Unglingar og veip

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Kolbrún Guðný Þorsteinsdóttir

Undanfarna áratugi hefur náðst mikill árangur hvað varðar reykingar og áfengisdrykkju ungmenna. Rúmlega 90% unglinga hafa aldrei reykt eða neytt vímuefna en því miður steðja stöðugt nýjar ógnir að unga fólkinu okkar.
Notkun á rafsígarettum eða veipi mælist meiri hér í bæ miðað við notkun á landsvísu en sambærilega þróun má sjá um allt land
Fyrir rúmum áratug gerðu Mosfellsbær og Rannsóknir og greining með sér samning um að gera reglulega kannanir á högum og líðan barna á miðstigi og áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga í 8., 9. og 10. bekk. Niðurstöður undanfarinna ára sýna að ungmennin okkar standa sig vel upp til hópa og eru heilbrigð og skynsöm.

Foreldrar vaknið
Niðurstöður úr könnun sem var lögð fyrir alla nemendur í 8., 9. og 10. bekk í febrúar 2019 sýna að nú þarf að bregðast við óheillaþróun. Ungmennum fjölgar sem hafa prófað marijúana og unglingar allt niður í 8. bekk veipa daglega. Einnig fjölgar þeim sem reykja sígarettur daglega og í 10. bekk erum við fyrir ofan landsmeðaltal hvað það varðar.
Þetta er vond þróun og maður spyr sig hvað veldur. Rafrettur er nýtt fyrirbæri á markaði og með minnkandi sölu á tóbaki í heiminum sjá framleiðendur sér nýjan leik á borði. Rafrettur komust í tísku og þykja spennandi. Þær voru markaðssettar sem góð aðstoð við þá sem vilja hætta að reykja og geta í mörgum tilfellum virkað vel sem slík.
tafla_kollaEn börn niður í 8. bekk eru ekki að reyna að hætta að reykja. Þau eru galopin fyrir þessari vöru sem lítur út eins og fallegur tyggjópakki í sjoppum. Við vitum að eitt leiðir af öðru og má setja alls konar olíur í hylki rafsígarettunnar án þess að foreldrar átti sig, þ.m.t. olíur ólöglegra og ávanabindandi vímuefna.
Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og verða að vera vakandi fyrir þessari þróun. Það er vont að spyrja erfiðrar spurninga en það er leiðin til að fylgjast með og sýna sanna umhyggju.

Auðvelt aðgengi
Rafrettur hafa verið aðgengilegar í sjoppum í Mosfellsbæ og þeim verið stillt upp með áberandi hætti en það er nú bannað samkvæmt lögum. Löggjafinn hefur nú loks brugðist við með reglum varðandi sölu á rafrettum. Ekki er lengur í boði að hafa aðgengið óheft og fyrir allra augum.
Í 11. grein laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur stendur að hvers konar auglýsingar séu bannaðar og að rafrettur séu ekki sýnilegar viðskiptavinum. Sérverslanir hafa þó leyfi til að hafa vöruna sýnilega.

Von er að bót verði á og allir verslunar­eigendur fari eftir lögum og reglum. En það að taka vöruna úr augsýn þýðir ekki að vandinn hverfi. Með samstilltu átaki getum við snúið þessari þróun við og haldið áfram að eiga heilbrigð og skynsöm ungmenni.
Líkt og áður gildir gamla máltækið að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Foreldrar, afar og ömmur, bærinn, félagsmiðstöðvar, skólarnir, íþrótta- og tómstundafélögin og aðrir sem koma að daglegu lífi barna og unglinga í Mosfellsbæ verða að halda áfram að standa vörð um þann góða árangur sem hefur náðst hingað til. Nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir og þeim verðum við að taka.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir,
bæjarfulltrúi og formaður fræðslunefndar.