir og útfærslur að leiðum. Stjórnendur fögnuðu tillögunni og skil ég það vel, því þeir eru búnir að prófa og hugsa allar mögulegar leiðir. Á þessum seinni fundi fræðslunefndar voru heldur meiri efasemdir ef eitthvað er.

Ég hef sagt það á öllum stigum að ég hef skilning á því að þessi tillaga sé komin fram, verkefnið er flókið og erfitt í þeim aðstæðum sem ríkja á vinnustöðunum. En til að maður geti sýnt fullan stuðning þurfa að liggja fyrir ákveðin gögn og rökstuðningur sem hafa ekki verið til staðar. Ég er því ekki viss um að þessi pólitíska afstaða sem tekin var sé rétt og ætla að færa rök fyrir því.

Heimild eða skylda?

Þetta finnst mér einn stærsti punkturinn í öllu málinu og í raun hafa ekki fengist skýr svör frá meirihlutanum. Í fræðslunefnd og bæjarráði var ítrekað rætt um að þessi tillaga yrði heimild fyrir leikskólastjóra en í öllum upplýsingapóstum til foreldra og í frétt á facebook síðu bæjarins var þetta lagt upp sem verkefni sem verið væri að fara í. Það er munur á því að hafa heimild til einhvers eða að vera skyldaður til að gera eitthvað.

Því hafa nokkrar spurningar vaknað:

 • Hvort er rétt, má þetta ef þarf eða á að fara í verkefnið. Þetta skiptir máli, ekki einvörðungu fyrir foreldra heldur líka okkur sem sátu fundina – fengum við ekki réttar upplýsingar?
 • Ef leikskólastjórar hafa heimild til að setja inn skráningardaga, þá þarf að svara þeirri spurningu hvort ekki eigi að ríkja jafnræði í þjónustunni. Getur einn leikskóli haft opið á meðan annar skerðir þjónustu? Við vitum af einum leikskóla sem hefur náð að lenda þessu verkefni svo vel sé. Á sá leikskólastjóri að taka upp verkefnið og sátt innanhúss til að fara aðra leið?
 • Hvað á að gera með vistun mosfellskra barna sem fara í leikskólann í Grafarvogi? Eiga þau að fylgja skráningardögum barna sem fá vistun heima fyrir?
 • Eins hefur verið spurst fyrir um vistunargjaldið á skráningardögum.

Við þessum spurningum hafa ekki fengist skýr svör og er það miður.

Í öðru lagi fékk fræðslunefnd eina tillögu frá Fræðslu- og frístundasviði. Til að nefndin og kjörnir fulltrúar geti tekið upplýsta og góða ákvörðun hefði ég viljað sjá minnisblað með 3-4 tillögum, útfærðum og kostnaðargreindum. Þessi vinna hefði ekki bara verið fyrir okkur heldur fyrir alla sem að málinu koma, starfsfólk og ekki síst þjónustuþega, þ.e. foreldra. Það hefði einnig verið mjög sterkt að taka saman minnisblað um þær hugmyndir og aðferðir sem voru prófaðar og gengu ekki upp. Og þær hugmyndir sem komu fram en voru ekki unnar lengra.

Til dæmis hefði verið gagnlegt að sjá útfærslur eins og þessar:

 • Hvaða leiðir vill starfsfólkið fara í styttingu? Það skiptir máli hvernig styttingin er, því styttingarmöguleikar eru nokkrir og
 • Hvað kosta skráningardagar yfir árið?
 • Hvað kostar að greiða fyrir stöðugildi starfsmanna sem kæmu inn þegar starfsfólk færi í styttingu.
 • Hvað kostar að kaupa styttinguna af þeim sem það kjósa?
 • Hvað kostar að fara aðrar leiðir í styttingu Þá er verið að hugsa um t.d. að taka heila daga, föstudaga og/eða mánudaga, klemmudaga og hafa lokað v. styttingar en þessar lokanir gætu róterað á milli leikskóla þannig að alltaf sé aðgangur að plássi, ef fólk þarf. Þetta er í anda þeirra hugmynda sem foreldraráð Krikaskóla kom með og Kópavogursbær sömuleiðis. Við erum vön þessu vinnulagi úr sumarleikskólanum.
 • Hefði bærinn verið tilbúinn að stíga inn í og greiða ákveðinn hluta styttingar? Eins og Akureyrarbær er að gera.
 • Hvaða leiðir getur verið samræmdar, það er hvað getur sveitarfélagið lagt fram og á móti foreldrum. Auðveldlega mál líta til Kópavogsbæjar í þeim efnum.

