Aukin tíðni sorphirðu
Skrifað hefur verið undir viðauka við verksamning um sorphirðu við Íslenska gámafélagið.
Nýtt úrgangsflokkunarkerfi hefur nú verið til reynslu síðastliðna fjóra mánuði og hefur árangurinn verið framar vonum sem skilar sér í hreinni úrgangsstraumum til Sorpu og skilvirkari endurvinnslu.
Ákveðið var á fundi bæjarstjórnar 27. september að samþykkja viðauka við verksamning um sorphirðu með aukinni tíðni sorphirðu frá og með 1. október. Jafnframt var samið um að fámenn sérbýli gætu sótt um tvískipta tunnu fyrir pappír/pappa og plastumbúðir.
Pappír/pappi og plastumbúðir verða nú hirt á 21 daga fresti auk þess sem matarleifar og blandaður úrgangur verður hirtur á 14 daga fresti.
Íbúar geta einnig beðið um útprentun á sorphirðudagatali á bæjarskrifstofum og á Bókasafni Mosfellsbæjar.
Markmiðið með aukinni flokkun er að minnka það magn sem urðað er í Álfsnesi. Þátttaka íbúa skiptir öllu máli til þess að ná árangri við aukna endurvinnslu og minnkun urðunar.
„Við viljum þakka íbúum fyrir jákvæð viðbrögð við flokkun á heimilissorpi bæði í tunnurnar fjórar fyrir pappír/pappa, plastumbúðir, matarleifar og blandaðan úrgang, en einnig fyrir flokkun á málmi, gleri og textíl sem skilað er á grenndarstöðvar.“