Ánægðir íbúar í Mosfellsbæ

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

91% íbúa ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.

Mosfellsbær er í öðru sæti samkvæmt árlegri könnun Gallup á þjónustu sveitarfélaga en könnunin mælir viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins.
Þegar íbúar í Mosfellsbæ eru spurðir hversu ánægðir eða óánægðir þeir séu með Mosfellsbæ sem stað til að búa á eru 91% aðspurðra ánægðir eða mjög ánægðir. Athyglisvert er að varla sést neinn munur á afstöðu til þessarar spurningar eftir bakgrunnsbreytum eins og aldri, kyni, menntun eða tekjum.

Í fremstu röð meðal sveitarfélaga
Alls eru 84% íbúa í Mosfellsbæ ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar. Spurðir um þjónustu Mosfellsbæjar í heild eru 84% mjög eða frekar ánægðir sem er óbreytt hlutfall milli ára. Þegar spurt er um gæði umhverfisins í nágrenni við heimili reynast 83% ánægðir og 78% eru ánægð með þjónustu í tengslum við sorphirðu bæjarins og er Mosfellsbær þar í efsta sæti meðal sveitarfélaga. Ánægja með þjónustu í leikskólum bæjarins mælist um 75%.
Mosfellsbær er samkvæmt könnuninni vel yfir landsmeðaltali í öllum málaflokkum og raunar í fremstu röð meðal sveitarfélaga sem mældir eru nema einum. Sá málaflokkur er þjónusta grunnskóla bæjarins sem dalar lítillega milli ára. Þessar niðurstöður er því mikilvægt að rýna og nýta þannig til þess að gera enn betur á nýju ári, segir í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Mikill uppbygging
Mikil uppbygging á sér nú stað í Mosfellsbæ þar sem nýtt hverfi í Helgafellslandi rís nú á miklum hraða og stefnt er að opnun Helgafellsskóla í byrjun árs 2019. Íbúum fjölgaði á síðasta ári um 8% sem verður að teljast verulegur vöxtur og verkefni bæjarins er að sjá til þess að þessi vöxtur hafi jákvæð áhrif á íbúana og þjónustu við þá.

Stoltur af niðurstöðunni
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist ánægður með útkomuna og að könnunin veiti upplýsingar sem unnt sé að nýta til að gera gott enn betra.
„Það er gott að fá það enn og aftur staðfest að Mosfellingar eru ánægðir með bæinn sinn. Við höfum ávallt verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á, og ég er stoltur af því. Fólk vill setjast að í bænum okkar eins og sést á hinni miklu íbúafjölgun sem nú á sér stað. En það má alltaf gera betur og við þurfum að huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni.“

Heildarúrtak í könnuninni er 11.700 manns, þar af 438 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á www.mos.is.