Á fundi fræðslunefndar kom fram að þessi tillaga væri ekki fullmótuð og úthugsuð.

Ekki fengust svör við því hvað yrði gert ef foreldrar myndu láta börnin sín klára skóladaginn. Það fengust heldur ekki svör við því hvert plan B væri – svörin voru á þá leið að tillagan væri þá fallin og yrði að hugsa um annað.

Þegar maður er að leiða starf, hvort sem það er á okkar vettvangi, stjórnsýslu, sem íþróttaþjálfari eða úti í skólunum að þá verðum við að hugsa 2-3 leiki fram í tímann. Þessi tillaga hefði aldrei átt að fara út úr Kjarna fyrr en hún var að fullu skipulögð og allir þræðir tilbúnir. Ég er því hjartanlega sammála bókun Sjálfstæðismanna frá seinni fundi fræðslunefndar þar sem athugasemd var gerð við málsmeðferðina.

Kostnaðarliður verkefnisins var á reiki. Á fundi fræðslunefndar var sagt að þetta kostaði 10 milljónir, en á fundi bæjarráðs var talan 25 milljónir nefnd sem kostnaður á ársbasis. Ef að við erum tilbúin að setja fjármagn í verkefni sem á ekki að innifela kostnað, þurfum við að skoða allar aðrar færar leiðir, til samanburðar.

Bæjarstjórn er æðsta ákvörðunarvald sveitarfélagsins og þangað fara allar ákvarðanir til staðfestingar. Þessi tillaga sem hér er til umræðu er þar ekki undanskilin. Tillagan kemst því ekki til framkvæmda fyrr en bæjastjórn hefur samþykkt hana.  Að morgni þess dags sem bæjarstjórnarfundur fór fram birtist frétt á facebooksíðu Mosfellsbæjar um þá ákvörðun bæjarráðs að taka upp skráningardaga á leikskólum, að auki fengu foreldrar tölvupósta frá leikskólastjórum barna sinna um sama efni og þar kom hvergi fram að leikskólastjórar hefðu val um að fara þessa leið. Þetta gerist áður en tillagan er endanlega samþykkt í bæjarstjórn.

Akureyrarbær

Á fundi fræðslunefndar var ítrekað bent á að Akureyrarbær væri að fara sömu leið, án þess þó að það væri útskýrt nánar og því fór ég í smá rannsóknarvinnu. Þegar skóladagatöl leikskóla Akureyrarbæjar eru skoðuð kemur í ljós að á komandi skólaári eru 25 heilir skráningardagar fyrirhugaðir. Akureyrarbær tók jafnframt þá miðlægu ákvörðun að allir starfsmenn fengju fulla styttingu, en það var gert, að mér skilst, til að mæta mismunandi stéttarfélögum og einfalda vinnuna á leikskólum. Sveitarfélagið greiðir jafnframt hlut í 65 mínútna styttingu sem er í kjarasamningum, sem væri hægt að nýta til að fá inn afleysinga fólk, svo dæmi sé tekið.

Hvað viljum við?

Þegar okkar verkefni er skoðað með hliðsjón af leið Akureyrarbæjar vakna enn fleiri spurningar. Skráningardagar á komandi vetri verða 15. Það eru þrjár vikur sem foreldrar taka að sér til viðbótar við 4 vikna sumarfrí. Við þurfum að taka mönnunarvanda með í reikninginn. Mjög auðveldlega geta 2 vikur bæst við þar. Þá erum við að tala um 9 vikur yfir árið  sem foreldar þyrftu að bakka upp starfið á leikskólunum.

Einnig þarf að ræða það hvort eðlilegt og rétt sé að foreldrar standi einir að allri skerðingu á þjónustu við leikskólabörn. Hér eru dæmi um það sem foreldrar sögðu þegar þeir fréttu af þessu nýja verkefni:

 • eiga foreldrar að taka einir á móti styttingu vinnuvikunnar á leikskólum?
 • hvernig á ég að geta stundað fulla vinnu með börn á leikskóla ef þetta er niðurstaðan?
 • Það eiga ekki allir gott bakland.
 • Ég næ ekki að uppfylla mína vinnuskyldu.

Á þessi sjónarmið þarf að hlusta.

Við þurfum að hafa í huga að foreldrar leikskólabarna er yfirleitt ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu með tilheyrandi stressi og álagi. Að auki verður að taka það með í reikninginn að ekki eiga allir foreldrar sama rétt til styttri vinnutíma og getur stytting foreldra verið með allt öðrum hætti en sú tillaga sem hér er til umræðu. Og í þriðja lagi er bakland foreldra misjafnt.

