Undirbúningur hafinn fyrir þorrablót UMFA

alefliþorra

Þorrablót Aftureldingar verður haldið í íþróttahúsinu að Varmá 20. janúar. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 12. janúar á Hvíta Riddaranum.
Líkt og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Mikil stemning hefur myndast í aðdraganda blótsins og uppselt hefur verið undanfarin ár.
Þorrablótið á sér langa sögu í menningu bæjarins, fyrsta blótið sem haldið var í þessari mynd var árið 2008 og er því 10 ára afmælisblót í ár. Þetta er stærsta fjáröflunarsamkoma Aftureldingar sem haldin er en það eru handknattleiksdeildin og knattspyrnudeildin sem halda blótið ár hvert.

Þorramatur og lambalæri úr Kjötbúðinni
Að vanda sér Geiri í Kjötbúðinni um matinn og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því auk hins hefðbundna þorramatar verður á boðstólnum lambalæri og með því.
Hin þjóðkunni Gísli Einarsson er veislustjóri og Salka Sól, Magni og Eyþór Ingi munu halda uppi stuðinu á dansgólfinu fram eftir nóttu ásamt hljómsveit Mosfellingsins Tomma Tomm.
Borðaskreytingar munu fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi. Mikill metnaður hefur verið í borðaskreytingum hjá blótsgestum og er það orðinn stór partur af þorrablóts­undirbúningnum. Veitt eru verðlaun fyrir skreytingarnar, þar sem óháð dómnefnd dæmir borðin og gefur stig.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.