Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2022-2040

Valdimar Birgisson

Undanfarin ár hefur verið unnið að breytingu á aðalskipulagi Mosfellsbæjar sem gilda á til ársins 2040.
Skipu­lags­nefnd og bæj­ar­stjórn Mos­fells­bæj­ar samþykktu að kynna frumdrög og vinnslu­til­lögu að nýju aðalskipulagi í vor og er hægt að nálgast þau gögn á skipulagsgátt (www.skipulagsgatt.is/issues/214). Þar er einnig hægt er að koma að umsögnum og athugasemdum til 12. ágúst.
Hér er ekki um að ræða end­an­lega til­lögu og munu gef­ast frek­ari tæki­færi til kynn­ingar og at­huga­semda á síð­ari stig­um.

Aðalskipulag Mosfellsbæjar er eitt meginstjórntæki sveitarfélagsins og sýnir framtíðarsýn og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Aðalskipulagið er því leiðarvísir um alla uppbyggingu innan marka Mosfellsbæjar. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ber ábyrgð á gerð aðalskipulagsins en skipulagsnefnd vinnur það í umboði bæjarstjórnar í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð. Arkís arkitektar unnu að gerð þessara tillagna með starfsmönnum Mosfellsbæjar.

Núverandi aðalskipulag var samþykkt 2013 og gildir til 2030. Ástæðan fyrir því að ákveðið var að fara í þessa endurskoðun aðeins fimm árum eftir samþykkt núverandi skipulags er m.a. hraðari fjölgun íbúa en núverandi skipulag gerir ráð fyrir, þá liggur líka fyrir endurskoðað og breytt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og fleira mætti tína til t.d. samgöngusáttmálinn.

Á síðustu tuttugu árum hefur íbúafjöldi í Mosfellsbæ tvöfaldast og búast má við áframhaldandi fjölgun íbúa og gera má ráð fyrir að íbúar Mosfellsbæjar verði um 20 þúsund árið 2040.

Í þessum drögum er ekki gert ráð fyrir verulegum breytingum á þéttbýlismörkum Mosfellsbæjar fyrir utan það að bætt er við íbúðasvæði í Teigslandi. Einnig er gert ráð fyrir verslunar- og þjónustukjarna við gatnamót Þingvallavegar og Vesturlandsvegar. Talsvert er um óbyggð íbúðasvæði innan núverandi þéttbýlismarka og er gert ráð fyrir því að byggð vaxi innan þeirra.

Eins er haldið í þá stefnu að fjölga ekki frístundasvæðum í sveitarfélaginu en leyfa byggingu frístundahúsa á núverandi frístundasvæðum.

Þá er gert ráð fyrir meiri þéttleika byggðar við áhrifasvæði Borgarlínu í Blikastaða­landi og á miðbæjarsvæðinu. Í skipulagsgátt, sem finna má á vef Mosfellsbæjar, er rammahluti aðalskipulags Blikastaða eitt af þeim gögnum sem liggja frammi og ágætt að skoða til þess að glöggva sig á þeirri uppbyggingu sem gert er ráð fyrir að muni eiga sér stað þar. Þar verður þéttleikinn meiri en í öðrum hverfum Mosfellsbæjar.

Í drögunum er enn fremur lögð aukin áhersla á vistvænar samgöngur t.d. með Borgarlínu og uppbyggingu göngu- og hjólastíga í Mosfellsbæ. Þannig eru skapaðar aðstæður til þess að byggja upp þjónustu í göngufæri og styðja þannig við lýðheilsu og stuðla að loftslagsvænni byggð.

Friðlýstum svæðum hefur fjölgað og einnig eru hverfisverndarákvæði bætt og hverfisvernd sett á toppa fella við bæjarstæðið til þess að vernda ásýnd og yfirbragð þeirra. Þar verður þó heimilt að vinna að stígagerð og aðgengi fyrir almenning. Þá er gert ráð fyrir loftlagsskógi á Mosfellsheiði.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til þess að skoða þessi gögn og koma með athugasemdir eða umsagnir ef einhverjar eru og taka þannig þátt í að móta framtíðarskipulag sveitarfélagsins okkar.

Valdimar Birgisson
Formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar