Bábiljur og bögur í baðstofunni
Kristín Lárusdóttir, sellókennari við Listaskóla Mosfellsbæjar, stendur fyrir skemmtilegum viðburði í safnaðarheimili Lágafellssóknar sunnudaginn 7. október kl. 17.
„Viðburðinn kalla ég Bábiljur og bögur í baðstofunni og er tilgangurinn að eiga notalega samverustund,“ segir Kristín.
Kristín hefur í gegnum tíðina otað rímnakveðskap að nemendum sínum. Rímur eru mjög merkilegt fyrirbæri og dýrmætur arfur sem við Íslendingar eigum. „Krökkunum finnst þetta hin besta skemmtun og eftir því sem vísurnar verða flóknari og fjölbreyttari í orðaforða, því skemmtilegra finnst þeim. Enda læra þau heilan helling af þessu, verða tunguliprari, fá dýpri skilning á tungumálið sitt og rætur.“
Kveðskapur, ljóð og tónlist
Á viðburðinum þann 7. október verður fjölbreytt dagskrá. Bára Grímsdóttir mun mæta og kveða úr vel völdum rímum. Agnes Wild verður með æsispennandi sögustund. Atli Freyr Hjaltason, ungur Mosfellingur, mun syngja og spila á langspil. Krakkar úr Listaskólanum í Mosfellsbæ munu kveða úr rímum og fara með annan kveðskap, t.d. um Kóngulóna sem á gula skó! Hver vill missa af því?
Hlynur Sævarsson, ungur Mosfellingur, mun lesa ljóð. Guðrún Laufey Guðmundsdóttir mun flytja örfyrirlestur um kvöldvökurnar á Íslandi. Boðið verður upp á molakaffi og kleinur, frítt inn og allir Mosfellingar hvattir til þess að mæta.