Ábyrgð og atburðir

Ég veit ekki hvort það er bara ég, en þegar eitthvað gerist sem hefur áhrif á alla heimsbyggðina, þá leitar stundum á mig sú hugsun hvort það skipti einhverju máli í stóra samhenginu að ég passi upp á mitt persónulega heilbrigði. Hryllingurinn og stríðsástandið í Ísrael hafði þessi áhrif á mig. Fréttirnar og atburðarrásin drógu úr mér mátt og hvatningu til þess að borða hollt og hreyfa mig. En eftir að hafa sofið á þessu og leyft þessum hugsunum að veltast um í undirmeðvitundinni þá sá ég ljósið. Það er einmitt á svona stundum sem það skiptir máli að hver og einn taki ábyrgð á sinni eigin heilsu og geri allt til þess að vera sjálfbjarga og í aðstöðu til þess að leggja öðrum lið ef á þarf að halda.

Við getum öll, sama hvar við erum stödd í heilsuhreystisstiganum, gert eitthvað til þess að bæta heilsu okkar. Allt telur, hreyfing, næring, samskipti við aðra, jákvæðar hugsanir. Allt sem hefur jákvæð áhrif á okkur og umverfi okkar er heilsubætandi. Neikvæðar hugsanir eins og „við á móti þeim“ eru það ekki. Hreyfingarleysi og að fylgjast með fréttum allan sólarhringinn er ekki heilsubætandi. Á svona stundum þurfum við að passa upp á það góða í okkur, það uppbyggilega, okkur sjálf og hvort annað.

Að halda fast í góðar rútínur skiptir máli. Nágranni minn og spræki hundurinn hans hlaupa til dæmis fram hjá eldhúsglugganum mínum alla morgna, veður hefur engin áhrif á þá félaga, þeir taka alltaf rúntinn sinn saman. Hnarreystir og ferskir. Góð morgunrútína fyrir þá báða. Og hún hefur hvetjandi áhrif á mig og aðra sem sjá þá á ferðinni. Við erum öll meðvitað eða ómeðvitað fyrirmyndir og höfum sem einstaklingar áhrif á aðra í okkar nánasta umhverfi. Jákvæð orka einstaklinga hefur smitandi góð áhrif út í samfélagið. Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. október 2023