Ef svarið er nei, reynir barnið bara aftur

Fjalar Freyr Einarsson

Fjalar Freyr Einarsson

Mörg þeirra vandamála sem uppaldendur standa frammi fyrir er hægt að koma í veg fyrir með nokkrum grundvallar atriðum uppeldis.
Fyrir börn merkir nei ekki nei heldur aðeins „reyndu betur“. Flestir uppalendur þekkja það þegar barnið fær neitun við því sem það biður um að það fer til annars fullorðins á svæðinu og reynir þar að fá vilyrði.
Uppalandinn verður svo ósáttur þegar hann uppgötvar að barnið er að gera það sem hann hafði nýverið neitað því um. Barnið er skammað en þegar það svarar því til að hinn uppalandinn hafi gefið leyfi eru vopnin úr höndum þess sem áður hafði neitað.
Þetta er auðvitað afleitt fyrir hinn fullorðna en hegðun barnsins er skiljanleg. Ástæðan fyrir því að börn gera þetta er sú að aðferðin virkar og því oftar sem hún virkar því oftar er hún notuð. Barnið fær jákvæða styrkingu í hvert sinn sem hún virkar.

Uppalendur tali saman
Þegar um er að ræða spurningar sem hafa nokkuð augljós svör svo sem hvort hægt sé að kaupa nýju PlayStation tölvuna eða nýja FIFA leikinn er ólíklegt að barnið fái mismunandi svör. Þegar um spurningar er að ræða þar sem svarið veltur að miklu leyti á geðþótta er líklegra að barnið geti fengið sitt hvort svarið, eftir því við hvern það talar.
Dæmi um slíka spurningu gæti verið hvort barnið megi fá kex þótt stutt sé í matartímann eða hvort það megi fara út eftir matinn o.s.frv.
Leiðin til að stöðva svona hegðun er einföld; uppalendur barnsins verða að tala saman. Ef uppalendur verða varir við að barnið noti þessa aðferð oftar en áður og oftar en ásættanlegt er verða þeir einfaldlega að vera á varðbergi í hvert sinn sem barnið spyr um eitthvað sem gæti verið álitamál.
Einföld leið fyrir uppalendurna er einfaldlega að spyrja barnið hvort það sé búið að spyrja hinn uppalandann. Flest börn svara slíkum spurningum sannleikanum samkvæmt, vitandi að ef það skrökvar fær það alls ekki það sem beðið var um ef það biður um það aftur síðar.

Beðið eftir svari
Oft þarf barnið heldur ekki að fá svarið hér og nú. Það getur verið gott fyrir barnið að þurfa að bíða. Þannig lærir það þolinmæði. Svarið sem þú getur gefið barninu gæti verið: „Ég ætla að hugsa málið og læt þig vita eftir matinn“ eða „Ég ætla að tala við pabba þinn/mömmu þína og svara þér svo.“
Ef barnið höndlar ekki að þurfa að bíða og kvartar yfir því eða tekur jafnvel reiðikast er svarið einfalt: „Ef þér finnst ekki þess virði að bíða eftir svarinu getur þetta ekki verið þér mikilvægt. Svarið mitt er því nei, þú getur ekki fengið það sem þú baðst um.“

Samheldni og samskipti foreldra
Þegar tekið er á svona kringumstæðum af festu og barnið sér að það kemst ekki upp með að fara á bak við foreldra sína á þennan hátt mun það gefast upp á að reyna og hættir því. Það er ekki þar með sagt að björninn sé unninn. Það þýðir í raun einfaldlega að barnið reynir nýja aðferð til að fá vilja sínum framgengt.
Þá reynir enn og aftur á samheldni og samskipti foreldranna. Séu þeir nógu duglegir að tala saman og miðla upplýsingum um líf barnsins sjá þeir fljótlega hvað barnið er að reyna. Þá þurfa foreldrarnir að ákveða hvernig best er að taka á því … af festu og mildi.
________________________
Fjalar Freyr Einarsson,
aga- og uppeldisráðgjafi
www.agastjornun.is