Fagna afmæli Sölku Völku og 120 ára afmæli Laxness
Það er margt fram undan á Gljúfrasteini en hefðbundin dagskrá er að fara aftur í gang eftir takmarkanir vegna faraldursins.
„Nú er allt að verða bjartara og sólin farin að skína. Þann 23. apríl verða 120 ár liðin frá fæðingu nóbelskáldsins og á þeim degi ætlum við að opna litla sýningu hér á Gljúfrasteini um Sölku Völku. Hún verður níræð á þessu ári, en Salka Valka er ein af fyrstu stóru bókum Halldórs Laxness,“ segir Guðný Dóra Gestsdóttir safnstjóri.
Salka Valka 90 ára
Salka Valka kom út í tvennu lagi 1931 og 1932. „Við ætlum að vekja athygli á Sölku með sýningunni og svo fleiri viðburðum út þetta ár. Bókin var líka að koma út í nýrri enskri þýðingu, sem eru ákveðin tímamót því sagan hefur mikið verið stúderuð af bókmenntafræðingum og almenningi um allan heim. Sagan hefur bæði verið kvikmynduð og sett á svið í hinum ýmsu leikhúsum.
Það eru margir sem eiga Sölku Völku sem sína uppáhalds bók og er það mál manna að það sé í raun ótrúlegt hvað Halldór gat sett sig vel inn í hugarheim ungra kvenna á þessum árum.“
Ganga á afmælisdegi skáldsins þann 23. apríl
Á afmælisdegi Halldórs Laxness þann 23. apríl verður almenningi boðið upp á gönguferð frá Mosfellskirkju að Gljúfrasteini undir leiðsögn Bjarka Bjarnasonar.
„Þessi ganga er í samstarfi við stofnun Árna Magnússonar sem heldur utan um kennslu á íslensku fyrir útlendinga í Evrópu. Í fyrra höfðu nokkrir íslenskukennarar við erlenda háskóla frumkvæðið að bókmennta- og heilsuátakinu Laxness119, en þá voru nemendur hvattir til að stunda hreyfingu. Átakið stóð yfir frá 8. febrúar, sem var dánardagur Halldórs til afmælisdags hans þann 23. apríl.
Ákveðið var að endurtaka þetta í ár og fólk út um alla Evrópu hefur tekið þátt og deilt sinni þátttöku á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #laxness120.
Átakinu líkur með göngunni frá Mosfellskirkju og verðum við með útsendingu héðan til þeirra sem hafa verið að taka þátt úti í heimi,“ segir Guðný Dóra en tekur fram að gangan er öllum opin og hvetur hún Mosfellinga sem og aðra til að mæta og njóta.