Handverkstæðið Ásgarður hélt 30 ára afmælisveislu

Laugardaginn 30. september bauð Ásgarður til mikillar afmælisveislu í Hlégarði í tilefni 30 ára afmælis handverk­stæðisins. Ásgarður var stofnaður árið 1993 og hefur starfrækt verkstæði í Álafosskvos í Mosfellsbæ síðan 2003.
Ásgarður er sjálfseignarstofnun þar sem 33 þroskahamlaðir einstaklingar starfa ásamt leiðbeinendum.
Frá upphafi hafa starfsmenn lagt áherslu á að hanna og þróa einföld, sterk og skemmtileg leikföng unnin úr náttúrulegum efnivið sem eiga sér samsvörun í íslenskum þjóðháttum.
Á myndinni má sjá Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra, Heimi Þór Tryggvason forstöðumann Ásgarðs, starfsmennina Óskar Albertsson og Steindór Jónsson, Guðmund Inga félagsmálaráðherra og Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands.