Arnór Gauti heim í Aftureldingu
Sóknarmaðurinn Arnór Gauti Ragnarsson hefur gengið til liðs við uppeldisfélag sitt Aftureldingu á nýjan leik frá Hönefoss í Noregi.
Arnór Gauti skrifaði undir tveggja ára samning við Aftureldingu í vikunni og mun leika með liðinu í Lengjudeildinni í sumar. Hinn 26 ára gamli Mosfellingur skoraði 10 mörk í 14 leikjum í Lengjudeildinni þegar hann var á láni hjá Aftureldingu frá Fylki sumarið 2021 en hann var þá að stíga upp úr erfiðum meiðslum. Það sumarið var hann markahæstur hjá Aftureldingu og var valinn besti leikmaður tímabilsins hjá liðinu. Þá var Arnór Gauti einnig fyrirliði Aftureldingar síðari hluta þess tímabils.
Eftir að hafa skorað 10 mörk með Hönefoss í Noregi síðastliðið sumar er hann nú mættur aftur á heimaslóðir í Mosfellsbænum. „Afturelding hljómaði mest spennandi fyrir mig á þessum tímapunkti. Það er alltaf jafn gaman að koma aftur í uppeldisfélagið. Í ár ætlum við að ná árangri,” sagði Arnór Gauti eftir undirskriftina en hann er að bætast í hóp öflugra leikmanna sem hafa gengið til liðs við Aftureldingu fyrir komandi tímabil. Fram undan er keppni í Lengjubikarnum hjá Aftureldingu áður en Mjólkurbikarinn hefst í apríl og Lengjudeildin sjálf í byrjun maí.