Vandi leikskólanna

Einnig þarf að ræða þann vanda og þá erfiðu stöðu sem leikskólarnir okkar eru komnir í. Þar er einkum þrennt sem er mest aðkallandi –  styttri vinnutími, mönnunarvandi og lengra sumarfrí starfsmanna. Sumarfrí starfsmanna hefur alltaf verið lengra en sumarlokun, en með nýlegum kjarasamningum eiga flestir starfsmenn 30 daga orlofsrétt. Það er 10 daga umfram sumarlokun og það hefur flækt málin. Hinir tveir þræðirnir, styttri vinnutími og mönnunarvandi eru nýrri verkefni.   Þessir þrír þræðir haldast í hendur og ég tel ekki skynsamt að kippa í einn þráðinn, því þá þenjast hinir. Við erum ekki að leysa mönnunarvanda með þessari tillögu.

Stöldrum við

Nú verðum við að staldra við. Við erum með frábært fólk í vinnu, við viljum bjóða börnunum upp á faglegt og gott skólastarf og við viljum bjóða upp á eftirsóknarverða vinnustaði. En aðstæðurnar sem ríkja í þessum málaflokki í dag krefjast þess að við setjumst niður og endurhugsum starfið. Það gerum við með samtali fagfólksins, fulltrúa stjórnsýslunnar, kjörinna fulltrúa og foreldra.

 

Tillaga Vina Mosfellsbæjar

Á fundi bæjarstjórnar 21.júní sl. lagði undirrituð fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar leggur til að farið verið heildstætt yfir stöðu leikskóla í bænum. Verkefni leikskólastigins eru mörg og krefjandi og í lausninni felst að endurhugsa þarf starfið og skipulagið. Yfir þessi verkefni þarf að leggjast og koma með tillögur að heildrænni lausn og er lagt til að það sé gert með myndun starfshóps.

Vinna þarf að og þróa verkefnið betri vinnutíma. Skoða þarf mönnun leikskólanna og hvernig er hægt að mæta lögboðnu sumarfríi starfsmanna.  Sérstaklega þarf svo að skoða hvernig hægt er að gera leikskóla Mosfellsbæjar að aðlaðandi vinnustöðum.

Ég tel að breytingar sem þessar þurfi að ræða vel og ítarlega innan stjórnsýslunnar, meðal kjörinna fulltrúa, starfsfólks og ekki síst við foreldra því þetta er mikil breyting frá því sem fólk þekkir í starfi leikskóla.

Að mínu mati væri eðlilegt að sveitarfélagið komi til móts við þessi nýju verkefni, eins og mögulegt er.

Skemmst er frá því að segja að meirihlutinn felldi tillöguna með þeim orðum að þetta starf væri þegar hafið. Miðvikudaginn 28.júní samþykkti bæjarstjórn Kópavogs tillögu starfshóps sem hafði gert nákvæmlega það sama og ég lagði til að yrði gert. En helstu markmið þessa starfshópsins voru að skapa meiri stöðugleika og vellíðan í leikskólum, börnum, foreldrum og starfsfólki til hagsbóta. Mér þykir afgreiðsla meirihlutans í Mosfellsbæ miður, því þetta samtal er algerlega nauðsynlegt.

 

Að lokum

Við verðum að hafa það í huga að leikskólaforeldrar hafa allt síðastliðið ár verið í þeirri stöðu að sækja börnin sína vegna manneklu, þau hafa staðið af sér fjögurra vikna verkfall sem er fylgt eftir af fjögurra vikna sumarfríi og eiga svo að taka við skerðingu á þjónustu eftir kl 14 alla föstudag og í jóla og páskafríum á komandi vetri. Að auki má gera ráð fyrir manneklu og þá mun sú staða koma upp að loka þarf deildum og þá þarf að sækja börnin fyrr.

Starfsfólk leikskólanna á það skilið frá okkur að þeirra starfsumhverfi sé tekið til alvarlegrar endurskoðunar og að allt sé gert til að endurhugsa það. Við getum ekki boðið þeim upp á annan vetur sem einkennist af misvel mönnuðum starfsmannahópum og miklu álagi.

Þessir hópar eiga það skilið frá okkur sem störfum í umboði kjósenda að við vöndum okkur meira en gert er í þessu máli.

Þó vinnutímastyttingin sé leyst með þessum hætti eru enn aðrar áskoranir óræddar og allt helst þetta í hendur. Við verðum að endurhugsa og endurskapa leikskólastarf sem er faglegt, gott og eftirsóknarvert að vinna við.

Dagný Kristinsdóttir
Bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar